Mál 37 2018

Mál 37/2018

Ár 2019, 12. apríl 2019, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2018:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 19. nóvember 2018 erindi kæranda, A lögmanns, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna. C lögmaður gætir hagsmuna kæranda í málinu fyrir nefndinni.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 19. nóvember 2018 og barst hún þann 27. sama mánaðar 2018. Var kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann 29. nóvember 2018. Hinn 19. desember 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða þann 21. sama mánaðar. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Með úrskurði Héraðsdóms Y uppkveðnum x. september 2016 var bú D ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Mun kærði hafa verið skipaður skiptastjóri búsins þann sama dag (hér eftir „þb. D ehf.“).

Fyrir liggur að kærandi hefur gætt hagsmuna nokkurra aðila í tengslum við gjaldþrotaskipti þb. D ehf., þar á meðal fyrir dómstólum vegna riftunar- og fjárkrafna viðkomandi þrotabús sem kærði annast skiptastjórn í. Liggja jafnframt fyrir í málsgögnum kærur sem kærði, sem skiptastjóri þb. D ehf., mun hafa beint til embættis héraðssaksóknara dagana x. janúar, 31. mars, 10. apríl og 15. júní 2017 vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi nánar tilgreindra aðila, þar á meðal umbjóðenda kæranda.

Í málsgögnum er einnig að finna kvörtun sem kærandi sendi fyrir hönd umbjóðenda sinna til Héraðsdóms Y, dags. x. janúar 2017, vegna nánar tilgreindra starfshátta kærða sem skiptastjóra, sbr. 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt málsgögnum mun tilgreint kvörtunarmál hafa verið fyrst tekið fyrir í Héraðsdómi Y þann x. mars 2017 og fékk það málsnúmerið Ö-x/2017. Við fyrirtöku málsins þann x. sama mánaðar tjáðu lögmenn sig um málið og komu á framfæri athugasemdum sínum við dóminn. Þá var eftirfarandi bókað í þingbók málsins í kjölfar þess:

Dómari færir til bókar að þótt telja megi vinnubrögð skiptastjóra hafa verið aðfinnsluverð hvað varðar aðdraganda að framsendingu erindis til héraðssaksóknara telur dómari þó engin efni til að víkja honum úr starfi á grundvelli 2. mgr. 76. gr. laga nr. 21/1991 eða beita öðrum úrræðum í málinu þar sem líta verði svo á að hann hafi þegar bætt úr og uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991. Dómari tekur fram að líta verði svo á að skylda skiptastjóra í tilvikum sem ákvæðið tekur til sé skýlaus að undangengu því mati sem ákvæðið felur í sér. Þá tekur dómurinn fram að í því máli sem hér er til umfjöllunar hafi skiptastjóri þegar veitt aðilum tækifæri til að koma að athugasemdum. Með vísan til framangreinds telur dómari málinu þannig lokið. Ekki eru athugasemdir við það af hálfu lögmanna.

Máli þessu er þar með lokið.“

Ágreiningslaust er að kærði, sem skiptastjóri þb. D ehf., beindi bréflegri tilkynningu samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 til embættis héraðssaksóknara þann x. september 2018. Í tilkynningunni, sem er meðal málsgagna fyrir nefndinni, var meðal annars tiltekið að vakin væri athygli embættisins á því að kærði hefði, í störfum sínum sem skiptastjóri viðkomandi þrotabús, fengið vitneskju um atvik sem gæfu tilefni til rökstudds gruns um að eigandi og fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags og systurfélaga þess sem og tilgreindir einstaklingar sem fyrir þá störfuðu, þar á meðal kærandi, kynnu að hafa gerst sekir um refsivert athæfi á árunum 2017 og 2018. Þá var þar jafnframt tiltekið, með vísan til úrlausnar Héraðsdóms Y í málinu nr. Ö-x/2017, að kærði teldi sér ekki heimilt sem skiptastjóra að beina ekki tilkynningu samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 til héraðssaksóknara.

Frétt um tilgreinda tilkynningu kærða, sem skiptastjóra þb. D ehf., frá x. september 2018 var birt á forsíðu E þann x. sama mánaðar, en afrit hennar liggur fyrir í málsgögnum. Var meðal annars tiltekið í fréttinni að endurskoðandi F ehf. og lögmaður þess í málum er vörðuðu þb. D ehf., þ.e. kærandi í máli þessu án þess að nafn hans hefði verið sérstaklega tilgreint, hefðu verið á meðal tilkynntra aðila til embættis héraðssaksóknara.

Með bréfi kæranda til héraðssaksóknara, dags. x. nóvember 2018, veitti aðilinn andsvör við tilkynningu þeirri sem kærði hafði ritað og sent til embættisins sem skiptastjóri þb. D ehf. þann x. september sama ár.

Í málsgögnum fyrir nefndinni liggur jafnframt fyrir dómur Héraðsdóms Y, x. október 2018 í máli nr. E-xxxx/2017, þb. D ehf. gegn F ehf. Ekki þykir efni til að rekja efni tilgreinds dóms umfram það sem greinir í málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta ströngustu viðurlagaúrræðum sem fyrir hendi séu samkvæmt 43. gr. siðareglna lögmanna. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærða, sbr. 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að hún sé sett fram með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglna lögmanna vegna framgöngu kærða í hlutverki skiptastjóra þb. D ehf. Er á því byggt að kærði hafi í störfum sínum brotið gegn 25., 27. og 31. gr. siðareglnanna.

Í málatilbúnaði kæranda er vísað til þess að kærði hafi lagt fram tilkynningu til héraðssaksóknara á grundvelli 84. gr. laga nr. 21/1991 þann 6. september 2018 sem skiptastjóri tilgreinds þrotabús. Í tilkynningunni hafi komið fram það mat kærða, sem skiptastjóra, að tilefni væri til rökstudds gruns um að fjórir einstaklingar, þar á meðal kærandi, kynnu að hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi. Bendir kærandi á að sú háttsemi hans sem kærði hafi talið gefa tilefni til rökstudds gruns um refsiverða háttsemi, sbr. XVII og XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hafi verið eftirfarandi:

D. [...] og A hafi í samráði og með skipulögðum hætti, með eftirfarandi gerningum, búið svo um hnútana að F ehf. er fullkomlega eignalaust og ógjaldfært félag þannig að hvorki þrotabúið né aðrir kröfuhafar F geta leitað fullnustu í aðfararhæfum andlögum...

E. [...] og A hafi með ólögmætum hætti rangfært sönnunargögn með því að leggja fram efnislega röng sönnunargögn og/eða haldið efnislega réttum sönnunargögnum og upplýsingum frá dómi, í þeim tilgangi að hafa áhrif á niðurstöðu í staðfestingarmáli þrotabús D ehf. vegna kyrrsetningar þeirrar sem lögð var á eignir F ehf. þann x. júlí 2017, í því skyni að tryggja afléttingu kyrrsetningarinnar, með því annars vegar að leggja fram yfirlit yfir fasteign F ehf. og verðmat á þeim, sem sýna á að eignir félagsins umfram skuldir dugi til þess að fullnusta kröfur kyrrsetningarbeiðandans D og hins vegar með því að leyna því grundvallaratriði við meðferð dómsmálsins, að hinar sömu eignir eru komnar úr eigu F ehf.

Kærandi kveðst ekki fjalla um þær ósönnuðu og tilefnislausu ásakanir sem fram hafi komið í ofangreindri tilkynningu kærða í máli þessu, enda eigi efnislegar varnir við slíkum ásökunum undir héraðssaksóknara. Vísað er þó til þess að kærandi hafi svarað tilgreindum ásökunum með bréfi til viðkomandi embættis, dags. x. nóvember 2018.

Kærandi byggir á að framkoma kærða sé aðfinnsluverð auk þess sem hún sé gegn góðum lögmannsháttum og alls ekki sæmandi opinberum sýslunarmanni.

Um það efni vísar kærandi til þess að tilkynning kærða hafi verið send héraðssaksóknara án þess að kæranda eða stjórn Lögmannafélags Íslands hafi verið gert aðvart. Samkvæmt því hafi hvorki kæranda né Lögmannafélagi Íslands verið gefinn kostur á að tjá sig um málefnið, þvert gegn skýru ákvæði 31. gr. siðareglna lögmanna. Þannig hafi kærandi fyrst frétt af málinu með því að lesa forsíðu E að morgni x. september 2018 þar sem málið hafi verið til umfjöllunar, auk þess sem málið hafi verið fyrirferðamikið á vefmiðlum þann dag og næstu daga á eftir.

Varðandi efni 31. gr. siðareglnanna bendir kærandi á að þrátt fyrir að bréf kærða hafi verið sent undir yfirskriftinni „tilkynning“ beri efni skjalsins með sér að um kæru sé að ræða, enda skipti heiti bréfsins ekki máli í því tilliti. Ekki séu gerðar sérstakar formkröfur í lögum til kæru vegna ætlaðrar refsiverðar háttsemi til lögreglu eða ákærenda. Breyti þar engu þótt kæran sé send á grundvelli 84. gr. laga nr. 21/1991 eður ei.

Kærandi byggir á að með háttsemi þessari og þeirri tilefnislausu tilkynningu sem hér um ræðir hafi kærði jafnframt gerst sekur um brot á góðum lögmannsháttum, sbr. 25. gr. siðareglna lögmanna. Þá verði að telja að kærði hafi einnig gerst brotlegur við 27. gr. siðareglnanna þar sem ekkert tilefni hafi verið fyrir þeirri tilraun sem um ræðir að valda kæranda verulegum álitsspjöllum með þeirri tilhæfu- og fyrirvaralausu tilkynningu til embættis héraðssaksóknara sem málið varðar.

Kærandi vísar jafnframt til bókunar héraðsdómara, dags. x. mars 2017, í máli nr. Ö-x/2017 sem rekið hafi verið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Komi þar fram að dómarinn hafi talið að vinnubrögð kærða sem skiptastjóra hafi verið aðfinnsluverð hvað varðaði aðdraganda að framsendingu annars erindis kærða til héraðssaksóknara. Verði ekki annað ráðið af bókuninni en að héraðsdómari hafi talið kærða hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 með því að hafa hvorki veitt skjólstæðingum kærða né kærða fyrir þeirra hönd tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum áður en kæra var lögð fram á hendur viðkomandi skjólstæðingum til héraðssaksóknara af hálfu kærða. Kunni slík háttsemi einnig að varða við 34. gr. siðareglna lögmanna um tillitsemi við gagnaðila.

Í viðbótarathugasemdum kæranda var því lýst að ljóst væri að 84. gr. laga nr. 21/1991 leggi kæruskyldu á skiptastjóra í þrotabúi og að tilkynning á grundvelli lagaákvæðisins teldist vera kæra, bæði í skilningi laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 31. gr. siðareglna lögmanna. Vísar aðilinn því til stuðnings meðal annars til nánar tilgreindra fræðirita. Þá megi finna í ýmsum dómum Hæstaréttar og héraðsdóma tilvísanir til kæru þegar skiptastjóri hafi beint tilkynningu til yfirvalda samkvæmt viðkomandi lagaákvæði, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 4. nóvember 2011 í máli nr. 560/2011 og 22. nóvember 2012 í máli nr. 93/2012.

Kærandi bendir á að ekki séu gerðar sérstakar formkröfur í lögum til kæru vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi til lögreglu eða ákæruvalds, heldur gildi efni umfram form í slíkum tilvikum. Beri efni tilkynningar kærða til héraðssasóknara, dags. x. september 2018, skýrlega með sér að um kæru sé að ræða. Því til samanburðar og staðfestingar megi einnig skoða aðrar kærur sem kærði hafi gefið út í störfum sínum sem skiptastjóri þb. D ehf. Myndi það ganga í berhögg við tilgang ákvæðis 31. gr. siðareglna lögmanna ef unnt væri að komast hjá þeirri skyldu sem þar sé kveðið á um með því einu að breyta heiti skjals. Þá bendir kærandi á að kærði hafi ekki borið því við að brýn nauðsyn hafi verið að hunsa viðkomandi ákvæði siðareglnanna, enda engin slík nauðsyn til staðar.

Kærandi byggir á að skýra verði ákvæði 31. gr. siðareglna lögmanna samkvæmt orðanna hljóðan. Hafi kærði með háttsemi sinni, að kæra stéttarbróður sinn fyrir héraðssaksóknara án þess að gera honum eða stjórn Lögmannafélags Íslands aðvart, gerst brotlegur við tilgreint ákvæði.

Kærandi vísar til þess að hann hafi ekki haldið því fram á neinum stigum þessa máls að skiptastjóra sé ekki skylt að fylgja fyrirmælum 84. gr. laga nr. 21/1991. Þvert á móti hafi kærandi ítrekað að skiptastjóra sé þetta skylt og sé það óumdeilt. Kærandi telur hins vegar tilkynningu kærða ranga og að hann hafi ekki gerst sekur um neina refsiverða háttsemi. Þá gangi skylda 31. gr. siðareglna lögmanna ekki í berhögg við skyldu skiptastjóra samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991. Lögmenn hafi gengist undir ýmsar skyldur umfram sett lög með því að samþykkja að um störf þeirra skuli viðhalda ákveðnum siðum og venjum. Sé ekki unnt að telja sig yfir þær reglur hafinn þegar lögmaður gegnir störfum skiptastjóra.

Með vísan til framangreinds kveðst kærandi hafna sjónarmiðum kærða um að skylda skiptastjóra samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 geri lögmanni kleift að virða siðareglur lögmanna að vettugi.

Að endingu var vísað til þess í viðbótarathugasemdum kæranda að úrskurðarnefnd lögmanna væri einungis bundin af siðareglunum sjálfum við úrlausn kærumála, sem gæfi henni ótvíræða heimild til að leggja huglægt mat á kæruefnið.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða með þeim hætti að hann krefjist þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að skilja megi kvörtun í málinu svo að helsta umkvörtunarefni kæranda lúti að því að kærði hafi sem skiptastjóri lagt fram bréf til héraðssaksóknara á grundvelli 84. gr. laga nr. 21/1991, þar sem vakin hafi verið athygli embættisins á því að kærði hefði sem skiptastjóri fengið vitneskju um atvik sem gæfu tilefni til rökstudds gruns um að eigandi og fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags, D ehf., og systurfélaga þess, sem og nafngreindir einstaklingar sem fyrir þá hafi starfað, kynnu að hafa á árunum 2017 og 2018 gerst sekir um refsivert athæfi og að það hafi verið gert án þess að kæranda eða stjórn Lögmannafélags Íslands hafi verið gert viðvart, sbr. 31. gr. siðareglna lögmanna.

Kærði vísar annars vegar til þess að hann geti á engan hátt fallist að bréf hans til héraðssaksóknara sé „kæra“ í skilningi 31. gr. siðareglnanna. Hins vegar bendir kærði á að samkvæmt skilningi kæranda sjálfs, eins og hann hafi birst í kvörtun aðilans til Héraðsdóms Y þann x. janúar 2017 og í úrlausn Héraðsdóms Y í máli nr. Ö-x/2017 sem gengið hafi í kjölfar viðkomandi kvörtunar, sé skiptastjóra skylt að beina tilkynningu samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 til lögreglu, þ.e. telji skiptastjóri sig hafa fengið vitneskju um atvik sem hann telji geta gefið tilefni til rökstudds gruns um að þrotamaður eða aðrir hafi gerst sekir um refsivert athæfi.

Um hið fyrrgreinda efni byggir kærði á að það sé augljóst að kæra í skilningi laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og tilkynning samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki það sama. Bendir kærði í fyrsta lagi um það efni á að ákvæði 84. gr. laga nr. 21/1991 tali skýrlega um tilkynningu. Hefði löggjafinn byggt á að þetta væri sami hluturinn hefði einfaldlega verið talað um kæru en ekki tilkynningu í viðkomandi lagaákvæði. Í öðru lagi vísar kærði í þessu samhengi til þess að orðalag ákvæðisins sé með þeim hætti að það leggi skyldu á skiptastjóra að leggja fram tilkynningu til héraðssaksóknara, sem einnig sé skilningur kæranda sjálfs. Þá hafi skiptastjóri einnig þann kost, komist hann á snoðir um að þrotamaður eða aðilar honum tengdir hafi brotið af sér gagnvart þrotabúinu, að leggja fram kæru til lögreglu. Það sé hins vegar ekki skylda. Í þriðja lagi vísar kærði til þess að skiptastjóri sé ekki brotaþoli í skilningi 147. gr. laga nr. 88/2008 og hafi því ekki lagalegan rétt til þess að kæra til ríkissaksóknara ákvörðun héraðssaksóknara um að aðhafast ekkert í tilefni tilkynningar skiptastjóra samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/191. Sé þrotabúið hins vegar kærandi máls, hafi skiptastjóri heimild til þess að kæra niðurfellingu rannsóknar á því sakamáli sem hann kærði.

Varðandi hið síðargreinda efni vísar kærði til þess að í erindi kæranda til Héraðsdóms Y, dags. x. janúar 2017, hafi verið kvartað yfir starfsháttum hans sem skiptastjóra þegar hann gerði umbjóðendum kæranda grein fyrir að kæmi til þess að þeir myndu vinda ofan af meintum refsiverðum undanskotum og endurgreiða þrotabúinu það sem þeir hefðu komið undan, myndi hann falla frá kæru til héraðssaksóknara. Bendir kærði á að eftirfarandi hafi komið fram í tilgreindu bréfi kæranda í þágu viðkomandi umbjóðenda:

Slíkt er ekkert annað en hótun og jafnframt brot á starfsskyldum skiptastjóra, enda ber honum lagaskylda til að tilkynna um grun um refsiverð brot samkvæmt 84. gr. [laga] nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ef hann verður þess áskynja í starfi sínu.

Kærði vísar til þess að í bókun dómara í héraðsdómsmálinu nr. Ö-x/2017 hafi verið tekið undir sjónarmið kæranda að því leyti að skilja beri 84. gr. laga nr. 21/1991 sem svo að skylda skiptastjóra í tilvikum sem ákvæðið taki til sé skýlaus að undangegnu því mati sem ákvæðið feli í sér. Nú bregði svo við að kærandi telji þessa lagaskyldu ekki lengur vera fyrir hendi, þannig að kærða hafi sem skiptastjóra borið að gera kæranda og stjórn Lögmannafélags Íslands viðvart áður en fylgt hafi verið tilkynningarskyldu 84. gr. laga nr. 21/1991. Standist slíkt ekki skoðun.

Kveðst kærði hvorki skilja upp né niður í málatilbúnaði kæranda að þessu leyti, þ.e. að kærandi telji einn daginn að tilkynningarskylda skiptastjóra sé skýlaus en hinn daginn ekki. Samkvæmt málatilbúnaði kæranda hafi skiptastjóri ekki svigrúm til að meta út frá hagsmunum kröfuhafa hvort hann sendi inn tilkynningu samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 nema í þeim tilvikum þegar lögmenn eigi í hlut.

Að endingu vísar kærði til þess að sé eitthvað sem koma eigi til skoðunar hjá nefndinni séu það tilraunir kæranda til þess að koma í veg fyrir að réttar upplýsingar um eignastöðu kyrrsetningarþola í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/2017 yrðu lagðar fram í málinu, þannig að dómur í málinu myndi hugsanlega byggja á upplýsingum sem kærandi að minnsta kosti vissi að væru rangar. Megi ljóst vera að dómara málsins hafi verið misboðið.

Niðurstaða

I.

Mál þetta lýtur að ætluðu broti kærða gagnvart kæranda á nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna vegna háttsemi hans í störfum sem skiptastjóra þb. D ehf.

Í 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála úrskurðarnefnd lögmanna er kveðið á um að ef í máli er réttarágreiningur, sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar, vísi hún málinu frá.

Eins og rakið er í úrskurði nefndinnar 6. október 2017 í máli nr. 5/2017 hefur nefndin í fjölmörgum úrskurðum hafnað því að fjalla um störf skiptastjóra á þeirri forsendu að löggjafinn hafi fellt ágreining um störf þeirra í ákveðinn farveg, sbr. einkum 76. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Að mati nefndinnar eru hins vegar ekki skilyrði til að vísa málinu frá nefndinni á þeim grundvelli að réttarágreiningur heyri ekki undir valdsvið hennar enda lúta umkvartanir kæranda fyrst og fremst að því að kærði hafi brotið gegn 25., 27. og 31. gr. siðareglna lögmanna með háttsemi sinni í störfum sem skiptastjóri þb. D ehf. Verður þá til þess að líta að sú háttsemi kærða, sem kvörtun kæranda lýtur að, er í það nánum tengslum við lögmannsstörf kærða að telja verður hann bundinn af ýmsum ákvæðum siðareglna lögmanna, þar á meðal IV. kafla þeirra þar sem kveðið er á um samskipti lögmanna innbyrðis.

Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að umkvörtunarefni kæranda á hendur hendur kærða falli undir valdsvið nefndarinnar. Við efnislega úrlausn málsins verður hins vegar í engu tekin afstaða til þess hvort kærði hafi með einhverjum hætti brotið gegn starfsskyldum sínum sem skiptastjóra, eins og þær eru lagðar á hann með ákvæðum laga nr. 21/1991.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. siðareglna lögmanna skulu lögmenn hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þá skulu lögmenn sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings, sbr. 2. mgr. 25. gr. siðareglnanna. Þá má lögmaður einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars lögmanns á málefnalegum grundvelli, og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til, sbr. 27. gr. siðareglnanna.

Þá er í 1. mgr. 31. gr. siðareglna lögmanna kveðið á um að í innbyrðis deilum beri lögmanni, sem hyggst kæra annan lögmann fyrir yfirvöldum eða dómstólum, að gera honum og stjórn LMFÍ aðvart áður og gefa þeim kost á að tjá sig um málefnið. Heimilt er þó að víkja frá þessari reglu ef brýna nauðsyn ber til vegna eðlis málsins, sbr. 2. mgr. 31. gr. siðareglnanna.

Kvörtun kæranda í máli þessu lýtur að því að kærði hafi í störfum sínum brotið gegn 25., 27. og 31. gr. siðareglnanna með því að hafa sent tilkynningu samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 til embættis héraðssaksóknara þann x. september 2018 þar sem því var meðal annars lýst að kærði hefði, í störfum sínum sem skiptastjóri þb. D ehf., fengið vitneskju um atvik sem gæfu tilefni til rökstudds gruns um að nánar tilgreindir aðilar, þar á meðal kærandi, kynnu að hafa gerst sekir um refsivert athæfi á árunum 2017 og 2018. Hafi tilkynning kærða verið send héraðssaksóknara án þess að kæranda eða stjórn Lögmannafélags Íslands hafi verið gert aðvart áður eða þeim veittur kostur á að koma sjónarmiðum á framfæri.

Um tilgreint kvörtunarefni er þess að gæta að kærði beindi þeirri tilkynningu sem hér um ræðir til héraðssaksóknara á grundvelli 84. gr. laga nr. 21/1991 sem skiptastjóri þb. D ehf. Í tilgreindu lagaákvæði greinir að ef skiptastjóri fær vitneskju í starfi sínu um atvik sem hann telur geta gefið tilefni til rökstudds gruns um að þrotamaðurinn eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi skuli hann tilkynna það héraðssaksóknara. Skiptastjóra er þó óskylt að leita eftir slíkri vitneskju umfram það sem leiðir af upplýsingaöflun hans starfa sinna vegna.

Af málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni verður ráðið að ágreiningslaust sé að ákvæði 84. gr. laga nr. 21/1991 feli í sér skyldu skiptastjóra til að tilkynna rökstuddan grun um refsivert athæfi til viðkomandi embættis í þeim tilvikum sem ákvæðið tekur til. Fær slíkt einnig stoð í bókun héraðsdómara, dags. x. mars 2017, í máli Héraðsdóms Y nr. Ö-x/2017 sem báðir aðilar hafa vísað til í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni.

Samkvæmt því og af efni tilkynningar kærða frá x. september 2018 að öðru leyti verður að leggja til grundvallar að kærði hafi með henni verið að sinna þeirri lagaskyldu sem á honum hvíldi sem skiptastjóra samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991. Við mat á ætluðum brotum kærða gegn ákvæðum siðareglna lögmanna í máli þessu verður jafnframt að hafa í huga að það fellur utan valdsviðs nefndarinnar að leggja efnislegt mat á grundvöll þeirrar tilkynningar gagnvart kæranda, þar á meðal að teknu tilliti til efnis 84. gr. laga nr. 21/1991, enda fellur slíkt undir valdsvið héraðssaksóknara eins og réttilega er vísað til í málatilbúnaði kæranda.

Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið er það mat nefndarinnar að ritun og sending hinnar umþrættu tilkynningar hafi verið liður í starfsskyldum kærða sem skiptastjóra þb. D ehf. Hin ætlaða refsiverða háttsemi sem tilkynningin tók til laut þannig að atvikum þess þrotabús sem kærði hafði verið skipaður til að annast skiptastjórn í en ekki að ætluðum brotum hinna tilkynntu aðila gagnvart kærða sjálfum. Að áliti nefndarinnar verða þær skyldur sem hvíla á lögmönnum samkvæmt 1. mgr. 31. gr. siðareglna lögmanna ekki heimfærðar til innbyrðis deilna sem skjólstæðingur lögmanns eða þrotabú sem lögmaður hefur verið skipaður skiptastjóri í kann að eiga í við annan lögmann. Í því samhengi verður ekki fram hjá því litið að lögmenn hafa skýlausa kröfu til þess að vera ekki samkenndir þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem þeir gæta fyrir skjólstæðinga sína, sbr. 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.

Með vísan til framangreinds er ekki unnt að leggja til grundvallar í málinu að mati nefndarinnar að málsaðilar eigi eða hafi átt í innbyrðis deilum sem lögmenn í skilningi 1. mgr. 31. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt því verður ekki talið að kærða hafi borið að gera kæranda eða stjórn Lögmannafélags Íslands aðvart, og með því veita þeim kost á að tjá sig um málefnið, áður en kærði beindi tilkynningu þeirri sem hér um ræðir til embættis héraðssaksóknara þann x. september 2018. Hefur kærði því ekki gagnvart kæranda gerst brotlegur gegn 31. gr. siðareglnanna í störfum sínum.

Með hliðsjón af atvikum öllum verður jafnframt ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á í máli þessu að kærði hafi gert á hlut hans með háttsemi sem stríði gegn 25. eða 27. gr. siðareglna lögmanna. Er kröfum kæranda, um að kærða verði gert að sæta viðeiganda agaviðurlögum, því hafnað.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður.

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson