Mál 41 2018

Mál 41/2018

Ár 2019, 12. apríl 2019, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2018:

A lögmaður,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. nóvember 2018 erindi B lögmanns, þar sem kvartað er yfir því að kærði, A lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 30. nóvember 2018 og barst hún þann 7. desember 2018. Var kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann 10. sama mánaðar. Hinn 28. desember 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða þann sama dag. Svar kærða barst 14. janúar 2019 og var það sent til kæranda þann 15. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum mun kærandi vera stjórnarformaður C en hann er jafnframt starfandi lögmaður. Í málsgögnum liggja fyrir samþykktir fyrir tilgreint félag en þar er meðal annars kveðið á um í c. lið 5. gr. að félagið skuli afla fjár með gjaldi sem nemi allt að 1% af endursöluverði íbúða sem kaupandi greiði. Þá er í 12. gr. samþyktanna kveðið á um endursölu íbúða og forkaupsrétt. Fyrir liggur jafnframt eignaskiptayfirlýsing, dags. x. febrúar 1990, vegna fasteignarinnar að D sem var þinglýst á viðkomandi fasteign þann x. mars sama ár. Kemur fram í eignaskiptayfirlýsingunni að kvaðir séu á fasteigninni og að hún verði hvorki seld né afhent til afnota öðrum en þeim sem orðnir séu x ára að aldri og séu félagar í C.

Kærði höfðaði mál fyrir hönd dánarbús F á hendur C með birtingu stefnu þann x. apríl 2018. Stefnan var birt fyrir E lögmanni sem félagið hafði falið að sækja þing við þingfestingu málsins. Ágreiningslaust er að tilgreindur lögmaður hefur starfsstöð í sama húsnæði og kærandi í máli þessu. Í stefnu var þess í fyrsta lagi krafist að viðurkennt yrði með dómi að nánar tilgreint efni í 12. gr. samþykkta hins stefnda félags væri ekki skuldbindandi fyrir stefnanda við sölu viðkomandi fasteignar að D og að stefnanda væri heimilt að selja fasteignina á markaðsverði. Í öðru lagi gerði stefnandi kröfu um að viðurkennt yrði með dómi að hinu stefnda félagi væri óheimilt að innheimta 1% gjald af endursöluverði íbúðarinnar og að ákvæði c. liðar 5. gr. samþykkta þess væri óskuldbindandi fyrir stefnanda. Þá var þess krafist af hálfu stefnanda að nánar tilgreind kvöð í eignaskiptayfirlýsingu, dags. x. febrúar 1990, yrði dæmd ógild.

Framangreint mál var þingfest í Héraðsdómi Y þann x. apríl 2018 sem málið nr. E-xxxx/2018. Hið stefnda félag hélt uppi vörnum í málinu og lagði fram greinargerð í héraði þar að lútandi á dómþingi þann x. júní 2018 þar sem aðallega var krafist frávísunar málsins en til vara að hið stefnda félag yrði sýknað af kröfum stefnanda.

Ekki er ágreiningur um að kærði hafi rekið þrjú önnur mál af sama toga fyrir hönd sinna umbjóðenda gegn C. Er þar um að ræða málin nr. E-xxxx/2017, E-xxxx/2017 og E-xxxx/2017 sem rekin munu hafa verið fyrir Héraðsdómi Y. Í málsgögnum er að finna dóm héraðsdóms x. nóvember 2018 í máli nr. E-xxxx/2017 en fyrir liggur að dómkröfur í því máli voru sambærilegar þeim sem áður greinir vegna málsins nr. E-xxxx/2018. Með fyrrgreindum dómi héraðsdóms var fallist á fyrstu tvær viðurkenningarkröfur stefnanda í viðkomandi máli en C, sem stefndi, var sýknað af hinni þriðju dómkröfu sem laut að ógildingu á efni eignaskiptayfirlýsingar.

Þann 20. nóvember 2018 sendi kærandi, sem formaður C, tölvubréf til G með yfirskriftinni „Íb. D á 11 hæð. Auglýsing H á netinu.“, en nefndur G mun vera lögerfingi við skipti á dánarbúi F sem er umbjóðandi kærða, líkt og áður greinir. Var tiltekið í tölvubréfinu að auglýsing á viðkomandi íbúð með nánar tilgreindu söluverði væri harðlega mótmælt sem ólöglegri aðgerð. Einnig var á það minnt að kynna þyrfti væntanlegum kaupanda samþykktir viðkomandi samtaka og þá sérstaklega 12. gr. þeirra um endursölu eigna þar sem kveðið væri á um að kaupanda væri skylt sem félagsmanni að undirgangast þá skilmála að söluverð íbúðar mætti aldrei vera hærra en upphaflegt kostnaðarverð hennar, að teknu tilliti til vísitölu byggingarkostnaðar og með hliðsjón af viðskeytingu, lagfæringu og ástandi hennar samkvæmt mati, hversu oft sem eigendaskipti yrðu. Þá var á það minnt í tölvubréfinu að 1% gjald af endursöluverði íbúðar væri innheimt af kaupanda en ekki seljanda. Seljandi ætti því enga lögvarða hagsmuni um þá kröfu samtakanna og gæti ekki blandað sér með nokkrum hætti í það mál. Hefðu nýlegir héraðsdómar ekkert fordæmisgildi að því leyti.

Samkvæmt málsgögnum mun kærði hafa fengið fyrrgreint tölvubréf kæranda framsent frá sínum umbjóðanda. Þennan sama dag svaraði kærði tölvubréfi kæranda, en umbjóðendur hans fengu sent afrit af því. Var tiltekið í tölvubréfinu að kærði gætti hagsmuna viðkomandi aðila, líkt og kæranda væri kunnugt um, enda væri rekið dómsmál gegn þeim samtökum sem kærandi væri í fyrirsvari fyrir af hálfu þess dánarbús sem málið lyti að. Kvaðst kærði hafa áður bent kæranda á að hafa samand beint við sig en ekki umbjóðendur aðilans vegna málsins. Hitt væri alvarlegra mál að kærandi skyldi ætla að halda áfram að krefjast 1% gjalds af endursöluvirði viðkomandi eigna eftir að héraðsdómur hefði kveðið skýrt á um það í þremur dómsmálum þann x. nóvember 2018, að slík gjaldtaka væri með öllu óheimil. Færi kærandi vísvitandi með rangt mál varðandi fordæmi umræddra dóma í tölvubréfi sínu. Þannig hefði dómkrafan verði tekin til greina í þegar dæmdum málum, þar á meðal um að félaginu væri óheimilt að innheimta 1% gjald við endursölu fasteignarinnar. Þá sagði eftirfarandi í tölvubréfi kærða til kæranda:

Með vísan til þessa er ljóst að þú ferð vísvitandi með rangt mál í neðangreindum tölvupósti þínum til umbj. míns G. Það gerir þú í því skyni að reyna að afla C hagsmuna sem samtökin sannanlega eiga ekki rétt á. Að mínu mati er hér um refsiverða tilraun til fjársvika að ræða, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga. Munir þú halda áfram að reyna að innheimta hið ólögmæta gjald, hvort sem það er beint úr vasa umbj. minna, eða kaupenda að eignum þeirra, þá sé ég mér ekki annað fært en að tilkynna lögreglu um slíkar tilraunir. Hið sama á við um tilvik annarra umbj. minna sem og annarra sem til mín kunna að leita í framtíðinni. Þér er einfaldlega óheimilt að reyna að vekja eða styrkja ranga hugmynd um slíka greiðsluskyldu hvort sem það er hjá kaupendum eða seljendum og varða slíkar tilraunir að mati undirritaðs eins og áður segir við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að sendingu og efni tölvubréfs þessa sem kærði sendi til kæranda þann 20. nóvember 2018.

Í málsgögnum liggja jafnframt fyrir tölvubréfasamskipti, umsókn um inngöngu nánar tilgreinds aðila í C og kaupsamningur um fasteign dánarbús F, dags. x. desember 2018. Þá hefur verið lagður fram dómur Hæstaréttar x. nóvember 2017 í máli nr. x/2017. Nánari grein verður gerð fyrir efni tilgreindra gagna, að því marki sem þörf er á vegna úrlausnar sakarefnisins, við umfjöllun um málsástæður og málatilbúnað aðila fyrir nefndinni.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærði verði áminntur fyrir brot á siðareglum lögmanna vegna háttsemi sinnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Nánar tiltekið er vísað til þess í málatilbúnaði kæranda að þess sé krafist með vísan til 43. gr. siðareglna lögmanna að kærði verði áminntur af nefndinni fyrir þau ummæli sem hann lét frá sér fara í tölvubréfi þann 20. nóvember 2018 og framkomu kærða gagnvart kæranda, sem fyrirsvarsmanni C, sbr. 26. gr. siðareglnanna.

Varðandi þau ummæli sem kvörtunin tekur til þá vísar kærandi til eftirfarandi sem fram hafi komið í tölvubréfi kærða, dags. 20. nóvember 2018:

Að mínu mati er hér um refsiverða tilraun til fjársvika að ræða, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga. Munir þú halda áfram að reyna að innheimta hið ólögmæta gjald, hvort sem það er beint úr vasa umbj. minna, eða kaupenda að eignum þeirra, þá sé ég mér ekki annað fært en að tilkynna lögreglu um slíkar tilraunir. Hið sama á við um tilvik annarra umbj. minna sem og annarra sem til mín kunna að leita í framtíðinni. Þér er einfaldlega óheimilt að reyna að vekja eða styrkja ranga hugmynd um slíka greiðsluskyldu hvort sem það er hjá kaupendum eða seljendum og varða slíkar tilraunir að mati undirritaðs eins og áður segir við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga.“ [Feitletrun kæranda.]

Þá bendir kærandi á að kærði hafi snúið sér beint til aðila um málefni sem annar lögmaður hafi farið með án hans samþykkis, sbr. 26. gr. siðareglna lögmanna. Ekki hafi verið nokkur brýn nauðsyn á að hafa beint samband við aðila máls.

Kærandi byggir á að kærði hafi með tölvubréfi sínu vegið með óvægnum hætti að persónu og æru kæranda. Gefið sé þannig til kynna í tölvubréfinu að kærandi sé sjálfur að reyna að afla C ólögmætan ávinning með fjársvikum, sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 20. gr. sömu laga. Í næstu setningu í sama tölvubréfi segi kærði að hann muni tilkynna lögreglu um slíkar tilraunir, sem lúti væntanlega að fjársvikastarfsemi, ef reynt verði að innheimta 1% af endursöluverði þeirra eigna, sem séu á vegum viðkomandi samtaka. Síðan sé haft í hótunum við kæranda með því að segja að ef hann reyni að vekja eða styrkja ranga hugmynd um slíka greiðsluskyldu, hvort sem er hjá kaupendum eða seljendum, þá varði þær tilraunir að mati kærða við fyrrgreind ákvæði laga nr. 19/1940.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi með háttsemi sinni brotið 30. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið sé á um að lögmaður megi ekki hóta lögmanni gagnaðila kæru eða lögsókn í því skyni að fá hann til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert. Þá kveðst kærandi jafnframt byggja á að 27. gr. siðareglnanna hafi verið brotin, þar sem ekki verði talið að gagnrýni kærða hafi verið borin fram á málefnalegum grundvelli. Þá séu ummæli kærða til þess fallin að valda kæranda álitsspjöllum umfram það sem viðkomandi málefni gefi ástæðu til.

Þá byggir kærandi á að það sé aðfinnsluvert og ástæða til sérstakrar áminningar að kærði hafi persónugert kæranda við C. Ekki verði annað séð en að kærði hafi hótað kæranda persónulega vegna innheimtu 1% gjalds af endursöluverði eigna sem hafi verið byggðar á vegum samtakanna. Bendir kærandi á að gjaldið hafi í áratugi verið innheimt af kaupendum, sem hafi áður ritað undir umsóknarbeiðni og gerst félagsmenn í samtökunum af frjálsum og fúsum vilja. Fyrir liggi nýlegur dómur Hæstaréttar í máli nr. x2017, sem styðji heimildir félagsins í þessum efnum. Í öllu falli séu ummælin og framsetning þeirra óviðurkvæmileg og meiðandi fyrir persónu kæranda.

Auk alls framangreinds byggir kærandi á að kærði hafi átt að snúa sér til lögmanns C, E lögmanns, með gagnrýni sína og ummæli, þar sem ummælin hafi verið byggð á niðurstöðu í héraðsdómsmálum frá x. nóvember 2018. Þannig hafi kærði brotið gegn 26. gr. siðareglna lögmanna. Hafi kærði þannig ekki mátt snúa sér beint til aðila með málefni, sem annar lögmaður hafi farið með án hans samþykkis. Ljóst sé að kærði tilkynnti ekki viðkomandi lögmanni um hið umþrætta tölvubréf, hvorki þá né síðar. Þá bendir kærandi á að til standi að áfrýja dómum héraðsdóms, uppkveðnum x. nóvember 2018, til Landsréttar.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar vísar aðilinn til þess að ekki verði fram hjá því litið að kærði hafi með ummælum sínum ráðist persónulega að kæranda og jafnframt að honum sem lögmanni. Þannig hafi tölvubréfið verið ritað og sent beint til kæranda þar sem viðhafðar hafi verið hótanir gagnvart honum sem persónu og lögmanni. Eigi ákvæði 30. gr. siðareglna lögmanna því við. Þá sé ekki vafi um að annar lögmaður hafi gætt hagsmuna viðkomandi samtaka í fyrirliggjandi dómsmálum og að kærði hafi því brotið gegn 26. gr. siðareglnanna með því að snúa sér beint til aðila um málefni sem annar lögmaður hefði farið með.

Þá byggir kærandi á að kærði reyni í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að breiða yfir brot sitt á 27. gr. siðareglnanna. Þar sem ljóst sé að kærandi sé aðili að Lögmannafélagi Íslands, þá sé verið að hóta honum kæru til lögreglu vegna tilrauna til fjársvika. Sem lögmaður muni kærandi ekki sitja undir slíkum dylgjum um refsiverða háttsemi af hálfu annars lögmanns.

Kærandi bendir á að ekki sé nóg með að kærði hafi hótað kæru til lögreglu til að hafa áhrif á niðurstöðu hins ódæmda máls nr. E-xxxx/2018, heldur hafi hótunin verið sett í víðtækara samhengi. Megi þannig skilja efni tölvubréfsins svo að ef kærandi léti ekki af því að hafa almennt samband við félagsmenn C myndi hann hafa verra af og vera kærður til lögreglu fyrir fjársvik. Vísar kærandi til þess að hér sé sótt að honum með ógeðfelldum og ómálefnalegum hætti. Það varði bæði æru og starfsheiður kæranda sem lögmanns.

Kærandi mótmælir því að hið umþrætta tölvubréf kærða sé ekki opinbert gegn kæranda. Eigi ákvæði 27. gr. siðareglnanna við um framgöngu kærða enda hafi hann viðurkennt brot sitt með því að kalla hótanir sínar „gagnrýni“. Þá séu skýringar kærða um „að valda honum álitsspjöllum nema í hans eigin huga“ ekki svaraverðar og sýni aðeins óskammfeilni kærða.

Kærandi kveður aðalatriði málsins vera hvort lögmaður komist upp með það að vera með dylgjur um refsiverða háttsemi í því formi sem tölvubréf kærða standi fyrir, þ.e. að bera á annan lögmann sakir um eða tilraunir til fjársvika. Verði að telja að kærði hafi farið langt yfir strikið þegar hann fullyrti að kærandi myndi sæta kæru til lögreglu vegna refsiverðrar tilraunar til fjársvika. Þá hafi kærði byggt það á niðurstöðu þriggja dóma héraðsdóms, þar sem fram hafi komið í forsendum að ekki væri heimilt að innheimta 1% gjald af endursöluverði íbúðar af seljanda. Kaupandi hafi hins vegar aldrei verið tilgreindur í dómsniðurstöðunni heldur einungis viðkomandi seljendur. Þar sé grundvallarmunur á.

Vísar kærandi til þess að hann hafi sent G tölvubréf til að árétta þá skoðun sína, sem stjórnarformaður C að honum væri skylt að kynna væntanlegum kaupanda samþykktir félagsins. Hafi ekki verið minnst á seljanda sem greiðanda 1% gjalds af endursöluverði í áminningunni heldur kaupanda. Þá hafi aðilar máls verið að eiga samskipti, þ.e. samtökin að sinna eigin hagsmunagæslu af gefnu tilefni þar sem viðtakandi tölvubréfsins hafi áfram haldið þeirri ætlan sinni að sniðganga samþykktir félagsins. Hafi kærandi haft fullgilda heimild til að minna erfingjann á skyldu sína í samræmi við þinglýstar kvaðir og þrátt fyrir niðurstöðu héraðsdóms í öðrum dómsmálum, að virða samþykktir þess. Þar sem ekki hafi verið komin niðurstaða í dómsmálinu nr. E-xxxx/2018 hafi kærða verið óheimilt að setja sig beint í samband við kæranda sem formann samtakanna og hóta honum lögreglukæru fyrir refsiverða tilraun til fjársvika. Þá mótmælir kærandi því að brýnar ástæður hafi borið til þess að kærða bryti gegn 26. gr. siðareglna lögmanna.

Að endingu vísar kærandi til þess að engin tengsl séu á milli hans og þeirrar lögmannsstofu sem E lögmaður starfar á.

III.

Kærði krefst þess fyrir nefndinni að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Í fyrsta lagi bendir kærði á að kærandi sjálfur byggi á því að hann sé aðili máls sem formaður C og að hann hafi því ekki verið í hlutverki lögmanns. Samkvæmt því geti 30. gr. siðareglna lögmanna ekki átt við í málinu þar sem að ákvæðið fjalli um hótanir í garð lögmanns gagnaðila. Geti kærandi ekki bæði haldið og sleppt hvað hlutverk sitt í málinu varðar. Í ljósi málatilbúnaðar kæranda sjálfs geti kærði ekki hafa hótað kæranda, sem lögmanni máls, kæru í skilningi 30. gr. siðareglnanna. Þá geti það ekki farið saman að kvarta undan kærða á grundvelli 26. og 30. gr. siðareglnanna í þessu tilviki. Bendir kærði á að ef kærandi ætli sér að vera bæði í hlutverki aðila og lögmanns að þá sé ljóst að hann hafi sjálfur brotið gegn 26. gr. siðareglnanna enda hafi hann haft beint samband við umbjóðanda kærða, G.

Kveður kærði ljóst að E lögmaður fari með umrætt mál fyrir hönd C og að hinu umþrætta tölvubréfi hafi ekki verið beint til hans. Sé því augljóst að engin hótun í skilningi 30. gr. siðreglnanna hafi verið höfð við þann lögmann sem með málið hafi farið. Auk þess sé skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt að öðru leyti enda hafi hvergi komið fram í umræddu tölvubréfi ósk eða hótun um að eitthvað yrði látið ógert eða aðhafst í viðkomandi dómsmáli. Þvert á móti varði tölvubréfið sjálfstæðar athafnir kæranda, sem hann hafi kosið að viðhafa í hlutverki formanns samtakanna, sem falli utan dómsmálsins.

Í öðru lagi byggir kærði á að slíkt hið sama eigi við um ætluð brot hans gegn 27. gr. siðareglna lögmanna. Beri jafnframt að líta til þess að kærði hafi ekki haft uppi neina gagnrýni á störf kæranda sem lögmanns auk þess sem efni tölvubréfsins hafi ekki valdið honum neinum álitsspjöllum, enda það sent beint og persónulega til kæranda sjálfs. Þá eigi ákvæði 27. gr. einungis við um það þegar lögmaður fari fram á almannafæri eða opinberum vettvangi og gagnrýnir störf annars lögmanns með mjög ómálefnalegum hætti. Geti ákvæðið í engu tilviki tekið til þess þegar tölvubréf séu send beint manna á milli.

Auk þess byggir kærði á að sú „gagnrýni“ sem sett hafi verið fram í hinu umþrætta tölvubréfi hafi síður en svo verið ómálefnaleg. Bendir kærði á að þann x. nóvember 2018 hafi fallið dómar í þremur dómsmálum sem hann hafi rekið fyrir hönd sinna umbjóðenda gegn C. Hafi verið fallist á tvær viðurkenningarkröfur umbjóðenda hans í málunum en þar sé um að ræða sömu kröfur og í dómsmáli nr. E-xxxx/2018, sem hið umþrætta tölvubréf laut að, þar á meðal um að samtökunum hefði verið með öllu óheimilt að innheimta 1% gjald af endursöluverði viðkomandi íbúða, hvort sem það væri innheimt úr hendi seljanda eða kaupanda.

Kærði vísar til þess að í kjölfar dóma héraðsdóms hafi kærandi sjálfur ákveðið að senda tölvubréf, dags. 20. nóvember 2018, til G, þar sem staðhæft hafi verið að 1% gjald af endursöluverði íbúðar væri innheimt af kaupanda en ekki seljanda, að seljandi ætti því enga lögvarða hagsmuni um þá kröfu C og að nýgengnir héraðsdómar hefðu ekkert fordæmisgildi að því leyti.

Kærði byggir á að kærandi hafi viðhaft augljós rangmæli í fyrrgreindu tölvubréfi sem sé auk þess í beinni andstöðu við forsendur og niðurstöðu héraðsdóms í dómum uppkveðnum x. nóvember 2018. Samkvæmt því sé ljóst að með háttsemi sinni hafi kærandi gert tilraun til að afla C hagsmuna sem samtökin hafi ekki átt rétt til að krefjast samkvæmt gildandi dómafordæmum. Hafi kærandi gert það gegn betri vitund. Það hvort samtökin hafi í hyggju að áfrýja dómunum skipti þar engu máli enda fresti áfrýjun ekki rétttaráhrifum dómanna. Hafi kærandi því sýnt af sér ámælisverða háttsemi.

Kærði vísar til þess að ljóst sé að kæranda, sem formanni viðkomandi samtaka, sé og hafi ávallt verið með öllu óheimilt að innheimta 1% gjald af endursöluverði þeirra fasteigna sem um ræði. Það hafi nú verið staðfest með afgerandi dómum héraðsdóms. Að mati kærða verði því vart annað séð en að rétt sé að kæra slíka háttsemi. Kveður kærði að hér sé átt við það að samtökin ætli sér að halda áfram að krefjast 1% við endursölu slíkra eigna og það án þess að tilkynna viðkomandi seljendum/kaupendum um þá staðreynd að slíkt sé óheimilt. Samkvæmt því sé ekkert óeðlilegt við það að kærandi hafi, sem formanni C, verið tilkynnt um það að slíkar ólögmætar aðgerðir kynnu að verða kærðar, sérstaklega í ljósi þess að það hafi verið kærandi sjálfur sem sendi tölvubréfið fyrir hönd samtakanna. Hafi því verið um að ræða málefnalegar athugasemdir sem viðhafðar hafi verið við formann samtakanna utan formlegra marka dómsmálsins E-xxxx/2018.

Í þriðja og síðasta lagi byggir kærði á að eins og atvikum hafi verið háttað hafi honum verið rétt að svara kæranda beint og milliliðalaust og því hafi hann ekki gerst brotlegur gegn 26. gr. siðareglna lögmanna.

Um það efni bendir kærði á að kærandi hafi sjálfur ákveðið að setja sig í samband við fasteignasala þann sem hafði viðkomandi fasteign til sölumeðferðar og gert tilraun til að fá hann til að fallast á að greiða 1% þóknun af endursöluvirði eignarinnar. Hafi kærandi gert þetta í andstöðu við fyrirliggjandi dómafordæmi og gegn betri vitund um réttarstöðuna. Hafi viðkomandi fasteignasali haft samband við kærða og beðið hann um að svara kæranda fyrir sína hönd. Byggir kærði á að ekki verði séð að í því hafi falist nokkurt brot. Þá beri að líta til þess að kærandi hafi sjálfur haft frumkvæði að samskiptunum. Auk þess hafi einnig verið brýnar ástæður til að svara kæranda strax, enda hafi hann reynt að afla C hagsmuna sem þau hefðu ekkert tilkall átt til. Eigi því 2. mgr. 26. gr. siðareglanna við.

Auk þess bendir kærði á að ekki verði fram hjá því horft að þótt kærandi hafi í þessu tilviki verið í hlutverki aðila, að þá sé hann með lögmannsréttindi og starfi einnig sem slíkur. Sé kærandi með skrifstofu við hlið E lögmanns. Verði því varla séð að þótt kærandi hafi í þessu tilviki verið í „hlutverki aðilans“ að þá hafi hér verið þörf á þeirri vernd sem 26. gr. siðareglna lögmanna sé ætlað að veita aðilum almennt. Sé tilgangur ákvæðisins augljóslega ekki sá sem kærandi byggi mál sitt á.

Með vísan til alls framangreinds kveðst kærði mótmæla öllum kröfum, málsástæðum og fullyrðingum kæranda.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar var vísað til þess varðandi ætluð brot gegn 26. gr. siðareglna lögmanna að þau samskipti sem um ræddi hefðu varðað athafnir kæranda eftir að viðkomandi dómsmál hefði verið höfðað auk þess sem þau hafi ekki verið til þess fallin að hafa nokkur áhrif á rekstur málsins. Þá sé það rangt að hin umþrættu ummæli kærða hafi verið sett fram til að hafa áhrif á niðurstöðu héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/2018, enda hefði það ekki með nokkrum hætti getað haft áhrif á niðurstöðu málsins hvort kærandi léti af þeirri háttsemi sem efni tölvubréfsins tók til eða héldi henni áfram.

Kærði mótmælir því að hann hafi sótt að kæranda með ógeðfelldum og ómálefnalegum hætti. Bendir aðilinn á að tilraun til að afla samtökunum ávinning umfram það sem lög gera ráð fyrir með því að staðhæfa um rétt þess, í andstöðu við dómafordæmi, megi ekki aðeins heimfæra undir ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 heldur geti slíkt einnig talist brot gegn 1. gr. siðareglna lögmanna.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í IV. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um innbyrðis samskipti lögmanna. Þannig segir í 1. mgr. 26. gr. að lögmaður megi ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skuli þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt. Í málinu hefur kærandi jafnframt vísað til 27. gr. siðareglnanna þar sem fram kemur að lögmaður megi einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars lögmanns á málefnalegum grundvelli, og skuli forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefi ástæðu til. Þá kemur fram í 30. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki hóta lögmanni gagnaðila kæru eða lögsókn í því skyni að fá hann til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert í máli gagnaðila.

Ágreiningur aðila í málinu er tvíþættur en hann lýtur annars vegar að því hvort kærði hafi gert á hlut kæranda, í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, með ummælum sem sett voru fram í tölvubréfi, dags. 20. nóvember 2018. Hins vegar lýtur ágreiningur aðila að því hvort kærða hafi borið að beina fyrrgreindu tölvubréfi til þess lögmanns sem annast hagsmunagæslu í þágu C, sem stefnda, í máli nr. E-xxxx/2018 sem rekið er fyrir Héraðsdómi Y, en fyrir liggur að kærandi er í fyrirsvari  fyrir tilgreint félag sem stjórnarformaður þess.

II.

Gerð er grein fyrir hinum umþrættu ummælum sem fyrra ágreiningsefni aðila tekur til í málsatvikalýsingu að framan. Eins og þar greinir þá tiltók kærði í tölvubréfi til kæranda þann 20. nóvember 2018 að hinn síðargreindi hefði farið vísvitandi með rangt mál í tölvubréfi sem hann hafði sent þennan sama dag til umbjóðanda kæranda. Hefði það verið gert í því skyni að afla samtökum þeim, sem kærði er í fyrirsvari fyrir, hagsmuna sem þau ættu sannanlega ekki rétt á. Var þeirri huglægu afstöðu kærða lýst í tölvubréfinu að um væri að ræða refsiverða tilraun til fjársvika, sbr. 20. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var tiltekið að ef kærði myndi halda áfram að reyna að innheimta hið ætlaða ólögmæta gjald, væri kæranda ekki annað fært en að tilkynna lögreglu um slíkar tilraunir enda væri kærða óheimilt að reyna að vekja eða styrkja ranga hugmynd um slíka greiðsluskyldu.

Um ætluð brot kærða að þessu leyti hefur kærandi vísað til 27. og 30. gr. siðareglna lögmanna, sem áður greinir.

Hvað þetta efni varðar er þess að gæta að kærði sendi það tölvubréf sem hér um ræðir til kæranda sem andsvör við erindi sem kærandi hafði beint sama dag til G, sem mun vera erfingi við dánarbússkipti F, en efni þess er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi sent viðkomandi tölvubréf í krafti stöðu sinnar sem stjórnarformaður C og sem lið í hagsmunagæslu hans sem fyrirsvarsmanns í þágu þess félags, en ágreiningslaust er að nefndur G er löggiltur fasteignasali og að hann hafi verið með fasteign dánarbúsins að D til sölumeðferðar á þeim tíma þegar tölvubréf kæranda var sent. Samkvæmt því verður að áliti nefndarinnar að leggja til grundvallar að ritun og sending tölvubréfsins hafi ekki verið liður í lögmannsstörfum kæranda, en fyrir liggur að annar lögmaður annaðist hagsmunagæslu í þágu samtakanna í því héraðsdómsmáli sem hafði tengsl við efni bréfaskiptanna. Með vísan til þessa verður að mati nefndarinnar ekki fundin stoð fyrir ætluðum brotum kærða í 27. og 30. gr. siðareglnanna, sem mæla fyrir um hvernig innbyrðis samskiptum lögmanna skuli háttað.

Á hinn bóginn er til þess að líta að kveðið er á um skyldur lögmanns við gagnaðila í V. kafla siðareglna lögmanna. Í þeim kafla er mælt fyrir um í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Eins og rakið er í málsatvikalýsingu að framan þá er kveðið á um c. lið 5. gr. samþykkta fyrir C að félagið skuli afla fjár með gjaldi sem nemi allt að 1% af endursöluverði íbúða sem kaupandi greiði. Samkvæmt málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni hefur umrætt gjald verið innheimt um áratuga skeið á hendur félagsmönnum en kærði gætir nú hagsmuna nokkurra aðila fyrir dómi þar sem uppi er einkaréttarlegur ágreiningur um lögmæti gjaldtökunnar. Voru þrír dómar þar að lútandi kveðnir upp í Héraðsdómi Y þann x. nóvember 2018, eða stuttu áður en til hinna umþrættu tölvubréfasamskipta kom, þar sem meðal annars var viðurkennt að C væri óheimilt að innheimta 1% gjald af endursöluverði viðkomandi íbúða og að ákvæði c. liðar 5. gr. samþykkta félagsins væru óskuldbindandi fyrir stefnendur málanna.

Ágreiningslaust er að til stóð að láta það dómsmál hvíla, sem tölvubréfasamskipti aðila frá 20. nóvember 2018 hafði meðal annars tengingu við, á meðan fengist endanleg niðurstaða í þeim málum sem fyrr hefðu verið höfðuð og áður greinir enda sakarefnið af sama meiði. Þá liggur fyrir að dómum héraðsdóms frá x. nóvember 2018 hefur verið áfrýjað til Landsréttar af hálfu C og því enn fyrir hendi einkaréttarlegur ágreiningur um lögmæti viðkomandi gjaldtöku og forsendur og niðurstöður hinna áfrýjuðu dóma.

Svo sem fyrr greinir er kærandi stjórnarformaður C. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 22/1991 um samvinnufélög, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 153/1998 um byggingarsamvinnufélög, fer stjórn félags með málefni þess í samræmi við tilgreind lög og samþykktir félags. Þá skal stjórn gæta þess að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi.

Ætla verður að kærandi hafi í samræmi við þær skyldur sent fyrrgreint tölvubréf til G þann 20. nóvember 2018 þar sem á það var minnt að kynna þyrfti væntanlegum kaupanda fasteignarinnar að D samþykktir viðkomandi samtaka, þar á meðal 12. gr. þeirra um endursölu eigna, sem og að 1% gjald af endursöluverði íbúðar yrði innheimt af kaupanda en ekki seljanda fasteignarinnar.

Að mati nefndarinnar fóru viðbrögð kærða við fyrrgreindu erindi kæranda, eins og þau voru framsett í hinu umþrætta tölvubréfi kærða til kæranda og að teknu tilliti til atvika allra sem áður er lýst, umfram þau mörk sem 34. gr. siðareglna lögmanna setja lögmönnum um háttsemi og samskipti við gagnaðila umbjóðenda þeirra. Er þá til þess litið að kærði lýsti þeirri huglægu afstöðu sinni í tölvubréfi til kæranda, dags. 20. nóvember 2018, að hinn síðargreindi hefði gert refsiverða tilraun til fjársvika samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að sú háttsemi yrði tilkynnt til lögreglu ef að af henni yrði ekki látið. Var hér um að ræða alvarlega ásökun kærða í garð kæranda um tilraun til refsiverðar háttsemi.

Jafnframt er þess að gæta um þetta efni að á þeim tíma sem kærði viðhafði fyrrgreind ummæli var dómsmál það, sem samskiptin tengdust, enn rekið fyrir héraðsdómi og því enn ódæmt að efni til. Var því enn einkaréttarlegur ágreiningur til staðar á milli aðila að hérðsdómsmálinu nr. E-xxxx/2018 um lögmæti viðkomandi gjaldtöku. Þá lá fyrir að áfrýjunarfrestir vegna þeirra dóma héraðsdóms, sem kveðnir höfðu verið upp þann x. nóvember 2018 og vörðuðu sambærilegt sakarefni, voru ekki liðnir. Mátti kærða vera ljóst af efni tölvubréfs kæranda til G að afstaða C til þeirrar gjaldtöku sem þar ræddi væri óbreytt þrátt fyrir fyrrgreinda dóma héraðsdóms og að samkvæmt því væri þess að vænta að til stæði að áfrýja dómum héraðsdóms til Landsréttar.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að kærði hafi sýnt kæranda, sem gagnaðila umbjóðanda síns, fulla virðingu og tillitssemi í skilningi 34. gr. siðareglna lögmanna þegar hann lýsti þeirri huglægu afstöðu sinni að kærandi hefði gerst sekur um refsiverða tilraun til fjársvika, vegna atvika sem lutu að einkaréttarlegum ágreiningi um lögmæti gjaldtöku sem til meðferðar var fyrir dómstólum, í tölvubréfi þann 20. nóvember 2018. Við mat á viðurlögum í málinu verður hins vegar að mati nefndarinnar að líta til þess að ummælin voru viðhöfð í tölvubréfasamskiptum á milli málsaðila tveggja og því útbreiðsla þeirra takmörkuð. Samkvæmt því og með hliðsjón af atvikum öllum verður því látið við það sitja að veita kærða aðfinnslu vegna háttsemi hans að þessu leyti gagnvart kæranda.

III.

Um hið síðargreinda ágreiningsefni, þ.e. hvort kærði hafi borið að beina því tölvubréfi sem málið lýtur að til þess lögmanns sem sinnt hefur hagsmunagæslu í þágu C í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/2018 í samræmi við áskilnað 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna, verður annars vegar að líta til þess að það var sett fram sem andsvör við erindi sem kærandi hafi kosið að beina sjálfur, fyrir hönd samtakanna sem stjórnarformaður þess, til G. Samkvæmt því var lögmanni þeim, sem annaðist hagsmunagæslu í þágu byggingarsamvinnufélagsins í viðkomandi dómsmáli, með öllu haldið utan samskiptanna. Þá verður hins vegar ekki fram hjá því litið að efni fyrirliggjandi tölvubréfa aðila frá 20. nóvember 2018 laut aðeins að takmörkuðu leyti að viðkomandi dómsmáli, þótt aðildartengsl væru þar sannanlega fyrir hendi, enda erindi kæranda einskorðað í upphafi við fyrirhugaða sölu á fasteigninni að D og upplýsingagjöf henni tengdri.

Af málsgögnum og atvikum öllum verður því hvorki ráðið að C hafi falið E lögmanni að annast hagsmunagæslu gagnvart gagnaðilum vegna atvika sem vörðuðu ekki með beinum hætti rekstur málsins nr. E-xxxx/2018 fyrir Héraðsdómi Y, þar á meðal samskipti vegna fyrirhugaðrar sölu viðkomandi fasteignar, né að kærði hafi mátt ganga út frá í ljósi fyrirliggjandi samskipta að svo væri. Samkvæmt því verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda í máli þessu með háttsemi sem stríði gegn 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna.  

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að saka kæranda, A lögmann, um refsiverða tilraun til fjársvika í tölvubréfi þann 20. nóvember 2018, vegna atvika sem lutu að einkaréttarlegum ágreiningi um lögmæti nánar tilgreindar gjaldtöku sem var til meðferðar fyrir Héraðsdómi Y, og að tilkynnt yrði um slíka háttsemi til lögreglu ef að af henni yrði ekki látið, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson