Mál 45 2018

Mál 45/2018

Ár 2019, miðvikudaginn 4. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2018:

A,

gegn

B lögmanni, C lögmanni og D lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. desember 2018 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærðu, B lögmaður, C lögmaður, og D lögmaður, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 20. desember 2018. Greinargerð kærðu barst nefndinni þann 9. janúar 2019 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 10. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 8. febrúar 2019 og voru þær sendar til kærðu með bréfi dags. 12. sama mánaðar. Loks bárust viðbótarathugasemdir fá kærðu þann 27. febrúar 2019 og voru þær sendar til kæranda með bréfi dags. 5. mars sama ár þar sem tekið var fram að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila. Undir rekstri málsins neytti nefndin hins vegar heimildar í 2. mgr. 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og aflaði og hafði til hliðsjónar við úrlausn málsins dóm Héraðsdóms X x. febrúar 201x í máli nr. E-xxxx/xxxx. Var málið að því búnu tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur að kærandi leitaði til E ehf., sem kærðu starfa á, í ágústmánuði 2016 með beiðni um lögfræðiþjónustu vegna fyrirhugaðs málareksturs á hendur F hf. vegna afmarkaðs þáttar bótauppgjörs, þ.e. lögmannsþóknunar, sem farið hafði fram á milli aðila í tengslum við líkamstjón sem kærandi hafði orðið fyrir í aðgerð sem hann hafði undirgengist hjá tveimur tilgreindum læknum þann 31. október 2007.

Í tölvubréfi kærða B til kæranda, dags. 11. ágúst 2016, var því lýst að lögmaðurinn hefði yfirfarið þau takmörkuðu gögn sem hann hefði undir höndum vegna málsins, að skoða þyrfti nánar atvik er lytu að sönnun annars vegar og fyrningu hins vegar en að af lestri matsgerðar væri réttlætanlegt að láta reyna á rétt kæranda fyrir dómstólum. Höfða þyrfti slíkt mál fyrir árslok 2016 til að rjúfa fyrningu. Þá var tiltekið að ákveðinn kostnaður myndi eðli málsins samkvæmt fylgja slíkri málshöfðun, að unnt væri að kanna með gjafsókn í málinu en að öðrum kosti þyrfti kærandi að bera kostnað sjálfur af rekstri þess. Í ljósi óvissu og umfangs mætti gera ráð fyrir talsverðri vinnu við málið og að lögmannsstofan myndi ekki geta tekið það að sér nema gegn greiðslu frá kæranda sem kynni að vera umsemjanleg. Eftir stæði þá hvort kærandi væri reiðubúinn að fara af stað með málshöfðun á eigin kostnað.

Í svari kæranda þann sama dag kom fram að hann vildi sækja málið. Þá kvaðst kærandi geta greitt fyrirfram eða greitt reikning eftir hver mánaðamót. Mikilvægast væri að hann fengi að fylgjast með kostnaðinum jafnframt því sem óskað var eftir upplýsingum um tímagjald og mat á heildarkostnaði.

Í tölvubréfi kærða B til kæranda, dags. 12. ágúst 2016, var tiltekið að rekstur dómsmáls er lyti að læknamistökum gæti verið kostnaðarsamur að teknu tilliti til flækjustigs og umfangs gagna. Samkvæmt því yrði rekstur málsins að mati kærða ekki undir 1.000.000 króna með öllum fyrirvörum enda væri oft ómögulegt að sjá fyrirfram hvernig málið myndi þróast. Tiltók kærði jafnframt að ef málið myndi vinnast ætti málskostnaður að fást endurgreiddur að miklu leyti. Nauðsynlegt væri hins vegar að fá greiðslu fyrirfram til að hefja málið, að fjárhæð 500.000 krónur. Var tiltekið að þeirri fjárhæð yrði ráðstafað upp í unna tíma en eftir það færu greiðslur fram í samræmi við unna tíma samkvæmt reikningi um hver mánaðamót. Þá var tiltekið að kærandi fengi að fylgjast með kostnaðinum og að unnt væri að meta betur heildarkostnað málsins síðar eftir framvindu þess. Jafnframt því yrði verkbeiðni og umboð send til kæranda ef hann samþykkti þá tilhögun sem kærði hafði lýst í tölvubréfinu.

Í málsgögnum liggur fyrir verkbeiðni/umboð, dags. 12. ágúst 2016, sem ekki virðist ágreiningur um að hafi gilt í lögskiptum aðila. Í tilgreindu skjali var því verki sem lögmannsstofu kærðu var falið að sinna í þágu kæranda lýst með eftirfarandi hætti:

Kanna réttarstöðu verkkaupa og sækja rétt vegna ógreidds útlagðs kostnaðar vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratburðar þann 31. október 2007 og síðar tilkomna atvika. Getur útlagður kostnaður eftir atvikum falist í sjúkra-, lögmanns og annars kostnaðar vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratburðarins. Felst verkið í útgáfu stefnu, rekstri máls og alls annars sem kann að tengjast málsókninni.

Í verkbeiðninni var jafnframt tiltekið að kærandi væri skuldbundinn til að greiða lögmannsstofunni fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofunnar á hverjum tíma á grundvelli tímaskráningar í verkinu. Var því einnig lýst að stofan skyldi láta kæranda í té áætlun um heildarkostnað vegna tiltekinna afmarkaðra verkefna, ef unnt væri og ef þess væri óskað. Skyldi kærandi jafnframt leggja fram tryggingu að fjárhæð 500.000 krónur áður en verkið hæfist. Þá var því lýst að kærandi væri skuldbundinn til að greiða upp í verkið mánaðarlega gegn útgáfu reiknings.

Fyrir liggur að kærandi höfðaði mál á hendur F hf. með birtingu stefnu þann x. nóvember 201x en undir stefnuna ritaði kærði B vegna kærða C. Samkvæmt stefnunni, sem er meðal málsgagna, var þess krafist af hálfu kæranda að hinu stefnda tryggingafélagi yrði gert að greiða honum 1.814.731 krónu auk vaxta og málskostnaðar. Var málið þingfest í Héraðsdómi X þann x. desember 201x.

Dómur í áðurgreindu máli, sem hlotið hafði málsnúmerið E-xxxx/xxxx, var kveðinn upp í Héraðsdómi X þann x. október 201x. Samkvæmt dómsorði var F hf. gert að greiða kæranda stefnufjárhæð málsins, 1.814.731 krónu, ásamt nánar tilgreindum vöxtum sem og 500.000 krónur í málskostnað. Mun hið stefnda vátryggingafélag hafa unað dómi héraðsdóms og sætti málið því ekki áfrýjun. Er því lýst í málatilbúnaði kærðu fyrir nefndinni að kærandi hafi fengið í sinn hlut 2.234.790 krónur af dæmdri fjárhæð í málinu.

Fyrir liggur að vegna þessa þáttar gerði lögmannsstofa kærðu annars vegar reikning á kæranda þann 2. desember 2016. Nánar tiltekið var um að ræða reikning nr. 3163 frá þeim degi að fjárhæð 1.180.480 krónur með virðisaukaskatti. Var því lýst í reikningnum að hann væri samkvæmt tímaskýrslu og að innborgun að fjárhæð 700.000 krónur kæmi til frádráttar. Samkvæmt því væri til greiðslu alls 480.480 krónur. Þá liggur fyrir samkvæmt tilgreindri tímaskýrslu sem vísað var til í reikningnum að hann tók til vinnu kærða B á tímabilinu frá 11. ágúst til 30. nóvember 2016, eða alls 54,40 klukkustunda á tímagjaldinu 17.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Hins vegar gerði lögmannsstofa kærðu reikning á kæranda þann 27. febrúar 2018 að fjárhæð 513.360 krónur með virðisaukaskatti, sbr. reikning nr. 3555. Var því lýst í reikningnum að hann væri samkvæmt tímaskýrslu sem væri meðfylgjandi og að veittur afsláttur næmi 10%. Í tilgreindri tímaskýrslu kemur fram að um hafi verið að ræða vinnu kærða B á tímabilinu frá 25. september til 3. október 2017 vegna undirbúnings og aðalmeðferðar áðurgreinds máls fyrir Héraðsdómi X. Tók tímaskýrslan til alls 23 klukkustunda á tímagjaldinu 18.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Eins og sakarefnið er afmarkað í kvörtun kæranda í málinu lýtur ágreiningur meðal annars að umfangi þeirrar þóknunar sem lögmannsstofa kærðu áskildi sér úr hendi kæranda samkvæmt hinum síðargreinda reikningi.

Fyrir liggur einnig að lögmannsstofa kærðu tók að sér að höfða skaðabótamál á hendur læknum þeim sem framkvæmt höfðu aðgerð þá sem kærandi hafði undirgengist á árinu 2007,  þeim sjúkraþjálfara sem komið hafði af eftirmeðferð kæranda að aðgerð lokinni sem og þeim tryggingafélögum sem áðurgreindir heilbrigðisstarfsmenn höfðu keypt ábyrgðar- og sjúklingatryggingu hjá.

Bera gögn málsins með sér að kærandi og kærði B hafi átt með sér tölvubréfasamskipti um þann málarekstur í maímánuði 2017, þar á meðal vegna stefnudraga sem munu hafa legið fyrir á þeim tíma. Kom þannig fram í tölvubréfi kærða B, dags. 3. maí 2017, að það væri ákveðnum vandkvæðum búið að stefna sjúkraþjálfara með í málinu á grundvelli sjúklingatryggingar enda væri bótagrundvölur þar annar. Þá væru fyrningarfrestir í sjúklingatryggingu að mörgu leyti erfiðari en vegna ábyrgðartjóna. Kom slíkt hið sama fram í tölvubréfi viðkomandi kærða til kæranda þann 4. sama mánaðar, þ.e. að um flókna aðstöðu væri að ræða, en að best væri í stöðunni að stefna læknunum og sjúkraþjálfaranum óskipt á grundvelli sakar. Nýrrar matgerðar yrði svo aflað undir rekstri málsins. Þá tiltók kærði að miðað við fyrirliggjandi matsgerðir væri óbætt tjón kæranda ekki verulegt en að slíkt gæti breyst eftir niðurstöðu nýrrar matsgerðar.

Í áframhaldandi tölvubréfasamskiptum kæranda og kærða B, dagana 9. og 16. júní 2017, óskaði hinn fyrrgreindi meðal annars eftir útskýringu á af hverju kærði teldi að kvittanir hefðu fyrnst. Í svari kærða hinn síðargreinda dag var vísað til 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, að kærði myndi senda frekari útskýringar og að málið væri ekki einhlítt að þessu leyti heldur þyrfti ýmislegt að skoða.

Fyrir liggur að kærandi höfðaði mál á hendur áðurgreindum aðilum með birtingu stefnu þann x. júlí 201x en sem fyrr undirritaði kærði B stefnuna, sem var yfirgripsmikil og taldi alls 28 blaðsíður, vegna kærða C. Samkvæmt stefnunni var aðalkrafa kæranda á hendur stefndu að höfuðstólsfjárhæð 77.407.860 krónur jafnframt því sem krafist var vaxta og málskostnaðar. Var málið þingfest í Héraðsdómi X þann x. september 201x.

Úrskurður í áðurgreindu máli, sem hlotið hafði málsnúmerið E-xxxx/xxxx, var kveðinn upp í Héraðsdómi X þann x. apríl 201x. Samkvæmt úrskurðarorði var fyrstu aðalkröfu, annarri aðalkröfu og annarri varakröfu kæranda vísað frá dómi en hafnað var kröfu stefnda, F hf., um frávísun á fyrstu varakröfu kæranda sem laut að greiðslu skaðabóta úr sjúklingatryggingu hjá vinnuveitanda viðkomandi sjúkraþjálfara. Þá var kæranda gert að greiða stefndu málskostnað að því frátöldu að ákvörðun málskostnaðar á milli hans og F hf. skyldi bíða lokaniðurstöðu málsins.

Kærði B tilkynnti kæranda um niðurstöðu úrskurðarins í tölvubréfi þann 16. apríl 2018. Kvaðst kærði ósáttur við niðurstöðuna og lýsti yfir vilja til að kæra úrskurðinn til Landsréttar. Að öðrum kosti þyrfti að höfða málið að nýju innan nánar tilgreinds frests til að rjúfa fyrningu. Í svari kæranda þann sama dag óskaði aðilinn eftir að úrskurðurinn yrði kærður til Landsréttar.

Meðal málsgagna er tilgreind kæra, dags. x. apríl 201x, sem kærði C beindi til Landsréttar í þágu kæranda vegna áðurgreinds úrskurðar Héraðsdóms X í máli nr. E-xxxx/xxxx. Þá er meðal málsgagna tölvubréf sem kærandi sendi til kærða B þann 27. apríl 2018 þar sem tiltekið var að kæran væri mjög vel unnin að því er kæranda sýndist.

Með úrskurði Landsréttar x. júní 201x í máli nr. xxxx/xxxx var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna. Samkvæmt því sættu fyrsta og önnur aðalkrafa kæranda í málinu frávísun á þeim grundvelli að við þingfestinu málsins í héraði hefði stefna og málatilbúnaður kæranda ekki fullnægt áskilnaði 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá var síðari lið varakröfu kæranda, um greiðslu skaðabóta óskipt úr hendi allra stefndu, vísað frá dómi þar sem verulega skorti á að kærandi hefði gert grein fyrir sameiginlegri aðild málsins til varnar og sameiginlegri ábyrgð nánar tilgreindra stefndu.

Kærandi og kærði B áttu í tölvubréfasamskiptum í kjölfar áðurgreinds úrskurðar Landsréttar, þar á meðal um framhald málsins. Lýsti kærandi því meðal annars í tölvubréfi þann 6. júní 2018 að hann vildi höfða ný mál á hendur öllum aðilum, jafnvel þótt það myndi leiða til þess að gjafsókn félli niður. Í tölvubréfi kæranda, dags. 7. júní 2018, lýsti aðilinn því hins vegar að hann gæti fallist á að halda áfram með málið vegna sjúklingatryggingar viðkomandi sjúkraþjálfara. Þá lýsti kærandi því að þetta mál væri honum „ofviða“ og að hann gæti ekki haldið út mikið lengur.

Í tölvubréfi kærða B til kæranda, dags. 25. júní 2018, var óskað eftir upplýsingum um hvort kærandi væri enn á því að láta reyna á málið gegn sjúkraþjálfaranum. Kvað kærði það gera málið mun flóknara jafnframt því sem líkurnar væru meiri gegn læknunum að teknu tilliti til lögfræðilegra forsendna. Þá væri einnig töluverð hætta á að krafan gegn sjúkraþjálfaranum væri fyrnd.

Í svari kæranda þann sama dag kom meðal annars fram að afleiðingar af mistökum í sjúkraþjálfun hefðu verið miklu alvarlegri og að kærandi vildi því frekar láta reyna á sjúklingatryggingu sjúkraþjálfarans „heldur en að sækja að nýju.“ Þá hefði það tekið tvær aðgerðir að laga krossbandið en 20 aðgerðir á vöðvum. Lýsti kærði B því þá í tölvubréfi að valið væri kæranda, að hann hefði viljað nefna þetta aftur og að hann kæmi til með að hafa samband vegna framhaldsins. 

Í framhaldi af því sendi kærði B tölvubréf til kæranda, þ.e. þann 27. júní 2018, þar sem eftirfarandi var meðal annars tiltekið:

Ég tel best að gera þetta á eftirfarandi hátt:

Höldum áfram með málið eins og það er núna, þ.e. í sjúklingatryggingu Sjúkraþjálfunar Íslands. Öflum dómkvadds mats inn í því máli og þá er hægt að taka læknanna með, til að skera úr um hvernig skiptingin á tjóninu er.

Ef þú vilt svo halda áfram með læknanna þá er nauðsynlegt að stefna þeim í síðasta lagi í haust í sérstöku máli til að rjúfa fyrningu.

Ég legg fram matsbeiðni á morgun og óska dómkvaðningar.

Kærandi lýsti því í tölvubréfi til kærða B að upplegg hans hljómaði vel.

Ekki verður séð af málsgögnum að aðilar hafi átt í frekari samskiptum uns kærandi sendi tölvubréf til kærða B þann 25. október 2018 þar sem hann kvaðst ekki hafa heyrt í kærða í fjóra mánuði og óskaði eftir upplýsingum um stöðu á „málinu“. Í svari kærða þann 26. sama mánaðar kom fram að dómari í málinu hefði fallist á kröfu F hf. um að skipta málinu upp þannig að fjallað yrði um hvort krafan væri fyrnd áður en aflað yrði matsgerðar. Þá lýsti kærði B því aðspurður í tölvubréfi þann 30. október 2018 að málflutningur um fyrningu væri fyrirhugaður þann 23. janúar 2019.

Kærandi og kærði B áttu í frekari tölvubréfasamskiptum þann 3. desember 2018. Lýsti kærandi því þar meðal annars að réttast væri að skipta um lögmann þar sem kærði væri hættur að svara fyrirspurnum hans. Samkvæmt því væri umboð kæranda til kærðu afturkallað jafnframt því sem óskað var eftir að málsgögn yrðu send til nánar tilgreinds lögmanns. Þá óskaði kærandi eftir að fá reikning fyrir síðasta mánuð eða staðfestingu um að þóknun væri að fullu greidd. Í svörum kærða kom fram að ganga þyrfti frá uppgjöri áður en gögn yrðu send, að rætt hefði verið um að hætt yrði að senda reikninga fljótlega eftir að gjafsókn hefði fengist og að þar af leiðandi væri eitthvað tímabil sem þyrfti að fara yfir. Það yrði klárað í sömu viku.

Þann 5. desember 2018 sendi starfsmaður á lögmannsstofu kærðu tölvubréf til kæranda þar sem finna mátti yfirlit vegna ógreiddrar vinnu í samræmi við beiðni kæranda þar að lútandi. Var því lýst að ógreidd lögmannsþóknun frá ágúst 2017 næmi 1.881.375 krónum auk virðisaukaskatts jafnframt því sem útlagður kostnaður væri að fjárhæð 178.942.

Kærandi svaraði áðurgreindi erindi samdægurs og kvaðst hafa óskað eftir að hann fengi að fylgjast með kostnaðinum og að það hafi verið samþykkt af hálfu kærða B. Það að kærandi fengi nú að vita að óuppgerðir væri tímar frá árinu 2017 kallaði á að farið yrði með málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá hefði kærandi greitt milljónir í kostnað við málið en að flestum kröfum hefði verið vísað frá dómi vegna galla í stefnu. Lýsti kærandi því að hann myndi gera kröfu í ábyrgðartryggingu þeirra lögmanna sem komið hefðu að málinu.

Í svari kærða C til kæranda þennan sama dag kom fram að honum væri ekki ljóst af hvaða ástæðum umboð hefði verið afturkallað fyrirvaralaust og óskaði eftir skýringum þar að lútandi. Þá var eftirfarandi tiltekið í tölvubréfinu varðandi lögmannsþóknunina:

Í annan stað þá er þetta yfirlit um vinnu sent þér að þinni beiðni en þar sem þú ert með gjafsókn í málinu, hefði málskostnaðarreikningur að öllu jöfnu verið lagður fram í málinu við aðalmeðferð þess og samþykktur málskostnaður af dómi greiddur úr ríkissjóði. Í þeim reikningi væri auðvitað gerð grein fyrir öllum tímum, jafnt því sem þú kynnir að hafa greitt áður en gjafsókn var ákveðin, ef um það væri að ræða.

Það flækir auðvitað málið ef þú afturkallar umboð okkar. En ég tel þó að það mætti afgreiða kostnaðinn til okkar með þeim hætti að nýr lögmaður legði fram reikning frá okkur í málinu og dómari tæki afstöðu til hans. Það er því ekki þörf á að þú greiðir sjálfur.

Í tölvubréfi kæranda til kærða C, sem jafnframt var sent þann 5. desember 2018, voru gerðar athugasemdir við tilhögun lögmannskostnaðar vegna reksturs málsins, tímaskráningu, ætluð mistök við stefnugerð í málinu og fleiri þætti. Kvað kærandi af þeim sökum ljóst hvers vegna umboð lögmannsstofu kærðu hefði verið dregið til baka.

Að endingu sendi starfsmaður á lögmannsstofu kærðu tölvubréf til kæranda þann 7. desember 2018 með yfirskriftinni „Eftirstöðvar slysamáls“. Kom þar fram að meðfylgjandi væri tímaskýrsla vegna eftirstöðva í slysamálinu, að áfallinn lögmannskostnaður væri að fjárhæð 2.234.790 krónur með virðisaukaskatti en útlagður kostnaður 178.942 krónur. Samkvæmt því væri til greiðslu 2.413.732 krónur.

Áður er gerð grein fyrir þeim reikningum sem lögmannsstofa kærðu gerði á hendur kæranda í tengslum við rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/xxxx.

Jafnframt liggja fyrir í málsgögnum reikningar sem lögmannsstofa kærðu gerði á hendur kæranda vegna reksturs áðurgreinds skaðabótamáls í hans þágu fyrir Héraðsdómi X, sbr. héraðsdómsmálið nr. E-xxxx/xxxx og landsréttarmálið nr. xxx/xxxx. Auk þess reiknings sem lögmannsstofan mun hafa gert við lok málsins samkvæmt beiðni kæranda og þeim samskiptum sem áður er lýst, þá liggur annars vegar fyrir reikningur nr. 3327, dags. 4. maí 2017, að fjárhæð 869.085 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt tilgreiningu á reikningnum var hann gerður samkvæmt tímaskýrslu sem með honum fylgdi en hún tók til alls 44,50 vinnustunda kærða B á tímabilinu frá 9. janúar til 27. apríl 2017. Þá var veittur 10% afsláttur samkvæmt reikningnum en samkvæmt því var áskilið tímagjald kærða B að fjárhæð 15.750 krónur auk virðisaukaskatts.

Hins vegar liggur fyrir í málsgögnum reikningur nr. 3423, dags. 23. ágúst 2017, að fjárhæð 632.400 með virðisaukaskatti. Samkvæmt tilgreiningu á reikningnum var hann gerður samkvæmt tímaskýrslu sem með honum fylgdi en hún tók til alls 25,50 vinnustunda kærða B á tímabilinu frá 2. maí til 25. júlí 2017. Var tímagjald lögmannsins samkvæmt tímaskýrslunni að fjárhæð 20.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Líkt og áður greinir var kæranda gerð grein fyrir því við lok réttarsambands aðila að eftirstöðvar ógreiddrar lögmannsþóknunar væri að fjárhæð 2.234.790 krónur með virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 178.942 krónur. Varðandi áskilda lögmannsþóknun þá liggur fyrir samkvæmt tímaskýrslu að hún tók til alls 84,35 klukkustunda á tímabilinu frá 23. nóvember 2017 til 22. nóvember 2018. Þar af voru alls 70,35 klukkustundir vegna vinnu kærða B á tímabilinu á tímagjaldinu 20.000 krónur auk virðisaukaskatts, 9,5 klukkustundir vegna vinnu kærða C á tímagjaldinu 30.000 krónur auk virðisaukaskatts og 4,5 klukkustundir vegna vinnu kærða D á tímagjaldinu 24.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Svo sem fyrr er rakið leitaði kærandi til annars lögmanns í desember 2018 sem mun hafa tekið við rekstri héraðsdómsmálsins nr. E-xxxx/xxxx í hans þágu. Liggja meðal annars fyrir í málsgögnum tölvubréfasamskipti kæranda við þann lögmann frá 3. desember 2018 þar sem hinn síðargreindi gerði meðal annars grein fyrir sjónarmiðum varðandi fyrningu skaðabótakrafna og útlagðs kostnaðar.

Líkt og upplýst hafði verið var málið nr. E-xxxx/xxxx flutt munnlega í héraði þann x. janúar 201x samkvæmt þeirri sakarskiptingu sem dómari hafði ákveðið. Dómur í málinu var uppkveðinn þann x. febrúar 201x þar sem F hf. var sýknað af kröfum kæranda á grundvelli fyrningar. Samkvæmt dómsorði skyldi allur gjafsóknarkostnaður kæranda greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun kærða C að fjárhæð 2.700.000 krónur.

Samkvæmt opinberum gögnum sem liggja fyrir nefndinni mun kærandi hafa áfrýjað dómi héraðsdóms til Landsréttar.

Í málsgögnum liggur jafnframt fyrir lögreglukæra, dags. 11. febrúar 2014, lögregluskýrsla, dags. 12. febrúar 2014 og yfirlit yfir símanotkun kæranda á nánar tilgreindu tímabili. Ekki þykir ástæða til að reifa efni tilgreindra gagna umfram það sem greinir í málatilbúnaði aðila sjálfra fyrir nefndinni, sem síðar greinir.

II.

Kærandi krefst þess í fyrsta lagi fyrir nefndinni að viðurkennt verði að tímafjöldi við undirbúning fyrirtöku á máli vegna lögmannsþóknunar við örorkumat sé grunsamlega mikill. Krefst kærandi endurgreiðslu að fjárhæð 290.160 krónur úr hendi kærðu. Í öðru lagi krefst kærandi þess að viðurkennt verði að ámælisvert sé að hann hafi ekki fengið raunhæft mat á heildarkostnaði í upphafi málsins frá kærðu. Í þriðja lagi er krafist viðurkenningar á því að kærandi hafi ekki fengið að fylgjast með kostnaði málsins eins og lofað hafi verið af hálfu kærðu og að hann hafi ekki fengið tilkynningu um að kostnaður málsins væri orðinn mikill miðað við hagsmuni málsins. Í fjórða lagi krefst kærandi viðurkeningar á því að ámælisvert sé að ekki hafi verið gefin út ný stefna af hálfu kærðu eins og samið hafi verið um. Þá krefst kærandi í fimmta lagi endurgreiðslu á 50% af lögmannsþóknun málsins úr hendi kærðu eða alls 2.458.378 krónur.

Í kvörtuninni vísar kærandi til þess að henni sé beint að kostnaði máls, lögmannsþóknun, mistökum í stefnu, röngum upplýsingum um fyrningu útlagðs kostnaðar vegna líkamstjóns og fyrningu krafna vegna þess að ný stefna hafi ekki verið gefin út.

Varðandi forsögu málsins vísar kærandi til þess að hann hafi farið í aðgerð á haustmánuðum 2007 hjá lækununum G og H en sjúkraþjálfun í kjölfar aðgerðar hafi verið í höndum J. Ári síðar hafi kærandi flutt til Danmerkur. Við læknisskoðanir á árunum 2008 og 2009 hafi komið í ljós að endurbyggða krossbandið hafi verið slitið sem og tveir vöðvar í aftanverðu læri. Komið hafi fram í aðgerð sem framkvæmd hafi verið í Danmörku að krossbandið hafi verið rangt staðsett í upphaflegu aðgerðinni. Þá hafi komið fram í sérfræðingsmati hjá embætti landlæknis að krossband hafi verið staðsett þannig að þjálfun væri „ekki möguleg“ og að staðsetning þess hafi verið „meginvandi sjúklings.“ Jafnframt hafi komið fram að vöðvaslit væri afleiðing af sinatöku í aðgerðinni. Vísar kærandi jafnframt til þess að í samtali við marga lækna hafi komið fram að hann hafi fengið of ákafa sjúkraþjálfun sem sennilega hafi leitt til þess að sinar vöðvanna greru ekki.

Kærandi vísar til þess að vegna kraftaskerðingar í aftanverðu lærinu hafi hann átt erfitt með að standa og að hann geti ekki hlaupið, en fyrir aðgerð hafi hann verið keppnishlaupari. Hafi kærandi gengist undir fjölmargar aðgerðir á vöðvum frá þeim tíma. Hafi meðferð ekki lokið fyrr en í upphafi ársins 2018 þegar sin hafi verið endurbyggð í lærinu. Þá hafi kærandi staðið sjálfur undir kostnaði á þessum aðgerðum sem standi í tugum milljóna króna.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kæranda að í örorkumati 2015 hafi verið dregin til baka viðurkenning á að vöðvaslit hafi verið afleiðing aðgerðarinnar. Í álitsgerð örorkunefndar á árinu 2016 hafi hins vegar verið staðfest að vöðvaslit væri afleiðing aðgerðarinnar. Hafi kærandi fengið greiddar bætur úr sjúklingatryggingu læknanna hjá tveimur tryggingafélögum. Hins vegar hafi ekki verið viðurkennt að vöðvaslit væri afleiðing of ákafrar sjúkaþjálfunar. Samkvæmt því hafi kærandi ekki fengið útlagðan kostnað greiddan vegna líkamstjónsins. Vísar kærandi til þess að hann hafi ekki sætt sig við það og hafi málinu því verið stefnt til að fá fullar bætur úr sjúklingatryggingu sjúkraþjálfara og ábyrgðartryggingu hans og viðkomandi lækna.

Kærandi bendir á að í uppgjöri vegna örorkumats hafi hann aðeins fengið greiddan hluta af lögmannskostnaði við matið. Ákveðið hafi verið að stefna tryggingafélögunum til greiðslu á mismuninum, þ.e. vegna kröfu að fjárhæð tæplega 2.000.000 krónur, og hafi kærandi fengið til þess kærða B í ágústmánuði 2016. Er vísað til þess að í tölvubréfasamskiptum aðila hafi kærandi lagt áherslu á gagnsæi í kostnaði auk þess sem hann kvaðst geta „greitt fyrirfram, eða greitt reikning hver mánaðamót.“ Þá lýsti kærandi því að mikilvægast væri að hann fengi að fylgjast með kostnaðinum og að best væri ef kærði B myndi upplýsa hann um mat á heildarkostnaði vegna málsins. Í svari kærða B hafi komið fram að rekstur málsins yrði „ekki undir milljón.“ Jafnframt hafi verið tiltekið í verkbeiðni/umboði að verkkaupi væri skuldbundinn til að greiða upp í verkið mánaðarlega gegn útgáfu reiknings.

Varðandi dómsmál vegna lögmannskostnaðar við örorkumat vísar kærandi til þess að þann x. október 201x hafi fallið dómur í Hérðsdómi X honum í vil. Hafi kærandi ekki fyrr en 12. febrúar 2018 fengið uppgjör frá kærðu og nýjan reikning vegna lögmannskostnaðar málsins. Í þeim reikningi komi fram 23. klukkustunda vinna vegna fyrirtöku málsins, alls 513.360 krónur. Þá sé ekki talinn með kostnaður vegna kröfugerðar og stefnu sem kærandi hafi greitt fyrr. Í hinni nýju tímaskýrslu komi fram að kærði B hafi notað 19 klukkustundir í undirbúning fyrirtöku málsins og 4 klukkustundir í fyrirtökuna. Kveðst kærandi mjög ósáttur við tilgreinda gjaldtöku í ljósi einfaldlega málsins. Þá hafi legið fyrir kostnaðarmat úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 3/2016 auk þeirrar staðreyndar að örorkumatsferlið tók hátt í 2 ár. Hafi málsástæður verið sterkar og einfaldar og sé kæranda því lítt skiljanlegt hvers vegna svo miklum tíma hafi verið varið í undirbúning. Kveðst kærandi fara fram á að fá 13 klukkustunda afslátt af undirbúningsvinnunni, eða alls 290.160 krónur með virðisaukaskatti.

Undir liðnum „undirbúningur stefnu, vafi um fyrningu vegna útlagðs kostnaðar, gafsókn“ í kvörtun kæranda vísar aðilinn til þess að kærði B hafi lýst því í tölvubréfi, dags. 4. maí 2017, að best væri að stefna sjúkraþjálfara og læknum óskipt á grundvelli sakar. Jafnframt hafi kærði B tiltekið í tölvubréfi þann 16. júní 2017 það mat sitt að útlagður kostnaður kæranda vegna líkamstjóns væri fyrndur þar sem  meira en fjögur ár væru liðin frá því að kostnaður féll til. Þá hafi kærði B upplýst kæranda um í októbermánuði 2017 að gjafsókn hefði fengist fyrir rekstri málsins.

Kærandi bendir á að með úrskurði Héraðsdóms X uppkveðnum x. apríl 2018 hafi kröfum kæranda í ábyrgðartryggingar lækna og sjúkraþjálfara verið vísað frá dómi vegna verulegra annmarka í stefnu. Þannig hafi verið lagt til grundvallar í forsendum úrskurðarins að talsvert hafi skort á skýringar á kröfugerð kæranda, sem stefnanda, og samspili mismunandi krafna í stefnu. Þá hafi verulega skort á að gerð hefði verið grein fyrir því í stefnu á hvaða grundvelli stefndu bæru sameiginlega ábyrgð á tjóni því sem kærandi, sem stefnandi, krefðist óskipt úr hendi allra stefndu sem og á hvaða grundvelli stefndu bæru sameiginlega ábyrgð á tjóni sem aðilinn rakti til mismunandi atvika sem stefndu hafi sumir en ekki allir komið að. Á þeim grundvelli hafi öllum kröfum verið vísað frá dómi nema kröfu í sjúklingatryggingu viðkomandi sjúkraþjálfara, sem hafi verið að hámarksfjárhæð 6.000.000 króna á tjónsdegi árið 2007.

Kærandi vísar til þess að kærði B hafi tilkynnt honum um tilgreinda niðurstöðu og lagt til að úrskurður héraðsdóms yrði kærður til Landsréttar. Hafi kæra samkvæmt þeirri ráðleggingu verið lögð fram þann x. apríl 2018. Með úrskurði Landsréttar x. júní 201x í máli nr. xxx/xxxx hafi hinn kærði úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins að hluta verið staðfestur.

Kærandi leggur áherslu á að í tölvubréfasamskiptum í kjölfar niðurstöðu Landsréttar hafi komið fram vilji aðilans til að stefna málinu að nýju á hendur viðkomandi læknum. Hafi kærði B lagt til að haldið yrði áfram með sjúkratryggingamálið og að gefin yrði út ný stefna um haustið í því skyni að rjúfa fyrningu.

Kærandi kveðst ekkert hafa heyrt í kærða B næstu fjóra mánuði og hafi hann því sent fyrirspurn til kærða um stöðu málsins þann 25. október 2018. Í svari kærða hafi komið fram að næsta fyrirtaka væri í janúarmánuði 2019. Hafi kærandi afturkallað umboð kærðu þann 3. desember 2018 ásamt því að spyrjast fyrir um útistandandi kostnað vegna málsins. Kærði B hafi þá upplýst að lögmannsstofan hefði hætt að senda út reikninga fljótlega eftir að gjafsókn hefði fengist í málinu. Í áframhaldandi samskiptum hafi komið fram að skuld kæranda við lögmannsstofu kærðu væri að fjárhæð 2.413.732 krónur.

Kærandi byggir samkvæmt því á að ekki hafi verið staðið við loforð um að hann fengi að fylgjast með kostnaði málsins. Lögmannsþóknun í málinu sé komin í um 5.500.000 króna og þá sé ótalinn útlagður kostnaður auk þess sem aðalmeðferð málsins hafi ekki farið fram. Sé slíkt langt frá þeirri 1.000.000 króna sem kærði B hafi nefnt í upphafi samskipta aðila. Samkvæmt því hafi vantað verulega upp á að kærandi hafi fengið raunhæfa mynd af mögulegum heildarkostnaði málsins. Vísar kærandi til þess að ef réttar upplýsingar hefðu legið fyrir um líklegan kostnað hefði hann hugsanlega ekki lagt út í málareksturinn.

Vísað er til þess að kærði B hafi ekki stefnt málinu að nýju gegn viðkomandi læknum þrátt fyrir samkomulag þar að lútandi. Þar með sé sá hluti kröfunnar fyrndur. Þá kveðst kærandi ekki hafa fengið svör frá kærða C um stöðu málsins þrátt fyrir fyrirheit þar um frá kærða í tölvubréfi þann 5. desember 2018.

Kærandi bendir á að ef gert sé ráð fyrir fyrningu krafna í ábyrgðartryggingu, þá sé kostnaður málsins kominn yfir 5.000.000 króna en hámarksfjárhæð tryggingabóta úr sjúklingatryggingu sé 6.00.000 króna. Samkvæmt því er á því byggt að tilkynna hafi átt kæranda um að kostnaður væri orðinn hár í hlutfalli við hagsmuni málsins. Slíkt hafi hins vegar ekki verið gert. Þá kveður kærandi ólíklegt að hann fái kostnaðinn endurgreiddan vegna gjafsóknar.

Í kvörtun er á það bent að kærði C hafi varið 9,5 klukkustundum í september- og októbermánuði 2018 í að skoða gögn og athuga réttarstöðu með tilliti til skiptingar sakarefnis. Þá hafi D skoðað málsgögn í október og nóvember 2018 í alls 4,5 klukkustundir. Hafi viðkomandi athuganir kærðu kostað kæranda 490.110 krónur sem sé yfir 8% af heildarhagsmunum málsins. Þá kveður kærandi tilgreinda yfirferð sérstaka í því ljósi að næsta fyrirtaka hefði ekki verið fyrr en í janúarmánuði 2019 þar sem fjalla hafi átt um ætlaða fyrningu krafna í málinu.

Kærandi kveðst eiga erfitt með að sjá nauðsyn þess að tveir aðrir lögmenn eyði svo miklum tíma í skoðun gagna, þ.e. að teknu tilliti til umfangs málsins og undirliggjandi hagsmuna. Sé það réttmæt krafa kæranda að lögmenn vinni aðeins nauðsynlega og skynsamlega vinnu.

Jafnframt er vísað til þess í kvörtun kæranda að í tölvubréfi frá lögmanni þeim sem tekið hafi við máli hans af kærðu, dags. 3. desember 2018, hafi komið fram að fyrningarfrestur vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við líkamstjón væri 10 ár. Væri það í miklu ósamræmi við fullyrðingu kærða B um fjögurra ára fyrningarfrest. Telur kærandi það ámælisvert af hálfu kærða að hann hafi ekki betri þekkingu á lögunum. Þá sé ljóst að svikið hafi verið loforð um að kærandi fengi að fylgjast með kostnaðinum auk þess sem kostnaður hafi verið orðinn verulegur miðað við hagsmuni málsins. Þá hafi stefna ekki verið gefin út að nýju til að rjúfa fyrningu líkt og samið hafi verið um. Hafi því mikil vinna við málin verið unnin til einskis, en hún hefði ella komið til gagns við nýja málshöfðun. Sé það ámælisvert.

Að endingu kveðst kærandi fara fram á 50% afslátt af lögmannsþóknun af réttlætisástæðum, vegna skorts á raunhæfu kostnaðarmati, gagnsæi kostnaðar, ofaukins kostnaðar, mistaka við stefnugerð og tapaðra krafna, þ.e. nánar tiltekið 2.458.378 krónur.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er vísað til þess að það sé rangt sem greini í málatilbúnaði kærðu um að honum hafi verið gerð grein fyrir að málarekstur vegna dómsmáls í tengslum við lögmannsþóknun gæti numið allt að 1.000.000 króna. Kveðst kærandi þannig hafa fengið það mat að heildarkostnaður yrði ekki undir þeirri fjárhæð. Nú sé málskostnaður hins vegar kominn í 6.500.000 krónur. Þá hafi reikningur vegna hins fyrrgreinda máls ekki borist fyrr en mörgum mánuðum eftir að dómur lá fyrir, sem ýti undir grun um að tímafjöldi hafi verið falsaður.

Kærandi bendir jafnframt á að hann hafi ekki fengið neina tilkynningu um að veitt gjafsóknarleyfi myndi breyta því að hann fengi að fylgjast með kostnaði í málinu. Þannig hafi kærandi beðið um að fá reikning mánaðarlega auk þess sem slíkt sé tilgreint í umboði sem veitt hafi verið í upphafi lögskipta aðila.

Vísað er til þess að kærandi hafi aldrei samþykkt að hætta við málið á hendur læknunum. Þannig hafi kærandi barist fyrir því í hátt í áratug að fá viðurkenningu á mistökum í aðgerðinni. Þá hafi kærandi ekkert talað við kærða B í síma eftir tölvubréfasamskiptin 27. júní 2018. Fullyrðing kærðu um hið gagnstæða fái ekki staðist líkt og yfirlit yfir símanotkun staðfesti sem og skráning í tímaskýrslu.

Kærandi kveður ástæðu þess að hann hafi ekki viljað gefa út nýja stefnu á hendur viðkomandi sjúkraþjálfara hafi verið sú að kærði B hafi talið kröfurnar fyrndar. Hafi það mat kærða reynst rangt, sbr. meðal annars 16. og 21. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt því hafi kærandi fengið rangar upplýsingar um gildandi lög og möguleika varðandi framhald málsins frá kærða B. Þá liggi fyrir að kæranda hafi ekki verið kunnugt um stöðu málsins á hendur læknunum í tölvubréfasamskiptum 5. desember 2018.

Kærandi ítrekar að kröfum í ábyrgðartryggingu hafi verið vísað frá dómi þar sem vantað hafi upp á rökstuðning um sameiginlega ábyrgð lækna og sjúkraþjálfara. Lýsir kærandi því að það hafi verið einfalt að rökstyðja að ábyrgð meðferðaraðila hafi verið sameiginleg út frá málsgögnum. Liggi því fyrir að um samverkandi þætti hafi verið að ræða, þ.e. aðgerð og sjúkraþjálfun. Sé greinilegt að kærði B sé ekki sammála sérfræðingum og læknisfræðinni um þetta efni.

Að endingu vísar kærandi til þess að hann hafi ekki aðeins verið að vísa til málsins á hendur sjúkraþjálfaranum þegar upplýsinga hafi verið óskað um stöðu málsins í tölvubréfasamskiptum heldur málsins í heild.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærðu fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærðu vísa til þess að kærandi hafi leitað til kærða B árið 2016 um að hann tæki að sér mál á hendur F hf. til innheimtu á lögmannsþóknun sem kærandi hafði stofnað til vegna kröfu hans á hendur viðkomandi félagi um greiðslu úr sjúklingatryggingu tveggja lækna. Hafi áður verið fallist á bótaskyldu af hálfu tryggingafélagsins en greiðslu fullrar lögmannsþóknunar neitað. Kæranda hafi sinnast við þá lögmenn sem rekið höfðu það mál og skotið ágreiningi um endurgjaldskröfu þeirra til úrskurðarnefndar lögmanna sem úrskurðað hafi í málinu.

Í kjölfar þess hafi kærandi komið til kærða B og falast eftir því að lögmannsstofa kærðu tæki að sér málarekstur á hendur tryggingafélaginu til að sækja þann mismun. Vísa kærðu til þess að kæranda hafi verið gerð grein fyri því að ekki væri við nein dómafordæmi að styðjast og að málareksturinn gæti orðið kostnaðarsamur. Gæti sá kostnaður numið allt að 1.000.000 króna sem lent gæti á kæranda ef árangur næðist ekki. Hafi kærandi engu að síður ákveðið að fara með málið fyrir dómi. Dómur í málinu hafi gengið kæranda í vil í héraði og honum ekki áfrýjað. Til viðbótar dæmdum málskostnaði hafi kærandi greitt 513.360 krónur en fengið í sinn hlut af dæmdri fjárhæð 2.234.790 krónur. Samkvæmt því kvarti kærandi í málinu yfir greiðslu að fjárhæð 513.360 krónum. Mótmæla kærðu því að óeðlilega mikil vinna hafi verið skráð á það mál.

Kærðu vísa til þess að kærandi hafi að auki óskað eftir að kærði B myndi höfða mál á hendur viðkomandi læknum til heimtu bóta úr ábyrgðartryggingu þeirra sem og þeim sjúkraþjálfara sem hafi meðhöndlað kæranda eftir aðgerðina á árinu 2007. Hafi kærði B fallist á það en vakið athygli á fyrningarsjónarmiðum, kostnaði og að það kynni að vera árangurslítið að fara á hendur sjúkraþjálfaranum, þar sem það hafi verið mat kærða að ábendingin yrði metin á ábyrgð læknanna. Kærandi hafi hins vegar sótt það mjög fast að einnig yrði höfðað mál á hendur sjúkraþjálfaranum. Síðar undir rekstri málsins hafi komið í ljós að kærandi hafi hótað viðkomandi sjúkraþjálfara lífláti með þeim afleiðingum að lögð hafi verið fram lögreglukæra á hendur kæranda. Staðfesti það að kæranda hafi verið mjög umhugað um að láta sjúkraþjálfarann sæta ábyrgð. Samkvæmt því hafi kærði B ákveðið að stefna læknunum og sjúkraþjálfaranum í einu máli, á grundvelli samlagsaðildar samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hafi gjafsókn fengist fyrir kæranda til þess að reka málið.

Kærðu benda á að í stefnunni hafi verið gerð krafa um greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu læknanna og sjúklinga- og ábyrgðartryggingu sjúkraþjálfarans auk útlagðs kostnaðar og almenns fjártjóns. Hafi héraðsdómur vísað öllum kröfum frá nema fyrstu varakröfu á þeim grunni að tilgreindar kröfufjárhæðir væru ýmist ekki studdar matsgerð og óheimilt væri að bæta úr slíkum annmörkum eftir að mál hefði verið höfðað en þó aðallega að skilyrði samlagsaðildar væru ekki uppfyllt. Fyrstu varakröfu, sem byggt hafi á greiðslu úr sjúklingatryggingu sjúkraþjálfarans, hafi eingöngu verið beint gegn F hf. Þá er vísað til þess að Landsréttur hafi staðfest þennan úrskurð með því að vísa til þess að skilyrði samlagsaðildar skorti.

Kærðu kveða að í framhaldi þessa hafi kærði B og kærandi átt í samskiptum í tölvubréfum og í síma. Hafi þar komið upp vangaveltur hjá kæranda um að best væri að hætta öllum málarekstri. Er í málatilbúnaði kærðu um þetta efni vísað til tölvubréfasamskipta málsaðila frá 6. – 26. júní 2018. Byggja kærðu á að af grundvelli samskiptanna verði ráðið að kærði B hafi mælt með því við kæranda að málsókn skyldi beint að læknunum en fallið yrði frá máli á hendur sjúkraþjálfaranum af ástæðum sem færðar hefðu verið fram. Kærandi hafi hafnað þeirri ráðgjöf og viljað halda sig eingöngu við mál á hendur sjúkraþjálfaranum. Þá sé augljóst af viðkomandi samskiptum að það hafi verið kæranda að ákveða síðar hvort að mál yrði höfðað á hendur læknunum og þá að tilkynna um þá afstöðu kæmi hún fram.

Kærðu vísa til þess að í símtali sem kærði B og kærandi hafi átt með sér skömmu síðar hafi kærði ítrekað að ákvörðun um málsókn á hendur læknunum yrði að liggja fyrir sem fyrst. Engin tölvubréfasamskipti hafi orðið á milli aðilanna frá 28. júní 2018 til 25. október 2018 þegar kærandi hafi spurst fyrir um stöðu „á málinu.“ Benda kærðu á að fyrirspurn þessi hafi lotið að viðkomandi máli á hendi sjúkraþjálfaranum. Í svari kærða B þann 27. sama mánaðar hafi verið upplýst um stöðu málsins og að málflutningur um fyrningu færi fram þann 23. janúar 2019. Byggja kærðu á að af tilgreindum samskiptum megi ljóst vera að aðeins eitt mál, þ.e. málið á hendur sjúkraþjálfaranum, hafi verið til umræðu en ekki málshöfðun á hendur læknunum. Hafi sú málshöfðun aldrei borið á góma og því sé ljóst að aldrei hafi af henni orðið þar sem kærandi hafi ákveðið að það mál skyldi ekki höfðað.

Kærðu byggja á að málatilbúnaður kæranda sé villandi um ætlaða beiðni hans um að kærði B skyldi stefna læknunum að nýju í hans þágu. Vísa kærðu til þess að hér vísi kærandi til tölvubréfa frá 6. júní 2018 eða lögnu áður en tölvubréfasamskipti þau urðu þar sem ákveðið hafi verið að stefna læknunum ekki að nýju heldur halda áfram með málið á hendur sjúkraþjálfaranum. Sé það algerlega rangt og beinlínis ósannsögli sem greini í kvörtun kæranda um að læknunum hafi ekki verið stefnt þrátt fyrir beiðni hans þar um.

Vísað er til þess í málatilbúnaði kærðu að þann 3. desember 2018 hafi komið fyrirvaralaus tilkynning frá kæranda í tölvubréfi um að umboð stofnunnar væri afturkallað og að öðrum lögmanni hafi verið falin meðferð málsins. Hafi kærandi jafnframt óskað eftir að gerður yrði reikningur á hendur honum fyrir vinnu sem þegar hefði verið innt af hendi við málið.

Benda kærðu á að eftir veitingu gjafsóknarleyfis hafi kærandi ekki fengið reikninga frá lögmannsstofu þeirra útgefna til sín. Þá hafi ekki verið talin ástæða til að senda honum vinnuskýrslur sem á endanum yrðu fylgigögn málskostnaðarreiknings. Auk þess hafi kærandi aldrei óskað eftir neinum upplýsingum um hvað hefði verið reikningsfært enda honum ljóst að engir reikningar yrðu gerðir.

Kærðu vísa til fyrirliggjandi tölvubréfasamskipta um að kæranda hafi verið veittur sá möguleiki að greiða ekki til lögmannsstofu þeirra persónulega áfallinn kostnað heldur að sá háttur yrði hafður á að nýr lögmaður hans myndi leggja fram málskostnaðarreikning í dóm við aðalmeðferð málsins. Hafi engin viðbrögð komið af hálfu kæranda um þessa tillögu önnur en ítrekun um að hann fengi útgefinn til sín reikning, sem orðið hafi verið við.

Kærðu kveða ljóst að umfang málsins hafi verið mikið. Fjöldi gagna hafi fylgt málinu enda hafi kærandi verið ötull í að afla gagna, bæði læknisfræðilegra ganga um sig og annarra gagna til að styðja mál sitt. Hafi málskjöl verið ríflega 80 talsins og tölvubréfasamskipti milli kæranda og kærða B um 340 talsins, sum hver nokkuð löng. Þá hafi töluverður fjöldi þýðinga á gögnum legið fyrir sem kærandi hafi gert kröfu um að yrðu lögð fram. Auk þess hafi verið lögð fram ítarleg matsbeiðni jafnframt því sem ótalin séu símtöl milli kærða B og kæranda.

Kærðu hafna því að þeir hafi gerst sekir um óvönduð vinnubrögð og hvað þá að hafa hunsað fyrirmæli kæranda. Þá hafi kærðu C og D aðeins komið að málinu eftir að krafa um skiptingu sakarefnis málsins kom fram af hálfu stefnda, en þá hafi kærði B verið farinn í námsleyfi.

Um álitamál er lýtur að hæfilegu endurgjaldi fyrir veitta þjónustu vísa kærðu til þess að það sé vandséð hvernig úrskurðarnefnd lögmanna geti tjáð sig um hæfilegt endurgjald í málinu þegar dómstóll eigi enn eftir að ákvarða málskostnað á grundvelli gjafsóknarleyfis. Benda kærðu á að það væri þá fyrst tilefni til aðkomu úrskurðarnefndarinnar ef lögmannsstofa kærðu myndi áskilja sér annað og hærra endurgjald en dómstóllinn myndi ákvarða í málinu og ekki semdist um með aðilum.

Í viðbótarathugasemdum kærðu í málinu er vísað til þess að lögmannsstofu þeirra hafi annars vegar verið falið að fara með málskostnaðarkröfu á hendur F hf. fyrir dómstóla og hins vegar að stefna læknum og sjúkraþjálfara fyrir dóm til heimtu skaðabóta. Hafi málskostnaðaráætlunin miðast við hið fyrrgreinda mál sem hafi unnist og fært kæranda ríflega 2.200.000 krónur. Þá hafi kærandi greitt 513.000 krónur í málskostnað til lögmannsstofu kærðu sem hafi verið vel innan þeirra marka sem honum hafi verið tjáð að kostnaðurinn gæti numið.

Varðandi hið síðargreinda mál vísa kærðu til þess að kærandi haldi sig við ósannsögli um að hann hefði „aldrei samþykkt að hætta við málið á hendur læknunum.“ Benda kærðu á að því máli hafi verið vísað frá dómi hvað læknana varðaði og að af samskiptagögnum megi glögglega sjá að kærandi hafi tekið ákvörðun um að halda málinu eingöngu áfram gegn sjúkraþjálfaranum en fara ekki frekar fram gegn læknunum. Kærði B hafi ítrekað við kæranda í tölvubréfi 25. júní 2018 að líkur væru á að krafan á sjúkraþjálfarann væri fyrnd og að líkurnar væru mun meiri í læknana. Í svari kæranda hafi komið fram að hann hafi aðeins farið í tvær aðgerðir „til að laga krossbandið“, sem hann reki til mistaka læknanna, en „20 aðgerðir á vöðvunum“ sem hann reki til mistaka sjúkraþjálfarans. Hafi kærði B virt þá ákvörðun kæranda. Verði þannig bersýnilega ráðið af samskiptunum að kærandi hafi tekið ákvörðun um að halda aðeins með málið áfram á hendur sjúkraþjálfaranum.

Bent er á að af tölvubréfi kærða B til kæranda daginn eftir megi sjá að hann leggi til, auk þess að halda áfram með málið á hendur sjúkraþjálfaranum, að afla dómkvadds mats og þá sé síðar hægt að taka læknana með. Þá komi eftirfarandi fram í tölvubréfinu: „ef þú vilt svo halda áfram með læknana þá er nauðsynlegt að stefna þeim í síðasta lagi í haust í sérstöku máli til að rjúfa fyrningu...“. Vísa kærðu til þess að það geti ekki misskilist hvað átt sé við í tölvubréfinu. Sé því fráleitt af kæranda að halda því fram að kærði B hafi átt að vera fullkomlega ljós meintur vilji hans til að gefa út nýja stefnu á hendur læknunum.

Vísað er til þess að það hafi verið fyrst 18. október 2018 að kærandi hafi spurt kærða B um stöðuna „á málinu“. Þannig hafi kærandi ekki spurt út í stefnu á læknana, hvorki þá né síðar, sem staðfesti að honum hafi verið vel kunnugt um að ekkert annað mál væri í gangi á hans vegum á lögmannsstofu kærðu.

Þá benda kærðu á að misskilnings virðist gæta hjá kæranda um málarekstur á hendur viðkomandi sjúkraþjálfara. Þannig hafi aldrei verið gefin út ný stefna á hendur sjúkraþjálfaranum heldur hafi krafan á hann staðið eftir af upphaflega málinu. Auk þess kveða kærðu málatilbúnað kæranda um inntak fyrningarlaga og að kærði B hafi ekki bent á greinar þeirra laga í málflutningi vera hreina fjarstæðu. Þá eigi það undir dómstóla að meta hvort kröfur séu fyrndar auk þess sem þær málsástæður séu hafðar uppi í málarekstri á hendur sjúkraþjálfaranum. Verði þannig engin réttarspjöll rakin til kærða B eða annarra varðandi þau atriði.

Að endingu mótmæla kærðu ætluðum dylgjum kæranda um að tímafjöldi hafi verið falsaður og að kærðu hafi ekki unnið að heilindum í máli hans. Varðandi staðhæfingu kæranda um að símtöl hafi ekki farið fram benda kærðu á að símtöl séu ekki alltaf skráð í tímaskráningarkerfi, sér í lagi ef þau eiga sér stað á meðan unnið sé að máli.

 

Niðurstaða

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærðu hafi gerst brotlegir við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærðu.

 I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í þessum þætti krefst kærandi þess annars vegar að viðurkennt verði að það hafi verið aðfinnsluvert af hálfu hinna kærðu lögmanna að hafa ekki látið kæranda í té raunhæft mat á heildarkostnaði málsins í upphafi og að kærandi hafi hvorki fengið að fylgjast með kostnaði málsins í samræmi við loforð þar að lútandi né upplýsingar um að kostnaður væri orðinn mikill miðað við hagsmuni málsins. 

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna að lögmanni beri að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni jafnframt að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Fyrir liggur að kærandi lýsti því við upphaf réttarsambands málsaðila, nánar tiltekið í tölvubréfi þann 11. ágúst 2016, að mikilvægt væri að hann fengi að fylgjast með kostnaði vegna þess máls sem til skoðunar var að lögmannsstofa kærðu tæki að sér í hans þágu jafnframt því sem kærandi óskaði eftir upplýsingum um tímagjald og mat á heildarkostnaði vegna málsins.

Tilgreindu erindi kæranda var svarað með tölvubréfi þann 12. ágúst 2016  af hálfu kærða B, en gerð er grein fyrir efni þess í málsatvikalýsingu að framan. Var þar tiltekið að í ljósi flækjustigs og umfangs slíks máls yrði kostnaður vegna rekstur þess ekki undir 1.000.000 króna með fyrirvara um framhald og þróun málsins. Þá var tiltekið að kærandi fengi að fylgjast með kostnaðinum og að unnt væri að meta betur heildarkostnað málsins síðar eftir framvindu þess.

Á grundvelli fyrirliggjandi samskipta málsaðila um þetta efni og málatilbúnaðar aðila verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að það mat á kostnaði sem tilgreint var í fyrrgreindu erindi kærða B til kæranda, dags. 12. ágúst 2016, hafi verið bundið og takmarkað við rekstur þess máls sem lyktaði með dómi Héraðsdóms X x. október 2017 í máli nr. E-xxx/xxxx. Samkvæmt því hafi kostnaðaráætlunin að þessu leyti ekki tekið til skaðabótamáls þess sem kærðu sinntu og ráku í þágu kæranda allt til 3. desember 2018, er umboð þeirra var afturkallað af hálfu kæranda, sbr. héraðsdómsmálið nr. E-xxx/xxxx.

Um það sakarefni sem hér greinir var jafnframt tiltekið í verkbeiðni/umboði, dags. 12. ágúst 2016, sem ágreiningslaust er að gilti í lögskiptum aðila, að lögmannsstofa kærðu skyldi láta kæranda í té áætlun um heildarkostnað vegna tiltekinna afmarkaðra verkefna, ef unnt væri og þess væri óskað af hálfu kæranda. Þá var þar tiltekið að kærandi væri skuldbundinn til að greiða upp í verkið mánaðarlega gegn útgáfu reiknings.

Fyrir liggur að kæranda var ekki gerð frekari grein, en áður er rakið, fyrir áætluðum heildarkostnaði vegna þeirra mála sem lögmannsstofa kærðu tók að sér í hans þágu. Þá er jafnframt ágreiningslaust að reikningar voru ekki gerðir mánaðarlega vegna vinnu þeirrar sem kærðu inntu af hendi í þágu kæranda.

Á hinn bóginn verður að mati nefndarinnar að líta til þess að reikningar voru sannanlega gefnir út með reglulegu millibili á hendur kæranda af lögmannsstofu kærðu á meðan réttarsamband aðila varði eða allt til þess tíma er kæranda var veitt gjafsóknarleyfi í októbermánuði 2017 vegna reksturs málsins nr. E-xxx/xxxx. Er um það efni vísað til reikninga nr. 3163 frá 2. desember 2016, nr. 3327 frá 4. maí 2017, nr. 3423 frá 23. ágúst 2017 og nr. 3555 frá 27. febrúar 2018, en hinn síðastgreindi reikningur var tilkominn vegna vinnu kærða B við rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx. Í öllum tilvikum var vísað til tímaskýrslu að baki reikningunum sem mun hafa fylgt með við útgáfu þeirra til kæranda. Af lestri þeirra mátti kæranda vera ljóst að reikningar væru ekki gerðir mánaðarlega vegna veittrar lögmannsþjónustu kærðu í þágu kæranda sem og að sú tilgreining á heildarkostnaði sem fram hafði komið í tölvubréfi kærða B frá 12. ágúst 2016 gæti í engu átt við um rekstur beggja þeirra mála sem lögmannsstofan sinnti.

Í þessu samhengi telur nefndin að ekki verði heldur fram hjá því litið að kærandi gerði í engu athugasemd við það háttalag sem viðhaft var við útgáfu reikninga lögmannsstofu kærðu á hendur kæranda. Þvert á móti bera gögn málsins með sér að reikningarnir hafi verið greiddir athugasemdalaust af kæranda og að ekki hafi verið óskað eftir frekara mati á heildarkostnaði vegna málanna beggja af hálfu kæranda eftir stofnun réttarsambands aðila þann 12. ágúst 2016.

Fyrir liggur að ekki voru gerðir reikningar á kæranda af hálfu lögmannsstofu kærðu vegna þóknunar og annars kostnaðar í tengslum við rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx eftir að gjafsóknarleyfi var veitt í málinu í október 2017, svo sem áður greinir. Hafa kærðu um það efni vísað til þess fyrir nefndinni að ekki hafi verið talin ástæða til að senda vinnuskýrslur eftir fyrrgreint tímamark enda yrðu þær á endanum lagðar fram sem fylgigögn málskostnaðarreiknings fyrir dómi. Þá hafi kærandi aldrei óskað eftir neinum upplýsingum um hvað hefði verið reikningsfært enda hafi honum verið ljóst að engir reikningar yrði gerðir á hendur honum í ljósi gjafsóknarleyfisins.

Að mati nefndarinnar samrýmist málatilbúnaður kærðu um þetta efni fyllilega málsgögnum. Er þá annars vegar til þess að líta að kæranda hafi ekki getað dulist að kærðu hafi innt af hendi vinnuframlag í hans þágu frá ágústmánuði 2017 til 3. desember 2018 þegar umboð kærðu var afturkallað enda viðkomandi mál þá rekið fyrir dómstólum. Þá verður hins vegar litið til þess að kærandi sjálfur hefur kannast við fyrir nefndinni að hafa verið upplýstur um veitingu gjafsóknarleyfisins í október 2017.

Fyrir liggur að öllum kröfum kæranda á hendur stefndu í héraðsdómsmálinu nr. E-xxx/xxxx, að fyrstu varakröfu frátaldri sem gerð var á hendur F hf., var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms X uppkveðnum x. apríl 201x. Var sá úrskurður staðfestur með úrskurði Landsréttar x. júní 201x í máli nr. xxx/xxxx. Höfðu aðalkröfur kæranda í málinu verið að höfuðstólsfjárhæð 77.407.860 krónur, svo sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan, en fyrsta varakrafan var að höfuðstólsfjárhæð 22.792.720 krónur auk vaxta og kostnaðar.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi kröfugerð, tímamarki fyrrgreindra úrskurða og atvikum öllum verður með engu móti fallist á með kæranda að hinir kærðu lögmenn hafi brotið gegn kæranda með því að hafa ekki upplýst hann um að kostnaður vegna málsins væri orðinn mikill miðað við hagsmuni málsins. Er þá jafnframt til þess litið að kærandi var þegar upplýstur um niðurstöðu úrskurða héraðsdóms og Landsréttar eftir uppkvaðningu þeirra.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða nefndarinnar að hinir kærðu lögmenn hafi ekki gert á hlut kæranda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 vegna þeirra atvika sem hér um ræðir.

Kærandi krefst hins vegar í þessum þætti viðurkenningar á því að aðfinnsluvert hafi verið af hálfu kærðu að hafa ekki höfðað nýtt mál, líkt og samið hafi verið um, á hendur þeim aðilum sem úrskurður Landsréttar í máli nr. xxx/xxx um frávísun hafði tekið til.

Um þetta efni liggja fyrir í málsgögnum tölvubréfasamskipti kæranda og kærða B á tímabilinu 6. – 27. júní 2018, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu. Af þeim samskiptum verður ráðið að komið hafi skoðunar á milli aðila hvort rétt væri að höfða mál að nýju á hendur þeim aðilum sem frávísun hafði tekið til eða hvort halda skyldi áfram rekstri þess dómsmáls sem þá var enn rekið fyrir Héraðsdómi X samkvæmt þeim kröfum sem eftir stóðu. Að mati nefndarinnar verður hins vegar ekki önnur ályktun dregin af þeim samskiptum en að niðurstaðan hafi orðið sú að áfram skyldi haldið með rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx og að kærandi þyrfti á síðari stigum að taka ákvörðun um hina nýja málshöfðun. Fær það fulla stoð í samþykki því sem kærandi veitti fyrir tillögu kærða B um framhald málanna sem sett var fram í tölvubréfi þann 27. júní 2018, en efni þess er tekið beint upp í málsatvikalýsingu að framan.

Samkvæmt því og með hliðsjón af atvikum öllum og málsgögnum verður ekki talið að kæranda hafi tekist að sýna fram á í máli þessu að kærðu hafi tekið að sér í hans þágu að höfða nýtt mál á hendur viðkomandi aðilum eftir uppkvaðningu úrskurðar Landsréttar x. júní 201x í máli nr. xxx/xxx. Með vísan til þess eru ekki skilyrði til að telja að kærðu hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Með vísan til alls framangreinds er að áliti nefndarinnar ekki efni til að telja að kærðu hafi brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna með þeirri háttsemi sem umþrætt er í máli þessu og kvörtun kæranda lýtur að.

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Áður er gerð grein fyrir efni 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna en í 15. gr. þeirra segir að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Varðandi ágreining um endurgjald það sem kærðu áskildu sér vegna starfa í þágu kæranda hefur kærandi annars vegar krafist endurgreiðslu á 290.160 krónum samkvæmt reikningi nr. 3555 sem útgefinn var þann 12. febrúar 2018. Reikningurinn var að heildarfjárhæð 513.360 krónur með virðisaukaskatti og tók hann til vinnu kærða B á tímabilinu frá 25. september til 3. október 2017, samkvæmt tímaskýrslu sem fylgdi með reikningnum, vegna undirbúnings og aðalmeðferðar héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Tók tímaskýrslan til alls 23 klukkustunda á tímagjaldinu 18.000 krónur auk virðisaukaskatts. 

Kærandi hefur borið því fyrir nefndinni að miðað við einfaldleika málsins hafi kostnaður að þessu leyti vegna reksturs málsins verið úr hófi. Samkvæmt því sé farið fram á „afslátt“ sem nemi 13 klukkustunda vinnuframlagi kærða B af undirbúningsvinnu fyrir aðalmeðferð málsins, eða alls 290.160 krónur.

Um þetta ágreiningsefni er til þess að líta að kæranda var í upphafi lögskipta aðila kynnt að kostnaður vegna reksturs þessa afmarkaða máls, eins og tölvubréfasamskipta aðila verða réttilega túlkuð samkvæmt áðurgreindu mati nefndarinnar, yrði ekki undir 1.000.000 króna. Viðhafði kærði B jafnframt fyrirvara við það mat á heildarkostnaði málsins í ljósi flækjustigs og umfangs gagna auk þess sem mál er lytu að læknamistökum væru flókin í eðli sínu.

Auk fyrrgreinds reiknings verður ráðið af málsgögnum að áður hafi lögmannsstofa kærða gert reikning á hendur kæranda vegna reksturs þess, þ.e. nánar tiltekið reikning nr. 3163 þann 2. desember 2016 að fjárhæð 1.180.480 krónur með virðisaukaskatti. Var því lýst í reikningnum að hann væri samkvæmt tímaskýrslu og að innborgun að fjárhæð 700.000 krónur kæmi til frádráttar. Samkvæmt því væri til greiðslu alls 480.480 krónur. Þá liggur fyrir samkvæmt tilgreindri tímaskýrslu sem vísað var til í reikningnum að hann tók til vinnu kærða B á tímabilinu frá 11. ágúst til 30. nóvember 2016, eða alls 54,40 klukkustunda á tímagjaldinu 17.500 krónur auk virðisaukaskatts.

Samkvæmt því var endurgjald það sem lögmannsstofa kærðu áskildi sér úr hendi kæranda vegna reksturs héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx að heildarfjárhæð 1.693.840 krónur með virðisaukaskatti.

Fyrir liggur að með dómi Héraðsdóms X í máli nr. E-xxx/xxxx var fallist á kröfur kæranda á hendur F hf. og var dæmdur málskostnaður í hans þágu úr hendi gagnaðila að fjárhæð 500.000 krónur. Þá er ágreiningslaust að kærandi fékk í sinn hlut eftir uppgjör samkvæmt dómsorði 2.234.790 krónur.

Um þetta efni er jafnframt til þess að líta að í verkbeiðni þeirri sem ágreiningslaust er að gilti í lögskiptum aðila var kveðið á um að kærandi væri skuldbundinn til að greiða lögmannsstofu kærðu fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofunnar á hverjum tíma á grundvelli tímaskráningar í verkinu.

Eins og ágreiningur aðila um þennan þátt er afmarkaður samkvæmt kröfugerð kæranda verður aðeins til þess litið hvort reikningur lögmannsstofu kærðu nr. 3555 frá 12. febrúar 2018 feli í sér hæfilegt endurgjald að teknu tilliti til þeirra verkþátta sem hann tók til.

Að mati nefndarinnar var tímagjald kærða B, að fjárhæð 18.000 krónur auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Samkvæmt tímaskýrslu að baki reikningnum, sem ágreiningslaust er að kærandi móttók samhliða reikningnum, var alls 19 klukkustundum varið af hálfu hins kærða lögmanns í undirbúning aðalmeðferðar málsins en 4 klukkustundum í aðalmeðferðina sjálfa. Að áliti nefndarinnar verður ekki séð að sá tímafjöldi hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við umfang málsins og það verkefni sem kærða var falið að sinna að þessu leyti. Þá verður að ekki fram hjá því litið að mati nefndarinnar að þóknunin var reiknuð á grundvelli forsendna sem aðilar höfðu sammælst um í upphafi, þ.e. á grundvelli tímagjalds samkvæmt tímaskráningu, og að reikningurinn var greiddur athugasemdalaust af hálfu kæranda sem hafði þá þegar fengið afrit af tímaskýrslu sem reikningurinn grundvallaðist á.

Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf þau sem kærði B innti af hendi í þágu kæranda samkvæmt reikningi nr. 3555 sé að fjárhæð 513.360 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem lögmannsstofa kærðu áskildi sér  vegna starfa í þágu kæranda í tengslum við rekstur hérðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx var hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um endurgreiðslu að fjárhæð 290.160 krónur úr hendi hinna kærða lögmanna.

Í máli þessu gerir kærandi hins vegar kröfu um 50% endurgreiðslu af lögmannsþóknun vegna þess skaðabótamáls sem hinir kærðu lögmenn ráku fyrir hann allt til 3. desember 2018 í héraði og fyrir Landsrétti að því er laut að formhlið málsins, undir málsnúmerunum E-xxx/xxxx og xxx/xxxx. Er krafa kæranda um endurgreiðslu úr hendi kærðu að fjárhæð 2.458.378 krónur, en gerð er grein fyrir undirliggjandi reikningum þar að lútandi og tímaskýrslum í málsatvikalýsingu að framan.

Um þetta sakarefni er til þess að líta að undir rekstri málsins neytti nefndin heimildar í 2. mgr. 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og aflaði dóms Héraðsdóms X í máli nr. E-xxx/xxxx sem kveðinn var upp þann x. febrúar 2019. Nýr lögmaður hafði þá tekið við rekstri málsins í þágu kæranda og flutti það munnlega í héraði þann x. janúar 2019 samkvæmt þeirri sakarskiptingu sem héraðsdómari hafði ákveðið. Með dóminum var F hf. sýknað af kröfum kæranda á grundvelli fyrningar en samkvæmt dómsorði skyldi allur gjafsóknarkostnaður kæranda greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun kærða C að fjárhæð 2.700.000 krónur. Samkvæmt dómvenju mun gjafsóknarþóknunin hafa verið ákvörðuð án virðisaukaskatts, sbr. til hliðsjónar dóm Landsréttar í máli nr. x/xxxx. Þá liggur fyrir að kærandi hefur áfrýjað fyrrgreindum dómi héraðsdóms til Landsréttar.

Með hliðsjón af framangreindu er þess að gæta í þessum þætti málsins að kærandi hefur í engu skýrt undir rekstri þess hvernig fyrrgreind gjafsóknarþóknun, sem dæmd var í héraðsdómsmálinu nr. E-xxx/xxxx þann x. febrúar 201x, samræmist málatilbúnaði hans fyrir nefndinni og þá hvaða áhrif hún hefur fyrir kröfugerð aðilans um endurgreiðslu lögmannsþóknunar úr hendi hinna kærðu lögmanna að þessu leyti. Þegar af þeirri ástæðu, sem og að teknu tilliti til þess að kærandi hefur fyrir sitt leyti áfrýjað fyrrgreindum dómi héraðsdóms með þeim réttaráhrifum að gjafsóknarþóknun hans vegna starfa hinna kærðu lögmanna kann að koma til endurskoðunar fyrir Landsrétti, verður ekki hjá því komist að vísa endurgreiðslukröfu kæranda að fjárhæð 2.485.378 krónur frá nefndinni með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærðu, B lögmaður, C lögmaður og D lögmaður hafa ekki gert á hlut kæranda A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Áskilin þóknun kærðu vegna starfa þeirra í þágu kæranda, í tengslum við rekstur héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/xxxx, felur í sér hæfilegt endurgjald. Endurgreiðslukröfu kæranda að fjáhæð 290.160 krónur er hafnað.

Kröfu kæranda um að kærðu verði gert að greiða honum 50% af lögmannsþóknun vegna skaðabótamáls þess sem rekið var undir málsnúmerinu E-xxx/xxxx fyrir Héraðsdómi X og málsnúmerinu xxx/xxxx fyrir Landsrétti, eða alls 2.458.378 krónur, er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson