Mál 1 2020
Mál 1/2020
Ár 2020, föstudaginn 4. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 1/2020:
A,
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. janúar 2020 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. C lögmaður fer með mál kæranda fyrir nefndinni.
Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 22. janúar 2020. Greinargerð kærða barst til nefndarinnar þann 2. mars 2020 og var hún send samdægurs til kæranda þar sem aðilanum var jafnframt veitt færi á að koma að frekari athugasemdum.
Með bréfi nefndarinnar til lögmanns kæranda, dags. 11. júní 2020, var óskað eftir, á grundvelli heimildar í 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, að gerð yrði grein fyrir, eftir atvikum með framlagningu gagna, hvort og þá með hvaða hætti hið útgefna og samþykkta handhafaskuldabréf að fjárhæð 200.000.000 króna, dags. 1. maí 2019, hafi haft, eða kynni að hafa, áhrif á fjárhagslega hagsmuni kæranda. Svar kæranda við fyrirspurninni var móttekið þann 23. júní 2020 og var það kynnt kærða með bréfi, dags. 25. sama mánaðar, þar sem honum var jafnframt veittur kostur á að hafa uppi frekari athugasemdir. Viðbótarathugasemdir kærða bárust loks til nefndarinnar þann 7. ágúst 2020. Með bréflegu erindi nefndarinnar til málsaðila, dags. 13. ágúst 2020, var tilkynnt um að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið.
Málsatvik og málsástæður
I.
Fram hefur komið af hálfu kærða fyrir nefndinni að hann hafi um nokkurt skeið aðstoðað D, eiginmann kæranda, við ýmis lögfræðileg úrlausnarefni. Reki umbjóðandi hans verktakafyrirtæki sem standi að ýmsum framkvæmdum. Meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna umboð, dags. 17. maí 2019, sem tilgreindur aðili veitti kærða og lögmannsstofu hans til hagsmunagæslu vegna skilnaðar hans við kæranda.
Um hinn fyrirhugaða skilnað hefur kærandi vísað til þess að hún hafi reynt í nokkur ár að skilja við umbjóðanda kærða. Hafi málið verið lengi til meðferðar hjá sýslumanni, án árangurs, en kærandi hafi lengst af ekki haft lögmann sér til fulltingis. Um þetta efni er á meðal málsgagna að finna endurrit úr hjónaskilnaðarbók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 30. janúar 2018 þar sem bókuð var ósk kæranda um skilnað að borði og sæng við umbjóðanda kærða á grundvelli 34. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Af hálfu kærða hefur verið vísað til þess að umbjóðandi hans hafi óskað eftir í apríl 2019 að kærði tæki að sér skjalavinnslu vegna handhafaskuldabréfa sem fyrirhugað hafi verið að þinglýsa á fasteign þeirra hjóna að F í G og ökutæki í eigu eins af fyrirtækjum í hans eigu, H ehf. Hafi umbjóðandi kærða þannig haft í hyggju að selja veðskuldabréfin svo tryggja mætti fé í þær framkvæmdir sem félög í hans eigu stóðu að. Hafi umbjóðandinn áður gert slíka löggerninga í samráði við kæranda líkt og fyrirliggjandi tryggingarbréf, útgefin 18. október 2016 og 3. janúar 2017, beri með sér en þau eru meðal málsgagna fyrir nefndinni sem og veðbandayfirlit viðkomandi fasteignar. Hefur kærði á það bent að kærandi hafi samþykkt hinar fyrri veðsetningar með undirritun sinni og að hún hafi gert það eftir að samvistum hafi lokið. Þá hafi umbjóðandi kærða jafnframt óskað eftir að kærði hefði milligöngu um að útbúa drög að skilnaðarsamningi þar sem til hafi staðið að ganga frá þeim málum á milli aðila.
Meðal málsgagna er að finna bréf sem embætti skattrannsóknarstjóra beindi til umbjóðanda kærða, dags. 14. maí 2019, þar sem tilkynnt var um að hafin yrði rannsókn á tekjum og skattskilum vegna tekjuáranna 2016 – 2018.
Ágreiningslaust er að kærandi mætti til fundar á skrifstofu kærða í maímánuði 2019 en nákvæm dagsetning þess fundar liggur ekki fyrir í málsgögnum. Jafnframt hefur verið upplýst fyrir nefndinni að á fundinum hafi legið fyrir drög skilnaðarsamnings á milli umbjóðanda kærða og kæranda sem og drög að handhafaskuldabréfi að fjárhæð 200.000.000 króna sem átti samkvæmt efni sínu að hvíla á sjöunda veðrétti fasteignarinnar að F í G, en kærði mun hafa ritað viðkomandi skjöl. Samkvæmt handhafaskuldabréfinu var umbjóðandi kærða útgefandi þess en gert var ráð fyrir undirritun kæranda sem þinglýsts eiganda 50% eignahlutar í viðkomandi fasteign.
Kærandi hefur vísað til þess fyrir nefndinni að hún hafi verið blekkt af kærða og umbjóðanda hans til að rita samþykki sitt á handhafaskuldabréfið á fundinum. Kærði hefur hins vegar vísað til þess að kærandi hafi skrifað undir handhafaskuldabréfið af fúsum og frjálsum vilja eftir að hafa fengið vandlegar útskýringar á hvað fælist í því að eignin yrði veðsett með þessum hætti. Kærandi hafi hins vegar kosið að ganga ekki frá undirritun undir skilnaðarsamninginn á fundinum þar sem hún hafi viljað fá einhvern þriðja aðila til að yfirfara skjalið. Engum athugasemdum hafi verið hreyft við því.
Fyrir liggur að tilgreint handhafaskuldabréf, dags. x. maí 2019, var móttekið til þinglýsingar hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þann x. sama mánaðar þar sem það var innfært á fasteignina að F í G þann x. júní 2019.
Meðal málsgagna er jafnframt að finna veðbandayfirlit fasteignarinnar, dags. x. júní 2020, þar sem meðal annars kemur fram að viðkomandi handhafaskuldabréf hvíli á x. veðrétti fasteignarinnar en að á x. og x. veðrétti hvíli kyrrsetningargerðir Skattsins frá x. nóvember 2019. Jafnframt liggur fyrir matsvottorð eignarinnar miðað við 31. desember 2017 þar sem fasteignamat er tilgreint að fjárhæð x krónur. Þá liggur jafnframt fyrir af málsgögnum að fasteignamat eignarinnar var x krónur á árinu 2020 en fyrirhugað fasteignamat vegna ársins 2021 er x krónur.
Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi lagt fram kæru á hendur kærða og umbjóðanda hans, D, þann x. september 2019 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna ætlaðra fjársvika þeirra í tengslum við útgáfu fyrrgreinds handhafaskuldabréfs og blekkinga við að fá undirritun kæranda á skjalið sem þinglýsts eiganda 50% eignahlutar í viðkomandi fasteign. Fyrir liggur að kærandi gaf skýrslu hjá lögreglunni þennan sama dag en endurrit hennar er á meðal málsgagna.
Gögn málsins bera með sér að kærði og umbjóðandi hans hafi gefið skýrslur hjá lögreglu vegna hinna ætluðu refsiverðu brota dagana x. og x. nóvember 2019. Þá hefur kærði lagt fyrir nefndina bréf sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu beindi til hans þann x. febrúar 2020. Var í bréfinu vísað til fyrrgreindrar lögreglurannsóknar og tilkynnt, með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að rannsókninni hefði verið hætt þar sem ekki væri talinn grundvöllur til að halda henni áfram.
Fyrir liggur að með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, var úrskurðað um opinber skipti til fjárslita á milli kæranda og umbjóðanda kærða. Var J lögmaður skipuð skiptastjóri þennan sama dag. Varðandi opinberu skiptin er á meðal málsgagna að finna fundargerð skiptafundar frá x. apríl 2020, beiðni skiptastjóra til Héraðsdóms Reykjanss um úrlausn ágreinings frá x. maí 2020 og úrskurð sama dómstóls frá x. júní 2020 í máli nr. Q-x þar sem ágreiningsmálið var fellt niður og umbjóðanda kærða var gert að greiða kæranda málskostnað. Af tilgreindum gögnum verður ráðið að tekist hafi að jafna þau ágreiningsatriði sem uppi hafi verið, þar á meðal um að viðmiðunardag skipta skyldi miða við fyrstu fyrirtöku hjá embætti sýslumanns þann x. janúar 2018.
II.
Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði gert að sæta hörðustu viðurlögum sem lög bjóða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Kærandi vísar til þess að kvörtuninni sé beint að blekkingum kærða í starfi.
Um forsögu málsins vísar kærandi til þess að hún hafi reynt í nokkur ár að skilja við eiginmann sinn en kærði hafi gætt hans hagsmuna. Hafi málið verið lengi til meðferðar hjá sýslumanni, án árangurs, en kærandi hafi lengst af ekki haft lögmann sér til fulltingis. Lýsir kærandi því að hún hafi verið upplýst um í maímánuði 2019 að starfsmenn skattrannsóknarstjóra ríkisins hefðu komið að fasteign þeirra hjóna að F í G þar sem þeir hefðu afhent eiginmanni kæranda gögn.
Vísað er til þess að síðla maímánaðar 2019 hafi eiginmaður kæranda óskað eftir fundi með kæranda á skrifstofu kærða. Hafi kærandi mætt á þann fund þar sem legið hafi á borðinu bæði fjárskiptasamningur sem og annað blað. Kveðst kærandi hafa gert kærða og umbjóðanda hans grein fyrir að hún gæti ekki skrifað undir fjárskiptasamninginn án þess að skilningur væri á hvað í honum stæði. Hins vegar hafi kærði útskýrt fyrir kæranda á ensku að rita þyrfti undir hitt skjalið strax. Um væri að ræða samkomulag um að eiginmaður kæranda myndi yfirtaka öll lán á viðkomandi fasteign. Lýsir kærandi því að hún hafi tekið þessum orðum trúanlegum þar sem nafn eiginmanns hennar hafi verið efst og síðan hafi verið talin upp öll lán sem hvílt hafi á fasteigninni.
Kærandi vísar til þess að kærði hafi upplýst hana um að þetta væri fyrir bestu því að öðrum kosti myndi kærandi tapa allra eign til skattsins. Hafi kærði samhliða því prentað út blað af vefsíðu ríkisskattstjóra, afhent kæranda það og bent á orðið „kyrrsetning“.
Kærandi kveðst hafa skilið málið þannig að eiginmaður hennar væri að yfirtaka fyrrgreind lán til uppgreiðslu á þeim. Hafi það ekki komið á óvart enda eiginmaðurinn fjárhagslega vel stæður. Samkvæmt því hafi kærandi staðið í þeirri trú að um væri að ræða lið í að ganga frá þessum málum svo eiginmaður hennar gæti leyst mál sín gagnvart skattyfirvöldum á löglegan hátt.
Vísað er til þess að kærði hafi meinað kæranda að taka með sér skjalið af fundinum. Er því lýst að kærði hafi tjáð kæranda á fundinum að honum þyrfti að treysta og að hag kæranda væri best borgið með því að rita strax undir skjalið. Kveðst kærandi hafi ritað undir skjalið á skrifstofu kærða í þeirri trú enda hefði hún þá loks getað fengið þann skilnað sem hún hefði barist fyrir, eiginmaður hennar myndi greiða upp öll lánin og gera upp í framhaldinu við skattyfirvöld.
Kærandi vísar til þess að hún hafi fengið fjárskiptasamninginn þýddan í júní 2019. Í framhaldi af því hafi hún leitað til lögmanns til að fá upplýsingar um réttarstöðu sína, þ.e. varðandi fjárskiptasamninginn. Hafi kærandi tjáð lögmanninum að eiginmaður hennar hefði yfirtekið öll áhvílandi lán á fasteigninni. Í framhaldi af því hafi verið tekið út veðbandayfirlit yfir fasteignina þar sem meðal annars hafi komið fram handhafaskuldabréf að fjárhæð 200.000.000 krónur en það hafi verið það skjal sem kærandi hafi undirritað á skrifstofu kærða á fyrrgreindum fundi. Kveðst kærandi þá hafa brotnað niður enda hafi vilji hennar aldrei staðið til að samþykkja slíkt handhafaskuldabréf á sama tíma og hún hafi barist fyrir að fá sinn hlut í fasteigninni greiddan út.
Kærandi kveðst hafa rætt við eiginmann sinn í framhaldi þessa. Hafi hann upplýst kæranda um að málið hefði verið skipulagt af kærða og að kærandi gæti aldrei fengið umræddu handhafaveðskuldabréfi aflétt enda lægi ekki fyrir hver hefði það undir höndum. Jafnframt því hafi komið fram að kærandi ætti ekki að vera með lögmann, það myndi koma sér enn verr. Lýsir kærandi því að af þeim sökum hafi hún ekki þorað að gera neitt í málinu strax.
Kærandi vísar til þess að hún hafi að endingu tekið þá ákvörðun að kæra eiginmann sinn og kærða til lögreglunnar vegna tilgreindra fjársvika. Hafi kærandi jafnframt áttað sig á því tölvuvert síðar að handhafaskuldabréfið hefði ekki einu sinni rétta dagsetningu enda undirritað síðla maímánaðar 2019 en ekki þann 1. þess mánaðar líkt og getið sé um á bréfinu.
Vegna orða kærða á fundinum kveðst kærandi hafa treyst kærða enda um að ræða lögmann. Hafi aldrei hvarflað að kæranda að hún yrði beitt svo svívirðulegum brögðum af lögmanni. Kærði hafi á hinn bóginn tekið þátt í að blekkja sig til þess að samþykkja 200.000.000 króna handhafaskuldabréf á fasteignina, sem komi í veg fyrir að kærandi geti fengið greitt úr búinu. Ættu allir að vita að kærandi myndi aldrei skrifa undir slíkt, þ.e. ef vitneskja hefði legið fyrir um hvað stæði í umræddu skjali. Auk þess hafi kærði vitað að kærandi gæti hvorki talað né lesið íslensku. Hafi ekki farið á milli mála á fundinum að kærði hafi vitað að kærandi gerði sér ekki grein fyrir aðstæðum. Hafi kærði nýtt sér það til hagsbóta fyrir sinn umbjóðanda.
Samkvæmt því byggir kærandi á að kærði hafi beitt blekkingum til að hafa allar eigur af kæranda. Krefst kærandi þess því að kærði verði beittur hörðustu viðurlögum sem lög heimila.
Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að af veðbandayfirliti viðkomandi fasteignar megi sjá að hinu umþrætta handhafaskuldabréfi hafi verið þinglýst á x. veðrétt, en fasteignin sé sameiginleg eign kæranda og umbjóðanda kærða. Áætlað söluverð hafi verið um 130.000.000 króna en samkvæmt því hefði 50% eignarhlutur kæranda, að frádregnum skuldum, verið að minnsta kosti 26.135.748 krónur. Í ljósi þinglýsingar handhafaskuldabréfsins, að fjárhæð 200.000.000 króna, sé ljóst að hlutur kæranda sé enginn enda hafi kærði ítrekað upplýst um að handhafaskuldabréfið hefði verið selt og að því væru engar eignir til skipta.
Kærandi byggir á að með þeim gjörningi sem kvörtun taki til hafi kærði séð til þess að kærandi tapaði öllum eigum sínum enda hefði kærandi aldrei undirritað handhafaskuldabréfið nema vegna blekkinga kærða.
Vísað er til þess að kærði hafi afhent kæranda skilnaðarsamning, dags. 17. maí 2019, á fundi aðila í sama mánði. Í þeim samningi hafi hins vegar ekki verið minnst á umrætt handhafaskuldabréf. Styðji það fullyrðingar kæranda um að ekki hafi verið gerð grein fyrir því á fundinum að um handhafaskuldbréf hafi verið að ræða. Er því jafnframt lýst að kærði hafi afhent kæranda á fundinum bréf frá skattinum. Í dag viti kærandi til þess að um hafi verið að ræða tilkynningu um skattrannsókn. Þá hafi umbjóðandi kærða verið opinskár um að ráðleggingar kærða hafi lotið að veðsetningu eigna þar sem allar líkur yrðu á að skatturinn myndi í kjölfarið kyrrsetja eignina, líkt og raunin hafi orðið.
Að endingu vísar kærandi til þess að með veðsetningu fasteignarinnar hafi kærði ennfremur orðið til þess að ekki væri fyrir hendi veð vegna skattskuldar umbjóðanda hans, sem kærandi sé að hluta til ábyrg fyrir á grundvelli hjúskapar. Kveðst kærandi jafnframt óttast að þar sem hún ritaði undir bréfið, eftir að kærði og umbjóðandi hans fengu vitneskju um skattrannsókn, verði litið svo á að hún sé meðsek með kærði og umbjóðanda hans um að hafa ráðstafað hinni kyrrsettu eign að viðlagðri skaðabóta- og refsiábyrgð.
III.
Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda að mati nefndarinnar.
Kærði kveðst mótmæla málavaxtalýsingu kæranda sem rangri, ósannaðri og villandi að því leyti sem hún samræmist ekki lýsingu kærða á málavöxtum.
Um málsatvik vísar kærði til þess að hann hafi um nokkurt skeið aðstoðað D eiginmann kæranda, við ýmis lögfræðileg úrlausnarefni. Reki D verktakafyrirtæki sem standi meðal annars að uppbyggingu fjölbýlishúsa á Z.
Því er lýst að D hafi leitað til kærða í apríl 2019 með beiðni um að kærði tæki að sér skjalavinnslu vegna handhafaskuldabréfa sem fyrirhugað var að þinglýsa á fasteignina að F í G og ökutæki í eigu eins af fyrirtækjum D, H ehf. Er vísað til þess að umbjóðandi kærða hafi haft í hyggju að selja veðskuldabréfin svo tryggja mætti fé í þær framkvæmdir sem félög í hans eigu stóðu að. Hafi umbjóðandinn áður gert slíka löggerninga í samráði við kæranda líkt og sjá megi af tryggingarbréfum sem hvíla á fasteign þeirra. Hafi hinar fyrru veðsetningar verið framkvæmdar af K hf. áður en kærði hafi tekið að sér hagsmunagæslu í þágu D og eftir að hann og kærandi höfðu slitið samvistum í ágúst 2016, sbr. endurrit úr lögregluskýrslu um það efni. Er því lýst að kærandi hafi samþykkt hinar fyrri veðsetningar líkt og þá sem málið fyrir nefndinni hverfist um.
Kærði vísar til þess að umbjóðandi hans hafi einnig óskað eftir að hann tæki að sér að útbúa drög að skilnaðarsamningi þar sem til hafi staðið að ganga frá þeim málum. Lýsir kærði því að umbjóðandi hans hafi útvegað forsendur allra skjala og að drögin hafi verið útfærð samkvæmt hans óskum.
Vísað er til þess að D og kærandi hafi komið á fund til kærða í maímánuði 2019 til að ganga frá nefndum skjölum. Kveðst kærði þar hafa farið rólega, ítarlega og vandlega yfir skjölin fyrir báðum aðilum á ensku. Auk þess hafi hjónin rætt saman á pólsku um málið, án þess þó að kærða hafi verið kunnugt um hvað hafi farið þeirra í milli. Hafi kærandi tekið virkan þátt í fundinum og spurt ítarlegra spurninga á ensku varðandi skjölin og þau áhrif sem þau myndu hafa að lögum. Er því lýst að góður tónn hafi verið á fundinum. Þá hafi kærði staðið í þeirri trú að fullt samkomulag væri á milli hjónanna um þær ráðstafanir sem þau hafi falið kærða að skjalfesta.
Kærði lýsir því að kærandi hafi greint á fundinum, á lýtalausri ensku, að hún væri tilbúin til þess að skrifa undir handhafaskuldabréfið sem þinglýsa hafi átt á fasteignina að F í G. Hafi kærði þá verið búinn að útskýra vandlega fyrir kæranda hvað fælist í því að eignin yrði veðsett með þessum hætti. Að svo búnu hafi kærandi undirritað skuldabréfið en tekið fram að hún hygðist fá einhvern þriðja aðila til að lesa betur yfir með sér skilnaðarsamninginn. Hafi engin viðstaddra hreyft athugasemdum við því. Í framhaldi af því hafi kærði vottað handhafaskuldabréfið og séð um þinglýsingu þess samkvæmt fyrirmælum hjónanna.
Varðandi kröfu um frávísun málsins vísar kærði til 2. og 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er á því byggt að kvörtun kæranda sé með röngu þáttur í illvígri skilnaðardeilu kæranda við umbjóðanda kærða. Auk þess sé kvörtun reist á einhliða, órökstuddum og fullkomlega ósönnuðum staðhæfingum kæranda. Séu ávirðingar kæranda í kvörtun í senn rangar og ærumeiðandi aðdróttanir, hafðar frammi gegn betri vitun og í trássi við 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Vísar kærði einnig til þess að þrátt fyrir alvarleika ávirðinganna sé engin tilraun gerð til að leggja fram nokkur gögn til sönnunar þeim, enda þeim ekki til að dreifa.
Kærði byggir jafnframt á að málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd lögmanna feli í sér tvítekningu málsmeðferðar sem brjóti gegn 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ljóst sé af þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina að nákvæmlega sama mál hafi verið til rannsóknar hjá lögreglu þar sem það hafi verið fellt niður. Vísar kærði til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 24130/11 og 29758/11 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ríki skyldu gera ráðstafanir til þess að mál sem varða bæði viðurlög stjórnsýsluréttar og refsiréttar skyldu falla saman og að viðbrögð við meintum brotum skyldu ákveðin í einni málsmeðferð. Bendir kærði á að því fari fjarri að málsmeðferð sé fléttuð í eina heild í máli þessu. Þvert á móti þurfi kærði að sæta því, eftir að hafa verið sakborningur í lögreglurannsókn, að sama mál sé skoðað af þeirri stjórnsýslunefnd sem fari með agavald yfir lögmönnum en lengst af hafi málin verið til úrlausnar hjá tveimur aðilum á sama tíma. Standist það enga skoðun að kærði þurfi að sæta því að viðurlög vegna ákveðinnar meintrar háttsemi séu ákveðin í tvennu lagi, sbr. einnig dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 14939/03. Samkvæmt því beri að vísa málinu frá nefndinni.
Til vara krefst kærði þess að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Kveðst kærði vísa til sömu málsástæðna og áður greinir. Jafnframt því vísar kærði til þess að honum hafi verið falið að sinna ákveðinni skjalavinnslu fyrir umbjóðanda sinn. Hafi kærði verið í góðri trú um að kærandi hefði verið sátt við þá ósk eins og staðfest hafi verið á fundi með hjónunum. Auk þess hafi kærði ekki haft nokkurt frumkvæði að undirritun skjalsins, enda efni þess og forsendur óviðkomandi kærða. Vísar kærði til þess að þrátt fyrir það hafi hann útskýrt vandlega fyrir kæranda um hvað væri að ræða og hvers konar skuldbindingu það hefði í för með sér að undirrita handhafaskuldabréf. Hafi kærandi haft fullan skilning á þeim útskýringum sem fram fóru á ensku. Þá hafi kærandi áður skrifað undir sambærileg skjöl, sbr. eftirfarandi úr lögregluskýrslu yfir D vegna sama máls:
„Það sem A var að skrifa undir hjá skrifstofu B lögmanns voru svipaðir pappírar og hún hafði áður skrifað undir hjá K árið 2016 og 2017 og varðar fyrirtækjarekstur minn.“
Kærði vísar til þess að á sama tíma hafi staðið til að ganga frá skilnaðarsamningi á milli hjónanna. Eftir útskýringar kærða á fundinum hafi kærandi kosið að skrifa ekki undir þann samning enda hafi hún fyrst viljað fá tækifæri til þess að skoða hann betur með ótilgreindum þriðja aðila. Er á það bent á skilnaðarsamningurinn hafi þá ekki verið frekar ræddur en kærandi hafi tekið með sér af fundinum eitt eintak hans. Vísar kærði aftur til skýrslu fyrrgreinds D við lögreglurannsókn málsins:
„A hefur sagt að hún tali litla ensku sem er ekki rétt þar sem hún er verkstjóri hjá V veitingastað og hefur verið síðustu 3 ár og þarf að tala ensku. Þegar A skrifaði undir handhafaskuldabréfið [á] lögmannsstofu B[s], þá var útskýrt fyrir henni á ensku og svo pólsku hvað hún væri að skrifa undir. Það sem skrifað var undir hjá B var handhafaskuldabréf og svo skilnaðarpappírar. Henni var gefið val um að skrifa undir eða hvort hún myndi vilja taka pappírana með sér og yfirfara heima. A ákvað sjálf að skrifa undir pappírana með handhafaskuldabréfinu án þess að það væri verið að beita neinum þvingunum eða blekkingum enda málið útskýrt vel fyrir henni. A vildi sjálf skrifa undir handhafaskuldabréfið enda þekkti hún til bréfsins þar sem hún hefur skrifað undir svipaða pappíra áður eins og fram hefur komið en hún taldi sig þurfa tíma til að fara yfir pappírana varðandi skilnaðinn þar sem hún skrifaði ekki undir þá. Með að skrifa undir handhafaskuldabréfið þá gerði hún sér að sama skapi grein fyrir að hún gæti misst eignir frá sér ef fyrirtækið gengi illa en að sama skapi skipti engu máli ef fyrirtækið gengi vel.“
Kærði vísar til þess að við undirritun handhafaskuldabréfsins hafi legið frammi veðbókarvottorð vegna eignarinnar. Fyrir liggi að kærandi hafi áður ritað undir sambærileg skjöl, þ.e. tryggingarbréf sem gefin hafi verið út af fyrirtækjum eiginmanns hennar, sem hvíli á x. og x. veðrétti viðkomandi fasteignar. Hafi hin fyrri tryggingarbréf K hf. verið gefin út x. október 2016 og x. janúar 2017, þ.e. eftir að hjónin slitu samvistum í ágúst 2016. Samkvæmt því hafi kærandi að minnsta kosti tvívegis áður gengið frá sambærilegum skjölum eftir að samvistum hennar og eiginmanns hennar lauk, í bæði skiptin í þágu fyrirtækja sem lutu stjórn eiginmannsins. Vísar kærði jafnframt til eftirfarandi úr skýrslu umbjóðanda síns fyrir lögreglu:
„Það var enginn túlkur viðstaddur hjá K þegar skrifað var undir tryggingarbréfin árið 2016 og 2017 og málið var útskýrt vel fyrir okkur á ensku.“
Í samræmi við allt framangreint vísar kærði til þess að málið sé í grunninn þannig vaxið að honum hafi verið falin skjalavinnsla og þinglýsing skjala. Að öðru leyti séu kærða óviðkomandi viðskipti kæranda og eiginmanns hennar. Hafi kærði þannig enga hagsmuni af því hvernig þau skilja skiptum. Samkvæmt því sé nefndinni ófært annað en að komast að þeirri niðurstöðu að kærði hafi ekki gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Varðandi kröfu um málskostnað vísar kærði til 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 og 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Ljóst sé af fyrirliggjandi gögnum að kvörtun sé algjörlega tilhæfulaus og engum gögnum studd. Allt að einu hafi kærða verið ófært annað en að verja umtalsverðum tíma og tilkostnaði til þess að bregðast við kvörtuninni, svo sem skylt sé samkvæmt 4. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna. Sé því krafist málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Í viðbótarathugasemdum kærða er vísað til þess að svari kæranda vegna fyrirspurnar nefndarinnar sé mótmælt sem röngu, ósönnu, villandi og meiðandi í garð kærða.
Varðandi ætlað verðmæti fasteignarinnar að F í G bendir kærði á að málatilbúnaður kæranda um það efni sé ekki studdur neinum gögnum. Álykta megi þó að þær fjárhæðir sem kærandi byggi á vísi til fasteignamats frá Þjóðskrá Íslands fyrir árið 2021, sem sé x krónur. Vísar kærði hins vegar til þess að viðmiðunardagur skipta til fjárslita hjónanna sé x. janúar 2018 en ekki x. janúar 2021. Á þeim tíma hafi verðmæti fasteignarinnar verið x krónur, sbr. matsvottorð Þjóðskrár Íslands, enda eignin þá í byggingu og aðeins fokheld. Byggingin hafi síðan verið færð frá matsstigi 4 (fokheld bygging) upp á matsstig 5 (bygging tilbúin til innréttinga) þann x. september 2018, eða heilum átta mánuðum eftir viðmiðunardag skipta við fjárslitin. Þá hafi umbjóðandi kærða séð um alla vinnu við fasteignina og keypt þau efni sem til hafi þurft svo unnt væri að færa hana á milli matsstiga með tilheyrandi auknu verðgildi.
Um þetta efni vísar kærði jafnframt til þess að á viðmiðunardegi skipta til fjárslita hjónanna, þann x. janúar 2018, hafi fasteignin verið veðsett fyrir x krónur, líkt og greini í fyrirliggjandi gögnum. Samkvæmt því hafi eignin á viðmiðunardegi skipta til fjárslita verið yfirveðsett sem nemi x krónum. Sé því ljóst að nettó eign kæranda á viðmiðunardegi skipta hafi verið engin og því útilokað að þinglýsing handhafaskuldabréfsins hafi haft áhrif á hagsmuni hennar, hvorki til eða frá.
Að endingu gerir kærði athugasemdir við hæfi nefndarmanna til setu í málinu. Vísar kærði um það efni í fyrsta lagi til þess að tveir nefndarmanna gæti eða hafi gætt hagsmuna gagnaðila umbjóðanda kærða í dómsmálum sem nú séu rekin fyrir héraðsdómstólum. Byggir kærði á að þegar af þeirri ástæðu séu fyrir hendi aðstæður sem séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni viðkomandi nefndarmanna í efa með réttu, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í öðru lagi bendir kærði á að það sé fullkomlega óeðlilegt að úrskurðarnefnd lögmanna sé skipuð sjálfstætt starfandi lögmönnum sem starfi á jafn litlum samkeppnismarkaði og Ísland sé. Geti það vart talist eðlilegt að örfáir einstaklingar á samkeppnismarkaði skuli fara með agavald yfir kollegum sínum. Sé í því samhengi rétt að líta til þess að nefndarmaður geti orðið vanhæfur til meðferðar stjórnsýslumáls snerti það fjárhagslega samkeppnisstöðu hans eða fyrirtæki hans sem hann er í fyrirsvari fyrir enda þótt hvorki hann né fyrirtækið teljist aðili þess máls, sbr. fyrrgreint ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki verið betur séð en að allir nefndarmenn séu í beinni samkeppni við kærða. Í þriðja og síðasta lagi byggir kærði á að nefndin hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að hafa veitt lögmanni kæranda of víðtækar leiðbeiningar varðandi frekari gagnaframlagningu. Er vísað til þess að það sé ekki hlutverk nefndarinnar að bæta úr annmörkum í málatilbúnaði kæranda. Þvert á móti hafi kærandi átt að bera hallan af mögulegum sönnunarskorti í málinu.
Niðurstaða
I.
Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar voru gerðar athugasemdir við hæfi nefndarmanna til setu í málinu. Um það efni hefur kærði í fyrsta lagi vísað til þess að tveir nefndarmanna gæti eða hafi gætt hagsmuna gagnaðila umbjóðanda kærða í dómsmálum sem nú séu rekin fyrir héraðsdómstólum, í öðru lagi til þess að óeðlilegt sé að nefndin sé skipuð sjálfstætt starfandi lögmönnum sem fari með agavald yfir kollegum sínum á litlum samkeppnismarkaði og í þriðja lagi til þess að nefndin hafi brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að hafa veitt lögmanni kæranda of víðtækar leiðbeiningar varðandi frekari gagnaframlagningu í málinu. Vísar kærði um þetta efni til 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti séu fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.
Að mati nefndarinnar getur það eitt ekki leitt til vanhæfis að nefndarmenn í málinu hafi gætt eða gæti hagsmuna gagnaðila umbjóðanda kærða í dómsmálum sem rekin eru eða rekin hafi verið fyrir dómstólum. Fyrir liggur jafnframt að um skipun nefndarinnar fer samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en kærði hefur engin haldbær rök fært fyrir því í málinu að núverandi skipun nefndarinnar brjóti í bága við tilgreint lagaákvæði. Þá liggur fyrir að gagna- og upplýsingaöflun nefndarinnar undir rekstri málsins var reist á 1. og 2. mgr. 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna samkvæmt lagastoð í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998 þar sem fram kemur að meðferð mála fyrir nefndinni fari eftir stjórnsýslulögum nema annað leiði af ákvæðum V. kafla laganna og að nefndin setji sér innan þess ramma nánari reglur um meðferð einstakra málaflokka. Er í því samhengi jafnframt til þess litið að nefndinni bar að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst fyrir töku ákörðunar, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var kærða jafnframt veittur kostur á að hafa uppi andsvör við viðbótarathugasemdir og gagnaframlagningu kæranda í málinu, svo sem áður er reifað, en með því var gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti á milli málsaðila í skilningi 11. gr. stjórnsýslulaga.
Samkvæmt framansögðu og þar sem kærði hefur ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem geta verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni nefndarmanna með réttu í efa, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður ekki fallist á kröfu kærða um að nefndarmenn málsins víki sæti vegna vanhæfis.
II.
Rétt þykir að fjalla sérstaklega um frávísunarkröfu kærða. Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að kvörtun sé með röngu þáttur í illvígri skilnaðardeilu kæranda og umbjóðanda kærða og að hún sé sé reist á einhliða, órökstuddum og ósönnuðum staðhæfingum kæranda sem ekki séu studdar nokkrum gögnum. Beri að vísa málinu frá nefndinni af þeim sökum með vísan til 2. og 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá liggi fyrir að um tvítekningu málsmeðferðar sé að ræða sem brjóti gegn 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttamála Evrópu enda hafi nákvæmlega sama mál verið til rannsóknar hjá lögreglu þar sem það hafi verið fellt niður gagnvart kærða.
Í 2. mgr. 10. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna er kveðið á um að ef í máli er sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri máls, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, geti nefndin vísað máli frá. Þá er tiltekið í 3. mgr. 10. gr. að ef í máli sé réttarágreiningur, sem ekki falli undir valdsvið nefndarinnar, vísi hún málinu frá.
Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur að ætlaðri blekkingu kærða í störfum hans sem lögmanns gagnvart kæranda, sem gagnaðila umbjóðanda kærða. Fyrir liggur að hin ætlaða háttsemi kærða sem lýst er í kvörtun getur samkvæmt efni sínu tekið til ætlaðra brota á lögum og siðareglum lögmanna. Heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
Samkvæmt því fellur umkvörtunarefni kæranda á hendur kærða, sem lögmanni, undir valdsvið nefndarinnar. Að mati nefndarinnar verður jafnframt að líta svo á að álitaefni um hvort atvik að baki kvörtunarefni hafi verið nægjanlega leidd í ljós við meðferð málsins, að teknu tilliti til málatilbúnaðar aðila og málsgagna, varði atriði sem taka verði afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en geti ekki varðað frávísun þess frá nefndinni. Þá getur ekki breytt í þessu samhengi þótt sama sakarefni hafi komið til rannsóknar hjá lögreglu og verið fellt niður gagnvart kærða. Verður þannig ekki fundin stoð fyrir þeim málsástæðum kærða sem lúta að ætlaðri tvítekningu málsmeðferðar og brota gegn 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu og er þeim því hafnað.
Með hliðsjón af öllu framangreindu eru ekki skilyrði til að vísa málinu frá nefndinni líkt og kærði krefst og verður það því tekið til efnisúrlausnar.
III.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sem öðrum athöfnum.
Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar tiltekið í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Í 35. gr. siðareglnanna er því lýst að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en nánar er lýst í greininni hvað telst meðal annars ótilhlýðilegt í því samhengi. Þá er kveðið á um í 37. gr. siðareglnanna að lögmanni, sem kemur fram fyrir hönd skjólstæðings síns í máli við gagnaðila, sem gætir hagsmuna sinna sjálfur, sé eftir atvikum rétt að benda gagnaðila á að leita sér lögmannsaðstoðar, ef gagnaðila er augljós þörf á því.
IV.
Líkt og fyrr greinir lýtur ágreiningur málsins að því hvort kærði hafi gert á hlut kæranda með ætlaðri blekkingu á fundi sem haldinn var á skrifstofu kærða í maímánuði 2019, en fyrir liggur að kærði gætti hagsmuna gagnaðila kæranda á fundinum. Upplýst hefur verið fyrir nefndinni að á fundinum hafi kærandi ritað samþykki sitt, sem þinglýstur eigandi 50% eignahlutar í fasteigninni að F í G, á handhafaskuldabréf að fjárhæð 200.000.000 króna sem umbjóðandi kærða og eiginmaður kæranda hafi gefið út. Á hinn bóginn liggur fyrir að kærandi kaus að undirrita ekki skilnaðarsamning sem lá fyrir á fundinum enda stóð vilji hennar til að fá álit utanaðkomandi aðila á efni þeirra draga sem kærði hafði ritað.
Um þetta efni hefur kærandi á því byggt að hún hafi verið beitt blekkingum af hálfu kærða og umbjóðanda hans við undirritun handhafaskuldabréfsins. Hafi hún þannig staðið í þeirri trú, á grundvelli skýringa kærða, að um væri að ræða skjal sem fæli í sér yfirtöku umbjóðanda kærða á öllum lánum á viðkomandi fasteign. Jafnframt því hafi kærði tiltekið á fundinum að kærandi þyrfti að undirrita skjalið því að öðrum kosti myndi hún tapa allri eign sinni til skattsins. Á grundvelli þeirra forsendna hafi hún undirritað handhafaskuldabréfið.
Kærði hefur á hinn bóginn vísað til þess að kærandi hafi skrifað undir handhafaskuldabréfið af fúsum og frjálsum vilja eftir að hafa fengið vandlegar útskýringar á hvað fælist í því að eignin yrði veðsett með þeim hætti sem skjalið kvað á um. Hefur kærði einnig á það bent að kærandi hafi undirritað í tvígang áður sambærileg tryggingarbréf eftir að sambúð þeirra hjóna lauk á árinu 2016. Engum þrýstingi hafi verið beitt á fundinum til að fá fram undirritun kæranda enda hafi hún kosið að ganga þar ekki frá fyrirliggjandi skilnaðarsamningi þar sem hún hafi viljað fá einhvern þriðja aðila til að lesa þau drög yfir. Samkvæmt því hafnar kærði því að nokkrum blekkingum eða þrýstingi hafi verið beitt gagnvart kæranda.
Þær ásakanir kæranda á hendur kærða sem fram koma í kvörtun málsins eru verulega alvarlegar. Fyrir liggur hins vegar að ágreiningur er á milli aðila um það hvernig atvikum var í reynd háttað á þeim fundi sem fram fór á lögmannsstofu kærða í maímánuði 2019. Stendur þar orð gegn orði. Samkvæmt því og að teknu tilliti til gagna málsins að öðru leyti verður ekki talið að mati nefndarinnar að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærði hafi beitt slíkum blekkingum og þvingunum gagnvart kæranda á fundinum í maímánuði 2019 sem kvörtun málsins er reist á.
Á hinn bóginn er til þess að líta að kærandi neitaði að rita undir skilnaðarsamning á fundinum í maí 2019 með vísan til þess að hún þyrfti að bera efni hans áður undir annan aðila. Kærði hefur lagt drög viðkomandi skilnaðarsamnings fram en samkvæmt formála hans var gengið út frá að samvistarslit hefðu orðið þann x. janúar 2018. Í drögunum voru tilgreindar eignir aðila að samningnum, þar á meðal fasteignin að F í G. Jafnframt var gerð grein fyrir sameiginlegum skuldum þeirra sem hvíldu á 1. – 4. veðrétti tilgreindrar fasteignar. Þá var einnig eftirfarandi tiltekið um hinar sameiginlegu skuldir:
„Til viðbótar við framangreindar eignir og skuldir, sem við erum sammála um að líta til skiptin, skal tekið fram að á fasteigninni F hvíla tvö tryggingarbréf, annars vegar, útg. x.10.2016, að x- króna höfuðstól, og hins vegar útg. x.01.2017, að x.- króna höfuðstól.“
Varðandi skiptingu eigna og skulda var vísað til þess að í hlut umbjóðanda kærða kæmi fyrrgreind fasteign að F auk hlutabréfa í þremur tilgreindum einkahlutafélögum. Í hlut kæranda skyldi hins vegar koma peningagreiðsla, að fjárhæð x krónur, sem umbjóðandi kærða skyldi greiða að fullu fyrir 31. desember 2020 auk bifreiðar. Þá var kveðið á um í 7. gr. draganna að við útgáfu skilnaðarleyfis væri fjárfélagi aðila slitið og ætti hvorugt frekari kröfur á hendur hinu. Kæmu fram frekari skuldir bæri sá ábyrgð sem fyrir þeim væri skráð.
Í samræmi við framangreint var í engu vikið að því handhafaskuldabréfi sem mál þetta lýtur að í drögum skilnaðarsamningsins eða þeim áhrifum sem það kynni að hafa varðandi hugsanleg kröfuréttindi aðila við endanleg slit á fjárfélagi þeirra við skilnað. Er þá í því efni sérstaklega til þess litið að hið umþrætta handhafaskuldabréf ber með sér að hafa verið gefið út þann x. maí 2020 en drög skilnaðarsamningsins voru hins vegar dagsett nokkru síðar eða þann x. sama mánaðar.
Fyrir liggur að kærði gætti hagsmuna gagnaðila kæranda á áðurgreindum fundi í maímánuði 2019, í samræmi við efni umboðs þar að lútandi, en kærandi naut hvorki fulltingis lögmanns á fundinum né ráðgjafar annars þriðja aðila. Að mati nefndarinnar verður ekki framhjá því litið að þau skjöl sem lágu fyrir á fundinum vörðuðu hagsmuni beggja viðkomandi aðila, þ.e. kæranda og umbjóðanda kærða, auk þess sem samspil þeirra var umtalsvert þar sem fasteignin að F skyldi annars vegar koma til skipta við fjárslit aðila samkvæmt skilnaðarsamningi en hins vegar vera veðandlag samkvæmt handhafaskuldabréfi að fjárhæð 200.000.000 króna. Að áliti nefndarinnar gat kærða ekki dulist umrætt atriði og að ekki væri loku fyrir það skotið að samþykki kæranda fyrir veðsetningunni kynni að hafa áhrif á hagsmuni hennar við fjárslitin.
Svo sem fyrr greinir neitaði kærandi að undirrita skilnaðarsamning á fundinum á þeim grunni að hún þyrfti áður að leita sér ráðgjafar um efni hinna fyrirliggjandi draga. Í ljósi fyrrgreinds samspils á milli skilnaðarsamningsins annars vegar og handhafaskuldabréfsins hins vegar mátti kærða vera ljóst að kæranda, sem gagnaðila, væri augljós þörf á að leita sér lögmannsaðstoðar áður en til samþykkis hennar á handhafaskuldabréfinu kæmi. Samkvæmt því og með hliðsjón af atvikum öllum verður að telja að kærða hefði verið rétt að benda kæranda á leita sér lögmannsaðstoðar áður en til undirritunar hennar kom undir handhafaskuldabréfið á fundinum í maímánuði 2019, í samræmi við efni 37. gr. siðareglna lögmanna. Verður í því samhengi þá jafnframt litið til þess að kærandi hafði ekki áður átt þess kost að kynna sér efni skjalsins auk þess sem það var á íslensku sem kærandi hvorki talar, les né skilur. Hefur þannig verið upplýst fyrir nefndinni að kynning kærða og umbjóðanda hans á efni skjalsins hafi farið fram á ensku á fundinum gagnvart kæranda.
Í samræmi við framangreint er það niðurstaða nefndarinnar að kærða hafi verið rétt að benda kæranda, sem gagnaðila umbjóðanda hans, á að leita sér lögmannsaðstoðar áður en til undirritunar handhafaskuldabréfsins kom. Ekkert hefur komið fram í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni um að hann hafi bent kæranda á þann kost eða hverju það sæti að slíkt hafi ekki verið gert. Fór sú háttsemi kærða gagnvart kæranda gegn 37. gr. siðareglnanna og telst hún aðfinnsluverð.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að benda kæranda, A, ekki á að leita sér lögmannsaðstoðar áður en kærandi undirritaði handhafaskuldabréf að fjárhæð 200.000.000 krónur á fundi málsaðila í maímánuði 2019, er aðfinnsluverð.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður
Einar Gautur Steingrímsson lögmaður
Valborg Þ. Snævarr lögmaður
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Sölvi Davíðsson