Mál 16 2020

Mál 16/2020

Ár 2020, fimmtudaginn 12. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2020:

A lögmaður

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 7. ágúst 2020 erindi kæranda, A lögmanns, þar sem kvartað er yfir því að kærða, B lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn 25. og 28. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 14. ágúst 2020 og barst hún þann 31. sama mánaðar. Var kæranda send greinargerð hennar til athugasemda með bréfi dags. 1. september 2020. Ekki bárust frekari athugasemdir af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur að umbjóðandi kærðu beindi kvörtun til nefndarinnar þann 17. janúar 2020 vegna starfshátta kæranda og hlaut málið númerið 1/2020. Laut kvörtun í því máli að ætlaðri blekkingu kæranda við að fá undirritun viðkomandi undir handhafaskuldabréf að fjárhæð 200.000.000 króna. Undir rekstri málsins óskaði nefndin eftir nánar tilgreindum gögnum og/eða upplýsingum frá umbjóðanda kærðu og svaraði kærða því erindi fyrir hönd aðilans með bréfi, dags. 22. júní 2020 sem móttekið var af hálfu nefndarinnar degi síðar. Í tilgreindu bréfi kærðu fyrir hönd umbjóðanda sagði meðal annars eftirfarandi:

Með hinum kærða gjörningi þá sá lögmaðurinn til þess að umbjóðandi minn tapaði öllum eignum sínum enda hefði umbjóðandi minn aldrei undirritað umrætt handhafaskuldabréf nema út af blekkingum af hálfu lögmannsins.

Lýtur kvörtun kæranda í máli þessu að ofangreindu efni í bréfi kærðu til nefndarinnar í máli nr. 1/2020.

Kærandi sendi tölvubréf til kærðu þann 4. júlí 2020 þar sem hin umþrættu ummæli voru orðrétt tekin upp. Vísaði kærandi til þess að í málsgreininni hefði kærða persónulega fullyrt að kærandi hefði gerst sekur um mjög ámælisvert, refsivert athæfi, án nokkurra fyrirvara eða rökstuðnings með tilliti til gagna. Lýsti kærandi því að ummæli kærðu fælu í sér brot gegn XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/140 auk þess sem þau brytu gróflega gegn IV. kafla siðareglna lögmanna, sbr. einkum 25. og 28. gr. þeirra. Kvaðst kærandi ekki geta setið aðgerðarlaus undir svo grófum, rakalausum, ósönnum og ósönnuðum fullyrðingum og alvarlegum ávirðingum. Yrði því ekki komist hjá öðru en að bera fram kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Þá veitti kærandi kærðu sjö daga frest, með vísan til 31. gr. siðareglnanna, til þess að tjá sig um væntanlega kvörtun jafnframt því sem hann upplýsti um að stjórn Lögmannafélags Íslands yrði gert viðvart um málið.

Í samræmi við efni tölvubréfsins tilkynnti kærandi stjórn Lögmannafélags Íslands um málið þennan sama dag, 4. júlí 2020.

Kærða svaraði erindi kæranda í tölvubréfi þann 5. júlí 2020. Vísaði kærða þar til þess að hún hefði nýlega tekið við málum viðkomandi umbjóðanda en þá hafi legið fyrir kvörtun hans á hendur kæranda til nefndarinnar. Hafi kærða tekið að sér að svara fyrirspurnarbréfi nefndarinnar í máli nr. 1/2020, sbr. bréf dags. 22. júní 2020, en allt sem þar hafi komið fram hafi verið samkvæmt upplýsingum frá umbjóðandanum enda bréfið ritað fyrir hans hönd. Sama ætti við um hina umþrættu málsgrein. Lýsti kærða því að það lægi í hlutarins eðli að sá sem læsi bréfið myndi skilja það sem svo að bréfið væri byggt á frásögn umbjóðanda kærðu og innihéldi upplýsingar sem viðkomandi héldi fram sem kvartandi til nefndarinnar. Kærða hefði þó mögulega alveg getað verið skýrari hvað umrædda málsgrein varðaði og bætt við „að sögn umbjóðanda míns“. Ef kærandi teldi það ekki vera skýrt væri það leiðrétt nú. Að endingu lýsti kærða því að hagsmunagæsla fyrir nefndinni fæli ekki í sér persónulega árás lögmanns á þann sem kvartað væri yfir. Ættu allir rétt á aðstoð lögmanns. Þá bæri að varast að samsama lögmenn með skjólstæðingum sínum.

Ekki verður séð að málsaðilar hafi átt í frekari skriflegum samskiptum eftir 5. júlí 2020 en kvörtun í máli þessu var beint til nefndarinnar þann 7. ágúst sama ár.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði áminnt fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá krefst kærandi málskostnaður úr hendi kærðu vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Kærandi vísar til þess að kærða hafi sett fram fullyrðingar, í eigin nafni og án nokkurra sönnunargagna, í bréfi til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 22. júní 2020, um að kærandi hefði gerst sekur um mjög ámælisvert og refsivert athæfi. Er nánar tiltekið vísað til eftirfarandi efnis í bréfi kærðu til nefndarinnar í máli nr. 1/2020:

Með hinum kærða gjörningi þá sá lögmaðurinn til þess að umbjóðandi minn tapaði öllum eignum sínum enda hefði umbjóðandi minn aldrei undirritað umrætt handhafaskuldabréf nema út af blekkingum af hálfu lögmannsins.

Vísar kærandi til þess að í tilgreindri málsgrein fullyrði kærða í eigin nafni að kærandi hafi gerst sekur um mjög ámælisvert, refsivert athæfi. Engir fyrirvarar hafi verið settir fram varðandi fullyrðinguna, hvað þá að kærða hafi reynt að styðja hana nokkrum gögnum. Þvert á móti telur kærandi ljóst af þeim gögnum sem lágu fyrir í málinu nr. 1/2020 að fullyrðingar kærðu hafi verið eins efnislega rangar og fullyrðing þess efnis að svart sé hvítt.

Kærandi byggir á að umrædd ummæli kærðu feli í sér brot gegn XV. og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk þess sem þau hafi brotið gróflega gegn IV. kafla siðareglna lögmanna, sbr. einkum 25. og 28. gr. þeirra. Vísar kærandi til þess að það sé afar alvarlegt að lögmaður fullyrði með slíkum hætti að annar lögmaður hafi brotið hegningarlög, án nokkurs rökstuðnings. Ljóst sé að við sambærilegum brotum sé lögð allt að 10 ára refsing, sbr. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Kærandi bendir á að í samræmi við skyldur lögmanna, sbr. 31. gr. siðareglna lögmanna, hafi kærðu verið tilkynnt um fyrirhugaða kvörtun þann 4. júlí 2020 og henni gefin sjö daga frestur til að tjá sig um hana. Jafnframt því hafi stjórn Lögmannafélags Íslands verið upplýst um málið sama dag.

Vísað er til þess að svör frá kærðu hafi borist til kæranda þann 5. júlí 2020. Þar hafi kærða dregið heldur í land með fullyrðingar sínar um meinta refsiverða háttsemi kæranda þar sem fram hafi komið að kærða „hefði mögulega alveg getað verið skýrari hvað varðar neðangreinda málsgrein og bætt við „að sögn umbjóðanda míns.“ Ef þú telur það ekki vera skýrt þá leiðréttist það hér með.

Kærandi bendir á að þrátt fyrir að kærða hafi með þessu reynt að draga úr vægi fullyrðinga þeirra sem hún setti fram í eigin nafni fyrir úrskurðarnefnd lögmanna hafi hún ekki gert neinn reka að því að draga þær til baka fyrir nefndinni. Þvert á móti hafi kærða látið við það sitja að senda skýringarnar eingöngu til kæranda. Með því hafi kærða látið að því liggja gagnvart nefndinni að hún stæði persónulega enn að fullu leyti við umrædd ósönn og ærumeiðandi ummæli.

Byggir kærandi á, í ljós þess trausts sem lögmenn eiga að geta borið til kollega sinna, að algjörlega ótækt sé að kærða skuli hafa leyft sér að fullyrða um meinta refsiverða hegðun kollega síns með þeim hætti sem gert var. Hafi kærða svo bitið höfuðið af skömminni með því að hafa ekki séð sóma sinn í því að draga ummælin til baka gagnvart úrskurðarnefnd lögmanna, þar sem ummælunum var ætlað að hafa lagaáhrif.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærðu fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærða vísar til þess að í umræddu bréfi sem kvörtun taki til hafi hún verið að svara fyrirspurn frá úrskurðarnefnd lögmanna og að neðst í því hafi komið fram að það væri ritað fyrir hönd umbjóðanda. Samkvæmt því hafi kærða talið ljóst að bæði kærandi og nefndin myndu gera sér grein fyrir því að bréfið væri byggt á frásögn umbjóðanda kærðu, líkt og almennt eigi við í erindum lögmanna. Kærða hafi auk þess svarað erindi kæranda þann 5. júlí 2020 og upplýst um að heppilegra hefði verið ef tekið hefði verið fram „að sögn umbjóðanda míns“ í bréfinu til að forðast allan misskilning, í þeim tilgangi að skapa sátt um málið. Þá hafi kærða góðfúslega bent á að varast bæri að samsama lögmenn með umbjóðendum og að það að kærða gætti hagsmuna einstaklings sem væri að kvarta undan kæranda til nefndarinnar fæli ekki í sér persónulega árás kærðu gagnvart kæranda. Allt sem farið hefði frá kærðu í málinu hefði verið gert í nafni umbjóðandans.

Kærða bendir á að kærandi hafi haft samband við sig símleiðis í júlímánuði 2020 þar sem hann hafi upplýst um að ef kærða fengi umbjóðanda til að draga til baka kvörtun í máli nr. 1/2020 þá myndi hann ekki kvarta undan bréfi kærðu til nefndarinnar. Kveðst kærða hafa upplýst kæranda þegar í stað um að hún myndi ekki brjóta gegn rétti síns umbjóðanda til þess eins að fá ekki á sig kvörtun frá kæranda. Kærandi hafi hins vegar haft samband á nýjan leik í byrjun ágústmánaðar sama ár þar sem upplýst hafi verið um að eiginmaður umbjóðanda kærðu væri kominn með nýjan lögmann og að kærandi væri þar af leiðandi hættur afskiptum af skilnaðarmáli þeirra. Í samtalinu hafi kærandi jafnframt upplýst um að hann hefði heyrt af því að samkomulag hefði náðst í málinu, án þess þó að kærða hafi kannast við slíkt. Hafi kærandi þá ítrekað hvort umbjóðandi kærðu myndi draga mál nr. 1/2020 til baka gegn því að kærandi myndi hætta við að kvarta undan kærðu til nefndarinnar. Lýsir kærða því að hún hafi tilkynnt kæranda um að um tvö aðskilin mál væri að ræða og að kvörtun vegna framferðis lögmanns væri ekki hluti af skilnaðarsamkomulagi í öðru máli. Í framhaldi af því hafi kærandi beint kvörtun í máli þessu til nefndarinnar.

Kærða vísar til þess að hún hafi átt fund með C lögmanni í byrjun ágústmánaðar 2020, en tilgreindur lögmaður hafi þá verið búinn að taka við sem lögmaður eiginmanns umbjóðanda kærðu í skilnaðarmálinu. Lýsir kærða því að lögmaðurinn hafi upplýst á fundinum að hann hefði fengið símtal frá kæranda vegna skilnaðarmálsins. Hafi kærandi þar óskað eftir að lögmaðurinn myndi ekki semja í skilnaðarmálinu nema það yrði hluti af samkomulaginu að kvörtun umbjóðanda kærðu í máli nefndarinnar nr. 1/2020 yrði dregin til baka. Hafi lögmaðurinn hins vegar upplýst kæranda að málin væru aðskilin og að það samræmdist ekki hagsmunum umbjóðanda hans að setja fram slíkt skilyrði fyrir samningi í skilnaðarmálinu.

Í samræmi við framangreint telur kærða ljóst að það sé fremur hún sem ætti að kvarta undan háttsemi kæranda en ekki öfugt.

Varðandi 25. gr. siðareglna lögmanna vísar kærða til þess að kærandi hafi útbúið handhafaskuldabréf á íslensku, að fjárhæð 200.000.000 króna, og að umbjóðandi kærðu hafi ritað undir bréfið á skrifstofu kæranda án þess að á staðnum hefði verið túlkur eða annar aðili til þess að gæta hagsmuna viðkomandi eða yfirhöfuð útskýra hvað fælist í raun og veru í skjalinu. Hafi umbjóðandi kærðu staðið í þeirri meiningu að um væri að ræða skjal er varðaði yfirtöku eiginmanns hennar á öllum skuldum sem hvíldu á fasteign þeirra. Byggir kærða á að vinnubrögð kæranda hafi einfaldlega verið þess eðlis að erfitt hafi verið að fjalla um þau án þess að gagnrýna þau með afdráttarlausum hætti. Eðli máls samkvæmt hafi sú gagnrýni byggt á frásögn umbjóðanda kærðu og sett fram í nafni viðkomandi, enda kærða ekki viðstödd þegar undirritun fór fram. Þá verði umræddur gjörningur, þ.e. handhafaskuldabréfið, að öllu óbreyttu til þess að umbjóðandi kærðu tapi þeim hlut í fasteigninni að D sem var óveðsettur.

Kærða bendir á að það hljóti að liggja í augum uppi að þegar nefndin spyrji hvaða áhrif umrætt handhafaskuldabréf hafi eða muni hafa á fjárhag umbjóðanda hennar sé tæpast hægt að lýsa því nema fara á sama tíma yfir þá málsatvikalýsingu sem umbjóðandinn hafi ítrekað lýst. Vart sé hægt að gera þá kröfu að lögmenn þurfi að taka fram eftir hverja setningu „að sögn umbjóðanda míns“ enda liggi fyrir að bréfið sé ritað fyrir hönd umbjóðandans og byggt á hans frásögn. Fráleitt sé að halda öðru fram og telur kærða ljóst að kærandi geri sér grein fyrir því.

Vegna tilvísunar kæranda til 28. gr. siðareglna lögmanna vísar kærða til þess að ekki fáist sé hvernig tilgreind grein geti tekið til málsatvika og kvörtunarefnis.

Að endingu vísar kærða til þess að ljóst sé að kærandi reyni með kvörtun í málinu að fá umbjóðanda kærðu til að draga til baka kvörtun í máli nr. 1/2020 fyrir nefndinni eða að þvinga fram slíka afturköllun.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í IV. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um samskipti lögmanna innbyrðis. Er þar tiltekið í 1. mgr. 25. gr. að lögmenn skulu hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Skulu lögmenn sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings, sbr. 2. mgr. 25. gr. Þá er tiltekið í 27. gr. siðareglnanna að lögmaður megi einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars lögmanns á málefnalegum grundvelli og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það sem málefnið gefur ástæðu til.

II.

Kvörtun kæranda í máli þessu lýtur að því að kærða hafi í störfum sínum brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna með eftirfarandi ummælum í bréfi sem hún beindi til nefndarinnar fyrir hönd síns umbjóðanda vegna kvörtunar í tengslum við starfshætti kæranda í máli nr. 1/2020:

Með hinum kærða gjörningi þá sá lögmaðurinn til þess að umbjóðandi minn tapaði öllum eignum sínum enda hefði umbjóðandi minn aldrei undirritað umrætt handhafaskuldabréf nema út af blekkingum af hálfu lögmannsins.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að forðast að samkenna sig skólstæðingi sínum og hann hefur kröfu til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Mikilvægt er, að mati nefndarinnar, að lögmenn gæti þess að greina eins og kostur er á milli eigin sjónarmiða og sjónarmiða og hagsmuna umbjóðenda þeirra, svo sem skylt er að gera samkvæmt ákvæðinu. Að mati nefndarinnar getur orðaval og framsetning þeirra í skrifum lögmanna skipt máli í þessu sambandi.

Á hinn bóginn er þess að gæta að kærða kom að hagsmunagæslu í þágu umbjóðanda síns í máli nr. 1/2020 fyrir úrskurðarnefnd lögmanna á síðari stigum, þ.e. eftir að umbjóðandinn hafði sjálfur beint kvörtun til nefndarinnar vegna ætlaðra brota kæranda í störfum. Í þeirri kvörtun var vísað til þess að kærandi hefði tekið þátt í að blekkja viðkomandi kvartanda til þess að samþykkja 200.000.000 króna handhafaskuldabréf á fasteign að D, að þau atvik hefðu komið í veg fyrir að viðkomandi fengi greitt sinn eignarhlut við fjárslit og að fyrir lægi að hann hefði aldrei skrifað undir skjalið, þ.e. ef vitneskja hefði legið fyrir um hvað stæði í umræddu skjali. Samkvæmt því hefði kærandi beitt blekkingum til að hafa allar eigur af kvartandanum.

Þær ásakanir sem bornar voru á kæranda í máli nr. 1/2020 voru verulega alvarlegar, svo sem greinir í forsendum þess úrskurðar. Að mati nefndarinnar verður að líta til þess að í hinum umþrættu ummælum kærðu, sem sett voru fram í svarbréfi kærðu fyrir hönd umbjóðanda í kjölfar fyrirspurnarbréfs nefndarinnar, var í engu gengið lengra en umbjóðandi hennar hafði sjálfur gert í kvörtun málsins vegna ætlaðra brota kæranda. Með hliðsjón af efni kvörtunar í máli nr. 1/2020 og að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar að kærða ritaði undir hið umþrætta bréf, dags. 22. júní 2020, fyrir hönd síns umbjóðanda verður ekki talið að kæranda eða nefndinni hafi getað dulist að ummælin fælu í sér afstöðu umbjóðanda kærðu til málsins og þess kvörtunarefnis sem það tók til. Þá verður að mati nefndarinnar að játa lögmanni svigrúm í slíku máli, innan þeirra marka sem siðareglur lögmanna setja, til að tjá skoðanir og sjónarmið umbjóðanda síns.

Með vísan til framangreinds telur nefndin að kærða hafi ekki brotið gegn IV. kafla siðareglna lögmanna gagnvart kæranda í skrifum sínum til nefndarinnar í máli nr. 1/2020. Telst kærða þannig ekki með ummælunum hafa gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærða, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.  

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson