Mál 22 2020
Mál 22/2020
Ár 2021, föstudaginn 30. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 22/2020:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. október 2020 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærða, B lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi, dags. 14. október 2020, og barst hún þann 9. nóvember sama ár. Var kæranda send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi dags. 10. nóvember 2020. Dagana 4. og 23. desember 2020 bárust úrskurðarnefnd frekari athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærðu með bréfum, dags. 8. desember 2020 og 7. janúar 2021. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærðu þann 3. mars 2021 og voru þær sendar til kæranda þann 10. sama mánaðar þar sem jafnframt var upplýst um að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Samkvæmt málsgögnum munu kærandi og fyrrverandi sambúðarmaki aðilans hafa slitið samvistum á árinu 2017. Í kjölfar þess mun hafa risið ágreiningur á milli tilgreindra aðila um hvernig forsjár- og umgengnismálum skyldi skipað vegna ólögráða barns þeirra. Mun sá ágreiningur hafa leitt til málshöfðunar kæranda á hendur barnsmóður hans, en málið mun hafa verið þingfest í héraðsdómi.
Með úrskurði undir rekstri málsins í héraði var leyst úr ágreiningi aðila um hvernig farið skyldi með forsjá barns þeirra til bráðabirgða, þ.e. þar til dómur gengi í forsjármáli þeirra. Var kröfum kæranda um forsjá barnsins og lögheimilisskráningu til bráðabirgða hafnað sem og kröfu hans um meðlag. Á hinn bóginn var fallist á kröfu kæranda um umgengni og kveðið á um inntak hennar í úrskurðinum. Með úrskurði Landsréttar x. september 20xx í máli nr. xxx/20xx var staðfest niðurstaða héraðsdóms um forsjá og lögheimili barnsins til bráðabirgða og fyrirkomulag meðlagsgreiðslna. Þá var í úrskurði Landsréttar gerðar nánar tilgreindar breytingar á fyrirkomulagi umgengni barnsins við kæranda.
Í kjölfar tilgreinds úrskurðar Landsréttar mun kærða hafa tekið við hagsmunagæslu í þágu gagnaðila kæranda vegna áframhaldandi reksturs málsins í héraði. Við þá málsmeðferð var aflað matsgerðar um forsjárhæfni aðila en í kjölfar þess að hún lá fyrir mun kærða hafa lagt fram yfirmatsbeiðni fyrir hönd umbjóðanda síns. Kröfu gagnaðila kæranda, um að fram skyldi fara yfirmat í málinu, var hafnað með úrskurði héraðsdóms sem uppkveðinn var þann x. desember 20xx. Var sú niðurstaða héraðsdóms staðfest með úrskurði Landsréttar x. janúar 20xx í máli nr. xxx/20xx.
Dómur var kveðinn upp í málinu í héraðsdómi þann x. maí 20xx. Í forsendum dómsins var meðal annars fjallað um framburð umbjóðanda kærðu um að kærandi væri hættulegur barninu. Var því meðal annars lýst að umbjóðandi kærðu hefði farið í blaðaviðtal í kjölfar fyrrgreinds úrskurðar Landsréttar frá x. september 20xx og fullyrt að kærandi hefði gerst sekur um kynferðisbrot gegn barni þeirra. Af fyrirliggjandi gögnum í málinu taldi dómurinn ekki unnt að draga ályktanir um það efni sem gæti haft áhrif á úrlausn hans um forsjá aðila og umgengnisrétt kæranda við barnið. Lagði dómurinn jafnframt til grundvallar að ekki yrði séð að neinn slíkur munur væri á forsjárhæfni aðila eða aðstæðum þeirra, með tilliti til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, að unnt væri að gera upp á milli þeirra á þeim grundvelli auk þess sem barnið hefði myndað grunntengsl við báða foreldra. Í dóminum var komist að þeirri niðurstöðu, á grundvelli heildarmats, að forsjá og lögheimili barnsins skyldi vera hjá kæranda. Var sú niðurstaða meðal annars reist á því að umbjóðandi kærðu hefði neitað kæranda um umgengni við barn sitt þrátt fyrir úrskurði dómstóla um það efni auk þess sem umbjóðandi kærðu hefði lýst því yfir að hún hygðist ekki fara eftir niðurstöðum dómsins um umgengni kæranda við barnið ef hann sætti sig ekki við þá niðurstöðu.
Fyrir liggur að umbjóðandi kærðu kaus að una ekki fyrrgreindum dómi héraðsdóms og sætti hann því áfrýjun til Landsréttar. Þá mun kærandi hafa lagt grunn að aðfararmáli í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms um að áfrýjun frestaði ekki réttaráhrifum dómsins.
Kærandi hefur vísað til þess í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að umbjóðandi kærðu, sem gagnaðili hans í fyrrgreindu máli, hafi rekið viðkomandi mál í fjölmiðlum í kjölfar fyrrgreinds dóms héraðsdóms. Hefur kærandi um það efni vísað til fjölmargra blaðagreina sem birst hafi um málið í ýmsum fjölmiðlum, en þær eru meðal málsgagna fyrir nefndinni. Hafi samtökin C tekið undir málstað gagnaðila kæranda og hafið undirskriftasöfnun í því skyni að tryggja rétt viðkomandi barns gegn kynferðisofbeldi. Mun sá undirskriftarlisti hafa verið afhentur dómsmálaráðherra. Kærða kveðst hins vegar í engu hafa komið að því máli.
Frétt var jafnframt birt um fyrrgreindan dóm héraðsdóms, undir áfrýjunarferli til Landsréttar, í kvöldfréttum D þann x. september 20xx, en kærða var þar meðal viðmælenda. Lýtur kvörtun í máli þessu að háttsemi kærðu í því viðtali, svo sem nánar er lýst í eftirfarandi umfjöllun um málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni. Kærða hefur hins vegar hafnað því að hún hafi brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna í tilgreindu viðtali, sem hafi verið tekið að frumkvæði viðkomandi fréttastofu en með samþykki umbjóðanda hennar sem jafnframt hafi verið viðstaddur viðtalið.
Beindi kærandi kvörtun í máli þessu til nefndarinnar í kjölfar fyrrgreindrar fréttaumfjöllunar, þ.e. nánar tiltekið þann x. október 20xx.
Með dómi Landsréttar x. desember 20xx í máli nr. xxx/20xx var talið að það samrýmdist betur högum og þörfum barnsins að umbjóðandi kærðu færi einn með forsjá þess enda þótt fyrir lægi að hann hefði tálmað umgengni barnsins við kæranda. Samkvæmt því var það niðurstaða dómsins að umbjóðandi kærðu skyldi fara einn með forsjá barnsins en jafnframt var kveðið á um hvernig meðlagsgreiðslum skyldi háttað sem og um umgengni kæranda við barnið. Einn dómari skilaði hins vegar sératkvæði í málinu og vildi staðfesta dóm héraðsdóms.
Með ákvörðun Hæstaréttar Íslands nr. 20xx-xx frá x. febrúar 20xx var kæranda veitt áfrýjunarleyfi vegna fyrrgreinds dóms Landsréttar í máli nr. xxx/20xx. Var vísað til þess í ákvörðuninni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin tæki til og þá einkum með tilliti til þess hvaða áhrif tálmun á umgengni hefði á niðurstöðu um forsjárhæfni foreldra.
II.
Skilja verður málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að kærðu verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Kærandi vísar til þess að kvörtuninni sé beint að meiðyrðum kærðu og opinberum uppljóstrunum hennar í lokuðu dómsmáli sem varðað hafi hag barns.
Í kvörtun er vísað til þess að kærandi hafi staðið í forræðismáli við barnsmóður sína í eitt og hálft ár, en hún hafi sakað kæranda um að hafa brotið kynferðislega gegn barni þeirra. Með dómi héraðsdóms sem kveðinn var upp þann x. maí 20xx hafi kæranda einum verið falin forsjá barnsins en dómurinn hafi jafnframt hafnað öllum þeim ásökunum sem á hann hafi verið bornar.
Kærandi lýsir því að barnsmóðir hans hafi rekið tilgreint mál í ýmsum fjölmiðlum. Er vísað til þess að þann x. september 20xx hafi birst frétt um málið í sjónvarpsfréttum D. Þar hafi kærða, sem lögmaður barnsmóðurinnar og þar með gagnaðila kæranda, stigið fram og tjáð sig opinskátt um málið þótt þinghald í því hafi verið háð fyrir luktum dyrum samkvæmt ákvörðun dómsins. Hafi kærða í viðtalinu greint frá einstaka og persónulegum atriðum málsins. Þá hafi kærða farið fram með ósannindi um að umbjóðandi hennar hefði aðeins tapað málinu, og kæranda verið dæmt forsjá barnsins, vegna tálmunar umbjóðandans varðandi umgengni. Bendir kærandi á að niðurstaða héraðsdóms hafi byggt á því að hann hafi verið talinn hæfari til að fara með forsjá barnsins.
Jafnframt hafi kærða tjáð sig í fréttinni um ......... í leik við barnið, sem sé lygi. Vísar kærandi til þess að hann hafi tjáð sig einlæglega og opinskátt, bæði hjá lögreglu og matsmanni, um ætluð atvik en þau hafi ekkert með ............. að gera heldur einungis líkamlega þætti. Matsmaður hafi tekið þetta til ítarlegrar skoðunar og komist að þeirri niðurstöðu að um ómerkilegt atriði væri að ræða. Hafi kærða einnig gert það enda hafi hún ekki spurt kæranda um þetta efni í skýrslutökum í héraði. Þrátt fyrir það hafi hún farið fram með lygina í sjónvarpsfréttum hálfu ári síðar. Er á því byggt að með þeirri háttsemi hafi kærða notað veikleika kæranda til að brjóta hann andlega niður.
Kærandi bendir á að kærða hafi gert þetta á sama tíma og barnsmóðir hans hafi staðið fyrir undirskriftasöfnun í því skyni að fá dómi héraðsdóms hrundið með atbeina ráðherra. Hafi kærða með því stutt pólitískt inngrip í niðurstöðu dómstóla og einnig herferð umbjóðanda síns í því skyni að brjóta kæranda niður andlega og sverta mannorð hans. Lýsir kærandi því að þessi herferð hafi haft slæm áhrif á sig og fjölskyldu sína, enda hótanir borist.
Kærandi byggir á að með háttsemi sinni hafi kærða aðstoðað umbjóðanda sinn til að fara á svig við lög með því að ráðast á kæranda persónulega á opinberum vettvangi. Jafnframt því hafi kærða framið lögbrot með því að tjá sig um efni dómsmáls þar sem þinghald hafi verið lokað. Þá hafi kærða brotið gegn barninu með því að hafa rætt málið við fjölmiðla, bæði á friðhelgi barnsins og rétti þess til réttlætis.
Um vafasamt siðferði kærðu bendir kærandi jafnframt á að kærða hafi farið mikinn í dómsmálinu um að kærandi hefði ekki sett af stað dagsektarbeiðni vegna bráðabirgðaúrskurðar, sem sé rangt en kerfið hafi hins vegar reynst svifaseint. Lýsir kærandi því að kærða hafi gert þetta í því skyni að sýna fram á að kærandi vildi ekki hitta barnið. Slíkt hið sama eigi við um greinargerð vegna áfrýjunar málsins til Landsréttar. Hafi því verið haldið fram þar að kærandi gæti ekki farið með forsjá barnsins vegna þess að leiðir að því marki væru barninu ekki fyrir bestu. Nú, þegar kærandi undirbúi aðför, hafi kærða loks komið fram í sjónvarpsfréttum til að mála kæranda upp sem barnaníðing. Sé háttsemi kærðu að þessu leyti hreinn og beinn viðbjóður og lögmannastéttinni til skammar. Á sama tíma hafi kærandi reynt að verja barnið frá málinu og reynt að loka því með sátt í samræmi við hagsmuni barnsins. Hafi umbjóðandi kærðu gert það algjörlega ómögulegt auk þess sem kærða sé nú mætt í sjónvarp til að leggja því lið.
Í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar ítrekaði kærandi kvörtunarefni og benti á að háttsemi kærðu við rekstur dómsmálsins og í viðkomandi sjónvarpsviðtali hafi verið í andstöðu við 34. gr. siðareglna lögmanna.
Kærandi kveðst hafna því að unnt sé að heimfæra háttsemi kærðu undir tjáningarfrelsi sem varið sé af 73. gr. stjórnarskrárinnar. Byggir kærandi á að 73. gr. stjórnarskrárinnar heimili ekki lygar, ýkjur og að beitt sé andlegu ofbeldi. Bendir kærandi einnig á eftirfarandi forsendur héraðsdóms um þetta efni:
„Dómurinn telur auk þess rétt að benda á að í kjölfar úrskurðar Landsréttar í x 20xx fór stefnda í blaðaviðtal þar sem hún kvaðst hafa orðið vitni að........ hegðun stefnanda gagnvart dóttur sinni og setti þá hegðun í samhengi við það að hann hefði brotið gegn hálfsystur sinni þegar þau voru lítil. Þótt stefnandi njóti vitaskuld tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar, þá getur dómurinn ekki séð hvernig þátttaka stefndu í opinberri umfjöllun um forsjárgreiningu aðila og ásakanir hennar séu barni fyrir bestu í skilningi 2. mgr. 1. gr. barnalaga. Í því samhengi skal enn fremur minnt á að samkvæmt 2. mgr. 38. gr. barnalaga skal þinghald í máli vegna forsjár eða lögheimilis barns haldið fyrir luktum dyrum. Augljóst er að fyrirmæli 2. mgr. 38. gr. miðar meðal annars að því að vernda hagsmuni barna. Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er lagt fortakslaust bann við að skýra frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara og varðar brot á ákvæðinu sektum.“
Í samræmi við framangreint bendir kærandi á að dómarar í héraðsdómi hafi varað við þessum fréttaflutningi og þá sérstaklega með hagsmuni barnsins í huga. Hafi kærða hins vegar hunsað þessi fyrirmæli.
Varðandi málatilbúnað kærðu um að umfjöllun hafi verið gerð án nafngreiningar og persónugreinanlegra upplýsinga, þá bendir kærandi á að það sé ekki rétt enda hafi umbjóðandi kærðu tilkynnt málið til ýmissa óviðkomandi aðila. Allir sem þekki til málsins viti um hvaða aðila ræði og lesi þennan hroða um kæranda og líf barnsins. Byggir kærandi á að kærða verði að bera ábyrgð á eigin orðum og málflutningi.
Kærandi vísar til þess að það sé rangt sem komi fram í málatilbúnaði kærðu um að hún hafi einungis fjallað um það sem birst hafi í úrskurðum og dómum dómstóla um málið. Bendir kærandi á að í fréttinni hafi verið fjallað um lygar umbjóðanda kærðu um ítrekað ætlað ...... kæranda í leik með barninu. Hafi kærða sagt orðrétt í fréttinni: „..það er eitthvað sem hann hafði ítrekað sýnt og hann kannaðist við að honum hafði oft ....... nálægt stúlkunni.“ Ítrekar kærandi að hann hafi hvorki viðurkennt né sýnt slíka hegðun. Jafnframt því hafi slíka umfjöllun ekki verið að finna í þeim úrskurðum og dómum sem legið hafi fyrir er hið umþrætta viðtal fór fram. Hafi kærða þannig á mjög ljótan hátt tekið orð kæranda úr samhengi, ýkt þau og breytt. Með því hafi kærða brotið gegn 35. gr. siðareglna lögmanna. Sé ljóst að tilgangur viðtalsins hafi verið að mála ákveðna mynd en ekki að fjalla með málefnalegum hætti um ákvarðanir dómstóla í barnamálum.
Kærandi ítrekar að það sé rangt að honum hafi verið dæmd forsjá barnsins vegna tálmana umbjóðanda kærðu. Hið rétta sé að kærandi hafi verið metinn hæfari til að fara með forsjá barnsins. Breyti jafnframt engu hver hafi átt frumkvæði að því að kærða fór í viðtalið. Enn síður hafi þýðingu í málinu að fréttin hafi verið stutt á netinu og að viðtalið hafi verið klippt. Hafi viðtalið einfaldlega sýnt mikinn skort á fagmennsku hjá kærðu í viðkvæmu máli.
Kærandi vísar að endingu til þess að gjörningur kærðu og umbjóðanda hennar hafi verið neikvæður fyrir alla aðila, einkum barnið. Bendir kærandi á að faglegra hefði verið af hálfu kærðu að reyna að fá umbjóðanda sinn til að gera þetta ekki, bæði fyrir sjálfa sig og barnið. Hafi kærða fjallað um mjög viðkvæmt mál á opinberum vettvangi með óvönduðum hætti, en reynir síðan að skýla sig á bakvið umbjóðanda sinn, tjáningarfrelsi og ópersónugreinanlegar upplýsingar. Byggir kærandi á að það standist ekki skoðun og að kærða verði að bera ábyrgð á orðum sínum og gjörðum.
Kærandi kveðst hafa haldið sér algjörlega frá þessari umfjöllun, bæði til að hafa ekki áhrif á forræðisdeiluna og til að verja barnið. Þegar hin umþrætta frétt hafi birst hafi kærandi hins vegar ekki trúað því að lögmaður skyldi haga sér svona og hafi hann því verið tilneyddur til að bera fram kvörtun í máli þessu.
III.
Kærða krefst þess fyrir nefndinni að kröfum kæranda verði hafnað.
Kærða kveðst hafna málatilbúnaði kæranda í kvörtun enda sé hún tilefnislaus.
Kærða vísar til þess að hún hafi tekið að sér fyrirsvar fyrir umbjóðanda sinn í lok ágúst 20xx, þ.e. barnsmóður kæranda, til að kæra til Landsréttar úrskurð héraðsdóms um umgengni barns við kæranda. Að uppkveðnum úrskurði Landsréttar þann x. september 20xx, hafi kærða einnig tekið að sér fyrirsvar í viðkomandi forsjármáli en þar hafi verið að mestu byggt á sömu atriðum og komið hafi fram í fyrirliggjandi greinargerð til héraðsdóms. Hafi umboð kærðu falist í að gæta hagsmuna umbjóðandans með sama hætti og gert hafi verið frá upphafi málsins, þar á meðal varðandi þær málsástæður sem teflt hefði verið fram í greinargerðinni.
Kærða lýsir því að upplýsingar um atvik málsins hafi stafað frá umbjóðanda sínum svo og aðila- og vitnaskýrslum við rekstur málsins. Samkvæmt því hafi allar fullyrðingar kærðu um atvik verið byggðar á því sem fram hafi komið og legið fyrir í málinu af hálfu umbjóðandans og annarra aðila sem töldu sig hafa upplýsingar sem máli gætu skipt. Vísar kærða til þess að það hafi verið ótvíræður skilningur umbjóðanda hennar, eftir rekstur málsins í héraði og yfirlestur á dómi héraðsdóms, að ástæða þess að hann hefði misst forsjá barnsins væri fyrst og fremst sú að hann hefði ekki treyst kæranda til að vera með barnið án eftirlits í umgengni. Hafi sá skilningur átt sér skýra stoð í orðalagi viðkomandi dóms þar sem fram komi meðal annars að móður skorti skilning á þörfum barnsins til að viðhalda góðum tengslum og að líklegt sé að móðir myndi koma með ólögmætum hætti í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barnsins til að njóta tengsla við kæranda. Samkvæmt því hafi niðurstaða dómsins verið grundvölluð á því að það þjónaði betur hagsmunum barnsins að forsjá og lögheimili yrði hjá kæranda. Þegar af þessari ástæðu byggir kærða á að hún hafi ekki „logið“ um að kæranda hafi verið dæmd forsjá vegna þess að móðir hafi ekki afhent barnið til hans í umgengni. Sé kvörtun því bæði röng og tilefnislaus.
Varðandi hið umþrætta sjónvarpsviðtal bendir kærða á að hún hafi farið í það að beiðni umbjóðanda síns sem hafi verið viðstaddur framkvæmd þess. Jafnframt því hafi frumkvæðið að viðtalinu komið frá viðkomandi fjölmiðli vegna umræðu á neti um dóminn og að öllum líkindum undirskriftarsöfnun sem hafi þá verið hafin. Bendir kærða á að efni viðtalsins hafi lotið að niðurstöðu héraðsdóms í dómsmálinu þar sem umbjóðandi hennar hafi talið að sú niðurstaða væri ekki í samræmi við það sem barninu væri fyrir bestu og þannig í skjön við 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Að sama skapi væri dómurinn einstakur að því leyti að í fyrsta sinn hefði verið færð forsjá á milli foreldra vegna tálmana á umgengni. Vísar kærða jafnframt til þess að viðtalið hafi aðeins verið í birtingu í skamman tíma á vefsvæði viðkomandi fjölmiðils.
Kærða lýsir því að það hafi verið mat hennar, sem og umbjóðanda hennar, að þetta atriði hafi ráðið niðurstöðu í héraðsdómi og að skort hafi á heildarmat dómsins á hagsmunum barnsins, sem hafi verið í óskiptri umsjá móður undanfarin tvö ár. Auk þess hafi ekki verið rætt í viðtalinu um annað en komið hafi fram í dómi héraðsdóms, án nafngreiningar eða tilgreiningar á neinum öðrum atvikum. Samkvæmt því hafi ekki verið gefnar upplýsingar á skjön við ákvæði laga eða reglna þrátt fyrir að þinghald hafi verið lokað í héraðsdómsmálinu. Jafnframt því hafi sama efni og rætt hafi verið um í viðtalinu sætt opinberri birtingu á heimasíðu Landsréttar, vegna birtingar á úrskurði réttarins frá x. september 20xx og um leið héraðsdóms um umgengni, og vegna birtingar á úrskurði Landsréttar frá x. janúar 20xx vegna kröfu um yfirmat og um leið úrskurði héraðsdóms um sama atriði. Önnur atriði en fram koma í fyrirliggjandi héraðsdómi hafi heldur ekki komið fram. Kærða vísar þó til þess að viðtalið hafi verið klippt af viðkomandi fjölmiðli án samráðs við kærðu, en þar hafi svör kærðu að einhverju leyti verið slitin úr samhengi og stytt. Aðalatriðið sé þó að hvergi sé að finna bannreglu í lögum um almenna umræðu um dóma í forsjármálum án nafngreiningar, hvort sem er í fjölmiðlum eða annars staðar, enda fæli slík regla í sér ótvírætt brot á 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.
Kærða tekur fram að umbjóðandi hennar hafi sjálfur tekið þátt í opinberri umræðu, einkum á netmiðlum, um mál sitt auk þátttöku í samtökum sem hafi það að markmiði að bæta réttindi aðila sem telja sig eða börn sín hafa orðið fyrir ofbeldi. Vísar kærða til þess að umbjóðandi sinn telji sig og barn sitt hafa orðið fyrir órétti við rekstur forsjármálsins. Í öllum tilvikum hafi það hins vegar verið gert nafnlaust og gætt að því að umfjöllun hefði ekki að geyma persónugreinanlegar upplýsingar. Með þessu hafi umbjóðandinn nýtt sér rétt sinn til að tjá sig, sem varinn sé af ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Íslandi eigi aðild að. Þar sem umbjóðandi tjái sig nafnlaust og út frá fyrirliggjandi birtum dómum og úrskurðum í málinu, geti það ekki heldur falið í sér brot á 2. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991. Áréttar kærða þó að hún hafi hvorki tekið þátt í þessari umfjöllun né starfi viðkomandi samtaka. Þá hafi kærða ekki komið að viðkomandi undirskriftarsöfnun.
Kærða lýsir því að fráleitt sé að um ærumeiðingar sé að ræða líkt og kvörtun sé reist á, enda falli viðtalið eða svör kærðu í engu undir þá skilgreiningu. Þar hafi aðeins verið rætt um dómsorð og forsendur í máli sem hafi þá þegar verið í opinberri umræðu auk þess sem dómurinn hafi sætt hefðbundinni birtingu án þess að nöfn kæmu fram. Bendir kærða á að ef fallist væri á málatilbúnað kæranda um þetta efni þá væri opinber umræðu um ákvarðanir dómstóla í málefnum barna beinlínis bönnuð, en slíkt væri á skjön við sjónarmið um öll réttaröryggi.
Kærða kveðst hafna því að tilurð viðtalsins hafi tengst með einhverjum hætti aðfararkröfu kæranda eða hugsanlegri kröfugerð hans fyrir dómi. Að auki hafi það verið nátengt málsástæðum umbjóðanda kærðu fyrir kröfu hennar um forsjá, að benda á að engra þeirra úrræða hefði verið gætt sem lögbundin séu í barnalögum til að koma á umgengni, svo sem með dagsektum og aðför, heldur hafi kærandi farið beint af stað með kröfu um óskipta forsjá um leið og hann hafi verið tekinn til rannsóknar vegna meintra kynferðisbrota. Óhjákvæmilegt hafi verið að benda á það efni til stuðnings kröfum umbjóðanda kærðu. Þá hafi ekki falist í því brot á nokkrum ákvæðum siðareglna lögmanna.
Kærða byggir jafnframt á því að samkvæmt 8. gr. siðareglna lögmanna eigi hún rétt á að verða ekki samkennd hagsmunum umbjóðanda síns, þar á meðal málsástæðum umbjóðandans, staðhæfingum um atvik eða annað sem málinu tilheyri. Þá hafi skylda kærðu sem lögmanns til að sýna kæranda tillitssemi í málinu ávallt þurft að vera samrýmanleg hagsmunum skjólstæðingsins, sbr. 34. gr. siðareglnanna, og skyldu kærðu til að gæta hagsmuna umbjóðandans í hvívetna. Samkvæmt því hafi þeirra atriði sem kvörtun taki til ekki verið gætt með öðrum hætti við rekstur málsins en gert hafi verið vegna hagsmuna og óskað umbjóðanda kærðu.
Að endingu kveðst kærða alfarið hafna hverjum þeim órökstuddu og tilhæfulausu ásökunum um mögulega ágalla á störfum hennar og vanhæfni sem settar séu fram af hálfu kæranda.
Í viðbótarathugasemdum til nefndarinnar ítrekaði kærða þau sjónarmið sem komið höfðu fram í fyrri greinargerð, sem áður er lýst. Bendir kærða jafnframt á að umfjöllun um þau atriði sem komið hafi fram í umþrættu sjónvarpsviðtali hafi í heild verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og á ýmsum vefmiðlum í meira en ár fyrir uppkvaðningu dóms héraðsdóms um forsjá, en sú umfjöllun hafi verið nafnlaus líkt og sjónvarpsviðtalið. Samkvæmt því hafi mál umbjóðanda kærðu þegar verið til umfjöllunar með opinberum hætti löngu fyrir sjónvarpsviðtalið. Ekkert nýtt hafi komið fram í viðtalinu, sem ekki hafi annað hvort áður birst í úrskurðum og dómum dómstóla eða í umfjöllum fjölmiðla og vefmiðla.
Kærða bendir aukinheldur á að Landsréttur hafi snúið niðurstöðu héraðsdóms með dómi uppkveðnum þann x. desember 20xx. Hafi umbjóðanda kærðu verið veitt óskipt forsjá barnsins, en í dómi Landsréttar hafi einn dómari skilað sératkvæði. Þá hafi Hæstiréttur veitt kæranda áfrýjunarleyfi í málinu þann x. febrúar 20xx. Samkvæmt því sé ágreiningsmál aðila um forsjá barnsins enn óútkljáð.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar tiltekið í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna. Þá er því lýst í 35. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki til framdráttur málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, m.a. að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, sem valdið getur gagnaðila hneykslisspjöllum.
II.
Líkt og fyrr er rakið lýtur kvörtun kæranda að viðtali sem tekið var við kærðu og birt var í sjónvarpsfréttum D þann x. september 20xx. Byggir kærandi á að kærða hafi þar farið með lygi, meiðyrði og opinberar uppljóstranir vegna dómsmáls sem háð hafi verið fyrir luktum dyrum. Þannig hafi kærða ranglega upplýst að niðurstaða héraðsdóms um forsjá í viðkomandi dómsmáli hafi einungis verið byggð á tálmun umbjóðanda kærðu varðandi umgengni barnsins við kæranda. Þá hafi kærða tjáð sig í viðtalinu um ætlað og ítrekað ..... kæranda nálægt dóttur sinni. Um þetta tiltekna atriði hafi ekki verið fjallað í héraðsdómi heldur hafi verið um að ræða upplýsingar úr lögregluskýrslu sem teknar hafi verið úr samhengi og til þess fallnar að gera kæranda tortryggilegan á sama tíma og umbjóðandi kærðu stóð fyrir undirskriftarsöfnun og herferð gegn kæranda í fjölmiðlum. Hafi kærða gert á hlut kæranda með háttsemi sinni, sbr. 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna. Jafnframt því hafi kærða brotið gegn 2. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með því að hafa skýrt opinberlega frá því sem gerst hafi í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara.
Kærða hefur á hinn bóginn hafnað málatilbúnaði kæranda og vísað til þess að hún hafi farið í hið umþrætta sjónvarpsviðtal að beiðni umbjóðanda síns sem hafi verið viðstaddur framkvæmd þess. Jafnframt því hafi frumkvæðið að viðtalinu komið frá fjölmiðlinum vegna opinberrar umræðu sem skapaðist hafði um dóm héraðsdóms í viðkomandi máli. Hafi efni fréttarinnar og viðtalsins við kærðu varðað niðurstöðu héraðsdóms í máli þar sem umbjóðandi kærðu hafi talið að hún samræmdist ekki því sem barninu væri fyrir bestu í skilningi 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Að sama skapi hafi dómur héraðsdóms verið einstakur að því leyti að í fyrsta sinn hefði verið færð forsjá á milli foreldra vegna tálmana á umgengni. Hafi það verið mat kærðu, sem og umbjóðanda hennar, að það atriði hafi ráðið niðurstöðu héraðsdóms í málinu. Bendir kærða á að ekki hafi verið rætt í viðtalinu um annað en komið hafi fram í dómi héraðsdóms, án nafngreiningar eða tilgreiningar á öðrum persónugreinanlegum atvikum. Hafi því ekki verið gefnar upplýsingar á skjön við ákvæði laga eða reglna þrátt fyrir að þinghald í málinu hafi verið háð fyrir luktum dyrum. Auk þess hafi sama efni og viðtalið hafi tekið til sætt opinberri birtingu á heimasíðu dómstóla.
Þegar hið umþrætta sjónvarpsviðtal fór fram og birtist í kvöldfréttum D, lá fyrir dómur héraðsdóms um hvernig forsjá, lögheimilisskráningu, meðlagi og umgengni skyldi háttað vegna barns kæranda og umbjóðanda kærðu. Svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan var öllum ásökunum um meint kynferðisbrot kæranda og að hann væri hættulegur barninu hafnað í héraðsdómi. Í dómnum er ekki að neinu leyti vikið að því að kæranda ...... í návist barnsins eða í samhengi við samveru kæranda með því. Héraðsdómur lagði til grundvallar og fjallaði um að ekki yrði séð að neinn slíkur munur væri á forsjárhæfni aðila að unnt væri að gera upp þeirra á milli á þeim grundvelli. Var það niðurstaða héraðsdóms, á grundvelli heildarmats, að forsjá og lögheimili barnsins skyldi vera hjá kæranda en sú niðurstaða var meðal annars reist á því að umbjóðandi kærðu hefði neitað kæranda um umgengni við barnið þrátt fyrir úrskurð dómstóla um það efni, ásamt því að umbjóðandi kærðu hefði lýst því yfir að hann hygðist ekki fara eftir niðurstöðu dómsins um umgengni barnsins við kæranda ef hann sætti sig ekki við þá niðurstöðu.
Þegar sjónvarpsviðtalið birtist á D þann x. september 20xx var í gangi herferð gegn kæranda í fjölmiðlum þar sem sterklega var gefið til kynna að kærandi hefði misnotað barn sitt kynferðislega og þess krafist að stjórnvöld hefðu af þeim sökum afskipti af niðurstöðu héraðsdóms.
Kvörtun kæranda í máli þessu lýtur meðal annars að því að kærða hafi ranglega fullyrt í hinu umþrætta viðtali að eina ástæða þess að kæranda hefði verið falin forsjá barnsins hafi verið tálmun umbjóðanda hennar á umgengni barnsins við kæranda. Í niðurstöðu héraðsdóms var það lagt til grundvallar að ekki væri unnt að gera upp á milli forsjárhæfni aðila og verður að mati nefndarinnar ekki framhjá því litið að niðurstaða héraðsdóms um forsjárskipan laut að miklu leyti að þeirri tálmun sem umbjóðandi kærðu hafði viðhaft. Með hliðsjón af ofangreindu verður ekki talið að umfjöllun kærðu í hinu umþrætta viðtali hafi að þessu leyti gert á hlut kæranda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.
Kvörtun kæranda lýtur einnig að því að kærða hafi í umræddu viðtali lýst því að kærandi hafi ítrekað haft ........ í námunda við barnið, sem sé ósatt með öllu. Þinghald í máli þessu var lokað á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sömu laga er með öllu óheimilt að skýra opinberlega frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara. Í einhverjum tilvikum kann þó að vera heimilt að tjá sig um dómsmál í lokuðu þinghaldi og kann slíkt beinlínis að vera nauðsynlegt svo opinber og óheft umræða um dóma geti farið fram. Með hliðsjón af efni og mögulegu fordæmisgildi þessa dóms, verður ekki talið óeðlilegt að fjölmiðill hafi talið dóm héraðsdóms fréttnæman með þeim hætti sem gert var þann x. september 20xx. Má um það efni jafnframt vísa til ákvörðunar Hæstaréttar í máli nr. 2021-15 frá 9. febrúar 2021 þar sem veitt var áfrýjunarleyfi í viðkomandi máli á grundvelli fordæmisgildis um atvik málsins og þá einkum með tilliti til þess hvaða áhrif tálmun á umgengni hefði á niðurstöðu um forsjárhæfni foreldra.
Þótt vera kunni að ákvæði 73. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar takmarki ekki með öllu umræðu um dómsmál sem fram fara í lokuðu þinghaldi, liggur fyrir í þessu máli að kærða miðlaði viðkvæmum persónuupplýsingum í skilningi b. liðar 3. tl. 3. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þegar hann tjáði sig um ......... gagnaðila, umfram það sem fram kemur í dómnum sjálfum. Eru þau heilsufarsvandamál hans einkamálefni sem varin eru af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. ........ kæranda er í viðtalinu sérstaklega sett í samhengi við samveru hans við barnið, þrátt fyrir að leiddar hafi verið líkur að því að um væri að ræða líkamlegt vandamál sem ótengt væri barninu. Var umrætt ástand kæranda þannig sett í tortryggilegt samhengi á sama tíma og blásið hafði verið til atlögu gegn honum í fjölmiðlum og gat umfjöllunin því aðeins orðið olía á þann eld. Þá er til þess að líta að enda þótt umfjöllun kærðu hafi verið nafnlaus má ljóst vera að mörgum var kunnugt um hverjir áttu hlut að máli eða áttu auðvelt með að komast að því. Má í því samhengi benda á að undir rekstri málsins bárust kæranda hótanir og hefur hann m.a. þurft að dylja heimilisfang sitt hjá Þjóðskrá.
Að áliti nefndarinnar var háttsemi og framkoma kærðu í umræddu viðtali ekki í samræmi við ákvæði 34. gr. siðareglna lögmanna. Þá er það mat nefndarinnar að sú háttsemi kærðu að fjalla um viðkvæmar heilsufarsupplýsingar kæranda í viðtalinu hafi verið til þess fallin að valda kæranda hneykslisspjöllum í skilningi 35. gr. siðareglna lögmanna.
Að virtu öllu því sem að framan greinar er það mat nefndarinnar að kærða hafi, með þeirri háttsemi sem áður er lýst, brotið gegn ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka-mála, 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. b. lið 3. tl. 3. gr. sömu laga og 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna. Verður að telja þessa háttsemi kærðu ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita kærðu áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærða, B lögmaður, sætir áminningu.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
_____________________________________
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Helgi Birgisson
Valborg Þ. Snævarr