Mál 30 2020
Mál 30/2020
Ár 2021, 18. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 30/2020:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 13. nóvember 2020 erindi kæranda, A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við kærðu, B, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum kærðu í störfum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 2. febrúar 2021 og barst hún þann 8. mars s.á. Var kæranda send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi þann sama dag. Viðbótarathugasemdir kæranda í málinu bárust nefndinni þann 6. apríl 2021 og voru þær kynntar kærðu með bréfi 7. s.m. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar eða athugasemda af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi leitað til kærðu í kjölfar úrskurðar Landsréttar í máli nr. x/20xx frá x. janúar 20xx, þar sem tekin var til greina krafa C fyrrverandi sambúðarmaka kæranda, um opinber skipti til fjárslita, en með því snéri Landsréttur við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. D-x/20xx frá x. desember 20xx sem hafði áður hafnað kröfu um opinber skipti. Með úrskurði héraðsdóms þann x. maí 20xx var D lögmaður skipuð skiptastjóri.
Forsaga málsins er sú að kærandi og C hófu sambúð þann x. janúar 2004. Þann x. mars 2005 keypti kærandi íbúð í eigin nafni að E, Mosfellsbæ og var hún ein skráð sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Kaupverð eignarinnar var kr. 20.230.000 og greiddi kærandi ein útborgun í íbúðinni að fjárhæð kr. 4.330.000, en tekin voru lán að fjárhæð kr. 15.900.000 fyrir eftirstöðvunum. Enn fremur liggur fyrir að kærandi greiddi ein fyrir endurbætur á íbúðinni, kr. 1.038.495.
Sambúðinni var slitið þann x. mars 20xx og þann x. nóvember 20xx seldi kærandi fasteign sína á kr. 51.400.000. Fékk kærandi greiddar kr. 27.688.614 inn á bankareikning sinn þegar tekið hafði verið tillit til uppgreiðslu áhvílandi lána og alls kostnaðar við söluna. Ágreiningur milli kæranda og fyrrum sambúðaraðila snérist um hvort sá síðarnefndi ætti hlutdeild í E, Mosfellsbæ og hvort og þá hvað aðilar hefðu lagt fram til eignamyndunar í þeirri eign. Einnig var uppi ágreiningur um viðmiðunardag skipta og uppgjör á sameiginlegum kostnaði.
Kærða útbjó kröfugerð í umræddu ágreiningsmáli fyrir kæranda og var kröfugerðin send skiptastjóra í tölvubréfi þann 10. júní 2019. Á skiptafundi þann x. júní sama ár var óskað eftir því að skiptastjóri myndi leitast við að jafna ágreining aðila og sendi skiptastjóri aðilum málsins afstöðu sína í tölvupósti dags. 21. ágúst s.á., sem fól í sér að eignarhlutdeild mannsins í fasteigninni teldist vera kr. 3.300.000, eða sem svarar 11,92% af söluandvirði fasteignarinnar. Kærandi sætti sig ekki við framangreinda niðurstöðu skiptastjóra og með bréfi dags. x. september 20xx var ágreiningnum vísað til dómstóla á grundvelli 122. gr. laga nr. 20/1991. Gögn málsins bera með sér að við upphaf skiptameðferðar hafi legið fyrir verulegt magn gagna sem lögð voru fram vegna kröfu um opinber skipti en meðal framlagðra gagna var óundirritað samkomulag milli kæranda og C dags. 1. júní 2005 varðandi hlutdeild í eignarmyndun við stofnun sambúðar. Umrætt samkomulag var einnig lagt fram með greinargerð C við meðferð héraðsdómsmálsins. Þar kom m.a. fram varðandi E, Mosfellsbæ, að séreign kæranda væri 26,5% með hliðsjón af kaupsamningsgreiðslu og endurbótum sem kærandi greiddi. Að öðru leyti væri fasteignin sameign aðila. Í bæði héraðsdómsmáli nr. Q-xxx/20xx og í máli Landsréttar nr. xxx/20xx var vísað til þess að umrætt samkomulag væri óundirritað og því ekki hægt að byggja á efni þess við úrlausn málanna.
Þann x. júní 20xx var kveðinn upp úrskurður í héraðsdómsmálinu nr. Q-xxx/20xx þar sem niðurstaðan var sú að eignarhlutur fyrrverandi sambúðarmaka kæranda væri metinn kr. 2.522.657 af söluandvirði fasteignarinnar og var viðmiðunardagur skipta ákvarðaður 14. mars 2015.
Af málsgögnum verður ráðið að þann 9. júlí 2020, sem var síðasti dagur kærufrests miðað við uppkvaðningardag úrskurðar í máli nr. Q-xxx/20xx, lagði kærandi sjálf fram kæru á úrskurðinum til Landsréttar á grundvelli 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Daginn eftir, eða 10. júlí 2020 móttók Héraðsdómur Reykjavíkur kæru á sama úrskurði frá kærðu.
Í málinu liggur fyrir tölvubréf dags. 6. júlí 2020 frá kæranda til kærðu, þar sem hún óskar eftir að heyra frá kærðu vegna málsins og biður hana að hafa samband sem fyrst. Kl. 09:39 þann 9. júlí s.á. berst eftirfarandi svar í tölvubréfi frá kærðu:
„Sæl A og afsakaðu hvað ég svara þér seint.
Eftir að dregið var úr samkomubanninu i byrjun maí þá hef ég verið nánast samfellt í héraðsdómi og á fundum þar sem vinna átti allt upp sem var frestað áður fyrir sumarleyfi stofnananna og því hef ég lítið haft við í samskiptum við umbjóðendur mína, þ. á. m. að hringja í þig til að ræða þetta slæmu niðurstöðu héraðsdóms. Ég er á fundi núna frameftir degi en verð svo á stofunni frameftir kvöldi og hringi í þig um leið og ég er laus.“
Ágreiningur er á milli málsaðila um hvenær símtalið sem vísað er í tölvubréfinu átti sér stað og hvað þeim fór í milli. Hefur kærandi þannig vísað til þess kærða hafi hringt kl. 18:00 þann 9. júlí til þess að ræða við hana um úrskurðinn og hafi kærandi þá bent á að öll gögn hafi ekki verið lögð fram við meðferð málsins hjá héraðsdómi og á kærða að hafa viðurkennt það og beðið kæranda afsökunar. Kærða hefur hins vegar mótmælt þessu og kveðst hafa hringt í kæranda kl. 12:00 þann 9. júlí til þess m.a. að kanna hvort kærandi vildi una úrskurði héraðsdóms m.t.t. áhættu af kærumeðferð í Landsrétti. Það hafi kærandi alls ekki viljað og tjáð kærðu að hún hefði sjálf gengið frá kæru. Kveðst kærða einnig hafa sent inn kæru síðar þennan sama dag. Gögn málsins bera með sér að kæra kærðu til Landsréttar hafi verið móttekin af Héraðsdómi Reykjavíkur kl. 09.11 þann 10. júlí 2020. Í kæru kærðu kom meðal annars fram eftirfarandi:
„Hvorki kærandi né umboðsmaður hans sóttu þing við uppkvaðningu úrskurðar vegna boðaðra forfalla og er úrskurðurinn því kærður miðað við lok kærufrests þann 13. júlí, sbr. 1. tl. 144. gr. laga nr. 91/1991“.
Þann 10. júlí 2020 kl. 15.13 sendi kærða tölvubréf til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem hún óskaði eftir að fá kærugjaldið endurgreitt inn á reikning stofu sinnar vegna þess að hún og umbjóðandi hennar hafi báðar gengið frá kæru til Landsréttar og því tvígreitt kærugjald.
Þann 20. júlí 2020 sendir kærandi tölvubréf til kærðu og upplýsir að hún hafi útprentuð gögn undir höndum sem eigi örugglega að vera hluti af dómsskjölum til Landsréttar. Kærða svarar daginn eftir ásamt því að senda efnisyfirlit kærumálsgagnanna. Í svari kærðu segir m.a. :
„ertu með skjöl þessu til viðbótar sem þú kemur með í dag, sem eru þá ekki talin þarna?“
Kærandi svarar 23. júlí s.á. og segir, ásamt því að fjalla um tölvupósta sem hún fann og drög að samkomulagi um fjárskipti frá janúar 2015 sem hún vildi láta bæta við dómsskjölin:
„Ætli það sé ekki búið að ganga frá öllu núna“.
Kærða svarar kæranda samdægurs og í tölvubréfi frá henni segir m.a.:
„Skjölin eru öll komin inn í bækur en ég skal fara yfir þetta m.t.t. að bæta þessu við sem viðbótarskjölum til Landsréttar. Meðfylgjandi er svo greinargerðin fyrir þig til að líta yfir en eins og þú sérð vísa ég þar ítrekað til þinnar greinargerðar einnig til þess að tvítaka engin atriði. En sendu mér endilega athugasemdir ef einhverjar eru“.
Kærandi svarar sama dag þar sem fram kemur m.a. eftirfarandi:
„Jæja búin að fara yfir og sé ekki betur en að allt sé skýrt og greinanlegt...“.
Í greinargerð kærðu til Landsréttar kemur fram að í málinu liggi fyrir tvær kærur þar sem kærandi hafi kært úrskurð héraðsdóms sjálf skömmu áður en kærða skilaði inn kæru til dómsins fyrir hennar hönd og þar sem báðar kærur hafi verið mótteknar af dóminum og orðalag dómkrafna ekki með öllu það sama sé byggt á þeim báðum í málinu og þær séu báðar í yfirliti kærumálsgagna og að greinargerðin sé gerð vegna þeirra beggja. Í greinargerðinni kemur einnig fram að kærandi hafi sjálf gert skýrslu til Landsréttar þar sem hún greinir ítarlega frá atvikum málsins, málsástæðum og rökstuðningi og að dómkröfur kæranda séu einnig byggðar á því sem þar kemur fram.
Þann 1. október 2020 barst kærðu tölvupóstur frá kæranda þar sem hún upplýsir að fram hafi komið ósamræmi í málflutningi varðandi heildarkostnað íbúðarinnar og að hún geti ekki séð að endanleg gögn hennar um íbúðina hafi verið lögð fram. Þá kveðst kærandi hafa hringt í Landsrétt sama dag og fengið þær upplýsingar að búið væri að úthluta málinu en að enn væri hægt að koma á framfæri a gögnum til dómstólsins. Ágreiningslaust er að kærða sendi inn rétt gögn.
Í úrskurði Landsréttar í máli nr. xxx/20xx sem kveðinn var upp þann x. nóvember 20xx er fjallað um málsmeðferð og dómkröfur aðila. Er þar sérstaklega fjallað um að kærandi hafi skotið málinu til Landsréttar með kæru þann x. júlí 20xx og að daginn eftir hafi kæra kærðu fyrir hönd kæranda borist vegna sama úrskurðar, með kröfu um að hinum kærða úrskurði yrði hnekkt. Um framlagningu kæranna segir í úrskurði Landsréttar:
„Af hálfu varnaraðila er ekki sótt þing en lögmaður boðaði forföll.“ Samkvæmt 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991, er kærufrestur tvær vikur og byrjar fresturinn að líða þegar málsaðili eða umboðsmaður hans fékk vitneskju um úrskurð eða dómsathöfn. Verður að miða við að þessi frestur hafi byrjað að líða þegar við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar þar sem ráða má af fyrrnefndri bókun í þingbók að lögmaður sóknaraðila, varnaraðila í héraði, hafi móttekið boðun til þinghalds til uppkvaðningar úrskurðarins, sbr. dóm Hæstaréttar 19. mars 2014 í máli nr. 171/2014. Þegar kæra lögmannsins barst Landsrétti 10. júlí 2020 var kærufrestur liðinn og geta kröfur sóknaraðila samkvæmt henni ekki komið til álita fyrir réttinum. Fer því um úrlausn málsins eftir þeirri kæru sem barst réttinum innan lögmælts kærufrests.“
Af gögnum málsins má ráða að fjórir reikningar hafi verið gefnir út af lögmannsstofu kærðu vegna ofangreindra lögmannsstarfa í þágu kæranda. Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur 21. júní 2019 að fjárhæð kr. 189.600, í öðru lagi var gefinn út reikningur 30. mars 2020 að fjárhæð kr. 372.000, í þriðja lagi reikningur dags. 15. maí 2020 að fjárhæð kr. 992.000 og í fjórða og síðasta lagi reikningur dags. 5. ágúst 2020 að fjárhæð kr. 659.875. Samanlagt námu þessir fjórir reikningar kr. 2.213.475. Samkvæmt málskostnaðaryfirliti sem er á meðal málsgagna fyrir nefndinni, nam heildarkostnaður vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi, skriflegrar málsmeðferðar fyrir Landsrétti og skiptameðferðar skiptastjóra, kr. 3.424.575. Voru skráðir tímar vegna vinnu kærðu 99 talsins, á tímagjaldinu kr. 25.000, á tímabilinu mars 2019 til desember 2020, auk útlags kostnaðar að fjárhæð kr. 355.575. Af málsgögnum verður ráðið að kærandi og kærða ræddu saman eftir að niðurstaða Landsréttar lá fyrir í málinu og að kærða hafi boðist til að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar án endurgjalds. Ekki verður hins vegar séð að málsaðilar hafi átt í frekari samskiptum.
II.
Að mati nefndarinnar verður að skilja upphaflegan málatilbúnað kæranda í kvörtun til nefndarinnar með þeim hætti að hann lúti annars vegar að ágreiningi um endurgjald kærðu eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, en hins vegar að broti á lögum eða siðareglum á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Kærandi lýsir því að með úrskurði Landsréttar í máli nr. xx/20xx hafi verið fallist á kröfu fyrrverandi sambúðarmaka hennar, C um opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæranda hafi í kjölfarið verið ráðlagt af Kvennaathvarfinu og Miðstöð ofbeldis í Bjarkarhlíð að leita aðstoðar lögmanns sem hefði góða þekkingu á málum sem þessum og var kærða nefnd á nafn í því sambandi. Svo fór að kærða tók að sér hagsmunagæslu fyrir kæranda.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavikur þann x. maí 20xx var skipaður skiptastjóri og á skiptafundi x. júní sama ár var óskað eftir að skiptastjóri myndi leitast eftir að jafna ágreining kæranda og C. Það gekk ekki eftir og var ágreiningnum vísað til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Kærandi kveðst allt frá því að vinna fór í gang vegna opinberra skipta hafa haft vissar áhyggjur af framgangi málsins og lagalegum hliðum þess. Þá kveðst hún einnig hafa afhent kærðu öll gögn, en þau hafi hins vegar ekki öll verið lögð fram við opinber skipti og ekki í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. Q-xxx/20xx.
Úrskurður í héraðsdómsmálinu nr. Q-xxx/20xx var kveðinn upp þann x. júní 20xx og var niðurstaðan ekki í samræmi við væntingar kæranda. Ágreiningslaust er að kærandi sendi sjálf inn kæru til Landsréttar á úrskurði héraðsdóms þann x. júlí 20xx, á síðasta degi kærufrest miðað við uppkvaðningardag úrskurðar í málinu. Við birtingu úrskurðarins hafi kærða sent aðstoðarkonu sína og hafi hún sent kæranda úrskurðinn í tölvupósti án skýringa. Kæranda hafi síðan verið ljóst eftir lestur á úrskurðinum að ekki höfðu öll gögn verið lögð fram. Kærandi lýsir því að kærða hafi ekki haft samband við sig til þess að ræða niðurstöðuna, þó svo hún hafi bæði hringt og ítrekað sent kærðu póst og óskað eftir því að hún hefði samband.
Kveðst kærandi hafa verið mjög ósátt við þessi vinnubrögð og liðið eins og kærða hafi brugðist sér og í kjölfarið hafi hún sjálf sent inn kæru á síðasta degi kærufrests. Að sögn kæranda hafi kærða loks hringt um kl. 18:00 þann 9. júlí til þess að fara yfir dóminn. Í því símtali hafi kærandi bent kærðu á að ekki hafi öll gögn verið lögð fram við meðferð málsins í héraði og hafi kærða viðurkennt það. Hún hafi verið störfum hlaðin og það misfarist. Hafi kærða beðið kæranda afsökunar og talað um að hún vildi „klára málið“ með henni og að öll gögn yrðu lögð fram með greinargerðinni til Landsréttar.
Í október 2020 hafi kærandi skoðað framlögð kærumálsgögn til Landsréttar og þá uppgötvað að sum gögnin voru gömul og önnur vantaði. Hafi kærandi í kjölfarið haft samband við Landsrétt sem veitti heimild til að skila inn réttum gögnum og eru aðilar samhljóma um að kærða hafi gert það í kjölfarið.
Þá segir í kvörtuninni að það hafi komið kæranda á óvart þegar henni barst reikningur frá kærðu vegna þeirrar vinnu sem hún lagði í eftir að kærandi hafði sjálf kært úrskurð héraðsdóms til Landsréttar. Taldi kærandi sig þegar hafa greitt fyrir vinnuna í málinu, sem þó hafi verið ófullnægjandi að hennar mati og því ekki búist við að fá kr. 660.000 reikning til viðbótar.
Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að í úrskurði Landsréttar í máli nr. xxx/20xx, sem kveðinn var upp x. nóvember 20xx, hafi komið fram að rétturinn tæki ekki mið af kæru kærðu þar sem hún hafi borist eftir að kærufrestur var liðinn. Kröfur kæranda samkvæmt þeirri kæru hafi því ekki komið til álita fyrir réttinum, heldur einungis kröfur sem hafðar voru uppi í kæru frá kæranda sjálfri sem barst innan kærufrests.
Í upphaflegu erindi kæranda og viðbótarathugasemdum hennar er fjallað um áðurnefnt óundirritað samkomulag milli kæranda og fyrrverandi sambúðarmaka dags. x. júní 2005, þar sem hún gerir athugasemd við að kærða hafi ekki mótmælt skjalinu, en í það hafi ítrekað verið vísað við meðferð málsins.
Í viðbótarathugasemdum kæranda kemur fram að eftir að niðurstaða Landsréttar lá fyrir hafi kærandi rætt við kærðu í síma um reikninginn frá 5. ágúst. Hafi kærandi tjáð kærðu að sér þætti siðlaust af hennar hálfu að senda reikninginn, þar sem kostnaðurinn væri til kominn vegna hennar mistaka. Hafi kærða í framhaldinu boðist til þess að láta reyna á málið endurgjaldslaust fyrir Hæstarétti. Til þess kom þó ekki.
III.
Kærða hafnar alfarið öllum ásökunum kæranda um mögulega ágalla á störfum hennar og hæfni sem settar eru fram í kvörtun til úrskurðarnefndar. Verði að skilja kvörtun kæranda á þann hátt að hún telji að lögmannsstörf kærðu fyrir hana við meðferð mála fyrir héraðsdómi, Landsrétti og jafnvel við skiptameðferð skiptastjóra hafi verið ófullnægjandi.
Kærða vísar til þess að öll gögn málsins hafi legið fyrir í upphafi og þau verið lögð fram við beiðni um opinber skipti, auk þess sem atvik málsins hafi að mestu leyti verið óumdeild, þó svo ágreiningur hafi verið um hvaða þýðingu þau ættu að hafa fyrir málsástæður og kröfur aðila. Þetta megi glögglega sjá af fundargerð fyrsta skiptafundar x. maí 2019, þingbók héraðsdómsmálsins nr. Q-xxx/20xx og efnisyfirliti kærumálsgagna til Landsréttar í máli nr. xxx/20xx. Það sé því ekki hægt að leggja til grundvallar að gagnaskortur eða vanræksla af hálfu kærðu hafi leitt til rangrar niðurstöðu. Kærða lýsir því að kærandi hafi sótt alla skiptafundi sjálf með kærðu og hafi tekið fullan þátt í umræðum á þeim fundum og haft vitneskju um hvaða gögn voru lögð fram og að auki haft bein samskipti við skiptastjóra. Allar upplýsingar hafi legið fyrir, svo sem um greiðslur C, greiðslur af íbúðarlánunum, sameiginlegan útgjaldareikning og útreikningur kæranda á ráðstöfun fjármuna af honum, þ.á m. útgjöld sem ekki hefðu átt að vera sameiginleg.
Kærða kveðst ekki hafa verið stödd á lögmannsstofu sinni þegar úrskurður héraðsdóms í máli nr. Q xxx/20xx lá fyrir en séð til þess að úrskurðurinn hafi verið sendur kæranda strax og gert ráð fyrir að hún þyrfti tíma til þess að lesa yfir hann. Þegar leið að lokum kærufrests hafi kærða undirbúið kæru til Landsréttar og haft samband við kæranda á síðasta degi kærufrests, m.a. til að kanna hvort hún vildi ekki una úrskurðinum í ljósi áhættu af kærumeðferð fyrir Landsrétti. Hafi kærandi upplýst að málinu yrði haldið til streitu og jafnframt tjáð kærðu að hún hefði þegar gengið frá kæru. Að sögn kærðu gekk hún einnig frá kæru þennan sama dag til að tilgreining dómkrafna væru í samræmi við það sem áður hafði verið undirbúið, en sú kæra hafi hins vegar ekki verið móttekin af héraðsdómi fyrr en daginn eftir, eða þann 10. júlí 2020, þar sem hún hafi verið send af stað eftir lokun móttöku dómsins þann 9. júlí.
Kærða kveðst hafa vitað að kærandi hafi sent inn kæru þann 9. júlí 2020 og að sú kæra hefði rofið kærufrest, því hafi hún ekki lagt jafn mikla áherslu á að koma sinni kæru inn sama dag. Hún hafi talið að það skipti ekki máli varðandi málsmeðferðina eða niðurstöðu í Landsrétti, enda hafi hún skilað greinargerð fyrir kæranda í Landsrétti með ágripi kærumálsgagna þar sem vísað var til þess að báðar kærurnar hefðu verið gerðar og þar væru gerðar endanlegar dómkröfur. Hins vegar sé það rétt að kærða hafi talið kærufrestinn renna út 10. júlí s.á., þar sem hún hafði boðað forföll við uppkvaðningu úrskurðar þann x. júní s.á., en Landsréttur hafi leiðrétt það. Engu síður hafi kærumálið í heild sinni komið til kasta Landsréttar, báðar kærur hafi legið fyrir, greinargerðin, öll fylgiskjöl og viðbótarskjöl sem voru send Landsrétti í októbermánuði 2020. Bendir kærða í því sambandi á tölvubréf sem kærandi sendi kærðu þann 1. október s.á. þar sem upplýst er um samskipti hennar við starfsmann Landsréttar þar sem starfsmaðurinn hafi upplýst kæranda um að unnt væri að koma að frekari gögnum, sem síðan hafi verið gert að beiðni kæranda. Kærða bendir á að ef ekkert hefði komist að í Landsréttarmálinu eftir móttöku kæru sem send var af kæranda hefði hún ekki fengið þessi svör frá starfsmanni Landsréttar rúmlega þremur mánuðum síðar, auk þess sem þá hefði átt að vísa gögnum og greinargerð kærðu frá með einhverjum hætti, sem ekki hafi verið gert.
Kærða lýsir því að hún hafi fyrst heyrt frá kæranda vegna kæru til Landsréttar í tölvubréfi þann 6. júlí 2020 og svarað henni með tölvubréfi þann 9. júlí s.á., auk þess sem kærða hafi hringt í kæranda um hádegi þann sama dag. Því sé mótmælt að svörun erinda kæranda hafi verið ábótavant eða til þess fallin að niðurstaðan yrði neikvæð í kærumáli Landsréttar. Vera kunni að kærandi hafi hringt á stofu kærðu fyrir umræddan tíma en kærða hafi verið stödd úti á landi vegna vinnu. Tölvupósturinn þann 6. júlí hafi hins vegar verið fyrstu skilaboðin sem kærða skráði.
Kærða mótmælir því að hún hafi kært úrskurð héraðsdóms of seint, þrátt fyrir umfjöllun þess efnis í úrskurði Landsréttar, og að það teljist vera vanræksla í lögmannsstörfum. Kærða hafi útbúið kæruna og sett fram dómkröfur í samræmi við báðar kröfur í greinargerð. Greinargerðinni, fylgigögnum með henni eða þeim gögnum sem síðar bárust hafi ekki verið vísað frá af Landsrétti. Þannig hafi allt framangreint komið til álita við meðferð málsins fyrir Landsrétti fyrir utan kröfugerð í kæru kærðu. Það sem skiptir máli er að kæra kæranda rauf kærufrestinn og ef kærða hefði ekki haft upplýsingar um að búið væri að skila kærunni, hefði hún gætt betur að tímamörkum.
Varðandi samkomulagið sem kærandi vísar til, segir kærða það vera rétt að framlagningu þess hafi ekki verið mótmælt, enda hafi kærða ekki talið lagalegan grundvöll vera til þess að gera það, þar sem skjalið hafði áður verið lagt fram í dómsmálum aðila og því ekki verið hægt að undanskilja það í þessu máli. Hafi hún því ekki séð fram á að dómari myndi fallast á mótmæli við framlagningu.
Varðandi kostnað af gerð ágrips kveðst kærða hafa rætt það í síma við kæranda þann 9. júlí 2020 og sagt henni að áhætta væri af því að kæra málið. Ekki hafi einungis verið um að ræða kostnað við ágripsgerð heldur einnig skýrsluritun úr héraðsdómi. Kærða taldi kostnaðinn vera bæði hóflegan og óhjákvæmilegan ef kæra ætti mál til Landsréttar.
Varðandi kvörtun kæranda í tengslum við endurgjald vísar kærða til þess að hún telji umkrafið endurgjald fyrir málið hafa verið hæfilegt m.t.t. umfangs þess og efnis. Í heild hafi málskostnaðurinn verið kr. 3.424.575, en inn í því hafi verið rekstur málsins fyrir héraðsdómi, skrifleg málsmeðferð fyrir Landsrétti og skiptameðferð skiptastjóra á tímabilinu mars 2019 til desember 2020. Alls hafi 99 tímar verið skráðir á málið samkvæmt vinnuskýrslu, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð kr. 355.575. Hins vegar hafi aðeins verið gerðir reikningar á kæranda að fjárhæð kr. 2.213.475, eða fyrir um 2/3 af heildarkostnaði.
Að lokum lýsir kærða því að það sé rétt sem fram komi í viðbótarathugasemdum kæranda, að hún hafi boðist til þess að sækja um kæruleyfi til Hæstaréttar án endurgjalds þegar úrskurður Landsréttar lá fyrir, en í því hafi ekki falist viðurkenning á mistökum við meðferð málsins eða vanrækslu í lögmannsstörfum, heldur vegna þess að hún taldi illa með kæranda farið og niðurstöðu dómstóla ranga. Að endingu hafnar kærða alfarið öllum ásökunum um mögulega ágalla á störfum hennar og hæfni.
Niðurstaða
Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærða hafi gerst brotleg við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærðu.
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Fyrir liggur að kvörtun kæranda lýtur annars vegar að gagnaframlagningu í málinu en kærandi hefur um það efni vísað til þess að hún hafi afhent kærðu öll gögn málsins en þau ekki verið lögð fram við opinber skipti og ekki í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. Q-xxx/20xx. Þá hafi þau kærumálsgögn sem kærða lagði fram til Landsréttar ekki verið fullnægjandi, sum hafi vantað og önnur verið óuppfærð.
Að mati nefndarinnar eru ekki efni til að telja að kærða hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna vegna þess kvörtunarefnis sem hér um ræðir. Verður þá að líta til þess að gögn málsins bera með sér að við upphaf skiptameðferðar hafi legið fyrir verulegt magn af gögnum sem lögð voru fram vegna kröfu um opinber skipti og ágreiningsmála sem rekin voru um hana. Sömu gögn lágu fyrir við meðferð héraðsdómsmálsins nr. Q-xxx/20xx og í máli Landsréttar nr. xxx/20xx. Með hliðsjón af tölvubréfum milli aðila dags. 20. og 23. júlí 2020 verður ekki annað séð en að kærandi hafi yfirfarið kærumálsgögnin til Landsréttar ásamt greinargerðinni og að kærða hafi brugðist við þeim athugasemdum sem kærandi hafði þá. Kærandi hafi síðan sent póst þann 1. október sama ár og gert athugasemdir, en hún taldi sum gögn vanta og önnur vera óuppfærð. Ágreiningslaust er að kærða kom umræddum viðbótargögnum að í málinu. Við yfirferð á úrskurði héraðsdóms í máli nr. Q-xxx/20xx og í máli Landsréttar nr. xxx/20xx verður ekki annað séð en að atvik málsins hafi verið að fullu upplýst.
II.
Kvörtun kæranda á grundvelli 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 lýtur hins vegar að þeirri háttsemi kærðu að hafa ekki svarað símtölum og tölvubréfi kæranda varðandi niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. Q-xxx/20xx og að hafa sent inn kæru til Landsréttar vegna sama máls degi of seint.
Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.
Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. sömu reglna að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.
Um það kvörtunarefni að kærða hafi ekki svarað símtölum og tölvubréfi kæranda varðandi niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. Q-xxx/20xx fyrr en á lokadegi kærufrests, liggur í fyrsta lagi fyrir tölvubréf sem kærandi sendi til kærðu þann 6. júlí 2020 og svarbréf kærðu þann 9. júlí sama ár. Af efni tölvubréfsins þann 6. júlí verður ráðið að með því hafi kærandi verið að beina sérstakri fyrirspurn til kærðu um ákveðið efni og að svars mætti vænta frá kærðu, þá sérstaklega í ljósi þess að þær höfðu ekki rætt saman um niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. Q-xxx/20xx og að kærufrestur var að renna út. Með hliðsjón af efni tölvubréfsins liggur fyrir að því var beint til kærðu vegna aðkomu hennar að hagsmunagæslu í þágu kæranda og því beint til kærðu vegna lögmannsstarfa hennar, sbr. 41. gr. siðareglna lögmanna.
Jafnframt liggur fyrir í málinu að kærða svaraði ekki fyrrgreindu erindi kæranda fyrr en 9. júlí 2020, á síðasta degi kærufrests sem verður að teljast of seint. Samkvæmt því er það niðurstaða nefndarinnar að sú háttsemi kærðu að svara ekki erindi kæranda fyrr en á síðasta degi kærufrests, hafi verið í andstöðu 41. gr. siðareglna lögmanna og aðfinnsluverð.
Um það kvörtunarefni að hafa sent inn kæru vegna úrskurðar héraðsdóms í máli nr. Q-xxx/20xx of seint, liggur fyrir að þann 9. júlí 2020, á síðasta degi kærufrests miðað við uppkvaðningardag úrskurðar í máli nr. Q-xxx/20xx, lagði kærandi sjálf fram kæru á úrskurðinum til Landsréttar. Daginn eftir, þann 10. júlí var kæra á sama úrskurði frá kærðu móttekin af héraðsdómi, degi of seint. Gögn málsins bera með sér að kærandi reyndi að hafa samband við kærðu þann 6. júlí s.á. en var ekki svarað fyrr en með tölvubréfi þann 9. júlí s.á., þar sem kærða sagðist m.a. vera á fundi fram eftir degi en myndi hringja um leið og hún yrði laus. Aðilum ber ekki saman um hvort símtalið hafi átt sér stað í hádeginu eða kl. 18:00, eftir lokun á eðlilegum skrifstofutíma, en hvað sem því líður var kæra sú sem kærða lagði fram í málinu ekki móttekin fyrr en að morgni næsta dags. Í málatilbúnaði kærðu um efnið hefur hún vísað til þess að þar sem hún vissi að kæra kæranda hefði rofið kærufrest, lagði hún ekki eins mikla áherslu á að koma kærunni inn á lokadegi frestsins. Þá hefur kærða einnig vísað til þess að hún taldi að kærufresturinn rynni út þann 10. júlí s.á., þar sem hún hafði boðað forföll við uppkvaðningu úrskurðar í máli nr. Q-xxx/20xx.
Kærða var lögmaður kæranda og bar því að senda inn kæru á úrskurði héraðsdóms í máli nr. Q-xxx/20xx innan lögmælts kærufrest í samræmi við óskir kæranda um það efni. Að áliti úrskurðarnefndar var vanræksla kærðu að þessu leyti í andstöðu við 18. gr. lögmannalaga og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna sem áður er lýst. Samkvæmt því telur nefndin að það hafi verið aðfinnsluverð mistök af hálfu kærðu að senda inn kæru á úrskurði í máli héraðsdóms nr. Q-xxx/20xx degi of seint.
III.
Varðandi ágreining um endurgjald þá er á grundvelli 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 hægt að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.
Líkt og áður er rakið annaðist kærða hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna rekstur máls nr. Q-xxx/20xx fyrir héraðsdómi, skriflegrar málsmeðferðar í kærumálinu fyrir Landsrétti, auk skiptameðferðar hjá skiptastjóra á tímabilinu mars 2019 til desember 2020. Fyrir liggur að lögmannsstofa kærðu gaf út fjóra reikninga vegna lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda. Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur 21. júní 2019 að fjárhæð kr. 189.600, í öðru lagi reikningur 30. mars 2020 að fjárhæð kr. 372.000, í þriðja lagi reikningur dags. 15. maí 2020 að fjárhæð kr. 992.000 og í fjórða og síðasta lagi var gefinn út reikningur 5. ágúst 2020 að fjárhæð kr. 659.875. Samanlagt voru því sendir reikningar til kæranda að fjárhæð kr. 2.213.475. Samkvæmt málskostnaðaryfirliti sem er á meðal málsgagna fyrir nefndinni, var heildarkostnaður vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi, skriflegrar málsmeðferðar fyrir Landsrétti og skiptameðferðar skiptastjóra, kr. 3.424.575. Skráðir tímar voru 99 talsins á tímabilinu mars 2019 til desember 2020, á tímagjaldinu 25.000 kr. ásamt útlögðum kostnaði kr. 355.575.
Hefur kærandi borið því við fyrir nefndinni að hún sé ósátt við síðasta reikning lögmannsstofunnar frá 5. ágúst 2020 að fjárhæð kr. 659.875 vegna þeirrar vinnu sem kærða lagði til eftir að kærandi hafði sjálf kært úrskurð héraðsdóms til Landsréttar. Kærða hefði einnig að mati kæranda unnið ófullnægjandi vinnu við meðferð málsins fyrir héraðsdómi og hún því talið að kærða „skuldaði sér“. Eftir að niðurstaða Landsréttar lá fyrir hafi kærandi rætt við kærðu í síma um ofangreindan reikning frá 5. ágúst. Kærandi hafi tjáð kærðu að sér þætti siðlaust af hennar hálfu að senda reikninginn, þar sem kostnaðurinn væri vegna hennar mistaka.
Í málatilbúnaði kærðu fyrir úrskurðarnefndinni hefur aðilinn vísað til þess um efnið að hún telji umkrafið endurgjald fyrir málið hafa vera hæfilegt m.t.t. umfangs og efnis. Í heild hafi málskostnaðurinn á stofu kærðu verið kr. 3.424.575, en inn í því hafi verið rekstur málsins fyrir héraðsdómi, skrifleg málsmeðferð fyrir Landsrétti og skiptameðferð skiptastjóra á tímabilinu mars 2019 til desember 2020. Samkvæmt vinnuskýrslu voru skráðir tímar við málið alls 99, á tímagjaldinu kr. 25.000 og útlagður kostnaður kærðu kr. 355.575. Á kæranda voru hins vegar gefnir út reikningar fyrir kr. 2.213.475, eða fyrir sem svarar um 2/3 af heildarkostnaði.
Fyrir liggur að heildarþóknun sem kærða áskildi sér og fékk greidda vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda á tímabilinu frá mars 2019 til desember 2020 nam kr. 2.213.475. Jafnframt verður ráðið af málsgögnum að endurgjald kærða vegna lögmannsstarfanna var í heild kr. 3.424.575. Liggur því fyrir að kæranda var veittur afsláttur að fjárhæð kr. 1.211.100. Kærða skilaði greinargerð ásamt kærumálsgögnum til Landsréttar. Það er því ljóst að vinna kærðu við málið eftir að kærandi hafði sjálf sent inn kæru vegna úrskurðar héraðsdóms kom að fullum notum. Að mati nefndarinnar verður því að telja að afslátturinn sem kærða veitti sé sanngjarn og í samræmi við þá vinnu sem innt var af hendi. Samkvæmt því er það niðurstaða nefndarinnar að áskilið endurgjald kærðu vegna starfa hennar í þágu kæranda hafi verið hæfilegt, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Áskilin þóknun kærðu, B lögmanns, vegna starfa hennar í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.
Sú háttsemi kærðu, B að hafa ekki svarað erindum kæranda, A fyrr en á síðasta degi kærufrests, er aðfinnsluverð. Þá er sú háttsemi kærðu að hafa sent inn kæru til Landsréttar eftir að kærufrestur var liðinn aðfinnsluverð.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Helgi Birgisson
Valborg Þ. Snævarr