Mál 34 2021

Mál 34/2021

Ár 2022, fimmtudaginn 28. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 13. október 2021 erindi sóknaraðila, A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við varnaraðila, B, kt. 020476-3709, hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar kvörtun í garð lögmannsins vegna ætlaðra brota í störfum, sbr. 27. gr. sömu laga.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 19. október 2021 og barst hún þann 22. desember sama ár. Var sóknaraðila send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 29. desember 2021. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningur í þessu máli lýtur annars vegar að rétti varnaraðila til endurgjalds eða fjárhæð þess fyrir störf sem hann innti af hendi þágu C ehf. frá nóvember 2020 til febrúar 2021, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, og hins vegar að því hvort háttsemi varnaraðila í þeim störfum hafi brotið í bága við lög eða siðareglur lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að sóknaraðili hafi verið eigandi og fyrirsvarsmaður tilgreinds félags á þeim tíma sem hagsmunagæslan stóð en það mun hafa haft með höndum rekstur á hárgreiðslustofu.

Gögn málsins bera með sér að undirliggjandi ágreiningsmál hafi varðað rétt starfsmanns til launa hjá C ehf. Mun dómsmál um það efni hafa verið höfðað á hendur félaginu í októbermánuði 2020 og það þingfest í dómþinghá héraðsdóms.

Af málatilbúnaði aðila og framlögðum gögnum verður ráðið að varnaraðili hafi fyrst haft aðkomu að málinu þann 10. nóvember 2020 en að fyrirtaka í því hafi þá verið á dagskrá dómsins þann x. sama mánaðar. Munu aðilar hafa átt með sér samtöl þann dag og sóknaraðili sent gögn til varnaraðila til yfirferðar og mats á réttarstöðu.

Upplýst hefur verið að lögmaður með aðsetur í D hafi mætt til fyrirtökunnar þann x. nóvember 2020 fyrir varnaraðila. Í framhaldi af því hafi varnaraðili móttekið stefnu málsins auk framlagðra gagna og lagt mat á réttarstöðu félags sóknaraðila, sem stefnda í dómsmálinu.

Eftir það mat kveðst varnaraðili hafa ráðlagt sóknaraðila að leita sátta í málinu með gagnaðila. Fyrir liggur að það var gert og að varnaraðili annaðist þau samskipti við lögmann gagnaðila. Bera málsgögn með sér að sátt hafi tekist þann 11. febrúar 2021, sem kvað á um greiðsluskyldu félags sóknaraðila gagnvart stefnanda og að greiðslum skyldi skipt á fjóra gjalddaga, og hún lögð fram í dómi næsta dag. Þá verður jafnframt ráðið af málsgögnum að sóknaraðili hafi lýst óánægju með gerð og efni sáttarinnar í samskiptum við varnaraðila stuttu síðar, eða fyrst þann 15. febrúar 2021.

Þann 28. febrúar 2021 sendi varnaraðili tímaskýrslu sína vegna málsins til sóknaraðila. Tók hún til alls 8.75 klst. á tímabilinu frá 10. nóvember 2020 til 12. febrúar 2021 á tímagjaldinu 25.900 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var jafnframt í skýrslunni vísað til útlagðs kostnaðar vegna mætinga á dómþing málsins að fjárhæð 47.166 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt því var heildarkostnaður C ehf. samkvæmt tímaskýrslunni að fjárhæð 328.181 króna með virðisaukaskatti.

Ágreiningslaust er að lögmannsstofa varnaraðila gaf út reikning í framhaldi af því gagnvart C ehf. á grundvelli þeirrar tímaskýrslu sem áður er lýst. Er á meðal málsgagna að finna samskipti aðila varðandi þann reikning frá apríl- og maímánuði 2021 en hann mun ekki hafa verið greiddur. Þá hefur varnaraðili upplýst um í málinu að á grundvelli fjárhagsstöðu C ehf. hafi hann fallið frá innheimtu reikningsins og kreditfært hann. Samkvæmt því sé vandséð að ágreiningur geti verið um endurgjald í málinu á milli lögmanns og umbjóðanda, svo sem áskilið sé í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Samkvæmt opinberum gögnum var bú C ehf. tekið til gjaldþrotaskipta þann 14. desember 2021. Mun skiptum á búi félagsins hafa lokið þann 3. mars 2022 og félagið afskráð í kjölfar þess þann 11. sama mánaðar.

Varðandi ágreiningsefni, gögn og málsástæður aðila vísast nánar til þess sem greinir í umfjöllun um málatilbúnað þeirra fyrir nefndinni. sbr. kafla II. og III. hér á eftir.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sem móttekið var þann 13. október 2021.

II.

Að mati nefndarinnar verður að leggja þann skilning í málatilbúnað sóknaraðila að þess sé annars vegar krafist að áskilið endurgjald varnaraðila verði fellt niður eða það lækkað, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, og hins vegar að varnaraðila verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. sömu laga.

Sóknaraðili vísar til þess að kvörtun sé beint að lélegri og ófagmannlegri vinnu varnaraðila. Þá hafi reikningur vegna vinnu varnaraðila verið ósanngjarn og eigi sóknaraðili því ekki að þurfa að greiða hann, þar á meðal að teknu tilliti til framlags varnaraðila.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi verið beðinn um að vinna mál fyrir fyrirtæki hennar, þ.e. C ehf. Hafi varnaraðili alls ekki sinnt málinu vel og hafi reynst erfitt að ná í hann öllum stundum. Þannig hafi varnaraðili ekki beðið um nein gögn til þess að kanna réttarstöðu félagsins í málinu. Á síðustu stundu hafi varnaraðila tekist að fá frest í málinu. Að lokum hafi varnaraðili náð að sætta málið en sóknaraðili hafi hins vegar alls ekki verið sátt við þá niðurstöðu og ekki viljað samþykkja réttarsáttina.

Sóknaraðili bendir á að við upphaf lögskipta hafi varnaraðili tjáð henni að stefnandi málsins hefði gerst brottræk úr starfi og að varnir félags sóknaraðila væru því góðar. Í framhaldi af því hafi sóknaraðili hvorki heyrt frá varnaraðila né hafi vanraraðili beðið um gögn til stuðnings vörninni. Aldrei hafi náðst í varnaraðila í síma né fengist svör frá honum í gegnum tölvubréf eða samfélagsmiðla.

Sóknaraðili vísar til þess að af fyrirliggjandi gögnum sjáist hvernig varnaraðili hafi unnið málið og hversu erfitt hafi reynst að fá frá honum svör. Alltaf hafi svör varnaraðila borist rétt fyrir fyrirtöku málsins í dómi eða jafnvel samdægurs. Hafi sóknaraðila liðið illa og ekki sofið vel vegna þessa. Byggir sóknaraðili á að málið hafi ekki átt að enda með þeim hætti sem það gerði nema vegna þess að varnaraðili vann ekki vinnuna sína.

Sóknaraðili bendir á að lögmenn séu eina von aðila í slíkum málið og að það verði að vera hægt að treysta þeim til að vinna þau mál sem lögð séu í þeirra hendur. Hafi framkoma varnaraðila verði til skammar og brotið gegn siðareglum lögmanna eins og þær leggja sig.

Um nánari atvik vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili hafi tekið að sér mál félags hennar um hálfum mánuði fyrir fyrirtöku þess þann 12. nóvember 2020. Hafi gengið erfiðlega að fá svör frá varnaraðila svo sem efni tölvubréfa og skilaboða á samfélagsmiðlum frá 10. – 12. nóvember 2020 beri með sér. Svör hafi loks borist frá varnaraðila hinn síðastgreinda dag þar sem hann hafi upplýst um að hann fengi annan lögmann til að mæta fyrir sína hönd við fyrirtöku málsins og óska eftir fresti. Kveðst sóknaraðili hafa fengið símhringingu frá varnaraðila í framhaldi af því þar sem upplýst hafi verið um frestun málsins til 10. desember 2020. Jafnframt því hafi varnaraðili farið að tala um hversu flottar myndirnar væru af sóknaraðila á samfélagsmiðlum auk þess sem varnaraðili hafi sent til sóknaraðila myndir af honum með andlitsmálningu og í lögmannsskikkju.

Sóknaraðili vísar til þess að allt hafi farið í sama far eftir þetta og að erfiðlega hafi gengið að ná sambandi við varnaraðila fyrir fyrirtöku málsins þann 10. desember 2020. Vísar sóknaraðili um það efni til textaskilaboða og tölvubréfa sem hún sendi til varnaraðila á tímabilinu frá 7. – 10. desember 2020.

Sóknaraðili vísar til þess að málið hafi endað leiðinlega. Bendir hún á að hún hafi átt í samskiptum við varnaraðila dagana 4. og 11. janúar 2021 vegna málsins. Í áframhaldandi samskiptum aðila í febrúar 2021 hafi varnaraðili upplýst að hann hefði „náð í gegn dómsátt í málinu“ og óskaði eftir að sóknaraðili myndi undirrita hana svo unnt væri að ljúka málinu „utan réttar“. Bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi aldrei rætt við sig um sáttina. Þvert á móti hafi varnaraðili skellt sáttinni til sóknaraðila sem hafi þurft að samþykkja hana og greiða. Því næst hafi varnaraðili gert reikning fyrir vinnu vegna málsins sem hafi verið að fjárhæð 328.181 króna með virðisaukaskatti, sbr. fyrirliggjandi tímaskýrslu vegna málsins.

Sóknaraðili bendir á að í framhaldi þessa hafi varnaraðili byrjað að senda fullt af skilaboðum varðandi greiðslu vegna reikningsins en sóknaraðili hafi að sama skapi lýst yfir óánægju með starfshætti varnaraðila. Hafi varnaraðili þar á meðal reynt að semja um að fá greiðslu „svart“ þannig að lagðir væru fjármunir inn á persónulegan reikning varnaraðila. Kveðst sóknaraðili hafa samþykkt það en aldrei greitt samkvæmt því. Hafi sóknaraðili hrunið á þessum tímapunkti enda ýmist gengið á og fyrirtæki hennar í molum. Liggja meðal annars fyrir í málsgögnum afrit samskipta aðila frá apríl- og maímánuði 2021 um þetta efni.

Sóknaraðili vísar til þess að hún sé enn með kröfu frá varnaraðila sem þurfi að greiða sem og kröfu eða dóm frá stefnanda málsins þar sem það hafi verið endurupptekið í kjölfar þess að ekki hafi verið staðið við sátt. Óskar sóknaraðili eftir afstöðu nefndarinnar til vinnubragða varnaraðila í málinu.

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Varnaraðili vísar til þess að hann telji rétt og eðlilegt að nefndin leiti sátta með aðilum enda hafi hann þegar fallist á að sóknaraðili eða félag hennar þurfi ekki að greiða fyrir þá vinnu sem hann hafi innt af hendi þrátt fyrir að hagkvæm niðurstaða hafi fengist í málið. Hljóti sóknaraðili að vera sátt við þau málalok, þótt þau séu súr fyrir varnaraðila. Þá hafi sú niðurstaða sem varnaraðili náði í málinu verið nákvæmlega sú sem sóknaraðili hafi óskað eftir að fengist. Sé kvörtun því gerð að tilefnislausu.

Varnaraðili ítrekar að hann hafi ekki tekið sér neitt endurgjald fyrir þá vinnu sem hann hafi innt af hendi fyrir félag sóknaraðila. Liggi fyrir ótal tilraunir hans til að sýna sóknaraðila alla mögulega og verulega tilslökun sem verið hafi langt úr hófi fram með hliðsjón af árangursríkri vinnu, útlögðum kostnaði og afar hagkvæmri og sanngjarnri lúkningu málsins. Hafi sú niðurstaða fengist í góðu samráði við sóknaraðila, þrátt fyrir að sóknaraðili kjósi að halda hinu gagnstæða fram. Það að greiða hvorki það hóflega endurgjald sem reikningsfært hafi verið né að koma fram með tillögu að uppgjöri þrátt fyrir sýndan og ítrekaðan vilja varnaraðila til að taka tillit til aðstæðna sóknaraðila, sé verulega ósanngjarnt og ekki í samræmi við rétt varnaraðila til sanngjarns endurgjalds fyrir störf í þágu félags sóknaraðila. Lýsir varnaraðili því að hann hafi kosið að falla frá öllum kröfum gegn félagi sóknaraðila þar sem ljóst hafi þótt að greiðsla myndi ekki berast vegna þjónustu hans.

Varnaraðili lýsir því að dómsátt hafi verið gerð vegna þess máls sem hann hafi rekið fyrir félag sóknaraðila. Hafi hann náð því í gegn að gjalddagar samkvæmt sátt yrðu fjórir og og hafi sóknaraðili verið mjög sátt með það og lýst því að hún vildi „bara klára þetta svona“. Vísar varnaraðili sérstaklega til tölvubréfasamskipta við lögmann gagnaðila frá 10. og 11. febrúar 2021. Lýsir varnaraðili því jafnframt að samskipti aðila hafi að miklu leyti verið símleiðis og hafnar því alfarið að erfitt hafi verið að ná í sig. Hafi samskipti aðila verið góð og traust ríkt á milli þeirra, svo sem nauðsynlegt sé.

Varnaraðili bendir á að fyrir málshöfðun hafi sóknaraðili verið í beinum samskiptum við gagnaðila varðandi samkomulag um greiðslur. Hafi sóknaraðili þar staðfesti undirliggjandi samkomulag um uppgjör þar sem jafnframt hafi verið skýrt að félag sóknaraðila væri komin í slík vandræði vegna slæmrar verkefnastöðu að hún myndi greiða gagnaðilum persónulega fjármuni ef fyrirtækið færi á hausinn. Vísar varnaraðili til þess að það að hafa náð samkomulagi í málinu sem falið hafi í sér réttarsátt með fjórum jöfnum afborgunum hljóti að teljast góður árangur með hliðsjón af hinni bágu fjárhagsstöðu félags sóknaraðila.

Varnaraðili vísar til þess að lögmaður stefnanda hafi haft samband í marsmánuði 2021 vegna vanefnda samkvæmt undirritaðri réttarsátt. Á þeim tíma hafi varnaraðili verið búinn að gera reikning vegna vinnu sinnar sem hafi ekki heldur verið greiddur. Þess í stað hafi sóknaraðili hafist handa við að úthúða varnaraðila og hans vinnubrögðum. Hafi það verið verulega ósanngjarnt í ljósi góðrar vinnu varnaraðila í málinu. Hafi þannig ekki verið nokkur möguleiki fyrir sóknaraðila og hennar félag að fá fram hagstæðari málalok.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili bregði á það ráð að blanda inn í samskipti aðila einhverjum myndum sem enga þýðingu hafi. Mótmælir varnaraðili öllum mögulegum málatilbúnaði sóknaraðila um það efni sem móðgandi og særandi enda hafi aðilar rætt strax í fyrsta samtali um hrekkjavökuna sem þá hafi nýlega verið yfirstaðin og mynd sem sóknaraðili hafði birt á samfélagsmiðlum því tengdu. Hafi varnaraðili lýst persónulegri skoðun sinni á því og sent sambærilegar myndir. Hafi þar verið um að ræða eðlilegar samræður sem átt hafi sér stað í samtali þar sem farið hafi verið yfir málið. Komi þetta efni einfaldlega málinu ekkert við. Sýni þau hins vegar að samskipta aðila hafi verið mikil og góð og vinna innt af hendi eftir þennan tíma. Hafi varnaraðili tekið þá vinnu föstum tökum og náð fram bestu lausn fyrir félag sóknaraðila.

Varnaraðili lýsir því að hann hafi tilkynnt innheimtuaðila um í ágústmánuði 2021 að fella skyldi niður þann reikning sem gerður hafi verið vegna vinnu hans á hendur félagi sóknaraðila. Á grundvelli fjárhagsstöðu félagsins hafi varnaraðili metið sem svo að líkur á greiðslu væru engar. Áður hafi varnaraðili boðið sóknaraðila að greiddar yrðu 240.000 krónur í þeirri von að fá að minnsta kosta eitthvað endurgjald fyrir vinnuna. Hafnar varnaraðili því að hann hafi boðið kæranda að greiða „svart“ þó fyrirmæli væru um að greiðsla yrði lögð inn á persónulegan reikning. Bendir varnaraðili á að kröfu rekstrarfélags hans hafi verið breytt í samræmi við breyttan reikning og krafa send frá félaginu í heimabanka sóknaraðila. Hefði greiðsla borist á persónulegan reikning hefði sú upphæð einfaldlega verið notuð til að greiða þann reikning. Jafnframt því hafi varnaraðili boðist til að skipta greiðslum eða að sóknaraðili kæmi með tillögu að einhverju marki sem hægt væri að standa við. Til þess hafi ekki komið og varnaraðili þá gefið innheimtu upp á bátinn.

Kveðst varnaraðili með þessu hafa sýnt félagi sóknaraðila eins mikla sanngirni og hægt hafi verið. Aldrei hafi hins vegar hvarflað að varnaraðila að félag sóknaraðila hefði ekki í  hyggju að greiða fyrir vinnu hans. Bendir varnaraðili á að reikningurinn hafi tekið til aðeins 8.75 klst. og að fjárhæð hans hafi verið 328.181 króna með virðisaukaskatti. Hafi heildarkostnaður félags sóknaraðila að frádregnum virðisaukaskatti því numið 264.662 krónum, sem varnaraðili hafi talið mjög sanngjarnt endurgjald fyrir þjónustuna.

Varnaraðili byggir á að þar sem hinum umþrætta reikningi sé ekki lengur til að dreifa sem og í ljósi þess að nýr reikningur verði ekki gefinn út á hendur félagi sóknaraðila séu skilyrði til að vísa málinu frá nefndinni enda geti ekki verið ágreiningur til staðar á milli aðila um það efni.

Varnaraðili byggir að öðru leyti á að málatilbúnaður sóknaraðila sé uppfullur af ósönnuðum staðhæfingum. Fari sóknaraðili þannig með rangt mál að öllu leyti svo sem málsgögn beri með sér. Af málsgögnum verði hins vegar leitt að varnaraðili hafi kappkostað við að ná sem allra hagstæðustu niðurstöðu í málinu fyrir félag sóknaraðila. Samkvæmt því kveðst varnaraðili hafna því alfarið að háttsemi hans hafi farið í bága við siðareglur lögmanna.

Varnaraðili vísar til þess að það sé rangt að hann hafi fengið málið í hendur tveimur vikum fyrir þingfestingu þess þann 12. nóvember 2020. Vísar varnaraðili til þess að hið rétta sé að dóttir sóknaraðila hafi haft samband vegna málsins þann 10. nóvember 2020, líkt og fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti beri með sér, og hafi varnaraðili þá sett sig strax í samband við sóknaraðila. Í framhaldi af því hafi varnaraðili strax hafist handa við að yfirfara gögn sem hann hafi fengið frá sóknaraðila enda stutt til fyrirtöku í málinu. Hafi fulltrúi hjá Lögmannsstofu Vestmannaeyja mætt í dóminn fyrir varnaraðila sem móttekið hafi í framhaldinu stefnu málsins auk fylgigagna.

Varnaraðili bendir á að eftir þá yfirferð og samskipti við lögmann gagnaðila hafi hann ekki getað mælt með öðru en að leita sátta í málinu. Hafi varnaraðili enda borið að gefa skjólstæðingi sínum hlutlægt álit á réttarstöðunni. Hafi sóknaraðili, sem fyrirsvarsmaður félagsins, verið því sammála. Á þeim grunni hafi varnaraðili farið áfram með málið, átt samskipti við lögmann gagnaðila og dómstólinn þar sem málinu hafi verið frestað á ný til framlagningar sáttar.

Varnaraðili lýsir því að þegar tillaga að sátt hafi borist frá lögmanni gagnaðila hafi hann hringt í sóknaraðila og farið yfir skilmála með henni. Hafi sóknaraðili þá óskað eftir að kannaður yrði sá möguleiki að greiðslum yrði skipt í þrennt. Það hafi varnaraðili gert og á það verið fallist af hálfu lögmanns gagnaðila. Í framhaldi af því hafi varnaraðili sent sáttina til sóknaraðila og óskað eftir undirritun. Eftir frekari samskipti hafi dómsáttin verið undirrituð af lögmanni sem mætt hafi á dómþingið í Vestmannaeyjum samkvæmt fyrirmælum frá sóknaraðila og varnaraðila.

Vísað er til þess að fyrst eftir það og útgáfu reiknings vegna starfa varnaraðila hafi sóknaraðili lýst yfir óánægju með allt saman, þ.e. bæði þá sátt sem gerð hafi verið sem og reikning frá varnaraðila. Hafi svo komið til vanefnda af hálfu félags sóknaraðila, þ.e. bæði gagnvart stefnanda málsins samkvæmt sátt sem og gagnvart lögmannsstofu varnaraðila vegna hins útgefna reiknings.

Varnaraðili telur ljóst að sóknaraðili fari með rangt mál í erindi til nefndarinnar. Sé allur málatilbúnaður sóknaraðila haldinn slíkum ósannindum að ekki sé annað hægt en að líta á hann í heild sinni sem mjög ósanngjarnan og ótrúverðugan í garð varnaraðila. Byggir varnaraðili á að hann hafi ekki með nokkrum hætti brotið á rétti kæranda. Þvert á móti hafi hann kappkostað að gæta hagsmuna umbjóðanda síns, þ.e. félags sóknaraðila. Þá sýni málsgögn að varnaraðili hafi sinnt hagsmunagæslunni með sóma.

Niðurstaða

I.

Að mati nefndarinnar þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins eins og það hefur verið lagt fyrir nefndina.

Fyrir liggur að erindi sóknaraðila til nefndarinnar er annars vegar reist á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en í því er lýst ágreiningi um rétt varnaraðila til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess. Er nánar tiltekið kveðið á um í 1. málslið greinarinnar að ef lögmann greinir á við umbjóðandi sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er slíkt hið sama áréttað í 1. tölul. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir nefndinni.

Líkt og áður greinir verður að skilja kröfugerð sóknaraðila í málinu þannig að þess sé annars vegar krafist að áskilið endurgjald varnaraðila verði fellt niður eða það lækkað, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Sá reikningur sem hér um ræðir var gefinn út af lögmannsstofu varnaraðila á hendur C ehf., sem mun hafa verið í eigu sóknaraðila og lotið stjórn hennar. Svo sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan var heildarfjárhæð reikningsins 328.181 króna með virðisaukaskatti. Fyrir liggur að reikningurinn var ekki greiddur af hálfu tilgreinds félags.

Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að ágreiningslaust sé að umþrætt hagsmunagæsla varnaraðila var einskorðuð við C ehf. en ekki sóknaraðila sjálfa, sem lagði erindi sitt fyrir nefndina persónulega en ekki í nafni tilgreinds félags.

Varðandi formhlið málsins verður að mati nefndarinnar að líta til þess að C ehf. var sjálfstæður lögaðili. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið leitt í ljós með hvaða hætti sóknaraðili í máli þessu geti átt persónulega og sjálfstæða aðild að ágreiningi um rétt varnaraðila til endurgjalds úr hendi félagsins eða fjárhæð þess að öðru leyti. Getur ekki breytt í því samhengi að mati nefndarinnar þótt sóknaraðili hafi verið eigandi alls hlutafjár í félaginu eða að félagið hafi lotið hennar stjórn. Er þannig ekki unnt í lagalegu tilliti að áliti nefndarinnar að samsama sóknaraðila og félagið með þeim hætti sem málatilbúnaður sóknaraðila í málinu er í reynd reistur á. Samkvæmt því verður ekki talið að slíkt samningssamband hafi verið á milli varnaraðila annars vegar og sóknaraðila hins vegar, vegna þeirrar umþrættu gjaldtöku sem hér um ræðir, sem 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er afmörkuð við.

Um þetta efni er jafnframt til þess að líta að varnaraðili hefur lýst því í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að á grundvelli fjárhagsstöðu C ehf. hafi hann bakfært hinn umþrætta reikning. Samkvæmt því sé engu áskildu endurgjaldi til að dreifa sem ágreiningur geti verið um í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Samkvæmt þeim málatilbúnaði, sem ekki hefur sætt andmælum af hálfu sóknaraðila, verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi bakfært þann reikning sem sóknaraðili gerði ágreining um í erindi sínu til nefndarinnar. Ekki er unnt að skilja þá ráðstöfun varnaraðila og málatilbúnað hans að öðru leyti um þetta efni fyrir nefndinni með öðrum hætti en að hann geri ekki lengur kröfu til þess endurgjalds sem reikningurinn tók til úr hendi félags sóknaraðila. Þar sem reikningnum er ekki lengur til að dreifa verður ekki talið að mati nefndarinnar, auk alls þess sem áður er lýst, að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þeirri kröfu sinni fyrir nefndinni að reikningurinn verði felldi niður eða sæti lækkun.

Hið sama og hér um ræðir á við um þau kvörtunarefni sem lýst er í erindi sóknaraðila til nefndarinnar en samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77//1998 getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Lúta kvörtunarefni sóknaraðila þannig að atvikum í hagsmunagæslu þeirri sem varnaraðili sinnti í þágu C ehf. en ekki að því að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila í skilningi fyrrgreinds ákvæðis.

Um allt framangreint er þess jafnframt að gæta að opinber gögn bera með sér að bú C ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann x. desember 2021. Jafnframt því liggur fyrir að skiptum á búi félagsins var lokið þann x. mars 2022 og að félagið var afskráð í kjölfar þess þann x. sama mánaðar. Með hliðsjón af því verða ekki talin skilyrði til að skilja erindi sóknaraðila til nefndarinnar með þeim hætti að það taki til C ehf. enda brestur félagið nú hæfi að lögum til að vera aðili að málinu fyrir nefndinni.

Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið hafa raktar verður að vísa máli þessu í heild sinni frá nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson