Mál 36 2021
Mál 36/2021
Ár 2022, 5. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 36/2021:
A lögmaður
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 21. október 2021 erindi kæranda, A lögmanns, þar sem lýst er ágreiningi við kærða, B Kjartansson lögmann, vegna ætlaðra brota hans í störfum, gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 2. nóvember 2021 og barst hún þann 13. desember s.á. Var kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi daginn eftir. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar eða athugasemda af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi tveggja nefndarmanna til meðferðar málsins og komu varamenn í stað þeirra.
Málsatvik og málsástæður
I.
Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sem móttekið var 21. október 2021.
Af málsgögnum verður ráðið að samkvæmt niðurstöðu í dómsmálinu E-xxxx/20xx, frá x. apríl 2021, hafi kærði verið lögmaður aðalstefnenda í máli sem höfðað var með stefnu fyrir héraðsdómi þann x. apríl 20xx og kærandi lögmaður aðalstefnda í gagnsakamáli sem hafi verið höfðað með stefnu sem gefin var út x. maí 20xx á hendur aðalstefnendum. Með dómi héraðsdóms í máli nr. E-xxxx/20xx hafi umbjóðendum kæranda verið gert að greiða aðalstefnendum kr. 10.429.514 með dráttarvöxtum. Þá hafi umbjóðanda kæranda verið gert að gefa út afsal til aðalstefnenda vegna fasteignarinnar sem deilt var um og að greiða aðalstefnendum málskostnað. Kærandi hafi, f.h. umbjóðanda síns, áfrýjað dómi héraðsdóms í máli nr. E-xxxx/20xx til Landsréttar þann x. maí 20xx. Þann x. júní s.á. hafi kærandi mætt ásamt umbjóðanda sínum hjá sýslumanni þar sem tekin var fyrir krafa um löggeymslu í eignum umbjóðanda kæranda til tryggingar kröfu um greiðslu samkvæmt niðurstöðu í máli nr. E-xxxx/20xx að fjárhæð kr. 15.455.071. Fulltrúi sýslumanns hafi fallist á löggeymslu fyrir kröfunni í eign umbjóðanda kæranda, C 18, Reykjavík. Kærandi hafi í kjölfarið birt umbjóðanda kærða áfrýjunarstefnu til Landsréttar, x. ágúst 20xx, fyrir hönd umbjóðanda síns.
Fyrir liggur í málinu að fasteignin C 18 hafi verið sett á sölu hjá fasteignasölunni D í lok júlí 2021. Veðhafi og umbjóðandi kærða hafi orðið þess var og haft símasamband við fasteignasöluna og sent tölvubréf þann 1. ágúst s.á. og óskað eftir því að kærði væri hafður með í ráðum vegna löggeymslunnar. Þann 9. ágúst s.á. hafi umbjóðanda kærða ásamt lögmanni fasteignasölunnar borist tölvubréf frá þeim fasteignasala sem hafi séð um sölu eignarinnar, þar sem eftirfarandi hafi verið tiltekið:
„Sæll E (og F lögm. á D í cc) Geturðu tengt okkur við þinn lögmann vegna fjárnámsins til þess að hægt sé að vinna skjalavinnslu vegna þess.
Umbjóðandi kærða hafi svarað samdægurs 9. ágúst s.á. og upplýst að kærði væri lögmaður hans. Þann 20 ágúst s.m. hafi kærða svo borist tölvubréf frá F lögmanni hjá D sem hafi tilkynnt um að búið væri að setja á kaupsamning 23. ágúst s.m. og hafi hún óskað eftir staðfestingu þess efnis að löggeymslunni yrði aflétt gegn greiðslu inn á vörslureikning kærða. F hafi nánar tiltekið óskað eftir upplýsingum um fjárhæð, reikningsnúmer og með hvaða hætti veðrétturinn myndi þokast og afléttast. Kærði hafi svarað samdægurs, 20. ágúst og upplýst að krafan stæði í kr. 15.769.664 og að löggeymslunni yrði aflétt um leið og krafan yrði greidd inn á tilgreindan vörslureikning kærða.
Fyrir liggur veðleyfi dags. x. ágúst 2021, þar sem kemur fram að umrætt veð þoki fyrir lánum með ófrávíkjanlegu skilyrði um að x banki greiði kr. 15.769.664 inn á vörslureikning nr. xxxx.
Kæranda barst svo tölvubréf frá kærða þann 20. september 2021 og kom þar eftirfarandi fram:
„Ég hef fyrir hönd umbj. minna E og G, móttekið greiðslu kr. 15.769.664 sem er fullnaðargreiðsla á kröfu þeirra á hendur H skv. dómi héraðsdóms frá x. apríl í málinu nr. xxxx/20xx.
Þar sem krafan er að fullu greidd má ég ekki gera ráð fyrir að mál Landsréttar nr. xxx/20xx verði fellt niður?“.
Kærandi svaraði samdægurs tölvubréfi kærða og var þar eftirfarandi tiltekið:
„.....Mér er sagt að greiðslan sé lögð inn á fjárvörslureikning þinn vegna sölu veðandlagsins, þ.e. um að það hafi verið samið að þú gættir fjársins sem þá kom í staðin fyrir veðið, þar til endanleg niðurstaða málsins liggur fyrir..... Ekki er litið svo á að innborgun inn á fjárvörslureikning sé uppgjör kröfunnar.“
Fyrir nefndinni liggur yfirlýsing frá J fasteignasala dags. 20. október 2021, þar sem kemur fram að hún hafi séð um söluskráningu á C 18 og að eftir að eignin hafi verið auglýst til sölu hafi haft samband við hana E, vegna skráðs fjárnáms á eigninni sem í reynd var löggeymsla. E hafi óskað eftir því að lögmaður hans, kærði, yrði hafður með í ráðum vegna ráðstöfunar löggeymslunnar og með hvaða hætti krafan að baki löggeymslunni yrði tryggð áfram þrátt fyrir sölu eignarinnar. Þá staðfestir J að E, umbjóðandi kærða hafi gert sér grein fyrir því að ekki var um fullnaðargreiðslu að ræða enda hafi hann rætt við hana um málaferlin framundan.
Fyrir nefndinni liggur jafnframt yfirlýsing frá F fasteignasala og lögmanni á fasteignasölunni D, þar sem hún staðfestir að hún hafi komið að málinu eftir samskipti J og E, þar sem hafi staðið til að finna nýja tryggingarráðstöfun fyrir skráð fjárnám sem í reynd hafi verið löggeymsla. F hafi látið vita að aflétta þyrfti af eigninni með einum eða öðrum hætti og hafði E bent J á kærða í þeim tilgangi að fá nýja tryggingarráðstöfun. Ágreiningur var um málið sem F hafði ekki fengið upplýsingar um hvers eðlis væri. Seljandi C 18, H, hafi sent son sinn í kaupsamning með umboð og aldrei hafi verið nefnt í ferlinu að lögmaður færi með hagsmuni seljanda og því hafi ekki verið gerð athugasemd við þetta fyrirkomulag. Í hennar huga hafi kærði verið opinber sýslunarmaður eins og lög um lögmenn segja og því ljóst að hann hafi aldrei mátt gera ráð fyrir því að breyting á tryggingarráðstöfuninni væri fullnaðargreiðsla. Skilyrði kærða fyrir afléttingu af veðinu hafi verið skýr, þ.e. að greiðsla skyldi fara inn á fjárvörslureikning hans.
II.
Að mati úrskurðarnefndar lögmanna verður að skilja málatilbúnað kæranda í kvörtun til nefndarinnar með þeim hætti að hann lúti að broti á lögum eða siðareglum á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá krefst kærandi jafnframt málskostnaðar úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Kærandi lýsir því að hann hafi átt í samskiptum við kærða, vegna málareksturs á milli umbjóðenda þeirra, hjá sýslumanni, fyrir héraðsdómi og vegna áfrýjunar málsins til Landsréttar.
Í kjölfar niðurstöðu í héraðsdómsmálinu nr. E-xxxx/20xx hafi umbjóðandi kærða krafist löggeymslu í fasteigninni C 18, Reykjavík, sem hafi verið í eigu umbjóðanda kæranda, að fjárhæð kr. 15.769.664 sem fallist hafi verið á þann x. júní 20xx. Kærandi hafi þá fyrir hönd umbjóðanda síns áfrýjað málinu með áfrýjunarstefnu sem birt var x. ágúst s.á. en kærða hafði verið tilkynnt um áfrýjun málsins x. júlí s.á.
Kærandi lýsir því að í ágúst 2021 hafi umbjóðandi hans ákveðið að selja fasteign sína C 18, en í söluferlinu hafi fasteignasalanum orðið ljóst að löggeymsla hvíldi á 3. veðrétti eignarinnar. Fasteignasalinn hafi því sett sig í samband við umbjóðanda kærða sem síðar hafi vísað öllum samskiptum til kærða. Í samskiptum milli aðila hafi fasteignasalarnir sem að málinu komu óskað eftir því við kærða að löggeymslunni yrði aflétt og hafi kærði fallist á það gegn greiðslu inn á vörslureikning sinn. Fasteignasalarnir hafi talið kærða vera í hlutverki opinbers fjárvörslumanns og að sem slíkur bæri honum að gæta hagsmuna allra í málinu, ekki einungis sinna umbjóðenda, sbr. 24. gr. a laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í kjölfarið hafi svo verið útbúið skilyrt veðleyfi með kaupsamningnum gegn greiðslu á kr. 15.769.664 inn á vörslureikning kærða.
Kærandi bendir á að honum sem lögmanni, sem farið hafði með mál umbjóðanda síns, seljanda fasteignarinnar að C 18, varðandi löggeymsluna og í fyrirhuguðu landsréttarmáli hafði ekki verið kunnugt um þessi samskipti kærða við fasteignasöluna.
Kærandi lýsir því að þann 17. september 2021 hafi kærði ráðstafað fjárhæðinni, kr. 15.769.664 sem lögð hafi verið inn á fjárvörslureikning hans, inn á reikning umbjóðanda síns, eins og um væri að ræða fullnaðargreiðslu til hans. Kærandi bendir á að kærða hafi mátt vera ljóst að með andmælum kæranda við fyrirtöku löggeymslunnar hjá sýslumanni og áfrýjun til Landsréttar hefði hvorki kærandi né umbjóðandi hans fallist á fullnaðargreiðslu kröfunnar og að skilningur fasteignasölunnar hafi verið sá að innborgun inn á fjárvörslureikning kærða væri eingöngu til varðveitingar á vörslufénu í samræmi við reglugerð um fjárvörslureikninga lögmanna o.fl. nr. 1192/2005.
Þá lýsir kærandi því að þann 20. september, eftir að kærði ráðstafaði greiðslunni, hafi kæranda borist tölvupóstur þar sem kærði tilkynnti kæranda að hann hefði móttekið greiðslu fyrir hönd umbjóðanda síns sem væri fullnaðargreiðsla á umræddri kröfu samkvæmt dómi héraðsdóms frá x. apríl sl. í máli nr. E-xxxx/20xx. Þessu hafi kærandi mótmælt samdægurs og því ljóst að kærði gat ekki hafa verið í góðri trú um að umbjóðandi kæranda liti svo á að greiðsla samkvæmt veðleyfinu á fjárvörslureikningi hans væri fullnaðargreiðsla, enda hafi hann verið meðvitaður um áfrýjun málsins og þá afstöðu umbjóðanda kæranda að greiðslan væri ekki fullnaðargreiðsla á kröfunni.
Kærandi vísar til þess að með því að upplýsa hann ekki sem lögmann seljanda um samskiptin og fyrirhugaðan löggerning sem vörðuðu mikilvæga hagsmuni umbjóðanda hans, hafi kærði brotið gegn 26. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna.
III.
Kærði krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.
Kærði vísar til þess að frá hans sjónarhorni séu kæruatriðin tvö. Í fyrsta lagi hafi kærði með framkomu sinni, að upplýsa ekki kæranda sem lögmann umbjóðanda síns um samskipti sem hafi varðað mikilvæga hagsmuni, brotið gegn 26. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið er á um að lögmaður skuli ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis. Í öðru lagi hafi kærði brotið gegn 34. gr. siðareglna lögmanna sem kveður á um að lögmenn skuli sýna gagnaðila virðingu í ræðu og riti.
Varðandi ætlað brot gegn 26. gr. siðareglna lögmanna vísar kærði til þess að hann hafi aldrei verið í neinum samskiptum eða haft frumkvæði að samskiptum við umbjóðanda kæranda, H heldur hafi F lögmaður og löggiltur fasteignasali haft samband við kærða um afléttingu löggeymslunnar á C 18 sem H var að selja. Eins og tölvubréf bera með sér hafi kærði tekið vel í þá bón að aflétta löggeymslunni svo lengi sem hagsmunir umbjóðanda hans væru tryggðir. F hafi svo tekið að sér skjalagerð vegna þessa og útbúið veðleyfi þar sem eftirfarandi hafi komið fram:
„Umrætt veð veðhafa, þokar fyrir ofangreindum lánum með ófrávíkjanlegu skilyrði um að x banki greiði kr. 15.760.664 inn á fjárvörslureikning nr. xxxx...“.
Kærði vísar til þess að frá sjónarhóli hans hafi F, lögmaður og löggiltur fasteignasali haft samband við sig vegna afléttingar á löggeymslu fyrir hönd H vegna sölu á fasteign hans og hafi viðkomandi lögmaður tekið að sér skjalagerð og útbúið pappíra fyrir hönd H og á hans kostnað. Kærði hafi ekki snúið sér beint til umbjóðanda kæranda og hafði ekki frumkvæði að samskiptum vegna sölunnar. Þar sem samskiptin hafi verið við annan lögmann og löggiltan fasteignasala taldi kærði að sá aðili héldi sínum umbjóðanda upplýstum í samræmi við þær skyldur sem lagðar eru á viðkomandi samkvæmt lögum um sölu fasteigna og lögum um lögmenn.
Þá geti kærði ekki borið ábyrgð á því að fasteignasalarnir hafi talið hann í hlutverki opinbers fjárvörslumanns og hafi sú fullyrðing ekki verið studd neinum gögnum eða rökum. Hafi ætlun staðið til þess að kærði tæki að sér fjárvörslu á þessum fjármunum til tryggingar greiðslu samkvæmt dómi héraðsdóms hefði slíkt átt að koma fram í samskiptum eða í umræddu veðleyfi. Kærði hafi í góðri trú tekið við greiðslu í samræmi við útgefið veðleyfi og í samræmi við það að um hafi verið að ræða fjárvörslu í þágu umbjóðanda kærða var fjárhæðin greidd áfram til hans enda hafi verið um að ræða greiðslu samkvæmt veðleyfinu.
Varðandi brot gegn 34. gr. siðareglna lögmanna vísar kærði til þess að því sé hafnað sem órökstuddu að hann hafi ekki sýnt kæranda fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg sé hagsmunum skjólstæðinga þeirra. Engin bein samskipti hafi verið við umbjóðanda kæranda, engin óvirðing eða tillitsleysi sýnd, hvorki í ræðu, riti eða framkomu.
Að endingu vísar kærði til þess að kærandi hafi enga lögvarða hagsmuni af kvörtun til úrskurðarnefndar þar sem meint brot varða umbjóðanda hans en ekki lögmanninn sjálfan, enda sé í V. kafla siðareglna lögmanna fjallað um samskipti lögmanna við gagnaðila en ekki samskipti lögmanna innbyrðis.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 26. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýna nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.
Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er þar tiltekið í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.
II.
Kvörtun kæranda í máli þessu lýtur annars vegar að því að kærði hafi í störfum sínum brotið gegn 26. gr. siðareglna lögmanna með því að upplýsa kæranda ekki sem lögmann umbjóðanda síns um samskipti sem vörðuðu mikilvæga hagsmuni og hins vegar að kærði hafi brotið gegn 34. gr. siðareglna lögmanna með því að sýna gagnaðila ekki virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.
Varðandi fyrra atriðið sem snýr að 26. gr. siðareglna lögmanna hefur kærði vísað til þess að annar lögmaður og löggiltur fasteignasali hafi haft samband við sig vegna afléttingar á löggeymslu fyrir hönd umbjóðanda kæranda, vegna sölu á fasteign hans. Viðkomandi lögmaður hafi tekið að sér skjalagerð og útbúið pappíra fyrir hönd seljanda og á hans kostnað. Kærði hafi ekki snúið sér beint til umbjóðanda kæranda.
Fyrir liggur í málinu að fasteignin C 18 hafi verið sett á sölu hjá fasteignasölunni D í lok júlí 2021. Veðhafi og umbjóðandi kærða hafi orðið þess var og haft símasamband við fasteignasöluna og sent tölvubréf þann 1. ágúst s.á. og óskað eftir því að kærði væri hafður með í ráðum vegna löggeymslunnar. Þann 9. ágúst s.á. hafi umbjóðanda kærða ásamt lögmanni fasteignasölunnar borist tölvubréf frá þeim fasteignasala sem hafi séð um sölu eignarinnar, þar sem eftirfarandi hafi verið tiltekið:
„Sæll E (og F lögm. á D í cc) Geturðu tengt okkur við þinn lögmann vegna fjárnámsins til þess að hægt sé að vinna skjalavinnslu vegna þess.
Umbjóðandi kærða hafi svarað samdægurs 9. ágúst og upplýst að kærði væri lögmaður hans. Þann 20 ágúst s.m. hafi kærða borist tölvubréf frá lögmanni fasteignasölunnar sem hafi tilkynnt að búið væri að setja á kaupsamning 23. ágúst s.m. og hafi hún óskað eftir staðfestingu þess efnis að löggeymslunni yrði aflétt gegn greiðslu inn á vörslureikning kærða. Kærði hafi svarað samdægurs og upplýst um fjárhæð kröfunnar og að löggeymslunni yrði aflétt um leið og krafan yrði greidd inn á tilgreindan vörslureikning kærða.
Áður hefur verið gerð grein fyrir efni 26. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið er á um að lögmaður megi ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýna nauðsyn krefji. Með hliðsjón af ofangreindum atvikum og því að ekkert liggur fyrir um það í gögnum málsins að kærði hafi sett sig í beint samband við umbjóðanda kæranda á neinum tímapunkti, verður að mati nefndarinnar ekki sýnt fram á að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn 26. gr. siðareglna lögmanna. Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina kemur ekki til úrlausnar hvort kærði kunni að öðru leyti að hafa gert á hlut kæranda með umræddri háttsemi og af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu kæranda.
Varðandi seinna atriðið um að kærði hafi brotið gegn 34. gr. siðareglna lögmanna þá er umrætt ákvæði að finna í V. kafla siðareglna lögmanna sem fjallar eingöngu um skyldur lögmanns við
gagnaðila. Í ljósi þess að meint brot kærða varða umbjóðanda kæranda en ekki hann sjálfan, hefur ekki verið sýnt fram á að kærði hafi gert á hlut kæranda með broti á 34. gr. siðareglna lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, B lögmaður hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn 26. gr. eða 34. gr. siðareglna lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Helgi Birgisson
Hulda Katrín Stefánsdóttir
Valborg Þ. Snævarr