Mál 39 2021

Mál 39/2021

Ár 2022, föstudaginn 26. ágúst, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2021:

A

gegn

B lögmanni og C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 9. nóvember 2021 erindi sóknaraðila A, vegna starfa varnaraðila, B lögmanns og C lögmanns.

Varnaraðilum var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfum dags. 15. nóvember 2021 þar sem einnig var tekið fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt til endurgjalds fyrir starf lögmanna eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sem og kvörtun í skilningi 27. gr. sömu laga.

Í tölvubréfi varnaraðila til nefndarinnar, dags. 22. nóvember 2021, var tiltekið að erindi sóknaraðila væri á erlendu tungumáli og að því væri óljóst hverju ætlast væri til að svarað yrði. Af þeim sökum bæri nefndinni að vísa málinu frá, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, eða gera aðrar ráðstafanir sem gerðu varnaraðilum kleift að svara erindinu á lögbundnu tungumáli íslenskra stjórnvalda, sbr. lög nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Var einnig tekið fram í tölvubréfinu að varnaraðilar myndu ekki svara erindi nefndarinnar frekar ef frekari gagna nyti ekki við.

Nefndin varð við beiðni varnaraðila og hlutaðist til um þýðingu á erindi sóknaraðila sem fylgdi jafnframt með bréfum hennar til varnaraðila, dags. 24. janúar 2022, en þar var einnig óskað eftir skriflegri umsögn þeirra vegna málsins. Var sú beiðni jafnframt ítrekuð með bréfi nefndarinnar til varnaraðila sem sent var þann 7. febrúar 2022 en greinargerð varnaraðila vegna málsins barst þann 18. sama mánaðar auk fylgigagna. Var sóknaraðila kynnt greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 21. febrúar 2022. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns til meðferðar málsins. Vék nefndarmaðurinn því sæti og varamaður kom í hans stað.

 

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að sóknaraðili hafi leitað til varnaraðila B og lögmannsstofu hans þann 8. apríl 2021 með beiðni um hagsmunagæslu vegna málefna er lutu að hjónaskilnaði hennar en þá þegar hafði verið óskað eftir skilnaði að borði og sæng. Frá þeim degi liggur fyrir umboð sem sóknaraðili veitti varnaraðilanum og lögmannsstofu hans til hagsmunagæslu í málinu. Var þar meðal annars tiltekið að um greiðslu þóknunar færi samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofunnar á hverjum tíma.

Fyrir liggur að varnaraðili B mætti fyrir hönd sóknaraðila í fyrirtöku hjá sýslumanni þann x. apríl 2021 vegna kröfu fyrrum eiginmanns hennar um skilnað að borði og sæng. Á þeim tíma munu hafa átt sér stað sáttaumleitanir vegna fjárskipta aðila en af málsgögnum verður ráðið að umtalsverðar eignir hafi verið fyrir hendi, þar á meðal fjórar fasteignir. Þær sáttaumleitanir munu hins vegar hafa reynst árangurslausar og óskaði varnaraðilinn því eftir opinberum skiptum til fjárslita á milli hjónanna fyrir hönd sóknaraðila með bréfi, dags. x. maí 2021.

Með úrskurði Héraðsdóms x. júní 20xx í máli nr. D-xxxx/20xx var mælt fyrir um að opinber skipti til fjárslita skyldu fara fram á milli sóknaraðila og fyrrum eiginmanns hennar jafnframt því sem D lögmaður var skipuð til að fara með skiptastjórn við slitin. Var fyrsti skiptafundur haldinn vegna fjárskiptanna þann x. sama mánaðar og sótti varnaraðili B fundinn fyrir hönd sóknaraðila.

Fyrir liggur að varnaraðili B beindi kröfu um framfærslulífeyri fyrir hönd sóknaraðila til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þann x. júní 20xx. Liggja einnig fyrir í málsgögnum um þetta efni svarbréf lögmanns gagnaðila frá 28. júní 2021 og bréf sýslumannsins frá 1. júlí sama ár þar sem óskað var eftir nánar tilgreindum upplýsingum og/eða gögnum frá sóknaraðila vegna kröfunnar.

Fyrir liggur að gagnaðili sóknaraðila beindi kröfubréfi til skiptastjóra þann x. júní 20xx en í því var farið fram á að vikið yrði frá helmingaskiptareglu og að gagnaðilinn fengi 75% hlut í hjúskapareign þeirra hjóna við fjárskiptin auk þess sem honum yrði lögð út fasteign að E. Jafnframt því var gerð krafa um að lífeyrisréttindi yrðu undanskilin við skiptin. Var bréfið lagt fram á öðrum skiptafundi vegna fjárskiptanna sem haldinn var þann x. júlí 20xx á skrifstofu skiptastjóra en varnaraðili B sótti sem fyrr fundinn fyrir hönd sóknaraðila.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna tölvubréfasamskipti á milli varnaraðila B og sóknaraðila á tímabilinu frá 1. – 5. júlí 2021, þar á meðal vegna fyrrgreindrar beiðni sýslumannsembættisins um frekari upplýsingar og gögn. Hefur varnaraðilinn lýst því fyrir nefndinni að sóknaraðili hafi orðið mjög ósátt við þessa gagnabeiðni og sakað varnaraðilann um að eyðileggja fyrir henni og ganga erinda lögmanns gagnaðila hennar. Í kjölfar þess hafi varnaraðilinn sagt sig frá málum tengdum sóknaraðila, svo sem tölvubréf frá hinum síðastgreinda degi ber með sér. Mun varnaraðili C hafa tekið við hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila frá þeim tíma.

Fyrir liggur að varnaraðili C sendi ítarleg svör auk fylgigagna til sýslumanns þann x. júlí 20xx vegna fyrrgreindrar beiðni embættisins um gögn og/eða upplýsingar frá sóknaraðila. Verður jafnframt ráðið af málsgögnum að aðilar hafi átt með sér samskipti fyrir sendingu erindisins og að sóknaraðili hafi kynnt sér efni þess, sbr. tölvubréfasamskipti aðila frá þessum sama degi.

Í málatilbúnaði varnaraðila, sem ekki hefur sætt sérstökum andmælum af hálfu sóknaraðila, er því lýst að aðilar hafi í framhaldi þessa átt í samskiptum varðandi mögulega skiptingu eigna. Hafi sóknaraðili þannig í tölvubréfi til varnaraðila C viðrað hugmyndir sínar um að gefa eftir landið að E gegn því að sóknaraðili fengi sér útlagt einbýlishúsið að F. Hafi tilgreint einbýlishús verið metið á 125.000.000 króna en skiptastjóri talið að verðmæti eignarinnar væri nær 135.000.00 króna. Þá hafi heildareignir þeirra hjóna verið metnar á um það bil 230.000.000 króna.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að sóknaraðili hafi átt fund með varnaraðila C þann 21. júlí 2021. Í framhaldi af þeim fundi, þ.e. þann 22. sama mánaðar, sendi varnaraðilinn tölvubréf til lögmanns gagnaðila sóknaraðila þar sem gerð var sú sáttatillaga að sóknaraðili fengi 100% eignarhluta í fasteigninni að F sem og greiðslu lögmannskostnaðar en að gagnaðili hennar fengi aðrar eignir við skiptin. Þennan sama dag veitti skiptastjóri frest til að koma að kröfubréfi sóknaraðila vegna skiptanna.

Fyrir liggur að sættir tókust ekki með aðilum og sendi varnaraðili C því kröfubréf til skiptastjóra þann x. júlí 20xx fyrir hönd sóknaraðila eftir samráð þeirra um efni þess. Var þess þar aðallega krafist að sóknaraðili fengi í sinn hlut 100% eignarhlut í viðkomandi einbýlishúsi en til vara var haldið uppi kröfum um helmingaskipti, land að E, séreignarsparnað o.fl.

Málsgögn bera með sér að varnaraðili C hafi átt í umtalsverðum samskiptum við sóknaraðila sem og skiptastjóra í ágústmánuði 2021 um stöðu fjárslitanna og tengda þætti. Var þar meðal annars upplýst að skiptastjóri hefði vísað ágreiningi við skiptin til úrlausnar héraðsdóms.

Samkvæmt málsgögnum gaf sýslumaður út leyfi til skilnaðar að boði og sæng þann X. september 20xx en frá sama degi liggur fyrir úrskurður embættisins þar sem kröfu sóknaraðila um framfærslulífeyri var hafnað. Áttu aðilar í samskiptum í framhaldi af því um mögulega kæru úrskurðarins til viðkomandi ráðuneytis og varð niðurstaða þeirra samskipta að varnaraðila C var falið að annast kæru í þágu sóknaraðila vegna málsins.

Í málatilbúnaði varnaraðila er einnig vísað til þess að þann 11. september 2021 hafi sóknaraðili haft samband vegna ítrekaðra koma gagnaðila hennar í fasteignina að F. Samkvæmt beiðni sóknaraðila hafi varnaraðili C farið til fundar við hana á heimilið sem og í G þar sem hann haft lagt út fyrir og skipt um lás á eigninni auk þess að aftengja bílskúrshurðaopnara. Kveðst varnaraðilinn hafa gert sér grein fyrir að hann væri að ganga full langt í þjónustu sinni við sóknaraðila en vegna aðstæðna hennar, þ.e. að hún væri án tengslanets hér á landi, hafi hann ekki séð sér annað fært en að verða við ósk sóknaraðila um aðstoð.

 

Fyrir liggur að boðað var til þingfestingar viðkomandi ágreiningsmáls við fjárskiptin þann x. september 20xx sem skyldi fara fram í Héraðsdómi þann x. sama mánaðar. Í framhaldi af þingfestingu málsins áttu sóknaraðili og varnaraðili C í samskiptum um mögulegar leiðir til sátta með tilliti til útlagningu og skiptingu eigna en um það efni er meðal annars að finna tölvubréfasamskipti aðila frá 27. og 28. september 2021. Þá áttu aðilar í samskiptum varðandi gögn og ágreining sóknaraðila vegna kröfugerðar gagnaðila hennar fyrir dómi auk þess sem varnaraðili C átti í samskiptum við skiptastjóra í sama mánuði um ýmsar eignir sem tilheyrðu búi aðila, ráðstöfun þeirra og veðsetningu.

Í málatilbúnaði varnaraðila er því lýst að borist hafi tölvubréf frá sóknaraðila þann 24. september 2021 þar sem hún hafi lýst óánægju með framgang málsins jafnframt því sem hún hafi sakað alla hlutaðeigandi um að halda uppi og tryggja hag gagnaðila hennar. Er því lýst að í símtali sóknaraðila og varnaraðila C í kjölfar þess hafi hinn síðargreindi leiðrétt það efni en gert það jafnframt ljóst að hann myndi ekki sitja undir slíkum ásökunum.

Varnaraðilar lýsa einnig tölvubréfum sóknaraðila frá 26. september og 5. og 6. október 2021. Er vísað til þess að í kjölfar hins síðastgreinda tölvubréfs hafi varnaraðili C svarað ásökunum sóknaraðila um samsæri af fullri hörku og útskýrt hvernig skipting eigna færi fram. Ekki yrði unað við slíkar ásakanir frá sóknaraðila. Þá óskaði varnaraðilinn eftir að sóknaraðili svaraði því hvort traust væri til staðar á milli aðila eður ei. Ef ekki myndi varnaraðilinn segja sig frá málinu.

Í tölvubréfum sóknaraðila til varnaraðila C þann 6. október 2021 kom fram að hann mætti segja sig frá málinu sem og ósk um að dómari yrði upplýstur um að hún myndi verja sig sjálf. Tilkynnti varnaraðili um það efni í tölvubréfi til viðkomandi héraðsdómara, skiptastjóra og lögmanns gagnaðila sóknaraðila þann sama dag. Þá upplýsti varnaraðilinn sóknaraðila um að tilkynning um lok réttarsambands aðila hefði verið send, um mikilvægi þess að hún leitaði sér lögmannsaðstoðar sem fyrst vegna málsins og um kærufrest vegna úrskurðar sýslumanns um framfærslueyri. Mun sóknaraðili í framhaldi af því hafa sótt gögn málsins á skrifstofu varnaraðila en á meðal málsgagna er að finna kvittun fyrir móttöku þeirra frá 7. október 2021.

Á meðal málsgagna er að finna tímaskýrslu vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila sem tekur til tímabilsins frá 8. apríl 2021 til 6. október 2021. Samkvæmt tímaskýrslunni vörðu varnaraðilar alls 91.50 klst. í málið á tímabilinu en þar er jafnframt tiltekið að tímagjald hafi verið 29.900 krónur auk virðisaukaskatts. Greinir í tímaskýrslunni hvaða verkþætti var unnið við á hverjum tíma. Var heildarfjárhæð þóknunar samkvæmt tímaskýrslunni að fjárhæð 3.392.454 krónur með virðisaukaskatti. Í tímaskýrslunni er einnig gerð grein fyrir kostnaði lögmannsstofu varnaraðila vegna hagsmunagæslunnar en þeir liðir lutu að greiðslu þingfestingargjalds og aksturskostnaði, alls að fjárhæð 37.798 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru þrír reikningar gefnir út af lögmannsstofu varnaraðila vegna starfa í þágu sóknaraðila.

Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur nr. 1425 þann 28. maí 2021 að fjárhæð 904.555 krónur með virðisaukaskatti. Tók reikningurinn annars vegar til lögfræðiráðgjafar að fjárhæð 710.125 krónur auk virðisaukaskatts og kostnaðar að fjárhæð 24.000 krónur auk virðisaukaskatts. Mun reikningurinn hafa verið greiddur af hálfu sóknaraðila.

Í öðru lagi mun hafa verið gefinn út reikningur þann 30. júní 2021 að fjárhæð 704.444 krónur með virðisaukaskatti. Tilgreindur reikningur er ekki meðal málsgagna fyrir nefndinni en samkvæmt framlagðri millifærslukvittun var hann greiddur af hálfu sóknaraðila þann 1. júlí 2021.  

Í þriðja og síðasta lagi var gefinn út reikningur nr. 1571 þann 7. október 2021 að fjárhæð 1.821.253 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt reikningnum tók hann til útseldrar vinnu að fjárhæð 1.457.625 krónur auk virðisaukaskatts sem og til útlagðs kostnaðar að fjárhæð 12.095 krónur auk virðisaukaskatts. Var útselt tímagjald samkvæmt reikningnum að fjárhæð 29.900 krónur auk virðisaukaskatts. Ekki verður ráðið af málsgögnum hvort eða hvenær reikningurinn var greiddur af hálfu sóknaraðila.

II.

Af erindi sóknaraðila til nefndarinnar verður ráðið að það taki annars vegar til ágreinings á milli hennar og varnaraðila um endurgjald eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar verður að mati nefndarinnar að leggja þann skilning í erindi sóknaraðila að þess sé krafist að varnaraðilum verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í erindi sóknaraðila er vísað til þess að því sé beint að yfirgengilegri lögmannsþóknun fyrir lélega lögfræðilega ráðgjöf og upplýsingagjöf. Kveðst sóknaraðili fara fram á að nefndin rannsaki málið með tilliti til endurgreiðslu greiddrar þóknunar.

Sóknaraðili vísar til þess að hún sé útlendingur að uppruna en með íslenskt ríkisfang. Er vísað til þess að hún hafi verið gift í 15 ár en hjónabandinu hafi lokið með skilnaði í marsmánuði 2021. Í ljósi takmarkaðrar þekkingar sóknaraðila á íslenskum lögum hafi hún gert ráð fyrir að varnaraðilar, sem lögmenn hennar, myndu ekki aðeins annast hagsmunagæslu í hennar þágu vegna skilnaðarsamnings heldur einnig veita ráðleggingar varðandi réttindi þannig að komist yrði að réttri niðurstöðu, þar á meðal vegna fjögurra fasteigna sem hafi verið hennar hjúskapareignir.

Sóknaraðili byggir á að reikningar varnaraðila vegna lögmannsþjónustu hafi verið frekar háir miðað við þá þjónustu sem veitt hafi verið. Jafnframt hafi sóknaraðili fengið takmarkaðar upplýsingar um gang mála auk þess sem varnaraðilar hafi engin skýr úrræði veitt um lausn á ágreiningi sem komið hafi upp.

Sóknaraðili vísar til þess að hún hafi gert sér grein fyrir að málið gengi ekki á neinn annan hátt en að greiða varnaraðilum háa þóknun. Þegar hún hafi lýst áhyggjum sínum varðandi meðferð varnaraðila á málinu hafi þeir sagt sig frá því. Lýsir sóknaraðili því að henni hafi fundist allan tímann að varnaraðilar hefðu stefnt á að hún tapaði málinu á sinn kostnað.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er bent á nokkur tilvik þar sem byggt er á að hún hafi ekki fengið áreiðanlega lögfræðiráðgjöf.

Í fyrsta lagi um það efni vísar sóknaraðili til þess að fyrrverandi eiginmaður hennar hafi fært lögheimili sitt í maímánuði 2021. Hafi hann samt sem áður komið á heimilið einu sinni eða tvisvar í viku til þess að áreita sig eða fá sig til að yfirgefa húsið. Kveðst sóknaraðili hafa óskað eftir samþykki varnaraðila á því hvort breyta mætti hurðarlásum enda hafi húsið verið skráð á hennar nafn. Nokkrum vikum síðar hafi sóknaraðila hins vegar verið sagt að greiða fyrrverandi eiginmanninum húsaleigu. Byggir sóknaraðili á að varnaraðilar hafi ekki þekkt lögin um þetta efni og ekki upplýst um afleiðingar þess að lásum yrði skipt út.

Í öðru lagi bendir sóknaraðili á að varnaraðilar hafi lagt áherslu á að hún gæfi eftir nánar tilgreinda lóð til fyrrverandi eiginmannsins við skiptin. Varnaraðilar hafi haldið því fram að sóknaraðili neitaði að afhenda lóðina í hefndarskyni. Ef lóðin yrði afhent myndi slíkt spara sóknaraðila kostnað af því að fara fyrir dóm. Þá hafi varnaraðilar haldið því fram að gagnaðili sóknaraðila ætti meiri rétt til lóðarinnar á grundvelli tekna hans og það jafnvel þótt hún hefði verið skráð á nafn sóknaraðila.

Í þriðja lagi vísar sóknaraðili til þess að viðkomandi sýslumannsembætti hefði neitað henni um greiðslu makalífeyris. Í stað þess að leggja fram núverandi launaseðla gagnaðila sóknaraðila hafi varnaraðilar lagt fram skattframtöl hans fyrir fyrri ár. Þá hafi sóknaraðili ekki aðeins þurft að greiða varnaraðila fyrir kröfuna heldur einnig viðbótargjöld vegna framlagningar á réttum launaseðlum gagnaðilans.

Í fjórða lagi vísar sóknaraðili til þess að í öllu ferlinu hafi varnaraðilar vaðið yfir hana með nálgun sinni. Hafi varnaraðilar oft sagt að sóknaraðili fengi 50% af nettóandvirði eigninna, en hafi hins vegar látið hjá líða að ræða hvort sóknaraðili fengi strax 50% af sölu á fasteign að F svo sóknaraðili gæti orðið sér úti um annað húsnæði. Auk þess hafi varnaraðilar ekki tekið á því hvað myndi gerast ef gagnaðili sóknaraðila fengi í sinn hlut auka 25%, þ.e. hvað myndi gerast varðandi fyrrgreinda fasteign. Hafi varnaraðilar þannig ekki tekið á þeirri staðreynd að sóknaraðili gæti ekki keypt annað húsnæði ef hún fengi ekki 50% sölufjár hússins. Þrátt fyrir það hafi þeir flýtt sér að selja fasteignina áður en úrskurðir gekk fyrir dómstólum. Þá hafi varnaraðilar upplýst að sóknaraðili fengi aðeins 25% sölufjársins og að hún yrði að flytja úr fasteigninni.

Í fimmta og síðasta lagi vísar sóknaraðili til þess að varnaraðilar hafi upplýst að skiptastjóri við fjárskiptin hefði tekið veð fyrir gagnaðila hennar í fasteigninni að fjárhæð 35.000.000 króna. Af þeim sökum hafi sóknaraðili aðeins fengið 35.000.000 króna við sölu fasteignarinnar en sú fjárhæð hafi ekki gert henni kleift að tryggja sér gott húsnæði. Auk þess hafi sóknaraðili verið atvinnulaus og því þurft að nota alla fjármunina til að standa undir lögfræðireikningum og leigu. Hafi varnaraðilum þannig verið alveg sama um félagslega stöðu sóknaraðila.

Með vísan til framangreinds kveðst sóknaraðili óska eftir að nefndin rannsaki málið og hlutist til um endurgreiðslu þóknunar vegna lögmannsþjónustu varnaraðila.

III.

Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að staðfest verði að áskilið endurgjald hafi verið eðlilegt og í samræmi við umfang málsins og að háttsemi þeirra hafi ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefjast varnaraðilar hvor um sig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Varðandi aðalkröfu um frávísun vísa varnaraðilar til þess að málatilbúnaður sóknaraðila sé haldinn verulegum annmörkum sem geri þeim ókleyft að halda uppi fullnægjandi efnisvörnum. Þannig séu sjónarmið sóknaraðila fullkomlega vanreifuð auk þess sem útilokað sé að átta sig á hvaða kröfur séu gerðar.

Varnaraðilar benda á að umfjöllun sóknaraðila sé almenns eðlis og greini frá upplifun eða ímyndun sóknaraðila af samskiptum við varnaraðila. Sé engin tilraun gerð til þess að benda á með hvaða hætti varnaraðilar hafi brotið í bága við lög eða siðareglur. Þá sé ekki gerð nokkur tilraun til þess að leggja fyrir nefndina nokkur gögn, sem fært gætu sönnur á því að upplifun sóknaraðila af samskiptum við varnaraðila sé sannleikanum samkvæmt.

Samkvæmt því byggja varnaraðilar aðalkröfu sína á að ekki hafi verið lagt fyrir nefndina mál sem falli undir hlutverk hennar, sbr. 1. og 2. tl. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá sé ljóst að erindi sóknaraðila uppfylli ekki ákvæði 1. mgr. 7. gr. málsmeðferðarreglnanna. Séu málsatvik og kröfur settar fram með þeim hætti að þær falli utan við úrskurðarvald nefndarinnar. Beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Að öðru leyti vísa varnaraðilar til þess að mál sóknaraðila hafi verið umfangsmikið líkt og fyrirliggjandi gögn beri með sér. Þannig hafi alls farið 470 tölvubréf á milli varnaraðila B og sóknaraðila og 71 tölvubréf á milli varnaraðila C og sóknaraðila. Þá sé ótalinn fjöldi símtala, funda og smáskilaboða þar sem varnaraðilar hafi þurft að bregðast við ítrekuðum fyrirspurnum sóknaraðila.

Varðandi ágreining um fjárhæð endurgjalds vegna lögmannsþjónustu ítreka varnaraðilar að mál sóknaraðila hafi verið mjög umfangsmikið en það hafi mátt rekja til verulegs ósættis á milli hennar og fyrrum eiginmanns. Hafi sóknaraðili haft lítið sem ekkert tengslanet hér á landi og varnaraðilar því verið þeir einu sem hún hafi getað leitað til, sem hún hafi og gert nótt sem nýtan dag. Vísa varnaraðilar til þess að þeir hafi gert sér fyllilega grein fyrir stöðu sóknaraðila og þeirri staðreynd að hún yrði að fá tækifæri til þess að tjá sig. Hafi þeim þannig borist fleiri hundruð tölvubréf frá sóknaraðila sem þeir hafi lagt sig í líma að fara í gegnum að teknu tilliti til stöðu hennar. Jafnframt því hafi varnaraðilar átt mörg löng símtöl við sóknaraðila vegna málsins auk þess að funda um málið og skiptast á smáskilaboðum. Þá hafi varnaraðilar átt í stöðugu sambandi við skiptastjóra vegna atvika sem hafi komið upp vegna háttsemi sóknaraðila. Hafi verið reynt eftir fremsta megni að semja um skiptingu á eignum, í þeim tilgangi að komast hjá aðkomu dómstóla, með tilheyrandi kostnaði fyrir sóknaraðila.

Varnaraðilar vísa til þess að því fari fjarri að þeir hafi skráð öll verk og samskipti í vinnuskýrslu til rukkunar, að tillitssemi við sóknaraðila. Af þeim sökum sé ljóst að mikið vanti upp á að sóknaraðili hafi verið rukkuð fyrir alla þá vinnu sem unnin hafi verið í hennar þágu. Auk þess hafi sóknaraðili verið sérstaklega upplýst um að rukkað væri fyrir hvert erindi/samskipti sem til þeirra bærist en það efni hafi verið ítrekað í tölvubréfi til sóknaraðila þann 12. júlí 2021. Benda varnaraðilar á að við það hafi tölvubréfum fækkað verulega en þau orðið lengri fyrir vikið. Þrátt fyrir það hafi verið um verulegt magn tölvubréfa að ræða líkt og yfirlit beri með sér. Þá hafi sóknaraðili verið upplýst um verðskrá lögmannsstofu varnaraðila, sbr. fyrirliggjandi umboð í málinu.

Varnaraðilar hafna því að skortur hafi verið á upplýsingagjöf eða skýringum á úrræðum til sóknaraðila. Byggja þeir á að þeir hafi eftir bestu getu reynt að upplýsa og útskýra fyrir sóknaraðila hver úrræði hennar væru. Hafi sóknaraðili tekið virkan þátt í kröfugerðum fyrir sýslumanni og skiptastjóra, í þeim tilgangi að þær endurspegluðu sem best vilja hennar. Auk þess hafi varnaraðilar setið marga fundi með sóknaraðila þar sem ítarlega hafi verið farið yfir hver réttindi hennar væru sem og möguleg réttindi gagnaðila hennar. Hafi sóknaraðili þannig verið upplýst um að hún ætti tilkall til helmings hjúskapareigna lögum samkvæmt, þ.e. verðmæta þeirra. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki náð þessu með verðmæti eigna, þ.e. að hún fengi helming af hreinum eignum.

Varnaraðilar hafna einnig staðhæfingu sóknaraðila um að þeir hafi sagt sig frá málinu vegna áhyggja sóknaraðila af meðferð þeirra á málinu. Benda varnaraðilar á að sóknaraðili hafi haldið á lofti samsæriskenningum um alla þá sem komið hafi nálægt málinu. Þannig hafi varnaraðili C tvívegis varað sóknaraðila við að ásakanir í hans garð varðandi meint samsæri yrði ekki liðið af hans hálfu og að hann myndi segja sig frá málum tengdum sóknaraðila ef slíkt endurtæki sig. Botninn hafi svo dottið úr þegar sóknaraðili hafi sent varnaraðilanum tölvubréf enn einu sinni með slíkum ásökunum. Vísa varnaraðilar til þess að á þeim tímapunkti hafi verið ljóst að ekki ríkti lengur nauðsynlegt traust á milli aðila. Af þeim sökum hafi varnaraðilar sagt sig alfarið frá málum sóknaraðila.

Varnaraðilar mótmæla einnig málatilbúnaði sóknaraðila um að hagsmunagæslu þeirra í hennar þágu hafi verið ábótavant. Benda varnaraðilar á að gögn málsins sýni að hvergi hafi verið vikið frá hagsmunum sóknaraðila og að þeir hafi ávallt verið hafðir að leiðarljósi á meðan réttarsamband aðila varði.  Þá hafi varnaraðilar lagt allt á sig til þess að takmarka kostnað vegna málsins en sóknaraðili hafi gert þeim erfitt fyrir með ítrekuðum erindum og fyrirspurnum.

Varðandi 1. tölulið í kvörtun sóknaraðila vísa varnaraðilar til þess að það hafi ávallt verið vilji sóknaðila að halda áfram að búa í einbýlishúsinu við F. Hafi húsið verið skráð á nafn sóknaraðila sem og allar aðrar eignir. Sóknaraðili hafi skipt um lása á húsinu sjálfu vegna umgengni fyrrum eiginmanns um húsið í hennar óþökk. Vísa varnaraðilar til þess að sóknaraðila hafi verið tjáð að hún þyrfti réttilega að greiða leigu vegna veru sinnar í húsinu. Reikningar yrðu þó ekki sendir heldur yrði leiga gerð upp við fjárslit hjá skiptastjóra. Ítreka varnaraðilar einnig að það að skipta út lásum hafi ekkert með leigugreiðslu eða skyldu sóknaraðila að greiða að gera, heldur sú staðreynd að hún bjó í húsinu en ekki gagnaðili hennar. Þá liggi fyrir að sóknaraðili hafði samband við varnaraðila C vegna ítrekaðrar umgengi gagnaðila hennar í bílskúr eignarinnar en í kjölfar þess hafi varnaraðilinn farið með sóknaraðila í G og skipt um skrár fyrir hana.

Varðandi 2. tölulið í kvörtun sóknaraðila vísa varnaraðilar til þess að kröfur sóknaraðila um að halda landi og bústað við E hafi verið lagðar fram á grundvelli krafna sóknaraðila. Hafi varnaraðili C lagt mikla áherslu í kröfugerð til skiptastjóra á gildi landsins og bústaðar fyrir sóknaraðila enda hefði hún varið mest öllum frítíma sínum þar. Hins vegar hafi verið ljóst að sóknaraðili vildi einnig halda fyrrgreindu einbýlishúsi, sem gert hafi stöðuna flókna. Hafi sóknaraðili verið þeirrar skoðunar að hún væri til í að gefa eftir E í skiptum fyrir að hún fengið alfarið einbýlishúsið. Hafi varnaraðili C þó gert varakröfu, þ.e. yrði ekki fallist á að sóknaraðili fengið einbýlishúsið, um að hún fengi E sem og helming af hjúskapareignum og séreignarlífeyrissparnaði gagnaðila hennar. Hins vegar hafi varnaraðilinn aldrei haldið því fram að gagnaðili sóknaraðila hefði meiri rétt til E umfram rétt sóknaraðila vegna tekna gagnaðilans enda taki 2. tl. 2. mgr. 108. gr. hjúskaparlaga ekki tillit til tekna heldur aðstæðna. Benda varnaraðilar um þetta efni á þá kröfugerð sem skilað var inn til skiptastjóra.

Varðandi 3. tölulið í kvörtun sóknaraðila vísa varnaraðilar til þess að skattframtöl síðustu þriggja ára hafi verið lögð fram með kröfu til greiðslu lífeyris til sýslumanns. Benda varnaraðilar auk þess á að þeir hafi vitaskuld ekki haft aðgang að núverandi launaseðlum gagnaðila sóknaraðila. Þá hafi höfnun sýslumanns á framfærslueyri ekki verið byggð á tekjumun aðila heldur á aflahæfi sóknaraðila en í úrskurði sýslumanns hafi eftirfarandi verið tiltekið: „Að mati sýslumanns verður ekki séð að aflahæfi konunnar sé skert vegna uppruna hennar eða að atvinnumöguleikar hennar takmarkist við hérlendan vinnumarkað.

Varðandi 4. tölulið í kvörtun sóknaraðila vísa varnaraðilar til þess að sóknaraðili hafi réttilega verið upplýst um stöðu sína, þ.e. að hún ætti rétt á að fá í sinn hlut helming af virði hjúskapareigna. Benda varnaraðilar á að meðferð eignanna hafi verið á höndum skiptastjóra og að lögmenn hafi ekki haft um það að segja hvort eða hvenær skiptastjóri myndi selja þær. Sé þó ljóst að skiptastjóri hafi haldið aðilum vel upplýstum. Hafi sóknaraðila þannig verið gert grein fyrir því að hún gæti ekki haldið öllum eignum en henni bent á að hún gæti leyst til sín einbýlishúsið með tilboði til skiptastjóra en að hún þyrfti þá að fjármagna þann mismun sem eftir stæði, sbr. tölvubréf frá 6. október 2021. Samkvæmt því hafi útgreiðsla af söluandvirði verið í höndum skiptastjóra. Þá hafi sóknaraðili verið vel upplýst um rétt gagnaðila hennar til að krefjast auka hlutdeildar í skiptum, þ.e. 25% vegna tekna, en að slíkt væri undantekning frá meginreglu um helmingaskipti og því alls ekki sjálfgefið að á slíka kröfu yrði fallist.

Varðandi 5. tölulið í kvörtun sóknaraðila vísa varnaraðilar til þess að þeim hafi borist tölvubréf frá skiptastjóra vegna veðheimildar sem hún hafði veitt gagnaðila. Hafi varnaraðili C í framhaldi af því hringt í skiptastjóra áður en hann hafði samband við sóknaraðila til að fá nánari skýringar á ákvörðuninni þar sem fyrirséð hafi verið að sóknaraðili tæki þessu illa. Hafi skiptastjóri þá upplýst um að hún hefði veitt veiðheimildina til þess að gagnaðili sóknaraðila gæti fjárfest í íbúð og að sú lánveiting yrði gerð upp við sölu einbýlishússins. Til þess að gæta jafnræðis fengi sóknaraðili 35.000.000 króna við sölu á einbýlishúsinu en afgangur færi á fjárvörslureikning skiptastjóra sem yrði til úthlutunar við fjárslit. Lýsa varnaraðilar því að sóknaraðili hafi verið í uppnámi við þessi tíðindi sem ætla megi að hún hafi ekki meðtekið efnislega enda sakað alla hlutaðeigandi um samsæri. Varnaraðilar hafi hins vegar ekki séð að þessi ráðstöfun skiptastjóra myndi raska hagsmunum sóknaraðila.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu varnaraðila en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjallað í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Í erindi sóknaraðila til nefndarinnar var annars vegar vísað til ágreinings um endurgjald vegna starfa varnaraðila en með því fylgdu jafnframt útgefnir reikningar af hálfu lögmannsstofu þeirra sem og kvittun fyrir greiðslu eins reiknings. Í erindinu var jafnframt vísað til ýmissa ætlaðra annmarka í störfum varnaraðila í þágu sóknaraðila.

Að áliti nefndarinnar fellur sá ágreiningur um endurgjald og þau umkvörtunarefni sem greinir í erindi sóknaraðila vegna starfa varnaraðila undir fyrrgreint valdsvið nefndarinnar og telst það nægjanlega reifað til þess að úrskurður verður lagður á málið. Verður þá einnig að líta til þess að álitaefni um það hvort atvik að baki ágreinings- og kvörtunarefni teljist sannað eða geti hlutrænt séð fallið undir ákvæði laga eða siðareglna lögmanna lúta að þáttum sem taka verður afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en getur ekki varðað frávísun þess frá nefndinni. Samkvæmt því verða ekki talin skilyrði til að vísa málinu frá nefndinni á grundvelli ætlaðrar vanreifunar á málatilbúnaði sóknaraðila.

II.

Svo sem fyrr greinir er hægt að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þarf annars vegar að fjalla um fjárhagslegt uppgjör vegna lögmannsstarfa varnaraðila og hins vegar um hvort varnaraðilar hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum.

III.

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir þeirri hagsmunagæslu sem varnaraðilar sinntu í þágu sóknaraðila á tímabilinu frá 8. apríl 2021 til 6. október sama ár. Svo sem þar greinir laut hagsmunagæslan í öndverðu að sáttaumleitunum í þágu sóknaraðila vegna fjárslita við hjónaskilnað hennar en þegar útséð var um sættir að kröfugerð um opinber skipti. Jafnframt því fóru varnaraðilar með hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila vegna kröfugerðar um framfærslueyri úr hendi gagnaðilans og meðferð þess máls sem rekið var um það efni fyrir viðkomandi sýslumannsembætti. Þá sinntu varnaraðilar samskiptum, kröfugerð og sáttaumleitunum gagnvart skiptastjóra og lögmanni gagnaðila við hin opinberu skipti sem og meðferð ágreiningsmáls fyrir dómi á upphafsstigum þess.

Kvörtunarefni sóknaraðila gagnvart varnaraðilum, á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, lúta í öllum grundvallaratriðum að því að hagsmunagæsla þeirra í hennar þágu hafi verið verulega ábótavant þar sem fremur hafi verið tekið mið af hagsmunum gagnaðilans. Þá hafi skort verulega á upplýsingagjöf af hálfu varnaraðila og að sóknaraðila væri veittar skýringar á mögulegum úrræðum vegna ágreinings við fjárskiptin, þar á meðal varðandi meðferð og skiptingu eigna.

Fyrir liggur að málsaðilar áttu í tíðum samskiptum á meðan réttarsamband aðila varði. Tóku þau samskipti meðal annars til framgangs þeirra mála sem varnaraðilar önnuðust í þágu sóknaraðila, samráðs um kröfugerð og málatilbúnað vegna meðferðar mála fyrir skiptastjóra, sýslumanni og héraðsdómi sem og ráðgjafar um réttarstöðu sóknaraðila, þar á meðal að teknu tilliti til mögulegra ítrustu krafna hennar og gagnaðilans. Að mati nefndarinnar bera málsgögn þess ótvírætt merki að varnaraðilar hafi lagt sig fram um að gæta hagsmuna sóknaraðila, sem skjólstæðings þeirra, í málinu og að þeir hafi rækt þau störf sem sóknaraðili trúði þeim fyrir af alúð í samæmi við áskilnað 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Verður þannig ekki annað leitt af málsgögnum en að varnaraðilar hafi viðhaft fullnægjandi upplýsingagjöf gagnvart sóknaraðila sem og neytt allra þeirra lögmætu úrræða í hennar þágu við hagsmunagæsluna sem stóðu til boða, þar á meðal við framlagningu kröfugerða hjá skiptastjóra varðandi fjárskiptin og hjá viðkomandi sýslumannsembætti vegna framfærslueyris. Liggur einnig fyrir að varnaraðilar höfðu fullt samráð við sóknaraðila við gerð og mótun þeirra krafna sem gerðar voru í hennar þágu og endurspegluðu þar með vilja hennar eins og hann var á hverjum tíma varðandi mögulega skiptingu og útlagningu eigna.

Að áliti nefndarinnar verður jafnframt ráðið af fyrirliggjandi samskiptum aðila að varnaraðilar hafi á hverjum tíma gefið sóknaraðila hlutlægt álit á málum hennar, þar á meðal að teknu tilliti til þeirra ítrustu krafna sem gagnaðili hennar gat gert. Ekki verður talið að með því eða með öðrum hætti hafi varnaraðilar verið að ganga erinda gagnaðila sóknaraðila heldur hafi þeir þvert á móti verið að sinna þeirri skyldu gagnvart skjólstæðingi sínum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 10.gr. siðareglna lögmanna.

Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar sem og að teknu tilliti til þess að sum kvörtunarefni sóknaraðila lúta í reynd að atvikum sem voru á forræði skiptastjóra við fjárskiptin en ekki varnaraðila, þar á meðal varðandi ráðstöfun og veðsetningu eigna, verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að varnaraðilar hafi í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

IV.

Svo sem fyrr greinir er einnig ágreiningur á milli aðila um það endurgjald sem varnaraðilar áskildu sér vegna starfa í þágu sóknaraðila. Hefur sóknaraðili þannig á því byggt að umkrafið endurgjald vegna starfa varnaraðila hafi verið yfirgengilega hátt, þar á meðal að teknu tilliti til gæða hinnar veittu þjónustu, og krefst endurgreiðslu á greiddri þóknun. Varnaraðilar hafa hins vegar mótmælt þeim málatilbúnaði og á því byggt að endurgjald það sem þeir hafi áskilið sér hafi verið hóflegt og í samræmi við umfang málsins.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan önnuðust varnaraðilar hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila í um hálft ár, þ.e. frá 8. apríl til 6. október 2021. Á meðan réttarsamband aðila varði héldu varnaraðilar vinnuskýrslu og færðu þar til bókar þá verkþætti sem unnið var að hverju sinni í þágu sóknaraðila. Samkvæmt henni vörðu varnaraðilar alls 91.50 klst. í málið á tímabilinu en tímagjald samkvæmt gjaldskrá lögmannsstofu þeirra, sem vísað var til í umboði sem sóknaraðili undirritaði þann 8. apríl 2021, var að fjárhæð 29.900 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt vinnuskýrslunni var heildarfjárhæð endurgjalds vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila á öllu tímabilinu að fjárhæð 3.392.454 krónur með virðisaukaskatti jafnframt því sem aðrir kostnaðarliðir námu 37.798 krónum.

Þeir útgefnu reikningar sem ágreiningur er um í máli þessu og lögmannsstofa varnaraðila gaf út á hendur sóknaraðila eru að öllu leyti í samræmi við efni fyrrgreindrar vinnuskýrslu. Svo sem nánar greinir í málsatvikalýsingu er þar í fyrsta lagi um að ræða reikning sem gefinn var út þann 28. maí 2021 að fjárhæð 904.555 krónur með virðisaukaskatti, í öðru lagi reikning sem gefinn var út þann 30. júní 2021 að fjárhæð 704.444 krónur með virðisaukaskatti og í þriðja lagi reikning sem gefinn var út þann 7. október 2021 að fjárhæð 1.821.253 krónur með virðisaukaskatti.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Með vísan til þeirra forsendna sem raktar voru í III. kafla að framan verður ekki talið að skilyrði séu til að lækka áskilda þóknun vegna ætlaðra annmarka í störfum og hagsmunagæslu varnaraðila í þágu sóknaraðila.

Þrátt fyrir að réttarsamband aðila hafi aðeins staðið yfir í um sex mánuði liggur fyrir af málsgögnum að lögmannsstörf varnaraðila í þágu sóknaraðila voru umfangsmikil á tímabilinu og vörðuðu verulega hagsmuni sóknaraðila í ljósi þeirra eigna sem fjárskiptin tóku til. Áttu aðilar þannig í verulegum og ítrekuðum samskiptum á öllu tímabilinu, þar á meðal um framgang og stöðu mála sem og vegna þeirra krafna sem hafðar voru uppi í þágu sóknaraðila. Önnuðust varnaraðilar ennfremur meðal annars öll samskipti, bæði skrifleg og munnleg, við skiptastjóra og lögmann gagnaðila sóknaraðila við hin opinberu skipti sem fram fóru samkvæmt kröfu sem varnaraðilar höfðu sett fram fyrir hönd sóknaraðila auk þess að fara með mál það sem rekið var fyrir viðkomandi sýslumannsembætti vegna kröfu sóknaraðila um framfærslueyri úr hendi gagnaðilans. Þá liggur fyrir að samkvæmt beiðni aðstoðuðu varnaraðilar sóknaraðila við ýmis viðvik sem ekki teljast til hefðbundinna lögmannsstarfa, svo sem að skipta um lás á fasteign hennar og að aftengja bílskúrshurðaopnara.

Á grundvelli hinna umþrættu útgefnu reikninga liggur fyrir að sóknaraðili var upplýst reglulega um áfallinn verkkostnað vegna starfa varnaraðila. Liggur einnig fyrir að sóknaraðili óskaði eftir að umkrafið endurgjald yrði endurskoðað í tölvubréfi til varnaraðila B þann 12. júlí 2021. Í svari varnaraðilans þennan sama dag kom fram að ekki gæti komið til slíkrar endurskoðunar, að áður hefði verið varað við að fjöldi tölvubréfa og smáskilaboða frá sóknaraðila myndi leiða af sér aukinn kostnað enda væri lágmarkstímaeining 15 mínútur fyrir hvert viðvik. Þá tiltók varnaraðilann að sóknaraðili gæti leitað til annars lögmanns ef hún teldi málinu betur fyrirkomið hjá öðrum.

Fyrir liggur að sóknaraðili leitaði ekki til annars lögmanns í kjölfar þeirrar upplýsingagjafar varnaraðila og mun hafa greitt reikning þann sem gefinn hafði verið út þann 30. júní 2021.

Að mati nefndarinnar verður ekki séð að tímafjöldi sá sem tilgreindur er í vinnuskýrslu varnaraðila og lá til grundvallar hinum umþrættu útgefnu reikningum á hendur sóknaraðila hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þá vinnu og verkþætti sem varnaraðilar sinntu í þágu sóknaraðila. Hefur sóknaraðili heldur ekki í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni andmælt einstökum færslum í tímaskýrslu að baki hinum umþrættu reikningum né því að unnið hafi verið að þeim málum í hennar þágu sem hún ber með sér. Þá hefur málatilbúnaði varnaraðila ekki verið mótmælt um hin ítrekuðu samskipti aðila á tímabilinu, sem jafnan fóru fram að frumkvæði sóknaraðila sem var jafnframt upplýst um hvernig gjaldtöku vegna starfa varnaraðila væri háttað.

Að mati nefndarinnar verður ekki talið á áskilið tímagjald varnaraðila hafi verið úr hófi, en það var í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofu þeirra sem sóknaraðili staðfesti með undirritun sinni á umboð þann 8. apríl 2021 líkt og áður greinir.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og málsgögnum að öðru leyti er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilda þóknun vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila. Felur sú niðurstaða í sér að sú þóknun sem lögmannsstofa varnaraðila áskildi sér vegna starfa í þágu sóknaraðila var hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu sóknaraðila um að áskilið endurgjald varnaraðila sæti lækkun þannig að til endurgreiðslu komi.

Rétt þykir að aðilar beri hver sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, B lögmanns og C lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni, er hafnað.

Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns og C lögmanns, vegna starfa í þágu sóknaraðila, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðilar, B lögmaður og C lögmaður, hafa í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Grímur Sigurðsson, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson