Mál 42 2021

Mál 42/2021

Ár 2022, miðvikudaginn 14. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2021:

A ehf. og B ehf.

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 30. nóvember 2021 erindi D fyrir hönd sóknaraðila, A ehf. og B ehf., þar sem kvartað er yfir því að varnaraðili, C lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn lögum og siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 29. desember 2021 og barst hún þann 24. janúar 2022. Var sóknaraðilum send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 25. janúar 2022. Hinn 31. mars 2022 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir sóknaraðila og voru þær sendar varnaraðila þann 4. næsta mánaðar. Svar varnaraðila barst 10. apríl 2022 og var það sent til lögmanns sóknaraðila með bréfi dags. 20. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur að með úrskurði Héraðsdóms uppkveðnum x. september 20xx var bú E ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Mun varnaraðili hafa verið skipaður skiptastjóri búsins þann sama dag. Ágreiningslaust er að sóknaraðilar voru á meðal kröfuhafa búsins en samkvæmt opinberum gögnum var skiptum á búi félagsins lokið á fundi sem haldinn var þann x. desember 20xx og var félagið afskráð í kjölfar þess þann x. sama mánaðar.

Kvörtun sóknaraðila í málinu lýtur einkum að því að boðun til skiptafundar í þrotabúinu, sem haldinn var þann x. desember 20xx og þar sem skiptum var lokið, hafi verið ólögmætur. Á meðal málsgagna er að finna auglýsingu vegna fundarins sem varnaraðili birti í Lögbirtingablaðinu þann x. desember 20xx þar sem tiltekið var að skiptafundur í þrotabúinu yrði haldinn fyrrgreindan dag á skrifstofu skiptastjóra en efni fundarins var tiltekið með eftirfarandi hætti:

Á fundinum verður lögð fram kröfuskrá búsins og að henni samþykktri verður fjallað um frumvarp til úthlutunar úr þrotabúinu, sem liggur þegar frammi á væntanlegum fundarstað til sýnis fyrir lánardrottna og aðra sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Verði andmælum ekki hreyft gegn kröfuskránni og frumvarpinu, í síðasta lagi á boðuðum skiptafundi, mega þeira sem eiga hlut að máli vænta þess að skiptum verði lokið þar á grundvelli frumvarpsins, sem verður þar með úthlutunargerð úr búinu.

Málatilbúnaður sóknaraðila um hina ætluðu ólögmætu boðun byggir í fyrsta lagi á því að á fyrri skiptafundi, sem haldinn var þann x. október 20xx, hafi lögmaður sóknaraðila farið fram á að boðað yrði til næsta skiptafundar með tölvubréfi og hafi það verið bókað í fundargerð. Þrátt fyrir þá bókun hafi varnaraðili ekki boðað til fundarins með tölvubréfi til lögmanns sóknaraðila en aðrir fulltrúar kröfuhafa hafi hins vegar fengið að vita af skiptafundinum.

Á meðal málsgagna er að finna fundargerð skiptafundar þrotabúsins sem haldinn var þann x. október 20xx. Í niðurlagi fundargerðarinnar var eftirfarandi bókað:

Boðað verður til næsta skiptafundar. F óskaði eftir því að það yrði gert með tölvupósti.

Sóknaraðilar vísa í öðru lagi til þess að varnaraðili hafi gert auglýsingu um skiptafundinn í Lögbirtingablaðinu þannig úr garði að hún hafi farið fram hjá sjálfvirkri vöktun. Hafi varnaraðili þannig tekið vöktun kröfuhafa með skiptafundum úr sambandi og það jafnvel þótt hann hafi vitað að sóknaraðilar hygðust mæta á skiptafundinn og bóka þar mótmæli gegn frumvarpi til úthlutunargerðar og að sóknaraðili B ehf. hefði jafnframt í hyggju að krefjast endurupptöku á Hæstaréttarmálinu nr. x/20xx þar sem nánar tilgreindum ráðstöfunum var rift og sóknaraðilanum var gert að greiða þrotabúinu x krónur auk vaxta og málskostnaðar.

Um þetta efni hafa sóknaraðilar vísað til tölvubréfs sem lögmaður sóknaraðila sendi til varnaraðila þann 12. nóvember 2020 þar sem tekið var fram að greiðsla kröfu samkvæmt fyrrgreindum dómi Hæstaréttar væri greidd með fyrirvara enda hefði sóknaraðilinn í hyggju að sækja um endurupptöku málsins. Þá hafa sóknaraðilar vísað til ákvörðunar Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. Ö-xx/20xx, sem sóknaraðilinn A ehf. átti meðal annars aðild að til sóknar en varnaraðili var til varnar, en þar var meðal annars eftirfarandi tiltekið:

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er fallist á að skiptastjóri endurgreiði þóknun sem hann hefur ráðstafað til sín af eignum búsins, enda skorti hann heimildir til þeirrar ráðstöfunar. Þessi endurgreiðsla skal hafa átt sér [stað] fyrir 22. nóvember nk., en þá verður haldinn aðfinnslufundur að nýju þar sem ákvörðun verður tekin um framhald skiptanna. Þá er aðfinnsluvert með hvaða hætti staðið var að kynningu skiptastjóra á tímagjaldi og tímafjölda einstakra verkefna. Afstaða til lækkunar skiptaþóknunar eða þess hver sé hæfileg þóknun skiptastjóra verður hins vegar ekki tekin í dómsmáli sem rekið er samkvæmt 76. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem skiptameðferð búsins er í raun lokið að öðru leyti en því að eftir er að flytja mál nr. L-x/20xx í Landsrétti, ljúka skiptum með úthlutunargerð, og eftir atvikum ljúka hugsanlegum ágreiningi vegna skiptakostnaðar, þykir ekki rétt að víkja skiptastjóra frá störfum á þessu stigi.

Varnaraðili hefur andmælt tilgreindum málatilbúnaði sóknaraðila og bent meðal annars á í því samhengi að kvörtunarefnið hafi þegar verið dæmt af dómstólum. Þá liggi fyrir að til fundarins hafi verið boðað með lögmætum hætti, þ.e. með auglýsingu í Lögbirtingablaði.

Um það efni liggur meðal annars fyrir í málsgögnum bréf sem beint var fyrir hönd sóknaraðila til Héraðsdóms þann x. desember 20xx en það bar yfirskriftina „Ólögmæt skiptalok þb. E ehf. – Krafa um að héraðsdómur hafni tilkynningu um skiptalok og leggi fyrir skiptastjóra að boða að nýju til skiptafundar.“ Var þess krafist í bréfinu að tilkynningu varnaraðila, sem skiptastjóra þrotabús E ehf., samkvæmt 1. mgr. 162. gr. laga nr. 21/1991 yrði hafnað af hálfu dómsins og að lagt yrði fyrir hann að boða að nýju til skiptafundar.

Tilgreint erindi sóknaraðila var rekið sem héraðsdómsmálið nr. X-xxxx/20xx gegn þrotabúi E ehf. Úrskurður var kveðinn upp þann x. janúar 20xx þar sem málinu var vísað frá dómi en málskostnaður féll niður á milli aðila. Í úrskurðinum var málatilbúnaði sóknaraðila fyrir dómi meðal annars lýst með eftirfarandi hætti:

5. Auk þess byggja sóknaraðilar á því að skiptastjóri hafi ekki auglýst síðasta skiptafund með lögmætum hætti. Í fyrsta lagi hafi auglýsing fundarins í Lögbirtingarblaðinu ekki verið í réttu horfi. Hún hafi verið þannig úr garði gerð að sóknaraðilar hafi ekki getað áttað sig á því að auglýsingin ætti við um skipti í þrotabúi E ehf. þar sem fyrirsögn hennar, og þar með þær upplýsingar sem komu fram í yfirliti yfir auglýsta fundi, hafi þess einungis verið getið að um skiptafund væri að ræða, án tilgreiningar á nafni þrotabúsins. Af þessum sökum hafi tilkynning um skiptafundinn ekki borist lögmanni sóknaraðila með hefðbundinni vöktun á efni Lögbirtingarblaðsins. Í öðru lagi hafi umræddur skiptafundur verið boðaður með skemmri fyrirvara en áskilið er skv. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 21/1991. Auglýsingin hafi birst í Lögbirtingarblaðinu kl. 9.20 þann x. desember 20xx en fundurinn hafi hafist kl. 9.15 þann x. s.m., en þá hafi ekki verið liðnar tvær vikur frá birtingu auglýsingarinnar svo sem áskilið sé í nefndu ákvæði gjaldþrotaskiptalaganna. Loks hafi skiptastjóri brotið gegn reglum um jafnræði kröfuhafa og hlutlægnisskyldu sinni með því að upplýsa suma kröfuhafa um áðurnefndan skiptafund á meðan þær upplýsingar hefðu ekki verið veittar öðrum kröfuhöfum, þ.m.t. sóknaraðilum.

Niðurstaða héraðsóms um frávísun málsins var reist á eftirfarandi forsendum:

7. Krafan sem liggur fyrir dómi að taka afstöðu til er sú að „héraðsdómur hafni tilkynningu um skiptalok og leggi fyrir skiptastjóra að boða að nýju til skiptafundar.“ Hvorki af kröfubréfinu sjálfu né bókun sóknaraðila, sem lögð var fram á dómþingi x. desember sl., verður ráðið á hvaða lagagrundvelli sóknaraðilar telja að dóminum sé fært að leysa úr kröfu af þessu tagi. Við móttöku málsins til dómsins var málið skráð sem ágreiningsmál við gjaldþrotaskipti og þrotabúið talið vera varnaraðili. – 8. Fyrir liggur að skiptum á þrotabúi E ehf. er lokið, auglýsing þar að lútandi hefur verið birt í Lögbirtingarblaðinu og tilkynning um skiptalok hefur verið send dóminum. Þá er ekki ágreiningur í málinu um að skiptastjóri hafi greitt kröfur samkvæmt úthlutunargerðinni og fyrir liggur að félagið hefur verið afskráð úr hlutafélagaskrá. Af framangreindu leiðir að þrotabúið brestur hæfi að lögum til að vera aðili að máli fyrir dómstólum og ber af þeim sökum að vísa málinu frá dómi. – 9. Jafnvel þótt litið verði svo á að kröfu sóknaraðila sé beint að skiptastjóra en ekki þrotabúinu breytir það ekki þessari niðurstöðu. Við munnlegan málflutning um ágreining málsins vísaði lögmaður sóknaraðila til þess að enga skýra heimild væri að finna í lögum nr. 21/1991 um úrlausn ágreinings málsins, en þó væri einna helst hægt að byggja á ákvæði 169. gr. laganna, sem lýtur að kröfu um að skiptastjóra verði vikið frá störfum. Svo sem að framan er rakið er skiptum lokið og skiptastjóri hefur þar með lokið störfum. Hafa sóknaraðilar því ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn dómsins, hvort heldur sem litið yrði á kröfu þeirra sem aðfinnslu við störf skiptastjóra, sbr. 76. gr. gjaldþrotaskiptalaga, eða kröfu um að honum verði vikið frá störfum sbr. 169. gr. sömu laga. Ber að vísa slíkri kröfu frá dómi af þeim sökum.

Í þriðja lagi er málatilbúnaður sóknaraðila í kvörtun reistur á því að varnaraðili hafi ekki svarað ítrekuðum tölvubréfum lögmanns þeirra varðandi fundinn eða aðdraganda hans. Hafi varnaraðili með því gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn 25. gr. siðareglna lögmanna.

Um tilgreint kvörtunarefni liggja meðal annars fyrir í málsgögnum tölvubréf sem sóknaraðilar styðja kvörtun að þessu leyti við. Er þar um að ræða tölvubréf sem lögmaður sóknaraðila sendi til varnaraðila vegna þrotabúsins dagana 12. og 18. nóvember annars vegar og þann 14. desember 2020 hins vegar en þar var meðal annars óskað eftir upplýsingum um fyrirhugað frumvarp til úthlutunar, greiðslur til kröfuhafa frá þrotabúinu sem og uppfærðri kröfuskrá. Vísa sóknaraðilar til þess að þessum ítrekuðu tölvubréfum sem send hafi verið fyrir þeirra hönd hafi ekki verið svarað af hálfu varnaraðila. Með allri þeirri háttsemi sem kvartað sé yfir hafi varnaraðili stuðlað að því að ekki yrði mætt fyrir hönd sóknaraðila á þann skiptafund sem haldinn hafi verið í þrotabúinu þann x. desember 20xx og að sóknaraðilar hafi því ekki haft tök á að halda þar uppi þeim hagsmunum sem þeir höfðu boðað.

Varnaraðili hefur jafnframt mótmælt þessum málatilbúnaði og bent á að kvörtunarefnið lúti að ætluðum brotum á IV. kafla siðareglna lögmanna þar sem mælt sé fyrir um samskipti lögmanna innbyrðis. Geti sóknaraðilar ekki átt aðild að slíku kvörtunarefni.

Á meðal málsgagna eru ýmis önnur gögn sem aðilar hafa lagt fyrir nefndina undir rekstri málsins. Með hliðsjón af sakarefni málsins þykir ekki efni til að reifa þau sérstaklega umfram þær tilvísanir sem greinir í umfjöllun um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni, sbr. eftirfarandi kafla II. og III.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sóknaraðila sem móttekið var þann 30. nóvember 2021.

II.

Sóknaraðilar krefjast þess í málinu að varnaraðili verði áminntur og að nefndin leggi til við sýslumann að réttindi hans verði felld niður. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er vísað til þess að kvörtun aðilanna lúti að ólögmætri boðun varnaraðila til skiptafundar í þrotabúi E ehf.

Sóknaraðilar vísa til þess að varnaraðili hafi verið skiptastjóri í þrotabúi E ehf. sem tekið hafi verið til gjaldþrotaskipta þann x. september 20xx. Hafi sóknaraðilar verið kröfuhafar í búinu og sóknaraðili B ehf. jafnframt verið gagnaðili þrotabúsins í hæstaréttarmálinu nr. x/20xx.

Vísað er til þess að F lögmaður hafi gætt hagsmuna beggja sóknaraðila við gjaldþrotaskiptin. Hafi lögmaðurinn á skiptafundi þann x. október 20xx farið fram á, fyrir hönd sóknaraðila B ehf., að boðað yrði til næsta skiptafundar þar á eftir með tölvubréfi og hafi verið bókað um það í fundargerð. Enginn skiptafundur hafi átt sér stað fyrr en þann x. desember 20xx sem varnaraðili hafi auglýst í Lögbirtingablaði þann x. sama mánaðar. Ekkert tölvubréf hafi hins vegar borist lögmanni sóknaraðila um þennan fund í aðdraganda hans. Jafnframt því hafi lögmaður sóknaraðila ítrekað haft samband við varnaraðila, með fyrirspurnum um næsta skiptafund og úthlutun úr búinu, en þeim hafi ekki verið svarað af hálfu varnaraðila. Þá hafi lögmenn annarra kröfuhafa fengið að vita af skiptafundinum með tölvubréfi.

Sóknaraðilar benda á að með því að bóka um það athugasemdalaust í fundargerð skiptafundarins þann x. október 20xx að lögmaður sóknaraðila hefði óskað eftir að fá boðun til næsta skiptafundar með tölvubréfi, hafi varnaraðili ekki gefið ástæðu til annars en að ganga mætti út frá því að það yrði gert.

Sóknaraðilar vísa ennfremur til þess að varnaraðili hafi gert auglýsingu um skiptafundinn í Lögbirtingablaðinu þannig úr garði að hún hafi farið framhjá sjálfvirkri vöktun sem hefði átt að láta lögmann sóknaraðila vita af auglýsingunni. Þannig hafi varnaraðili kosið að nefna auglýsinguna í Lögbirtingablaðinu „x“ án tilvísunar í sjálft þrotabúið eða skiptastjóra, eins og allar aðrar auglýsingar beri með sér að sé venjan. Hafi kröfuhafar því þurft að fletta upp hverri og einni auglýsingu til þess að ganga úr skugga um að verið væri að auglýsa skiptafund í þrotabúinu. Byggja sóknaraðilar á að með þessum hætti hafi varnaraðili séð til þess að vöktun kröfuhafa með skiptafundinum var tekin úr sambandi. Liggi einnig fyrir að varnaraðili hafi boðað til fyrri skiptafunda með tölvubréfum og óskað sérstaklega eftir staðfestingu á að boðun hefði borist og móttöku.

Byggja sóknaraðilar á að þessi háttsemi varnaraðila hafi verið sérstaklega ósvífin í ljósi þess að varnaraðili hafi vitað vel að sóknaraðilar hygðust mæta á skiptafundinn og bóka þar mótmæli gegn frumvarpi til úthlutunargerðar. Jafnframt því hafi varnaraðili haft vitneskju um að sóknaraðili B ehf. hefði í hyggju að krefjast endurupptöku á hæstaréttarmálinu nr. x/20xx, sbr. tölvubréf lögmanns sóknaraðila frá 12. nóvember 2020, ákvörðun Héraðsdóms í máli nr. Ö-x/20xx og fundargerð skiptafundarins frá x. október 20xx. Hafi þeir kröfuhafar sem voru til sóknar í máli nr. Ö-x/20xx ekki fengið sérstaka boðun frá skiptastjóranum í tölvubréfi vegna skiptafundarins þann x. desember 20xx, en aðrir fengið slíka boðun. Líti þannig út að varnaraðili hafi ekki kært sig um nærveru þessara aðila á skiptafundinum.

Sóknaraðilar telja ljóst að varnaraðili hafi brotið gegn 1. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna með því að boða ekki til skiptafundar með tölvubréfi, að svara ekki ítrekuðum tölvubréfum lögmanns sóknaraðila varðandi fundinn í aðdraganda hans, að hafa látið aðra kröfuhafa vita af fundinum sérstaklega og að gera auglýsingu um skiptafund þannig úr garði gerða að vöktun á henni var tekin úr sambandi. Hafi varnaraðili þannig komið í veg fyrir að lögmaður sóknaraðila gæti gætt hagsmuna þeirra við skiptalokin. Jafnframt því sé um að ræða brot á 2. gr., 1. mgr. 25. gr. og 34. gr. siðareglnanna. Auk þess vísa sóknaraðilar til 44. gr. siðareglnanna um að þær séu ekki tæmandi taldar um góða lögmannshætti. Byggja sóknaraðilar á að enginn vafi leiki á að framkoma varnararðila hafi ekki samrýmst góðum lögmannsháttum.

Sóknaraðilar benda ennfremur á að engum vafa sé undirorpið að boðun skiptafundarins hafi verið í andstöðu við lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. úrskurð Landsréttar í máli nr. xx/20xx. Vísa sóknaraðilar til þess að í því máli hafi viðkomandi slitastjórn bókað um að boðað yrði til kröfuhafafundar með tölvubréfi en það hafi misfarist fyrir fund sem boðað hafi verið til einungis með auglýsingu í Lögbirtingablaði. Hafi ákvörðun sem tekin hafi verið á þeim fundi verið úrskurðuð ógild. Úrskurður Landsréttar hafi sætt kæru til Hæstaréttar en verið vísað þar frá af réttarfarsástæðum.

Vekja sóknaraðilar einnig athygli á að fyrirsvarsmaður þeirra hafi beint kæru til embættis héraðssaksóknara vegna þess að varnaraðili hafi tekið sér þóknun úr þrotabúi E ehf. án heimildar. Þá hafi varnaraðili farið gegn ákvörðun Héraðsóms í máli nr. Ö-x/20xx.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila vegna málatilbúnaðar varnaraðila er því hafnað að skilyrði séu til að vísa málinu frá nefndinni á þeim grundvelli að kvörtunarefnið hafi áður verið lagt fyrir dómstóla. Benda sóknaraðilar á að rétt sé að sóknaraðili B ehf. hafi beint kröfu til Héraðsdóms um að fella ákvörðun varnaraðila um lokun þrotabús E ehf. úr gildi. Þeirri kröfu hafi hins vegar verið vísað frá og því ekki fengið efnislega meðferð. Samkvæmt því hafi engu dómsmáli lokið með efnislegri niðrustöðu um kvörtunarefnið í skilningi 2. mgr. 4. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Auk þess benda sóknaraðilar á að umkvörtunarefnið sé ekki það sama enda sé í þessu máli byggt á að brotið hafi verið gegn siðareglum lögmanna. Það hvort þáverandi lögmaður sóknaraðila hafi handsalað samkomulag við varnaraðila um málarekstur milli þeirra, bindi ekki hendur sóknaraðila.

Sóknaraðilar benda ennfremur á, vegna kröfu varnaraðila um frávísun málsins, að kvörtunin byggi á 1. mgr. 1. gr., 2. gr., 1. mgr. 25. gr., 34. gr. og 44. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt því sé það rangt að kvörtun byggi einungis á reglum IV. kafla siðareglna lögmanna. Þar fyrir utan hafi sóknaraðilar lögvarða hagsmuni af úrlausn á því hvort brotið hafi verið gegn 25. gr. siðareglnanna enda hafi sóknaraðilar borið hallann af því að gegn tilgreindri grein hafi verið brotið.

Sóknaraðilar benda á að hvergi í vörnum varnaraðila sé það véfengt að hann hafi látið ákveðinn hóp kröfuhafa, þ.e. þá sem ekki höfðu staðið að ágreiningsmáli nr. Ö-x/20xx, vita sérstaklega af skiptafundinum. Þá hafi varnaraðili ekki véfengt að bókað hefði verið um ósk lögmanns sóknaraðila B ehf. um að boðað yrði til skiptafunda með tölvubréfi en varnaraðili virt þá ósk að vettugi.

Sóknaraðilar vísa til þess að fullyrðingar varnaraðila um tildrög hinnar óvenjulegu framsetningar á auglýsingu um skiptalok séu ekki studdar neinum gögnum. Hafi varnaraðili mátt vita að þessi framsetning leiddi til þess að auglýsingin færi framhjá sjálfvirkum vöktunum.

Að endingu vísa sóknaraðilar til þess að það að þeir hafi þegið úthlutun úr þrotabúinu feli ekki í sér yfirlýsingu sem bindi þá með neinum hætti að því er varðar kvartanir til úrskurðarnefndar lögmanna yfir hátterni varnaraðila.

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðilum verði gert in solidum að greiða málskostnað að skaðlausu.

Í fyrsta lagi vísar varnaraðili til þess að það sé ekki rétt sem fram komi í kvörtun um að kvörtunarefnið hafi ekki verið lagt fyrir dómstóla. Bendir varnaraðili á að kvörtuninni sé beint að „ólögmætri boðun til skiptafundar í þrotabúi E ehf.“ Varnaraðili vísar til úrskurðar Héraðsdóms í máli nr. X-xxxx/20xx frá x. janúar 20xx sem kveðinn var upp í tilefni af kröfu sóknaraðila um að héraðsdómur „hafnaði tilkynningu“ skiptastjóra um skiptalok og legði fyrir skiptastjóra að boða að nýju til skiptafundar.

Varnaraðili bendir á að líkt og komi fram í úrskurðinum hafi kröfugerð sóknaraðila byggt á því að skiptastjóri hefði ekki auglýst síðasta skiptafund með lögmætum hætti, þ.e. í fyrsta lagi hefði auglýsing fundarins í Lögbirtingablaðinu ekki verið í réttu horfi, í öðru lagi hefði fundurinn verið auglýstur með skemmri fyrirvara en mælt væri fyrir um í 1. mgr. 159. gr. laga nr. 21/1991 og í þriðja lagi hafi varnaraðili brotið gegn reglum um jafnræði kröfuhafa með því að upplýsa suma kröfuhafa um skiptafundinn. Vísar varnaraðili til þess að héraðsdómur hafi vísað málinu frá dómi og að sá úrskurður hafi ekki verið kærður til Landsréttar.

Í öðru lagi bendir varnaraðili á að kvörtunarefnið lúti að brotum á IV. kafla siðareglna lögmanna þar sem mælt er fyrir um samskipti lögmanna innbyrðis. Byggir varnaraðili á að sóknaraðilar geti eðli máls samkvæmt ekki haft aðild að kvörtun sem varði innbyrðis samskipti lögmanna. Sérstaklega eigi þetta við þar sem varnaraðili og viðkomandi lögmaður sóknaraðila hafi tekist í hendur og ákveðið að fella niður allar kytrur sín á milli, almennt og fyrir úrskurðarnefndinni.

Efnislega vísar varnaraðili til þess að auglýsing sú sem birtist í Lögbirtingablaði hafi verið birt með þeim hætti að höfðu samráði við ritstjóra blaðsins. Líkt og málsgögn beri sér hafi varnaraðili kallað eftir því að kröfuhafar lýstu með formlegum hætti eftirstæðum kröfum í þrotabúið þar sem fyrir lá að almennar kröfur yrðu greiddar að fullu. Það hafi kröfuhafar gert. Af þeim sökum hafi þurft í auglýsingu í Lögbirtingablaði að tilkynna bæði um að kröfuskrá kæmi til afgreiðslu og að henni samþykktri yrði frumvarp til úthlutunar tekið til samþykktar á skiptafundi. Kveðst varnaraðili hafa spurst fyrir um það hjá ritstjóra Lögbirtingablaðsins hvort hægt væri að koma að viðbót um afgreiðslu kröfuskrár inn í hina stöðluðu tilkynningu um afgreiðslu frumvarps að úthlutunargerð og fyrirhuguð skiptalok. Svo hafi ekki verið og hafi skiptastjóra verið gerð grein fyrir því að eina leiðin væri að birta svokallaða „almenna auglýsingu“ um skiptafund. Hafi það því verið gert. Bendir varnaraðili aukinheldur á að lög nr. 21/1991 kveði á um að skiptafundur skuli auglýstur í Lögbirtingablaði með minnst tveggja vikna fyrirvara, sbr. 159. gr. laganna. Ekki sé hins vegar útlistað sérstaklega í lögunum hvar í Lögbirtingablaðinu slík auglýsing eigi að vera.

Varnaraðili vísar til þess að þvert á það sem fram komi í kvörtun beri auglýsingin í Lögbirtingablaðinu það með sér um hvaða þrotabú sé að ræða, hvar og hvenær skiptafundur ætti að fara fram og hvað ætti að fara fram á fundinum. Þá hafi ekki verið um meiri „leyniauglýsingu“ að ræða en svo að starfsmenn Skattsins hafi séð hana sama dag og hún var birt og kölluðu eftir afriti af kröfuskrá og frumvarpi. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðilar hafi krafist þess að fá úthlutað úr þrotabúinu í samræmi við kröfuskrána og úthlutunargerðina, þ.e. þau gögn sem staðfest voru á þeim fundi sem sóknaraðilr telji nú að hafi ekki verið haldinn með löglegum hætti.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila er því hafnað að dómsmáli hafi ekki verið lokið um ágreiningsefnið, líkt og sóknaraðilar haldi fram. Liggi þannig fyrir að sóknarðilar kröfðust þess í máli nr. X-xxxx/20xx að héraðsdómur „hafnaði tilkynningu“ varnaraðila um skiptalok og legði fyrir varnaraðila að boða að nýju til skiptafundar. Hafi þær kröfur byggt á „ólögmætri boðun til skiptafundar í þrotabúi E ehf.“ sem sé sama sakarefni og mál þetta taki til. Þá liggi fyrir að úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins sé endanlegur enda hafi hann ekki sætt kæru til Landsréttar. Ítrekar varnaraðili jafnframt að umbjóðendur lögmanna geti eðli máls samkvæmt ekki haft aðild að kvörtun sem varði innbyrðis samskipti lögmanna.

Varnaraðili vísar til þess að það hafi ekki verið um það að ræða að „ákveðinn hópur kröfuhafa“ hafi verið látinn vita sérstaklega af skiptafundinum. Vísar varnaraðili til þess að sumir lögmenn kröfuhafa hafi frétt af skiptafundinum eftir að hafa spurst fyrir um hann hjá skiptastjóra, aðrir hafi frétt af honum eftir öðrum leiðum, eins og t.d. í samskiptum við lögmenn annarra kröfuhafa, og þá hafi aðrir einfaldlega séð auglýsinguna í Lögbirtingablaðinu. Byggir varnaraðili þó á að aðalatriðið sé að hann hafi fylgt fyrirmælum í lögum um boðun skiptafunda, enda komi fram í lögum nr. 21/1991 að boða beri til skiptafunda þar sem fjallað skuli um frumvarp að úthlutunargerð með auglýsingu í Lögbirtingablaði. Sér óskir um að fá boðun í tölvubréfi, með ábyrgðarbréfi, símtali eða símskeyti, sé ekki eitthvað sem skiptastjóri beri skylda til að fara eftir lögum samkvæmt.

Varnaraðili vísar til þess að við birtingu auglýsingar um skiptafundinn hann hafi notast við skapalón sem kallast „almenn auglýsing“ sem veiti notanda meiri svigrúm til að koma að viðbótum eða auka texta. Hafi tilgreint skapalón verið notað að ábendingu starfsmanns Lögbirtingablaðsins. Sé það fjarstæðukennd samsæriskenning að varnaraðili hafi mátt vita að þessi háttur á auglýsingu leiddi til þess að auglýsingin færi fram hjá sjálfvirkum vöktunum. Hafi enda komið fram í auglýsingunni um hvaða þrotabú væri að ræða, hvar og hvenær skiptafundur færi fram og hvað væri til umfjöllunar. Samkvæmt því hafi efni auglýsingarinnar ekki verið þannig að ætla mætti að auglýsingin færi fram hjá sjálfvirkum vöktunum.

Varnaraðili byggir á að skiptafundurinn þann x. desember 20xx hafi verið auglýstur samkvæmt lögum. Þá vísar varnaraðili til þess að það hvort hann hafi ekki verið „kollegial“  með því að tilkynna lögmanni sóknaraðila ekki sérstaklega um fundinn þannig að varði við siðareglur, sé augljóslega eitthvað sem aðeins lögmaður sóknaraðila geti látið á reyna með kvörtun til nefndarinnar.

Niðurstaða

                                                                          I.

Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu varnaraðila en sú krafa er annars vegar á því reist að sóknaraðili hafi áður lagt kvörtunarefnið fyrir dómstóla þar sem því hafi verið lokið með úrskurði í máli nr. X-xxxx/20xx þann x. janúar 20xx. Hins vegar hefur varnaraðili á því byggt að sóknaraðilar geti ekki átt aðild að kvörtunarefni sem lúti að ætluðu broti gegn IV. kafla siðareglna lögmanna þar sem mælt sé fyrir um samskipti lögmanna innbyrðis.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið nefndarinnar.

Úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Varðandi meðferð slíkra ágreiningsmála er jafnframt mælt fyrir um í 3. mgr. 26. gr. laganna að hafi dómsmáli verið lokið um ágreiningsefni vísi nefndin því frá sér en slíkt hið sama er jafnframt áréttað í 2. mgr. 4. gr. málsmeðferðarreglnanna.

Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjallað í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Fyrir liggur að erindi sóknaraðila til nefndarinnar lýtur ekki að ágreiningi um endurgjald í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 og kemur því ekki til álita í málinu að vísa því frá nefndinni á grundvelli 3. mgr. sömu greinar eða 2. mgr. 4. gr. málsmeðferðarreglnanna.

Í erindi sóknaraðila til nefndarinnar er vísað til ætlaðrar háttsemi í störfum varnaraðila sem skiptastjóra þrotabús E ehf., þar á meðal varðandi boðun til skiptafundar í búinu og samskiptaleysi við lögmann sóknaraðila, og á því byggt að gert hafi verið á hlut sóknaraðila með þeirri háttsemi. Er jafnframt að finna í málatilbúnaði sóknaraðila tilvísun til ákvæða siðareglna lögmanna sem á er byggt að varnaraðili hafi brotið í störfum sínum.

Að áliti nefndarinnar falla þau umkvörtunarefni sem greinir í erindi sóknaraðila vegna starfa varnaraðila undir fyrrgreint valdsvið nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Verður heldur ekki talið að mati nefndarinnar að það sakarefni sem vísað var frá dómi með úrskurði Héraðsdóms þann x. janúar 20xx í máli nr. X-xxxx/20xx hafi girt fyrir að sóknaraðilar gætu lagt kvörtun vegna starfa varnaraðila fyrir nefndina á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998. Þá verður að líta til þess að álitaefni um það hvort atvik að baki kvörtunarefni teljist sannað eða geti hlutrænt séð fallið undir tiltekin ákvæði siðareglna lögmanna lúta að þáttum sem taka verður afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en getur ekki varðað frávísun þess frá nefndinni. Samkvæmt því verða ekki talin skilyrði til að vísa kvörtun sóknaraðila frá nefndinni á þeim grundvelli sem varnaraðili krefst í máli þessu.

                                                                         II.

Svo sem fyrr er rakið er málatilbúnaður sóknaraðila reistur á því að varnaraðili hafi gert á þeirra hlut við rækslu starfa sinna sem skiptastjóri þrotabús E ehf. Er þannig á því byggt að varnaraðili hafi staðið að ólögmætri boðun til skiptafundar í búinu enda hafi á fyrri skiptafundi verið bókuð ósk lögmanns sóknaraðila um að boðað yrði til næsta skiptafundar með tölvubréfi, aðrir kröfuhafar hafi fengið upplýsingar um skiptafundinn frá varnaraðila jafnframt því sem auglýsing fundarins í Lögbirtingablaðinu hafi verið þannig úr garði gerð af hálfu varnaraðila að hún hafi farið framhjá sjálfvirkri vöktun lögmanns sóknaraðila. Þá hafi varnaraðili ekki svarað ítrekuðum erindum lögmanns sóknaraðila í aðdraganda fundarins. Hafi tilgreind háttsemi varnaraðila verið í andstöðu við 1. mgr. 1. gr., 2. gr., 1. mgr. 25. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig 44. gr. þeirra.

Fyrir liggur að varnaraðili birti auglýsingu vegna skiptafundarins í Lögbirtingablaðinu þann 1. desember 2020 en samkvæmt efni hennar var fyrirhugað umfjöllunarefni tvíþætt, þ.e. annars vegar að leggja fram kröfuskrá og að henni samþykktri að fjalla um frumvarp til úthlutunar úr þrotabúinu. Hefur varnaraðili vísað til þess að þar sem þurft hafi að leggja uppfærða kröfuskrá fyrir fundinn hafi ekki verið unnt að notast við hefðbundið auglýsingarform á vef Lögbirtingablaðsins varðandi boðun til skiptafundar eftir 1. mgr. 159. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. heldur hafi hann þurft að notast við almennt auglýsingaform.

Að áliti nefndarinnar verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að form og efni þeirrar auglýsingar sem varnaraðili birti í Lögbirtingablaðinu þann x. desember 20xx hafi samræmst þeim áskilnaði sem gerður er í 1. mgr. 159. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt því liggur fyrir að á grundvelli niðurstöðu þess skiptafundar sem haldinn var þann x. desember 20xx, í samræmi við hina umþrættu auglýsingu, var skiptum á þrotabúinu lokið og það afskráð þann 18. sama mánaðar án athugasemda. Samkvæmt því sem og með hliðsjón af forsendum úrskurðar Héraðsdóms frá x. janúar 20xx í máli nr. X-xxxx/20xx er ekki unnt að leggja annað til grundvallar í máli þessu en að skiptum þrotabúsins hafi lokið á skiptafundi sem boðað hafi verið til með lögmætum hætti.

Að áliti nefndarinnar getur ekki breytt í því samhengi þótt bókað hafi verið í fundargerð skiptafundar frá x. október 20xx um ósk lögmanns sóknaraðila um að boðun til næsta fundar yrði gerð með tölvubréfi. Verður þá annars vegar að líta til þeirra formskilyrða sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 159. gr. laga nr. 21/1991, þ.e. um að boða ber til skiptafundar til að fjalla um frumvarp til úthlutunar í Lögbirtingablaði, og hins vegar til þess að aðeins var bókað um ósk lögmanns sóknaraðila í viðkomandi fundargerð en ekki afstöðu varnaraðila, sem skiptastjóra, til þeirrar beiðni. Verður því ekki ráðið af málsgögnum að mati nefndarinnar að varnaraðili hafi skuldbundið sig til að boða jafnframt til skiptafundarins með tölvubréfi til kröfuhafa eða fulltrúa þeirra við skiptin.

Að sama skapi verður hvorki ráðið af málsgögnum að allir aðrir kröfuhafar en sóknaraðilar hafi fengið upplýsingar um skiptafundinn þann x. desember 20xx frá varnaraðila né að hann hafi birt auglýsinguna í Lögbirtingablaðinu þann x. sama mánaðar með þeim hætti sem gert var í því skyni að komast fram hjá sjálfvirku vöktunarkerfi, svo sem málatilbúnaður sóknaraðila er reistur á. Þar sem gagna nýtur ekki við um þetta efni og gegn andmælum varnaraðila verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós að varnaraðili hafi með slíkum hætti, þar á meðal með tilliti til meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa, gert á hlut sóknaraðila.

Á hinn bóginn er þess að gæta að fyrir boðun skiptafundarins lá fyrir að ágreiningur kynni að vera uppi um skiptakostnað, þar á meðal um áskilda þóknun varnaraðila sem skiptastjóra, og þar með það frumvarp að úthlutun sem kynnt yrði, sbr. til hliðsjónar ákvörðun Héraðsdóms í máli nr. Ö-xx/20xx en efni hennar er nánar rakið í málsatvikalýsingu að framan. Jafnframt því liggur fyrir að lögmaður sóknaraðila sendi ítrekuð erindi til varnaraðila í aðdraganda fundarins, þar á meðal dagana 12. og 18. nóvember og 14. desember 2020, en í þeim var meðal annars óskað eftir upplýsingum um fyrirhugað frumvarp til úthlutunar, hvenær og hvernig greiðslum til kröfuhafa frá þrotabúinu yrði háttað sem og uppfærðri kröfuskrá. Að áliti nefndarinnar gat varnaraðila á grundvelli þeirra erinda ekki dulist að sóknaraðilar, sem umbjóðendur lögmannsins, hefðu í hyggju að mæta á næsta skiptafund og halda þar uppi þeim ætluðu hagsmunum sem þeir höfðu boðað sem og að þeim hafi á hinum síðastgreinda degi verið ókunnugt um hinn fyrirhugaða skiptafund næsta dag. Þrátt fyrir það kaus varnaraðili að láta hjá líða að svara erindunum frá lögmanni sóknaraðila.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, beri lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður. Þá er mælt fyrir um í 1. mgr. 1. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti.

Við þær aðstæður sem hér hefur verið lýst verður talið að mati nefndarinnar að það hefði samræmst góðum lögmannsháttum af hálfu varnaraðila að svara þeim ítrekuðu erindum sem lögmaður sóknaraðila beindi til hans um framvindu skiptanna og þar með að veita upplýsingar um þann skiptafund sem fyrirhugaður var þann x. desember 2020. Var sú háttsemi varnaraðila að láta það ógert í andstöðu við 1. mgr. 41. gr. siðareglna lögmanna, sbr. og 1. mgr. 1. gr. þeirra, og telst hún aðfinnsluverð, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að aðilar beri hver sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, C lögmanns, um að kvörtun sóknaraðila, A ehf. og B ehf., verði vísað frá nefndinni, er hafnað.

Sú háttsemi varnaraðila, C lögmanns, að svara ekki ítrekuðum erindum lögmanns sóknaraðila, A ehf. og B ehf., í aðdraganda skiptafundur þrotabús E ehf. sem haldinn var þann x. desember 20xx, er aðfinnsluverð.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Þórdís Bjarnadóttir, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson