Mál 43 2021

Mál 43/2021

Ár 2022, fimmtudaginn 28. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. desember 2021 erindi sóknaraðila, A, vegna starfa varnaraðila, B lögmanns. C lögmaður fer með málið fyrir hönd varnaraðila fyrir nefndinni.

Með bréfi nefndarinnar til sóknaraðila, dags. 29. desember 2021, var óskað eftir nánari skýringum og útlistunum á kvörtunarefnum og kröfugerð sóknaraðila í málinu. Bárust umbeðnar skýringar frá sóknaraðila til nefndarinnar þann 24. janúar 2022. Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 21. febrúar 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt til endurgjalds fyrir starf lögmanns eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sem og kvörtun í skilningi 27. gr. sömu laga.

Greinargerð varnaraðila vegna málsins barst til nefndarinnar þann 21. mars 2022 og var hún send sóknaraðila til athugasemda með bréfi dags. 22. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 29. mars 2022 en viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 11. apríl 2022. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að ábúendur á jörð sóknaraðila í D hafi höfðað mál á hendur honum í desembermánuði 2019 vegna ágreinings um uppgjör á grundvelli 38. og 45. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 vegna ábúðarloka. Áður höfðu landsúttektarmenn gert úttekt á jörðinni, metið framkvæmdir ábúenda og komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðila bæri að greiða þeim ákveðna fjárhæð. Þar sem sóknaraðili vildi ekki una þeirri niðurstöðu var óskað yfirmats á grundvelli 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/2004. Var það niðurstaða yfirmatsnefndar að á sóknaraðila hvíldi kaupskylda vegna endurbóta ábúenda á ábúðartíma, samtals að fjárhæð 5.918.864 krónur að frádregnu álagi vegna viðhalds og umhirðu að fjárhæð 800.000 krónur. Tók hið reiknaða álag til ófullnægjandi viðhalds á mannvirkjum á jörðinni og almennri umhirðu þeirra.

Gögn málsins bera með sér að fyrrgreint dómsmál hafi verið þingfest í Héraðsdómi þann x. janúar 20xx, sbr. málið nr. E-x/20xx. Byggðu dómkröfur stefnenda á hendur sóknaraðila, að fjárhæð 5.118.864 krónur auk vaxta, á niðurstöðu yfirmatsnefndar vegna ábúðarlokanna en stefna málsins er meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Fyrir liggur að varnaraðili tók að sér hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila vegna dómsmálsins en af málsgögnum verður ráðið að sú vinna hafi hafist í byrjun marsmánaðar 2020. Liggur fyrir í málinu greinargerð sem unnin var í þágu sóknaraðila vegna málsins og lögð var fram á dómþingi þann x. mars 20xx. Krafðist sóknaraðili þar aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnenda en til vara að stefnukröfur yrðu lækkaðar verulega. Undirritaði E lögmaður greinargerðina fyrir hönd varnaraðila, en af málsgögnum verður ráðið að tilgreindur lögmaður hafi annast meðferð málsins fyrir héraðsdómi í umboði varnaraðila.

Héraðsdómur kvað upp dóm í málinu nr. E-x/20xx þann x. júlí 20xx. Í forsendum dómsins var lagt til grundvallar að ekkert hefði verið við málsmeðferð yfirmatsnefndar að athuga og að niðurstaða hennar væri studd rökum. Væru því ekki efni til að hafna mati nefndarinnar sökum annmarka á því líkt og sóknaraðili hefði byggt á. Yrði þó sérstaklega að taka til skoðunar hvort kaupskylda hafi hvílt á sóknaraðila. Var það niðurstaða dómsins í þeim efnum að sóknaraðila var gert að greiða stefnendum 4.126.582 krónur með dráttarvöxtum að frádreginni innborgun inn á kröfuna. Þá var sóknaraðila gert að greiða stefnendum 744.000 krónur í málskostnað.

Fyrir liggur að bæði sóknaraðili og stefnendur áfrýjuðu dómi héraðsdóms í málinu til Landsréttar. Er jafnframt ágreiningslaust að sóknaraðili aflaði matsgerðar dómkvadds matsmanns undir rekstri málsins fyrir Landsrétti þar sem lagt var mat á kostnað við að mála íbúðarhús og útihús á jörðinni en í forsendum héraðsdóms hafði verið lagt til grundvallar að útreikningar sóknaraðila væru ekki einir og sér fullnægjandi til þess að hnekkja mati yfirmatsnefndar. Er á meðal málsgagna að finna tilgreinda matsbeiðni til Landsréttar, dags. 16. september 2020, sem varnaraðili undirritaði fyrir hönd sóknaraðila sem matsbeiðanda og matsgerð hins dómkvadda matsmanns frá 23. nóvember 2020. Jafnframt liggja fyrir greinargerðir sem málsaðilar lögðu fram í Landsrétti vegna málsins, þar á meðal greinargerð sem varnaraðili vann og undirritaði í þágu sóknaraðila sem áfrýjanda sem og greinargerð í gagnsök.

Með dómi Landsréttar x. október 20xx í máli nr. xxx/20xx var málinu vísað frá héraðsdómi og málskostnaður á milli aðila felldur niður. Var sú niðurstaða grundvölluð á eftirfarandi forsendum réttarins:

Af yfirmatsgerðinni og framburði yfirmatsnefndarmanna fyrir héraðsdómi verður ekki ráðið á hvaða gögnum útreikningar nefndarinnar á álagi samkvæmt 4. mgr. 41. gr. ábúðarlaga voru byggðir og hvernig niðurstaða þeirra var fengin. Þá bera gögn málsins með sér að ekki hafi verið litið til ástands íbúðarhúss við þá útreikninga en ætla má að það hefði haft veruleg áhrif á niðurstöðu þeirra. Samkvæmt framangreindu skortir rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar að þessu leyti auk þess sem ekki var tekið tillit til veigamikilla atriða við matið. Þykja því slíkir annmarkar vera á niðurstöðum yfirmatsnefndar um mat á eignum og endurbótum við ábúðarlok gagnáfrýjenda á jörð aðaláfrýjanda að ekki er unnt að leggja þær til grundvallar í málinu.

Fyrir Landsrétti lagði aðaláfrýjandi fram matsgerð dómkvadds matsmanns um kostnað við að mála íbúðarhús og útihús á jörðinni. Fyrir liggur að við það mat var ekki gætt þeirra aðferða sem áskilið er í ábúðarlögum, sbr. einkum ákvæði 17. gr. og 41. gr. laganna. Þegar af þeirri ástæðu hefur niðurstaða matsins ekki þýðingu við meðferð málsins.

Sem að framan greinir reisa gagnáfrýjendur dómkröfur sínar á niðurstöðu yfirmatsgerðar sem dómurinn hefur komist að niðurstöðu um að verði ekki byggt á í málinu. Samkvæmt því er málatilbúnaður þeirra svo vanreifaður að óhjákvæmilegt er að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.

Á meðal málsgagna er að finna tímaskýrslu vegna starfa varnaraðila og annarra starfsmanna á lögmannsstofu hennar í þágu sóknaraðila sem tekur til tímabilsins frá 3. mars 2020 til 8. október 2021. Samkvæmt tímaskýrslunni varði fulltrúi varnaraðila, E lögmaður, alls 96.75 klst. í málið á tímagjaldi sem var frá 21.850 krónum auk virðisaukaskatts til 24.500 króna auk virðisaukaskatts. Varnaraðili varði alls 83.50 klst. í hagsmunagæsluna á tímagjaldi sem var frá 23.000 krónum auk virðisaukaskatts til 25.750 króna auk virðisaukaskatts. Þá vörðu aðrir starfsmenn lögmannsstofunnar alls 12.5 klst. í málið á tímagjaldi sem var frá 10.250 krónum auk virðisaukaskatts til 24.725 króna auk virðisaukaskatts. Greinir í tímaskýrslunni hvaða verkþætti var unnið við á hverjum tíma. Var heildarfjárhæð þóknunar samkvæmt tímaskýrslunni að fjárhæð 4.510.976 krónur auk virðisaukaskatts.

Í tímaskýrslunni er einnig gerð grein fyrir útlögðum kostnaði lögmannsstofunnar vegna hagsmunagæslunnar. Lúta þeir kostnaðarliðir að mætingum lögmanna, réttargjöldum og öðrum útlögðum kostnaði að matskostnaði undanskildum sem sóknaraðili mun hafa greitt sjálfur að fjárhæð 396.061 króna. Var útlagður kostnaður lögmannsstofunnar í þágu sóknaraðila samkvæmt tímaskýrslunni að fjárhæð 155.994 krónur án virðisaukaskatts.

Á meðal málsgagna er einnig að finna hreyfingaryfirlit vegna vinnu varnaraðila í þágu sóknaraðila. Ber sá hreyfingarlisti með sér að sóknaraðili hafi greitt reikninga sem gefnir voru út vegna hagsmunagæslunnar til 31. ágúst 2021, en þeir voru alls níu talsins. Fyrir liggur jafnframt að gerðir voru reikningar á hendur sóknaraðila vegna hagsmunagæslunnar dagana 30. september og 31. október 2021, að fjárhæð 1.070.275 krónur og 31.280 krónur. Hefur varnaraðili upplýst í málinu að umfram skyldu hafi verið ákveðið að fella niður þá lokareikninga í kjölfar niðurstöðu Landsréttar og í kjölfar umleitana sóknaraðila. Ber tilgreindur hreyfingarlisti þess merki að kreditreikningar þar að lútandi hafi verið gerðir 31. október 2021. Samkvæmt því hefur varnaraðili vísað til þess í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að sóknaraðili hafi greitt lögmannsstofunni, að meðtöldum réttargjöldum og útlögðum kostnaði en að matskostnaði undanskildum, 3.820.682 krónur auk virðisaukaskatts.  

II.

Af erindum sóknaraðila til nefndarinnar verður ráðið að þau taki annars vegar til ágreinings á milli hans og varnaraðila um endurgjald eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar verður að mati nefndarinnar að leggja þann skilning í erindi sóknaraðila að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er vísað til þess að þann 8. október 2021 hafi verið kveðinn upp dómur í Landsrétti í máli nr. 491/2020. Með dóminum hafi kröfu gagnaðila á hendur sóknaraðila að fjárhæð 5.118.864 krónur verið vísað frá héraðsdómi, án kröfu, og málskostnaður á milli aðila felldur niður. Hafi tilgreind krafa byggt á úttekt yfirmatsnefndar á viðskilnaði gagnaðila á nánar tilgreindri jörð sóknaraðila, en með mati nefndarinnar hafi sóknaraðila verið gert að greiða gagnaðilunum fyrrgreinda fjárhæð, þ.e. einkum vegna ræktunar leigjendanna á jörðinni á leigutíma. Jafnframt því hafi komið fram í forsendum dómsins að matsgerð dómkvadds matsmanns hefði ekki verið gerð í samræmi við ákvæði ábúðarlaga nr. 80/2004, sbr. einkum 17. og 41. gr. þeirra. Hafi sóknaraðili því ekki fengið greiddan kostnað vegna matsgerðinnar að fjárhæð 396.061 króna.

Sóknaraðili bendir á að þar sem málskostnaður hafi verið felldur niður í héraði og fyrir Landsrétti hafi kostnaður hans vegna málsins verið orðinn 6.153.273 krónur fyrir að fá kröfu að fjárhæð 5.118.864 krónur fellda niður. Þar af hafi kostnaður í héraði numið 1.663.862 krónum og kostnaður vegna rekstur málsins fyrir Landsrétti 4.093.350 krónur. Sé þá ótalinn kostnaður vegna vinnutaps og ferða.

Sóknaraðili vísar til þess að um óásættanlega niðurstöðu sé að ræða og hafi hann því kvartað við lögmann sinn, þ.e. varnaraðila þessa máls. Hafi varnaraðili boðið afslátt af reikningi upp á 1.101.000 krónur en sá reikningur sé enn ógreiddur. Þrátt fyrir það boð hafi kostnaður vegna málsins étið upp allan ávinning af því. Sé sóknaraðili því jafn illa settur og fyrir málaferlin, þótt kröfum gagnaðila hans hafi verið vísað frá dómi. Kveðst sóknaraðili jafnframt hafa viljað áfrýja niðurstöðu Landsréttar varðandi málskostnað til Hæstaréttar en varnaraðili hafi ekki talið það hafa þýðingu.

Sóknaraðili byggir á að það geti ekki staðist að saklaus maður verði að bera kostnað af því að sanna sakleysi sitt. Vísar sóknaraðili til þess að mögulega hafi það verið mistök af hálfu varnaraðila að krefjast sýknu fremur en frávísunar við rekstur málsins, en fleira geti komið til. Bendir sóknaraðili á að matsmaður hafi verið dómkvaddur undir rekstri málsins fyrir Landsrétti samkvæmt beiðni varnaraðila fyrir hönd sóknaraðila. Hafi varnaraðili því borið ábyrgð á því að beiðnin samræmdist kröfum Landsréttar. Þar sem matsgerðin hafi ekki komið að notum sé rétt að varnaraðili beri kostnað af matinu. Hafi varnaraðili þannig farið fram á matið án þess að gætt yrði að ákvæðum ábúðarlaga nr. 80/2004.

Ítrekar sóknaraðili að Landsréttur vísaði málinu frá héraðsdómi án kröfu. Með hliðsjón af því hafi varnaraðila verið rétt að setja fram frávísunarkröfu í héraði. Sé ábyrgð vegna þessa fyrst og fremst hjá varnaraðila.

Varðandi málsmeðferðina bendir sóknaraðili á að hann hafi lagt fram öll efnisleg gögn. Hafi varnaraðili því ekki þurft að gera annað en að semja greinargerð til dómstóla og flytja málið. Vísar sóknaraðili til þess að hann hafi greitt til lögmannsstofu varnaraðila bætur sem hann hafi fengið fá tryggingafélagi vegna málskostnaðar, eða 1.077.330 krónur, en að ekki sé farið fram á endurgreiðslu þeirra fjármuna. Allar greiðslur umfram það gerir sóknaraðili hins vegar kröfu um að fá endurgreiddar. Byggir sóknaraðili þá kröfu á því sjónarmiði að ef rétt hefði verið haldið á málum af hálfu varnaraðila fyrir héraði þá hefði kröfum gagnaðila verið vísað frá dómi og sóknaraðili sloppið við allan kostnað vegna málarekstursins fyrir Landsrétti sem og kostnað vegna matsgerðar. Óskar sóknaraðili jafnframt eftir að nefndin meti hvort framlagðir reikningar frá lögmannsstofu varnaraðila séu hærri en efni standa til miðað við framlagða vinnu.

III.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verið hafnað.

Varðandi ágreining um endurgjald vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila vísar varnaraðili til þess að hagsmunagæslan hafi tekið til málareksturs sem hafi verið umtalsverður að vöxtum líkt og málsgögn beri með sér.

Varnaraðili bendir þannig á að ágreiningur hafi annars vegar verið af lögfræðilegum toga, þar sem reynt hafi á túlkun og skráningu ýmissa ákvæða laga nr. 80/2004, þar á meðal innra samræmi þeirra, vægi undirbúningsgagna við lagasetningu o.fl. Jafnframt því hafi reynt á hvort stjórnsýsluleg meðferð málsins, ekki síst af hálfu yfirmatsnefndarinnar, væri slíkum annmörkum háð að ekki væri á niðurstöðu nefndarinnar byggjandi. Hafi þau álitaefni verið fjölþætt og ekki einföld eftir efni og eðli sínu, svo sem málsgögn beri með sér. Þá hafi héraðsdómi og Landsrétti til að mynda ekki borið saman um hvort slíkir annmarkar væru á meðferð og niðurstöðum yfirmatsnefndarinnar að á þeim væri ekki byggjandi.

Varnaraðili vísar hins vegar til þess að ágreiningur hafi verið um atvik máls. Hafi sá ágreiningur einnig verið fjölþættur og tekið t.d. til þess hvort og að hversu miklu leyti sóknaraðili hefði samþykkt framkvæmdir ábúenda, þar á meðal í verki, hvort skort hafi á viðhald eigna af hálfu ábúenda þannig að kæmi til lækkunar kröfu þeirra og hvert væri eðlilegt umfang álagsgreiðslna sóknaraðila til handa vegna ófullnægjandi viðhalds á mannvirkjum á jörðinni og almennrar umhirðu við mannvirki.

Vísað er til þess að fyrir nefndinni liggi ítarleg tímaskýrsla. Af henni megi glöggt ráða hvernig vinnu lögmanna var háttað, skref fyrir skref, við rekstur málsins á báðum dómstigum. Jafnframt því komi þar fram upplýsingar um opinber gjöld vegna málarekstursins og kostnað af öflun matsgerðar. Vísar varnaraðili til þess að eftir að niðurstaðu Landsréttar hafi legið fyrir og í kjölfar umleitana sóknaraðila hafi verið ákveðið, umfram skyldu, að fella niður lokareikninga vegna málarekstursins, að fjárhæð 1.070.275 krónur og 31.280 krónur. Með því hafi verulegur afsláttur verið veittur.

Varnaraðili vísar til þess að eftir stendur að sóknaraðili, að meðtöldum réttargjöldum og útlögðum kostnaði en að matskostnaði undanskildum, hafi greitt lögmannsstofu varnaraðila 3.820.682 krónur í þóknun án virðisaukaskatts. Er á því byggt að sú fjárhæð, þar á meðal að virtri úrskurðarframkvæmd nefndarinnar, geti fjarri lagi talist úr hófi, meðal annars að virtu sakarefni málsins, flækjustigi þess og þeirri staðreynd að málið var rekið til enda á tveimur dómstigum auk þess sem matsgerðar hafi verið aflað. Bendir varnaraðili einnig á að allt fram að lokareikningum hafi sóknaraðili greitt alla reikninga en þeim hafi ávallt fylgt tímaskýrsla.

Varnaraðili hafnar því að hafa gert á hlut sóknaraðila í skilningi 27. gr. laga nr. 77/1998. Bendir varnaraðili á að málatilbúnaður sóknaraðila um það efni virðist í öllum meginatriðum ganga út á að varnaraðila hafi að réttu lagi borið að krefjast frávísunar málsins frá héraðsdómi þar sem málið hafi verið vanreifað af hálfu sóknaraðila í öndverðu. Standist sá málatilbúnaður ekki gagnrýna skoðun.

Varnaraðili bendir á að vanreifun leiði til frávísunar af sjálfsdáðum enda um að ræða atriði sem dóminum ber sjálfum að gæta að. Sé staðreyndin sú að héraðsdómur, ólíkt Landsrétti, taldi ekki slíka annmarka á matsgerð yfirmatsnefndar að ekki væri á henni byggjandi til stuðnings fjárkröfum stefnenda. Jafnframt því bendir varnaraðili á að það sé flókið hagsmunamat hverju sinni hvort rétt sé að krefjast frávísunar máls frá dómi eða ekki, svo sem þegar varnaraðili máls telur sig með haldbærum rökum geta bent á annmarka á tölulegum forsendum kröfugerðar. Gildi þannig sú meginregla að stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir sínum kröfum, þar með talið grundvelli og réttmæti kröfufjárhæða. Annmarkar á málatilbúnaði þar að lútandi, þar á meðal í formi „vanreifunar“, geti leitt til frávísunar, þar á meðal án kröfu, en einnig stundum til sýknu eða lækkunar á dómkröfum á þeim grunni að krafa teljist ósönnuð í heild eða að hluta, sem leiði þá jafnan til hagfelldari niðurstöðu að leikslokum.

Í samræmi við framangreint, þ.e. hvorutveggja því að áhöld gátu verið um hvort málið væri svo vanreifað að frávísun varðaði ásamt því að vanreifun leiðir til frávísunar án kröfu sem og að stefnendur kynnu að bera hallann af mögulegum ófullkomnleika málatilbúnaðar síns, byggir varnaraðili á að engin efni séu til að fallast á að gert hafi verið á hlut sóknaraðila í skilningi 27. gr. laga nr. 77/1998 með því að krefjast ekki frávísunar málsins í héraði.

Varðandi málatilbúnað sóknaraðila um matsgerð þá sem aflað var undir rekstri málsins fyrir Landsrétti bendir varnaraðili á að þó svo að matsgerðin hefði verið öðruvísi úr garði gerð hefði slíkt engu breytt um afdrif málsins þar sem kröfum stefnenda var vísað frá héraðsdómi. Vísar varnaraðili jafnframt til þess að felldir hafi verið niður reikningar til sóknaraðila sem hafi numið umtalsvert hærri fjárhæðum en kostnaði af öflun matsgerðarinnar. Hvað sem því líði þá hafi markmiðið með matsgerðinni verið að renna frekari stoðum undir útreikninga sóknaraðila til stuðnings álagsgreiðslum vegna viðgerða í formi málningar, en í forsendum héraðsdóms hafi framlagðir útreikningar sóknaraðila ekki verið taldir „duga ... einir og sér ... til þess að hnekkja matinu“. Landsréttur hafi á hinn bóginn talið að við matsgerðina hafi ekki verið „gætt þeirra aðferða sem áskilið er í ábúðarlögum, sbr. einkum ákvæði 17. og 41. gr. laganna“ og að „[þ]egar af þeirri ástæðu hefur niðurstaða matsins ekki þýðingu við meðferð málsins“.

Varnaraðili bendir á að lögmenn verði jafnan ekki gerðir ábyrgir fyrir störfum matsmanna, þar með talið þeirri aðferðafræði sem þeir viðhafa. Að því sögðu hafi það verið fjarri lagi fyrirsjáanlegt, meðal annars að virtum meginreglum einkamálaréttarfars um frjálst sönnunarmat dómara, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, auk málsforræðisreglunnar, að matsbeiðnin væri bersýnilega tilgangslaus til sönnunar í málinu, enda með henni gagngert verið að bregðast við þeim forsendum héraðsdóms að sóknaraðili þyrfti að skjóta frekari stoðum, í formi sérfræðilegrar sönnunar, undir málatilbúnað til stuðnings álagsgreiðslum.

Í samræmi við allt framangreint byggir varnaraðili á að ekki sé neitt tilefni til endurskoðunar lögmannsþóknunar né að gert hafi verið á hlut sóknaraðila, sbr. 26. og 27. gr. laga nr. 77/1998.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þarf annars vegar að fjalla um fjárhagslegt uppgjör vegna lögmannsstarfa varnaraðila og hins vegar um hvort varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum.

II.

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir þeirri hagsmunagæslu sem varnaraðili sinnti í þágu sóknaraðila á tímabilinu frá 3. mars 2020 til 8. október 2021. Svo sem þar greinir laut hagsmunagæslan að málsvörnum varnaraðila í þágu sóknaraðila vegna reksturs málsins nr. E-x/20xx sem rekið var fyrir Héraðsdómi sem og landsréttarmálsins nr. xxx/20xx. Með dómi Landsréttar var máli stefnenda, sem gagnáfrýjenda fyrir réttinum, gegn sóknaraðila vísað frá héraðsdómi og málskostnaður felldur niður en með dómi héraðsdóms hafði sóknaraðila verið gert að greiða gagnaðilum sínum nánar tilgreinda fjárhæð auk vaxta og málskostnaðar.

Kvörtunarefni sóknaraðila á hendur varnaraðila, á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, lýtur annars vegar að því að varnaraðila hafi borið að krefjast frávísunar málsins strax í öndverðu, þ.e. í greinargerð þeirri sem lögð var fram á dómþingi í héraðsdómi. Þar sem það hafi verið látið ógert hafi málið verið rekið í gegnum tvö dómstig að þarfalausu með tilheyrandi kostnaði fyrir sóknaraðila.

Að mati nefndarinnar verður ekki talið að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með því að hafa ekki haft uppi kröfu um frávísun undir rekstri málsins í héraði. Er þá til þess að líta, svo sem varnaraðili bendir á í málatilbúnaði sínum, að vanreifaður málsgrundvöllur í stefnu leiðir almennt til frávísunar án kröfu enda um að ræða atriði sem dómstólum ber að gæta að sjálfsdáðum. Jafnframt því liggur fyrir að í héraðsdómsgreinargerð þeirri sem varnaraðili vann í þágu sóknaraðila var á því byggt að mat yfirmatsnefndar hefði verið annmörkum háð. Á þann málatilbúnað var hins vegar ekki fallist í héraði þar sem talið var að ekkert hefði verið við málsmeðferð yfirmatsnefndarinnar að athuga auk þess sem niðurstaða hennar hefði verið studd gögnum. Verður því ekki talið að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila vegna kröfugerðar í málinu þótt Landsréttur hafi verið á öndverðu meiði við héraðsdóm og talið að ekki væri á niðurstöðu yfirmatsnefndar byggjandi og málatilbúnaður gagnaðila sóknaraðila af þeim sökum talinn vanreifaður þannig að varðaði frávísun málsins frá héraðsdómi.

Kvörtunarefni sóknaraðila gagnart varnaraðila lýtur hins vegar að því að matsgerðar hafi verið aflað í hans þágu undir rekstri málsins í Landsrétti sem hafi verið ónothæf samkvæmt forsendum réttarins í máli nr. xxx/20xx. Hafi sóknaraðili samkvæmt því borið kostnað af matsgerð, að fjárhæð 396.061 króna, sem hafi ekki haft þýðingu við meðferð málsins þar sem ekki hefði verið gætt þeirra aðferða við matið sem áskildar væru í ábúðarlögum nr. 80/2004. Hafi varnaraðili borið ábyrgð á að matsbeiðnin samræmdist lögum og að matsgerðin kæmi að notum í þágu sóknaraðila í samræmi við markmið með öflun hennar.

Að mati nefndarinnar verður heldur ekki talið að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila, í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, í tengslum við öflun fyrrgreindrar matsgerðar undir rekstri landsréttarmálsins nr. xxx/20xx. Er þá til þess að líta að matsbeiðnin, sem varnaraðili vann og lagði fram í Landsrétti fyrir hönd sóknaraðila, náði fram að ganga og því ekki talið að matsgerð á grunni hennar væri bersýnilega tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Liggur einnig fyrir að matsgerðarinnar var aflað í þeim tilgangi að bregðast við forsendum héraðsdóms um að útreikningar sóknaraðila sjálfs væru ekki fullnægjandi einir og sér til að hnekkja yfirmatsgerð yfirmatsnefndar um nánar tilgreinda þætti. Jafnframt því verður ekki séð að mati nefndarinnar að þýðingu hafi haft fyrir niðurstöðu málsins þótt matið hafi ekki verið lagt til grundvallar enda málinu vísað frá héraðsdómi á grundvelli vanreifaðs málatilbúnaðar gagnaðila sóknaraðila. Þá hefur að áliti nefndarinnar ekki verið leitt í ljós í málinu að varnaraðili hafi borið ábyrgð á því að matsgerð hins dómkvadda matsmanns yrði unnin í samræmi við aðferðafræði ábúðarlaga nr. 80/2004, svo sem forsendur Landsréttur grundvölluðust á.

Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að varnaraðili hafi í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

III.

Svo sem fyrr greinir er einnig ágreiningur á milli aðila um það endurgjald sem varnaraðili og lögmannsstofa hennar áskildu sér vegna starfa í þágu sóknaraðila.

Fyrir nefndinni liggur hreyfingaryfirlit sem varnaraðili lagði fram en það hefur ekki sætt sérstökum andmælum af hálfu sóknaraðila. Samkvæmt því voru gefnir út alls níu reikningar af hálfu lögmannsstofu varnaraðila vegna vinnu í þágu sóknaraðila á tímabilinu frá 31. mars 2020 til 31. ágúst 2021, að heildarfjárhæð 4.655.657 krónur. Ágreiningslaust er að þeir reikningar voru greiddir athugasemdalaust af hálfu sóknaraðila á meðan réttarsamband aðila varði. Þá hefur jafnframt verið upplýst að tímaskýrslur að baki reikningum voru sendar til sóknaraðila við útgáfu þeirra.

Af hreyfingaryfirlitinu verður jafnframt ráðið að lögmannsstofa varnaraðila hafi gert reikninga á hendur sóknaraðila vegna hagsmunagæslunnar dagana 30. september og 31. október 2021, að fjárhæð 1.070.275 krónur og 31.280 krónur. Hefur varnaraðili upplýst fyrir nefndinni að umfram skyldu hafi verið ákveðið að fella niður þá lokareikninga í kjölfar niðurstöðu Landsréttar og umleitana sóknaraðila þar að lútandi. Ber tilgreindur hreyfingarlisti þess merki að kreditreikningar því til samræmis hafi verið gerðir 31. október 2021.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Með vísan til þeirra forsendna sem raktar voru í II. kafla að framan verður ekki talið að skilyrði séu til að lækka áskilda þóknun vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila, þannig að til endurgreiðslu fjármuna komi, á grundvelli málatilbúnaðar sóknaraðila um að varnaraðila hafi borið að hafa uppi frávísunarkröfu í héraðsdómsmálinu nr. E-x/20xx. Þá fellur það utan valdsviðs nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, að mæla fyrir um að varnaraðila verði gert að greiða kostnað vegna öflunar matsgerðar fyrir Landsrétti svo sem byggt er á í málatilbúnaði sóknaraðila.

Fyrir liggur að lögmannsstörf varnaraðila í þágu sóknaraðila stóðu yfir í um 20 mánuði og tók til reksturs dómsmáls, sem var nokkuð að umfangi, á tveimur dómstigum. Í samræmi við það tók vinna varnaraðila og annarra lögmanna á lögmannsstofu hennar til skoðunar og mats á réttarstöðu sóknaraðila, ritunar greinargerðar í  héraði sem og mætingar þar, málflutnings og annars reksturs málsins fyrir Héraðsdómi, áfrýjun málsins til Landsréttar, vinnu við greinargerðir til Landsréttar, þar á meðal vegna gagnáfrýjunar, ritunar matsbeiðni og reksturs matsmáls fyrir Landsrétti sem og munnlegan málflutning fyrir réttinum.

Svo sem fyrr greinir var sóknaraðili upplýstur reglulega um áfallinn verkkostnað vegna starfa varnaraðila með útgáfu reikninga og tímaskýrslum að baki þeim. Verður ekki ráðið af málsgögnum að sóknaraðili hafi hreyft nokkrum athugasemdum vegna þess endurgjalds sem varnaraðili og lögmannsstofa hennar áskildu sér vegna hagsmunagæslunnar samkvæmt hinum útgefnu reikningum til 31. ágúst 2021, en þeir voru allir greiddir.

Að mati nefndarinnar var tímagjald sem lagt var til grundvallar í hagsmunagæslunni hóflegt, en samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu var tímagjald lögmanna frá 21.850 krónum auk virðisaukaskatts til 25.750 króna auk virðisaukaskatts. 

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir efni þeirrar tímaskýrslu sem liggur fyrir nefndinni vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila á tímabilinu frá 3. mars 2020 til 8. október 2021. Svo sem þar er lýst var alls 192.75 klst. varið í vinnu vegna málsins af hálfu varnaraðila og annarra starfsmanna á lögmannsstofu hennar. Að mati nefndarinnar var sá fjöldi vinnustunda nokkuð verulegur að teknu tilliti til undirliggjandi hagsmuna sem og með hliðsjón af eðli og umfangi málsins, eins og það verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum. Á hinn bóginn er til þess að líta, svo sem fyrr greinir, að lögmannsstofa varnaraðila felldi niður síðustu tvo reikningana sem gerðir voru á hendur sóknaraðila í kjölfar málaloka en þeir voru samtals að fjárhæð 1.101.555 krónur. Samkvæmt því var sóknaraðila veittur umtalsverður afsláttur af því endurgjaldi sem fyrrgreind tímaskýrsla hafði tekið til.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, gögnum málsins og að teknu tilliti til þess afsláttar sem varnaraðili veitti sóknaraðila með því að kreditfæra þá reikninga sem útgefnir höfðu verið 30. september og 31. október 2021, er það mat nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilda þóknun vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila. Felur sú niðurstaða í sér að sú þóknun sem lögmannsstofa varnaraðila áskildi sér vegna starfa í þágu sóknaraðila, og þegar hefur verið innheimt, var hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu sóknaraðila um að áskilið endurgjald varnaraðila sæti lækkun þannig að til endurgreiðslu komi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns, og lögmannsstofu hennar vegna starfa í þágu sóknaraðila, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson