Mál 44 2021

Mál 44/2021

Ár 2022, miðvikudaginn 15. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. desember 2021 erindi C lögmanns fyrir hönd sóknaraðila, A, sem lýtur að kvörtun í garð varnaraðila, B lögmanns, vegna ætlaðrar háttsemi í störfum sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 14. desember 2021 og 27. janúar 2022 og barst hún þann 1. mars sama ár. Var lögmanni sóknaraðila send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 4. mars 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 12. apríl 2022 og var varnaraðili upplýstur um það efni með bréfi dags. 22. sama mánaðar. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila eftir þann tíma og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum var dánarbú D, sem lést þann x. ágúst 20xx, tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms er kveðinn var upp þann x. nóvember 20xx og skiptastjóri skipaður fyrir búið. Liggur jafnframt fyrir að sóknaraðili var á meðal lögerfingja hins látna.

Á meðal málsgagna eru fundargerðir níu skiptafunda sem haldnir voru á tímabilinu frá 7. desember 2018 til 26. júní 2020. Af þeim verður ráðið að aðrir lögmenn hafi annast hagsmunagæslu á því tímabili í þágu sóknaraðila vegna skiptanna. Samkvæmt fundargerðunum verður jafnframt ráðið að ýmis ágreiningur hafi orðið á milli erfingja við skiptin, þar á meðal um ráðstöfun fasteignar í eigu dánarbúsins og kröfu sóknaraðila um umönnunarbætur. Var meðal annars bókað eftirfarandi um tilgreind atriði í fundargerð skiptafundar frá 26. júní 2020:

Skiptastjóri ákveður í ljósi þess að ljóst er að ekki næst sátt á milli aðila að vísa ágreiningi þeirra til héraðsdóms. Útistandandi atriði sem ágreiningur er um eru eftirandi: hvort F eigi rétt á að gengið verði til kaupsamnings við hann vegna G, áskilnaður F vegna meintra tafa við að ganga til kaupsamnings við hann, kröfur A skv. kröfulýsingu, dags. 2. maí 2019, kröfur um að A endurgreiði vegna úttekta fyrir andlát B, kröfur vegna endurgreiðslna varðandi flugfarseðla og atriði er snúa að innbúi. – Skiptastjóri kynnir lögmönnum að ágreiningur aðila verði sendur héraðsdómi til úrlausnar á næstu dögum.

Samkvæmt málsgögnum var ágreiningi erfingja vísað til héraðsdóms af hálfu skiptastjóra þann x. júní 20xx sem tveimur ágreiningsmálum. Liggur jafnframt fyrir af málatilbúnaði aðila að varnaraðili hafi tekið við hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila vegna þess málareksturs, en varnaraðili hefur vísað til þess að sóknaraðili hafi leitað til hans með beiðni um það efni í byrjun októbermánaðar 2020.

Þau dómsmál sem hér um ræðir eru annars vegar mál nr. x-xxxx/20xx sem laut að ágreiningi á milli sóknaraðila og annarra erfingja dánarbúsins um ráðstöfun fasteignar búsins. Lýtur kvörtun í máli þessu þannig annars vegar að því að varnaraðili hafi við aðalmeðferð fyrrgreinds máls, sem fram fór þann x. mars 20xx, fallið frá málsástæðum sem sóknaraðili hafi byggt á í greinargerð til dómsins, án samráðs við sóknaraðila, sem leitt hafi til þess að úrskurður hafi fallið henni í óhag auk þess sem henni hafi verið gert að greiða gagnaðilum sínum 500.000 krónur í málskostnað.

Fyrir liggur að úrskurður var kveðinn upp í málinu þann x. apríl 20xx en í úrskurðarorði var kveðið á um að skiptastjóra bæri að ganga til kaupsamnings við bróður sóknaraðila og eiginkonu hans á grundvelli kauptilboða þeirra í viðkomandi fasteign jafnframt því sem sóknaraðila var gert að greiða 2.000.000 króna í skaðabætur auk dráttarvaxta. Þá var sóknaraðila gert að greiða tilgreindum gagnaðilum 500.000 krónur í málskostnað.

Um þá málsástæðu sem sóknaraðili hefur vísað til að varnaraðili hafi fallið frá án samþykkis hennar við aðalmeðferð málsins var eftirfarandi tiltekið í forsendum fyrrgreinds úrskurðar:

„...Við munnlega meðferð málsins féll varnaraðili frá málsástæðum sem varða það að ekki hafi komist á bindandi samningur um fasteignakaup milli sóknaraðilans F og J eiginkonu hans og dánarbúsins.

Hins vegar er um að ræða málið nr. x-xxx/20xx sem laut að kröfu sóknaraðila á hendur dánarbúinu um umönnunarbætur að höfuðstólsfjárhæð 2.550.000 krónur. Úrskurður var kveðinn upp í málinu í héraðsdómi þann x. apríl 20xx en í úrskurðarorði var tiltekið að dánarbúinu væri ekki skylt að greiða sóknaraðila umkrafðar umönnunarbætur. Þá var sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum málsins 500.000 krónur í málskostnað.

Kvörtunarefni sóknaraðila gagnvart varnaraðila í málinu lýtur hins vegar að því að varnaraðili hafi ekki upplýst sóknaraðila um úrskurði og þar með niðurstöðu í málunum tveimur fyrr en með tölvubréfi þann 18. maí 2021 en þá hafi kærufrestir verið liðnir. Varnaraðili hefur hins vegar mótmælt þeim málatilbúnaði og byggt á að hann hafi ítrekað reynt að ná í sóknaraðila til að kynna henni úrskurði héraðsdóms en þær tilraunir hafi reynst árangurslausar.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréfasamskipti aðila frá 17. og 18. maí 2021. Í tölvubréfi sóknaraðila hinn fyrrgreinda dag óskaði hún eftir að varnaraðili hefði samband við sig enda væri hún „búin að reyna mikið að ná í þig [varnaraðila].“ Varnaraðili svaraði því erindi sóknaraðila næsta dag með eftirfarandi hætti:

Sæl A. – Biðst forláts á því hve erfitt hefur verið að ná í mig. Hef verið mjög upptekinn. Viðurkenni þó að mér finnst líka erfitt að eiga í samskiptum enda þú farið gegn ráðgjöf minni í báðum málunum. – Meðfylgjandi eru niðurstöður í málum x-xxx/20xx og x-xxx/20xx sem bæði töpuðust. Græt ég enn tækifærið sem dómari gaf þér til sátta.

Fyrir liggur að sóknaraðili leitaði til annars lögmanns um hagsmunagæslu vegna skipta á dánarbúinu eftir þetta tímamark og mun réttarsambandi aðila þá hafa lokið.

Á meðal málsgagna er einnig að finna frumvarp til úthlutunar úr viðkomandi dánarbúi, dags. x. október 20xx. Með hliðsjón af sakarefni málsins þykir ekki ástæða til að reifa frumvarpið eða framlögð gögn að öðru leyti umfram það sem greinir um þau efni í umfjöllun um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni, sbr. kafla II. og III. hér á eftir.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sóknaraðila sem móttekið var þann 10. desember 2021.

II.

Að mati nefndarinnar verður að leggja þann skilning í málatilbúnað sóknaraðila að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Sóknaraðili vísar til þess að kvörtun sé annars vegar beint að vanrækslu varnaraðila við hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila. Hafi varnaraðili þannig fallið frá málsástæðum sóknaraðila við aðalmeðferð í héraðsdómsmálinu nr. x-xxx/20xx sem eðlilega hafi leitt til þess að úrskurður hafi fallið sóknaraðila í óhag auk þess sem sóknaraðila hafi verið gert að greiða 500.000 krónur í málskostnað. Jafnframt því hafi útilokast möguleiki sóknaraðila til þeirra fasteignakaupa sem málið hafi lotið að en það hafi einnig valdið sóknaraðila miklu fjártjóni.

Kvörtun sóknaraðila lýtur hins vegar að því að varnaraðili hafi ekki upplýst hana um úrskurði héraðsdóms í fyrrgreindu máli sem og í máli nr. x-xxx/20xx, sem kveðnir voru upp þann x. apríl 20xx, fyrr en þann x. maí sama ár en þá hafi kærufrestir verið liðnir. Með þeirri háttsemi varnaraðila hafi verið komið í veg fyrir að sóknaraðili gæti kært úrskurðina til Landsréttar. Bendir sóknaraðili á að hún hafi einnig tapað hinu síðargreinda máli auk þess sem henni hafi verið gert að greiða gagnaðilum 500.000 krónur í málskostnað.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi verið viðstaddur uppkvaðningu úrskurða í málunum tveimur í héraðsdómi þann x. apríl 20xx. Þrátt fyrr það hafi hann ekki reynt að hafa samband við sóknaraðila né hafi hann svarað símtölum hennar. Hafi varnaraðili þannig ekki upplýst sóknaraðila um niðurstöðu málanna fyrr en með fyrrgreindu tölvubréfi þann 18. maí 2021.

Vísað er til þess að undirliggjandi mál hafi varðað skipti á dánarbúi föður sóknaraðila sem setið hafi í óskiptu búi eftir móður sóknaraðila. Hafi því verið um arf eftir foreldra sóknaraðila að ræða, bæði fjárhagslega, með minjagildi og varðandi vilja föður sóknaraðila. Bendir sóknaraðili á að hlutur hennar hafi verið mun minni en systkina hennar, líkt og fyrirliggjandi úthlutunargerð beri með sér. Hafi vanræksla varnaraðila því bæði valdið sóknaraðila fjárhagslegu tjóni og tilfinningalegri vanlíðan.

Sóknaraðili byggir á að varnaraðili hafi brotið gegn sér bæði með vanrækslu og með því að fara út fyrir umboð sitt. Krefst sóknaraðili þess að nefndin taki málið til meðferðar og beiti viðeigandi úrræðum.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila er málatilbúnaði varnaraðila mótmælt. Kveðst sóknaraðili ítreka að varnaraðili hafi ekki látið sig vita um niðurstöðu mála í kjölfar uppkvaðningu úrskurða í héraðsdómi. Bendir sóknaraðili sérstaklega á efni tölvubréfs varnaraðila frá 18. maí 2021 um þetta efni og að þá hafi kærufrestur verið liðinn. Þá hafi sóknaraðili ítrekað reynt að ná í varnaraðila áður, bæði símleiðis og með tölvubréfum, en ekkert svar borist. Sé það einnig rangt að varnaraðili hafi reynt að hringja í sóknaraðila eftir uppkvaðningu úrskurðanna og séu slíkar fullyrðingar ósannar og ósannaðar.

Byggir sóknaraðili á að vanræksla varnaraðila hafi valdið tjóni enda hafi sóknaraðili ekki getað kært niðurstöður héraðsdóms til Landsréttar og leitað þar réttar síns. Þá bæti það aðeins gráu ofan á svart að varnaraðili reyni í greinargerð sinni að greina ósatt frá atvikum og leitist með því við að sverta og niðurlægja sóknaraðila. Sé um alvarleg brot á siðareglum lögmanna að ræða enda hafi varnaraðili valdið sóknaraðila bæði fjárhagslegu tjóni og miska.

III.

Skilja verður málatilbúnað varnaraðila með þeim hætti að þess sé krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi leitað til sín um hagsmunagæslu þann 2. október 2020 og aðilar hafi þá átt með sér fund. Hafi sóknaraðili upplýst á þeim fundi um ágreining við systkini sín vegna dánarbús föður þeirra sem og við skiptastjóra búsins. Þá hafi sóknaraðili upplýst um að aðrir lögmenn hefðu komið að hagsmunagæslu í hennar þágu en að hún vildi skipta um lögmann.

Því er lýst að á þeim tíma hafi verið búið að þingfesta tvö ágreiningsmál við skiptin fyrir Héraðsdómi. Hafi annað málið varðað tilboð bróður sóknaraðila í fasteign dánarbúsins, sbr. héraðsdómsmálið nr. x-xxx/20xx, en hitt kröfu sóknaraðila um umönnunargreiðslur henni til handa, sbr. héraðsdómsmálið nr. x-xxx/20xx.

Varnaraðili kveðst hafa móttekið gögn frá sóknaraðila þann 5. október 2020 og gögn frá skiptastjóra nokkru síðar, en þau hafi ekki að öllu leyti verið í samræmi við fullyrðingar sóknaraðila um atvik. Þá hafi komið í ljós síðar að sóknaraðili hafi ekki haft frekari gögn undir höndum vegna ágreiningsins, þrátt fyrir fyrirheit um slíkt.

Varðandi aðdraganda að máli nr. x-xxx/2020 vísar varnaraðili til þess að um hafi verið að ræða ágreining sóknaraðila við aðra erfingja vegna sölu skiptastjóra á nánar tilgreindri fasteign búsins. Hafi skiptastjóri lagt til á skiptafundi þann x. janúar 20xx að þrjár fasteignasölur tækju eignina til sölumeðferðar og hafi engin mótmæli verið bókuð við því. Í framhaldi af því hafi verið fjallað um málið á skiptafundum 31. janúar, 21. febrúar og 8. apríl 2019 án þess að niðurstaða fengist í það.

Vísað er til þess að á skiptafundi þann 2. maí 2019 hafi verið lögð fram fjögur tilboð í viðkomandi fasteign, þ.e. tvö frá sóknaraðila, eitt frá bróður hennar og eitt sem útbúið hafi verið af skiptastjóra sjálfum. Hafi verið bókað um það á fundinum að skiptastjóri hefði samþykkt tilboð bróðurins með fyrirvara um samþykki skiptafundar. Hins vegar hafi þáverandi lögmaður sóknaraðila mótmælt því að tilboðinu yrði tekið á meðan aðrir erfingjar samþykktu það. Þá hafi eftirfarandi verið bókað um þetta atriði í fundargerð skiptafundarins:

...En í ljósi þess að meirihlutasamþykki liggur fyrir á fundinum fyrir því að samþykkja tilboð F, í samræmi við 4. mgr. 69. gr. skiptalaga og að tilboð F er án fyrirvara um fjármögnun er tilboði hans í fasteignina, dags. 26. apríl sl. samþykkt. Skiptastjóri mun leggja fyrir fasteignasala að ganga til kaupsamnings við F eins fljótt og unnt er. Lögmaður A ítrekar að hann muni láta reyna á þessa afstöðu fyrir hönd A.

Varnaraðili bendir á að til máls nr. x-xxx/20xx hafi verið stofnað vegna ágreinings sóknaraðila við aðra erfingja. Hafi krafa verið sett fram um umönnunarbætur til handa sóknaraðila af hálfu fyrri lögmanns hennar, þ.e. á skiptafundi sem haldinn hafi verið þann 2. maí 2019. Hafi sú krafa gegn dánarbúinu verið að fjárhæð 2.550.000 krónur vegna útréttinga, aðhlynningar og sólarhringsþjónustu sóknaraðila fyrir andlát hins látna. Er vísað til þess að í fundargerð hafi fyrri lögmaður sóknaraðila lýst yfir skuldajöfnuði með kröfunni, þ.e. gagnvart kröfu annarra erfingja um endurgreiðslur sóknaraðila til búsins.

Varnaraðili kveðst hafna því að hann hafi brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna í störfum sínum í þágu sóknaraðila. Byggir varnaraðili á að hagsmunum sóknaraðila hafi verið fylgt eftir með öllum lögmætum ráðum, sbr. 8. gr. siðareglna lögmanna, og að árangur af störfum hans hafi verið í samræmi við sanngjarnar væntingar aðila.

Varnaraðili bendir á að lögmenn hafi þá skyldu að veita umbjóðendum sínum lögfræðilega ráðgjöf í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og dómafordæmi. Hvíli jafnframt sú skylda á lögmönnum að hvetja ekki umbjóðendur til óþarfs eða kostnaðarsams málarekstur án þess að líkur séu fyrir því að hagsmunir þeirra verði verndaðir.

Um kvörtunarefni sóknaraðila er lýtur að því að varnaraðili hafi fallið frá málsástæðu í máli nr. x-xxx/2020 við aðalmeðferð þess vísar varnaraðili til þess að hann hafi gert sóknaraðila grein fyrir því lögfræðilega mati sínu að ómögulegt væri að verjast því að fasteignin yrði seld bróður hennar. Hafi skiptastjóri þannig tekið lögmæta ákvörðun um sölu viðkomandi fasteignar, sem jafnframt hafi verið metin af löggiltum fasteignasala. Þá hafi tilboð verið gert og það samþykkt af skiptastjóra og meirihluta erfingja á lögmætum skiptafundi í dánarbúinu. Samkvæmt því hafi það verið mat varnaraðila að kauptilboðið væri að fullu skuldbindandi fyrir dánarbúið þrátt fyrir að tafir hefðu orðið á gerð kaupsamnings, sem voru tilboðsgjafa óviðkomandi.

Varnaraðili bendir á að dómari í málinu hafi lagt til að haldið yrði sérstakt þinghald, áður en tímasetning aðalmeðferðar yrði ákveðin. Hafi tilgangur þess verið sá einn að fá sóknaraðila til að mæta í dóminn því dómari hafi talið bæði rétt og skylt að ræða við hana vegna beggja mála. Í því þinghaldi hafi dómari farið vel yfir með sóknaraðila tillögu sem lögð hafi verið fram á skiptafundi af hálfu lögmanns annarra erfingja við skiptin sem dómari hafi jafnframt metið sem góða og sanngjarna lausn fyrir alla. Vísar varnaraðili til þess að þrátt fyrir það hafi sóknaraðili ákveðið að sætta ekki málið á þeim grunni og það jafnvel þótt varnaraðili hafi ráðlagt henni að gera það þar sem engar líkur hefðu verið á að fallist yrði á málatilbúnað hennar í málinu.

Varnaraðili vísar til þess að af þeim sökum hafi aðalmeðferð málsins farið fram en sóknaraðili hafi ekki sinnt fyrirmælum hans um að mæta til hennar og gefa aðilaskýrslu fyrir dómi.

Um kvörtunarefni sóknaraðila er lýtur að því að varnaraðili hafi ekki upplýst sóknaraðila um úrskurði Héraðsdóms í málunum vísar varnaraðili til þess að hann hafi margsinnis reynt að ná í sóknaraðila símleiðis, án árangurs. Sóknaraðila hafi hins vegar bæði verið kunnugt um aðalmeðferð málsins sem og tíma og dagsetningu uppkvaðningar úrskurðar. Séu allar fullyrðingar um annað ekki í samræmi við sannleikann.

Bendir varnaraðili að endingu á að dómari hafi samþykkt kröfu lögmanns gagnaðila um álag á málskostnað í hérði. Er vísað til þess að slíkt tíðkist ekki nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi meginreglu 1. gr. siðareglnanna þar sem kveðið er á um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti og að hann skuli leggja svo til allra mála sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

II.

Svo sem fyrr greinir lýtur kvörtunarefni sóknaraðila annars vegar að ætlaðri vanrækslu varnaraðila í hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila vegna héraðsdómsmálsins nr. x-xxx/20xx. Hafi varnaraðili þannig fallið frá nánar tilgreindri málsástæðu við aðalmeðferð málsins án samráðs eða umboðs frá sóknaraðila. Hafi sú háttsemi leitt til þess að úrskurður hafi fallið sóknaraðila í óhag jafnframt því sem sóknaraðila hafi verið gert að greiða gagnaðilum sínum 500.000 krónur í málskostnað.

Varnaraðili hefur á hinn bóginn andmælt tilgreindum málatilbúnaði og bent á að lögmönnum beri að gefa umbjóðendum sínum hlutlægt álit á réttarstöðu þeirra og að hvetja þá ekki til óþarfs eða kostnaðarsams málareksturs. Kveðst varnaraðili þannig hafa upplýst sóknaraðila um að lögfræðilegt mat hans á málinu nr. x-xxx/20xx væri að ómögulegt væri að verjast því að fasteign viðkomandi dánarbús yrði seld bróður sóknaraðila. Af þeim sökum hafi verið fallið frá viðkomandi málsástæðu við aðalmeðferð málsins sem sóknaraðili hafi kosið að mæta ekki til þrátt fyrir beiðni um það efni frá varnaraðila.

Um þetta efni er þess að gæta að varnaraðili tók að sér hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila í máli nr. x-xxx/20xx í októbermánuði 20xx en það hafði þá þegar verið höfðað. Lá því fyrir ákvörðun sóknaraðila um að láta reyna á ætlaðan rétt sinn í ágreiningsmáli við skipti á dánarbúinu er varnaraðili kom að hagsmunagæslunni og til réttarsambands aðila var stofnað. Ekki verður ráðið af málsgögnum að varnaraðili hafi sérstaklega hvatt sóknaraðila til að falla frá ágreiningsmálinu eða að hann hafi upplýst sóknaraðila um að málsgrundvöllur þar væri verulega veikur. 

Þar sem varnaraðili tók að sér hagsmunagæslu vegna reksturs málsins í þágu sóknaraðila bar honum, í samræmi við lög nr. 77/1998 og siðareglur lögmanna, að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna sóknaraðila í því, þar á meðal að halda fram öllum þeim málsástæðum sem gætu orðið grundvöllur að hagstæðri niðurstöðu fyrir sóknaraðila. Af málsgögnum verður ráðið að varnaraðili hafi fylgt því efni í greinargerð til héraðsdóms þar sem meðal annars var á því byggt að ekki hefði komist á bindandi samningur um fasteignakaup milli gagnaðila sóknaraðila og dánarbúsins. Verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum en að þar hafi verið um að ræða eina af meginmálsástæðum sóknaraðila í málinu gegn kröfum gagnaðila hennar um að gengið yrði til kaupsamnings um viðkomandi fasteign og um skaðabætur þeim til handa.

Ágreiningslaust er að sóknaraðili var ekki viðstödd aðalmeðferð málsins sem fram fór í Héraðsdómi þann x. mars 20xx en við munnlegan flutning málsins féll varnaraðili frá fyrrgreindri málsástæðu fyrir hönd sóknaraðila, svo sem nánar er lýst í málsatvikalýsingu að framan. Með hliðsjón af sakarefni málsins, skyldu lögmanna til að neyta allra lögmætra úrræða í slíkri hagsmunagæslu og því að ekki verður séð að nein réttarfarsleg nauðsyn hafi staðið til þess að fallið yrði frá málsástæðunni við aðalmeðferðina verður að mati nefndarinnar að telja að varnaraðila hefði verið rétt að upplýsa sóknaraðila, sem umbjóðanda sinn, áður um að hann teldi rétt að falla frá málsástæðunni með hliðsjón af atvikum málsins.

Kvörtunarefni sóknaraðila gegn varnaraðila lýtur hins vegar að því að varnaraðili hafi ekki upplýst sóknaraðila um úrskurði í málunum nr. x-xxx/20xx og x-xxxx/20xx fyrr en í tölvubréfi þann 18. maí 2021. Hafi kærufrestir þá verið liðnir sem hafi því útilokað sóknaraðila frá því að krefjast endurskoðunar þeirra fyrir Landsrétti. Varnaraðili hefur hins vegar andmælt tilgreindum málatilbúnaði og byggt á að hann hafi ítrekað og árangurslaust reynt að hringja í sóknaraðila til að tilkynna um niðurstöðu málanna. Þá hafi sóknaraðila verið kunnugt um dagsetningu bæði aðalmeðferða málanna sem og hvenær úrskurðir yrðu kveðnir upp.

Um þetta efni liggur fyrir að úrskurðir í framangreindum málum voru kveðnir upp í héraðsdómi þann x. apríl 20xx, en í báðum tilvikum var fallist á kröfur gagnaðila sóknaraðila jafnframt því sem sóknaraðila var gert að greiða þeim 500.000 krónur í málskostnað í hvoru máli. Varnaraðili hefur engin gögn lagt fyrir nefndina sem fært gætu stoð undir þann málatilbúnað aðilans að hann hafi ítrekað í kjölfarið reynt að hafa samband við sóknaraðila til að tilkynna um niðurstöðu málanna. Þvert á móti verður ráðið af tölvubréfi varnaraðila til sóknaraðila þann 18. maí 2021 að hann hafi þá verið meðvitaður um að sóknaraðili hefði ítrekað reynt að ná í hann vegna málsins enda baðst varnaraðili þar afsökunar á því hve erfitt hefði verið að ná í hann auk þess sem hann upplýsti að hann hefði verið „mjög upptekinn“. Jafnframt því tiltók varnaraðili að honum þætti erfitt að eiga í samskipum við sóknaraðila þar sem hún hefði farið gegn ráðgjöf hans í báðum málunum. Fær málatilbúnaður sóknaraðila, um að hún hafi árangurslaust reynt að ná í varnaraðila vegna málanna og að hún hafi fyrst fengið upplýsingar frá honum um niðurstöðu þeirra þann 18. maí 2021, fullnægjandi stoð í tilgreindu tölvubréfi að mati nefndarinnar.

Líkt og áður greinir hvílir sú skylda á lögmönnum að rækja störf sín af alúð í þágu umbjóðenda sinna og að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna þeirra. Hvílir þannig ótvírætt sú skylda á lögmönnum að upplýsa umbjóðendur sína um niðurstöður dómsmála og um möguleika þeirra á að kæra eða áfrýja þeim til æðri dómstóla. Ekki verður annað ráðið af málsgögnum en að varnaraðili hafi ekkert aðhafst frá því að úrskurðir voru uppkveðnir þann x. apríl 20xx, en ágreiningslaust er að varnaraðili sótti þá dómþing í málunum fyrir hönd sóknaraðila, og þangað til hann svaraði loks erindi sóknaraðila þann 18. maí 2021 og upplýsti um úrskurði héraðsdóms. Hefur varnaraðili ekki veitt viðhlítandi skýringar á aðgerðarleysi sínu að þessu leyti fyrir nefndinni.

Að áliti nefndarinnar var vanræksla varnaraðila að þessu leyti í brýnni andstöðu við 18. gr. laga nr. 77/1998 sem og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna og háttsemin til þess fallin að valda sóknaraðila réttarspjöllum. Er þá til þess að líta að kærufrestur 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einnig 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., var liðinn er varnaraðili sendi fyrrgreint tölvubréf til sóknaraðila þann 18. maí 2021 þar sem upplýst var um úrskurði héraðsdóms í málunum tveimur. Með háttsemi varnaraðila var þannig komið í veg fyrir að sóknaraðili gæti neytt þeirra lögmætu úrræða að kæra úrskurði héraðsdóms í málunum nr. x-xxx/20xx og x-xxx/20xx til Landsréttar. Þá er einnig til þess að líta að lögmönnum ber án ástæðulauss dráttar að svara bréfum og öðrum erindum er þeim berast í lögmannsstörfum, sbr. 41. gr. siðareglnanna.

Af þeim margþætta ágreiningi sem komið hafði upp á milli sóknaraðila og annarra erfingja við skipti á viðkomandi dánarbúi og atvika að öðru leyti mátti varnaraðila vera það ljóst að það varðaði sóknaraðila miklu að fá upplýsingar um framgang málanna tveggja sem rekin voru fyrir héraðsdómi, þar á meðal upplýsingar um niðurstöður þeirra samkvæmt úrskurðum dómsins og um möguleikann á að leita endurskoðunar þeirra fyrir Landsrétti. Þrátt fyrir það verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að varnaraðili hafi látið undir höfuð leggjast með að upplýsa sóknaraðila um þau atriði fyrr en eftir að kærufrestur var liðinn og það jafnvel þótt sóknaraðili hefði ítrekað reynt að ná í varnaraðila vegna málanna. Þá verður heldur ekki ráðið af málsgögnum að varnaraðili hafi sagt sig frá málinu á nokkrum tímapunkti, þótt hann hafi upplýst fyrir nefndinni að hann hafi haft takmarkaða trú á málsgrundvelli sóknaraðila.

Að mati nefndarinnar er sú háttsemi sem varnaraðili viðhafði í lögmannsstörfum sínum í þágu sóknaraðila og hér hefur verið lýst verulega ámælisverð og ósamboðin lögmannastéttinni. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, B, sætir áminningu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Grímur Sigurðsson, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson