Mál 13/2024
Mál 13/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 10. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 13/2024:
A ehf.
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. mars 2024 kvörtun [C], f.h. [A] ehf., gegn [B] lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem fyrrum lögmanns sóknaraðila.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 14. maí 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjali barst nefndinni þann 11. júní 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 7. ágúst 2024 og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 17. september 2024. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar og var málið tekið til úrskurðar.
Málsatvik og málsástæður
[C] er eigandi sóknaraðila og beinir erindi þessu til nefndarinnar fyrir hönd félagsins. [A] ehf. hét áður [...] ehf., hér eftir [...] ehf., og var stofnað af [...], afa [C]. [...] átti félagið til ársins 1999 en það ár eignuðust börn hans fjögur, [...], [...], [...] og [...], móðir [C], félagið og átti hvert um sig 25% eignarhlut í því. Systkinin sátu jafnframt öll í stjórn félagsins en [...] sá um daglegan rekstur þess.
[...] ehf. var á tímabili eitt stærsta fjárfestingafélag landsins og að sögn sóknaraðila nam eigið fé félagsins vel á annan tug milljarða króna í árslok 2006. Stærstu eignir félagsins voru geymdar í dótturfélögunum [...]og [...]ehf. þar sem [...] var framkvæmdastjóri og einn prókúruhafi og svo dótturdótturfélögunum [...]ehf. og [...] ehf. og var [...] einnig eini prókúruhafi þeirra félaga. Stærsta eign [...] ehf. var 47% hlutur félagsins í [...] hf., hér eftir [...], og var [...] stjórnarformaður félagsins í umboði stjórnar [...] ehf. [...] var einn stærsti hluthafi í [...] sem á þessum tíma var stærsti einstaki hluthafi í [...] hf., hér eftir [...], sem og einn stærsti hluthafi í […].
Þann 8. janúar 2008 tók [...] yfir stjórnun [...] og undirritaði [...] yfirtökusamninginn f.h. [...]. Síðar sama ár var nafni [...] ehf. breytt í [A] ehf. og þann 13. ágúst 2008 afsöluðu hluthafarnir fjórir allri hlutafjáreign sinni í [A] ehf. til [...]. Umsamið verð fyrir hlut hvers þeirra var ein króna. [C] keypti [A] ehf. af [...] ehf. á haustmánuðum árið 2016.
Varnaraðili veitti [...] ehf. lögmannsþjónustu í einstaka verkefnum frá stofnun félagsins. Hann gætti hagsmuna félagsins og hluthafa þess í tengslum við yfirtöku [...] á félaginu á árinu 2008. Störfum hans félagið lauk þann 13. ágúst en vinnu fyrir hluthafana í september sama ár. Varnaraðili var lögmaður hluthafanna […], […] og [...] fram í nóvember árið 2014. Eftir það sinnti hann lögmannsþjónustu fyrir [...] fram að andláti hans og frá þeim tíma hefur hann gætt hagsmuna ekkju hans, [...].
Sóknaraðili rekur mál nr. […] í Landsrétti, áður héraðsdómsmál nr. E-[…], gegn [...], ekkju [...] sem situr í óskiptu búi þeirra, vegna dánarbús [...], og [...] fyrrum forstjóra [...].
Sóknaraðili rekur einnig mál nr. […] í Landsrétti, áður héraðsdómsmál nr. E-[…], gegn […], fyrrum viðskiptastjóra félagsins innan [...], […] og […] ehf., fyrrum endurskoðanda félagsins, […] vegna [...] og [...] ehf. til réttargæslu.
Varnaraðili gætir hagsmuna [...] í framangreindum málum.
I.
Frá kaupum [C] á sóknaraðila kveðst hann hafa unnið að skoðun og greiningu á fjármálum og rekstri félagsins á árunum 2004-2008. Hefur hann beint fjölda fyrirspurna til varnaraðila, sem fyrrum lögmanns sóknaraðila, um upplýsingar og gögn um málefni félagsins á þessum tíma.
Kvörtun sóknaraðila sem er umfjöllunarefni máls þessa lýtur að því að varnaraðili hafi ekki svarað erindi fyrirsvarsmanns sóknaraðila, dags. 13. desember 2023. Í erindinu var í þremur liðum farið fram á að varnaraðili veitti tilteknar upplýsingar og í einum lið farið fram á afhendingu tilgreindra gagna.
- Í fyrsta lagi var óskað eftir upplýsingum um á hvaða gögnum varnaraðili hefði byggt við gerð samantektar varnaraðila á stöðu eigna og skulda [...] ehf. sem hann sendi þáverandi fyrirsvarsmanni félagsins þann 1. ágúst 2008. Umrædd samantekt liggur fyrir í málinu.
- Í öðru lagi var óskað eftir upplýsingum um hvaða gögn og skýringar varnaraðili hafi sett fram við slitastjórn [...] sem leitt hafi til þess að skaðabótamál gegn [...] , fyrrum fyrirsvarsmanni [...] ehf. og fulltrúa félagsins í stjórn [...], hafi verið felld niður með samkomulagi, dags. 4. september 2013, undirrituðu af varnaraðila f.h. [...] , sem liggur fyrir í málinu.
- Í þriðja lagi var óskað eftir upplýsingum um hvaða starfsmanni [...] varnaraðili sendi drög að samkomulagi um yfirtöku bankans á [...] ehf., sem hann vísaði til í tölvupósti til hluthafa í félaginu 12. ágúst 2008, sem liggur fyrir í málinu.
- Í fjórða lagi var óskað eftir afriti reikninga og tímaskýrslna að baki reikningum varnaraðila í málum E-[…] og E-[…] sem voru grundvöllur kröfu varnaraðila f.h. umbjóðanda síns um að sóknaraðila yrði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu í málunum.
Sóknaraðili kveðst telja sig eiga rétt á að fá umbeðnar upplýsingar frá varnaraðila og segir upplýsingarnar hafa verulega þýðingu fyrir málarekstur sóknaraðila fyrir dómstólum og rannsóknir fyrirsvarsmanns félagsins á rekstri þess á þeim tíma sem fyrirspurnin tekur til.
II.
Varnaraðili gerir athugasemdir við málsatvikalýsingu sóknaraðila og krefst frávísunar á sérhverjum lið kvörtunarinnar enda sé ekki vikið að því í kvörtun til hvers sé ætlast að nefndinni og hvorki vísað til laga eða siðareglna lögmanna. Til vara mótmælir varnaraðili því að hafa gerst brotlegur við ákvæði laga eða siðareglna lögmanna.
- Hvað varðar fyrsta lið fyrirspurnar sóknaraðila kveðst varnaraðili hafa tekið saman yfirlit um eignir [...] ehf. og lagt fyrir stjórn félagsins sem hafi samþykkt hana athugasemdalaust. Samantektin hafi verið unnin í tengslum við undirbúning að samkomulagi hluthafanna um yfirtöku [...] á félaginu og kynnt bankanum í því skyni að fá hann til þess að fallast á samningsgerðina. Varnaraðili hafi undirbúið samningsgerðina með þeim sem hafi annast daglega stjórn félagsins og endurskoðanda þess. Varnaraðili bendir á að stjórnarmenn [...] ehf. hafi borið ábyrgð á uppfærslu bókhalds félagsins og varðveislu eigna þess og að allir hluthafar í félaginu hafi setið í stjórn þess. Fyrirspurn fyrirsvarsmanns sóknaraðila varði atriði sem þáverandi stjórn félagsins hafi borið að gæta á sínum tíma. Varnaraðili kveðst ekki munu verða við áskorun sóknaraðila um að upplýsa um þau atriði sem fyrirspurn sóknaraðila lýtur að eða framvísa gögnum um önnur. Að mati varnaraðila falli ekkert í málatilbúnaði sóknaraðila undir verksvið úrskurðarnefndar lögmanna heldur freisti sóknaraðili þess að fá úrskurðarnefndina til þátttöku í gagnaöflun hans í yfirstandandi dómsmálum. Þá séu heldur ekki nokkrir lögvarðir hagsmunir í húfi.
- Varnaraðili telur vangaveltur af því tagi sem annar liður fyrirspurnar sóknaraðila varðar ekkert erindi eiga til úrskurðarnefndar lögmanna. Hann geti ekki fullyrt um ástæður þess að slitastjórn [...] hafi afturkallað þingfestar stefnur á hendur fyrrum fyrirsvarsmanni [...] ehf.
- Varnaraðili kveðst ekki eiga til tölvupóst sem beri með sér að hann hafi sent [...] umrætt skjal í tölvupósti. Hann hafi á þessum tíma verið í sambandi við starfsmenn bankans út af ýmsum málum og þau ekki öll farið fram í gegnum tölvupósta. Varnaraðili segist ekki muna hverjum hann afhenti drög að umræddum samningi og telur álitaefni þetta falla utan verksviðs úrskurðarnefndar lögmanna enda komi fram í erindi sóknaraðila að hann sé að leita aðstoðar nefndarinnar við gagnaöflun í yfirstandandi og jafnvel fyrirhuguðum dómsmálum.
- Varnaraðili neitar að afhenda sóknaraðila afrit reikninga og tímaskýrsla vegna dæmds málskostnaðar í málum sem sóknaraðili hafi efnt til á hendur umbjóðanda varnaraðila.
III.
Í viðbótargreinargerð sinni gerði sóknaraðili nánari grein fyrir málsatvikum og mótmælti athugasemdum varnaraðila við málavaxtalýsingu sóknaraðila í kvörtun í málinu. Sóknaraðili ítrekar að hann telji sig eiga rétt á að fá umbeðnar upplýsingar og gögn frá varnaraðila. Hvað varði fyrsta lið erindisins liggi fyrir að varnaraðili hafi tekið saman bókhaldsupplýsingar í starfi sínu sem lögmaður sóknaraðila, ásamt endurskoðanda félagsins og þess sem sá um daglegan rekstur þess. Hvað annan lið erindisins varðar kveðst sóknaraðili telja sig eiga skýlausan rétt á að fá umræddar upplýsingar enda hafi [...] setið í stjórn [...] í umboði sóknaraðila. Varðandi þriðja lið erindisins kveðst sóknaraðili telja fráleitt að varnaraðili muni ekki hvaða starfsmanni [...] hann af henti drög að samkomulagi bankans og hluthafa í [...] ehf. og telur ljóst að varnaraðili hafi umbeðnar upplýsingar. Loks leiðrétti sóknaraðili að þeir reikningar og tímaskýrslur sem farið var fram á að varnaraðili afhenti séu vegna dæmds málskostnaðar í umræddum málum en ekki vegna kröfu um málskostnaðartryggingu.
IV.
Varnaraðili áréttaði í viðbótargreinargerð sinni að hann teldi enga lögvarða hagsmuni geta réttlætt málatilbúnað sóknaraðila. Hann hefði aldrei komið nálægt neinu sem tengdist bókhaldi sóknaraðila, hann geti ekki svarað því hvers vegna [...] hafi fellt niður dómsmál sem spurt sé um öðrum lið fyrirspurnarinnar og eigi ekki til þær upplýsingar sem spurt sé um í þriðja lið hennar. Varnaraðili vísaði til greinargerðar sinnar og ítrekaði gerðar kröfur.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.
II.
Varnaraðili fór fram á frávísun sérhvers liðar í erindi sóknaraðila á þeim forsendum að efni hennar félli utan valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna. Þá væri enda sé ekki vikið að því í kvörtun til hvers sé ætlast að nefndinni og hvorki vísað til laga eða siðareglna lögmanna. Að mati nefndarinnar er kvörtun nægilega skýr hvað þau umkvörtunarefni varðar sem þar eru sett fram. Þannig telur nefndin ljóst að kvartað sé yfir þeirri háttsemi varnaraðila að hafa ekki svarað spurningum sóknaraðila og afhent gögn eins og óskað var eftir í bréfi fyrirsvarsmanns sóknaraðila til varnaraðila, dags. 13. desember 2023. Jafnframt telur hún ljóst að sóknaraðili telji varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttseminni. Liggur því fyrir að mati nefndarinnar að kvörtun sé reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í málsmeðferðarreglum úrskurðarnefndar er ekki kveðið á um skyldu sóknaraðila til þess að vísa til viðeigandi ákvæða laga eða siðareglna lögmanna í erindi til nefndarinnar. Í 22. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar segir að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi um erindrekstur fyrir nefndinni að öðru leyti en því sem reglurnar kveða á um. Að mati nefndarinnar er erindi sóknaraðila nægilega skýrt til þess að nefndin geti tekið það til efnismeðferðar og er kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá nefndinni hafnað.
III.
Í 41. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldu lögmanns til þess að svara bréfum og öðrum erindum er honum berast án ástæðulauss dráttar. Í orðalagi ákvæðisins felst að það eru erindi bréfanna sem krefjast svars, fremur en bréfin sjálf. Af því leiðir að mat á því hvort lögmaður hafi gert á hlut einhvers með því að svara ekki bréfi frá honum, felst í því að kanna hvort í bréfinu hafi verið sett fram erindi sem er þess eðlis að það krefjist þess að því sé svarað.
i.
Sóknaraðili fór fram á að varnaraðili upplýsti um á hvaða gögnum varnaraðili hefði byggt við gerð samantektar varnaraðila á stöðu eigna og skulda [...] ehf. sem hann sendi þáverandi fyrirsvarsmanni félagsins þann 1. ágúst 2008, í tengslum við samningsgerð hluthafa þess við [...]. Undir rekstri máls þessa upplýsti varnaraðili að hann hefði undirbúið samningsgerðina með þeim sem önnuðust daglega stjórn félagsins og endurskoðanda þess og tekið saman yfirlit um fjárhagsstöðuna. Óumdeilt sé að hann hafi tekið saman upplýsingar í starfi sínu sem lögmaður félagsins um fjárhagsleg málefni þess. Hann hafi hins vegar aldrei komið nálægt neinu sem tengist bókhaldi félagsins en færsla þess og varðveisla hafi, eftir því sem hann best viti, verið hjá endurskoðunarfyrirtækinu […]. Varnaraðili hafi ekki séð bókhaldsfylgiskjöl [...] ehf. og dótturfélaga þess, hvorki fyrir eða eftir að [...] eignaðist félagið. Er þetta í samræmi við framburð varnaraðila varðandi sömu og tengd atvik við í skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. september 2021 og í Héraðsdómi Reykjaness 7. júní 2022. Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili svarað erindi sóknaraðila hvað þetta atriði varðar með fullnægjandi hætti og telst varnaraðili ekki hafa brotið gegn siðareglum lögmanna eða lögum að þessu leyti.
ii.
Sóknaraðili fór fram á að fá upplýsingar um hvaða gögn og skýringar varnaraðili hefði sett fram við slitastjórn [...] banka í tengslum við samkomulag um niðurfellinga dómsmála sem slitastjórnin hafði höfðað á hendur [...] . Umrætt samkomulag ber með sér að hafa verið undirritað af varnaraðila f.h. [...] þann 4. september 2013 og að sóknaraðili hafi ekki átt aðild að því. Hagsmunagæslu varnaraðila fyrir sóknaraðila lauk á árinu 2008 og varðar fyrirspurn sóknaraðila því atvik sem gerðust 5 árum eftir að hagsmunagæslu varnaraðila fyrir félagið lauk en á þeim tíma gætti varnaraðili enn hagsmuna [...] . Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot á siðareglum lögmanna hvað þetta varðar.
iii.
Fyrirspurn sóknaraðila lýtur í þriðja lagi að því hvaða starfsmanni [...] banka varnaraðili hafi afhent drög sem urðu að samkomulagi hluthafa í [...] ehf. um yfirtöku félagsins á árinu 2008. Fyrirspurn sóknaraðila varðar atvik sem áttu sér stað fyrir 16 árum. Undir rekstri málsins fyrir nefndinni svaraði varnaraðili því til að hann myndi ekki hvaða starfsmanni bankans hann hefði afhent umrædd samningsdrög og ætti ekki tölvupóst sem bæri með sér hann hafi sent skjalið í tölvupósti. Að mati nefndarinnar felst í því svari varnaraðila að hann geti ekki veit umbeðnar upplýsingar af fyrrnefndum ástæðum. Telst varnaraðili ekki hafa gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot á siðareglum lögmanna hvað þetta varðar.
iv.
Sóknaraðili fór fram á að varnaraðili framvísaði reikningum og tímaskýrslu dæmds málskostnaðar í héraðsdómsmálum E-[…] og E-[…]. Lögmanni ber ekki að senda gagnaðila reikning og/eða tímaskýrslu vegna dæmds málskostnaðar. Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot á siðareglum lögmanna eða lögum hvað þetta varðar.
IV.
Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna getur nefndin krafið aðila um frekari gögn eða aflað þeirra. Heimild þessi gerir nefndinni kleift að kalla eftir þeim gögnum sem nauðsynleg eru til að leysa úr ágreiningi sem fyrir hana hefur verið lagður, sem aðilar hafa látið hjá líða að leggja fram. Þessi heimild nær ekki til gagna sem aðili að ágreiningsmáli vill fá afhent úr hendi gagnaðila, ef um er að ræða gögn sem ekki hafa beina þýðingu við úrlausn þess ágreinings sem liggur fyrir nefndinni. Málatilbúnaður sóknaraðila ber þess merki að vera að hluta til ætlað að knýja á um afhendingu gagna og upplýsinga úr hendi varnaraðila til notkunar á öðrum vettvangi en fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Rétt er að taka fram af þessu tilefni að úrskurðarnefnd lögmanna er ekki verkfæri til gagna- og/eða upplýsingaöflunar aðila í tengslum við mál sem eru til úrlausnar fyrir dómstólum eða á öðrum vettvangi. Þá eru kvartanir til nefndarinnar ekki vettvangur til þess að koma á framfæri áskorunum til lögmanna um að veita upplýsingar eða afhenda gögn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu varnaraðila, [B] lögmanns, um frávísun málsins frá nefndinni, í heild eða að hluta, er hafnað.
Varnaraðili, [B], hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, [A] ehf., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir