Mál 14/2024
Mál 14/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 10. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 14/2024:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 16. apríl 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 8. maí 2024 ásamt fylgiskjölum. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni þann 11. maí 2024 og með tölvupósti 4. júní 2024 upplýsti varnaraðili að hún teldi ekki tilefni til frekari athugasemda af sinni hálfu. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns til meðferðar málsins og kom varamaður í hans stað.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðili kveðst hafa leitað til varnaraðila og falið henni að skrifa bréf til embættis landlæknis. Málið hafi ekki átt að taka nema nokkrar vikur en eftir fimm mánuði hafi sóknaraðili sagt varnaraðila upp störfum. Sóknaraðili kveðst telja að varnaraðili hafi ekki gætt hagsmuna hans í málinu heldur hagsmuna embættis landlæknis, auk þess sem málið hafi tekið allt of langan tíma. Sóknaraðili kveðst vilja fá formlegt svar frá embætti landlæknis í máli sínu.
Í málinu liggur fyrir undirritaður verksamningur, dags. 1. nóvember 2023, þar sem sóknaraðili felur varnaraðila að gæta hagsmuna sinna gagnvart embætti Landlæknis vegna vinnubragða og upplýsingagjafar vinnuveitanda hans í tengslum við bólusetningu. Fram kemur að verkið verði unnið af varnaraðila og sé í fyrstu bundið við að rita embættinu bréf og krefjast þess að fá formlegt svar ásamt rökstuðningi við erindi sem sóknaraðili hafði sent embættinu. Í verksamningnum kemur fram að samkvæmt gjaldskrá varnaraðila sé tímagjald hennar 22.500 kr. auk virðisaukaskatts. Þá kemur fram að sóknaraðila hafi verið gerð grein fyrir því að símtöl og tölvupóstsamskipti teljist til vinnu varnaraðila og að lágmarksfjöldi tímaeininga fyrir einstök verk séu 15 mínútur.
Varnaraðili gerir þá kröfu að úrskurðarnefnd staðfesti að hún hafi í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðili segir að áformað hafi verið að vinna hennar í þágu sóknaraðila tæki þrjár vinnustundir, sem sóknaraðila hafi í upphafi þótt vel í lagt. Hins vegar hafi eðli og umfang verksins orðið töluvert annað en varnaraðila hafi getað órað fyrir í upphafi og vísar sóknaraðili til fyrirliggjandi gagna málsins hvað þetta varðar. Gögnin séu nokkur að umgangi, einkum í ljósi þess verkefnis sem sóknaraðili geri athugasemd við að ekki hafi verið lokið.
Varnaraðili leggur fram afrit af bréfi sem hún ritaði embætti landlæknis f.h. sóknaraðila. Bréfið hafi hún ritað samkvæmt bestu vitund og sent sóknaraðila til yfirferðar í febrúar. Rétt sé að ritun bréfsins hafi tekið meira en þrjár klukkustundir, nær láti að hún hafi tekið á þriðja tug klukkustunda, og það hafi verið vegna atvika sem varði sóknaraðila sjálfan. Þannig hafi beiðni sóknaraðila fljótlega tekið þeim breytingum að lúta ekki að því að eitt bréf yrði ritað. Málavextirnir hafi vaxið, nýjum spurningum verið varpað til varnaraðila auk hugleiðinga sem sóknaraðili hafi óskað svara við. Varnaraðili kveðst hafa lagt sig fram við að mæta þörfum sóknaraðila, vera honum til halds og trausts og finna flöt á þeim vandamálum sem hann bar undir hana.
Varnaraðili telur sig hafa uppfyllt upphaflegt samkomulag að fullu og meira til og gert allt það sem sóknaraðili óskaði eftir. Hún hafi staðið við sinn hluta og reikningsfært þrjár klukkustundir. Bréfið liggi fyrir og það hafi verið undir sóknaraðila einum komið hvort tækist að ljúka verkinu eða ekki en ekki hafi lánast að senda út bréf til embættis landlæknis sem hafi verið sóknaraðila þóknanlegt og hann afþakkað frekara vinnuframlag úr hendi varnaraðila áður en til þess kom. Varnaraðili kveðst sér hafa orðið ljóst of seint að allt hafi bent til þess að aldrei hefði verið hægt að ljúka umbeðnu verki svo sóknaraðili myndi vel við una. Þaðan af síður á þremur klukkustundum.
Eins og öllum atvikum sé háttað finni varnaraðili sig knúna til þess að krefjast málskostnaðar vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, sbr. 28. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.
III.
Í viðbótargreinargerð sinni ítrekaði sóknaraðili að hann teldi varnaraðila ekki hafa gætt hagsmuna sinna í málinu auk þess sem hann fjallaði um óánægju sína með vinnubrögð embættis landlæknis.
IV.
Varnaraðili taldi ekki tilefni til frekari athugasemda af sinni hálfu, vísaði til greinargerðar sinnar og ítrekaði kröfu um málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni, að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.
Í 2. mgr. sömu greinar er lögmanni heimilt á öllum stigum að segja sig frá verki. Aldrei má þó lögmaður segja sig frá verki, án þess að skjólstæðingur fái svigrúm til að afstýra réttarspjöllum og ráða sér annan lögmann.
II.
Sóknaraðili gerir þá kröfu að fá formlegt svar frá embætti landlæknis í máli sínu. Slík krafa fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna og er vísað frá nefndinni af þeim sökum.
III.
Gögn málsins bera með sér að aðilar hafi verið í samskiptum með tölvupósti og í síma í frá nóvember 2023 til febrúar 2024 vegna máls sóknaraðila. Varnaraðili upplýsti sóknaraðila að bréf til embættis landlæknis yrði sent í byrjun febrúar en þann 13. febrúar 2024 tjáði hún honum að málið hafi tafist vegna anna. Þann 19. febrúar óskaði varnaraðili eftir frekari upplýsingum frá sóknaraðila sem henni bárust samdægurs og síðar sama dag sendi hún sóknaraðila bréfið til yfirlestrar. Sóknaraðili bað varnaraðila að bíða með að senda bréfið og tjáði hún honum að hún myndi bíða eftir athugasemdum hans og aðalatriðið væri að allt væri rétt og hann sáttur.
Dagana 20.-28. febrúar voru aðilar í tölvupóstssamskiptum og sendi sóknaraðili breytingar sem hann vildi að yrðu gerðar á bréfinu. Þann 26. mars sl. spurðist sóknaraðili fyrir um stöðuna á bréfinu og daginn eftir sagði hann varnaraðila upp störfum og kvaðst telja málið hafa tekið of langan tíma og hana ekki hafa staðið við verksamning sem þau gerðu með sér í upphafi. Í svari varnaraðila 27. mars sl. kvaðst hún hafa talið bréfið nær tilbúið er hún sendi honum það til yfirlestrar 19. febrúar og hafi fyrir löngu ætlað að vera búin að senda honum uppfærð drög að bréfinu en fallist aðeins hendur þegar henni bárust athugasemdir sóknaraðila. Bauðst hún til að senda varnaraðila uppfærð drög að bréfinu til yfirlestrar strax eftir páska en ef hann óskaði þess myndi hún láta staðar numið og loka málinu. Ekki virðist hafa verið um frekari samskipti að ræða á milli aðila frá 27. mars sl. en kvörtun í máli þessu barst nefndinni þann 31. mars.
Með hliðsjón af gögnum málsins má ljóst vera að það verk sem sóknaraðili fól varnaraðila í upphafi hafi verið skýrlega afmarkað, enda hljóðaði tilboð varnaraðila upp á að hún myndi einungis gera sóknaraðila reikning fyrir þremur vinnustundum vegna þess. Ljóst er af umfangi gagna málsins og samskiptum aðila sem liggja fyrir í málinu að vinna varnaraðila í þágu sóknaraðila hafi verið umtalsvert meiri en fyrirséð var í upphafi auk þess sem sóknaraðili hafi beint ýmsum fyrirspurnum til varnaraðila, sem ekki vörðuðu beint efni bréfsins sem varnaraðila var falið að rita. Þrátt fyrir það liggur fyrir að sóknaraðili krafði varnaraðila einungis um greiðslu vegna þriggja vinnustunda, eins og samið hafði verið um í upphafi vegna þess verks sem greinir í verksamningi, auk einnar vinnustundir vegna fundar þeirra í upphafi málsins.
Varnaraðila mátti vera ljóst að sóknaraðili legði áherslu á að verkið yrði unnið hratt. Hins vegar varð henni ljóst undir rekstri málsins að sóknaraðila væri einnig mikið í mun að verkið væri unnið í nánu samráði við hann og tekið væri tillit til athugasemda hans áður en bréfið yrði sent embætti landlæknis auk þess að hann beindi til varnaraðila fyrirspurnum sem ekki vörðuðu beint efni bréfsins. Að mati nefndarinnar lagði varnaraðili sig mjög fram um að verða við óskum sóknaraðila að þessu leyti, þrátt fyrir að það hafi þýtt, sbr. framangreint, að vinnustundir vegna málsins yrðu umtalsvert fleiri en áætlað var í upphafi og að verkið tæki lengri tíma. Vógust þar á hagsmunir varnaraðila af því að málið gengi hratt fyrir sig og hagsmunir hans af því að tekið yrði tillit til allra athugasemda hans áður en bréfið væri sent og að fá svör við fyrirspurnum sem ekki vörðuðu beint efni bréfsins.
Fyrir liggur að varnaraðili ritaði drög að bréfi f.h. sóknaraðila til embættis landlæknis og sendi honum til yfirlestrar 19. febrúar sl. og gerði honum reikning fyrir þriggja klukkustunda vinnu eins og samið hafði verið um. Í kjölfarið sendi sóknaraðili varnaraðila athugasemdir við bréfið og hugðist hún uppfæra bréfið m.t.t. þeirra. Fjórar vikur liðu frá því að síðustu athugasemdir sóknaraðila við drög að bréfi til embættis landlæknis bárust varnaraðila þar til sóknaraðili spurðist fyrir um stöðu verksins og afþakkaði í kjölfarið frekari þjónustu úr hendi varnaraðila. Eftir að sóknaraðili tjáði varnaraðila um óánægju sína með gang málsins og batt enda á samstarf þeirra, bauðst hún til þess að uppfæra bréf til embættis landlæknis m.t.t. athugasemda sóknaraðila og senda honum til yfirlestrar áður en hún sendi það til embættisins, en gögn málsins bera ekki með sér að sóknaraðili hafi svarað því boði.
Að mati nefndarinnar gerði varnaraðili sér far um að gæta hagsmuna sóknaraðila eins vel og unnt var í ljósi aðstæðna. Heppilegra hefði verið að varnaraðili upplýsti sóknaraðila um að tafir yrðu á verkinu á því fjögurra vikna tímabili sem leið án þess að hún hefði tök á að endurbæta drög að bréfi til embættis landlæknis, sbr. 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna. Í ljósi aðstæðna telur nefndin þá töf sem varð á verkinu þó ekki fela í sér að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ekkert bendir til þess að varnaraðili haft hagsmuni annarra en sóknaraðila sjálfs að leiðarljósi í störfum sínum fyrir hann. Eins og málum var háttað og í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir nefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu sóknaraðila, [A], um að hann fái formlegt svar frá embætti landlæknis er vísað frá nefndinni.
Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Hulda Katrín Stefánsdóttir, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir