Mál 17 2024

Mál 17/2024

Ár 2024, fimmtudaginn 5. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2024:

A hf.

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 8. apríl 2024 kvörtun C, sem situr í skilanefnd sóknaraðila A hf., f.h. skilanefndarinnar, gegn varnaraðila, B lögmanni.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 16. apríl 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefnd­­inni þann 29. apríl sl. ásamt fylgiskjölum. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefnd­­inni ásamt gögnum þann 3. júní 2024 og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 13. júní sl. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnafram­lagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Varnaraðili lýsti kröfu í bú sóknaraðila f.h. erlends kröfuhafa þann 19. apríl 2023 og mætti á fund með lánardrottnum og kröfuhöfum sóknaraðila þann 25. apríl s.á. Á fundinum andmælti varnar­aðili f.h. kröfuhafans afstöðu skilanefndar til viðurkenningar á kröfu annars kröfuhafa í bú sóknar­aðila. Kröfu umbjóðanda varnaraðila var hafnað af skilanefnd sóknaraðila og sendi skilanefndin beiðni til Héraðsdóms Reykja­víkur þann 2. maí 2023 um að leyst yrði úr ágreiningi um kröfuna, sbr. 3. mgr. 113. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og var varnaraðili tilgreindur sem lögmaður kröfuhafans.

Til stóð að þingfesta ágreiningsmálið þann 21. júní 2023 en með tölvupósti kl. 13:50 þann 20. júní óskaði varnaraðili eftir frestun þingfestingar málsins. Vísaði hann þar til samtala sem hann hafði átt við dómritara sama dag og daginn áður. Lögmaður sóknaraðila mótmælti frestun þingfestingar málsins með tölvupósti kl. 14:13 sama dag og óskaði eftir því að aðilar yrðu boðaðir til þingfestingar þann 21. júní eins og ráðgert hefði verið. Í framhaldi þess eða kl. 14:23 boðaði Héraðs­dómur aðila til þingfestingar málsins daginn eftir og var lögmaður sóknaraðila boðaður f.h. hans og varnaraðili f.h. kröfuhafans. Með tölvupósti kl. 17:02 þann 20. júní upplýsti varnaraðili að hann færi ekki með hagsmuni umrædds kröfuhafa í málinu. Hann hafi eingöngu verið fenginn til þess að fylla út kröfulýsingu og mæta á kröfuhafafund f.h. hins erlenda kröfuhafa en gætti ekki hagsmuna hans að öðru leyti. Starfsmaður héraðsdóms innti varnaraðila eftir upplýsingum um hvaða lögmaður gætti hagsmuna kröfuhafans og sagðist varnaraðili ekki geta upplýst um það. Í kjölfarið tilkynnti Héraðs­dómur Reykjavíkur varnaraðila og lögmanni sóknaraðila með tölvupósti kl. 19:15 að ekki hafi tekist að boða til þinghalds með fullnægjandi hætti og því yrði ekki af þingfestingu málsins daginn eftir.

Sóknaraðili telur varnaraðila hafa gerst brotlegan við ákvæði 20., 23. og 25. gr. siðareglna lögmanna. Hann hafi lýst kröfu í bú sóknaraðila f.h. umrædds kröfuhafa, lagt fram mótmæli við kröfu annars kröfuhafa f.h. umbjóðanda síns og átt samtöl við Héraðsdóm Reykjavíkur í tengslum við ágreinings­málið sem lögmaður kröfuhafans. Því sé ljóst að á tímabilinu 19. apríl 2023 – 20. júní sama ár hafi varnaraðili farið með hagsmuni kröfuhafans. Hann hafi því ranglega haldið því fram í tölvupósti þann 20. júní að hagsmunagæsla hans hafi takmarkast við kröfulýsingu og mætingu á kröfuhafafund 25. apríl 2023 enda hafi hann verið í samskiptum við dómstólinn í tengslum við ágreiningsmál um kröfu umbjóðanda hans og m.a. óskað eftir frestun þingfestingar málsins fyrir hönd umbjóðandans.

Sóknaraðili kveðst telja að varnaraðili hafi vísvitandi sett á svið leikþátt í því skyni að reyna að komast hjá þingfestingu málsins rétt fyrir réttarhlé og með því gengið um réttarfar, hagsmunagæslu lögmanna og hagsmuni gagnaðila sinna af léttúð.

Brot varnaraðila gegn 20. gr. siðareglna lögmanna telur sóknaraðili felast í því að varnaraðili hafi sagt hagsmunagæslu sinni fyrir umbjóðanda sinni hafa lokið eftir kröfuhafafund þann 25. apríl en hann hafi samt sem áður viðhaldið þeim skilningi, hjá lögmanni sóknaraðila og Héraðsdómi Reykjavíkur að hann færi enn með hagsmunagæslu umbjóðandans allt fram að þingfestingu málsins. Þá hafi hann loks upplýst, 16 klukkustundum fyrir áætlaða þingfestingu málsins að hann færi ekki með hagsmuni kröfuhafans.

Þá telur sóknaraðili þá háttsemi varnaraðila að tilkynna héraðsdómi ekki strax um að hann færi ekki með hagsmunagæslu kröfuhafans, fela í sér brot á 2. mgr. 23. gr. siðareglna lögmanna. Varnaraðili hafi þess í stað tekið þátt í samskiptum fyrir hönd kröfuhafans og óskað eftir frestun á þingfestingu málsins fyrir hans hönd þrátt fyrir að hafa ekki haft fyrirsvar fyrir kröfuhafann. Varnaraðili hafi beðið með að upplýsa um það þar til eftir lokun afgreiðslu Héraðsdóms Reykjavíkur, einum degi fyrir þingfestingu málsins. Þá hafi hann ekki upplýst um hvaða lögmaður færi með hagsmuni kröfu­hafans sem hafi leitt til þess að ómögulegt hafi verið að boða til þingfestingar í málinu sem hafi frestast fyrir vikið.

Loks telur sóknaraðili varnaraðila hafa brotið gegn 25. gr. siðareglna lögmanna enda hafi hann með háttsemi sinni sýnt lögmanni sóknaraðila mikla ótillitssemi. Hann hafi reynt að koma í veg fyrir að málið yrði þingfest fyrir réttarhlé og þannig tefja málið um nokkra mánuði. Í því hafi falist lítil virðing við störf lögmanns sóknaraðila. Sóknaraðili telur vinnubrögð og háttsemi varnaraðila óforskömmuð og telur varnaraðila hafa beitt blekkingum og kænskubrögðum sem sé ólíðandi.

[…] lögmaður ritar greinargerð varnaraðila til nefndarinnar. Varnaraðili krefst frávísunar málsins frá nefndinni á þeim grundvelli að sóknaraðili, sem hvorki sé lögmaður né dómstóll, geti ekki átt aðild að máli þar sem kvartað sé vegna brota á ákvæðum siðareglna lögmanna er lúta að samskiptum lögmanna innbyrðis annars vegar og samskiptum lögmanna og dómstóla hins vegar.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað á grundvelli aðildarskorts. Varnaraðili starfi sem fulltrúi á lögmannsstofu á grundvelli undanþágu skv. 2. tl. 2. mgr. 12. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og vinni í umboði eigenda lögmannsstofunnar og á grundvelli fyrirmæla þeirra hverju sinni. Í því máli sem kvörtun er sprottin af hafi varnaraðili starfað í umboði þess lögmanns sem ritar greinargerðina og samkvæmt fyrirmælum hans og því beinist kvörtunin að röngum aðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og byggir á því að háttsemi hans hafi hvorki verið í bága við lög um lögmenn né siðareglur lögmanna. Lögmaður sá er riti greinargerð f.h. varnaraðila, og varnaraðili í umboði hans, hafi farið með hagsmunagæslu kröfuhafans gagnvart sóknaraðila, allt til kl. 17:01 þann 20. júní 2023. Þá hafi varnaraðili, í umboði vinnuveitanda síns, tilkynnt kröfuhafanum að þeir segðu sig frá málefnum hans. Einni mínútu síðar hafi héraðsdómi verið tilkynnt að varnaraðili færi ekki lengur með hagsmunagæslu kröfuhafans. Því sé rangt að hagsmunagæslunni hafi lokið eftir kröfuhafafund þann 25. apríl eins og haldið sé fram af hálfu sóknaraðila.

Enn fremur sé rangt að varnaraðili hafi ekki tilkynnt dómstólnum strax um að hagsmunagæslu fyrir kröfu­hafann væri lokið enda hafi það verið gert einni mínútu eftir að henni lauk. Þegar fyrri samskipti við dómstólinn hafi farið fram hafi hagsmunagæslan hins vegar enn staðið yfir.

Varnaraðili rakti aðdraganda að endalokum hagsmunagæslunnar og vísar til framlagðra gagna. Þar sem ekki hafi borist skýr svör frá kröfuhafanum um hvernig kosta ætti málarekstur ágreinings­málsins hafi lögmönnunum verið nauðugur sá kostur að segja sig frá málinu. Varnaraðili vísar til 2. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið er á um að lögmanni sé heimilt að segja sig frá verki á öllum stigum en slíkt megi ekki valda skjólstæðingi hans réttarspjöllum. Athafnir varnaraðila og aðgæsla hafi tekið mið af þessu ákvæði og hafi hann gætt ákvæða siðareglna í hvívetna.

Varnaraðili mótmælir því að hafa sýnt lögmanni sóknaraðila vanvirðingu. Varnaraðila hafi fyrst verið gert viðvart um fyrirhugaða þingfestingu málsins með símtali starfsmanns Héraðsdóms Reykjavíkur þann 19. júní 2023. Þá hafi ekki legið fyrir hvenær þingfesting málsins færi fram og formleg boðun til hennar ekki boðist fyrr en með tölvupósti kl. 14:23 daginn eftir. Tveimur klukkustundum og 39 mínútum síðar hafi varnaraðili tilkynnt dómstólnum að hagsmunagæslu hans fyrir kröfuhafann væri lokið. Afsögn varnaraðila frá málinu hafi ekkert haft með það að gera að vilja tefja meðferð málsins. Þá hafi hann ekki forræði á því hversu nálægt réttarhléi dómstólar boði til þinghalda. Varnaraðili bendir á að beiðni um úrlausn ágreinings um kröfuna hafi verið send viku eftir að kröfuhafafundur fór fram þann 25. apríl 2023 auk þess sem liðið hafi 49 dagar frá því beiðnin var send og þar til héraðsdómur boðaði til þingfestingar málsins. Tafir á málinu geti því ekki talist á ábyrgð varnaraðila.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að krafan sé sett fram gegn betri vitund og að verið sé að reyna að misnota úrskurðarnefnd lögmanna í annarlegum tilgangi. Varnaraðili krefst málskostnaðar vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga um lögmenn og 3. mgr. 15. gr. málsmeð­ferðarreglna nefndarinnar.

III.

Sóknaraðili mótmælir því að hann skorti aðild að málinu. Þrátt fyrir að brot varnaraðila hafi verið framin í samskiptum hans við lögmann sóknaraðila annars vegar og Héraðsdóm Reykjavíkur hins vegar, hafi þau snúið með beinum hætti að hagsmunum sóknaraðila. Sóknaraðili telur brot varnaraðila hafa verið framin að yfirlögðu ráði í þeirri von að umrætt ágreiningsmál yrði ekki tekið fyrir fyrr en að loknu réttarhléi, sem hefði haft afdrifarík áhrif á hagsmuni sóknaraðila.

Þá hafnar sóknaraðili því að kvörtun verði ekki beint gegn varnaraðila sem lögmanni sem starfi á grundvelli undanþágu skv. 2. tl. 2. mgr. 12. gr. laga um lögmenn, enda gildi siðareglur lögmanna jafnt um lögmenn sem starfi á grundvelli slíkrar undanþágu og sjálfstætt starfandi lögmenn. Varnaraðili hafi sjálfur komið fram sem lögmaður kröfuhafans og beri sjálfur ábyrgð á þeirri háttsemi sem hann viðhafði sem slíkur. Sé rétt að brot varnaraðila hafi verið framin fyrir tilstilli þess lögmanns sem varnaraðili starfar hjá gerir sóknaraðili þá kröfu að sá lögmaður sæti einnig viðurlögum vegna þeirra.

Sóknaraðili segir rangt að varnaraðili hafi sagt sig frá málinu í tölvupósti til héraðsdóms þann 20. júní 2023. Hann hafi upplýst dóminn um að hann fari ekki með hagsmuni kröfuhafans og telur sóknar­aðili að tilkynninguna sé ekki hægt að skilja öðruvísi en að varnaraðili hafi aldrei farið með hagsmuni kröfuhafans í málinu heldur hafi hagsmunagæslu hans lokið eftir kröfuhafafund þann 25. apríl 2023. Ljóst sé af gögnum sem varnaraðili hafi lagt fram til nefndarinnar að varnaraðili hafi sagt sig frá hagsmunagæslu fyrir kröfuhafann einni mínútu áður en tilkynningin hafi verið send héraðsdómi. Því hafi þær upplýsingar sem gefnar voru í tilkynningunni verið rangar og villandi sem sé brot á 20. gr. siðareglna lögmanna. Hafi þær skapað mikla ringulreið hjá sóknaraðila og lögmanni hans og Héraðsdómi Reykjavíkur.

Sóknaraðili kveðst hafa haft hagsmuni af því að málið yrði þingfest sem fyrst enda hafi þingfestingar­dagur málsins getað haft áhrif í deilum við kröfuhafann um hvort leyst yrði úr málinu af íslenskum dómstóli eða dómstólum erlendis, þar sem kröfuhafinn hafði stefnt sóknaraðila vegna sömu kröfu. Þetta hafi varnaraðili verið full meðvitaður um á öllum stigum málsins og því séð sér leik á borði um að reyna að tefja fyrir þingfestingu málsins á Íslandi og þannig bregða færi fyrir sóknaraðila.

Sóknaraðili mótmælir því að kvörtun sé lögð fram gegn betri vitund og að verið sé að misnota úrskurðarnefnd lögmanna í annarlegum tilgangi. Þvert á móti telur sóknaraðili að þau gögn sem varnaraðili lagði fram með greinargerð sinni staðfesti að háttsemi varnaraðila og orðalag hafi verið til þess fallið að klekkja á sóknaraðila með óheiðarlegum hætti.

Sóknaraðili gerir kröfu um málskostnað úr hendi varnaraðila vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

IV.

Varnaraðili hafnar því að hafa verið umboðslaus í samskiptum sínum við Héraðsdóm Reykjavíkur í aðdraganda boðunar til fyrirtöku umrædds ágreiningsmáls. Þá segir hann fráleitt að varnaraðili hafi viljandi tafið meðferð málsins. Varnaraðili hafi, í umboði vinnuveitanda síns, gætt hagsmuna kröfu­hafans alveg þar til varnaraðili sagði sig frá málinu. Hagsmunagæslan hafi verið viðvarandi en afar takmörkuð eftir mætingu á kröfuhafafund en varnaraðili átt í þónokkrum samskiptum við fulltrúa kröfuhafans þar til hann sagði sig frá málinu. Þegar uppi hafi verið staðið hafi eiginleg hagsmuna­gæsla varnaraðila því einungis falist í að aðstoða við kröfulýsingu og mæta á fund kröfuhafa, eins og fram kom í tilkynningu varnaraðila til héraðsdóms. Hann hafi hins vegar haft lögmannsumboð frá kröfuhafanum til þess tíma sem hann sagði sig frá málinu. Varnaraðili vísar til fyrirliggjandi gagna sem sýni að hagsmunagæsla hafi verið virk. Þá vísar varnaraðili til tölvupósts sem hann sendi fulltrúa kröfuhafa þar sem hann sagði sig frá málinu og benti fulltrúa kröfuhafa á að hafa samband við starfsmann Héraðsdóms Reykjavíkur varðandi þingfestingu málsins. Varnaraðili vísar til 21. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 þar sem kveðið er á um að lögmaður sem sækir þing fyrir aðila skuli teljast hafa umboð nema hið gagnstæða sannist.

Að öðru leyti vísar varnaraðili til þess sem fram kom í greinargerð hans til nefndarinnar og ítrekar kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni heimilt á öllum stigum að segja sig frá verki. Aldrei má þó lögmaður segja sig frá verki, án þess að skjólstæðingur fái svigrúm til að afstýra réttarspjöllum og ráða sér annan lögmann.

Í 20. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður megi aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

Samkvæmt 23. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður tilkynna viðkomandi dómstólum láti hann af starfi í einstöku dómsmáli eða hætti með öllu málflutningsstarfi.

Í 25. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmenn skuli hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þeir skulu sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.

II.

Varnaraðili krefst frávísunar málsins á þeim grundvelli að sóknaraðili geti ekki átt aðild að kvörtun vegna brota á þeim ákvæðum siðareglna lögmanna sem sóknaraðili vísar til. Í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 segir að telji einhver að lögmaður hafi gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, geti viðkomandi lagt fram kvörtun til úrskurðar­nefndar lögmanna. Af því leiðir að þó svo háttsemi sem kvartað er yfir hafi verið viðhöfð í samskipt­um lögmanns við aðra en þann sem beinir kvörtun til nefndarinnar, kemur það ekki í veg fyrir að annar aðili, sem telur á sér brotið með háttseminni, geti kvartað vegna hennar til nefndarinnar. Er af þeim sökum ekki fallist á frávísunarkröfu varnaraðila af þeirri ástæðu að sóknaraðila skorti aðild í málinu.

Varnaraðili starfar á grundvelli undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 á grundvelli 2. tl. 2. mgr. 12. gr., sbr. 3 .mgr. 11. gr. sömu laga. Lögmaður sem starfar hjá öðrum lögmanni á grundvelli slíkrar undanþágu er undanþeginn þeim skyldum að hafa opna skrifstofu, vörslufjárreikning í banka og starfsábyrgðartryggingu, enda ber vinnuveitandi hans ábyrgð á fjárvörslu lögmanns sem hann ræður til starfa hjá sér, svo og fébótaábyrgð á störfum hans að öðru leyti. Lögmaður sem starfar á grundvelli undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. ber sjálfur ábyrgð á störfum sínum að öðru leyti og er varnaraðili því réttur aðili að máli þessu.

Í viðbótargreinargerð sóknaraðila til nefndarinnar var þess krafist að annar lögmaður sætti viðurlögum vegna háttsemi varnaraðila. Kvörtun sem móttekin var þann 8. apríl 2024 afmarkaði sakarefni málsins. Þegar af þeirri ástæðu koma ekki til úrlausnar í máli þessu önnur möguleg kvörtunarefni í garð annars lögmanns en tilgreindur var í upphaflegu erindi sóknaraðila.

III.

Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi gætt hagsmuna erlends félags og lýst f.h. þess kröfu í bú sóknaraðila þann 19. apríl 2023. Þá hafi hann mætt f.h. kröfuhafans til fundar með kröfuhöfum og hluthöfum sóknaraðila þann 25. apríl 2023. Varnaraðili var tilgreindur sem lögmaður kröfuhafans í beiðni skilanefndar sóknaraðila um úrlausn ágreinings um kröfu kröfuhafans, dags. 2. maí 2023, og boðaður símleiðis til þingfestingar ágreiningsmálsins þann 19. júní 2023. Gögn málsins sína að morgni daginn eftir, 20. júní, hafði varnaraðili samband við fulltrúa kröfuhafans og upplýsti hann um að til stæði að þingfesta málið degi síðar og óskaði upplýsinga um hvort kröfuhafinn óskaði eftir frekari hagsmunagæslu varnaraðila og vinnuveitanda hans vegna málsins. Ljóst má vera af gögnum málsins að varnaraðili fór fram á frestun þingfestingar málsins þar sem svar við fyrirspurninni hafði ekki borist. Eftir að ljóst varð síðar sama dag að Héraðsdómur Reykjavíkur yrði ekki við beiðni um frestun þingfestingar málsins upplýsti varnaraðili umbjóðanda sinn um það og fékk í kjölfarið svar þess efnis að umbjóðandinn gæti ekki tryggt fjármögnun málarekstursins. Í kjölfarið tjáði varnaraðili kröfuhafanum að hann og vinnuveitandi hans segðu sig frá málinu og gáfu fulltrúa kröfuhafans upp netfang starfsmanns Héraðsdóms Reykjavíkur sem hann gæti verið í sambandi við varðandi framhald málsins.

Með hliðsjón af gögnum málsins telur nefndin ljóst að varnaraðili hafi haft umboð til þess að gæta hagsmuna kröfuhafans þar til hann sagði sig frá málinu kl. 17:01 þann 20. júní 2023. Tilkynning þess efnis að hann gætti ekki hagsmuna kröfuhafans var send Héraðsdómi Reykjavíkur einni mínútu eftir að hagsmunagæslunni lauk og einum degi eftir að dómurinn hafði boðað til þinghalds í málinu símleiðis. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á annað en að varnaraðili hafi framfylgt í hvívetna ákvæðum laga og siðareglna lögmanna í störfum sínum.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Frávísunarkröfu varnaraðila, B lögmanns, er hafnað.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A hf., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir