Mál 18 2024
Mál 18/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 5. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 18/2024:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. apríl 2024 kvörtun sóknaraðila, A, gegn varnaraðila, B lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 16. apríl 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 7. maí 2024 ásamt fylgiskjölum. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 23. maí 2024 og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 10. júlí sl. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Kvörtun er sett fram í sjö liðum og lýtur að eftirfarandi háttsemi varnaraðila sem lögmanns sóknaraðila í forsjármáli:
- Að hafa ekki gert kröfu um DSM mat á persónuleikaröskun hjá barnsmóður sóknaraðila í málinu eins og sóknaraðili hafi farið fram á.
- Að hafa ekki aflað og afhent sóknaraðila gögn frá barnavernd eins og hann hafi farið fram á en samt sem áður skráð vinnu vegna þess í tímaskýrslu.
- Að hafa ekki lagt fram tölvupóst frá gagnaðila sóknaraðila í málinu nógu tímanlega sem hafi haft neikvæð áhrif á málatilbúnað sóknaraðila fyrir dómi.
- Að hafa ítrekað láðst að gefa sóknaraðila upplýsingar um þinghöld í málinu.
- Að hafa hækkað verðskrá sína tvisvar án þess að tilkynna sóknaraðila um hækkunina. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa gert breytingar á tímaskýrslu sinni aftur í tímann og lækkað umkrafið tímagjald eftir ábendingu sóknaraðila.
- Að hafa krafið sóknaraðila um greiðslu vegna vinnu við undirbúning málflutnings sem ekki hafi verið innt af hendi. Sóknaraðili segir varnaraðila hafi neitað að senda sóknaraðila málflutningsræðu sem hann hafi sagst hafa undirbúið. Þá hafi varnaraðili krafið sóknaraðila um greiðslu vegna samskipta varðandi reikningagerð.
- Að hafa kynnt ekki kynnt sóknaraðila sáttatillögu í málinu með fullnægjandi hætti.
Sóknaraðili gerir kröfu um endurgreiðslu úr hendi varnaraðila og að frekari kröfur varnaraðila á hendur honum verði felldar niður. Þá gerir sóknaraðili kröfu um skaðabætur að fjárhæð 1.000.000 kr. úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann þess að kröfu um skaðabætur verði vísað frá nefndinni. Auk þess krefst hann málskostnaðar að mati nefndarinnar úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðili lýsir málsatvikum með þeim hætti að sóknaraðili hafi leitað til hans þann 11. nóvember 2022 eftir að hafa verið stefnt í forsjármáli. Ágreiningurinn hafi snúist um lögheimili og umgengni við tvö börn aðila. Við upphaf málsins hafi sóknaraðili undirritað umboð til handa varnaraðila til þess að fara með málið og hafi þar komið fram að tímagjald varnaraðila væri 30.900 kr. auk virðisaukaskatts. Samið hafi verið um að sóknaraðili fengi 20% afslátt af tímagjaldi og hafi umsamið tímagjald því verið kr. 24.720 kr. auk virðisaukaskatts.
Varnaraðili fór yfir þá vinnu sem hann innti af hendi fyrir sóknaraðila vegna málsins. Í upphafi hafi hún falist í mætingu við þingfestingu málsins og ritun greinargerðar f.h. sóknaraðila þar sem höfð hafi verið hliðsjón af skjali sem hann hafði útbúið að beiðni varnaraðila. Þá hafi varnaraðili sótt um gjafsókn fyrir sóknaraðila og kallað eftir og móttekið gögn frá barnavernd og lagt fram í þinghaldi auk þess að afhenda þau sóknaraðila. Varnaraðili hafi fundað með sóknaraðila í tvígang í tengslum við sáttaumleitanir á milli aðila forsjármálsins og mætt með honum í tvö sáttaþinghöld.
Ákveðið hafi verið að afla þyrfti matsgerðar dómkvadds matsmanns og varnaraðili mætt í þinghald vegna þess. Sú hugmynd sóknaraðila að fara fram á að matsmaður legði mat á persónuleikaröskun sem hann byggði á að barnsmóðir hans væri haldin hafi mætt mikilli andstöðu af hálfu lögmanns gagnaðila og því hafi verið ljóst að útilokað væri að aðilar stæðu saman að öflun matsgerðar. Sóknaraðili hafi upplýst að hann hefði ekki fjárráð til þess að óska einn eftir slíkri matsgerð. Ákveðið hafi verið að leggja fram ítarlega greinargerð til matsmanns og skoða hvort æskilegt væri að afla yfirmats að fenginni matsgerð. Í ljósi þess að aðilum hafði á þessum tímapunkti tekist að semja um nýtt fyrirkomulag umgengni við börn sín, sem hafi verið í samræmi við óskir sóknaraðila, hafi dómari fallist á að matsgerð dómkvadds matsmanns yrði greidd úr ríkissjóði gegn því að aðilar stæðu saman að matsbeiðninni. Hafi því verið ómögulegt að koma að séróskum sóknaraðila um matsspurningar. Þessu hafi varnaraðili gert sóknaraðila grein fyrir.
Varnaraðili hafi mætt á matsfund með sóknaraðila sem hafi eftir það sjálfur sinnt samskiptum við matsmann, í því skyni að spara lögmannskostnað. Varnaraðili hafi undirbúið sóknaraðila fyrir þriðja sáttaþinghald í málinu í símtali daginn áður en það fór fram. Í tengslum við matsgerð hafi bæði sóknaraðili og barnsmóðir hans tekið saman skjöl sem varnaraðili hafi kynnt sér auk þess sem hann hafi fundað með sóknaraðila til að fara yfir stöðuna á matsmálinu í tvígang. Að ósk sóknaraðila hafi varnaraðili sent matsmanni mótmæli við einstaka þáttum í samantekt barnsmóður sóknaraðila.
Varnaraðili hafi móttekið matsgerð dómkvadds matsmanns, sent hana sóknaraðila og rætt við hann í síma um niðurstöðu matsmannsins. Sóknaraðili hafi aðspurður sagst skilja skýrsluna og gera sér grein fyrir efni hennar. Samkvæmt matsgerðinni hafi ekki komið í ljós sérstök frávik sem stutt gætu fullyrðingar sóknaraðila um að barnsmóðir hans væri haldin persónuleikaröskun. Sóknaraðili hafi verið ósáttur við þetta en hins vegar ekki tilbúinn að óska yfirmats á þessum þáttum og hafi því verið ákveðið að spyrja matsmann út í þessa þætti við aðalmeðferð málsins.
Í kjölfarið hafi verið boðað til þinghalds til framlagningar matsgerðarinnar og hafi varnaraðili fundað með sóknaraðila daginn áður. Varnaraðili hafi mætt með sóknaraðila til þinghaldsins þar sem matsgerðin var lögð fram auk þess sem boðað var til sáttaþinghalds í málinu en aðalmeðferð um leið ákveðin. Í sáttaþinghaldinu hafi aðilar fallist á að leita til sáttamiðlara sem þau hafi og gert án árangurs. Vegna þeirra sáttaumleitana hafi aðalmeðferð málsins verið frestað. Aftur hafi aðalmeðferð málsins verið frestað vegna anna dómara og hafi varnaraðili upplýst sóknaraðila um það sem hafi verið sáttur við breytinguna.
Fyrir aðalmeðferð hafi varnaraðili fundað með sóknaraðila og upplýst hann um hvernig aðalmeðferðin kæmi til með að ganga fyrir sig og honum afhent öll gögn málsins í pappírsformi. Varnaraðili hafi undirbúið aðalmeðferð, m.a. spurningar til þeirra þriggja vitna sem ráðlagt var að kæmu fyrir dóminn auk aðila málsins og útvegað túlk fyrir sóknaraðila og greitt fyrir þjónustu hans. Undirbúningur aðalmeðferðar hafi að auki falist í lestri allra gagna málsins sem telji nokkur hundruð blaðsíður, undirbúning ræðu, leit að dómafordæmum og umfjöllun í fræðiritum. Sóknaraðili hafi sent varnaraðila lista með spurningum sem hafi verið takmarkaður og ekki varðað grundvallarþætti málsins. Varnaraðili hafi fundað með sóknaraðila daginn fyrir aðalmeðferð, farið yfir gögn málsins og framburð hans auk þess að undirbúa hann fyrir þær spurningar sem hann gæti fengið frá lögmanni gagnaðila og dómurum.
Við aðalmeðferð málsins hafi báðir aðilar lagt fram gögn og hafi varnaraðili m.a. lagt fram gögn sem sóknaraðili hafi komið til hans í aðdraganda málsins. Ágreiningur hafi verið um gagnaframlagningu og bókað í þingbók vegna þess. Þá hafi varnaraðili bókað að beiðni sóknaraðila um breytingu á kröfu um umgengni. Í kjölfarið hafi farið fram skýrslutökur sem hafi tekið tæpar fjórar klukkustundir. Í samræmi við óskir sóknaraðila hafi matsmaður verið spurður sérstaklega hvort hann hafi kannað persónuleikaraskanir barnsmóður gagnaðila.
Að loknum skýrslutökum hafi dómari lagt til að reyndar yrðu frekari sættir. Lögmaður gagnaðila hafi lagt fram tilboð um sættir sem sóknaraðili hafi ekki viljað fallast á í upphafi. Varnaraðili segir dómara og sérfróðan meðdómanda hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að aðilar næðu sáttum. Því hafi verið ákveðið að láta á þær reyna og fjölmargar hugmyndir verið settar fram, sóknaraðili hafi tekið virkan þátt í samningaviðræðunum og upplýst að hann vildi ná sáttum, að því gefnu að flutningur lögheimilis barnanna væri tryggur. Eftir einnar og hálfrar klukkustundar viðræður hafi loks náðst samkomulag og réttarsátt verið undirrituð í þinghaldinu. Sóknaraðili hafi aldrei lýst óánægju með samkomulagið og þvert á móti verið mjög ánægður eftir þinghaldið og þakkað varnaraðila kærlega fyrir aðstoðina.
Þann 31. maí 2023 kveðst varnaraðili hafa mætt til fundar á vinnustað sóknaraðila vegna uppsagnar úr starfi. Sóknaraðili hafi í framhaldinu viljað fara í mál við vinnuveitanda sinn en varnaraðili ráðlagt gegn því. Varnaraðili hafi skráð einnar klukkustundar vinnu í tímaskýrslu vegna þessa en vinnan hafi í raun verið tvær til þrjár klukkustundir.
Varnaraðila kveðst hafa verið ljóst frá upphafi að greiðsla á lögmannskostnaði yrði sóknaraðila erfið enda hafi hann verið atvinnulaus er málið hófst. Fyrsti reikningur hafi verið gefinn út í febrúar 2023 að fjárhæð 248.000 kr. en í framhaldinu hafi verið gefnir út reikningar mánaðarlega í fjóra mánuði að fjárhæð 124.000 kr. Eftir að sóknaraðili missti vinnuna hafi fjárhæð mánaðarlegra reikninga verið lækkuð í 62.000 kr. á mánuði og þrír reikningar sem námu þeirri fjárhæð verið gefnir út, sá síðasti í nóvember 2023. Sóknaraðili hafi greitt alla áðurnefnda reikninga utan þess síðasta en sóknaraðili hafi haft samband við varnaraðila vegna hans og óskað eftir greiðslufresti. Varnaraðili hafi fallist á það og bakfært reikninginn. Varnaraðili segir ekkert samkomulag eða beiðni frá sóknaraðila hafa legið fyrir um þetta fyrirkomulag á innheimtu lögmannskostnaðar, heldur hafi það byggt á tilliti varnaraðila til greiðslugetu sóknaraðila og stöðu hans.
Eftir aðalmeðferð málsins sem fram fór þann 16. janúar 2024 hafi varnaraðila borist reikningur fyrir túlkaþjónustu að fjárhæð 46.776 kr. sem varnaraðili hafi greitt og gert sóknaraðila reikning fyrir þann 29. janúar 2024, auk 62.000 kr. innborgunar á lögmannskostnað. Sóknaraðili hafi ekki greitt þann reikning. Í kjölfarið hafi sóknaraðili sent varnaraðila tölvupóst með hugleiðingum sínum um niðurstöðu málsins og réttarsáttina sem gerð var og óskað eftir fundi með varnaraðila. Sóknaraðili hafi beðið um að fá tímaskýrslu málsins senda þann 27. febrúar 2024 og varnaraðili orðið við því samdægurs auk þess að senda honum gögn frá barnavernd sem honum hafi þó verið send áður.
Í kjölfarið hafi sóknaraðili gert kröfu um lækkun tímagjalds sem hafði tekið hækkun um áramót, sem varnaraðili hafi fallist á, þrátt fyrir að ekkert samkomulag hefði verið í gildi um fast tímagjald. Þann 12. mars 2024 hafi reikningur vegna túlkaþjónustu enn verið ógreiddur og varnaraðili óskað eftir greiðslu á honum.
Í tölvupósti þann 13. mars 2024 hafi sóknaraðili fyrst viðrað óánægju með störf varnaraðila og upplýst að hann væri tregur til að greiða lögmannskostnað. Varnaraðili segir sóknaraðila hafa sett fram fjölmargar fullyrðingar um málið og rekstur þess sem ekki standist skoðun og kveðst hafa svarað þeim öllum í tölvupósti sama dag auk þess sem hann hafi upplýst sóknaraðila um að hann hefði þegar fengið afrit af öllum gögnum málsins. Sóknaraðili hafi sent sér tölvupóst síðar sama dag þar sem hann hafi haft uppi frekari ásakanir og fullyrðingar sem þegar hafði verið svarað.
Varnaraðili kveðst telja ljóst að sóknaraðili hygðist ekki greiða kostnað vegna frekari vinnu við málið og ákvað því að leggja ekki í frekari vinnu í að funda með sóknaraðila og senda honum gögn sem hann hafði þegar fengið afhent. Í kjölfarið hafi varnaraðili gefið út reikning þann 21. mars 2024 vegna vinnu sinnar við málið að fjárhæð 1.303.346 kr. Heildarfjöldi vinnustunda samkvæmt framlagðri tímaskýrslu sé 74,5 klst. auk einnar klukkustundar í máli vegna uppsagnar. Heildarfjárhæð reikninga vegna vinnu varnaraðila fyrir sóknaraðila sé því 2.283.634 kr. með virðisaukaskatti.
Eftir útgáfu reikningsins hafi sóknaraðili sent varnaraðila tölvupóst 23. mars 2024 og krafist endurskoðunar reikningsins og hótað kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna.
Varnaraðili vísar til 1. mgr. 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og 10. og 15. gr. siðareglna lögmanna. Varnaraðili vísar til umfangs máls sóknaraðila og kveðst telja skráðar vinnustundir vegna málsins færri en gengur og gerist í sambærilegum málum. Skýrist það af því að varnaraðili sé reyndur málflytjandi auk þess sem ekki hafi allir tímar verið skráðir af samúð með stöðu sóknaraðila. Jafnframt vísar varnaraðili til þess að málið hafi varðað mikilvæga hagsmuni sóknaraðila, ágreiningur í málinu hafi verið fjölþættur og málið krafist mikilla samskipta við sóknaraðila.
Varðandi mat á hæfilegu endurgjaldi vísar varnaraðili til úrskurðar nefndarinnar í máli 1/2022. Varnaraðili bendir á að óumdeilt sé að samið hafi verið um tímagjald vegna vinnu sinnar og sóknaraðila fengið sundurliðaða tímaskýrslu með skýringum á öllum þeim þáttum sem unnir hafi verið.
Varnaraðili mótmælir því að tilteknir vinnuliðir hafi verið skráðir án tilefnis og vísar til framlagðra gagna. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi í upphafi verið upplýstur um umfang málsins og gefin verðáætlun, með þeim fyrirvara að erfitt væri að spá fyrir um umfang málsins. Sótt hafi verið um gjafsókn fyrir sóknaraðila sem ekki hafi fengist veitt þar sem tekjur sóknaraðila hafi verið yfir viðmiði. Varnaraðili telur umkrafða þóknun vegna málsins hæfilega.
Varnaraðili mótmælir því að hafa í störfum sínum fyrir sóknaraðila brotið gegn ákvæðum laga eða siðareglna lögmanna. Sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum sínum þar að lútandi og telur varnaraðili með öllu ósannað og rangt að hann hafi á einhvern hátt gerst brotlegur gegn siðareglum lögmanna. Varnaraðili kveðst hafa gætt hagsmuna sóknaraðila í hvívetna, gripið til allra þeirra ráðstafana sem tækar hafi verið til að tryggja hagsmuni hans og að vilji hans í málinu næði fram að ganga. Ýtrustu hagsmuna hans hafi verið gætt á öllum stigum málsins, allra nauðsynlegra gagna aflað og þau kynnt sóknaraðila um leið og þau bárust. Þá hafi varnaraðili ítrekað fundað með sóknaraðila og haldið honum upplýstum um stöðu og gang málsins og öll þinghöld og aðalmeðferð hafi verið vandlega undirbúin. Varnaraðili segir svo virðast sem óánægja sóknaraðila með störf hans hafi komið fyrst fram eftir að hann áttaði sig á eftirstöðvum lögmannskostnaðar vegna málsins enda hafi hann áður lýst yfir ánægju með lyktir málsins.
Varnaraðili vísar til málavaxtalýsingar og fyrirliggjandi gagna málsins varðandi einstök atriði í kvörtun sóknaraðila og hafnar þeim fullyrðingum sem þar eru settar fram. Auk þess hafi ekkert af þeim atriðum haft áhrif á úrlausn eða samningaviðræður sem leiddu til réttarsáttar í máli sóknaraðila, sem hann hafi lýst sig ánægðan með.
III.
Í viðbótargreinargerð sinni mótmælir sóknaraðili einstökum atriðum sem fram komu í greinargerð varnaraðila til nefndarinnar, þ.m.t. um greiðslugetu hans og kveðst hafa látið í ljós óánægju sína með störf varnaraðila á fyrri stigum. Hann ítrekar að hann hafi ekki fengið aðgang að öllum gögnum málsins og kveðst fyrst hafa séð hluta gagnanna er honum barst greinargerð varnaraðila í máli þessu. Þá hafi varnaraðila láðst að leggja mikilvæg gögn fram í dómi í forsjármálinu. Sóknaraðili ítrekar óánægju sína með hvernig staðið var að dómkvaðningu matsmanns í málinu og að hann hafi ekki verið upplýstur nægilega í tengslum við sáttaviðræður við aðalmeðferð málsins. Þá kveður hann varnaraðila ekki hafa upplýst sig með fullnægjandi hætti um kostnað vegna vinnu sinnar.
IV.
Í viðbótargreinargerð sinni mótmælti varnaraðili því sem fram kom í viðbótargreinargerð sóknaraðila og vísar til fyrirliggjandi gagna og umfjöllun í greinargerð sinni til nefndarinnar.
Niðurstaða
I.
Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga um lögmenn er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans eftir því sem unnt er gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast.
Í 1. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna segir að við mat á því hvað telst hæfileg þóknun sé m.a. heimilt að líta til umfangs og eðlis máls, undirliggjandi hagsmuna, þýðingar fyrir skjólstæðing, árangurs, þess tíma sem krafist er að varið sé í mál af hálfu lögmannsins, sérhæfingar hans og þeirrar ábyrgðar sem starfanum fylgir. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal lögmaður upplýsa skjólstæðing sinn um á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð og samkvæmt 3. mgr. 10. gr. skal lögmaður leitast við að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir hver kostnaður af máli gæti orðið í heild sinni og vekja athygli hans ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi eru.
- gr. Lögmanni ber að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.
II.
Krafa sóknaraðila um skaðabætur úr hendi varnaraðila fellur utan valdsviðs nefndarinnar og er vísað frá.
Sakarefni máls þessa afmarkast af kvörtun sem móttekin var þann 10. apríl 2024. Umkvörtunaratriði sem sett voru fram í viðbótargreinargerð sóknaraðila falla því utan sakarefnis málsins.
III.
Áskilið tímagjald samkvæmt gjaldskrá varnaraðila í upphafi málsins var 30.900 kr. Samið var um að sóknaraðili fengi 20% afslátt af tímagjaldi og nam umsamið tímagjald því 24.720 kr. auk virðisaukaskatts. Í kjölfar athugasemdar sóknaraðila lækkaði varnaraðili tímagjald vegna allrar vinnu sinnar í málinu til samræmis við það tímagjald sem kveðið var um í gjaldskrá lögmannsstofu hans í upphafi málsins. Að mati nefndarinnar er áskilið tímagjald varnaraðila ekki úr hófi.
Samkvæmt tímaskýrslu sundurliðast vinna varnaraðila vegna forsjármáls sóknaraðila með eftirfarandi hætti. 16,5 klst. vegna vinnu í upphafi málsins, þ.m.t. vegna ritunar og framlagningar greinargerðar, 3,5 klst. vegna gjafsóknarbeiðni, 31,5 klst. vegna milliþinghalda, vinnu í tengslum við matsgerð, fimm sáttaþinghöld með dómara og aðilum og samskipti við sáttamiðlara, 22 klst. vegna undirbúnings aðalmeðferðar, aðalmeðferð og 1 klst. vegna samskipta við sóknaraðila í mars 2024. Vegna uppsagnar skráði varnaraðili eina klukkustund í tímaskýrslu. Samtals nemur fjöldi vinnustunda varnaraðila vegna starfa hans fyrir sóknaraðila því 75,5 klst.
Heildarfjárhæð lögmannskostnaðar samkvæmt útgefnum reikningum varnaraðila er 2.283.634 kr. með virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 46.776 kr. Heildarfjárhæð útgefinna reikninga er því 2.330.407 kr. Af þeirri fjárhæð hefur sóknaraðili greitt 868.000 kr.
Við mat á hæfilegu endurgjaldi vegna vinnu lögmanna þarf fyrst og fremst að taka mið af umfangi starfa lögmannsins í viðkomandi máli sem og þeim hagsmunum sem málareksturinn lýtur að. Ljóst er að mál sóknaraðila varðaði mikilsverða hagsmuni en deilt var um forsjá, umgengni og lögheimili barna hans og barnsmóður hans. Eins og málavaxtalýsing og gögn málsins, sem lögð hafa verið fyrir nefndina bera með sér, var mál sóknaraðila nokkuð mikið að umfangi. Á meðan á rekstri málsins stóð fundaði varnaraðila með sóknaraðila í níu skipti. Þá mætti varnaraðili til sjö þinghalda í máli sóknaraðila auk matsfundar og fundar með sáttamiðlara. Varnaraðili ritaði greinargerð fyrir sóknaraðila í málinu, gjafsóknarbeiðni og undirbjó munnlegan málflutning fyrir aðalmeðferð málsins. Að teknu tilliti til umfangs málsins og þeirra hagsmuna sóknaraðila sem málið varðaði telur nefndin að fjöldi skráðra vinnustunda varnaraðila vegna málsins hafi verið síst úr hófi. Í samræmi við framangreint telur nefndin að umkrafið endurgjald varnaraðila feli í sér hæfilegt endurgjald, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og 10. gr. siðareglna lögmanna.
IV.
Kvörtun lýtur enn fremur að þeirri háttsemi varnaraðila að hafa ekki kallað eftir gögnum sem varnaraðili fór fram á, ekki lagt fram mikilvæg gögn í máli sóknaraðila og ekki afhent sóknaraðila sjálfum afrit af öllum gögnum málsins. Þá kvartar sóknaraðili yfir fyrirkomulagi á spurningum sem lagðar voru fyrir dómkvaddan matsmann í málinu. Jafnframt lýtur kvörtun að því að varnaraðila hafi ítrekað láðst að gefa sóknaraðila upplýsingar um þinghöld í máli hans, hann hafi ekki unnið þá vinnu við undirbúning aðalmeðferðar sem skráð hafi verið í tímaskýrslu og ekki kynnt honum nægilega sáttatillögu sem fram kom við aðalmeðferð málsins en varð ekki að þeirri dómsátt sem undirrituð var í málinu.
Að mati nefndarinnar hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að varnaraðili hafi sýnt af sér þá háttsemi sem sóknaraðili heldur fram. Auk þess er ekkert í gögnum málsins sem styður fullyrðingar sóknaraðila hvað þetta varðar. Enn fremur hefur að mati nefndarinnar ekki verið sýnt fram á hvort eða hvernig sú háttsemi sem sóknaraðili heldur fram að varnaraðili hafi sýnt af sér, hafi haft áhrif á málsmeðferð eða niðurstöðu málsins fyrir dómi. Með hliðsjón af gögnum málsins telur nefndin ekki að sýnt hafi verið fram á annað en að varnaraðili hafi í störfum sínum fyrir sóknaraðila gætt hagsmuna hans í samræmi við þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt lögum og siðareglum lögmanna. Í samræmi við framangreint er það niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili hafi í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Rétt er að hvor aðili beri sinn málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu sóknaraðila um skaðabætur úr hendi varnaraðila er vísað frá nefndinni.
Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, A, að fjárhæð 2.283.634 kr., felur í sér hæfilegt endurgjald.
Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir