Mál 2 2024
Mál 2/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 5. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 2/2024
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 18. janúar 2024 kvörtun sóknaraðila A, gegn varnaraðila, B lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 23. janúar sl., þar sem fram kom að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 26. janúar sl. ásamt fylgiskjölum. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 15. febrúar sl. og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 6. mars sl.
Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Kvörtun lýtur annars vegar að ágreiningi um endurgjald varnaraðila fyrir störf hans í þágu sóknaraðila og hins vegar að háttsemi varnaraðila og starfsmanna á lögmannsstofu hans í störfum fyrir sóknaraðila í þremur málum á árunum 2019-2022.
Í fyrsta lagi var um að ræða mál vegna björgunarlauna sem gögn málsins bera með sér að hafi hafist í júní 2019 og lokið í nóvember 2021. […] lögmaður fór með málið f.h. sóknaraðila og var sóknaraðili viðstaddur munnlegan málflutning málsins þann 6. september 2021 þar sem […] flutti málið fyrir hans hönd.
Í öðru lagi um að ræða mál sem varðaði innheimtu og hófst það í maí 2020 og lauk í janúar 2021. Varnaraðili rak málið f.h. sóknaraðila og ber tímaskýrsla með sér að fulltrúar á lögmannsstofu hans hafi einnig komið að málinu.
Í þriðja lagi var um að ræða mál sem varnaraðili sinnti fyrir sóknaraðila og dóttur hans og varðaði forsjá o.fl.
Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi sent sóknaraðila tímaskýrslur í málunum þremur þann 25. febrúar 2022 í tölvupósti. Með tölvupósti 17. október 2022 sagði sóknaraðili upp þjónustu varnaraðila og lauk þar með afskiptum varnaraðila af málefnum hans. Var þá fyrrnefndu málunum tveimur lokið. Meðal gagna málsins eru tveir tölvupóstar varnaraðila frá 17. október 2022 þar sem sóknaraðila voru annars vegar sendar sundurliðaðar tímaskýrslur í því máli sem enn var ólokið auk afrita af öllum reikningum sem sóknaraðila höfðu verið gerðir vegna allra málanna þriggja.
Þann 13. júlí 2023 sendi sóknaraðili varnaraðila tölvupóst og fór fram á endurgreiðslu hluta kostnaðar vegna vinnu varnaraðila og starfsmanna hans í þágu sóknaraðila. Í svari varnaraðila frá því í byrjun september 2023 kvaðst hann telja athugasemdir sóknaraðila of seint fram komnar en sagðist tilbúinn að heyra tillögur sóknaraðila ef einhverjar væru í þessum efnum. Í tölvupósti sóknaraðila 7. september 2023 lýsti hann óánægju með ýmsa þætti í störfum varnaraðila og starfsmanna hans en kom ekki með tillögu hvað varðaði endurgreiðslu á þóknun vegna starfa þeirra.
Sóknaraðili fer fram á að nefndin úrskurði um hæfilegt endurgjald í málunum þremur og kveðst telja endurgjald varnaraðila hafa verið óhóflegt. Sóknaraðili segist ekki hafa fengið sundurliðaða reikninga frá varnaraðila heldur hafi reikningar verið gerðir sameiginlega vegna allra málanna. Þá hafi gengið hægt að fá afhentar tímaskýrslur í málunum.
Kvörtunin lýtur einnig að vinnubrögðum varnaraðila sem sóknaraðili telur hafa verið léleg. M.a. hafi matsbeiðni sem lögð hafi verið fyrir héraðsdóm verið ófullnægjandi og því hafi þurft að draga hana til baka og leggja hana fram að nýju. Matsbeiðni hafi aðeins tekið til miska skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en ekki varanlegs miska og örorku eins og sóknaraðili og dóttir hans hafi talið. Sóknaraðili kveðst hafa orðið fyrir miklum kostnaði vegna vinnubragða og mistaka varnaraðila. Auk þess hafi varnaraðili tjáð sig um málið við fjölmiðla án samþykkis sóknaraðila eða dóttur hans.
Þá kveðst sóknaraðili ekki hafa falið […] hagsmunagæslu fyrir sig í máli er varðaði björgunarlaun heldur hafi hann staðið í þeirri trú að varnaraðili myndi reka málið fyrir sína hönd.
III.
Varnaraðili krefst frávísunar málsins á þeim grundvelli að lögbundinn frestur til þess að beina erindinu til nefndarinnar hafi verið liðinn er kvörtun var lögð fram. Miða beri upphaf frestsins við það tímamark þegar sóknaraðili fékk þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að beina erindi til nefndarinnar.
Varnaraðili kveðst hafa gert sóknaraðila reikninga mánaðarlega, sem hafi að jafnaði verið greiddir á eindaga og síðasta greiðsla frá sóknaraðila hafi borist þann 10. ágúst 2022 vegna reiknings, dags. 1. ágúst s.á. Ársfrestur til þess að beina kvörtun vegna ágreinings um endurgjald til nefndarinnar hafi í síðasta lagi byrjað að líða þann 17. október 2022, þegar varnaraðili hafi sent sóknaraðila sundurliðaðar tímaskýrslur og afrit allra reikninga vegna málanna þriggja.
Hvað varðar kvörtun er lýtur að háttsemi varnaraðila vísar hann til þess að héraðsdómur hafi fallist á að skipaður yrði matsmaður með úrskurði 15. júní 2022. Gagnaðili hafi kært úrskurðinn til Landsréttar og áður en niðurstaða Landsréttar hafi legið fyrir, eða þann 22. ágúst 2022, hafi sóknaraðili sagt varnaraðila upp störfum. Annar lögmaður hafi tekið við málinu og Landsréttur ógilt úrskurð héraðsdóms þann 2. september 2022. Að mati varnaraðila hefði sá lögmaður sem tók við málinu getað upplýst sóknaraðila um stöðuna og veitt honum viðeigandi ráðgjöf en í ljósi þess að meira en ár sé liðið frá atvikum málsins sé kvörtun of seint fram komin.
Varnaraðili gerir kröfu um að tveir nefndarmenn víki sæti vegna vanhæfis.
Niðurstaða
I.
Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
II.
Af hálfu sóknaraðila var farið fram á að tveir nefndarmenn vikju sæti vegna vanhæfis. Í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um það hvenær starfsmaður eða nefndarmaður teljist vanhæfur til meðferðar máls. Í máli þessu hafa nefndarmenn upplýst að þær vanhæfisástæður sem taldar eru upp í 1.-5. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, séu ekki fyrir hendi. Í 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna er að finna matskennda hæfisreglu sem felur í sér grunnreglu um sérstakt hæfi. Í lögskýringargögnum með lögunum er kveðið á um að til að starfsmaður eða nefndarmaður teljist vanhæfur á grundvelli hinnar matskenndu hæfisreglu verði hann að hafa einstaklega hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem ágóða, tap eða óhagræði. Þar koma einnig til skoðunar hagsmunir venslamanna og annarra þeirra sem eru í svo nánum tengslum við starfsmanninn að almennt verði að telja hættu á að þau geti haft áhrif á hann. Þá verði eðli og vægi hagsmunanna að vera þess háttar að almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið geti haft áhrif á ákvörðun málsins. Þá getur mjög náin vinátta eða fjandskapur við aðila máls valdið vanhæfi. Með vináttu sem valdi vanhæfi nægir ekki að aðeins sé um að ræða kunningsskap eða að fyrir hendi séu þær aðstæður, t.d. á fámennum stöðum, að „allir þekki alla“, heldur verður vináttan að vera náin. Svo óvinátta valdi vanhæfi verður að vera um að ræða einhverjar sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt verða taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni starfsmanns. Ekki nægir að aðili máls álíti starfsmann eða nefndarmann sér fjandsamlegan. Að mati nefndarinnar eru ekki uppi neinar ástæður í máli þessu sem gefa ástæðu til þess að draga óhlutdrægni þeirra nefndarmanna sem um málið fjalla, með réttu í efa, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hefur sóknaraðili ekki bent á atvik, aðstæður eða ástæður sem geta verið til þess fallnar að efast megi um hæfi einstakra nefndarmanna. Kröfu sóknaraðila um að nefndarmenn sem um málið fjalla víki sæti vegna vanhæfis, er því hafnað.
III.
Kvörtun beinist annars vegar að háttsemi varnaraðila sjálfs og hins vegar háttsemi […] lögmanns, sem starfar hjá varnaraðila og nýtur undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 á grundvelli 2. tl. 2. mgr. 12. gr., sbr. 3 .mgr. 11. gr. sömu laga. Lögmaður sem starfar hjá öðrum lögmanni á grundvelli slíkrar undanþágu er undanþeginn þeim skyldum að hafa opna skrifstofu, vörslufjárreikning í banka og starfsábyrgðartryggingu, enda ber vinnuveitandi hans ábyrgð á fjárvörslu lögmanns sem hann ræður til starfa hjá sér, svo og fébótaábyrgð á störfum hans að öðru leyti. Lögmaður sem starfar á grundvelli undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. ber sjálfur ábyrgð á störfum sínum að öðru leyti. Ber því að beina kvörtun til nefndarinnar vegna starfa hans að honum sjálfum.
IV.
Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi sinnt hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila í þremur málum á tímabilinu 4. mars 2019 til 22. ágúst 2022, þegar sóknaraðili sagði upp þjónustu hans með tölvupósti. Á því tímabili hafi varnaraðili gefið út 31 reikning vegna vinnu sinnar og starfsmanna á lögmannsstofu sinni sem sóknaraðili hafi greitt, þann síðasta í byrjun ágúst 2022. Gögn málsins bera enn fremur með sér að sóknaraðili hafi fengið tímaskýrslur vegna vinnunnar sendar í tölvupósti 25. febrúar 2022 og nánar sundurliðaða tímaskýrslu, í því máli sem ekki var lokið er sóknaraðili afturkallaði umboð sitt til varnaraðila, auk afrita allra reikninga, þann 17. október 2022.
Með hliðsjón af gögnum málsins telur nefndin að lögbundinn frestur, skv. 1. mgr. 26. og 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, til þess að beina kvörtun vegna ágreinings um endurgjald vegna starfa varnaraðila á fyrrgreindu tímabili og háttsemi varnaraðila, í tengslum við störf hans fyrir sóknaraðila á tímabilinu, hafi byrjað að líða í síðasta lagi 17. október 2022 og hafi því verið liðinn þegar kvörtunin barst nefndinni þann 18. janúar 2024. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá nefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá nefndinni.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir