Mál 20 2024
Mál 20/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 5. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 20/2024
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. apríl 2024 kvörtun sóknaraðila A, búsettum í Bretlandi, gegn varnaraðila, B lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 16. apríl sl., þar sem fram kom að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 6. maí 2024 og viðbótargreinargerð sóknaraðila þann 19. maí sl. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
Í kvörtun kemur fram að félag í eigu varnaraðila sé eigandi fasteignar á Ítalíu. Sóknaraðili kveðst telja að fasteignin hafi verið notuð í tengslum við fjársvik manns sem komi fram sem umboðsmaður varnaraðila þar í landi. Umboðsmaðurinn hafi innheimt fjármuni af öðrum fasteignareigendum vegna endurbóta á fasteigninni en ekkert hafi orðið af framkvæmdunum. Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi gerst brotlegur við siðareglur lögmanna með athafnaleysi í tengslum við meint fjársvik umboðsmanns hans.
Varnaraðili fór fram á frávísun málsins með vísan til þess annars vegar að samskipti hans við sóknaraðila snúi ekki að neinu leyti að lögmannsstörfum hans og því heyri málið ekki undir úrskurðarnefnd lögmanna. Hins vegar byggir krafa um frávísun á því að krafan sé vanreifuð og erfitt að skilja málatilbúnað sóknaraðila auk þess sem kvörtun virðist byggja á samskiptum við allt annan mann en varnaraðila.
Varnaraðili mótmælti kröfu sóknaraðila um frávísun málsins og vísaði til þess að siðareglur lögmanna, einkum 2. gr., taki einnig til annarra athafna lögmanns en lögmannsstarfa.
Niðurstaða
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.
Sóknaraðili byggir á því að athafnaleysi varnaraðila sem fasteignareiganda á Ítalíu, í tengslum við meint fjársvik umboðsmanns hans þar í landi, feli í sér brot á siðareglum lögmanna. Sóknaraðili fer fram á að nefndin skeri úr um hvort fasteign í eigu félags varnaraðila hafi verið nýtt í tengslum við fjársvik umboðsmanns hans og hvort varnaraðili hafi brugðist skyldum sínum sem lögmaður sem hafi auðveldað umboðsmanni hans að stunda meint fjársvik.
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 tekur valdsvið nefndarinnar aðeins til háttsemi sem lögmenn viðhafa í störfum sínum sem lögmenn. Hin umkvartaða háttsemi tengist ekki lögmannsstörfum varnaraðila og fellur þess vegna utan valdsviðs nefndarinnar. Máli þessu er vísað frá nefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá nefndinni.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir