Mál 24/2024
Mál 24/2024
Ár 2024, þriðjudaginn 3. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A og B
gegn
C lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 28. apríl 2024 kvörtun sóknaraðila, [A], og [B], bæði til heimilis að […], gegn varnaraðila, [C] lögmanni, […].
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 10. maí 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 14. júní 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni þann 11. júlí 2024 og viðbótargreinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum þann 16. ágúst 2024. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Við upphaf málsmeðferðar upplýsti einn nefndarmaður um vanhæfi sitt til meðferðar málsins og tók varamaður sæti hans í málinu.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðilar lýsa málsatvikum á þann veg að þau hafi falið varnaraðila innheimtu skaðabóta á grundvelli reglugerðar nr. 1047/2012 vegna seinkunar á flugi þeirra með flugfélaginu Neos frá Veróna á Ítalíu til Keflavíkur þann 26. febrúar 2022. Sóknaraðilar hafi ákveðið að nýta sér þjónustu fyrirtækisins [D], sem sé í eigu varnaraðila, þar sem um erlent flugfélag hafi verið að ræða. Á vefsíðu fyrirtækisins hafi komið fram að fyrirtækið tæki 25% auk virðisaukaskatts af þeim bótum sem kynnu að greiðast af hálfu bótaskylds flugfélags. Ekkert gjald væri tekið ef bætur fáist ekki greiddar. Á grundvelli upplýsinga á heimasíðu fyrirtækisins hafi sóknaraðilar talið sig eiga rétt til skaðabóta að fjárhæð 400 evrur hvort.
Sóknaraðilar lýsa samskiptum við varnaraðila þannig að þau hafi undirritað umboð til hans til þess að gæta hagsmuna þeirra og sent honum þau gögn sem hann óskaði eftir, s.s. afrit af flugmiðum og ljósrit af vegabréfum.
Gögn málsins bera með sér að þann 4. mars 2022 hafi varnaraðili sent hinu bótaskylda flugfélagi bótakröfur f.h. sóknaraðila og farið fram á að bætur yrðu greiddar inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu hans. Í svari flugfélagsins 7. mars 2022 hafi komið fram að ekki væri heimilt að greiða bætur til annarra en sóknaraðila sjálfra auk þess sem óskað var eftir að sóknaraðilar fylltu út stöðluð eyðublöð. Í svari varnaraðila til flugfélagsins 11. mars 2022 hafi hann tjáð félaginu að hann myndi ekki fylla út umbeðin eyðublöð og ítrekað kröfu um að skaðabætur yrðu greiddar inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu sinnar. Sama dag hafi varnaraðili sent sóknaraðilum tölvupóst og tjáð þeim að þau þyrftu að undirrita málflutningsumboð til hans innan 5 daga, annars myndi stofnast krafa á hendur þeim fyrir 25% af væntanlegum bótum auk virðisaukaskatts. Sóknaraðilar hafi sent varnaraðila undirritað umboð þann 14. mars 2022.
Þann 1. nóvember 2022 hafi varnaraðili stefnt hinu erlenda flugfélagi f.h. sóknaraðila til greiðslu skaðabóta og stefnan verið birt lögmanni flugfélagsins þann 22. febrúar 2023. Fyrir dómi hafi verið lagðir fram tölvupóstar lögmanna í aðdraganda þingfestingar málsins. M.a. hafi komið þar fram að kröfur sóknaraðila væru óumdeildar en flugfélagið hafi ekki fengið nauðsynlegar upplýsingar frá varnaraðila til þess að efna þær. Sóknaraðilar telja að með því að afhenda lögmanni flugfélagsins ekki umbeðið staðlað form flugfélagsins og/eða umboð sóknaraðila þar sem staðfest var að varnaraðila væri heimilt að taka við greiðslu fyrir þeirra hönd, hafi varnaraðili staðið í vegi fyrir því að flugfélagið gæti greitt kröfur þeirra. Sóknaraðilar segjast ekki hafa haft vitneskju um að varnaraðili hafi stefnt flugfélaginu. Sóknaraðilar telja það í ósamræmi við góða lögmannshætti að varnaraðili hafi ekki upplýst sóknaraðila, sem umbjóðendur sína, um framvindu málsins. Varnaraðili hafi stofnað til málarekstursins að tilefnislausu, án þeirra vitneskju og ekki haft hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Undir þetta hafi verið tekið í dómi héraðsdóms þar sem dómurinn hafi talið að um viðtökudrátt hafi verið að ræða af hálfu sóknaraðila, sem í raun hafi verið viðtökudráttur varnaraðila, sem hafi virt hagsmuni sóknaraðila að vettugi og komið í veg fyrir að flugfélagið gæti greitt í samræmi við kröfur sóknaraðila.
Gögn málsins sýna að með tölvupósti 6. nóvember 2023, tveimur dögum fyrir þingfestingu málsins, hafi lögmaður flugfélagsins áréttað að gengið yrði frá greiðslu þegar umbeðin umboð bærust, auk þess sem félagið hafi boðist til að greiða vexti til þess að stuðla að farsælum lokum málsins, að því gefnu að málið yrði ekki þingfest heldur fellt niður án kröfu um málskostnað. Varnaraðili hafi svarað þeim tölvupósti daginn eftir og sagst tilbúinn að ljúka málinu með greiðslu höfuðstóls og vaxta auk 97.650 kr. málskostnaðar. Síðar sama dag hafi varnaraðili lýst þeirri skoðun sinni í tölvupósti til lögmanns flugfélagsins að hann teldi málið ekki þess eðlis að hann þyrfti að afla umboðs frá sóknaraðilum sérstaklega, enda lægi í hlutarins eðli að lögmenn stefndu ekki málum nema hafa til þess umboð. Sóknaraðilar benda á að varnaraðili hafi samt sem áður ekki talið tilefni til að upplýsa þau um þá fyrirætlan sína að fara að tilefnislausu með málið fyrir dóm.
Í tölvupóstsamskiptum lögmannanna síðar þann 7. nóvember 2023 ítrekaði lögmaður flugfélagsins að greiðsluskylda höfuðstóls kröfu sóknaraðila væri óumdeild auk þess sem félagið væri tilbúið að greiða sóknaraðilum vexti á kröfuna. Til þess að unnt væri að inna greiðslur af hendi þyrfti félagið að fá afrit umboðs sóknaraðila til varnaraðila til staðfestingar því að hann mætti taka við greiðslu fyrir þeirra hönd. Það umboð hafi aldrei verið lagt fram og því hafi skilyrði fyrir því að unnt væri fyrir flugfélagið að inna af hendi greiðslu til varnaraðila aldrei verið uppfyllt. Lögmaður flugfélagsins hafi áréttað að greiðsla höfuðstóls auk vaxta yrði innt af hendi um leið og umboð til að taka við greiðslu lægi fyrir.
Sóknaraðilar telja með vísan til framangreinds og þess sem fram komi í dómi héraðsdóms ljóst að varnaraðili hafi staðið í vegi fyrir því að flugfélagið gæti greitt umkrafðar bætur. Jafnframt sé ljóst að hefði varnaraðili sinnt þeirri skyldu sinni að gæta hagsmuna sóknaraðila með því að skila inn stöðluðu eyðublaði sem óskað var eftir og fyrirliggjandi umboði, hefði flugfélagið greitt bæturnar strax í mars 2022 og aldrei hefði þurft að koma til nokkurs kostnaðar í málinu, s.s. vegna stefnugerðar, stefnubirtingar eða annars. Málið hafi verið höfðað að tilefnislausu gegn flugfélaginu sem hafi ávallt haft greiðsluvilja en vantað upplýsingar svo unnt væri að greiða bæturnar. Auk þess megi ætla að dýrmætum tíma dómsins og töluverðum fjármunum málsaðila hafi verið sóað að ástæðulausu. Sóknaraðilar kveðast aldrei hefðu samþykkt tilefnislausan málarekstur fyrir dómi, hefði slíkt verið borið undir þau.
Gögn málsins bera með sér að þann 15. janúar 2024 hafi varnaraðili loks lagt fram fyrir dómi umboð sóknaraðila til hans til þess að taka við greiðslu skaðabóta úr hendi flugfélagsins. Um hafi verið að ræða umboð, dags. 12. mars 2022, sem varnaraðili hafði fengið sent þann 14. mars s.á. Að sögn sóknaraðila greiddi flugfélagið bætur að fjárhæð 59.124 kr. til hvors þeirra rúmri viku síðar, eða þann 24. janúar 2024, inn á fjárvörslureikning varnaraðila. Varnaraðili hafi ekki upplýst sóknaraðila um að greiðslan hafi borist, en sóknaraðilar hafi loks fengið bæturnar greiddar þann 14. mars 2024, að frádreginni 25% þóknun [D], í kjölfar þess að fjölmiðill hafi sett sig í samband við þau og spurst fyrir um niðurstöðu héraðsdóms í málinu.
Sóknaraðilar vísa til gagna málsins og segja ljóst að flugfélagið hafi boðið greiðslu höfuðstóls krafna þeirra, en farið fram á að sjá umboð varnaraðila til þess að taka við greiðslunni. Því boði hafi varnaraðili hafnað án samráðs við sóknaraðila. Undir rekstri málsins hafi flugfélagið ítrekað boð um greiðslu höfuðstóls krafnanna auk vaxta, gegn því að málið yrði fellt niður án málskostnaðar, en varnaraðili einnig hafnað því boði án samráðs við sóknaraðila, þar sem hann hafi ekki verið tilbúinn að ljúka málinu nema félagið greiddi málskostnað. Að mati sóknaraðila gefur þetta til kynna að varnaraðili hafi sett eigin hagsmuni framar hagsmunum sóknaraðila. Málskostnaður sem varnaraðili hafi ætlað flugfélaginu að greiða hafi orsakast af hans eigin gjörðum, sem hafi gengið gegn hagsmunum sóknaraðila.
Sóknaraðilar árétta að varnaraðili hafi höfðað mál gegn hinu bótaskylda flugfélagi án samráðs við þau og án þess að upplýsa sóknaraðila um sáttaboð flugfélagsins. Viðtekin venja og eðlilegir starfshættir lögmanna séu að fá samþykki umbjóðenda sinna fyrir málshöfðun, áður en dómsmál séu höfðuð. Einkum eigi það við í dómsmálum þar sem fjárhagslegir hagsmunir í málinu séu mun lægri en fyrirsjáanlegur kostnaður við rekstur þess. Hagsmunir hvors sóknaraðila, sem í húfi voru, hafi verið u.þ.b. 55.000 kr., en fyrirséð að málskostnaður, ef málið myndi tapast, yrði margföld sú fjárhæð, eins og komið hafi á daginn. Varnaraðili hafi ekki upplýst sóknaraðila um úrslit dómsmálsins eftir að dómur féll, heldur hafi þau frétt af málalyktum þegar blaðamaður hafði samband við þau. Hafi þau þá fyrst fengið vitneskju um að mál hafi verið höfðað í þeirra nafni, málið hafi tapast, og þau verið dæmd til þess að greiða gagnaðila málskostnað að fjárhæð 350.000 kr. Í kjölfarið hafi verið fjallað um málið í fjölmiðlum.
Eftir að frétt birtist um málið þann 14. mars 2024 hafi varnaraðili sent sóknaraðilum tölvupóst þar sem hann hafi hótað þeim ef þau drægju ummæli sín við blaðamann ekki til baka án tafar og áskilið sér allan rétt gagnvart þeim, þ.m.t. að höfða gegn þeim dómsmál. Einnig hafi varnaraðili átt í hótunum við móður annars sóknaraðila og birt færslu á Facebook síðu [D] þar sem hann hafi rakið málið með einhliða frásögn, talað niður til sóknaraðila, vísað til fjárhagsstöðu þeirra og birt skrifleg samskipti sín við þau auk ljósmyndar af vegabréfi annars sóknaraðila.
Sóknaraðilar telja að varnaraðili hafi ekki gætt hagsmuna þeirra af einurð og telja margt benda til þess að hann hafi tekið eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni þeirra. Slíkt gangi gegn 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Einnig kveðast sóknaraðilar telja viðtökudrátt varnaraðila á skaðabótum til þeirra frá flugfélaginu og það að varnaraðili hafi ekki upplýst sóknaraðila um að greiðsla hefði borist, fela í sér brot á 1. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna.
Sóknaraðilar fara fram á að úrskurðarnefnd lögmanna taki til skoðunar í fyrsta lagi háttsemi varnaraðila í heild sinni í störfum hans fyrir sóknaraðila, frá því að þau óskuðu fyrst eftir þjónustu hans og þar til dómur féll í máli gegn flugfélaginu þann […]. Í öðru lagi þá háttsemi varnaraðila að hóta sóknaraðilum og móður annars þeirra og í þriðja lagi þá háttsemi varnaraðila að birta án samþykkis viðkvæmar persónuupplýsingar um sóknaraðila á Facebook, þ.m.t. upplýsingar um fjárhagsstöðu sóknaraðila, afrit af samskiptum sínum við sóknaraðila, afrit af skjölum og gögnum málsins auk myndar af vegabréfi annars sóknaraðila.
Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa með háttsemi sinni hafa rýrt heiður lögmannastéttarinnar í lögmannsstörfum sínum sem og með öðrum athöfnum, sbr. færslu á samfélagsmiðli og hótunum í garð sóknaraðila, sem feli í sér brot á 2. gr. siðareglna lögmanna.
Sóknaraðilar segja hvorki [D] né varnaraðila hafa óskað eftir samþykki sóknaraðila fyrir miðlun persónuupplýsinga á umræddri Facebook síðu, þ.m.t. birtingu myndar af vegabréfi og benda á að skaði af birtingu slíkra upplýsinga geti verið verulegur. Þá hafi sóknaraðilar aldrei verið upplýst um að persónuupplýsingar þeirra kynnu á einhverjum tímapunkti að verða birtar á opinberum vettvangi með opinni færslu á Facebook eða annars staðar.
Sóknaraðilar telja ljóst að háttsemi varnaraðila brjóti gegn ákvæðum siðareglna lögmanna, laga um lögmenn, persónuverndarlaga, ákvæðum almennra hegningarlaga og lagareglna um friðhelgi einkalífs. Sóknaraðilar vísa til 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Að mati varnaraðila fullnægir vinnsla persónuupplýsinga af því tagi sem varnaraðili viðhafði ekki 1. mgr. 8. gr. persónuverndarlaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. persónuverndarreglugerðarinnar. Persónuupplýsingar sóknaraðila hafi ekki verið unnar með sanngjörnum og gagnsæjum hætti enda þær birtar án þeirra vitundar og samþykkis í þeim tilgangi að kasta rýrð á persónu þeirra. Einnig hafi nafn móður annars sóknaraðila, sem varnaraðili hafi haft í hótunum við, verið birt á umræddri Facebook færslu í sama tilgangi. Sóknaraðilar segja persónuupplýsinga þeirra hafa verið aflað í þeim tilgangi að innheimta kröfu þeirra á hendur flugfélaginu og birting þeirra á samfélagsmiðli, án þeirra vitundar og samþykkis, fari út fyrir þann tilgang. Einnig ríki trúnaðarsamband á milli lögmanns og umbjóðenda hans og þeir sem leiti til lögmanns eigi ekki að þurfa að eiga það á hættu að þau gögn sem afhent séu lögmanni eða samskipti umbjóðanda við lögmann séu birt á opinberum vettvangi.
Sóknaraðilar vísa til XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 228. gr. sömu laga, sbr. einnig 230. gr. Þá vísa sóknaraðilar til 1. mgr. 22. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 252/1998 og úrskurð persónuverndar í máli nr. 2021091877. Hvað friðhelgi einkalífs varðar vísa sóknaraðilar m.a. til 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, laga um lögmenn nr. 77/1998 og laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Loks vísa sóknaraðilar til ákvæða siðareglna lögmanna sem þau telja að hafi verið margbrotin, einkum ákvæða II. og III. kafla sem fjalla um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum og ákvæði um samskipti lögmanna og dómstóla. Nánar tiltekið vísa sóknaraðilar til 8., 10., 12., 14., 17. og 19. gr. siðareglna lögmanna.
Sóknaraðilar benda á að þau hafi sótt um staðlaðar [D] vegna seinkunar á flugi, sem eigi að vera nokkuð auðvelt ferli og rútínubundið og án nokkurra alvarlegra afleiðinga fyrir þann sem óskar slíkra bóta. Sú hafi ekki verið raunin fyrir sóknaraðila heldur hafi þau dregist, vegna háttsemi varnaraðila, inn í óskiljanlega atburðarás sem aldrei hefði átt að eiga sér stað. Sú atburðarás hafi valdið sóknaraðilum ekki einungis mikilli vanlíðan, svefnleysi og kvíða heldur sitji þau uppi með fjárhagslegt tjón upp á 267.000 kr. vegna lögmannskostnaðar þar sem ekki hafi verið hjá því komist fyrir sóknaraðila en að leita lögmannsaðstoðar til að verjast árásum og hótunum af hálfu varnaraðila.
II.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni. Til vara gerir varnaraðili þá kröfu að úrskurðað verði að hann hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila in solidum að fjárhæð 482.360 kr. óháð niðurstöðu málsins.
Varnaraðili mótmælir málavaxtalýsingu sóknaraðila sem röngum, ósönnum og villandi að því leyti sem hún samrýmist ekki málavaxtalýsingu hans. Varnaraðili segir málatilbúnað sóknaraðila svo óljósan, óglöggan, torskilinn og vanreifaðan að erfitt hafi verið að koma að vörnum í málinu. Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefnd og úrskurða um málskostnað til handa varnaraðila.
Þrátt fyrir að óglöggan málatilbúnað sóknaraðila segist varnaraðili líta svo á að umkvörtunarefni málsins séu helst fjögur atriði, þ.e.:
- Rekstur dómsmáls í nafni sóknaraðila án þeirra vitundar;
- Að dómsmál hafi verið höfðað að tilefnislausu;
- Að varnaraðili hafi hótað sóknaraðilum og móður annars sóknaraðilans;
- Að varnaraðili hafi birt viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra opinberlega.
Varnaraðili segir sóknaraðila hrapa að alls kyns ályktunum sem eigi það sammerkt að vera ýmist rangar eða algjörlega fráleitar. Auk þess sé ljóst að margar af fullyrðingum sóknaraðila um rekstur málsins séu einfaldlega lygar, sem sóknaraðilar viti vel að séu ósannindi.
Hvað fyrsta lið varðar bendir varnaraðili á að þegar sóknaraðilar hafi þann 4. mars 2022 óskað eftir milligöngu hans um innheimtu skaðabóta vegna tafa á flugi sem þau urðu fyrir þann 26. febrúar s.á., hafi þau þurft að merkja við að þau hefðu bæði lesið og skilið almenna notendaskilmála / þjónustusamning á vefsíðunni [D], sem hlekkur birtist á í umsóknarferlinu. Hvað umrædda notendaskilmála / þjónustusamning varði sé vefsíðan þannig upp sett að ekki sé hægt að senda inn umsókn eða beiðni til varnaraðila um innheimtu bóta af þessu tagi, nema þá aðeins að viðkomandi hafi staðfest með virkum hætti að hann hafi bæði lesið og skilið skilmála [D] og samþykkt þá.
Varnaraðili segir notendaskilmála / þjónustusamning vera afar skýra hvað varðar þær skyldur sem aðilar samningsins undirgangist. Í 2. gr. komi fram að umsækjendur samþykki að veita varnaraðila „málflutningsumboð, sem er fullt og ótakmarkað umboð til þess að afla allra gagna, s.s. skýrslna frá opinberum aðilum, leggja fram bótakröfu, semja um bætur, taka við bótum og höfða dómsmál ef þörf krefur til innheimtu bóta vegna atriða sem tilgreind eru í lið 1“. Auk þessa megi lesa út úr 5., 6., 7. og 14. gr. skilmálanna að innheimtuaðgerðir varnaraðila kunni að rata fyrir dómstóla.
Sama dag og sóknaraðilar hafi leitað til varnaraðila í gegnum vefsíðuna hafi varnaraðili sent flugfélaginu kröfubréf með tölvupósti og hefðbundnum bréfpósti og samtímis upplýst sóknaraðila, í tölvupósti, um að umsókn þeirra hafi verið móttekin og hvernig ferlið í málum sem þessum væri, s.s. þann tíma sem rekstur málsins gæti tekið, hvaða þóknun væri áskilin, auk þess sem hnykkt var á því að hægt væri að kynna skilmála þess viðskiptasambands sem sóknaraðilar hafi falist eftir.
Varnaraðili kveðst hafa fengið tölvupóst þann 7. mars 2022 frá flugfélaginu þar sem gerð hafi verið krafa um að fyllt yrði út sérstakt eyðublað frá félaginu og því skilað undirrituðu til félagsins, auk afrita af skilríkjum frá viðkomandi farþegum. Í umræddu eyðublaði þurfi að undirgangast mjög takmarkandi skilmála félagsins, þar sem farþegar þurfi að fallast á að flugfélagið viðurkenni ekki bótaskyldu auk þess sem farþegar afsali sér rétti til að halda fram öllum öðrum mögulegum kröfum á hendur flugfélaginu. Þá afsali farþegar sér rétti til vaxta á fjárhæðina og þurfi að veita flugfélaginu 60 daga greiðslufrest, frá þeim degi sem undirritað skjal berst félaginu.
Að mati varnaraðila er ljóst að framangreind skilyrði flugfélagsins séu í ósamræmi við ákvæði EB reglugerðar 261/2004 og reglugerðar 1048/2012, enda séu þau afar hamlandi. Útilokað sé fyrir varnaraðila að undirgangast þau f.h. viðskiptavina sinna, enda boði ákvæði 11. gr. reglugerðar 1048/2012 að neytendum dugi það eitt að tilgreina bankareikning sem bætur skuli greiddar inn á. Með því að samþykkja skilmála sem þessa, ættu farþegar hins vegar ekki kröfu þess efnis að farangur viðkomandi væri bættur, ef tjón hefur orðið á honum í flugi.
Af þessum sökum hafi varnaraðili hafnað kröfu flugfélagsins þessa efnis, sem ítrekað hafði verið gert áður í samskiptum við flugfélagið, með tölvupósti samdægurs 7. mars 2022. Varnaraðili segir flugfélagið ekki hafa brugðist við þeim pósti með neinum hætti og því hafi málið farið í stefnufarveg, enda fá önnur úrræði tæk til þess að knýja á um innheimtu bóta með bindandi og aðfararhæfum hætti.
Með tölvupósti 11. mars 2022 hafi varnaraðili óskað eftir afritum skilríkja frá sóknaraðilum sem og undirrituðu og vottuðu málflutningsumboði, hvar tilgreint hafi verið sérstaklega að sóknaraðilar heimiluðu varnaraðila að stefna málinu fyrir dómstóla. Sóknaraðilar hafi sent varnaraðila umbeðnar upplýsingar og undirrituð og vottuð málflutningsumboð þann 14. mars 2022.
Þann 6. maí 2022 hafi sóknaraðilinn [A] sent varnaraðila tölvupóst þar sem hún hafi spurst fyrir um afdrif máls sóknaraðila og hún verið upplýst um að tekið gæti nokkra mánuði að fá niðurstöðu í málum hjá umræddu flugfélagi, þegar málin væru komin í stefnufarveg.
Sóknaraðilinn [A] hafi aftur sent varnaraðila tölvupóst 14. febrúar 2023 til þess að kanna stöðu málsins og fengið svar um hæl þar sem ferlið hafi verið útskýrt vandlega og ítrekað að málið væri komið í stefnuferli. Enn á ný hafi sóknaraðilinn sent tölvupóst til varnaraðila þann 17. ágúst 2023 og óskað tíðinda og í svari varnaraðila samdægurs hafi hún verið upplýst um að mál sóknaraðila beggja væri í stefnuferli og sagt hvaða aðgerðir þyrfti að ráðast í.
Þann 14. desember 2023 hafi löglærður fulltrúi varnaraðila, sem hafi séð um utanumhald þessa málaflokks á lögmannsstofu varnaraðila, sent sóknaraðilum tölvupóst þar sem fram kom að málið væri komið fyrir dómstóla og óskað eftir afriti flugmiða. Fimm dögum síðar hafi sóknaraðilinn [A] svarað póstinum og sent umbeðin gögn.
Með vísan til framangreinds telur varnaraðili ljóst að fullyrðingar sóknaraðila, þess efnis að þau hafi ekki verið upplýst um framgang málsins, séu ekki sannleikanum samkvæmar.
Varnaraðili segir að ljóst hafi verið á þessum tímapunkti, í desember 2023, að umtalsverð vinna hafði farið í málið en, eins og rakið hafi verið í tölvupóstum til sóknaraðila, hafi stefna verið útbúin á íslensku, hún þýdd yfir á ítölsku og gögnin svo undirbúin og send til birtingar hjá sýslumanninum á Suðurnesjum. Eftir að gögnin hafi borist aftur þaðan hafi þau verið gerð til reiðu fyrir þingfestingu fyrir dómi. Því gefi augaleið að mál verði ekki felld niður án kostnaðar, eftir að hafa verið rekin í gegnum allt framangreint ferli, sem sé bæði kostnaðarsamt og tímafrekt, en séu allt að einu án nokkurs viðbótarkostnaðar fyrir sóknaraðila, að frádregnum 124 Evrum sem áskildar séu í þóknun takist innheimtan.
Varnaraðili segir rangt að flugfélagið hafi ávallt sýnt greiðsluvilja, en aðeins hafi vantað að varnaraðili sendi félaginu umboð og fyllti út eyðublað. Ljóst sé að flugfélagið hafi heldur ekki greitt bætur til þeirra farþega sem varnaraðili hafi sent umboð vegna. Við flutning málsins fyrir héraðsdómi hafi varnaraðili sent kröfubréf á félagið ásamt undirrituðum umboðum 27 einstaklinga, án þess að félagið hafi greitt nokkuð af kröfum þeirra. Hvað eyðublaðið varðar vísar varnaraðili til fyrri umfjöllunar þar að lútandi.
Í ljósi þess mikla tíma sem fari í rekstur mála af þessu tagi og slæmrar reynslu varnaraðila af samskiptum við umrætt flugfélag, sem ítrekað hafi svikið gefin loforð í öðrum málum sem varnaraðili hafi sinnt, hafi varnaraðili engan annan kost átt en að reka málið allt til enda fyrir dómi, eins samþykkt hafi verið af sóknaraðilum og þau ítrekað upplýst þar um.
Varnaraðili segir dóm í máli sóknaraðila hafa fallið þann […] sem hafi verið einum degi eftir að umsjónarmaður flugbótamála á lögmannsstofu hans hafi farið í fæðingarorlof. Degi áður hafi varnaraðili farið erlendis og ekki komið aftur til landsins fyrr en 5. mars 2024. Sökum þessa hafi fallið milli þilja að upplýsa sóknaraðila um niðurstöðu í málinu strax í kjölfar þess að hann féll. Þann 11. mars 2024 hafi varnaraðili fengið símtal frá blaðamanni sem hafi spurst fyrir um niðurstöðuna og hafi blaðamaðurinn upplýst varnaraðila um að sóknaraðilar hefðu fyrst heyrt af málinu þegar blaðamaðurinn hefði haft samband við þau. Strax í kjölfarið hafi varnaraðili sett sig í samband við sóknaraðila og beðist innilega afsökunar á því og upplýst þau um að málskostnaður yrði greiddur fyrir þeirra hönd.
Á sama tíma og auðvelt sé að útskýra hvað hafi farið úrskeiðis segir varnaraðili afar óheppilegt að sóknaraðilar hafi fyrst fengið upplýsingar um niðurstöðu málsins þegar blaðamaður hafði samband við þau. Um hafi verið að ræða augljós mannleg mistök, sem búið sé að biðjast afsökunar á með skriflegum hætti, auk þess sem lögmannsstofa varnaraðila hafi komið sér upp verklagi til að tryggja að sambærilegt endurtaki sig ekki.
Með vísan til framangreinds telur varnaraðili ljóst að mál sóknaraðila hafi ekki verið höfðað að tilefnislausu. Þvert á móti hafi varnaraðila ekki verið önnur úrræði tæk á þeim tíma sem málið var þingfest, auk þess sem sóknaraðilar hafi verið upplýstir vandlega og með nákvæmum hætti um hvað til stæði, í ítrekuðum tölvupóstum varnaraðila og starfsmanna hans, til þeirra.
Hvað hótanir varnaraðila í garð sóknaraðila og móður annars þeirra varðar, í kjölfar fréttaflutnings af máli sóknaraðila, sem varnaraðila virðist að eigi að hafa falist í því að hann hafi sagst „áskilja sér allan rétt gegn þeim, þ.m.t. að höfða gegn þeim dómsmál ef þau drægu ekki ummæli sín til baka“.
Varnaraðili vísar til þess að þann […] hafi birst frétt á vefmiðli um viðskipti sóknaraðila við varnaraðila undir fyrirsögninni „[…]“. Í greininni sé viðtal við sóknaraðilann [A] þar sem hún fullyrði ranglega og gegn betri vitund að sóknaraðilar hafi ekki haft hugmynd um málið og hafi reynt að hafa samband við lögmannsstofu varnaraðila en ekki fengið svar. Einnig hafi sóknaraðilinn fullyrt ranglega og gegn betri vitund að varnaraðili eða starfsmenn hans hafðu hætt að svara fyrirspurnum hennar um afdrif málsins.
Í yfirlýsingu sem hafi fylgt fréttinni hafi sóknaraðilar báðir, ranglega og gegn betri vitund, fullyrt að dómsmálið hafi verið höfðað að þeim forspurðum og að tilefnislausu. Þau hafi enn fremur upplýst um fjárhagsstöðu sína með því að vísa til þess að þau séu ung fjölskylda sem sé að streða við að kaupa sína fyrstu eign og að lögfræðingar í fjölskyldunni hafi verið orðlausir yfir því að málið hafi verið sett í þennan farveg og talið ósvífið að mál hafi verið rekið fyrir dómstólum í þeirra nafni að tilefnislausu. Auk þess hafi sóknaraðilar, rangleg og gegn betri vitund, lýst því að þau væru þakklát blaðamanni fyrir að hafa haft samband við þau því annars hefðu þau mögulega ekki heyrt neitt af málinu og bara fengið rukkun. Yfirlýsingu sóknaraðila hafi lokið með orðunum: „Það hlýtur að vera eitthvað rangt við það ef lögmönnum ber ekki að upplýsa umbjóðendur sína um hvaða skref eru tekin í málum sem þeim er falið að reka. Þá hlýtur að vera afar vafasamt að lögmaður fari með mál fyrir dóm að tilefnislausu“.
Varnaraðili vísar til framangreinds og telur að ljóst sé að bæði fréttin og yfirlýsing sóknaraðila sé uppfull af ósannindum og rangindum, sem sett hafi verið fram gegn betri vitund þeirra beggja. Til þess að gæta sanngirni hafi varnaraðili gefið sóknaraðilum færi á því að draga ósannindi sín til baka, með tölvupósti 14. mars 2024. Því boði hafi verið svarað með skætingi frá sóknaraðilanum [A] sama dag, sem aftur hafi orðið tilefni til andsvara varnaraðila, sem hafi varað sóknaraðila við því að ef ósannindin yrðu ekki dregin til baka áskildi varnaraðili sér allan rétt til að höfða mál gegn þeim. Aðvaranir eða hótanir um málsókn séu fullkomlega löglegar að íslenskum rétti.
Varnaraðili hafnar alfarið meintum hótunum í garð móður annars sóknaraðilans og bendir á að gögn málsins sýni ekki fram á að neinar hótanir hafi átt sér stað eða að móðir sóknaraðilans eigi nokkra aðild að máli því sem er til umfjöllunar fyrir nefndinni.
Varnaraðili segir sóknaraðila líta svo á að upplýsingar um fjárhagsstöðu sóknaraðila, afrit af samskiptum sóknaraðila við varnaraðila, afrit af skjölum og gögnum málsins auk myndbirtingar af vegabréfi annars sóknaraðila, falli undir skilgreiningu á viðkvæmum persónuupplýsingum. Þannig telji sóknaraðilar að birting varnaraðila á samskiptum hans við sóknaraðila hafi verið ólögmæt þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki þeirra fyrir birtingunni. Varnaraðili vísar til þess að Persónuvernd fari með eftirlit með framkvæmd VI. kafla reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins 2016/679 og lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Að mati varnaraðila ganga ákvæði laga nr. 90/2018 framar lögum um lögmenn nr. 77/1998 hvað varðar umfjöllun um möguleg brot gegn fyrrnefndu lögunum í ljósi lögskýringarreglna um að ný lög gangi framar eldri lögum annars vegar og hins vegar þar sem í lögum nr. 90/2018 séu sérreglur um meðferð persónuupplýsinga og vinnslu þeirra og hvernig málsmeðferð skuli háttað, vakni grunur um brot gegn reglunum. Engar slíkar reglur sé að finna í lögum nr. 77/1998 sem vísi aðeins með almennum hætti til þeirra úrræða sem tæk séu þeim sem telji að lögmaður hafi í starfi sínu brotið gegn lögum eða reglum. Varnaraðili vísar til umfjöllunar í greinargerð með frumvarpi sem varð að persónuverndarlögum nr. 90/2018, nánar tiltekið til umfjöllunar um 39. gr. laganna. Þar komi fram að telji nokkur að vinnsla persónuupplýsinga hér á landi brjóti í bága við ákvæði EB reglugerðarinnar eða ákvæði fyrrnefndra laga, geti viðkomandi skotið málinu til Persónuverndar sem geti úrskurðað um hvort brot hafi átt sér stað. Af því leiðir að mati varnaraðila að úrskurðarnefnd lögmanna sé ekki bær til að fjalla um möguleg brot gegn lögum nr. 90/2018, nema þá aðeins að Persónuvernd hafi áður úrskurðað að lögmaður hafi brotið gegn ákvæðum laganna.
Þá telur varnaraðili að þær upplýsingar sem hann birti á Facebook síðu [D] falli ekki undir skilgreiningu á viðkvæmum persónuupplýsingum. Jafnframt bendir hann á að sóknaraðilar hafi átt frumkvæði að umfjöllun um fjárhagsstöðu sína með yfirlýsingu sinni til fjölmiðla. Afrit af samskiptum varnaraðila við sóknaraðila hafi verið birt til þess að sýna fram á ósannindi sem þau hafi fært fram í fjölmiðlum. Málflutningur sóknaraðila hafi verið ófyrirleitinn og kallað á tafarlaus viðbrögð af hálfu varnaraðila, svo hægt væri að stemma stigu við því tjóni sem þau hafi reynt að valda. Ekki hafi þurft að afla sérstakrar heimildar frá sóknaraðilum til birtingarinnar þar sem birting gagnanna, sem hafi sýnt fram á að sóknaraðilar hefðu farið með ósannindi, stuðst við 4. og 6. tl., 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018. Auk þess bendir varnaraðili á að tjáningarfrelsi lögmanna sé varið í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Þegar svo hátti til, sem gert hafi í umræddu máli, þar sem sóknaraðilar hafi farið ranglega með staðreyndir, múlbindi trúnaðarskylda lögmanna þá ekki eða komi í veg fyrir að þeir geti farið hendur sínar. Vísar varnaraðili til niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli 28198/09 frá 15. desember 2011.
Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili ljóst að úrskurðarnefnd lögmanna sé ekki bær til þess að fjalla um möguleg brot gegn ákvæðum laga nr. 90/2018. Jafnframt sé ljóst að varnaraðili hafi engin ákvæði laganna brotið með háttsemi sinni, þegar hann hafi hrakið ósannindi sóknaraðila í færslu á Facebook síðu [D].
Varnaraðili ítrekar gerðar kröfur um frávísun málsins og málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
III.
Sóknaraðilar hafna málatilbúnaði varnaraðila um að málavextir eins og þeir voru settir fram í kvörtun hafi verið rangir, ósannir og villandi og segja þá fullyrðingu hans órökstudda með öllu. Varnaraðilar hafna því að vísa beri málinu frá enda hafi málavaxtalýsing þeirra byggt á staðreyndum sem að mestu hafi verið rakin í dómi í máli E-[…]. Málið hafi verið rekið án þeirra vitundar og öll vitneskja um það sem fram fór við málareksturinn og í aðdraganda hans hafi verið fengin úr því fram kom í dóminum. Með því að halda því fram að um ósannindi hafi verið að ræða varpi varnaraðili skugga á störf dómsins og sýni störfum hans vanvirðingu.
Sóknaraðilar vísa til niðurstöðu Neytendastofu í ákvörðun nr. […] frá […] þar sem Neytendastofa hafi m.a. komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki varnaraðila, [E] ehf., hafi brotið gegn 1. mgr. 13. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, með því að áskilja sér rétt til að tilkynna ekki neytanda um málshöfðun áður en mál er höfðað. Jafnframt hafi Neytendastofa komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðum 1. mgr. 8. gr. og g-lið 1. mgr. 9. gr., sbr. 5. gr. sömu laga, í skilmálum félagsins um kostnað neytanda við að falla frá samningi. Enn fremur að fyrirtækið hafi brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 12. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 16/2016 um neytendasamninga, f-lið 1. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 9. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 57/2005 og 3. og 4. gr. reglna nr. 537/2011 um verðupplýsingar við sölu á þjónustu, með því að birta ekki upplýsingar um endanlegt verð á forsíðu félagsins þar sem þjónusta þess er auglýst og rétt áður en neytandi gengur frá kaupum. Í ákvörðuninni hafi Neytendastofa bannað [E] ehf., að viðhafa fyrrnefnda viðskiptahætti með vísan til 2. mgr. 21. gr. c. laga nr. 57/2005 og 3. mgr. 27. gr. laga nr. 16/2016 og beint þeim fyrirmælum til fyrirtækisins að koma skilmálum á vefsíðunni [D] í viðeigandi horf, í samræmi við ákvæði laga, ellegar yrði félagið beitt dagsektum.
Sóknaraðilar vísa til 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 sem kveður á um að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og leita allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Að mati sóknaraðila er ótækt og óásættanlegt fyrir hinn almenna borgara að eiga það á hættu að vera dreginn inn í viðlíka atburðarás af lögmanni sínum og sóknaraðilar hafi lent í. Ákvæði 18. gr. laga um lögmenn sé skýrt hvað varðar hlutverk lögmanna og skyldur hans gagnvart umbjóðendum sínum. Ljóst megi vera bæði af niðurstöðu Neytendastofu og dómi í máli E-[…] að varnaraðili hafi ekki virt þessa grundvallarreglu í störfum sínum auk annarra lagaákvæða og ákvæða siðareglna lögmanna sem vísað var til í kvörtun. Sóknaraðilar hafi af þessum ástæðum séð sig tilneydd til að vekja athygli úrskurðarnefndar lögmanna og Persónuverndar á þeirri atburðarás sem þau hafi dregist inn í er þau sóttu um [D] hjá fyrirtæki varnaraðila. Sóknaraðilar telja afstöðu varnaraðila í greinargerð hans endurspegla viðhorf hans til málsins og varpa enn skýrara ljósi á hve ranga hugmynd hann hafi um skyldur sínar og störf í þágu umbjóðenda sinna. Eigi það bæði við um viðskiptahætti hans í störfum hans við að innheimta [D], rekstur slíkra mála, afstöðu hans til brota gegn trúnaðar- og þagnarskyldu og myndbirtingar af vegabréfi umbjóðanda síns á samfélagsmiðlum. Afstaða lögmannsins til framangreindra brota er að mati sóknaraðila verulegt áhyggjuefni.
Sóknaraðilar hafna staðhæfingum varnaraðila um að þau hafi farið með málið í fjölmiðla sem röngum. Blaðamaður hafi að eigin frumkvæði haft samband við sóknaraðila og upplýst þau um að dómur hafi fallið í máli sem þau hafi höfðað gegn umræddu flugfélagi. Sú atburðarás, þ.e. að dómsmál hafi verið rekið í þeirra nafni, hafi komið þeim í opna skjöldu og þau hafi enga vitneskju haft þar um. Sóknaraðilar segjast ekki hafa veitt blaðamanni viðtal heldur hafi hann byggt frásögn sína á örfáum svörum sóknaraðila er hann hringdi í þau án fyrirvara og tilkynnti þeim um niðurstöðu málsins og þann málskostnað sem þau voru dæmd til að greiða gagnaðila. Aðrar upplýsingar sem birst hafi í umræddri frétt hafi blaðamaður sjálfur haft forgöngu um að afla sér, væntanlega úr dóminum sjálfum. Sóknaraðilar hafi engu haft ráðið um birtingu fréttarinnar og ekki haft neinn áhuga á að vekja athygli á málinu. Að mati þeirra sé því ekkert sem réttlæti það að lögmaður brjóti trúnaðar- og þagnarskyldu með jafn grófum hætti og varnaraðili hafi gert. Því síður sé nokkuð sem réttlæti það að lögmaður virði algerlega að vettugi öll ákvæði er snúa að trúnaði við umbjóðendur sína ef fjölmiðill ákveður að fjalla um vafasama háttsemi lögmanns.
Sóknaraðilar ítreka að Neytendastofa hafi þegar úrskurðað um að það að áskilja sér rétt til að tilkynna ekki neytanda um málshöfðun áður en mál er höfðað, feli í sér brot á ákvæðum laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Rekstur dómsmáls í nafni sóknaraðila hafi því bæði verið ólöglegur og siðlaus, enda fjárhagslegir hagsmunir í málinu mun lægri en fyrirsjáanlegur kostnaður við rekstur þess. Sóknaraðilar ítreka þá afstöðu sína að varnaraðili hafi stofnað til umrædds dómsmáls að tilefnislausu. Hann hafi aldrei gefið sóknaraðilum tækifæri á að taka afstöðu til tilboðs flugfélagsins heldur hafi, að því er virðist, látið eigin hagsmuni ganga framar hagsmunum umbjóðenda sinna. Staðfest hafi verið með dómi héraðsdóms að greiðsluskylda flugfélagsins hafi verið óumdeild frá upphafi en háttsemi varnaraðila staðið því í vegi að félagið gæti efnt þá skyldu. Allt þetta hafi farið fram án vitneskju sóknaraðila.
Í kjölfarið hafi varnaraðili þverbrotið ákvæði um trúnaðar- og þagnarskyldu með birtingu allra samskipta sinna við umbjóðendur sínar á opinberum vettvangi, auk myndar af vegabréfi annars sóknaraðila.
Sóknaraðilar telja háttsemi varnaraðila til þess fallna að grafa undan trausti almennings til lögmannastéttarinnar.
Vegna kröfu varnaraðila um lögmannskostnað benda sóknaraðilar á að sá kostnaður sem nefndur hafi verið í kvörtun hafi aðeins verið sá lögmannskostnaður sem þegar hafi verið greiddur áður en kvörtun í máli þessu var beint til nefndarinnar. Þá hafi verið ótalinn kostnaður vegna vinnu við tilkynningu til Persónuverndar og kvörtunar til úrskurðarnefndar lögmanna, auk viðbótargreinargerðar, en áætla megi að um sé að ræða 30 klukkustunda vinnu sem á því tímagjaldi sem varnaraðili reikni sér nemi 1.447.080 kr. sem sóknaraðilar gera kröfu um að fá greiddar úr hendi varnaraðila. Jafnframt krefjast sóknaraðilar lögmannskostnaðar úr hendi varnaraðila að fjárhæð 267.000 kr. vegna vinnu lögmanns sem þau segjast hafa þurft að ráða til þess að verjast árásum varnaraðila á fyrri stigum málsins. Þá sé enn ótalinn miski og röskun á einkalífi sóknaraðila sem málið hafi valdið þeim með tilheyrandi kvíða og vanlíðan. Samtals krefjast sóknaraðilar málskostnaðar að fjárhæð 1.714.080.- úr hendi varnaraðila að meðtöldum virðisaukaskatti.
IV.
Varnaraðili ítrekaði mótmæli sín við málavöxtum, málsástæðum og lagarökum sóknaraðila, bæði í kvörtun og viðbótargreinargerð. Þá ítrekaði varnaraðili aðalkröfu um frávísun málsins frá nefndinni. Varnaraðili vísar til fyrri greinargerðar sinnar þar sem sýnt hafi verið fram á að sóknaraðilar hafi ranglega fullyrt að þeir hafi verið ómeðvitaðir um rekstur málsins E-[…] fyrir héraðsdómi Reykjaness og vísað til gagna þar að lútandi. Sóknaraðilar hafi hins vegar engar tilraunir gert til að færa sönnur á rangindi sín og staðhæfingar.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðilar hafi enga aðild átt að máli Neytendastofu sem endaði með ákvörðun nr. 21/2024. Samkvæmt meginreglu í stjórnsýslurétti hafi úrskurðir stjórnvalda ekki ótvírætt fordæmisgildi hjá öllum öðrum borgunum í svipaðri stöðu. Varnaraðili hafnar því að fyrrnefnd ákvörðun feli í sér sönnun fyrir því að málflutningur sóknaraðila eigi við rök að styðjast. Varnaraðili vísar til dóma Hæstaréttar í málum nr. 561/2010 og 596/2012. Þá vísar varnaraðili til þess að þau atriði sem sóknaraðilar nefni snúi ekki nema að mjög litlu leyti að atriðum sem séu til umfjöllunar í máli þessu og því sé fordæmisgildið enn minna en ella.
Varnaraðili segir rangt að sóknaraðilar hafi ekki veitt blaðamanni viðtal um mál sín og þannig opnað dyrnar fyrir því að ósannindum þeirra yrði svarað. Flestum sé vel kunnugt að þegar blaðamenn hringi í fólk sé hann að afla upplýsinga um eitthvað sem mögulega kunni að vera fréttnæmt. Viðmælendur blaðamanna séu í viðtali, sem komi til með að verða birt með opinberum hætti, nema um annað sé sérstaklega samið fyrir fram. Varnaraðili hafnar því alfarið að hann hafi brotið gegn trúnaðar- og þagnarskyldu sinni gagnvart sóknaraðilum og segir sóknaraðila hvergi geta þess í hverju nákvæmlega slík brot eigi að hafa falist. Sé þar átt við færslu varnaraðila á Facebook hafi sú yfirlýsing aðeins falið í sér andsvör við ósmekklegum lygum sóknaraðila í viðtali við blaðamann, þar sem hann hafi farið skipulega yfir lygarnar og sýnt fram á að um hafi verið að ræða ósannindi.
Varnaraðili ítrekar að tjáningarfrelsi lögmanna sé varið í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Undantekningar frá reglunni um trúnað milli lögmanna og skjólstæðinga þeirra eigi við í aðstæðum þar sem skjólstæðingur stígur fram með ámælisverðum hætti, s.s. eins og að segja ósatt um lögmanninn eða störf hans, rægja hann eða ásaka um einhvers konar misferli. Að mati sóknaraðila eiga umræddar undantekningar að fullu við í máli þessu. Varnaraðili vísar til dóma hæstaréttar Frakklands í máli nr. 10-82.979 frá 16. febrúar 2011 og nr. 07-13.684 frá 13. nóvember 2008, dóms Court of Appeal, Civil Division, í máli nr. 86/0591 frá 27. júní 1987, dóms Bundesgerichtshof í máli nr. IVa ZR 196/82 frá 9. maí 1984 og IX ZR 91/07 frá 13. desember 2007, dóma hæstaréttar Ítalíu í máli nr. Cass., sez. III, 23/06/2010, 15208 frá 23. júní 2010 og Cass., sez. II, 25/01/2007, 1637 og dóma hæstaréttar Hollands í máli nr. NJ 1999, 123 frá 25. september 1998 og NJ 2003, 551 frá 21. mars 2003.
Að mati varnaraðila sýna tilvitnaðir dómar hvernig evrópskir dómstólar hafi nálgast trúnaðarskyldu lögmanna gagnvart umbjóðendum sínum og að til sé ólögfest regla sem heimili lögmönnum að bregðast við þegar þeim sé nauðsynlegt að verjast óheiðarlegum fyrrum umbjóðendum sínum sem ásaki þá um að vera ófaglegir eða eitthvað þaðan að verra. Þó að trúnaður lögmanns og skjólstæðings sé grundvallarregla þá sé hann ekki alger, sérstaklega þegar réttur lögmanns til réttlátrar málsmeðferðar eða starfsheiður er í húfi. Þannig eigi undantekningar við þegar umbjóðandi hefur sakað lögmann um vanrækslu eða faglegt misferli, en verði þó aðeins beitt í aðstæðum þar sem þær séu algerlega nauðsynlegar fyrir vörn lögmannsins. Varnaraðili telur sýnt fram á að sú meginregla gildi í evrópskum rétti að lögmönnum sé heimilt að bregðast við ásökunum í þeirra garð með því að víkja frá trúnaðarskyldu sinni gagnvart umbjóðendum sínum, þegar um sjálfsvörn sé að ræða. Varnaraðili telur að sér hafi verið óhjákvæmilegt annað en að greina frá sannleika málsins eftir að sóknaraðilar hafi bakað honum ómælt tjón með ósannindum sínum í fjölmiðlum.
Varnaraðili vísar jafnframt til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 12323/11, 23224/94, 13710/88 og 49176/11 þar sem fjallað hafi verið um trúnaðarskyldu lögmanna og frávik frá henni. Að mati varnaraðila má lesa út úr dómaframkvæmd dómstólsins að til sé undantekning frá meginreglunni sem heimili að vikið sé frá trúnaðarskyldu lögmanna, svo framarlega sem um sé að ræða frávik sem sé hlutfallslegt og taki mið af þeim lögmæta tilgangi sem að er stefnt, s.s. að verjast ásökunum frá fyrrum skjólstæðingi. Þá megi frávikið ekki vera meira íþyngjandi fyrir fyrrum umbjóðanda lögmannsins en nauðsynlegt er.
Varnaraðili vísar til ákvæða 239. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er snúa að orðhefnd, sbr. og 234. og 235. sömu laga, reglunnar um orðhefnd í Grágás og dóma Hæstaréttar í málum 1965:706, 1995:774, 1998:1376 og 36/2023. Til þess að orðhefnd leysi viðkomandi undan ábyrgð sé skilyrði að jafnt sé á milli frummeiðingarinnar og endurgjaldsins, eins og rakið sé í grein Eiríks Jónssonar, Landsréttardómara, Miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar gegn æru, sem birtist í 1. tbl. Úlfljóts – tímarits laganema árið 2007. Að mati varnaraðila helst það sjónarmið algerlega í hendur við þau sjónarmið sem orðið hafa ofan á í réttarframkvæmd einstakra Evrópuríkja, sem og réttarframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.
Varnaraðili hafnar með öllu kröfum sóknaraðila um málskostnað eða annan kostnað. Hann ítrekar kröfu um frávísun málsins og málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, samtals að fjárhæð 1.640.024 kr.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
Samkvæmt 18. gr. laga un lögmenn ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Lögmaður ber þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Starfsmaður lögmanns er einnig bundinn þagnarskyldu um slík trúnaðarmál sem hann kann að komast að vegna starfa sinna, sbr. 22. gr. laga um lögmenn.
Lögmaður skal gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum, sbr. 2. gr. siðareglna lögmanna.
Samkvæmt 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.
Lögmanni er rétt að áskilja sér hæfilega þóknun fyrir störf sín. Við mat á því hvað telst hæfileg þóknun er m.a. heimilt að líta til umfangs og eðlis máls, undirliggjandi hagsmuna, þýðingar fyrir skjólstæðing, árangurs, þess tíma sem krafist er að varið sé í mál af hálfu lögmannsins, sérhæfingar hans og þeirrar ábyrgðar sem starfanum fylgir, sbr. 1. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. er lögmanni heimilt að áskilja sér þóknun í hlutfalli við fjárhagslegan ávinning af málarekstri. Lögmaður skal upplýsa skjólstæðing sinn um á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. skal lögmaður leitast við að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir hver kostnaður af máli gæti orðið í heild sinni og vekja athygli hans ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi eru.
Samkvæmt 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni, sem tekur að sér verkefni, að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni án ástæðulauss dráttar að gera skjólstæðingi skil á innheimtufé og öðrum fjármunum, er lögmaður hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skulu uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skulu vera greinargóð.
Í 17. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður sé bundinn þagnarskyldu gagnvart skjólstæðingi sínum vegna starfa sinna og að þagnarskyldan gildi ótímabundið. Allar upplýsingar um skjólstæðing eða málefni hans sem lögmaður tekur við eða verður áskynja í starfi eru háðar þagnarskyldu óháð því hvaðan upplýsingarnar eru komnar.
Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður eftir sem áður gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi af fullri einurð og heiðarleika og án tillits til eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra.
II.
Varnaraðili krafðist frávísunar málsins frá nefndinni á þeim forsendum að málatilbúnaður sóknaraðila væri svo óljós, óglöggur, torskilinn og vanreifaður að erfitt hafi verið að koma að vörnum í málinu. Að mati nefndarinnar eru engir þeir annmarkar á erindi sóknaraðila sem leiða til þess að rétt sé að vísa málinu frá. Í kvörtun kemur skýrt fram að henni sé beint til nefndarinnar vegna háttsemi varnaraðila sem sóknaraðilar telji að stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, auk þess sem nefndin telur að málavöxtum og þeirri háttsemi sem kvörtun lýtur að sé þar lýst með fullnægjandi hætti. Er kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá nefndinni því hafnað.
III.
Með tölvupósti 5. júlí 2024 upplýsti varnaraðila nefndina um að gengist hefði verið í róttækar breytingar á starfsemi lögmannsstofu hans sem rekin hafi verið undir merkjum [D]. Breytingar hafi verið gerðar á kerfum og útliti vefsíðunnar [D]. Þá hafi verið ákveðið að stofan taki ekki að sér nein frekari verkefni er snúi að innheimtu [D] fyrir neytendur, en verkefni sem stofan hafi þegar tekið að sér verði þó kláruð.
IV.
i.
Kvörtun lýtur í fyrsta lagi að störfum varnaraðila fyrir sóknaraðila vegna innheimtu bóta frá flugfélaginu Neos vegna seinkunar á flugi þeirra frá Veróna á Ítalíu til Keflavíkur þann 26. febrúar 2022. Gögn málsins bera með sér að sóknaraðilar hafi falið varnaraðila innheimtu bótanna þann 4. mars 2022 í gegnum vefsíðu hans [D]. Þann 11. mars 2022 hafi varnaraðili tjáð sóknaraðilum að flugfélagið hafi svarað kröfu sem hann hafi sent f.h. sóknaraðila með því að krefjast umboðs og afrits af skilríkjum og óskaði eftir að sóknaraðilar sendu undirrituð umboð og afrit af skilríkjum fyrir 16. mars s.á. Í póstinum kom ekki fram afstaða flugfélagsins til kröfu sóknaraðila að öðru leyti en að áðurnefndra gagna hefði verið krafist. Sóknaraðilar sendu umbeðin gögn með tölvupósti til varnaraðila þann 14. mars 2022 og varnaraðili staðfesti móttöku þeirra daginn eftir. Gögn málsins bera með sér að sóknaraðilar hafi sent varnaraðila tölvupóst 6. maí 2022 og spurst fyrir um stöðu málsins. Svar frá varnaraðila hafi borist samdægurs og hljóðaði svo: „Það getur tekið nokkuð marga mánuði að fá út úr málum hjá Neos, þegar málin eru komin í stefnufarveg.“. Þann 14. október 2022 sendi varnaraðili staðlaðan tölvupóst þar sem óskað var eftir afriti af flugmiða, brottfararspjaldi eða kvittun vegna innheimtu [D]. Þann 17. október sl. sendu sóknaraðilar afrit af flugmiðum sínum og staðfesti varnaraðili móttöku samdægurs. Þá bera gögn málsins með sér að sóknaraðilar hafi spurst fyrir um gang málsins með tölvupóstum 14. febrúar 2023 og 17. ágúst 2023 og fengið staðlað svar til baka þess efnis að ef liðnir væru meira en 20 dagar frá því að umsókn um innheimtu bóta hafi verið send sé málið komið í stefnuferli sem fæli í sér að stefna væri útbúin á íslensku og þýdd yfir á tungumál félagsins, hún síðan birt og send lögmanninum til baka. Að því loknu væri hægt að þingfesta málið og að gengnum dómi í málinu yrði greiðslu krafist á grundvelli hans eða eignir félagsins kyrrsettar. Í póstinum kemur fram að ferlið geti tekið 12-18 mánuði og þegar bætur berist frá flugfélaginu séu þær greiddar út samdægurs. Í tölvupósti starfsmanns á lögmannsstofu varnaraðila 14. desember 2023 kom fram að málið þeirra væri komið fyrir dómstóla og óskað eftir afritum af flugmiðum þar sem áðursendir flugmiðar hafi verið vegna annars flugs en málið varðaði. Sóknaraðilinn [A] svaraði tölvupóstinum þann 19. desember 2023 og sendi umbeðin gögn sama dag. Gögn málsins bera ekki með sér að önnur samskipti hafi átt sér stað á milli aðila fyrr en þann 14. mars 2024, eftir að blaðamaður hafði upplýst sóknaraðila um niðurstöðu í máli E-[…].
Samkvæmt gögnum málsins, þ.m.t. dóms héraðsdóms Reykjaness í máli […] var bótaskylda flugfélagsins óumdeild frá upphafi og skilyrði þau sem félagið fór fram á að uppfyllt yrðu til þess að unnt væri að efna þá skyldu í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 1048/2012. Varnaraðili færði þau rök fyrir neitun um að fylla út stöðluð eyðublöð eins og flugfélagið fór fram á, að með því hefðu sóknaraðilar afsalað sér frekari kröfum á hendur flugfélaginu, þ.m.t. vegna tjóns á farangri. Þau rök koma ekki til álita í máli þessu enda lá fyrir frá upphafi að ekki var um slíkt tjón að ræða í tilfelli sóknaraðila eða að þau hygðust gera frekari kröfur á hendur flugfélaginu en um staðlaðar bætur vegna seinkunar á flugi. Varnaraðila mátti vera ljóst að hagsmunir sóknaraðila fælust í því að fá greiddar skaðabætur vegna seinkunar á flugi, skv. reglugerð nr. 1047/2012, sbr. reglugerð EB nr. 261/2004, eins fljótt og unnt væri og bar að reka mál þeirra áfram með hæfilegum hraða, sbr. 1. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna. Í málsatvikalýsingu í héraðsdómi kemur fram að af hálfu flugfélagsins hafi beiðni um að umrædd eyðublöð yrðu fyllt út hafi verið ítrekuð þann 11. mars 2022 og óskað eftir afriti af persónuskilríkjum sóknaraðila eða umboði þeirra til varnaraðila. Varnaraðili hafi ekki svarað erindinu og framlögð gögn beri ekki með sér að frekari samskipti hafi átt sér stað á milli málsaðila fyrr en þann 20. október 2023 þegar lögmaður flugfélagsins hafi upplýst að fjárkröfur sóknaraðila væru óumdeildar en nauðsynlegar upplýsingar skorti til að efna þær. Í aðdraganda þingfestingar málsins þann 8. nóvember 2023 hafi þessi afstaða flugfélagsins verið ítrekuð en varnaraðili ekki orðið við því að afhenda umbeðin gögn. Í þinghaldi í málinu 15. janúar 2024 hafi varnaraðili loks lagt fram umboð þeirra beggja til varnaraðila, dagsett 12. mars 2022. Hinn 24. janúar 2024 hafi flugfélagið greitt höfuðstól krafna sóknaraðila, kr. 59.124 til hvors þeirra, inn á fjárvörslureikning varnaraðila. Þrátt fyrir það hafi varnaraðili haldið málarekstrinum áfram, án samráðs við sóknaraðila, hvað varðaði dráttarvexti á kröfur þeirra og málskostnað. Niðurstaða dómsins var sú að um viðtökudrátt hefði verið að ræða af hálfu sóknaraðila og var kröfu um dráttarvexti því hafnað og sóknaraðilar dæmd til að greiða flugfélaginu 350.000 kr. í málskostnað.
Að framangreindu virtu telur nefndin ljóst að varnaraðili hafi ákveðið að höfða mál í nafni sóknaraðila þrátt fyrir að vita að þeir hagsmunir, sem þau höfðu falið honum að gæta, hafi verið í höfn. Með því skuldbatt hann sóknaraðila jafnframt til greiðslu málskostnaðar, tapaðist málið. Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafði ekki samráð við sóknaraðila um höfðum dómsmálsins og upplýsti þau ekki um að flugfélagið hefði lýst greiðsluvilja gegn afhendingu tiltekinna gagna í mars 2022, og aftur í aðdraganda þingfestingar málsins í október og nóvember 2023. Nefndin telur að varnaraðila hafi borið að afla samþykkis sóknaraðila fyrir málshöfðuninni áður en til hennar kom. Í því sambandi bar varnaraðila að kynna sóknaraðilum réttarstöðu þeirra og veita þeim allar nauðsynlegar upplýsingar þannig að þau gætu tekið upplýsta ákvörðun um hvort dómsmál yrði höfðað eða ekki. Af gögnum málsins má ráða að sóknaraðilum hafi verið kunngjört að málinu kynni að vera stefnt ef flugfélagið greiddi ekki kröfur þeirra og að þann 14. desember 2023 hafi þau verið upplýst um að málið væri komið fyrir dómstóla. Hins vegar hafi þau hvorki verið upplýst um að hagsmunir þeirra væru þá þegar í höfn né að fallið gæti á þau málskostnaður sem væri margföld fjárhæð þeirra hagsmuna, eins og skylt var skv. 4. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna.
Fyrir liggur að varnaraðili upplýsti sóknaraðila hvorki um að flugfélagið hefði greitt höfuðstól kröfu þeirra þann 24. janúar 2024 né um niðurstöðu dómsmálsins, sem þau fengu fyrst fregnir af frá blaðamanni þann 11. mars 2024. Varnaraðili greiddi bæturnar til sóknaraðila þann 14. mars s.á. Sá dráttur sem varð á að varnaraðili gerði sóknaraðilum skil á fjármunum var í ósamræmi við 1. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna að mati nefndarinnar.
Nefndin telur framangreinda háttsemi varnaraðila fela í sér brot gegn 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, 1. mgr. 8. gr., 4. mgr. 10. gr., 12. gr. og 1. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna.
ii.
Í öðru lagi varðar kvörtun hótanir varnaraðila í garð sóknaraðila og móður annars sóknaraðilans í kjölfar fréttaflutnings af máli þeirra þann […]. Að mati nefndarinnar fólu tölvupóstar varnaraðila til sóknaraðila 14. mars 2024 ekki í sér hótanir gagnvart sóknaraðilum þó varnaraðili hafi áskilið sér „allan rétt“ gagnvart þeim, þ.m.t. til þess að höfða gegn þeim dómsmál. Þá sýna gögn málsins ekki fram á að varnaraðili hafi hótað móður annars sóknaraðilans eins og haldið er fram í kvörtun.
iii.
Í þriðja lagi lýtur kvörtun að þeirri háttsemi varnaraðila að birta persónuupplýsingar sóknaraðila og gögn sem hann hafi verið bundinn þagnarskyldu um, opinberlega í færslu á Facebook. Varnaraðili byggir á því að honum hafi verið nauðsynlegt að birta umræddar upplýsingar og gögn til þess að verjast rangfærslum sóknaraðila í yfirlýsingu þeirra til fjölmiðla vegna málsins. Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að nokkuð sem fram kom í samtali eða yfirlýsingu sóknaraðila til fjölmiðilsins hafi orðið til þess að varnaraðila hafi verið heimilt að rjúfa þagnarskyldu sem á honum hvíldi gagnvart sóknaraðilum með þeim hætti sem hann gerði. Að mati nefndarinnar braut varnaraðili gegn trúnaðar- og þagnarskyldu sinni gagnvart sóknaraðilum með birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga þeirra. Fól birtingin í sér brot á 22. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og 17. gr. siðareglna lögmanna.
iv.
Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn 18. og 22. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og ákvæðum 1. mgr. 8. gr., 4. mgr. 10. gr., 12. gr., 1. mgr. 14. gr. og 17. gr. siðareglna lögmanna. Með fyrrgreindum brotum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og að gögn málsins bera með sér að sóknaraðilar hafi notið lögmannsaðstoðar telur nefndin rétt að gera varnaraðila að greiða sóknaraðilum óskipt að álitum 150.000 kr. í málskostnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu varnaraðila, [B], um frávísun málsins frá nefndinni er hafnað.
Varnaraðili, [B] lögmaður, sætir áminningu.
Varnaraðili, [B] lögmaður, greiði sóknaraðilum, [A] og [B], óskipt 150.000 kr. í málskostnað.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helga Melkorka Óttarsdóttir
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir