Mál 27/2024
Mál 27/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 19. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 9. maí 2024 kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni, […].
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 6. júní 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 28. júní sl. Viðbótargreinargerð sóknaraðila ásamt gögnum barst nefndinni þann 17. október 2024 og viðbótargreinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum þann 10. nóvember sl. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðili var handtekinn þann 13. mars 2021 grunaður um tilraun til manndráps. Ákæra í málinu var gefin út þann 13. júlí 2023. Málið var flutt í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. nóvember 2023 og með dómi 20. desember s.á. var sóknaraðili dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar vegna brotsins. Varnaraðili var tilnefndur verjandi sóknaraðila á rannsóknarstigi og skipaður verjandi hans fyrir dómi.
Kvörtun lýtur að störfum varnaraðila sem verjandi sóknaraðila í umræddu máli. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brugðist skyldum sínum sem verjandi, gefið loforð sem ekki hafi staðist og ekki lagt sig fram um að gæta hagsmuna hans. Sú háttsemi varnaraðila sem sóknaraðili kvartar yfir er m.a. að varnaraðili hafi, ásamt lögreglu, þvingað sóknaraðila til að játa sök við skýrslutöku hjá lögreglu, annars færi hann í fangelsi. Þá hafi varnaraðili mætt óundirbúinn í fyrsta þinghald sem hafi leitt til frestunar málsins og sent annan lögmann í sinn stað í næsta þinghald. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa sagt sér að þar sem hann hefði ekki brotið af sér áður mætti hann búast við skilorðsbundnum dómi. Þá hafi varnaraðili sagt að ákæruvald og dómari vorkenndi sóknaraðila sem myndi leiða til vægari dóms. Varnaraðili hafi jafnframt ráðlagt sóknaraðila gegn því að kalla eiginkonu sína sem vitni eða leggja fram bréf frá vinum eða vinnufélögum máli sínu til stuðnings. Varnaraðili hafi ekki spurt vitni í málinu neinna spurninga fyrir dómi. Þetta hafi leitt til þess að sóknaraðili var dæmdur í fjögurra ára fangelsi auk greiðslu skaðabóta og sakarkostnaðar. Sóknaraðili telur niðurstöðu dómsins óréttláta.
Auk óánægju með störf varnaraðila lýsir sóknaraðili óánægju með meðferð málsins hjá lögreglu og fyrir dómi og telur að brotið hafi verið á réttindum sínum. Sóknaraðili gerir sérstakar athugasemdir við túlkaþjónustu fyrir dómi. Hann segir málsmeðferðina hafi valdið honum og fjölskyldu hans miklum óþægindum og tjóni.
II.
Varnaraðili hafnar því að hafa reynt að handstýra framburði sóknaraðila hjá lögreglu. Játning sóknaraðila í málinu hafi verið í samræmi við framburði fjögurra vitna, þ.m.t. eiginkonu sóknaraðila, og önnur fyrirliggjandi gögn í málinu. Í ljósi sakargifta hafi varnaraðili upplýst sóknaraðila um að ekki væri hægt að útiloka að lögregla færi fram á gæsluvarðhald yfir honum. Eftir að hafa rætt við varnaraðila hafi sóknaraðili tekið ákvörðun um að játa verknaðinn sem hann var grunaður um en neita ásetningi til manndráps og málið hafi verið þingfest með þeirri afstöðu.
Varnaraðili kveðst hafa gert kröfu um að kvaddur yrði matsmaður til að meta sakhæfi sóknaraðila á verknaðarstundu. Auk þess hafi hann aflað vottorðs frá sálfræðingi sóknaraðila og lagt fram í málinu.
Undir meðferð málsins hafi birst fréttir í fjölmiðlum vegna málsins þar sem sóknaraðili var nafngreindur. Sóknaraðili hafi viljað kæra blaðamann vegna þess en varnaraðili ráðlagt honum gegn því og sagst ekki myndi fara í slík málaferli. Hann hafi þó reynt að fá fjölmiðla til þess að fjarlægja nafn sóknaraðila án árangurs.
Sóknaraðili hafi tjáð varnaraðila að vinnuveitandi hans hefði í hyggju að víkja honum úr starfi vegna málsins og þá hafi varnaraðili, umfram skyldu, farið ásamt sóknaraðila á fund vinnuveitanda og sannfært hann um að leyfa sóknaraðila að halda vinnu sinni á meðan málið væri til meðferðar fyrir dómi.
Varnaraðili segir að borið hafi á vantrausti sóknaraðila í sinn garð í aðdraganda aðalmeðferðar málsins. Daginn fyrir aðalmeðferð hafi sóknaraðili komið á fund varnaraðila og haft orð á því að varnaraðili hefði sagt honum að játa sök hjá lögreglu. Varnaraðili kveðst hafa brugðist illa við þeirri ásökun og talið alvarlega vegið að starfsheiðri sínum með þessum orðum. Sóknaraðili hafi þá dregið ásökunina til baka og sagt um misskilning að ræða. Við upphaf aðalmeðferðar hafi sóknaraðili tjáð varnaraðila að hann teldi að lögreglumaðurinn sem tók af honum skýrslu hafi neytt hann til þess að játa. Varnaraðili hafi sagt sóknaraðila að hann hafi verið viðstaddur skýrslutökuna og engin þvingun átt sér stað. Hann myndi ekki taka þátt í því að sverta mannorð lögreglumannsins að ósekju. Jafnframt hafi sóknaraðili tjáð varnaraðila að hann vildi fá mat annarra lögmanna á málinu. Því hafi varnaraðili óskað eftir því við dómara að málinu yrði frestað á meðan sóknaraðili ræddi við aðra lögmenn. Að lokum hafi sóknaraðili hringt í varnaraðila og beðið hann að halda áfram með málið sem hann hafi og gert.
Varnaraðili mótmælir því að hafa neitað að kalla eiginkonu sóknaraðila til vitnis og vísar til samskipta sem liggja fyrir í málinu sem sýni að sóknaraðili hafi beðið varnaraðila að leggja mat á það hvort eiginkona hans væri gott vitni fyrir hann. Niðurstaða sín hafi verið sú að eiginkonan bætti litlu við sem gæti komið vörn sóknaraðila að gagni. Endanleg ákvörðun um það hafi hins vegar verið í höndum sóknaraðila sjálfs. Jafnframt mótmælir varnaraðili því að hafa ekki viljað kalla vini sóknaraðila sem vitni. Hann hafi hins vegar bent sóknaraðila á að svokölluð „karakter“ vitni hefðu lítinn tilgang í málum af þessu tagi hér á landi. Varnaraðili hafnar því jafnframt að hafa sagt að ákæruvald og dómari vorkenndu sóknaraðila. Hann hafi hins vegar merkt samkennd með sóknaraðila og talið það jákvætt.
Loks hafi sóknaraðili misskilið varnaraðila þegar hann hafi upplýst hann um möguleika á reynslulausn og dvöl á Vernd og ökklaband og talið það eiga að koma fram í dóminum. Varnaraðili hafi tjáð honum að svo væri ekki heldur væri kveðið á um það í lögum. Þá hafi sóknaraðili verið ósáttur við að varnaraðili hafi ekki viljað vera í sambandi við atvinnurekanda hans eftir að málinu lauk en varnaraðili ekki talið sér skylt að aðhafast á þeim vettvangi meira en hann hafði þá þegar gert.
Varnaraðili kveðst hafa leiðbeint sóknaraðila um að merkja við að hann ætlaði að áfrýja dóminum þegar hann yrði birtur honum, kysi hann svo. Vegna erfiðra samskipta við sóknaraðila hafi ekki verið búinn að taka ákvörðun um hvort hann vildi taka málið að sér fyrir Landsrétti og sóknaraðili ekki lýst því yfir við sig að hann vildi áfrýja málinu.
Varnaraðili hafnar því að hafa ekki sinnt starfi sínu af heilindum. Hann hafi veitt ráðgjöf af heilindum og fagmennsku eins og hann geri í öllum málum. Varnaraðili telur sig hafa gengið lengra en honum bar í að aðstoða sóknaraðila. Sóknaraðili hafi verið sakfelldur fyrir brot og sé nú að reyna að komast hjá refsingu með undarlegum hætti.
III.
Sóknaraðili ítrekar að hann telji á sér brotið. Lögregla og varnaraðili hafi misbeitt valdi sínu, beitt þvingunum og lygum og gefið loforð sem ekki hafi staðist. Sóknaraðili segist hafa viljað skrifa undir samning við varnaraðila en hann hafnað því. Þá hafi varnaraðili orðið reiður þegar sóknaraðili tjáði honum að hann vildi skipta um verjanda og verið umhugað um „bónus“ sinn. Varnaraðili hafi ekki útskýrt fyrir sér hvernig málsmeðferðin fyrir dómi virkaði. Sóknaraðili ítrekar óánægju sína með störf dómtúlks og telur matsmann hafa unnið gegn sér.
IV.
Varnaraðili segir rangt að sóknaraðili hafi óskað eftir að skipta um verjanda. Hins vegar hafi varnaraðili sjálfur viðrað við dómara málsins að hann myndi krefjast lausnar í málinu. Dómari hafi beðið varnaraðila um að hugsa það vel og eftir að sóknaraðili hafi ítrekað óskað eftir því að varnaraðili héldi málinu áfram, hafi hann samþykkt það. Ástæðu þess að varnaraðili hafi viljað óska lausnar segir hann vera þá að sóknaraðili hafi bæði sakað sig um að hafa þvingað sig til játningar og viljað að varnaraðili myndi ranglega saka lögreglumann um alvarleg brot í starfi.
Varnaraðili lagði fram tölvupóst frá dómara í máli sóknaraðila frá 28. október 2024 sem hann aflaði í tengslum við það mál sem hér er til úrlausnar. Þar kemur fram að varnaraðili hafi greint dómara frá því að hann hefði í hyggju að óska lausnar sem verjandi sóknaraðila vegna erfiðleika í samskiptum við hann. Síðar hafi varnaraðili upplýst dóminn um að sóknaraðili óskaði þess að hann gætti hagsmuna hans áfram og varnaraðili ætlaði að verða við því. Sóknaraðili hafi mætt sjálfur við fyrirtöku 15. nóvember 2023 og við aðalmeðferð málsins 30. nóvember s.á. ásamt varnaraðila sem verjanda og ekki gert athugasemdir við framgöngu varnaraðila sem verjanda í þau skipti sem hann mætti fyrir dóminn.
Varnaraðili fer fram á málskostnað úr hendi sóknaraðila og segir málið einungis snúast um að sverta mannorð sitt með meiðyrðum og lygum.
V.
Með bréfi, dags. 21. nóvember 2024, upplýsti umboðsmaður Alþingis nefndina um að sóknaraðili hefði beint kvörtun til embættisins, sem beindist m.a. að nefndinni vegna máls þessa. Var óskað eftir upplýsingum um hvort sóknaraðili ætti aðild að máli sem væri til meðferðar hjá nefndinni og ef svo væri, hvort því máli væri lokið. Með svarbréfi samdægurs upplýsti nefndin að mál þetta væri til meðferðar og niðurstöðu mætti vænta fyrir árslok.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
II.
Kvörtun þessi varðar störf varnaraðila sem verjanda sóknaraðila í sakamáli. Umkvörtunaratriði er varða störf varnaraðila eru einkum þau að hann hafi þvingað sóknaraðila til að játa sök í málinu, neitað að leiða eiginkonu sóknaraðila og vini sem vitni í málinu, mætt óundirbúinn við þingfestingu málsins og gefið sóknaraðila fölsk loforð um líklega niðurstöðu málsins.
Auk óánægju með störf varnaraðila hefur sóknaraðili lýst óánægju með málsmeðferð hjá lögreglu og fyrir dómi og fram kemur að hann telji sig hafa verið beittan margs konar misrétti við meðferð málsins. Úrlausn um annað en háttsemi varnaraðila í störfum sínum fyrir sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn, fellur utan valdsviðs nefndarinnar.
III.
Meðal gagna málsins eru afrit af sms skilaboðum á milli aðila, rannsóknargögnum, dómi héraðsdóms Reykjavíkur og tölvupóstur dómara frá 28. október sl. Að því leyti sem fyrirliggjandi gögn varpa ljósi á umkvörtunarefni málsins, telur nefndin þau ekki styðja málatilbúnað sóknaraðila. Í svörum til nefndarinnar hefur varnaraðili jafnframt mótmælt staðhæfingum sóknaraðila og lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á að varnaraðili hafi í störfum sínum fyrir sóknaraðila sýnt af sér háttsemi sem felur í sér brot á siðareglum lögmanna eða lögum.
Rétt þykir að aðilar beri hvort sinn kostnað vegna málsins.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir