Mál 31/2024

Mál 31/2024

Ár 2024, fimmtudaginn 10. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið málið:

A ehf.

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 24. maí 2024 kvörtun [C], f.h. sóknaraðila [A ehf.], gegn [B] lögmanni.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 6. júní 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 13. júní 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 7. ágúst 2024. Varnaraðila var veittur frestur til athugasemda en ekki kom til frekari gagnaframlagningar og var málið tekið til úrskurðar.

Málsatvik og málsástæður

[C] er eigandi sóknaraðila og beinir erindi þessu til nefndarinnar fyrir hönd félagsins. Félagið hét áður […] ehf., hér eftir […] ehf., og var stofnað af afa [C]. Á árunum 1999 til 2008 áttu systkinin […] og […], […] og […] hvert um sig 25% eignarhlut í félaginu. Systkinin sátu jafnframt öll í stjórn félagsins en […] sá um daglegan rekstur þess. Samhliða rekstri […] ehf. rak […] félagið […] ehf. sem var með skrifstofu að […], í sama húsi og […] lögmanns­stofa, sem varnaraðili rak í félagi við aðra lögmenn, og […] ehf. Náinn vinskapur var á milli […] og eigenda […] lögmanns­stofu, þ.m.t. varnaraðila og […] lögmanns sem var lögmaður […] ehf. og hluthafa þess um árabil.

Frá kaupum [C] á sóknaraðila kveðst hann hafa unnið að skoðun og greiningu á fjármálum og rekstri […] ehf. á árunum 2004-2008. Hefur hann beint fjölda fyrirspurna til […] lögmanns og annarra lögmanna á […] lögmannsstofu, þ. á m. varnaraðila, varðandi ýmis málefni félagsins á þessum tíma.

Kvörtun í máli þessu lýtur að þeirri háttsemi varnaraðila annars vegar að hafa neitað að afhenda gögn varðandi sölu […] ehf. á hlut í fasteigninni að […] til […] ehf. árið 2005, sem lögmaður sóknaraðila óskaði eftir með bréfi, dags. 24. maí 2023. Hins vegar lýtur kvörtunin að þeirri háttsemi varnaraðila að svara ekki tölvupóstum fyrirsvarsmanns sóknaraðila þar sem beiðnin var ítrekuð.

Með tölvupósti þann 24. maí 2023 upplýsti varnaraðili lögmann sóknaraðila um að hann myndi ekki verða við beiðni á afhendingu á gögnum varðandi umrædd fasteignaviðskipti. Þá afstöðu ítrekaði hann í tölvupósti síðar sama dag. Fyrirsvarsmaður sóknaraðila ítrekaði fyrirspurnina í sjö tölvupóstum til varnaraðila á tímabilinu 22. september 2023 til 3. maí 2024. Gögn málsins bera ekki með sér að varnaraðili hafi svarað neinum þeirra.

Sóknaraðili byggir á því að félagið eigi rétt á að fá umrædd gögn þar sem þau séu mikilvægur liður í þeim rannsóknum sem fyrirsvarsmaður félagsins vinni að. Fyrirspurnir félagsins séu settar fram af málefnalegum ástæðum og snerti verulega fjárhagslega hagsmuni. Ljóst sé að varnaraðili hafi gögnin undir höndum. Sóknaraðili fer fram á að úrskurðarnefnd lögmanna taki afstöðu til þess hvort varnaraðila sé stætt á að neita að svara fyrirspurnum lögmanns félagsins og fyrirsvarsmanns þess og kveðst telja háttsemina í andstöðu við siðareglur lögmanna.

Í umsögn varnaraðila um erindið til nefndarinnar segist hann aldrei hafa unnið lögmannsstörf fyrir sóknaraðila eða núverandi eiganda þess. Þá telur varnaraðili augljóst að sá frestur sem kveðið sé á um í 1. mgr. 27. gr. siðareglna lögmanna sé liðinn. Því beri að vísa kvörtuninni frá nefndinni.

Niðurstaða

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

Kvörtun varðar þá háttsemi varnaraðila annars vegar að hafa þann 24. maí 2023 neitað að verða við beiðni lögmanns sóknaraðila um afhendingu tiltekinna gagna er varða fasteignaviðskipti […] ehf. við […] ehf. og hins vegar að svara ekki tölvupóstum fyrirsvarsmanns varnaraðila á tímabilinu september 2023 til maí 2024 þar sem beiðnin var ítrekuð. Kvörtun sem barst nefndinni þann 24. maí 2024 rúmast því innan þess frest sem settur er í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er fallist á að vísa beri kvörtuninni frá sökum þess að frestur til þess að beina henni til nefndarinnar hafi verið liðinn.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 tekur valdsvið nefndarinnar aðeins til háttsemi sem lögmenn viðhafa í störfum sínum sem lögmenn. Beiðni lögmanns sóknaraðila tengdist ekki lögmannsstörfum varnaraðila fyrir sóknaraðila eða nokkurn annan. Hið sama á við um síðari ítrekanir fyrirsvarsmanns varnaraðila á sömu beiðni. Hin umkvartaða háttsemi varnaraðila tengist ekki lögmannsstörfum hans og fellur þess vegna utan valdsviðs nefndarinnar. Af þeim sökum er máli þessu vísað frá nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir