Mál 3/2024
Mál 3/2024
Ár 2024, þriðjudaginn 3. desember 2024, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 3/2024:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 25. janúar 2024 kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni, vegna ágreinings um endurgjald lögmannsins.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 14. febrúar 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Frestur til þess að skila greinargerð vegna erindisins var veittur til 6. mars 2024. Með tölvupósti þann dag, var af hálfu sóknaraðila óskað eftir framlengingu frestsins um tvær vikur á þeim forsendum að unnið væri að sátt við sóknaraðila.
Nefndinni barst annað erindi frá sóknaraðila þann 9. mars 2024, þar sem kvartað var vegna háttsemi lögmannsins í kjölfar fyrri kvörtunar, dags. 25. janúar s.á. Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 12. mars 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Frestur til þess að skila greinargerð vegna erindisins var veittur til 2. apríl 2024.
Greinargerð varnaraðila vegna beggja kvartana barst nefndinni þann 5. apríl 2024 ásamt fylgiskjölum. Var hún send sóknaraðila og henni veittur frestur til þess að koma á framfæri athugasemdum. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni þann 6. maí 2024. Sama dag bárust viðbótargögn frá varnaraðila sem sóknaraðila var gefinn kostur á að tjá sig um. Bárust athugasemdir sóknaraðila þess efnis þann 10. maí s.á. Var varnaraðila gefinn frestur til 4. júní 2024 til þess að tjá sig um framkomin gögn frá sóknaraðila og var sá frestur framlengdur að ósk varnaraðila til 11. júní. Viðbótargreinargerð varnaraðila, ásamt gögnum, barst þann 11. júní sl.
Með bréfi 9. júlí 2024 fór nefndin fram á að sóknaraðili afhenti viðbótargögn. Umbeðin gögn bárust 21. ágúst sl. Þann 22. ágúst sl. voru varnaraðila send gögnin og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau. Athugasemdir hans bárust þann 1. október sl. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Af hálfu nefndarinnar var tekin ákvörðun að sameina málin. Í upphafi málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns og tók varamaður sæti hans í málinu.
Málsatvik og málsástæður
I.
i.
Sóknaraðili lýsir málsatvikum í fyrri kvörtun sinni til nefndarinnar með þeim hætti að hún hafi leitað til varnaraðila um hagsmunagæslu í forsjármáli. Hún hafi greitt honum í upphafi 250.000 kr. vegna þessa. Varnaraðili hafi séð um málið og þau verið í samskiptum vegna þess. Einhverjum mánuðum síðar hafi varnaraðili haft samband við hana og krafið hana um greiðslu að fjárhæð 346.219 kr. Varnaraðili hafi samþykkt greiðsludreifingu reikningsins og sóknaraðili greitt í samræmi við samkomulagið. Þann 20. júní 2023 hafi varnaraðili hringt í sóknaraðila og tjáð henni að hún þyrfti að greiða honum hálfa miljón til viðbótar og hafi hún sagst ætla að reyna að bjarga því. Að kvöldi daginn eftir, 21. júní, hafi varnaraðili aftur hringt í hana, verið hvassyrtur og tjáð henni að nú þyrfti hún að greiða honum eina milljón króna fyrir kl. 12 á hádegi föstudaginn 23. júní, annars myndi hann segja sig frá málinu.
Daginn eftir, 24. júní, hafi varnaraðili sent dómara og lögmönnum í máli sóknaraðila tölvupóst þess efnis að hann væri að segja sig frá málinu. Bráðabirgðaflutningur málsins hafi verið á dagskrá þann 3. júlí 2023. Þann 26. júní hafi varnaraðili gert sóknaraðila reikning að fjárhæð 2.723.133 kr. Á endanum hafi farið svo að sóknaraðili hafi tekið lán í banka að fjárhæð 2.700.000 kr. til þess að greiða varnaraðila og hafi hann þá boðist til þess að halda áfram með málið en sóknaraðili afþakkað það, vegna alls þess sem áður hafði gengið á.
Sóknaraðili kveðst hafa farið að leita að öðrum lögmanni þar sem hún hafi ekki getað látið varnaraðila gæta hagsmuna hennar lengur. Segir hún sér hafa fundist varnaraðili ótraustvekjandi, ókurteis og frekar ógnandi í símtölum og talið að það myndi endurtaka sig, auk þess sem henni hafi fundist tímaskýrsla varnaraðila í málinu ekki vera rétt. Varnaraðili hafi samið um að sjá um bráðabirgðaflutning í máli sóknaraðila henni að kostnaðarlausu og svo tæki nýr lögmaður við málinu þar sem svo skammur tími væri þar til bráðabirgðaflutningurinn og vont fyrir nýjan lögmann að setja sig inn í málið með svo skömmum fyrirvara.
Að loknum bráðabirgðaflutningi málsins hafi annar lögmaður tekið við máli sóknaraðila. Hún hafi síðar fengið gjafsókn í málinu og í úrskurðarorði dómsins hafi komið fram að allur gjafsóknarkostnaður skyldi greiðast úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar, varnaraðila að fjárhæð 1.200.000 kr. og þess lögmanns sem tók við málinu úr hendi varnaraðila, að fjárhæð kr. 1.050.000. Sóknaraðili segir varnaraðila enn ekki hafa greitt sér til baka úr gjafsókninni og hún viti ekki hvernig best sé að fara að því.
Sóknaraðili segir sér hafa fundist tímaskýrsla varnaraðila mjög há miðað við málið og hreinlega ekki gengið upp. Hann hafi látið lögfræðinga vinna í málinu og rukkað 32.900 kr. á tímann fyrir þeirra vinnu í upphafi málsins sem hafi hækkað í 38.900 kr. undir lok málsins. Tímagjaldið sé það sama hvort sem um sé að ræða vinnu varnaraðila sjálfs eða lögfræðinga sem vinna hjá honum. Mest öll vinna í máli hennar hafi verið unnin af lögfræðingunum, [C] og [D], sem ekki hafi lögmannsréttindi. Sóknaraðila hafi þótt vinnan frekar illa unnin og ekki taka langan tíma og þess vegna skilji sóknaraðili ekki þann fjölda vinnustunda sem skráður hafi verið á málið. Varnaraðili rukki t.d. tvöfalt fyrir það að hann hafi mætt með ásamt lögfræðingi í málflutning, án þess að sóknaraðili hafi samþykkt það. Fyrri lögfræðingurinn, [D], hafi hætt og sett nýjan lögfræðing, [C], inn í málið, og krefji varnaraðili hana um greiðslu fyrir þann tíma sem [C] hafi skráð að hafi farið í að setja sig inn í málið.
Sóknaraðili fer fram á endurgreiðslu úr hendi varnaraðila.
Í seinni kvörtun sinni til nefndarinnar lýsir sóknaraðili málsatvikum með þeim hætti að hún hafi beint kvörtun til nefndarinnar þann 25. janúar sl. Hún hafi ekki verið í neinum samskiptum við varnaraðila síðan hann flutti mál um bráðabirgðakröfu í máli hennar þann 3. júlí 2023. Þann 19. febrúar sl. hafi varnaraðili byrjað að hringja í sóknaraðila og sent henni eftirfarandi skilaboð í kjölfarið:
„Hæ – þarf að ná á þig – er með hugmynd að því hvernig við getum leyst þetta mál þannig að þú verðir sæl og glöð. Bjallaðu á mig“.
Sóknaraðili kveðst hvorki hafa svarað hringingum frá varnaraðila eða skilaboðum. Þann 6. mars sl. hafi sóknaraðili fengið tvær hringingar úr símanúmeri [E] lögmanns á lögmannsstofu varnaraðila, sem sóknaraðili hafi ekki svarað. Aftur hafi verið hringt úr sama númeri þremur klukkustundum síðar og sóknaraðili enn ekki svarað. Í kjölfarið hafi hún fengið eftirfarandi skilaboð frá [E], sem hún hafi ekki svarað:
„Sælar, ekki gætirðu bjallað á mig við tækifæri vegna mála tengdum [B]. Kv. [E]. lögm.“
Þann 7. mars hafi hringingar frá varnaraðila stigmagnast en þá hafi þrír kunningjar sóknaraðila, sem nafngreindir eru í kvörtun, þ.m.t. kunningjakona hennar, kærasti kunningjakonunnar og vinur þeirra, farið að hafa samband við hana með skilaboðum að varnaraðili þyrfti að ná í hana. Sóknaraðili tekur fram að hún hafi ekki verið í miklum samskiptum við umrædda einstaklinga síðastliðið ár og gætt þess sérstaklega að ræða ekki sín mál við þau eða um varnaraðila á neinn hátt.
Sóknaraðili lýsir atburðarásinni þann 7. mars 2024 með eftirfarandi hætti:
Kl. 10:07 hafi kunningjakonan hringt í sóknaraðila á Facebook og í kjölfarið sent henni tvenn skilaboð, á Facebook annars vegar og Instagram hins vegar, þar sem hún bað sóknaraðila að hringja í sig. Aftur hafi hún hringt í sóknaraðila kl. 10:09 sama dag.
Kl. 10:33 sama dag hafi kærasti fyrrnefndrar kunningjakonu sent sóknaraðila skilaboð og beðið hana að heyra í kunningjakonunni við fyrsta tækifæri.
Kl. 10:40 hafi kunningjakonan hringt aftur og kl. 10:42 sent svohljóðandi skilaboð:
„Hæ elsku [A]. Fyrirgefðu að ég sé að böggast í þér – En [B] þarf að ná á þér varðandi e-h mál og biður um að þú hafir samband í s: […]“.
Kl. 10:52 hafi tvisvar verið hringt í síma sóknaraðila úr leyninúmeri. Í kjölfarið hafi sóknaraðili lokað fyrir það að símanúmer kunningjakonunnar og kærasta hennar gætu hringt í sig, auk þess að loka fyrir símtöl úr leyninúmerum. Kl. 11:01 hafi sóknaraðili fengið skilaboð frá vini parsins þess efnis að fyrrnefnd kunningjakona hafi beðið viðkomandi að segja sóknaraðila að heyra í sér. Sóknaraðili hafi ekki svarað skilaboðunum og í kjölfarið slökkt á síma sínum vegna þessarar áreitni.
Því næst hafi verið hringt í móður sóknaraðila úr leyninúmeri. Sóknaraðili hafi áður sagt móður sinni að mikið hefði verið reynt að ná í sig. Hafi móðir hennar því beðið bróður sóknaraðila svara símanum. Á línunni hafi verið maður sem hafi kynnt sig sem […] lögmann og beðið um að fá að tala við föður sóknaraðila sem hann þyrfti að ná í vegna ótilgreinds máls. Bróðir sóknaraðila hafi upplýst hringjanda um að faðir hans væri ekki með þetta símanúmer og hafi hringjandi þá beðið um númer föðurins og fengið það uppgefið. Skömmu síðar hafi verið hringt í föður sóknaraðila úr leyninúmeri. Þar hafi maður kynnt sig með sama hætti og áður og beðið föður sóknaraðila biðja hana að samband við sig og „[B] lögmann“. Hann hafi tjáð föður sóknaraðila að málið væri að falla á tíma en faðir sóknaraðila tjáð manninum að hann hefði ekki tíma fyrir þetta og væri ekkert inni í þessum málum og slitið samtalinu.
Áfram hafi verið hringt í föður sóknaraðila nokkrum sinnum þennan dag, bæði úr leyninúmeri og númeri [E] lögmanns og áfram daginn eftir, 8. mars. Á endanum hafi faðir sóknaraðila lokað á númer [E] og að hægt væri að hringja í hann úr leyninúmeri til þess að reyna að stöðva þessi símtöl.
Föstudaginn 8. mars 2024 kveðst sóknaraðili hafa haft samband við þáverandi lögmann sinn og leitað ráða. Hann hafi ráðlagt henni að hafa samband við Lögmannafélag Íslands sem sóknaraðili hafi gert og verið tjáð að varnaraðila hafi verið veittur viðbótarfrestur til þess að skila greinargerð í málinu á þeim forsendum að samningaviðræður stæðu yfir þeirra á milli. Sóknaraðili hafi í kjölfarið sent tölvupóst og mótmælt frestinum og óskað eftir að hann yrði endurskoðaður þar sem fresturinn hafi verið veittur á röngum forsendum, enda hafi engar samningaviðræður verið í gangi. Engin samskipti og engar samningaviðræður hafi átt sér stað.
Lögmaður sóknaraðila hafi hringt í hana síðar sama dag og látið hana vita að varnaraðili hafi haft samband við hann. Vildi lögmaðurinn kanna stöðuna hjá sóknaraðila og hún sagt honum frá því sem hafði gengið á dagana á undan. Lögmaðurinn hafi í kjölfarið haft samband við varnaraðila og beðið hann að hætta að reyna að ná sambandi við sóknaraðila þar sem engar samningaviðræður myndu eiga sér stað í málinu.
Sóknaraðili kveður allt framangreint hafa verið mjög erfitt að eiga við. Sérstaklega í ljósi þess að hún hafi slæma sögu af störfum varnaraðila þegar hann var lögmaður hennar. Hann hafi vitað hversu brotin sóknaraðili væri og hve lítið hún gæti svarað fyrir sig. Hún hafi ekki treyst sér til þess að svara símtölum frá honum og öðrum á hans vegum því þegar varnaraðili hafi verið lögmaður hennar hafi hún fundið fyrir miklum þrýstingi frá honum og hreinlega stjórnun. Sóknaraðili hafi ekki viljað setja sig í þær aðstæður aftur og því ekki svarað varnaraðila. Hann viti fullvel að hún hafi ekkert við hann að segja eða semja um.
Sóknaraðili segir þessa áreitni og hegðun varnaraðila hafa haft veruleg áhrif á sig og foreldra sína. Mjög óþægilegt hafi verið að kunningjar sóknaraðila hafi verið að hafa samband við hana fyrir hönd varnaraðila, hún viti ekki hvað þeim fór á milli og hvort varnaraðili hafi brotið trúnaðarskyldu sína gagnvart henni. Einnig hafi verið mjög óþægilegur þessi mikli þrýstingur frá honum með öllum þessum símtölum. Sóknaraðili kveðst setja stórt spurningarmerki við þessa hegðun varnaraðila. Hann hafi vitað að hún væri óánægð með vinnu hans og reikningagerð áður en hún hafi beint kvörtun til nefndarinnar í fyrra skiptið en ekki viljað semja um neitt á þeim tíma.
II.
i.
Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila vegna reikninga sem gefnir voru út fyrir 25. janúar 2023, verði vísað frá nefndinni og að úrskurðað verði að endurgjald það, sem varnaraðili áskildi sér vegna starfa sinna fyrir sóknaraðila og reikningsfært var eftir þann tíma, hafi verið hæfilegt. Til vara krefst varnaraðili þess að nefndin úrskurði að það endurgjald sem hann áskildi sér vegna starfa sinna fyrir sóknaraðila, hafi verið hæfilegt. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðili mótmælir málavöxtum, eins og þeim er lýst í kvörtun sóknaraðila, sem röngum, ósönnum og villandi, að því leyti sem lýsing sóknaraðila samrýmist ekki málavaxtalýsingu varnaraðila. Varnaraðili segir sóknaraðila hafa leitað til sín þann 2. ágúst 2022 vegna forsjármáls. Áður hafi hún reynt að ljúka málum sínu með sátt hjá sýslumanni, án árangurs. Þáverandi fulltrúi varnaraðila, [D], lögfræðingur, hafi annast vinnu við málið eins og vanalegt sé og heimilt skv. 11. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Fulltrúinn hafi strax hafið undirbúning málssóknar á hendur fyrrum sambýlismanni sóknaraðila, í samræmi við óskir hennar. Í stefnu hafi verið gerð krafa um fulla forsjá barns sóknaraðila og barnsföður hennar, auk þess sem gerð hafi verið krafa til bráðabirgða á meðan málið væri rekið fyrir dómi. Samhliða hafi verið útbúin gjafsóknarbeiðni fyrir sóknaraðila, sem send hafi verið dómsmálaráðuneytinu 2. september 2022.
Mál sóknaraðila hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. september 2022 og bráðabirgðaúrskurður kveðinn upp 22. desember s.á. Barnsfaðir sóknaraðila hafi kært úrskurðinn til Landsréttar 5. janúar 2023 og varnaraðili annast hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila fyrir áfrýjunardómstólnum.
Þegar [D] lögfræðingur hafi látið af störfum hjá varnaraðila hafi [C], löglærður fulltrúi tekið við umsjón máls sóknaraðila. Hann hafi verið snöggur að setja sig inn í málið, þrátt fyrir að það hafi verið umfangsmikið. Hafi hann fyrst komið að málinu 2. mars 2023 en fyrirtaka í málinu verði á dagskrá strax mánudaginn eftir. Tímaskráning beri með sér að hann hafi skráð tvo tíma vegna vinnu sinnar 2. mars 2023, sem ekki hafi verið rukkaðir sérstaklega.
Varnaraðili segir vinnu fulltrúa síns að mestu hafa snúið að samskiptum við sóknaraðila og lögmann fyrrum sambýlismann hennar, vegna alls sem viðkom málinu. Þá hafi talsverð vinna fallið til hjá varnaraðila sjálfum vegna málsins, sem ekki hafi verið skráð í tímaskýrslu. Varnaraðili segir samskipti við sóknaraðila að mestu hafa farið fram í gegnum síma og hafi símtölin oft verið tilfinningaþrungin og erfið. Vegna ágreinings sóknaraðila og barnsföður hennar hafi samskiptin verið mikil og flókin. Einarðlega hafi verið unnið að því að tryggja að sóknaraðili virti rétt barnsföður síns á sama tíma og reynt hafi verið að mæta þörfum og kröfum sóknaraðila, sem hafi verið vandasamt verkefni.
Varnaraðili segir rekstur málsins hafa tafist af ástæðum sem ekki hafi verið á hans færi að stjórna. Barnsfaðir sóknaraðila hafi gert nýja bráðabirgðakröfu í málinu og mikla vinnu og samskipti hafi þurft til þess að ná sáttum varðandi þá kröfu. Varnaraðili áréttar að málið hafi verið mjög umfangsmikið. Vinnan hafi falið í sér stefnugerð, gjafsóknarbeiðni, fyrirtökur fyrir dómi, yfirferð greinargerðar, fundi og gríðarlega mikil samskipti við sóknaraðila, málflutning vegna bráðabirgðakröfu, matsfundi og yfirferð matsgerðar, varnir við bráðabirgðakröfu barnsföður og undirbúning fyrir aðalmeðferð. Umtalsverð vinna hafi farið í undirbúning munnlegs málflutnings vegna bráðabirgðakröfu, í tvígang. Sóknaraðili hafi sent óheyrilegt magn gagna, þ.m.t. punkta og myndir, en einnig mynd- og hljóðupptökur. Samtals hafi gögn málsins talið 576 blaðsíður. Tölvupóstsamskipti fulltrúa varnaraðila við sóknaraðila hafi talið 147 tölvupósta, tölvupóstar sóknaraðila til varnaraðila hafi verið 58 talsins og tölvupóstar varnaraðila til sóknaraðila 54 talsins. Þá sé ótalinn fjöldi símtala varnaraðila og starfsmanna hans við sóknaraðila.
Varnaraðili segir sóknaraðila hafa leitað til annars lögmanns í júní 2023 og varnaraðili ekki haft frekari spurnir af málinu eftir það, þ.m.t. varðandi niðurstöðu gjafsóknarnefndar um beiðni sóknaraðila um gjafsókn, eða hvaða fjárhæð að endingu hafi verið ákvörðuð sem gjafsóknarkostnaður málsins. Það hafi ekki verið fyrr en eftir að varnaraðili hafi móttekið erindi úrskurðarnefndar vegna fyrri kvörtunar sóknaraðila, sem hann hafi fengið vitneskju um að sóknaraðila hafi verið veitt gjafsókn og um ákvörðun gjafsóknarkostnaðar að fjárhæð 1.200.000 kr. að viðbættum virðisaukaskatti. Hafi hagsmunagæslu hans fyrir sóknaraðila enda verið löngu lokið þegar henni var veitt gjafsóknarleyfi þann 2. október 2023.
Varnaraðili kveðst hafa farið fram á að sóknaraðili greiddi tryggingu í upphafi máls en reikningar vegna vinnu hafi verið sendir með reglulegum hætti eftir það. Samtals hafi verið gefnir út fjórir reikningar og einn kreditreikningur á hendur sóknaraðila, samtals að fjárhæð 3.314.675 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti:
- 2046, dags. 3. ágúst 2022, að fjárhæð 250.000 kr. m. vsk.
- 2166, dags. 5. október 2022, að fjárhæð 591.542 kr. m. vsk.
- 2167, dags. 7. október 2022 þar sem reikningur 2166 var kreditfærður.
- 2168, dags. 5. október 2022, að fjárhæð 341.542 kr. m. vsk.
- 2676, dags. 26. júní 2023, að fjárhæð 2.723.133 kr. m. vsk.
Til þess að koma til móts við sóknaraðila hafi hluta greiðslna verið dreift á lengra tímabil en nú séu níu kröfur ógreiddar, samtals að fjárhæð 167.461 kr. Varnaraðili telur ljóst að hann hafi reynt að koma til móts við sóknaraðila að umtalsverðu leyti, s.s. með greiðsludreifingu, auk þess sem hann hafi gefið eftir umtalsverða fjármuni vegna vinnu sinnar í þágu sóknaraðila. Samkvæmt vinnuskýrslu sem liggi fyrir í málinu, hafi heildarkostnaður við rekstur málsins numið 4.339.690 kr., en útgefnir reikningar nemi samtals 3.314.675 kr. Helgist þetta m.a. af því að varnaraðili hafi viljað gæta þess sérstaklega að sóknaraðila yrði ekki gert að greiða kostnað sem hafi hlotist af starfsmannabreytingum á lögmannsstofu hans eða vegna þess að fulltrúi hans hafi setið þinghald með sér vegna flutnings bráðabirgðakröfu. Varnaraðili hafi þegar gefið sóknaraðila afslátt sem nemi 1.025.015 kr. og séu þá ekki taldir þeir tímar sem hafi fallið til vegna starfa varnaraðila sjálfs og starfsmanna hans, vegna samskipta við sóknaraðila.
Varnaraðili krefst frávísunar vegna þeirra reikninga sem gefnir voru út fyrir 25. janúar 2023, þar sem kvörtun er þá varðar, sé of seint fram komin. Vísar varnaraðili til ákvæðis 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn og 6. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar hvað þetta varðar. Varnaraðili kveðst telja að við mat á því hvenær kostur hafi verið að koma á framfæri kvörtun til nefndarinnar, verði að miða við útgáfudag reiknings og tímaskýrslu varnaraðila. Því beri að vísa frá hugsanlegum ágreiningi vegna reikninga nr. 2046, 2166, 2167 og 2168. Varnaraðili telur að úrskurða beri að þóknun hans skv. reikningi nr. 2676 hafi verið hæfileg.
ii.
Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurðað verði að hann hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Varnaraðili krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.
Að sögn varnaraðila reyndi hann hvað hann gat að ná sáttum við sóknaraðila, með það að markmiði að reyna að leiðrétta hlut hennar, eftir að honum barst kvörtun sóknaraðila vegna ágreinings um endurgjald varnaraðila, en án árangurs. Hafi hann m.a. viljað vekja athygli sóknaraðila á því að hún gæti sótt úrskurðaðan gjafsóknarkostnað í málinu.
Varnaraðili telur sig ekki hafa gengið lengra í þeim efnum en rúmist vel innan þeirra laga og reglna sem um störf lögmanna gilda. Hafa beri í huga að þegar varnaraðili hafi reynt að setja sig í samband við sóknaraðila hafi verið um aðila máls að ræða í skilningi stjórnsýsluréttar, sem reynt hafi að ná samtali við gagnaðila sinn, með það fyrir augum að sætta málið.
Varnaraðili hafnar alfarið þeim fullyrðingum sóknaraðila um að hann hafi staðið fyrir skæðadrífu símtala úr leyninúmerum. Rétt sé að varnaraðili hafi haft samband við sameiginlega vinkonu aðila, þegar honum hafi ekki orðið ágengt við að ná á sóknaraðila, eftir símtal og sms skilaboð. Þær tilraunir hafi ekki skilað tilætluðum árangri, sem hafi leitt til þess að varnaraðila hafi verið ómögulegt annað en að taka til varna í málinu með tilheyrandi kostnaði. Varnaraðili áréttar kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila, í samræmi við framlagða tímaskýrslu.
III.
Sóknaraðili segist hafa afhent varnaraðila gögn í samræmi við ráðleggingar varnaraðila og fulltrúa hans, sem hafi frekar vilja fá meira en minna af gögnum og viljað yfirfara þau sjálfir.
Sóknaraðili kveðst hafa leitað til annars lögmanns eftir að varnaraðili hafi hringt í hana að kvöldi til þess að rukka háa fjárhæð fyrir vinnu sína með hroka og ókurteisi og hótað að segja sig frá málinu ef upphæðin yrði ekki greidd fljótlega. Sóknaraðili hafi því haft samband við annan lögmann og tekið lán í banka til þess að greiða varnaraðila svo hægt væri að halda áfram með dómsmálið en málflutningur hafi verið á dagskrá stuttu seinna. Varnaraðili hafi reynt að halda áfram með málið og fengið gögn til þess að sækja aftur um gjafsókn vegna málsins en sóknaraðili hafi ekkert traust borið til hans lengur á þeim tíma og ekki fundist hann hæfur til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu.
Nýr lögmaður hafi tekið við málinu og sótt um gjafsókn og hafi gjafsóknarleyfi verið veitt undir lok málsins. Þá hafi verið úrskurðað um þóknun varnaraðila og þess lögmanns sem tók við málinu. Sóknaraðili segir aldrei hafa komið fram hjá varnaraðila eða starfsmönnum hans að hún þyrfti að greiða mismuninn á gjafsóknarkostnaði og reikningum varnaraðila. Auk þess hafi hún ekki enn séð þá fjármuni sem úrskurðað var um. Þá hafi hún heyrt af því fyrst í greinargerð varnaraðila að henni hafi verið veittur afsláttur af kostnaði vegna vinnu hans.
Varðandi síðari hlut málsins segist sóknaraðili aldrei hafa fengið skilaboð eða tölvupósta frá varnaraðila eða fulltrúum hans með upplýsingum um hvað málið varðaði og allar símhringingar sem frá þeim hafi borist. Varnaraðili hafi haft samband við fjölskyldu sína og kunningja, sem hafi ekkert verið inni í málum hennar. Sóknaraðila þyki það mjög ófaglegt og brot á skyldum varnaraðila sem lögmanns að hafa samband við fólk sem hún þekki lítið sem ekki í neitt og sé í engum samskiptum við í dag, auk foreldra hennar. Alltaf hafi verið óskað eftir símtali en þar sem sóknaraðili hafi brennt sig á því að eiga símtöl við varnaraðila, hafi hún viljað hafa allt skriflegt. Varnaraðili hefði getað sent sér tölvupóst og útskýrt mál sitt frekar í stað þess að óska eftir símtali, ef málið hafi snúist um það sem hann haldi fram. Símhringingar úr leyninúmerum hafi átt sér stað í kjölfar símtala frá varnaraðila og starfsmanni hans en hætt um leið og síðari kvörtun hafi verið send nefndinni.
Sóknaraðili hafnar kröfu varnaraðila um málskostnað enda hafi háttsemi og reikningagerð varnaraðila gefið fullt tilefni til þess hún kvartaði til nefndarinnar.
Sóknaraðili áréttar að úrskurðað hafi verið um gjafsóknarkostnað vegna vinnu varnaraðila í málinu og að hún hafi engar upplýsingar fengið frá honum um að hún yrði að greiða mismun á gjafsóknarkostnaði og útgefnum reikningum. Hún hafi heldur ekki fengið greidda þá fjárhæð sem úrskurðað var um að skyldi greiðast úr gjafsókn.
IV.
Í viðbótarupplýsingum sem varnaraðili kom til nefndarinnar þann 6. maí sl. var upplýst af hans hálfu að þann 3. maí hafi honum borist greiðsla frá sóknaraðila í samræmi við samkomulag um greiðsludreifingu reiknings vegna vinnu varnaraðila. Telur varnaraðili þetta fela í sér að sóknaraðili hafi viðurkennt að kröfur hans hafi verið sanngjarnar, enda myndi hún seint greiða frekari kröfur hans, nema hún teldi þær réttmætar og sanngjarnar. Varnaraðili telur ljóst að sóknaraðili sé ekki ósáttari en svo að hún hafi talið sig þurfa að greiða varnaraðila í samræmi við samkomulag þeirra þar að lútandi. Að hans mati eru erindi sóknaraðila til nefndarinnar algjörlega þarflaus og því hljóti að koma til álita hjá nefndinni að fallast að fullu á málskostnaðarkröfu varnaraðila.
V.
Í svari sóknaraðila við áðurnefndum viðbótarupplýsingum mótmælir hún þeirri túlkun varnaraðila að hún sé að einhverju leyti sátt við framkomu, tímaskýrslu og reikninga varnaraðila í máli hennar. Telur hún það ljóst af því sem fram hafi komið af hennar hálfu í málinu. Sóknaraðili kveðst ekki hafa ætlað að greiða umrædda kröfu en virðist hafa hakað óvart við þessa einu kröfu þegar hún hafi verið að greiða aðra reikninga í heimabanka sínum. Hafi þetta verið mistök af sinni hálfu. Væri hún sátt við kröfur varnaraðila hefði hún greitt þær allar en enn séu átta ógreiddar kröfur frá varnaraðila í heimabanka hennar. Sóknaraðili telur það óþarfa hjá varnaraðila að ákveða fyrir hennar hönd hvort henni finnist kröfur hans sanngjarnar, þó hún hafi fyrir mistök greitt eina kröfu. Sóknaraðili hafnar því að erindi til nefndarinnar hafi verið þarflaus og mótmælir kröfu varnaraðila um málskostnað.
VI.
Varnaraðili segist eingöngu hafa unnið í samræmi við kröfur sóknaraðila. Hún hafi sent urmul af gögnum, sem hann og starfsmenn hans hafi verið í mestum vanda að vinna úr, en sóknaraðili talið að hjálpaði sínum málstað.
Varnaraðili segir ljóst að lögmönnum sé heimilt að krefjast greiðslna vegna vinnu sinnar jafnt og þétt á meðan á málarekstri stendur. Á engum tímapunkti hafi hann krafist fyrirframgreiðslu, heldur eingöngu greiðslu fyrir vinnu sem hafi verið innt af hendi. Varnaraðili hafnar ásökunum sóknaraðila um hótanir af hans hálfu. Honum hafi verið heimilt að krefjast greiðslu og segja sig frá málinu á hvaða tímapunkti sem var, í samræmi við 2. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna.
Varnaraðili vísar til gjaldskrár sem birt sé á heimasíðu lögmannsstofu sinnar. Þar komi fram í 9. gr. að í málum þar sem þriðji aðili, á borð við ríki eða sveitarfélag, greiði hluta reiknings umbjóðanda, dragist frá reikningi stofunnar til viðskiptavinarins sú upphæð sem greidd sé af þriðja aðilanum. Sú fjárhæð sem eftir standi greiðist af viðskiptavininum, nema sérstaklega hafi verið samið um annað, með skriflegum hætti. Ekki hafi verið samið sérstaklega við sóknaraðila um önnur kjör en þau sem komi fram í gjaldskrá. Hafa beri í huga að mál eins og það sem varnaraðili hafi tekið að sér fyrir sóknaraðila séu alla jafna mjög tímafrek. Því hafi verið ljóst að dæmdur málskostnaður myndi aldrei dekka allan málskostnað sóknaraðila gagnvart varnaraðila. Varnaraðili kveðst engar greiðslur hafa fengið vegna gjafsóknar og telur það ekki í sínum verkahring að hlutast til um það þar sem umboð hans hafi verið afturkallað.
Varnaraðili ítrekar að hann hafi leitað allra leiða til þess að ná sambandi við sóknaraðila til þess að leysa úr ágreiningi þeirra á milli og ná sáttum. Sóknaraðila hafi verið gerð grein fyrir því að gerð yrði krafa um málskostnað fyrir nefndinni eins og heimilt væri. Sóknaraðili hafi ekki svarað sáttaumleitunum sínum og líti varnaraðili því svo á að hún sé reiðubúin að greiða málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
VII.
Viðbótargögn bárust nefndinni þann 21. ágúst 2024. Um var að ræða í fyrsta lagi undirritaðar yfirlýsingar móður sóknaraðila annars vegar og bróður hennar hins vegar, dags. 21. ágúst 2024, og föður sóknaraðila, dags. 18. ágúst s.á. varðandi þau atvik sem kvörtun sóknaraðila frá 9. mars 2024 laut að.
Í öðru lagi dagsett skjáskot úr símum sóknaraðila og foreldra hennar, sem fylgdu með kvörtun sóknaraðila 9. mars 2024.
Í þriðja lagi tölvupóstur varnaraðila til sóknaraðila frá 22. nóvember 2023 ásamt tímaskýrslu, dags. sama dag. Einnig tölvupóstur varnaraðila til sóknaraðila 3. ágúst 2022 ásamt reikningi, dags. sama dag, tölvupóstur frá 7. október 2022 ásamt reikningi og tímaskýrslu, dags. 5. október s.á. og tölvupóstur frá 27. júní 2023 ásamt reikningi og tímaskýrslu, dags. 26. júní 2023.
Í fjórða lagi bréf Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns, dags. 16. ágúst 2024. Þar kom fram að lögmaðurinn hafi tekið við hagsmunagæslu sóknaraðila 5. júlí 2023 og upplýst gjafsóknarnefnd um það 7. júlí s.á. og afhent nefndinni viðbótarupplýsingar. Gjafsóknarleyfi hafi verið veitt 2. október 2023 og sent Sigurði Frey. Jafnframt kom fram að við ákvörðun héraðsdóms um þóknun varnaraðila úr gjafsókn hafi legið fyrir tímaskýrsla varnaraðila, dags. 26. júní 2023 og reikningur sem byggði á henni, dags. sama dag, ásamt upplýsingum um lántöku sóknaraðila vegna lögmannskostnaðar varnaraðila. Farið hafi verið fram á að gjafsóknarkostnaður tæki mið af þeim kostnaði sem sóknaraðili hefði sannanlega greitt vegna hagsmunagæslu varnaraðila fyrir hana, auk kostnaðar vegna starfa Sigurðar Freys. Sóknaraðili hafi upplýst lögmanninn um að tímaskýrsla sem lögð var fram við gjafsóknarnefnd hafi ekki tekið til allrar vinnu varnaraðila en sóknaraðili hafi ekki haft gögn um endanlegan kostnað vegna þjónustu varnaraðila þegar málið var flutt um þóknun úr gjafsókn. Einnig kom fram að lögmaðurinn hafi upplýst varnaraðila um úrskurð um lögmannsþóknun er hann lá fyrir. Í kjölfar samskipta við varnaraðila leiðrétti Sigurður Freyr að varnaraðili hafi verið upplýstur um ákvörðun héraðsdóms um þóknun í símtali þann 8. mars 2024. Loks kom fram að kostnaður vegna forsjárhæfnismats í máli sóknaraðila hafi verið greiddur úr ríkissjóði.
VIII.
Í athugasemdum varnaraðila við framlögð gögn af hálfu sóknaraðila ítrekaði hann áður gerðar kröfur auk þess sem hann gerði þá kröfu að allir nefndarmenn vikju sæti við meðferð málsins. Varnaraðili færði rök fyrir kröfu um að nefndarmenn vikju sæti. Vísaði hann m.a. til þess að nefndarmenn sinni lögmannsstörfum samhliða störfum sínum fyrir nefndina og séu því í samkeppnisrekstri við varnaraðila. Þá gerir varnaraðili athugasemd við þann tíma sem einstakir nefndarmenn hafi átt sæti í nefndinni, sem varnaraðili telur hafa ýmis neikvæð áhrif. Varnaraðili vísaði til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 varðandi hæfi nefndarmanna. Varnaraðili telur nefndina hafa brotið gegn takmörkunum á leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga og gerir athugasemdir við að gögn sem sóknaraðili lagði fram þann 21. ágúst 2024 hafi verið lögð fram í málinu.
Varnaraðili segir liggja fyrir að hann hafi reynt eftir föngum að ná sambandi við sóknaraðila, með það fyrir augum að sætta málið og reyna að tryggja að sóknaraðili fengi greidda þá fjármuni sem í hennar hlut hafi komið samkvæmt ákvörðun um þóknun úr gjafsókn. Varnaraðila hafi verið ókunnugt um þá niðurstöðu fyrr en löngu eftir að hún lá fyrir. Varnaraðili hafnar því að hafa nokkuð haft með að gera símtöl í sóknaraðila úr óþekktum símanúmerum eða leyninúmerum. Enn fremur hafi hann engar upplýsingar um nokkurn „[…]“ sem fullyrt sé að hafi hringt í nafni varnaraðila og óskað eftir símanúmeri sóknaraðila. Varnaraðili og fulltrúar hans hringi úr sínum símanúmerum og kynni sig alltaf með nafni eins og réttilega komi fram í yfirlýsingu föður sóknaraðila. Öðrum lýsingum á samtölum varnaraðila og starfsmanns við föður sóknaraðila er hafnað.
Niðurstaða
I.
Ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Þar segir jafnframt að nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga um lögmenn bindur loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns ekki umbjóðanda hans.
Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður halda upplýsingum, sem hann fær í starfi, frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskylda banni ekki. Þá reglu skal lögmaður brýna fyrir starfsfólki sínu. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar má lögmaður ekki nota sér upplýsingar, sem honum hefur verið trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila.
Í 10. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmanni sé rétt að áskilja sér hæfilega þóknun fyrir störf sín. Við mat á því hvað telst hæfileg þóknun er m.a. heimilt að líta til umfangs og eðlis máls, undirliggjandi hagsmuna, þýðingar fyrir skjólstæðing, árangurs, þess tíma sem krafist er að varið sé í mál af hálfu lögmannsins, sérhæfingar hans og þeirrar ábyrgðar sem starfanum fylgir. Í 3. mgr. sömu greinar er kveðið á um skyldu lögmanns til þess að upplýsa skjólstæðing sinn um á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð.
Samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.
Lögmaður er bundinn þagnarskyldu gagnvart skjólstæðingi sínum vegna starfa sinna og gildir þagnarskyldan gildir ótímabundið. Allar upplýsingar um skjólstæðing eða málefni hans sem lögmaður tekur við eða verður áskynja í starfi eru háðar þagnarskyldu óháð því hvaðan upplýsingarnar eru komnar, sbr. 1.-3. mgr. 17. gr. siðareglna lögmanna.
Lögmaður má ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjólstæðings, að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum, eða að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku, sbr. 35. gr. siðareglna lögmanna.
II.
Fyrri hluti máls þessa lýtur að ágreiningi um áskilda þóknun varnaraðila vegna starfa hans og starfsmanna hans í máli sóknaraðila. Sóknaraðili krefst endurgreiðslu úr hendi varnaraðila en varnaraðili krefst þess aðallega að þeim hluta málsins er varðar vinnu sem reikningsfærð var fyrir 25. janúar 2023, verði vísað frá, en þóknun sem reikningsfærð var eftir þann tíma, verði metin hæfileg. Til vara krefst varnaraðili þess að áskilið endurgjald vegna vinnu hans í þágu sóknaraðila verði metið hæfilegt.
Við mat á því hvort kvörtun hafi borist nefndinni innan þess frests sem fjallað er um í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, telur nefndin, eins og mál þetta er vaxið, ekki rétt að miða við hvenær einstaka reikningar í málinu voru gefnir út. Að mati nefndarinnar átti sóknaraðili þess ekki kost að meta hvort hún teldi endurgjaldið hæfilegt, fyrr en fyrir lá hver áskilin heildarþóknun varnaraðila var vegna málsins. Á þeim tíma, sem varnaraðili telur rétt að miðað verði við, lágu í máli þessu aðeins fyrir upplýsingar um 18% þess endurgjalds, sem varnaraðili að lokum áskildi sér vegna málsins. Að mati nefndarinnar byrjaði frestur sóknaraðila, til þess að bera ágreining um endurgjald við varnaraðila undir nefndina, í fyrsta lagi að líða þann 26. júní 2023, þegar síðasti reikningur varnaraðila vegna málsins, sem nam 82% af heildarfjárhæð áskilins endurgjalds hans, var gefinn út. Rúmast kvörtun, sem beint var til nefndarinnar þann 25. janúar 2024, því innan þess frests. Er kröfu varnaraðila um frávísun hluta málsins af þessum sökum hafnað.
III.
i.
Í málinu liggur fyrir umboð, undirritað af sóknaraðila, dags. 2. ágúst 2022. Í umboðinu kemur segir varðandi þóknun varnaraðila vegna málsins: „Um greiðslu þóknunar fer samkvæmt gjaldskrá […] ehf. á hverjum tíma nema samið sé um annað“. Ekki kemur fram að gjaldskráin hafi verið kynnt sóknaraðila fyrir undirritun umboðsins.
Við mat á því hvort endurgjald lögmanns sé hæfilegt felst annars vegar mat því á hvort tímagjald sé hæfilegt og hins vegar hvort fjöldi vinnustunda sé í samræmi við þá vinnu sem lögmaður hefur innt af hendi.
Varnaraðili kveðst ekki hafa krafið sóknaraðila um fyrirframgreiðslu vegna vinnu sinnar heldur aðeins krafist greiðslu vegna þeirrar vinnu sem þegar hafi verið unnin. Þó kveðst hann hafa farið fram á að sóknaraðili greiddi honum tryggingu vegna málskostnaðar í upphafi málsins en reikningar vegna vinnu hafi verið sendir með reglulegum hætti eftir það. Í málinu liggur fyrir reikningur, dags. 3. ágúst 2022, að fjárhæð 250.000 kr. Sama dag er fyrsta skráning í tímaskýrslu vegna málsins, vegna 0,5 klst. vinnu varnaraðila sjálfs. Af þessu virðist ljóst að varnaraðili innheimti og reikningsfærði fyrirfram þóknun að fjárhæð kr. 250.000 í upphafi málsins, án þess að sú vinna hafi verið innt af hendi.
Í málinu liggur fyrir tímaskýrsla varnaraðila sem telur samtals 102,5 vinnustundir. Þar af eru vinnustundir varnaraðila sjálfs 9,5 talsins, vinnustundir [D], löglærðs fulltrúa 37,75 klst. og vinnustundir [C], löglærðs fulltrúa, 55,25 klst. Samkvæmt tímaskýrslu var tímagjald 32.900 kr. frá því að tímaskráning hófst þann 3. ágúst 2022 til 22. júní 2023 en 38.900 kr. frá 29. júní 2023 til 10. júlí 2023, þegar tímaskráningu lauk. Sama tímagjald er innheimt vegna vinnu löglærðra fulltrúa sem ekki hafa lögmannsréttindi og varnaraðila sjálfs. Samkvæmt tímaskýrslu nemur heildarkostnaður vegna málsins 3.499.750 kr. auk virðisaukaskatts.
Reikningar dags. 3. ágúst og 5. október 2022 s.á. tóku til 14,5 vinnustunda á tímabilinu 31. ágúst til 4. október 2022 og námu samtals fjárhæð 477.050 auk virðisaukaskatts. Reikningur, dags. 26. júní 2023 tók til 66,75 vinnustunda á tímabilinu 3. ágúst 2022 og 11. október 2022 til 22. júní 2023 og nam fjárhæð 2.196.075 kr. auk virðisaukaskatts. Samtals nemur fjárhæð umkrafinnar þóknunar vegna málsins því 2.673.125 kr. auk virðisaukaskatts.
Varnaraðili segir sóknaraðila ekki hafa verið gert að greiða skráðar vinnustundir löglærðra fulltrúa samkvæmt tímaskýrslu 12. desember 2022 og 2. og 3. mars 2023, samtals 8,5 klst. Reikningur og tímaskýrsla, dags. 26. júní 2023, bera þó með sér að reikningurinn hafi tekið til þeirra vinnustunda. Í greinargerð kvaðst varnaraðili hafi veitt sóknaraðila afslátt að fjárhæð 1.025.015 kr. sem skýri misræmi á milli fjárhæðar samkvæmt tímaskýrslu annars vegna og reikningi hins vegar. Gögn málsins bera þó með sér að sá mismunur skýrist af því að sóknaraðila var ekki gerður reikningur vegna 21,25 vinnustunda sem skráðar voru í tímaskýrslu á tímabilinu 29. júní 2023 til 10. júlí 2023. Í tölvupósti 24. júní 2023 til dómara í máli sóknaraðila, sóknaraðila sjálfrar og lögmanns gagnaðila, sagði varnaraðili sig frá málinu. Þá kemur fram í greinargerð varnaraðila sjálfs að sóknaraðili hafi leitað til annars lögmanns í júní 2023 og í kvörtun kemur fram að sóknaraðili hafi afþakkað frekari þjónustu úr hendi varnaraðila eftir útgáfu reiknings, dags. 26. júní 2023.
ii.
Heildarfjárhæð umkrafins endurgjalds varnaraðila nemur sem fyrr segir 2.673.125 kr. auk virðisaukaskatts. Þar af eru 312.550 kr. vegna vinnu varnaraðila sjálfs og 2.360.575 kr. vegna vinnu löglærða fulltrúa. Samkvæmt úrskurði var þóknun varnaraðila úr gjafsókn ákvörðuð 1.200.000 kr. að viðbættum virðisaukaskatti. Við ákvörðunina lá fyrir tímaskýrsla varnaraðila vegna 66,75 vinnustunda af þeim 81,25 sem varnaraðili fer fram á greiðslu vegna.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að sóknaraðili hafi ekki verið krafin um greiðslu vegna vinnu löglærðs fulltrúa 12. desember 2022 og 2. og 3. mars 2023. Reikningur, dags. 26. júní 2023, ber annað með sér. Samtals er um að ræða 8,5 klst. á tímagjaldinu 32.900 kr. auk virðisaukaskatts eða 346.766 kr.
Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 bindur loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns ekki umbjóðanda hans. Fyrirliggjandi tímaskýrsla ber með sér að varnaraðili hafi sjálfu unnið 9,5 klst. í máli sóknaraðila, en löglærðir fulltrúar sem störfuðu á lögmannsstofu hans 71,75 stundir. Jafnframt ber tímaskýrsla með sér að varnaraðili krafði sóknaraðila um sama tímagjald vegna vinnu löglærðra fulltrúa, sem ekki höfðu lögmannsréttindi, og hans sjálfs. Að mati nefndarinnar felur slíkt í sér kröfu um ósanngjarnt endurgjald. Sóknaraðili fól varnaraðila að gæta hagsmuna sinna í krafti sérfræðiþekkingar hans sem lögmanns og mátti ekki ætla að bróðurpartur vinnu í máli hennar yrði unninn af löglærðum fulltrúum sem henni yrði gert að greiða sama gjald fyrir og vinnu lögmanns. Nefndin telur umkrafið tímagjald varnaraðila að fjárhæð 32.900 kr. hæfilegt og hæfilegt endurgjald löglærðra fulltrúa 26.500 kr.
Að virtu umfangi málsins og þeirra verka sem gögn málsins og fyrirliggjandi tímaskýrsla, dags. 22. nóvember 2023, bera með sér að hafi verið unnin, telur nefndin, með vísan til þess sem að framan greinir, hæfilegt endurgjald vegna starfa varnaraðila og löglærðra fulltrúa hans fyrir sóknaraðila að álitum vera 2.000.000 kr. auk virðisaukaskatts. Þar af er endurgjald vegna vinnu varnaraðila sjálfs 312.550 kr. auk virðisaukaskatts og endurgjald vegna vinnu löglærðra fulltrúa 1.687.450 kr. auk virðisaukaskatts.
Samkvæmt gögnum málsins lauk hagsmunagæslu varnaraðila fyrir sóknaraðila í júní 2023. Á varnaraðili þar af leiðandi ekki kröfu til endurgjalds vegna vinnu samkvæmt tímaskýrslu eftir útgáfu síðasta reiknings vegna málsins, dags. 26. júní 2023.
iii.
Líkt og að framan er rakið var kæranda veitt gjafsóknarleyfi þann 2. október 2023 vegna þess máls sem varnaraðili sinnti fyrir hana. Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli sóknaraðila frá 20. nóvember 2023 skyldi gjafsóknarkostnaður greiðast úr ríkissjóði, þar með talin þóknun varnaraðila, að fjárhæð 1.200.000 kr. auk virðisaukaskatts. Innheimta gjafsóknarkostnaðar er á forræði varnaraðila sjálfs. Af því leiðir að varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila fjárhæð ákvarðaðs málskostnaðar úr gjafsókn, sem hún hefur þegar greitt honum.
iv.
Með vísan til framangreinds sætir umkrafið endurgjald varnaraðila vegna starfa fyrir sóknaraðila lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 2.480.000 kr. með virðisaukaskatti. Þóknun úr gjafsókn að meðtöldum virðisaukaskatti nemur 1.488.000 kr. Stendur þá eftir hlutur sóknaraðila að fjárhæð 992.000 kr. Sóknaraðili hefur þegar greitt varnaraðila 3.165.821 kr. Ber varnaraðila að endurgreiða sóknaraðila 2.173.821 kr.
III.
Með hliðsjón af gögnum málsins og atvikum öllum í máli þessu telur nefndin lýsingu sóknaraðila á atburðarás dagana 19. febrúar og 6.-8. mars 2024 trúverðuga. Er þá einnig höfð hliðsjón af því að frestur varnaraðila til þess að skila greinargerð vegna fyrri kvörtunar sóknaraðila til nefndarinnar rann út þann 6. mars sl. Þann sama dag var af hálfu varnaraðila óskað eftir framlengingu frestsins um tvær vikur á þeim forsendum að unnið væri að sátt við varnaraðila. Kvörtun vegna háttsemi varnaraðila á tímabilinu 6.-8. mars var lögð fram við nefndina degi síðar, en að kvöldi 8. mars sl., barst nefndinni tölvupóstur frá sóknaraðila þar hún greindi frá atburðarásinni í stuttu máli. Þar fullyrti sóknaraðili einnig að hún hefði ekki átt í neinum samskiptum né samningaviðræðum við varnaraðila og það stæði ekki til. Þá mótmælti hún framlengingu á fresti sem varnaraðila hafði verið veittur til þess að skila greinargerð í málinu og fór þess á leit við nefndina að fresturinn yrði endurskoðaður eða afturkallaður þar sem hann hafi verið gefinn á röngum forsendum.
Sóknaraðili ítrekaði í kvörtun sinni til nefndarinnar að hún hefði engin samskipti átt við varnaraðila og engar samningaviðræður hefðu farið fram eða verið fyrirhugaðar af hennar hálfu. Með hliðsjón af framangreindu, gögnum málsins, og atvikum öllum, telur nefndin ljóst að því hafi ranglega verið haldið fram við nefndina af hálfu varnaraðila, að „unnið væri að sátt við sóknaraðila“, í því skyni að fá viðbótarfrest til þess að skila greinargerð vegna fyrri kvörtunar sóknaraðila. Umrædd beiðni barst nefndinni með tölvupósti kl. 12:26 þann 6. mars. Fram að þeim tíma hafði varnaraðili reynt að ná sambandi við sóknaraðila í síma og með skilaboðum þann 19. febrúar, en sóknaraðili ekki svarað. Næsta tilraun af hálfu varnaraðila til þess að ná tali af sóknaraðila var gerð sex mínútum eftir að frestsins var óskað, með símtali úr síma [E] lögmanns í síma sóknaraðila kl. 12:32 þann sama dag.
Telur nefndin ljóst að uppgefnar forsendur fyrir beiðni varnaraðila um framlengingu greinargerðarfrests hafi verið rangar og villandi. Ætla má að tilgangur beiðninnar hafi umfram annað verið sá að kaupa varnaraðila tíma til þess að hægt væri að „leita allra tiltækra leiða til að ná sambandi við sóknaraðila“, eins og kom fram í viðbótargreinargerð varnaraðila til nefndarinnar að hann hefði og gert. Varnaraðili hefur staðfest í svörum til nefndarinnar að hafa í því skyni haft samband við sameiginlega vinkonu aðila og föður sóknaraðila. Það gerði hann þrátt fyrir að varnaraðili hafi sýnt það í verki að hún sæi ekki ástæðu til þess að svara símtali frá varnaraðila og [E] lögmanni, eða skilaboðum þar sem hann hún var beðin um að hafa samband við varnaraðila varðandi sátt í málinu.
Beiðninni var beint til nefndarinnar af starfsmanni varnaraðila, [E] lögmanni, sem hann fól að gæta hagsmuna sinna gagnvart nefndinni og fékk varnaraðili sent afrit af beiðninni. Er að mati nefndarinnar ljóst að varnaraðila var að minnsta kosti kunnugt um að beiðnin hefði verið lögð fram og á hvaða forsendum. Var varnaraðili því að mati nefndarinnar augljóslega þátttakandi í ráðagerðum um að nefndinni væru veittar rangar og villandi upplýsingar í beiðni um framlengingu greinargerðarfrests vegna málsins.
Samkvæmt 17. gr. siðareglna lögmanna er lögmaður bundinn ótímabundinni þagnarskyldu gagnvart skjólstæðingi sínum vegna starfa sinna. Allar upplýsingar um skjólstæðing og málefni hans sem lögmaður tekur við eða verður áskynja í starfi sínu eru háðar þagnarskyldu, óháð því hvaðan upplýsingarnar eru komnar. Það að einstaklingur njóti eða hafi notið þjónustu lögmanns í einhverju tilliti, eru að mati nefndarinnar upplýsingar sem eru háðar þagnarskyldu lögmannsins. Með því að setja sig í samband við sameiginlega vinkonu og föður sóknaraðila í því skyni að fá þau til þess að hafa samband við varnaraðila vegna máls, felur að mati nefndarinnar í sér brot á þagnarskyldu sem hann bar gagnvart sóknaraðila, og tók til allra upplýsinga um hana og málefni hennar, þar með talið upplýsinga um að hann hafi á einhverjum tímapunkti gætt hagsmuna hennar í einhverju tilliti. Fólst í þeirri háttsemi brot af hálfu varnaraðila gegn ákvæði 17. gr. siðreglna lögmanna. Enn fremur telur nefndin framangreinda háttsemi ekki hafa verið í samræmi við góða lögmannshætti, sbr. 2. og 6. gr. siðareglna lögmanna.
Samkvæmt 35. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum til framdráttar málum skjólstæðings síns. Í ákvæðinu er nefnd í dæmaskyni sú háttsemi lögmanns að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns. Sú háttsemi sem getur talist fela í sér ótilhlýðilega þvingun af hálfu lögmanns er ekki tæmandi talin í ákvæðinu. Að mati nefndarinnar verður sú háttsemi að leita, með þeim hætti og nefnt er í ákvæðinu, til annars óviðkomandi þriðja aðila, felld undir ákvæðið.
Nú stendur svo á að varnaraðili er sjálfur aðili að máli þessu. Ljóst er að hann tók sjálfur þátt í eigin hagsmunagæslu í málinu með því að setja sig í samband við sameiginlega kunningjakonu aðila og föður sóknaraðila í því skyni að ná tali af henni vegna málsins. Að mati nefndarinnar verður háttsemi lögmanns, sem gætir eigin hagsmuna í máli, felld undir ákvæði 35. gr. siðareglna lögmanna, eftir því sem við á. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að varnaraðila, sem lögmanni sem gætti eigin hagsmuna í máli þessu gegn sóknaraðila, var óheimilt að setja sig samband við sameiginlega vinkonu aðila og föður sóknaraðila, varðandi mál sóknaraðila gegn sér, án sérstaks tilefnis. Nefndin telur ekki að sýnt hafi verið fram á að slíkt tilefni hafi gefist í máli þessu. Varnaraðila mátti vera ljóst, eftir að hafa reynt að ná í sóknaraðila í síma og með skilaboðum, að hún hygðist ekki ræða við hann um málið. Dugir það að mati nefndarinnar ekki til þess að sérstakt tilefni teljist hafa verið til, sem hafi veitt varnaraðila heimild til þess að leita til óviðkomandi þriðja aðila vegna málsins. Hefði varnaraðili enda getað borið erindi sitt upp í tölvupósti eða skilaboðum til sóknaraðila, í ljósi þess hve honum virðist hafa þótt erindið aðkallandi. Með framangreindri háttsemi gerðist varnaraðili brotlegur við ákvæði 35. gr. siðareglna lögmanna. Enn fremur telur nefndin framangreinda háttsemi ekki hafa verið í samræmi við góða lögmannshætti, sbr. 2. og 6. gr. siðareglna lögmanna.
Að áliti nefndarinnar hefur varnaraðili gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot á 2., 6., 17. og 35. gr. siðareglna lögmanna. Með brotunum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn málskostnað vegna málsins.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá nefndinni er hafnað.
Áskilið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, vegna starfa í þágu sóknaraðila, [A], sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 2.480.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.
Varnaraðili, [B] lögmaður, endurgreiði sóknaraðila, [A], 2.173.821 kr.
Varnaraðili, [B] lögmaður, sætir áminningu.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helga Melkorka Óttarsdóttir
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir