Mál 33/2024
Mál 33/2024
Ár 2025, fimmtudaginn 6. mars 2025, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst, þann 25. júní 2024, kvörtun [C], f.h. sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 11. júlí 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 26. og 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 30. júlí 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 13. september 2024 og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 8. nóvember 2024. Með bréfi mótteknu 6. desember 2024 sendi sóknaraðili frekari upplýsingar vegna málsins. Varnaraðila var gefinn kostur á andsvörum af því tilefni og bárust þau þann 13. desember. Með bréfi, dags. 21. janúar 2025, fór sóknaraðili fram á það við nefndina að í úrskurði nefndarinnar kæmi fram með skýrum hætti að úrskurðurinn sé aðfararhæfur. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðili leitaði til varnaraðila vegna skilnaðarmáls 29. mars 2023. Þann dag hittust aðilar á fundi og fóru yfir aðdraganda skilnaðarins. Sóknaraðili segist hafa lagt áherslu á að málið gengi fljótt og vel fyrir sig. Varnaraðili hafi tjáð honum að þjónustan yrði dýr og sóknaraðili sagst vera tilbúinn að greiða tvær milljónir fyrir hana. Varnaraðili hafi ekki gert athugasemd við þá fjárhæð. Á fundinum undirritaði sóknaraðili umboð þar sem fram komi að gjaldskrá hafi verið kynnt honum og hann upplýstur um áætlaðan heildarkostnað af málinu. Hvorugt hafi þó verið kynnt honum. Sóknaraðili kveðst ekki hafa afhent varnaraðila nein gögn á þessum fundi. Þrátt fyrir það hafi verið skráð í tímaskýrslu starfsmanns á lögmannsstofu varnaraðila þann 1. apríl 2023 vinna við að fara yfir gögn málsins og senda fyrirspurn til sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu. Það embætti komi þó ekki að málinu enda sóknaraðili búsettur í […].
Sóknaraðili lýsir tölvupóstsamskiptum við starfsmann á lögmannsstofu varnaraðila í ágúst 2023 og fundi með varnaraðila og lögmanni gagnaðila 16. ágúst 2023 þar sem honum þótti varnaraðili undirgefinn lögmanni gagnaðila. Ekkert gagnlegt hafi gerst á fundinum að mati sóknaraðila. Í lok ágúst hafi sóknaraðili óskað eftir því að kæra þáverandi eiginkonu sína vegna fjármuna sem hún hafi tekið án hans vitundar. Varnaraðili hafi lofað að starfsmaður hans yrði í sambandi samdægurs með aðgerðaráætlun og hann myndi leggja fram kæru í vikunni. Hvorugt hafi hins vegar verið staðið við. Þann 1. september hafi sóknaraðila borist reikningur að fjárhæð 240.875 kr. vegna tölvupóstsamskipta og undirbúnings, sem sóknaraðili telur engu gagni hafa skilað.
Á haustmánuðum 2023 hafi runnið upp fyrir sóknaraðila að ekki væri að sjá neinn árangur af vinnu varnaraðila, en háir reikningar engu að síður borist um hver mánaðamót, án þess að nokkuð gagnlegt hafi gerst í átt að samkomulagi vegna skilnaðarmálsins.
Í byrjun september hafi sóknaraðili hitt þáverandi eiginkonu sína og hún kynnt honum tillögu að samkomulagi um fjárskipti. Þar sem sóknaraðila hafi verið orðið ljóst að jafn mikilvægt væri að skilja við eiginkonuna og varnaraðila, hafi hann samþykkt tilboð hennar. Þetta hafi sóknaraðili tilkynnt varnaraðila í tölvupósti 13. september 2023 sem hann hafi svarað samdægurs þess efnis að endilega ætti að loka málinu. Þrátt fyrir það hafi það ekki verið fyrr en 20. október s. á. að starfsmaður varnaraðila tilkynnti sóknaraðila að lögmaður eiginkonunnar hefði undirritað fjárskiptasamninginn.
Samkvæmt samkomulagi sóknaraðila og eiginkonu hans, sem á hafi komist án milligöngu varnaraðila, greiði hann henni rétt rúmlega 7.300.000 kr. Þegar upp hafi verið staðið hafi varnaraðili rukkað hann samtals 5.049.179 kr. vegna vinnu við málið. Í nóvember 2023 hafi sóknaraðili gert athugasemd við síðasta reikning varnaraðila í málinu, að fjárhæð 1.273.387 kr. og verið boðinn 60% afsláttur af reikningnum.
Sóknaraðili vísar til 24. og 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Jafnframt vísar hann til ákvæða 8. og 10. gr. siðareglna lögmanna. Sóknaraðili fer fram á að nefndin úrskurði um sanngjarnt endurgjald vegna vinnu varnaraðila og það lækkað. Jafnframt fer sóknaraðili fram á að lagt verði mat á hvort varnaraðili hafi gætt ákvæða laga og siðareglna lögmanna í hagsmunagæslu sinni. Sóknaraðili telur varnaraðila ekki hafa gætt hagsmuna sinna af einurð, hann hafi gefið út óeðlilega háa reikninga mánuðum saman, án þess að sóknaraðili hafði nokkuð gagn af vinnu hans. Þetta hafi valdið sóknaraðila verulegum áhyggjum, ama og fjárhagslegu tjóni.
II.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Varnaraðili segir málavaxtalýsingu sóknaraðila ófullnægjandi og í meginatriðum ranga. Hann fari ranglega með staðreyndir málsins auk þess að skortur sé á umfjöllun um veigamikil atriði sem varpi ljósi á umfang þeirrar miklu vinnu sem innt hafi verið af hendi í málinu.
Vinna varnaraðila hafi hafist á að láta verðmeta eignir hjónanna, m.a. fasteignir í Dóminíska lýðveldinu og á Spáni. Mikill illindi hafi verið á milli aðila og sáttaumleitanir reynst erfiðar. Tungumálaörðugleikar og búseta eiginkonu sóknaraðila hafi aukið við flækjustig hvað það varðaði. Sóknaraðili hafi verið upplýstur um réttarstöðu sína á fyrsta fundi en þrátt fyrir að ekki lægi fyrir kaupmáli á milli aðila hafi sóknaraðili viljað halda sjálfur öllum hjúskapareignum. Því hafi sóknaraðili verið upplýstur um að sættir um fjárskipti væru grundvöllur þess að skilnaðurinn gæti gengið hratt fyrir sig. Á fyrsta fundi hafi sóknaraðili jafnframt verið upplýstur um gjaldskrá lögmannsstofu varnaraðila og engar athugasemdir gert við hana.
Í kjölfar fyrsta fundar hafi fulltrúi varnaraðila átt samskipti við fulltrúa sýslumanns, spænskan lögmann, gagnaðila og sóknaraðila, til að koma skilnaðarferlinu af stað. Í framhaldi hafi beiðni um skilnað verið send sýslumanni. Þar sem þáverandi eiginkona sóknaraðila hafi neitað að eiga í samskiptum við sóknaraðila á meðan á skilnaðarferlinu stóð, hafi öll samskipti aðila farið fram í gegnum varnaraðila.
Í apríl og maí 2023 hafi verið mikil samskipti við aðila, m.a. vegna sölu fasteigna. Samskiptin hafi verið við sóknaraðila, eiginkonu hans og lögmann hennar, og sýslumann. Í kjölfar þeirra samskipta hafi eiginkona sóknaraðila komið til landsins til þess að mæta í viðtal hjá sýslumanni, sem hafi leitt til þess að hægt hafi verið að halda skilnaðarferlinu áfram. Loks hafi beiðni um lögskilnað verið lögð inn til sýslumanns þann 6. júní 2023, á grundvelli þess að báðir aðilar hefðu framið hjúskaparbrot.
Í byrjun júní hafi eiginkona varnaraðila fengið sér lögmann á Íslandi og samningaviðræður hafist við hann um fjárskipti. Hún hafi fljótlega skipt um lögmann og samningaviðræður hafist að nýju. Samskipti varnaraðila og fulltrúa hans við lögmann eiginkonu sóknaraðila hafi verið regluleg frá þeim tíma til 19. október 2023. Varnaraðili hafi átt í samskiptum við íslenskan fasteignasala á Spáni og spænskan lögmann vegna fasteignar þar í landi og gagnaöflunar tengda því að breyta skráðu eignarhaldi fasteignarinnar á þann veg að sóknaraðili væri einn eigandi hennar.
Í framhaldinu hafi samningaviðræður áfram og niðurstaða þeirra verið sú að falla frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga þannig að eiginkona sóknaraðila héldi fasteign í Dóminíska lýðveldinu og sóknaraðili fasteign á Spáni, sem hafi verið um 20 milljónum verðmeiri. Sóknaraðili myndi greiða eiginkonu sinni framfærslu í eitt ár frá undirritun samningsins. Í því sambandi hafi lögmaður eiginkonunnar dregið upp tvö skuldabréf og varnaraðili yfirfarið þau f.h. sóknaraðila. Sóknaraðili hafi mætt á fund til þess að undirrita samninginn og lögmaður eiginkonunnar sömuleiðis. Loks hafi samningurinn verið sendur sýslumanni sem hafi gefið út leyfi til lögskilnaðar 31. október 2023.
Hinn 3. nóvember hafi sóknaraðili óskað eftir að fá frumrit samningsins afhent svo unnt væri að staðfesta það með alþjóðlegri staðfestingu. Varnaraðili hafi sett sig í samband við sýslumann vegna þess, sótt frumritið til sýslumanns og farið með það á skrifstofu utanríkisráðuneytisins til staðfestingar.
Varnaraðili byggir kröfu um frávísun á því að miða eigi við útgáfudag reiknings fyrir þóknun hverju sinni við mat á því hvenær kostur var að beina ágreiningsmáli um þóknun til nefndarinnar, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Varnaraðili vísar til úrskurðar nefndarinnar í máli 38/2021. Reikningar vegna þjónustu varnaraðila hafi verið gefnir út mánaðarlega á tímabilinu 1. apríl til 1. nóvember 2023. Þar sem kvörtun hafi borist 26. júní 2024 beri að vísa frá kvörtun er varðar reikninga sem gefnir voru út fyrir 26. júní 2023.
Varnaraðili hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum laga um lögmenn og siðareglum lögmanna. Hver einasta skráning í vinnuskýrslu eigi sér stoð í framlögðum gögnum og tölvupóstsamskiptum. Auk þess hafi ekki öll samskipti við sóknaraðila í síma og tölvupósti verið reikningsfærð eins og gögn málsins sýni.
Varnaraðili hafnar því að hafa verið undirgefinn lögmanni gagnaðila á fundi 16. ágúst 2023 eins og sóknaraðili haldi fram. Varnaraðili lýsti aðdraganda fundarins og kveðst hafa gætt hagsmuna sóknaraðila en um leið komið fram af virðingu og kurteisi við lögmann gagnaðila.
Varnaraðili bendir á að enginn reikningur liggi fyrir í málinu dags. 1. september 2024 og kannast ekki við þá fjárhæð sem sóknaraðili fjalli um í kvörtun. Jafnframt mótmælir varnaraðili því sem fram kemur í kvörtun um að aðgerðaráætlun hafi ekki verið send sóknaraðila í kjölfar tölvupósts 28. ágúst 2023 og vísar til gagna málsins. Að sama skapi hafi varnaraðili átt samskipti við lögmann gagnaðila 31. ágúst 2023, sem liggi fyrir í málinu, þar sem farið hafi verið yfir þau atriði sem sóknaraðili hafði óskað svara um.
Varnaraðili bendir á að gögn málsins sýni fram á mikil samskipti í málinu við sóknaraðila sjálfan, eiginkonu hans, lögmenn hennar, fasteignasölu og lögmenn á Spáni, sýslumann og utanríkisráðuneytið. Á tímabilinu frá júní til október 2023 hafi samningaviðræður verið nær stöðugar. Eiginkona sóknaraðila hafi skipt um lögmann í þrígang með tilheyrandi töfum sem varnaraðila verði ekki kennt um. Samskipti við eiginkonu sóknaraðila hafi verið flókin vegna tungumálaörðugleika, deilna um minni háttar atriði og ítrekaðra breytinga á kröfum þeim tengdum.
III.
Sóknaraðili segir rangt að hann hafi komið með gögn um fasteign í Dóminíska lýðveldinu á fyrsta fund sinn með varnaraðila. Um hafi verið að ræða staðfestingu á heimilisfangi á Spáni, ekki gögn um fasteignina. Hann útskýrir að heimilisfangið í Dóminíska lýðveldinu sem varnaraðili vitni til sé í raun heimilisfang viðtakanda mánaðarlegra greiðslna en ekki þeirrar fasteignar sem fyrrverandi eiginkona sóknaraðila keypti þar í landi, án vitundar hans, á meðan á hjúskap stóð. Sóknaraðili kveðst einnig hafa skilið eftir afrit af vegabréfum hans og þáverandi eiginkonu sinnar, á umræddum fundi, til staðfestingar þess að þau væru þau sem frá væri sagt. Ekki hafi verið um að ræða nein gögn sem krefðust einhvers konar yfirferðar.
Sóknaraðili ítrekar að varnaraðili hafi engra gagna aflað varðandi fasteign þeirra hjóna í Dóminíska lýðveldinu og vísar til tölvupóstsamskipta sem liggja fyrir í málinu.
Sóknaraðili hafnar því að tungumálaörðugleikar hafi flækt málið og bendir á að fyrrverandi eiginkona hans tali bæði íslensku og ensku. Því séu slíkar fullyrðingar órökstuddar. Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi sjálfur staðfest í tölvupósti að eiginkonan skildi íslensku og skrifaði á ensku.
Sóknaraðili kvartar yfir því að reikningar frá lögmannsstofunni hafi verið óeðlilega háir og að tímalengd funda og annarra verka hafi verið ofmetin og vísar til einstakra færslna í tímaskýrslu og gagna málsins hvað það varðar. Sóknaraðili bendir á að eftir að hann gerði athugasemd við reikning varnaraðila sem tók til fundar 3. maí 2023 hafi reikningur verið lækkaður um 193.316 kr. Umræddur fundur með varnaraðila hafi staðið í um 40 mínútur og í kjölfarið hafi sóknaraðili rætt við fulltrúa varnaraðila í innan við 10 mínútur. Vegna þessa hafi varnaraðili skráð fjórar klukkustundir, þar af eina í undirbúning, og fulltrúinn eina klukkustund, sem hafi verið leiðrétt með framangreindum hætti.
Sóknaraðili telur að tafir á málsmeðferð hafi stafað af því að varnaraðili hafi ekki haft nægilega þekkingu á málaflokknum og hafi því þurft að leita ráðgjafar hjá sýslumönnum í tveimur umdæmum. Þetta hafi aukið kostnað sóknaraðila verulega. Hann gagnrýnir einnig að ráðgefandi álits hafi verið leitað hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu í stað Suðurnesja þar sem lögheimili hans var. Að mati sóknaraðila bar fyrirspurn fulltrúa varnaraðila til sýslumanns með sér að þekkingu og reynslu skorti í málaflokknum, þrátt fyrir að lögmannsstofa varnaraðila gefi sig út fyrir að sérhæfa sig í hjúskapar- og sambúðarmálum.
Sóknaraðili heldur því fram að hann hafi ekki verið nægilega vel upplýstur um framgang málsins af hálfu varnaraðila og að hann hafi ekki fengið öll gögn í málinu afhent þegar hann óskaði eftir þeim. Hann fékk ekki gögnin afhent fyrr en eftir að hann hafði gert upp við varnaraðila.
Sóknaraðili lýsir því hvernig hann samþykkti tilboð frá fyrrverandi eiginkonu sinni um fjárskipti án aðkomu varnaraðila, en þrátt fyrir það hafi varnaraðili rukkað fyrir vinnu sem sóknaraðili telji að hafi ekki verið innt af hendi. Sóknaraðili telur að samkomulagið hafi verið einfalt og að varnaraðili hafi ekki þurft að koma að því.
Sóknaraðili gagnrýnir hvernig varnaraðili hafi haft samskipti við spænskan lögmann fyrrverandi eiginkonu hans. Hann telur samskiptin hafa verið ófagleg og ekki til þess fallin að leysa málið á farsælan hátt. Í tölvupósti til spænska varnaraðila talar varnaraðili niðrandi um hæfni hans og gerir lítið úr tungumálakunnáttu hans.
Sóknaraðili bendir á að hann hafi ekki átt þess kost að bera tímaskýrslur varnaraðila saman við þau gögn sem lágu að baki fyrr en hann fékk afhent gögn málsins, þann 5. janúar 2024. Að sama skapi hafi sóknaraðili þá fyrst átt þess kost að gera sér grein fyrir starfsháttum varnaraðila og reikningaskrifum hans og hvort ráðleggingar hans hafi verið réttar eða rangar. Sóknaraðili kveðst einu sinni hafa gerst athugasemd vegna tímaskráningar varnaraðila og fulltrúa hans og það hafi verið vegna fundar þann 3. maí 2023. Í því tilfelli hafi hann verið á staðnum og því vitað tímalengd fundarins. Aðrar athugasemdir hafi sóknaraðili ekki gert við reikningagerð varnaraðila en í nóvember 2023 hafi hann óskað eftir greiðslufresti á síðasta reikningi varnaraðila. Hafi varnaraðili þá boðið 40% afslátt af útistandandi reikningi, sem sóknaraðili hafi þegið en óskað eftir lengri greiðslufresti. Sama dag hafi varnaraðili veitt enn frekari afslátt, eða u.þ.b. 55%, og sóknaraðili þegið það með þökkum. Þessi málalok tengist að mati sóknaraðila ekki með neinum hætti því að hann hafi verið vel upplýstur um kostnað, gang málsins eða nokkurs annars, hann hafi einfaldlega ekki getað greitt reikninginn vegna peningaleysis.
Sóknaraðili gerir kröfu um málskostnað. Sóknaraðili áréttar kröfu um að nefndin taki málið til athugunar og meti hvort varnaraðili hafi brotið gegn lögum og siðareglum í störfum sínum. Sóknaraðili leggur áherslu á að hann hafi ekki verið upplýstur um framgang málsins og ekki fengið gögn afhent fyrr en eftir að hann hafði gert upp við varnaraðila. Hann telur varnaraðila ekki hafa fylgt þeim skyldum sem á honum hvíla samkvæmt lögum og siðareglum lögmanna, segir vinnubrögð hans hafa verið ófagleg og að varnaraðili hafi ekki gætt hagsmuna hans sem skyldi.
IV.
Varnaraðili gerir alvarlegar athugasemdir við málatilbúnað sóknaraðila sem sé verulega vanreifaður og óljós, sem gerir það erfitt fyrir hann að taka til varna.
Varnaraðili mótmælir ásökunum sóknaraðila um að hann hafi samkennt sig máli sóknaraðila og ekki gætt hagsmuna hans af einurð. Varnaraðili telur að ásakanir sóknaraðila séu þversagnakenndar, þar sem sóknaraðili haldi því fram að varnaraðili hafi bæði ekki gætt hagsmuna hans og samkennt sig þeim. Varnaraðili vísar til siðareglna lögmanna um að lögmaður sé ekki samkenndur hagsmunum sem hann gætir.
Varnaraðili leggur áherslu á að lýsing sóknaraðila á málavöxtum sé verulega vanreifuð og í meginatriðum röng. Varnaraðili bendir á að þáverandi eiginkona sóknaraðila hafi fjárfest í fasteign á Spáni á meðan á hjúskap aðila stóð og að gögn sem sóknaraðili hafði meðferðis á fyrsta fundi með varnaraðila kröfðust yfirferðar. Varnaraðili hafnar því að beiðni um ráðgefandi álit frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafi brotið gegn hagsmunum sóknaraðila.
Varnaraðili hafnar athugasemdum sóknaraðila varðandi tímaskráningar og reikninga sem eldri eru en eins árs. Varnaraðili bendir á að sóknaraðila hafi verið haldið vel upplýstum um stöðu mála og fengið mánaðarlega reikninga og tímaskýrslur. Varnaraðili vísar til laga um lögmenn varðandi tímafrest til að kvarta undan reikningum. Varnaraðili mótmælir því að miða eigi tímafrest 26. gr. laga nr. 77/1998 við það tímamark þegar sóknaraðili fékk gögn málsins afhent eftir að málinu lauk.
Varnaraðili bendir á að athugasemdir sóknaraðila við tiltekin fylgiskjöl séu óskýrar og ómögulegt sé að taka til varna. Varnaraðili fer fram á að þeim verði vísað frá nefndinni. Varnaraðili útskýrir að sóknaraðili hafi undirritað þrjú skuldabréf til öryggis vegna óvissu um fjárhæð mánaðargreiðslna. Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um að hann hafi ekki verið meðvitaður um þetta ferli.
Varnaraðili hafnar athugasemdum sóknaraðila um innheimtu skuldabréfa og bendir á að greiðslur hafi verið í samræmi við undirrituð skuldabréf og fjárskiptasamning. Varnaraðili mótmælir því að fjárskiptasamningurinn sé ófaglegur og bendir á að sóknaraðili hafi ekki gert athugasemdir við samninginn áður en hann var undirritaður. Varnaraðili mótmælir ásökunum um að hafa hvatt sóknaraðila til að „bera olíu á eldinn“ í samskiptum við fyrrverandi eiginkonu. Varnaraðili útskýrir að hann hafi einungis bent sóknaraðila á að halda ró sinni til að leysa ágreininginn.
Varnaraðili áréttar að á meðan á hagsmunagæslu hans stóð var sóknaraðila haldið vel upplýstum um kostnað og vinnu sem lá að baki hagsmunagæslunni. Með vísan í framlögð gögn og greinargerð varnaraðila telur hann að sóknaraðili fari ekki rétt með málavexti eða staðreyndir málsins. Varnaraðili telur að hann hafi ekki brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um lögmenn eða siðareglum lögmanna og áskilur sér rétt til að leggja fram frekari andmæli og gögn ef tilefni verður til.
V.
Eftir að gagnaöflun hafði verið lýst lokið kom sóknaraðili á framfæri athugasemdum við viðbótargreinargerð varnaraðila. Í fyrsta lagi gerir sóknaraðili athugasemdir við að varnaraðili fullyrði í greinargerð sinni að hann sé samkynhneigður og í sambúð með vini sínum sem hafi komið fram fyrir hans hönd í máli þessu gagnvart nefndinni.
Sóknaraðili gerir enn fremur athugasemd við að varnaraðili haldi því fram að hann sé úrvinda og hafi sýnt þess merki að vera í andlegu ójafnvægi. Sóknaraðili hafnar þessum fullyrðingum og útskýrir að hann hafi aldrei verið í andlegu ójafnvægi, hvorki vegna samskipta við varnaraðila né af öðrum ástæðum. Hann viðurkennir að hafa verið þreyttur í vinnu sinni sem áhafnarmeðlimur á frystitogurum, en aldrei úrvinda.
Einnig sé í andmælum varnaraðila fullyrt að fyrrverandi eiginkona sóknaraðila tali hvorki íslensku né ensku. Sóknaraðili áréttar að fyrrverandi eiginkona hans tali bæði íslensku og ensku, og jafnvel betri ensku en íslensku.
Sóknaraðili lýsir furðu sinni á því hvernig varnaraðila datt í hug að setja fram þessar staðhæfingar, en hann leggur ekki mat á það. Hann kemur þessum athugasemdum á framfæri við nefndina með virðingu.
VI.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt ja.is séu sóknaraðili og [C] báðir skráðir til heimilis að […], sem sé einbýlishús, og enginn annar sé skráður þar til heimilis. Varnaraðili hafnar því að þessi ummæli hafi átt að gefa í skyn að mennirnir séu samkynhneigðir og bendir á að orðið sambýlismaður geti einfaldlega þýtt að búa saman, án skírskotunar til tilfinninga- eða holdlegs sambands.
Niðurstaða
I.
Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
II.
Varnaraðili krefst frávísunar kvörtunar hvað varðar reikninga sem gefnir voru út fyrir 26. júní 2023. Tímafrestur samkvæmt 26. gr. laga um lögmenn miðast við eitt ár frá því að kostur var á að koma kvörtun á framfæri. Við mat á því hvort kvörtun hafi borist nefndinni innan þess frests sem fjallað er um í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, telur nefndin, eins og mál þetta er vaxið, ekki rétt að miða við hvenær einstaka reikningar í málinu voru gefnir út. Að mati nefndarinnar átti sóknaraðili þess ekki kost að meta hvort hann teldi endurgjaldið hæfilegt, fyrr en fyrir lá hver áskilin heildarþóknun varnaraðila var vegna málsins. Á þeim tíma, sem varnaraðili telur rétt að miðað verði við, lágu í máli þessu fyrir upplýsingar um 40% þess endurgjalds, sem varnaraðili að lokum áskildi sér vegna málsins. Á þeim tíma gat sóknaraðili því ekki vitað hvert endanlegt endurgjald varnaraðila yrði og þar af leiðandi ekki lagt mat á hvort hann teldi það sanngjarnt fyrir þá vinnu sem var unnin. Það gat hann ekki gert fyrr en hann hafði fengið upplýsingar um heildarkostnað vegna málsins og fengið gögn málsins afhent. Sóknaraðili fékk gögn málsins afhent frá varnaraðila 5. janúar 2024 og að mati nefndarinnar byrjaði frestur til þess að bera ágreining um endurgjald við varnaraðila undir nefndina, í fyrsta lagi að líða þann dag. Rúmast kvörtun, sem beint var til nefndarinnar þann 25. júní 2024, því innan þess frests. Er kröfu varnaraðila um frávísun hluta málsins af þessum sökum hafnað.
III.
Varnaraðili gaf út átta reikninga vegna málsins. Reikningarnir tóku til 151,66 vinnustunda á tímabilinu 29. mars 2023 til 31. október 2023. Heildarfjárhæð reikninganna er 4.656.169 kr. auk virðisaukaskatts eða 5.773.650 kr. með virðisaukaskatti.
- Dags. 1. apríl 2023, vegna fimm vinnustunda, að fjárhæð 6.492 kr. auk vsk. Áður hafði sóknaraðili greitt fyrirfram 132.508 kr. auk vsk. Samtals gera það 139.000 kr. auk vsk.
- Dags. 1. maí 2023, vegna 19,75 vinnustunda, að fjárhæð 584.250 kr. auk vsk.
- Dags. 1. júní 2023, vegna 37,08 vinnustunda, að fjárhæð 1.156.900 kr. auk vsk. Þessi reikningur var síðar lækkaður í 1.001.000 kr. auk vsk.
- Dags. 1. júlí 2023, vegna 20,58 vinnustunda, að fjárhæð 628.594 kr. auk vsk.
- Dags. 1. ágúst 2023, vegna fimm vinnustunda, að fjárhæð 149.700 kr. auk vsk.
- Dags. 1. september 2023, vegna 12,5 vinnustunda, að fjárhæð 383.250 kr. auk vsk.
- Dags. 1. október 2023, vegna 19,5 vinnustunda, að fjárhæð 587.550 kr. auk vsk.
- Dags. 1. nóvember 2023, vegna 32,25 vinnustunda, að fjárhæð 1.026.925 kr. auk vsk. Þessi reikningur var síðar lækkaður í 443.548 kr. auk vsk.
Eftir lækkun reikninganna tveggja nemur umkrafið endurgjald varnaraðila 3.916.892 kr. auk virðisaukaskatts, eða samtals 4.856.916 kr. með virðisaukaskatti, og hefur sóknaraðili greitt varnaraðila þá fjárhæð.
Af 151,66 vinnustundum skráði varnaraðili sjálfur 54,58 klst. Tímagjald hans var 31.000 kr. auk virðisaukaskatts í upphafi en 34.500 kr. auk vsk. við lok málsins. Tveir löglærðir fulltrúar á lögmannsstofu varnaraðila komu að máli sóknaraðila. Skráðu þeir samtals 86,08 klst. á tímagjaldi frá 27.800 kr. til 31.300 kr. auk vsk. Annar lögmaður á lögmannsstofu varnaraðila skráði 11 vinnustundir á málið á tímagjaldinu 30.300 kr. auk vsk. annars vegar og 32.300 kr. auk vsk. hins vegar. Meðaltímagjald er 30.701 kr. auk virðisaukaskatts. Sé tekið mið af því tímagjaldi er fjöldi vinnustunda að baki umkröfðu endurgjaldi, eftir lækkun reikninganna tveggja, 127,58 vinnustundir. Að mati nefndarinnar er umkrafið tímagjald varnaraðila og annarra sem að máli sóknaraðila komu, ekki úr hófi.
Gögn málsins bera með sér að sóknaraðili hafi greitt reikninga varnaraðila án athugasemda fyrir utan reikning, dags. 1. júní 2023. Í því tilviki gerði sóknaraðili athugasemd við tímaskráningu í tengslum við fund 3. maí 2024 og var sá reikningur lækkaður sem fyrr segir. Sóknaraðili óskaði eftir greiðslufresti vegna reiknings varnaraðila, dags. 1. nóvember 2023, og lækkaði varnaraðili þá reikninginn, eins og fram hefur komið.
Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 bindur loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns ekki umbjóðanda hans. Við mat á því hvað telst sanngjarnt endurgjald hefur nefndin metið þau verk sem unnin voru heildstætt. Vinna varnaraðila fólst í upphafi í því að setja sig inn í málið og átta sig á álitaefnum sem uppi voru í málinu. Í framhaldi sendi varnaraðili beiðni um skilnað til sýslumanns og síðar beiðni um lögskilnað. Loks vann varnaraðili í fjárskiptasamningi með lögmönnum fyrrverandi eiginkonu sóknaraðila. Ljóst er að umtalsverð samskipti var um að ræða í málinu, í formi símtala, tölvupóstsamskipta og funda við sóknaraðila og fyrrum eiginkonu hans, lögmenn hennar og aðra. Öll gögn málsins hafa verið lögð fyrir nefndina. Þau bera með sér að vera ekki óvenjulega mikil að umfangi miðað við mál af því tagi sem um ræðir. Að sama skapi bera gögnin ekki með sér að málið hafi verið svo umfangsmikið eða flókið, eða undirliggjandi hagsmunir svo óvenjulega miklir, að réttlæti þann tímafjölda sem varnaraðili og starfsmenn á lögmannsstofu hans skráðu á málið. Af þeim sökum telur nefndin að ekki sé hægt að styðjast alfarið við fyrirliggjandi tímaskýrslur enda varð umfang málsins miklu meira en til mátti ætlast og skráning vinnustunda á sér ekki að öllu leyti stoð í gögnum málsins. Að mati nefndarinnar ætti sambærilegt mál, við hefðbundnar aðstæður, að krefjast vinnu sem næmi u.þ.b. 50 klukkustundum. Með hliðsjón af gögnum málsins og þeim verkum sem þau bera með sér að hafi verið unnin í málinu, og þess að gögn málsins og tímaskýrslur bera með sér að aðstæður í máli sóknaraðila hafi kallað á umtalsverð samskipti varnaraðila og fulltrúa hans við gagnaðila og lögmenn hennar, telur nefndin að hæfilegur fjöldi vinnustunda í málinu séu 70 klukkustundir. Er þá jafnframt litið til þess að lögmaður þarf að hafa þekkingu og getu til að vinna mál með skynsamlegum og hagkvæmum hætti og í samræmi við þá hagsmuni sem eru undir í málinu. Að mati nefndarinnar telst hæfileg fjárhæð endurgjalds varnaraðila vera 2.149.096 kr. auk virðisaukaskatts eða samtals 2.664.878 kr. Er þá tekið mið af meðaltímagjaldi því sem að framan greinir. Samkvæmt því ber varnaraðila að endurgreiða sóknaraðila 2.192.068 kr.
Úrskurði þessum má fullnægja með aðför, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.
III.
Sóknaraðili byggir kvörtun sína einnig á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn og vísar til 8. og 10. gr. siðareglna lögmanna. Ljóst er af efni kvörtunar að hún snýr að mestu leyti að ágreiningi um endurgjald varnaraðila en í viðbótargreinargerð sinni gerði sóknaraðili athugasemd við að varnaraðili hefði ekki afhent honum gögn málsins fyrr en eftir að hann hafði gert upp við hann að fullu. Að mati nefndarinnar var það í samræmi við heimild lögmannsins skv. 16. gr. siðareglna lögmanna, þar sem kveðið er á um haldsrétt lögmanns í gögnum, þar til umbjóðandi hefur gert honum full skil á þóknun samkvæmt útgefnum reikningi. Að öðru leyti telur nefndin að gögn málsins sýni ekki fram á að varnaraðili hafi gerst brotlegur við ákvæði siðareglna lögmanna eða laga við meðferð málsins. Af því leiðir sú niðurstaða að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Umkrafið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, vegna vinnu í skilnaðarmáli sóknaraðila, [A], sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 2.664.878 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.
Varnaraðili, [B] lögmaður, endurgreiði sóknaraðila, [A], 2.192.068 kr.
Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir