Mál 35/2024

Mál 35/2024

Ár 2024, fimmtudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið málið:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 2. júlí 2024 kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B lögmanni].

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 11. júlí 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefnd­­inni ásamt fylgiskjölum þann 16. ágúst 2024. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili lýsir málsatvikum með þeim hætti að hann hafi leitað til varnaraðila vegna máls er varðaði umgengni við dóttur hans. Sóknaraðili kveðst hafa greitt varnaraðila 164.000 kr. vegna málsins en segir varnaraðila ekki hafa uppfyllt loforð um að afla sóknaraðila umgengnisréttar við dóttur sína. Auk þess hafi varnaraðili gefið til kynna að hún myndi aðstoða sóknaraðila við öflun dvalarleyfis sem ekki hafi heldur gengið eftir. Varnaraðili hafi krafist greiðslu 60.000 kr. til viðbótar úr hendi sóknaraðila vegna aðstoðar við öflun dvalarleyfis. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa verið kunnugt um að hann ætti í fjárhagserfiðleikum en samt sem áður hafi hún krafið hann um greiðslu 246.000 kr. til viðbótar. Sóknaraðili telur varnaraðila ekki hafa gætt hagsmuna sinna heldur reynt að hafa hann að féþúfu sem hafi valdið sóknaraðila streitu og áhyggjum yfir því að geta ekki dvalið hér á landi ásamt dóttur sinni. Sóknaraðili kveðst ekki hafa hitt varnaraðila heldur aðeins rætt við hana í síma í tvígang en hún hafi reynt að komast hjá því að hitta hann í eigin persónu. Sóknaraðili telur varnaraðila ekki hafa sinnt skyldum sínum gagnvart honum en hafi þess í stað áreitt hann með kröfum um frekari greiðslur.

Með kvörtun fylgdu afrit tölvupóstsamskipta aðila 21. og 22. mars 2024 auk afrits kvittunar vegna greiðslu 161.200 kr. inn á reikning varnaraðila 1. apríl 2024. Einnig fylgdu afrit tveggja reikninga varnaraðila útgefinna á sóknaraðila, annars vegar dags. 6. apríl 2024, að fjárhæð 110.590 kr. og hins vegar dags. 8. maí 2024 að fjárhæð 136.028 kr. Meðal gagna málsins eru einnig tölvupóstsamskipti aðila frá 9. maí til 11. júní 2024 sem vörðuðu einkum greiðslur vegna þjónustu varnaraðila og lauk með því að sóknaraðili sagði upp þjónustu varnaraðila og kvaðst ekki myndi greiða umkrafða þóknun.

II.

Varnaraðili hafnar með öllu kröfum sóknaraðila og vísar kvörtunum hans á bug. Varnaraðili kveðst hafa unnið af trúmennsku og alúð fyrir sóknaraðila og gerir kröfu um að honum verði gert að greiða umsamið endurgjald.

Varnaraðili lýsir málsatvikum á þann veg að sóknaraðili hafi leitað til hennar þann 14. mars 2024 vegna áður framlagðrar umsóknar hans um dvalarleyfi á Íslandi sem og vegna áður framlagðrar beiðnar hans til sýslumanns um ákvörðun um umgengni við ólögráða dóttur. Þar sem sóknaraðili sé búsettur á Akureyri hafi verið um símafund að ræða sem fylgt hafi verið eftir með tölvupósti samdægurs þar sem farið hafi verið yfir næstu skref og fyrirsjáanlegan kostnað. Eins og sjá megi af tölvupóstinum hafi sóknaraðila verið kynnt að áætlaður kostnaður vegna málanna næmi 322.400 kr. og gerð sú krafa að helmingur þeirrar fjárhæðar yrði greiddur fyrirfram.

Varnaraðili kveðst hafa fallist á ósk sóknaraðila að fresta fyrirframgreiðslu vegna málanna til 1. apríl 2024. Varnaraðili hafi engu að síður hafið nauðsynlega hagsmunagæslu strax og undirritað umboð hafi borist henni frá sóknaraðila þann 17. mars 2024. Í umboðinu komi m.a. fram að sóknaraðili hafi farið yfir og samþykki skilmála varnaraðila um greiðslu vegna þjónustu hennar.

Varnaraðili telur að í móttöku sóknaraðila á tölvupósti hennar 14. mars 2024, beiðni um greiðslufrest, greiðslu til varnaraðila og undirritun undir umboð hafi falist að hann samþykkti þann kostnað og þá áætlun sem varnaraðili hafi lagt upp með og því beri honum að greiða þá fjárhæð sem hann hafi verið krafinn um og byggi á ítarlegum vinnuskýrslum. Krafa varnaraðila hljóði upp á 246.618 kr. sem skýrist af lægra tímagjaldi fulltrúa, 20% afslætti sem veittur hafi verið af seinni reikningi auk þess sem ekki hafi öll vinna vegna málsins verið skráð. Þannig hafi varnaraðili reynt að sýna sóknaraðila tillitssemi, langt umfram skyldu.

Varnaraðili áréttar að hún hafi unnið af alúð og samviskusemi að málum sóknaraðila. Varnaraðili hafi leiðbeint sóknaraðila vegna umsóknar um dvalarleyfi og lagt fram varakröfu til Útlendinga­stofnunar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið en áður hefði sóknaraðili sjálfur sótt um svokallað foreldraleyfi, en ljóst hafi verið að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir slíku leyfi. Varnaraðili hafi skilað sérstakri greinargerð og nauðsynlegum gögnum með þeirri kröfu og þegar hún hafi skilið við málið hafi öll nauðsynleg gögn legið fyrir hjá Útlendingastofnun og beðið eftir því að stofnunin tæki málið til skoðunar.

Vegna umgengnismáls hafi varnaraðili einnig leiðbeint sóknaraðila um nauðsynleg skref og nauðsyn þess að hann reyndi að styrkja samband sitt við ólögráða dóttur sína og fyrrverandi maka. Þegar varnaraðili hafi skilið við málið hafi gagnaöflun verið lokið að svo stöddu og beðið eftir að sýslumaður tæki beiðni sóknaraðila um úrskurð til meðferðar.

Varnaraðili telur að sér hafi ekki verið unnt að vinna hraðar eða frekar að málum sóknaraðila.

Niðurstaða

I.

Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðar­nefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

II.

Kvörtun varðar annars vegar ágreining um endurgjald varnaraðila vegna starfa hennar fyrir sóknaraðila í tveimur málum. Meðal gagna málsins er tölvupóstur varnaraðila til sóknaraðila frá 14. mars 2024 þar sem fram kemur að hún áætli að svo stöddu að vinna vegna hvors máls fyrir sig nemi fjórum vinnustundum og tímagjald hennar sé 32.500 kr. að viðbættum virðisaukaskatti. Varnaraðili fari fram á innborgun vegna fjögurra vinnustunda, samtals að fjárhæð kr. 161.200 kr. Sóknaraðili hefur ekki neitað að hafa móttekið nefndan tölvupóst en í síðari tölvupóstsamskiptum aðila kemur fram að hann talið samkomulagið fela í sér að innborgunin fæli í sér fullnaðargreiðslu vegna allrar vinnu varnaraðila í málunum tveimur.

Í undirrituðu umboði, dags. 17. mars 2024, sem liggur fyrir í málinu, kemur fram að sóknaraðili hafi kynnt sér og samþykki fyrirkomulag á greiðslum vegna þjónustu varnaraðila.

Samkvæmt framlögðum tímaskýrslum nam vinna varnaraðila í málum sóknaraðila á tímabilinu 14. mars til 8. maí 2024 samtals 3,5 klst. Vinna fulltrúa varnaraðila á sama tímabili nam 3,5 klst. og vinna laganema 1 klst. Tímagjald varnaraðila er í samræmi við það sem fram kom í tölvupósti 14. mars 2024, 32.500 kr. auk virðisaukaskatts, tímagjald fulltrúa er 26.500 kr. auk virðisaukaskatts og tímagjald laganema 18.500 kr. auk virðisaukaskatts.

Í málinu liggja sem fyrr segir fyrir afrit tveggja reikninga varnaraðila vegna vinnu í þágu sóknaraðila, annars vegar dags. 6. apríl 2024, að fjárhæð 110.590 kr. og hins vegar dags. 8. maí 2024 að fjárhæð 136.028 kr. Samkvæmt tímaskýrslu var 20% afsláttur veittur af síðari reikningnum.

Að mati nefndarinnar gerði varnaraðili sóknaraðila nægjanlega grein fyrir áætluðum kostnaði vegna málsins í upphafi og fór vinna fyrir sóknaraðila ekki fram úr þeirri áætlun. Nefndin telur hvorki tímagjald né fjölda vinnustunda úr hófi miðað við þau verkefni sem varnaraðili tók að sér að sinna fyrir sóknaraðila. Með hliðsjón af öllu framangreindu og málsgögnum að öðru leyti er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilið endurgjald vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila. Felur sú niðurstaða í sér að sú þóknun sem varnaraðili áskildi sér vegna starfa sinna fyrir sóknaraðila að fjárhæð 246.618 kr. felur í sér hæfilegt endurgjald.

III.

Hins vegar varðar kvörtun háttsemi varnaraðila í störfum hennar fyrir sóknaraðila. Í kvörtun er því ekki lýst í hver sú háttsemi er sem sóknaraðili telur hafa strítt gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá varpa gögn málsins ekki ljósi á hver sú háttsemi er sem kvörtun lýtur að, ef undan er skilið að sóknaraðili hafi talið innborgun þann 1. apríl 2024 fela í sér fullnaðargreiðslu vegna starfa varnaraðila fyrir hann. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á annað en að varnaraðili hafi unnið störf sín fyrir sóknaraðila af einurð og neytt allra lögmætra úrræða til þess að gæta hagsmuna hans í samræmi við skyldur hennar þar að lútandi. Af því leiðir að varnaraðili hefur ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, vegna starfa hennar í þágu varnaraðila, [A], að fjárhæð 246.618 kr., felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

Rétt endurrit staðfestir

 

Eva Hrönn Jónsdóttir