Mál 36/2024
Mál 36/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 4. júlí 2024 kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 11. júlí 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 22. ágúst 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 26. ágúst s.á. og viðbótargreinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum þann 30. september 2024. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Varnaraðili gætti hagsmuna fyrrum eiginkonu sóknaraðila í tengslum við skilað þeirra. Sóknaraðili lýsir málsatvikum með þeim hætti að hann hafi í byrjun júní 2024 fundið stefnu [svo] í póstkassa á áður sameiginlegu heimili hjónanna. Stefnan [svo] hafi verið vegna kröfu um opinber skipti til fjárslita mill hjónanna og undirrituð af varnaraðila.
Sóknaraðili segir varnaraðila ekki hafa haft samband við sig til þess að reyna að ná samkomulagi áður en farið var fram á opinber skipti til fjárslita sem sóknaraðili telur í andstöðu við siðareglur lögmanna. Sóknaraðili segir málið hafa verið þingfest í héraðsdómi Suðurlands þann 29. maí 2024 að sér fjarstöddum, enda hafi hann ekki vitað af málinu á þeim tímapunkti. Sóknaraðili telur háttsemi varnaraðila hafa falið í sér brot gegn 1. mgr. 36. gr. siðareglna lögmanna.
Sóknaraðili segir umrædda kröfuna hafa innihaldið rangfærslur um lántöku sóknaraðila í nafni fyrrum eiginkonu sinnar án hennar samþykkis eða vitneskju en eiginkonan hafi kært hann til lögreglu fyrir þær sakir og það mál sé til rannsóknar.
Rakel Jensdóttir lögmaður hafi verið skipaður skiptastjóri og fyrsti skiptafundur verið haldinn þann 13. júní 2024. Niðurstaða þess fundar hafi verið sú að ljúka málinu með samningi í stað þess að skjóta ágreiningi til dómstóla.
Í tölvupósti sem varnaraðili sendi í kjölfar fundarins hafi varnaraðili staðhæft á ný að sóknaraðili hafi tekið smálán í nafni fyrrum eiginkonu sinnar sem hann hafni alfarið. Þar sem kæra eiginkonunnar vegna þessa sé til rannsóknar hjá lögreglu telur sóknaraðili kröfur vegna þessa ekki eiga erindi inn í mál um opinber skipti. Réttara væri að eiginkonan gerði einkaréttarkröfu í sakamáli, fari svo að sóknaraðili verði ákærður fyrir meint brot.
Sóknaraðili kveðst ítrekað hafa lagt til samninga um fjárslit þeirra hjóna sem séu hagstæðari fyrir konuna en hann sjálfan en þeim hafi ætíð verið hafnað nema hann fallist á að greiða kröfur vegna töku smálána. Sóknaraðili vísar til tölvupósts varnaraðila frá 21. júní 2024 þar sem fram komi að ef sóknaraðili taki ábyrgð á skuldbindingum vegna lána sem hann hafi stofnað til í nafni konunnar sé ekkert því til fyrirstöðu að ljúka skiptum. Þarna hafi varnaraðili enn einu sinni fullyrt um sekt sóknaraðila og jafnframt reynt að þvinga hann til að játa sekt sína til þess að ganga frá sátt í máli er snýr að fjárskiptum. Sóknaraðili kveðst ítrekað hafa bent varnaraðila á að lögreglurannsókn vegna ásakana eiginkonu hans um að hafa tekið lán í hennar nafni og fjárskipti þeirra hjóna séu tvö ólík mál. Með þessu telur sóknaraðili að varnaraðili reyni að fá sekt í einu máli með því að þvinga sátt í öðru.
Sóknaraðili kveðst líta svo á að varnaraðili hafi reynt að kúga hann til að greiða fjárskuldbindingar sem konan hafi stofnað til, að öðrum kosti ætti sóknaraðili yfir höfði sér ákæru. Varnaraðili standi í vegi fyrir fjárskiptum með ásökunum sínum, í stað þess að leyfa þeim að fara lögboðna leið. Sóknaraðili telur varnaraðila með þessu hafa beitt sig ótilhlýðilegum þvingunum sem sé í andstöðu við 35. gr. siðareglna lögmanna. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa mátt vera ljóst að krafa vegna hinnar umdeildu lántöku yrði ekki rekin á þessum vettvangi heldur yrði það gert með einkaréttarkröfu í sakamáli, komi til þess. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa gerst brotlegan við 1. gr. siðareglna lögmanna þar sem hann hafi ekki eflt rétt og hrint órétti og ekki lagt til málsins það sem hann vissi sannast eftir lögum og eigin samvisku.
Sóknaraðili fer fram á að nefndin úrskurði um hvort háttsemi varnaraðila samrýmist siðareglum lögmanna og að hann verði beittur áminningu eða strangari viðurlögum.
II.
Varnaraðili segir rangt að hann hafi birt stefnu fyrir sóknaraðila. Hið rétta sé að varnaraðili hafi sent, að beiðni umbjóðanda síns, inn beiðni um opinber skipti til fjárslita. Beiðnin hafi verið send í kjölfar langra sáttviðræðna milli sóknaraðila og fyrri lögmanns umbjóðanda varnaraðila sem siglt hefðu í strand. Umbjóðandi varnaraðila hafi gefið varnaraðila skýrar leiðbeiningar á fyrsta fundi þeirra að sáttaviðræður væru full reyndar og eini kosturinn í stöðunni væri sá að senda inn beiðni um opinber skipti. Þetta hafi gögn málsins staðfest. Í ljósi atvika hafi varnaraðili ekki talið þörf á að kynna kröfur umbjóðanda síns fyrir sóknaraðila enda hafi það ítrekað verið gert á fyrri stigum með milligöngu þáverandi lögmanns hennar.
Varnaraðili segir einnig rangt að sammæli hafi orðið um það á fyrsta skiptafundi að ljúka málinu með sátt. Staðreyndin sé sú að á fundinum hafi náðst sátt um tiltekin atriði en önnur verið óútkljáð, svo sem varðandi lán sem umbjóðandi varnaraðila haldi fram að sóknaraðili hafi tekið í hennar nafni í eigin þágu. Tölvupóstar varnaraðila sem vísað sé til í kvörtun endurspegli umræðu sem fram hafi farið á fundinum þar sem rætt hafi verið um umrædd smálán og umbjóðandi varnaraðila lagt fram þykka möppu með gögnum varðandi þær lántökur. Varnaraðili segir fjarri sanni að með tölvupóstunum hafi hann staðhæft að sóknaraðili hafi gerst sekur um saknæma háttsemi. Ekkert slíkt sé fullyrt í tölvupóstinum heldur einungis að lán hafi verið tekið í nafni umbjóðanda hans sem sé í samræmi við það sem hún hafi haldið fram frá upphafi.
Varnaraðili hafnar því að tölvupósturinn innihaldi nokkur gífuryrði. Þvert á móti hafi varnaraðili lagt það til málanna sem umbjóðandi hans hafi tjáð honum að væri rétt og stutt fullyrðingar sínar með sýnilegum sönnunargögnum. Varnaraðili hafi fjarri því gengið lengra en umbjóðandi hans hefði sjálfur gert og vísar hann til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 16/2020 og 7/2022 til hliðsjónar.
Að mati varnaraðila mátti sóknaraðila vera ljóst að tölvupóstur varnaraðila hafi falið í sér framlengingu á óskum og afstöðu umbjóðanda síns til málsins. Játa verði lögmanni svigrúm, innan þeirra marka sem siðareglur lögmanna setja, til að tjá skoðanir og sjónarmið umbjóðanda síns. Tölvupósturinn hafi einfaldlega endurspeglað afstöðu umbjóðanda varnaraðila og alvarleika málsins að hennar mati.
Varnaraðili hafnar því að hafa beitt sóknaraðila ólögmætum þvingunum líkt og haldið sé fram í kvörtun. Það sé fjarri sanni og engin gögn verið lögð fram til stuðnings þeirri rakalausu fullyrðingu.
III.
Sóknaraðili segir beiðni um opinber skipti hafi verið birta í mannlausu húsi sem varnaraðili hafi vitað að enginn byggi í. Þá hafi varnaraðili látið taka beiðnina fyrir að sóknaraðila fjarstöddum enda hafi sóknaraðila verið ókunnugt um beiðnina sökum þess hvernig varnaraðili hafi staðið að birtingu hennar. Sóknaraðili hafnar því að samningaviðræður hafi verið fullreyndar áður en beiðnin var lögð fram. Þar hafi honum í fyrsta sinn birst þær kröfur sem þar má finna og engin þeirra hafi legið fyrir í samningaviðræðum á fyrri stigum. Því hafi aldrei átt sér stað samningaviðræður um þær kröfur og telur sóknaraðili að rétt hefði verið af varnaraðila að reyna samningaviðræður eða í það minnsta að upplýsa sóknaraðila um kröfurnar og afla afstöðu hans til þeirra áður en beiðni um opinber skipti var lögð fram.
Sóknaraðili telur að lögmaður geti ekki, samkvæmt fyrirmælum umbjóðanda síns, farið á svig við lög og siðareglur lögmanna og telur háttsemi varnaraðila í andstöðu við 1. mgr. 98. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 og 36. gr. siðareglna lögmanna.
Sóknaraðili mótmælir fullyrðingu varnaraðila um að ekki hafi verið sammæli um það á skiptafundi að ljúka málinu í sátt og vísar til fyrirliggjandi gagna málsins. Jafnframt mótmælir sóknaraðili þeirri staðhæfingu varnaraðila að tölvupóstur hans í kjölfar fundarins hafi endurspeglað þá umræðu sem fram fór á fundinum. Sóknaraðili ítrekar að varnaraðili hafi staðhæft að sóknaraðili væri sekur um að hafa tekið lán í nafni fyrrum eiginkonu sinnar og vísar til fyrirliggjandi gagna. Hann kveðst telja að með háttsemi sinni hafi varnaraðili reynt að skapa ótta hjá sóknaraðila og þvinga hann til samninga. Sóknaraðilar árétti að þær sakir sem umbjóðandi varnaraðila hafi kært hann fyrir séu upplognar.
Sóknaraðili segist ekki hafa fengið afhenta möppu með gögnum sem varnaraðili vísar til í greinargerð þrátt fyrir beiðnir þar um og sé ókunnugt um hvaða gögn umrædd mappa hafi innihaldið.
Sóknaraðili áréttar að hann telji varnaraðila hafa reynt að þvinga hann til að játa á sig upplognar sakir og þannig svipt hann mannréttindum sem hann njóti sem sakaður maður með ótilhlýðilegum þvingunum. Sóknaraðili vísar til úrskurðar nefndarinnar í máli 49/2023 til hliðsjónar. Sóknaraðili telur atvik í máli nr. 16/2020 á engan hátt sambærileg þeim sem uppi eru í máli þessu.
Sóknaraðili ítrekar að með því að blanda saman einkaréttarkröfu sem hægt væri að hafa uppi í sakamáli, við fjárslit sín og fyrrum eiginkonu sinnar, hafi varnaraðili reynt að koma í veg fyrir að hægt væri að ljúka fjárslitum. Varnaraðili hafi stillt sóknaraðila upp við vegg, að annað hvort játi hann á sig upplognar sakir eða ekki verði samið og ítrekar að hann telji varnaraðila hafa beitt sig ótilhlýðilegum þvingunum til að reyna að ná fram hagkvæmari samningi um fjárslit fyrir umbjóðanda sinn.
IV.
Varnaraðili segir beiðni um opinber skipti hafa verið birta með lögmætum hætti á lögheimili sóknaraðila. Héraðsdómur Suðurlands hafi kveðið upp úrskurð þann 31. maí 2024 um að opinber skipti skyldu fara fram. Í forsendum úrskurðarins komi fram að fyrir liggi að aðilar hafi ekki náð samkomulagi um fjárskipti auk þess sem fram komi að ekki hafi verið sótt þing af hálfu sóknaraðila þrátt fyrir lögmæta boðun þann 15. maí 2024.
Varnaraðili segir rangt að samningaviðræður hafi ekki átt sér stað áður en beiðni um opinber skipti var birt og tekin fyrir á dómþingi og vísar til meðfylgjandi gagna. Ágreiningurinn hafi verið djúpstæður og ekki annar kostur í stöðunni en að fara fram á opinber skipti til fjárslita á milli aðila. Þær kröfur sem settar hafi verið fram í beiðni um opinber skipti hafi verið hinar sömu og sóknaraðili hafi ítrekað hafnað á fyrri stigum og því sé rangt að hann hafi séð þær í fyrsta skipti í beiðninni. Þetta sé staðfest í úrskurði héraðsdóms Suðurlands.
Varðandi möppu með gögn sem sóknaraðili vísi til tekur varnaraðili fram að lögmanni sóknaraðila, Helgu Völu Helgadóttur, hafi verið afhent mappan þann 26. ágúst 2024 og hún yfirfarið þau gögn sem í henni hafi verið að finna. Jafnframt hafi varnaraðili áframsent lögmanninum ýmis tölvupóstsamskipti umbjóðanda síns við smálánafyriræki. Í framhaldi af þessum samskiptum lögmannanna hafi náðst sátt á milli aðila og opinberum skiptum verið lokið með samkomulagi, dags. 12. september sl.
Varnaraðili hafnar því að hafa hvatt umbjóðanda sinn til lögreglukæru. Á fyrsta fundi þeirra hafi varnaraðili vísað til þess að ef rétt reyndist að sóknaraðili hafi tekið lán í hennar nafni, án hennar samþykkis eða vitneskju, væri slíkt að líkindum refsivert og réttur farvegur slíkra mála væri hjá lögreglu. Umbjóðandi varnaraðila hafi tekið ákvörðun um að kæra málið til lögreglu.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.
Í 35. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður megi ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjólstæðings, að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum eða að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku.
Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður jafnan fyrir lögsókn kynna gagnaðila framkomnar kröfur skjólstæðings síns og gefa kost á að ljúka máli með samkomulagi.
II.
Sóknaraðili telur varnaraðila hafa gerst brotlegan við ákvæði 35. og 1. mgr. 36. gr. siðareglna lögmanna og 1. mgr. 98. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Sú háttsemi varnaraðila sem kvörtun lýtur að er að hafa ekki kynnt sóknaraðila kröfur umbjóðanda síns áður en lögð var fram krafa um að fram færu opinber skipti til fjárslita á milli aðila. Jafnframt hvernig staðið var að birtingu beiðnar um opinber skipti og að beiðnin hafi verið tekin fyrir í þinghaldi að sóknaraðila fjarstöddum. Enn fremur að varnaraðili hafi sakað sóknaraðila um saknæma háttsemi og beitt hann ótilhlýðilegum þvingunum með því að gera þá kröfu, f.h., umbjóðanda síns, að varnaraðili tæki ábyrgð á skuldum sem umbjóðandi hans telur sóknaraðila hafa stofnað til í sínu nafni en sóknaraðili hefur neitað að hafa gert.
i.
Ætla má að birting beiðnar um opinber skipti hafi verið í höndum héraðsdóms í samræmi við 43. gr., sbr. 98. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Ekkert liggur fyrir um að birting beiðninnar hafi farið fram með öðrum hætti en mælt er fyrir um í fyrrnefndu lagaákvæði. Samkvæmt úrskurði héraðsdóms Suðurlands 31. maí 2024 var mál vegna beiðnar um opinber skipti þingfest og tekið til úrskurðar þann 29. maí s.á. að undangengnum árangurslausum samningaviðræðum aðila um fjárskipti. Fram kemur í úrskurðinum að ekki verið sótt þing af hálfu sóknaraðila í máli því sem hér er til umfjöllunar, þrátt fyrir lögmæta boðun þann 15. maí s.á. Í ljósi framangreinds telur nefndin að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna hvað varðar framlagningu, efni eða birtingu beiðnar um opinber skipti.
ii.
Sóknaraðili vísar til beiðnar um opinber skipti og þriggja tölvupósta varnaraðila frá 21. júní, 2. júlí og 6. ágúst 2024 sem liggja fyrir í málinu. Þar hafi varnaraðili staðhæft um lántöku sóknaraðila í nafni fyrrum eiginkonu sinnar og gert þá kröfu f.h. umbjóðanda síns að ef nást ætti samkomulag um fjárskipti aðila þyrfti sóknaraðili taka ábyrgð á þeim fjárskuldbindingum.
Nefndir tölvupóstar eru hluti af tölvupóstsamskiptum varnaraðila f.h. umbjóðanda síns við sóknaraðila og skiptastjóra í fjárskiptum aðila þar sem leitað var leiða til þess að ljúka fjárskiptunum með samkomulagi. Í samskiptunum kom varnaraðili fram f.h. umbjóðanda síns og setti fram kröfur f.h. hennar. Nefndin telur að játa verði lögmanni svigrúm við hagsmunagæslu af þessu tagi, innan þeirra marka sem siðareglur lögmanna setja, til að tjá skoðanir og sjónarmið umbjóðanda síns. Að mati nefndarinnar bera gögn málsins ekki með sér að varnaraðili hafi í hagsmunagæslu sinni gengið lengra en umbjóðandi hans hefði sjálf gert. Kröfur umbjóðanda varnaraðila voru fjárhagslegs eðlis og því í beinum tengslum við fjárskipti aðila. Ekki er fallist á að varnaraðili hafi beitt sóknaraðila ótilhlýðilegri þvingun í skilningi siðareglna lögmanna. Í samræmi við framangreint telur nefndin að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir