Mál 37/2024
Mál 37/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. júlí 2024 kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 11. júlí 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 16. ágúst 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 20. ágúst s.á. og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 11. september sl. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Kvörtun varðar háttsemi varnaraðila sem lögmanns fyrrum eiginkonu sóknaraðila. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa nýtt gögn sem aflað var með ólögmætum hætti í þágu umbjóðanda síns, sent sóknaraðila erindi þrátt fyrir að hafa vitað að sóknaraðili var með lögmann sem gætti hagsmuna hans, gert tilraun til að kúga fé úr sóknaraðila og krafist þess að hann falsaði bókhald og stundaði skattsvik í þágu umbjóðanda varnaraðila.
Sóknaraðili lýsir atvikum þannig að hann og umbjóðandi varnaraðila hafi verið í hjúskap en slitið samvistum í nóvember árið 2023. Bæði hafi þau leitað til lögmanna í tengslum við skilnaðinn og hafi varnaraðili tekið að sér að gæta hagsmuna fyrrum eiginkonu sóknaraðila.
Sóknaraðili segir varnaraðila hafa lagt fram gögn í máli er varðar opinber skipti á búi sóknaraðila og umbjóðanda varnaraðila sem ljóst sé að fengin hafi verið úr tölvupósti sóknaraðila eftir skilnað. Um hafi verið að ræða tölvupóstsamskipti sóknaraðila við þáverandi bókara félags í eigu sóknaraðila varðandi skattamál og önnur fjármál félagsins. Um sé að ræða viðkvæmar trúnaðarupplýsingar sem umbjóðandi varnaraðila hafi sótt í heimildarleysi í tölvupósthólf sóknaraðila. Varnaraðili hafi nýtt gögnin, sem hann hafi vitað að aflað hafi verið með ólögmætum hætti, í máli um opinber skipti hjónanna, til hagsbóta fyrir umbjóðanda sinn.
Sóknaraðili segir varnaraðila hafa birt sóknaraðila bréf með stefnuvotti þrátt fyrir að hann hafi vitað að sóknaraðili væri með lögmann sem gætti hagsmuna hans. Erindi bréfsins hafi verið áskorun um að ganga til samkomulags um slit á sameign. Varnaraðila eigi að vera ljóst að skiptastjóri fari með forræði búsins en ekki sóknaraðili og með athæfinu og telur sóknaraðili að í þessu hafi falist tilraun til fjárkúgunar gagnvart sér.
Í kjölfar endurákvörðunar ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum hjónanna gjaldárin 2022 og 2023 hafi varnaraðili ítrekað krafist þess að sóknaraðili myndi afturkalla og þannig fella niður skuld umbjóðanda varnaraðila hjá Skattinum. Í kjölfarið hafi sáttaumleitanir farið fram og varnaraðili af því tilefni farið fram á að sóknaraðili myndi sjá til þess að meint skattaskuld umbjóðanda síns vegna leigu á húsnæði verði leiðrétt og afmáð auk þess sem varnaraðili hafi sakað sóknaraðila um skattsvik í tölvupóstsamskiptum við lögmann hans. Sóknaraðil telur að með því að fara fram á að sóknaraðili myndi falsa bókhald hafi varnaraðili gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og lögum um bókhald nr. 145/1994.
Sóknaraðli vísar til 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og segir varnaraðila hafa neytt ólögmætra úrræða til þess að komast yfir gögn sem hann hafi vitað að hann hefði ekki heimild til að komast yfir, sem sé í andstöðu við þær skyldur sem kveðið sé á um í nefndu lagaákvæði. Sóknaraðili telur varnaraðila með háttsemi sinni hafa gerst brotlegan við 1. og 2. mgr. 1. gr., 2. gr., 26., 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna. Sóknaraðili fer fram á að varnaraðila verði gert að sæta agaviðurlögum að mati nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn og krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
II.
Varnaraðili hafnar því að hafa aflað gagna með ólögmætum hætti eða hafa vitað eða mátt vitað að þeim hafi verið aflað með ólögmætum hætti. Gögnin sem um ræðir hafi hann fengið frá umbjóðanda sínum sem hafi komist yfir þau eftir að sóknaraðili hafi skilið þau eftir útprentuð á áður sameiginlegu heimili þeirra. Hafi gagnanna verið aflað með ólögmætum hætti hafi það verið alfarið án aðkomu varnaraðila og án hans vitneskju. Varnaraðili hafi móttekið gögnin frá umbjóðanda sínum og talið þau hafa mikilvægi í máli um opinber skipti á búi aðila og því lagt þau fram í málinu f.h. umbjóðanda síns.
Varnaraðili vísar til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu sem kveði á um að gerðarbeiðandi skuli skora á gerðarþola áður en nauðungarsölu er krafist. Sóknaraðili hafi verið gerðarþoli í umræddu máli og áskoruninni því beint að honum sjálfum. Varnaraðili byggir á því að heimild til að birta fyrir lögmanni aðila í stað aðila sjálfs sé heimild en ekki skylda sem geti gengið framar skýrum birtingarreglum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Varnaraðili vísar til úrskurðar nefndarinnar í máli 2/2023 til hliðsjónar.
Varnaraðili segir liggja fyrir í málinu að bókari hafi í samráði við sóknaraðila breytt skattframtölum umbjóðanda varnaraðila fyrir árin 2021 og 2022 í janúar 2024, á grundvelli rangra upplýsinga, til hagsbóta fyrir félag í hans eigu á kostnað umbjóðanda varnaraðila. Gögn málsins beri með sér að með þessu hafi verið búin til skuld vegna meintra vanframtalinna tekna umbjóðanda varnaraðila sem ekki hafi átt sér stoð í raunveruleikanum. Um hafi verið að ræða tilbúning til hagsbóta fyrir félag sóknaraðila og með þessari ráðstöfun hafi sóknaraðili reynt að koma fjárhagslegu höggi á fyrrum eiginkonu sína, umbjóðanda varnaraðila. Varnaraðili hafi eðli málsins samkvæmt farið fram á að þær röngu upplýsingar sem sendar hafi verið Skattinum af hálfu sóknaraðila yrðu leiðréttar. Atferli sóknaraðila hafi verið kært til ríkisskattstjóra og skattasviðs héraðssaksóknara. Varnaraðili hafnar því alfarið að hafa krafist þess að sóknaraðili falsaði bókhaldsgögn. Þess hafi verið krafist að bókhaldsgögnin yrði leiðrétt enda hafi þau verið röng og orðið til þess að óréttmæt skuld hafi stofnast á umbjóðanda hans gagnvart skattyfirvöldum.
Varnaraðili telur sig hafa gætt hagsmuna umbjóðanda síns af einurð í samræmi við skyldu skv. 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna og fer fram á að kröfum sóknaraðila verði vísað frá nefndinni eða hafnað.
III.
Sóknaraðili segir rangt að umbjóðandi varnaraðila hafi komist yfir umrædd gögn með þeim hætti sem varnaraðili lýsir. Gögnin beri með sér að vera úr tölvupósti sóknaraðila og sem hefði átt að stöðva varnaraðila í að nýta sér gögnin.
Sóknaraðili ítrekar að áskorun vegna fyrirhugaðrar kröfu um nauðungarsölu hefði átt að birta fyrir skiptastjóra búsins en ekki honum sjálfum.
Skattaskuld sem hafi fallið á fyrrum eiginkonu sóknaraðila segir hann tilkomna vegna vantalinna leigutekna annars vegar og skattsvika hennar hins vegar. Félag í eigu sóknaraðila hafi staðið skil á virðisaukaskatti og tekjuskatti vegna útgefinna reikninga hennar sem hún hafi gefið út í nafni félagsins vegna verktakavinnu sem hún hafi stundað á sama tíma og hún hafi þegið örorkubætur. Þetta hafi verið leiðrétt með útgáfu verktakamiða í janúar 2024 með aðstoð bókara í þeim tilgangi að losa þetta úr bókhaldi félagsins enda hafi nefndir reikningar verið algjörlega ótengdir rekstri félagsins. Bókari félagsins hafi einnig séð um bókhald hjónanna þáverandi og fyrrum eiginkona sóknaraðila gefið bókaranum fulla heimild til að leiðrétta bókhaldið með þeim hætti sem gert var. Sóknaraðili ítrekar að hann líti svo á að kröfur varnaraðila um breytingar á bókhaldi félags sóknaraðila feli í sér tilraun til fjárkúgunar.
IV.
Varnaraðili taldi ekki tilefni til frekari andsvara af sinni hálfu og vísaði til fyrirliggjandi greinargerðar sinnar í málinu.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Í máli sem reist er á 1. mgr. 27. gr. getur úrskurðarnefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum, sbr. 2. mgr. sömu greinar.
Samkvæmt 18. gr. laga um lögmenn ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Í 1. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldu lögmanns til þess að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.
Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.
Lögmaður má ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt, sbr. 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna.
Samkvæmt 34. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.
Lögmaður má skv. 35. gr. siðareglna lögmanna ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjólstæðings, að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum, að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku.
II.
Kvörtun lýtur í fyrsta lagi að þeirri háttsemi varnaraðila að hafa, sem lögmaður fyrrum eiginkonu sóknaraðila, lagt fram gögn, sem hann hafi vitað eða mátt vita að hafi verið aflað með ólögmætum hætti, í máli um opinber skipti á búi fyrrum hjónanna, til hagsbóta fyrir umbjóðanda sinn. Varnaraðili kveðst hafa fengið umrædd gögn afhent frá umbjóðanda sínum, kynnt sér þau og lagt fram í málinu þar sem hann hafi talið þau innihalda upplýsingar sem hefðu mikilvægi í málinu. Að mati nefndarinnar hefur hvorki verið sýnt fram á í málinu að umræddra gagna hafi verið aflað með ólögmætum hætti né að varnaraðili hafi vitað eða mátt vita af slíku athæfi, hafi verið um það að ræða.
Í öðru lagi varðar kvörtun þá háttsemi varnaraðila að láta birta fyrir sóknaraðila sjálfum áskorun í aðdraganda kröfu um nauðungarsölu þrátt fyrir að hann hafi notið aðstoðar lögmanns en hann telur að birta hefði átt áskorunina fyrir skiptastjóra en ekki honum sjálfum. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, skal gerðarbeiðandi skora á gerðarþola áður en nauðungarsölu er krafist. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sömu laga skal senda gerðarþola slíka áskorun með ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða birta honum af einum stefnuvotti. Umrædd áskorun var því löglega birt fyrir sóknaraðila.
Í þriðja lagi lýtur kvörtun að þeirri háttsemi varnaraðila að krefja sóknaraðila um leiðréttingar á skattframtölum umbjóðanda síns, sem sóknaraðili telur fela í sér kröfu um fölsun bókhalds, ótilhlýðilega þvingun og tilraun til fjárkúgunar gagnvart sér. Fram kemur í málinu að ágreiningur um færslu skattframtala sóknaraðila og fyrrum eiginkonu hans sé til meðferðar hjá skattyfirvöldum. Þá kemur fram að breytingar sóknaraðila á skattframtölum umbjóðanda varnaraðila hafi verið kærðar til ríkisskattstjóra og skattasviðs héraðssaksóknara. Kröfur varnaraðila f.h. umbjóðanda síns um leiðréttingar á skattframtölum voru settar fram í tengslum við ágreining um skattskil hjónanna. Að mati nefndarinnar verður að játa lögmanni svigrúm við hagsmunagæslu af þessu tagi, innan þeirra marka sem siðareglur lögmanna setja, til að tjá skoðanir og sjónarmið umbjóðanda síns. Nefndin telur gögn málsins ekki bera með sér að varnaraðili hafi í hagsmunagæslu sinni gengið lengra en umbjóðandi hans hefði sjálf gert. Ekki er fallist á að varnaraðili hafi beitt sóknaraðila ótilhlýðilegri þvingun, sýnt honum vanvirðingu eða ótillitssemi í skilningi siðareglna lögmanna, gert kröfu um fölsun bókhalds, eða gert tilraun til fjárkúgunar gagnvart sóknaraðila.
Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili ekki gert á hlut sóknaraðila í störfum sínum með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Í ljósi niðurstöðu málsins telur nefndin rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir nefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir