Mál 4 2024
Mál 4/2024
Ár 2024, fimmtudagur 5. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 4/2024:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann kvörtun sóknaraðila, A, gegn varnaraðila, B lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 14. febrúar 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 27. mars sl. ásamt fylgiskjölum. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 13. maí 2024 og var varnaraðila veittur frestur til 19. júní 2024 til að skila viðbótargreinargerð og sá frestur framlengdur til 26. júní. Viðbótargreinargerð varnaraðila barst þann 4. júlí sl. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðili segir varnaraðila hafa rekið fyrir sig innheimtumál. Dómur í málinu hafi verið kveðinn upp þann […] 2023 og hafi stefnda verið gert að greiða sóknaraðila 2.000.000 króna auk dráttarvaxta, auk 1.000.000 króna í málskostnað. Þann 10. janúar 2024 hafi sóknaraðili fengið tölvupóst frá starfsmanni á lögmannsstofu varnaraðila með tillögu að samkomulagi við stefnda um greiðslur. Í samkomulaginu hafi verið lagt til að stefndi greiddi sóknaraðila 1.500.000 kr. við undirskrift samkomulagsins, 300.000 kr. þann 1. febrúar 2024, 300.000 kr. þann 1. mars 2024 og 400.000 kr. þann 1 apríl, samanlagt 2.500.000 kr. Gert hafi verið ráð fyrir að af þeirri fjárhæð fengi sóknaraðili 1.500.000 kr. til sín en 1.000.000 kr. færu til greiðslu lögmannskostnaðar. Sóknaraðili hafi hafnað tilboðinu alfarið.
Daginn eftir hafi sóknaraðila borist undirritað samkomulag í tölvupósti, sem varnaraðili hafði undirritað fyrir hennar hönd og óskað var eftir reikningnúmeri sóknaraðila. Sóknaraðili kveðst aldrei hafa samþykkt samkomulagið eða gefið varnaraðila umboð til þess að undirrita það fyrir sína hönd og fer fram á að fá greitt í samræmi við niðurstöðu dómsins.
Varnaraðili segir stefnufjárhæð máls sóknaraðila hafa numið 3.050.000 kr. auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Niðurstaðan hafi verið sú að stefnda skyldi greiða sóknaraðila 2.000.000 kr. auk dráttarvaxta og 1.000.000 kr. í málskostnað. Varnaraðili segir kröfu á grundvelli dóms í máli sóknaraðila hafa verið tekna til innheimtu strax í kjölfar þess að dómur féll í málinu. Samkvæmt innheimtubréfi lögmannsstofu varnaraðila frá 5. janúar 2024 hafi krafan numið alls 3.778.933 kr. með áföllnum dráttarvöxtum og málskostnaði.
Lögmaður stefnda hafi strax eftir uppkvaðningu dómsins sett sig í samband við varnaraðila og lýst þeirri afstöðu stefnda að hann ætlaði ekki að greiða kröfuna og að hann og lögmaður hans teldu nauðsynlegt að áfrýja málinu til Landsréttar. Síðar hafi lögmaðurinn viljað ræða sættir á þeim forsendum að hluti kröfunnar yrði greiddur. Mikil samskipti hafi verið á milli lögmanna vegna þessa auk samskipta varnaraðila við sóknaraðila. Hafi verið rætt um kostnað af málsvörn ef málinu yrði áfrýjað og þann tíma sem það tæki, möguleika á sáttum og annað sem því tilheyrði. Lögð hafi verið áhersla á það í öllum samskiptum að sóknaraðili ákveddi sjálf hvað samið yrði um og ákveðið í málinu og hafi sóknaraðili verið í samskiptum við tvo starfsmenn á lögmannsstofu varnaraðila vegna þessa.
Dagana 8.-10. janúar 2024 hafi lögmaður stefnda ítrekað verið í samskiptum við lögmannsstofu varnaraðila og fyrri tilboðum hans um greiðslu lægri fjárhæðar en kveðið er á um í undirrituðu samkomulagi hafnað, með vísan til hagsmuna sóknaraðila. Sóknaraðili hafi lýst sig tilbúna til sátta svo fremi sem hún fengi greitt það sem stefndi hafi verið dæmdur til að greiða henni. Gert hafi verið gagntilboð sem lögmaður stefnda hafi hafnað en hafi á móti boðið greiðslu að fjárhæð 2.500.000 kr. eins og nánar greini í undirrituðu samkomulagi. Hafi lögmaður stefnda tjáð starfsmanni lögmannsstofu varnaraðila að hann teldi umbjóðanda sinn ekki viljugan til að bjóða hærri fjárhæð. Lögmaðurinn hafi tekið fram að stefndi myndi ekki lengur gera þá kröfu að greiðsla yrði tengd aukinni umgengni/forsjá barns aðila, eins og hann hafði gert til að byrja með. Tilboðið hafi verið borið undir sóknaraðila sem hafi hafnað því.
Endanlega hafi stefndi boðið greiðslu að fjárhæð 3.000.000 kr. sem hafi verið borið undir sóknaraðila í tölvupósti og rætt ítrekað við hana símleiðis þann 10. janúar 2024. Sóknaraðili hafi samþykkt tilboðið og því hafi það verið undirritað í samræmi við fyrirliggjandi málflutningsumboð hennar til varnaraðila. Greiðslur samkvæmt fullnaðarsamkomulagi sem undirritað var hafi hljóðað svo að stefndi greiddi sóknaraðila 1.500.000 kr. við undirritun samkomulagsins, 400.000 kr. á mánuði 1. febrúar, 1. mars og 1. apríl og 300.000 kr. þann 1. maí 2024.
Undirritað samkomulag hafi verið sent sóknaraðila í tölvupósti 11. janúar 2024 en ekkert svar borist frá henni með bankaupplýsingum. Síðar sama dag hafi varnaraðili átt símtal við vin sóknaraðila sem hafi verið mjög ósáttur við samkomulagið og hafi varnaraðila virst óánægjan byggja á þeim misskilningi að dómurinn hafi fallist á stefnufjárhæð málsins en ekki þá fjárhæð sem stefndi var dæmdur til að greiða sóknaraðila. Hafi varnaraðili farið vandlega yfir það með viðkomandi í símtalinu.
Varnaraðili segir umboð sem sóknaraðili veitti henni, dags. 2. febrúar 2021, hafa veitt sér heimild til þess að undirrita sátt fyrir hönd sóknaraðila, taka við greiðslu og að allt sem varnaraðili geri fyrir hönd sóknaraðila á grundvelli umboðsins, sé jafngilt því að hún hafi gert það sjálf. Samkomulagið hafi verið gert í samræmi við samþykki sóknaraðila auk þess sem það hafi verið talið henta hagsmunum sóknaraðila best, enda hafi legið fyrir að stefndi myndi ellegar áfrýja dóminum til Landsréttar, með tilheyrandi bið og kostnaði, auk þess sem óvíst væri hver niðurstaða Landsréttar yrði.
Varnaraðili áréttar að með samkomulaginu hafi sóknaraðili fengið verulegan afslátt af lögmannskostnaði þar sem áfallinn kostnaður hafi verið mun hærri en gert hafi verið ráð fyrir að yrði greitt af stefnda. Kostnaður vegna málsins hafi numið 1.580.724 kr. en samkvæmt samkomulaginu myndi stefndi greiða sóknaraðila 1.000.000 kr. vegna málskostnaðar.
Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að greiðslutilboðið hafi verið samþykkt og undirritað án samþykkis eða vitundar sóknaraðila. Ítrekuð símtöl hafi átt sér stað á milli fleiri en eins starfsmanns lögmannsstofu varnaraðila og sóknaraðila og sóknaraðili hafi sjálf ákveðið að samþykkja tilboðið. Varnaraðili hefði ekkert tilefni haft til þess að samþykkja samkomulagið án samþykkis sóknaraðila. Varnaraðili bendir á að sóknaraðila hafi hentað betur að vera í símasamskiptum við lögmannsstofuna og hafi hún því yfirleitt hringt með svör þegar hún hafi fengið senda tölvupósta frá stofunni. Varnaraðili segir hagsmuna sóknaraðila hafa verið gætt í hvívetna með samkomulaginu, enda hafi hún fengið höfuðstól dæmdrar kröfu greidda og um leið losnað við að greiða um þriðjung áfallins málskostnaðar. Því sé enginn grundvöllur fyrir kvörtuninni.
Varnaraðili vísar til fyrirliggjandi gagna, þ.m.t. umboðs sóknaraðila.
III.
Í viðbótargreinargerð sinni kveðst sóknaraðili ekki hafa gefið varnaraðila leyfi til þess að semja um greiðslur við stefnda og ítrekar að samkomulagið sem varnaraðili hafi samið og undirritað fyrir sína hönd hafi ekki verið borið undir sig. Umboðið sem varnaraðili vísi til hafi verið undirritað fyrir þremur árum þegar sóknaraðili hafi fyrst leitað til varnaraðila vegna þrennra óskyldra mála. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa tjáð sér að hún fengi engar greiðslur fyrr en í fyrsta lagi eftir 2 ár ef hún samþykkti ekki samkomulagið. Sóknaraðili hafi ítrekað við varnaraðila í símtali að hún vildi ekki víkja frá niðurstöðu dómsins.
IV.
Varnaraðili hafnar því að umboð sem liggur fyrir í málinu hafi varðað þrjú ótengd mál og bendir á að í umboðinu sé tilgreint sérstaklega hvaða mál það varði. Þrjú mismunandi umboð hafi verið gerð í tengslum við þau mál sem varnaraðili hafi tekið að sér fyrir sóknaraðila.
Þá mótmælir varnaraðili þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hún hafi samið samkomulagið, enda hafi lögmaður stefnda gert það. Vísar varnaraðili til framlagðra tölvupóstssamskipta sinna við lögmann stefnda.
Varnaraðili ítrekar að hún hafi starfað fyllilega innan umboðs síns. Auk þess hafi tilboðið verið borið undir sóknaraðila í tölvupósti og afstaða til þess rædd símleiðis þann 10. janúar og hafi sóknaraðili samþykkt það. Sóknaraðili hafi gert kröfu um að fjárhæð samkomulagsins, sem rynni til hennar, yrði ekki lægri en höfuðstóll dæmdrar kröfu, sem hafi orðið niðurstaðan að lokum. Án samþykkis sóknaraðila hefði aldrei verið gengið frá undirritun samkomulagsins.
Varnaraðili segir ekkert svar hafa borist frá sóknaraðila við tölvupósti 11. janúar 2024 þar sem óskað var eftir bankaupplýsingum svo unnt væri að greiða henni samkvæmt samkomulaginu. Sóknaraðili hafi ekki andmælt því að samkomulagið hefði ekki átt að gera eða ekki með þeim hætti sem gert var. Varnaraðili hafi ítrekað beiðni um að fá sendar bankaupplýsingar frá sóknaraðila margsinnis, svo unnt væri að ganga frá greiðslu vörslufjár vegna málsins, án nokkurra viðbragða frá sóknaraðila.
Varnaraðili ítrekar að misskilnings virðist gæta varðandi fjárhæð stefnukröfu málsins annars vegar og dæmdrar fjárhæðar hins vegar. Eina sem slegið hafi verið af kröfunni hafi verið tildæmdir dráttarvextir en á móti hafi varnaraðili veitt sóknaraðila afslátt af málskostnaði sem hafi gert sóknaraðila betur setta fjárhagslega en ef dæmd fjárhæð hefði verið greidd að fullu auk dráttarvaxta. Þá hafi ekki verið tekið tillit til áhættu af áfrýjunarmeðferð málsins og kostnaðar við hana.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
II.
Sóknaraðili gerir þá kröfu að hún fái greitt samkvæmt dómi. Slík krafa fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna og er henni vísað frá nefndinni af þeim sökum.
Af kvörtun má ráða að sóknaraðili geri kröfu um að nefndin leggi mat á hvort varnaraðili hafi gert á hlut hennar með háttsemi sem stríði gegn ákvæðum laga eða siðareglna lögmanna í störfum sínum fyrir sóknaraðila. Kvörtun lýtur að þeirri háttsemi varnaraðila að hafa undirritað samkomulag um fullnaðaruppgjör við stefnda í innheimtumáli sem sóknaraðili höfðaði, og dæmt hafði verið í, án umboðs og samþykkis sóknaraðila.
Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti starfsmanns á lögmannsstofu varnaraðila til sóknaraðila frá 10. janúar 2024 kl. 10:24 þar sem tillaga stefnda að fullnaðaruppgjöri við sóknaraðila, með greiðslu 2.500.000 kr., var borin undir hana. Í tölvupósti frá kl. 12:16 sama dag er fyrirkomulag tillögunnar útskýrt nánar þannig að sóknaraðili fái 1.500.000 kr. greiddar til sín en 1.000.000 kr. fari í lögmannskostnað. Í tölvupóstinum kemur fram að það sé undir sóknaraðila komið hvort hún samþykki tilboðið en ef hún geri það ekki þurfi stefndi ekki að greiða henni fyrr en niðurstaða Landsréttar liggi fyrir og ekki sé öruggt að Landsréttur komist að sömu niðurstöðu og héraðsdómur. Ef sóknaraðila vanti peninga strax sé samkomulagið besti kostur en hún geti einnig beðið og farið með málið fyrir Landsrétt. Þá var sóknaraðili beðin um að láta starfsmanninn vita samdægurs svo hægt væri að svara lögmanni stefnda.
Í tölvupósti starfsmannsins til lögmanns stefnda kl. 14:00 sama dag var hann upplýstur um að heildarkrafa sóknaraðila á hendur umbjóðanda hans næmi 3.778.933 kr. og sóknaraðili væri ekki tilbúin að fara niður fyrir 3.000.000 kr. þar sem 2.000.000 kr. rynnu til hennar og 1.000.000 kr. í málskostnað. Lögmaður stefnda samþykkti samkomulagið með tölvupósti kl. 14:58 sama dag og sendi drög að samkomulagi þar að lútandi sem urðu að því samkomulagi sem liggur fyrir að var undirritað af varnaraðila f.h. sóknaraðila daginn eftir.
Jafnframt liggur fyrir tölvupóstur frá 11. janúar 2024 þar sem sóknaraðila var sent undirritað samkomulag um fullnaðaruppgjör og óskað eftir bankaupplýsingum frá henni svo unnt væri að greiða henni samkvæmt samkomulaginu.
Af framsetningu sóknaraðila í kvörtun má ráða að það samkomulag sem varnaraðili hafi undirritað f.h. sóknaraðila hafi verið það sem henni var kynnt í tölvupósti að morgni 10. janúar sl. en samkvæmt undirrituðu fullnaðaruppgjöri sem sóknaraðili fékk sent daginn eftir nemur heildarfjárhæð greiðslna samkvæmt samkomulaginu 3.000.000 kr.
Frekari gögnum um samskipti sóknaraðila við varnaraðila og starfsmenn á lögmannsstofu hennar í aðdraganda undirritunar samkomulagsins er ekki til að dreifa í málinu. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu og frásögn varnaraðila má ráða að aðilar hafi átt í símasamskiptum varðandi tilboðið í kjölfar tölvupósta sem sóknaraðila voru sendir þann 10. janúar sl. Í kvörtun og viðbótargreinargerð sóknaraðila kemur fram að hún hafi ekki viljað samþykkja tilboð sem væri lægra en sú fjárhæð sem henni var dæmd úr hendi stefnda. Nam sú fjárhæð 2.000.000 kr. að viðbættum dráttarvöxtum auk málskostnaðar að fjárhæð 1.000.000 kr. Að mati nefndarinnar er það í samræmi við gagntilboð sem starfsmaður á lögmannsstofu varnaraðila gerði lögmanni stefnda í tölvupósti síðdegis þann 10. janúar 2024 sem varð grundvöllur að undirrituðu samkomulagi um fullnaðaruppgjör á milli stefnda og sóknaraðila.
Umboð sem sóknaraðili veitti varnaraðila, dags. 2. febrúar 2021 tók til starfa varnaraðila í umræddu máli og veitti henni m.a. umboð til þess að undirrita sátt í málinu fyrir hönd sóknaraðila og taka við greiðslum vegna hennar. Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili gert það nægilega líklegt að hún hafi haft samráð við sóknaraðila fyrir undirritun samkomulags, dags. 11. janúar 2024.
Varnaraðili hefur í störfum sínum fyrir sóknaraðila ekki gert á hlut hennar með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu sóknaraðila, A, um að hún fái greitt samkvæmt dómi er vísað frá nefndinni.
Varnaraðili, B lögmaður hefur ekki gert á hlut varnaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir