Mál 40/2024
Mál 40/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. júlí 2024 kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 18. júlí 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 19. ágúst 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 24. ágúst s.á. og viðbótargreinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum þann 29. september sl. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Í mars 2024 kærði sóknaraðili umbjóðanda varnaraðila til lögreglu vegna brota á lögum um opinberar fjársafnanir, mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna og fjármögnun hryðjuverka, í tengslum við fjársöfnun fyrir brottflutning Palestínufólks af Gaza, sem hún stóð fyrir ásamt öðrum í nafni samtakanna Solaris. Lögregla taldi ekki grundvöll til þess að halda rannsókn málsins áfram og felldi málið niður.
Sóknaraðili beinir kvörtun til nefndarinnar vegna ummæla varnaraðila í frétt á vef Ríkisútvarpsins www.ruv.is þann 6. apríl 2024. Í fréttinni er haft eftir varnaraðila, aðspurðri um hvort lögð verði fram mótkæra á hendur sóknaraðila vegna rangra sakargifta, að fullt tilefni sé til þess og hún telji miklar líkur á að svo verði gert. Einnig er haft eftir varnaraðila að refsivert sé að bera mann röngum sökum um refsivert athæfi án ástæðu og því sé full ástæða til að verjast slíkum ofsóknum. Alvarlegt sé að sóknaraðili hafi ákveðið að dreifa kærunni víðs vegar um íslenskt stjórnkerfi og sagði varnaraðili að afrit kærunnar hafi meðal annars verið sent á vinnustað annars umbjóðanda hennar, dómsmálaráðuneytið, ESA og fleiri staði.
Sóknaraðili telur ummæli varnaraðila ekki samrýmast 27. gr. siðareglna lögmanna. Aðdróttun varnaraðila teljist sérstaklega vítaverð þar sem hún brigsli sóknaraðila um refsivert brot. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðað verði að varnaraðili hafi brotið gegn 27. gr. siðareglna lögmanna með opinberum ummælum. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
II.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað auk þess sem hún krefst málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðili lýsir málsatvikum á þann veg að hún hafi verið skipuð verjandi umbjóðanda síns vegna kæru sóknaraðila á hendur umbjóðandanum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann 4. mars 2024. Sóknaraðili hafi ekki einungis sent kæruna til lögreglu heldur hafi hann sent afrit hennar til vinnuveitanda umbjóðanda varnaraðila, Háskóla Íslands, siðanefndar Háskóla Íslands, dómsmálaráðuneytisins, skrifstofu fjármálagerninga lögreglu, Fjármálaeftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA.
Varnaraðili rakti forsögu málsins, m.a. greinar og annað efni sem sóknaraðili hafi ritað og annarrar opinberrar umfjöllunar sem sóknaraðili hafi efnt til um umbjóðanda varnaraðila og hennar baráttu í þágu fólks í viðkvæmri stöðu. Kæra sóknaraðila hafi því verið kærkominn dropi sem fyllti mælinn, þar sem umbjóðandi varnaraðila hafi loksins getað setið fyrir svörum, nú frammi fyrir lögreglu, en ekki bara lesið ummæli sóknaraðila og viðhlægjenda hans, um hennar störf, á Internetinu.
Þegar lögregla hafi fellt málið niður hafi umbjóðandi varnaraðila haft á orði að réttast væri að kæra sóknaraðila fyrir rangar sakargiftir enda hafi ekki verið um léttvægar ásakanir að ræða. Sóknaraðili sé hæstaréttarlögmaður og ætti alla jafna að hafa meira vægi vegna sinnar sérfræðiþekkingar við ritun slíkrar kæru. Því sé alvarlegt að sóknaraðili hafi lagt fram órökstudda kæru í eigin nafni, þar sem hafðar voru uppi svo alvarlegar ásakanir gegn umbjóðanda varnaraðila. Sóknaraðila eigi að vera kunnugt um ákvæði almennra hegningarlaga sem verji einstaklinga gegn röngum sakargiftum.
Varnaraðili kveðst hafa metið fullt tilefni til að umbjóðandi hennar legði fram kæru á hendur sóknaraðila vegna rangra sakargifta, í ljósi alvarleika þeirra ásakana sem settar voru þar fram og þeirrar staðreyndar að engin fylgigögn eða tilvísun til atvika hafi fylgt kærunni. Umbjóðandi varnaraðila hafi fært lögreglu sönnur fyrir þeim greiðslum sem inntar hafi verið af hendi í kjölfar söfnunarinnar og gefið upp nafn endurskoðanda söfnunarinnar og þannig með réttu sannað sakleysi sitt. Enn hafi kæra á hendur sóknaraðila vegna rangra sakargifta ekki verið send til lögreglu.
Varnaraðili segir sóknaraðila hafa haft frumkvæði að fjölmiðlaumfjöllun um málarekstur hans gegn umbjóðanda varnaraðila og hafi hún því þurft að svara fjölmiðlum f.h. umbjóðanda síns, eftir því sem mál sóknaraðila hafi komið á borð fjölmiðla. Varnaraðili vísar til 2. mgr. 5. gr. siðareglna lögmanna sem heimili lögmanni að koma á framfæri mótmælum og leiðréttingum á röngum eða villandi fréttum af málum. Þegar hún hafi verið spurð um hugsanleg eftirmál í kjölfar niðurfellingar kæru sóknaraðila á hendur umbjóðanda varnaraðila, hafi varnaraðili vísað til heimildar í almennum hegningarlögum um rétt þess sem að ósekju er sakaður um glæp, að leita réttar síns vegna rangra sakargifta. Varnaraðili vísar til 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og 8. gr. siðareglna lögmanna, sem geri þær skyldur til lögmanns að gæta réttar umbjóðanda síns í hvívetna og hindra ekki að umbjóðandinn geti leitað réttar síns. Það hafi átt við í máli þessu, þar sem varnaraðili hafi talið að brotið hafi verið á rétti umbjóðanda síns, þ.m.t. með kæru sem byggðist á röngum sakargiftum, og hún því svarað því aðspurð að það kæmi til álita að kæra sóknaraðila til lögreglu fyrir rangar sakargiftir og að full ástæða væri til slíks. Kæran hafi ekki bara verið send til lögreglu sem hefði getað fellt hana niður án nokkurrar opinberrar umfjöllunar heldur fleiri aðilum, þ. á m. vinnuveitanda umbjóðanda varnaraðila og fjölmiðils sem fjallað hafi um kæruna og álit sóknaraðila á umbjóðanda varnaraðila í gegnum tíðina. Ljóst sé að kæran ein og sér hefði mögulega ekki valdið umbjóðanda varnaraðila jafn miklu tjóni og raun ber vitni, ef sóknaraðili hefði ekki sjálfur dreift henni um allt samfélagið.
Varnaraðili segist hafa verið tilneydd að greina frá fyrirhugaðri kæru umbjóðanda síns á hendur sóknaraðila vegna rangra sakargifta. Það sé hlutverk varnaraðila að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda síns auk þess sem það sé skýlaus réttur umbjóðandans að verjast tilhæfulausum kærum. Varnaraðili hafi kosið að svarað fyrirspurn blaðamanns sannleikanum samkvæmt en ekki leyna því sem lög leyfi. Fréttaflutningur sem sóknaraðili hafði sjálfur staðið fyrir af málinu hafi á köflum verið bæði rangur og villandi og varnaraðila því verið nauðsynlegt að leiðrétta þær rangfærslur eins og lög og siðareglur lögmanna leyfa.
III.
Sóknaraðili segir kjarna málsins vera þann að hann hafi kært umbjóðanda varnaraðila fyrir opinbera fjársöfnun sem hann hafi talið fara í bága við lög um opinberar fjársafnanir. Sér hafi virst blasa við að ekki hafi verið staðið löglega að söfnuninni.
Sóknaraðili segir sýslumanninn á Suðurlandi nýlega hafa staðfest að embættið hafi ekki móttekið tilkynningu um opinbera fjársöfnun frá samtökunum Solaris né gefið út leyfi til samtakanna fyrir slíkri söfnun. Þetta hljóti varnaraðila að vera kunnugt en samt sem áður hafi hún sakað hann um að hafa haft uppi rangar sakargiftir. Slík vitneskja eykur að mati sóknaraðila á alvarleika meints brots.
Sóknaraðili dregur í efa frásögn varnaraðila af því að umbjóðandi varnaraðila hafi fært lögreglu sönnur fyrir þeim greiðslum sem inntar hafi verið af hendi í kjölfar söfnunarinnar og gefið upp nafn endurskoðanda söfnunarinnar og þannig sannað sakleysi sitt. Sóknaraðili hafi ekki séð gögn sem staðfesta þá fullyrðingu varnaraðila.
IV.
Varnaraðili segir ekki venju, þegar um sé að ræða fjársafnanir eins og þá sem samtökin Solaris hafi staðið fyrir, að sótt sé um leyfi fyrirfram heldur skuli uppgjör sent til sýslumanns innan 6 mánaða frá því að söfnun lýkur. Það hafi verið gert, sbr. gögn sem varnaraðili leggur fram í málinu. Með uppgjöri til embættis sýslumanns hafi fylgt staðfesting endurskoðanda þess efnis að ekkert bendi til annars en að uppgjörið sé í samræmi við ákvæði laga um opinberar fjársafnanir. Varnaraðili segir að hvorki sér né umbjóðanda sínum hafi borið skylda til að senda sóknaraðila þessar upplýsingar enda hafi hann enga aðkomu átt að fjársöfnuninni, endurskoðun á fjárreiðum hennar eða nokkru öðru sem henni viðkemur.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Í máli sem reist er á 1. mgr. 27. gr. getur úrskurðarnefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum, sbr. 2. mgr. sömu greinar.
Samkvæmt 27. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars lögmanns á málefnalegum grundvelli, og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til.
II.
Sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn 27. gr. siðareglna lögmanna í svörum sínum við spurningum fréttamanns RÚV 6. apríl 2024. Varnaraðili hefur ekki andmælt því að rétt hafi verið eftir henni haft í fjölmiðlinum.
Úrskurðarnefnd bendir á að 27. gr. siðareglna lögmanna mælir fyrir um hvernig innbyrðis samskiptum lögmanna skuli háttað. Þar sem sóknaraðili setti kæru sína til lögreglu fram sem einstaklingur, en kæran var ekki liður í lögmannsstörfum sóknaraðila sem hann setti fram í umboði annars, telst hann vera gagnaðili umbjóðanda varnaraðila. Ákvæði 27. gr. siðaregla lögmanna á því ekki við um samskipti sóknar- og varnaraðila. Hins vegar kemur til skoðunar hvort varnaraðili telst hafa gert á hlut sóknaraðila í skilningi 34. gr. siðareglnanna þar sem segir að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.
Við rækslu starfa sinna koma lögmenn jafnan fram fyrir hönd sinna umbjóðenda í hagsmunagæslu og halda fram þeim sjónarmiðum og úrræðum sem best eru til þess fallin að gæta lögvarinna hagsmuna þeirra, sbr. 18. gr. laga um lögmenn. Við slíka hagsmunagæslu þurfa lögmenn eftir sem áður að gæta ákvæða siðareglna lögmanna og starfa innan þeirra marka sem þar eru sett, þar á meðal þeirra skyldna gagnvart gagnaðilum sem mælt er fyrir um í V. kafla siðareglna lögmanna. Þarf háttsemi lögmanna gagnvart gagnaðilum því að samræmast ákvæðum siðareglnanna, þótt fyrir liggi að þeir komi fram fyrir hönd umbjóðenda í samskiptum eða annarri hagsmunagæslu gagnvart gagnaðila.
Eins og fram kemur í gögnum málsins fór fram mikil umræða á opinberum vettvangi um hápólitískt mál þar sem ólíkum viðhorfum sóknaraðila og umbjóðanda varnaraðila laust saman. Ummælin sem höfð voru eftir varnaraðila verður að skoða í því samhengi sem þau voru sett fram, það er vegna ásakana sóknaraðila, sem er bæði lögmaður og löggiltur endurskoðandi, um að umbjóðandi varnaraðila hafi gerst sek um brot á lögum um opinberar fjársafnanir og 6. gr. almennra hegningarlaga um mútugreiðslur og stuðning við hryðjuverkastarfsemi, sem varðar allt að 10 ára fangelsi. Jafnframt liggur fyrir að það var sóknaraðili sem hóf opinbera umræðu um málið og dreifði lögreglukæru sinni víða m.a. til vinnuveitanda umbjóðanda varnaraðila. Við þær aðstæður sem hér er lýst verður að viðurkenna lögmanni talsvert svigrúm til tjáningar. Hann verður að hafa tækifæri til þess að koma á framfæri sjónarmiðum og málsástæðum umbjóðanda síns, jafnvel þótt í því kunni að felast ákveðin dómharka gagnvart gagnaðila. Hann má þó ekki saka aðra opinberlega um refsiverða háttsemi.
Ummæli varnaraðila voru sett fram í tilefni af grafalvarlegum ásökunum í garð umbjóðenda hennar sem sóknaraðili hafði dreift með þeim hætti sem áður er lýst. Þau orð varnaraðila að fullt tilefni væri til þess að leggja fram mótkæru á hendur sóknaraðila vegna rangra sakargifta, er að mati nefndarinnar ekki hægt að skilja sem beina staðhæfingu varnaraðila um að sóknaraðili hafi gerst sekur um refsiverði háttsemi, heldur það mat að tilefni sé til að rannsaka hvort sóknaraðili hafi borið umbjóðanda hennar röngum sökum. Er þá m.a. haft í huga hvernig dómstólar hafa sett mörkin milli aðdróttana og gildisdóma.
Það er því mat nefndarinnar að varnaraðili hafi ekki gengið lengra með ummælum sínum um sóknaraðila en umbjóðandi hennar hefði sjálf gert í tilefni af opinberri umræðu sem sóknaraðili hóf um starfsemi umbjóðenda varnaraðila. Verður eins og áður sagði að játa verði lögmanni svigrúm, innan þeirra marka sem siðareglur lögmanna setja, til að tjá skoðanir og sjónarmið umbjóðanda síns. Að virtu framangreindu telur nefndin varnaraðila ekki hafa gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir