Mál 41/2024
Mál 41/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 19. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 24. júlí 2024 kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Að beiðni nefndarinnar afhenti sóknaraðili viðbótargögn þann 9. september 2024. Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 10. september s.á. þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 30. september 2024. Sóknaraðila var gefinn kostur á að skila viðbótargreinargerð eða frekari gögnum til nefndarinnar en þau bárust ekki. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðili segist hafa leitað til varnaraðila í ágúst 2021 um að gæta hagsmuna sinna vegna tjóns vegna bólusetningar. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa sent eitt bréf fyrir sig en samskipti hafi verið lítil sem engin eftir það. Varnaraðili hafi svo gert sóknaraðila reikning upp á rúmar 180.000 kr. þremur árum síðar sem sóknaraðili telur óhóflegt bæði með hliðsjón af vinnuframlagi varnaraðila og þess tíma sem leið frá því að vinnan var innt af hendi þar til reikningur var gefinn út. Sóknaraðili vísar til tölvupósts varnaraðila þar sem hann segir ástæðu þess að reikningurinn hafi borist svo löngu síðar vera mistök í kerfum lögmannsstofunnar sem ekki hafi komið í ljós fyrr en þá.
Í málinu liggur fyrir afrit reiknings, dags. 27. júní 2024, að fjárhæð 154.651 kr. auk virðisaukaskatts. Þar af er útlagður kostnaður vegna tveggja vottorða kr. 32.474 kr. Áskilið endurgjald varnaraðila vegna 3,83 klst. vinnu á tímagjaldinu 31.900 kr. nemur 122.177 kr. auk virðisaukaskatts. Jafnframt liggur fyrir tímaskýrsla sem tekur til vinnu á tímabilinu 4. ágúst 2021 til 10. janúar 2022. Skráningar í tímaskýrslu eru fjórar.
- ágúst 2021. „Skoðuð lög um skaðabótaskyldu ísl. ríkisins vegna tjóns af völdum bólusetninga. Fundur með BÞV. Útbúið umboð.“ 1,5 klst.
- ágúst 2021. „Farið yfir lögin – sótt og fyllt og eyðublað til SÍ. Símtal Jóhann Waage“. 1,5 klst.
- september 2021. „Samskipti Jóhann. Beiðni um vottorð til heilsugæslu og LSH.“ 0,5 klst.
- janúar 2022. „Móttekið vottorð heilsugæslu og yfirfarið. Löguð umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu. Send JW til yfirlestrar.“ 0,33 klst.
Sóknaraðili fer fram á að nefndin úrskurði um hæfilegt endurgjald sóknaraðila vegna vinnu hans í þágu sóknaraðila.
II.
Varnaraðili segir rangt að sóknaraðili hafi leitað til sín og vísar til umboðs sem sóknaraðili veitti Birni Þorra Viktorssyni lögmanni í málinu. Varnaraðili starfi hjá fyrrnefndum lögmanni á grundvelli undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, sbr. 2. tl. 2. mgr. sömu greinar, og hann hafi falið sér að vinna að máli sóknaraðila. Varnaraðili telur að kvörtun væri réttilega beint að Birni Þorra og gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá nefndinni.
Til vara byggir varnaraðili á því að áskilið endurgjald sé hæfilegt. Vinna í málinu hafi falist í fundi með sóknaraðila, mati á réttarstöðu hans, pöntun læknisvottorða, ritun umsóknar um bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu og samskipta vegna þessa. Varnaraðili telur fjölda vinnustunda eðlilegan og tímagjald hóflegt. Mistök lögmannsstofunnar hafi valdið því að reikningur vegna vinnunnar hafi borist seint.
Niðurstaða
I.
Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
II.
Í málinu liggur fyrir undirritað umboð sóknaraðila til Björns Þorra Viktorssonar lögmanns, dags. 4. ágúst 2021. Ljóst virðist af gögnum málsins að fyrrnefndur lögmaður og vinnuveitandi varnaraðila hafi falið honum að vinna að máli sóknaraðila. Varnaraðili nýtur undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 á grundvelli 2. tl. 2. mgr. 12. gr., sbr. 3 .mgr. 11. gr. sömu laga. Lögmaður sem starfar hjá öðrum lögmanni á grundvelli slíkrar undanþágu er undanþeginn þeim skyldum að hafa opna skrifstofu, vörslufjárreikning í banka og starfsábyrgðartryggingu, enda ber vinnuveitandi hans ábyrgð á fjárvörslu lögmanns sem hann ræður til starfa hjá sér, svo og fébótaábyrgð á störfum hans að öðru leyti. Lögmaður sem starfar á grundvelli undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. ber sjálfur ábyrgð á störfum sínum að öðru leyti. Er kvörtuninni því réttilega beint að varnaraðila sjálfum og kröfu um frávísun málsins frá nefndinni af þeirri ástæðu hafnað.
III.
Að mati nefndarinnar er áskilið tímagjald varnaraðila að fjárhæð 31.900 kr. auk virðisaukaskatts ekki úr hófi. Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi útbúið umboð, óskað eftir og móttekið tvö læknisvottorð og fyllt út eyðublað vegna umsóknar um bætur úr sjúklingatryggingu. Þá ber tímaskýrsla með sér að varnaraðili hafi tala við sóknaraðila í síma og sent honum eyðublað til yfirlestrar. Að mati nefndarinnar felur áskilið endurgjald varnaraðila, að fjárhæð kr. 151.499 kr., í sér hæfilegt endurgjald fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi fyrir varnaraðila. Auk þess ber sóknaraðila að greiða varnaraðila útlagðan kostnað að fjárhæð kr. 32.474 kr.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu varnaraðila, [B] lögmanns, um frávísun málsins frá nefndinni er hafnað.
Áskilið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, [A], að fjárhæð 151.499 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, felur í sér hæfilegt endurgjald.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir