Mál 42/2024

Mál 42/2024

Ár 2024, fimmtudaginn 19. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið málið:

A og B

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 25. júlí 2024 kvörtun sóknaraðila, [A] og [B], gegn [C] lögmanni.

Fylgiskjöl með kvörtun voru móttekin 6. ágúst 2024. Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 7. ágúst 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefnd­­inni ásamt fylgiskjölum þann 18. september 2024. Viðbótar­greinargerð sóknaraðila barst nefnd­­inni ásamt gögnum þann 8. nóvember 2024 og viðbótar­greinargerð varnaraðila þann 4. desember sl. Að beiðni nefndarinnar sendi varnaraðili frekari skýringar og fylgiskjöl sem móttekin voru 16. desember 2024. Ekki kom til frekari athuga­semda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Varnaraðili gætti hagsmuna sóknaraðila frá 18. maí til 12. júní 2024 í barnaverndarmáli. Sóknaraðilar eignuðust son í febrúar 2024 sem hefur legið inni á vökudeild Landspítalans frá fæðingu vegna ótilgreindrar fötlunar/veikinda. Barnavernd kom fyrst að málum drengsins í apríl 2024 og með úrskurði umdæmisráðs barnaverndar í Kraganum frá 8. maí 2024 var ákveðið að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis, á Landspítalanum, í fjóra mánuði. Umgengni sóknaraðilans [A] við drenginn var á sama tíma takmörkuð og leitaði hann til varnaraðila til þess að mæta með sér í umgengni við drenginn á Landspítalanum dagana 18.-20. maí 2024. Í kjölfarið tók varnaraðili að sér hagsmunagæslu sóknaraðila gagnvart barnavernd. Jafnframt fólu sóknaraðilar honum að bera úrskurð umdæmisráðs um vistun sonar þeirra utan heimilis undir héraðsdómara og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 4. júní 2024.

Sóknaraðilar segjast einkum hafa leitað til varnaraðila til þess að fá aðstoð við að fá leiðréttar rangar persónuupplýsingar og atvikalýsingar í gögnum barnaverndar og verjast fordómum sem hafi beinst að öðrum sóknaraðila og fjölskyldu hennar.

Kvörtun í máli þessu varðar í fyrsta lagi ágreining um endurgjald varnaraðila. Sóknaraðilar segja hann hafa krafið þau um greiðslu 1.390.000 kr. til viðbótar við 553.000 kr. sem þau hafi áður greitt honum og 386.880 kr. sem greiddar hafi verið af sveitarfélagi þeirra vegna barnaverndarmáls. Kostnaður vegna vinnu varnaraðila hafi verið mun meiri en þeim hafi verið tjáð í upphafi. Varnaraðili hafi rukkað sóknaraðila fyrirfram um 400.000 kr. vegna vinnu við að útbúa stefnu og flytja málið í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 4. júní sl. Sóknaraðilar hafi svarað öllum spurningum varnaraðila og sent honum upplýsingar í tölvupósti, sem hann hafi svo afritað í stefnu, án þeirra vitundar. Þegar þau hafi fengið afrit stefnunnar loks afhent eftir ítrekaðar beiðnir hafi þau uppgötvað hatursorðræðu gagnvart heimalandi annars sóknaraðila sem varnaraðili hafi haft þar uppi. Hafi þau lýst þeirri skoðun sinni að þau teldu það sem fram kom í stefnunni vera til þess fallið að skaða málstað sinn.

Sóknaraðilar segja varnaraðila ekki hafa upplýst þau um að þau þyrftu að mæta í þinghald 18. júní, heldur hafi varnaraðili aðeins tjáð þeim að þann dag myndi gagnaðili leggja fram greinargerð. Þrátt fyrir að sóknaraðilar hafi afturkallað umboð varnaraðila hafi hann fengið annan lögmann til þess að mæta fyrir þeirra hönd til þinghaldsins og síðar upplýst þau um að gagnaðili hafi ekki skilað greinargerð og málinu verið vísað frá. Sóknaraðilar telja varnaraðila bera ábyrgð á því að málinu hafi verið vísað frá og að með því hafi hann valdið þeim miklu tjóni.

Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa farið fram með miklu offorsi gagnvart þeim og áreitt þau og móðgað þegar þau hafi ekki séð sér fært að fylgja skipunum hans um ýmis atriði sem viðkomu málinu. Varnaraðili hafi beitt þau þrýstingi og sent þeim tölvupósta og hringt í þau nótt sem dag og sagt þeim að þau yrðu að mæta á fundi eða undirrita skjöl. Hann hafi sýnt af sér fordóma, haft uppi meiðyrði um þau og veitt gagnaðila trúnaðarupplýsingar um þau án þeirra samþykkis. Á endanum hafi sóknaraðilar neyðst til að afturkalla umboð sitt þar sem hegðun varnaraðila gagnvart þeim hafi verið óásættanleg.

Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa beitt þau þrýstingi og hótunum við innheimtu þóknunar. Þau telja sér óskylt að greiða fyrir óumbeðin samskipti við gagnaðila í máli þeirra og óásættanleg samskipti við sig og telja umkrafða þóknun varnaraðila úr hófi.

Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa gerst brotlegan við 1., 6., 8., 9., 10. og 42. gr. a siðareglna lögmanna.

II.

Varnaraðili kveðst hafa unnið þrjú verkefni fyrir sóknaraðila sem öll séu sprottin af sama grunni en þó óháð hvert öðru. Í fyrsta lagi hafi verið um að ræða þrjú útköll dagana 18.-20. maí, sem hvert hafi tekið fjórar klukkustundir. Reikningur vegna þessa hafi verið greiddur af sveitarfélaginu sem í hlut átti. Í öðru lagi hafi verið um að ræða vinnu vegna samskipta, fundarhalda og samninga sóknaraðila við barnavernd. Kostnaður vegna þess máls sé að litlum hluta ógreiddur. Í þriðja lagi hafi verið um að ræða stefnugerð að beiðni sóknaraðila sem hafi varðað úrskurð umdæmisráðs í máli sóknaraðila um forsjársviptingu. Kostnaður vegna þess máls sé að mestu ógreiddur, fyrir utan innborgun að fjárhæð 400.000 kr., en umsemjanlegur, eins og fram hafi komið í samskiptum við sóknaraðila.

Varnaraðili segir hlutverk sitt í málum sóknaraðila upphaflega hafa verið að mæta með sóknar­aðilanum [A] í umgengni við son hans á Landspítala og sjá um samskipti við starfsfólk spítalans og fulltrúa barnaverndar fyrir hans hönd. Að lokinni fyrstu heimsókn varnaraðila á Landspítala þann 18. maí 2024 hafi varnaraðili rætt við sóknaraðilann [A] um að ef hann óskaði eftir frekari þjónustu úr hendi varnaraðila þyrfti hann greiða fyrir hana sjálfur. Varnaraðili hafi hvatt sóknaraðilann [A] til þess að kanna hvort hann hefði málskostnaðartryggingu, en því ekki verið sinnt. Sóknaraðilinn hafi tjáð varnaraðila að engar áhyggjur þyrfti að hafa af peningamálum og varnaraðili ekki talið, út frá þeim upplýsingum sem sóknaraðilinn hafi gefið um fjárhagsstöðu hjónanna, að sóknaraðilar ættu rétt á gjafsókn. Í kjölfarið hafi sóknaraðilinn falið varnar­aðila að sinna öllum málum þeirra hjóna. Til viðbótar því að skjóta úrskurði um vistun sonar þeirra utan heimilis til héraðsdóms hafi sóknaraðilinn viljað höfða skaðabótamál gegn íslenska ríkinu, LSH og starfsmönnum spítalans og stefna barnavernd vegna framkomu í garð fjölskyld­unnar.

Sóknaraðilinn [A] hafi falið varnaraðila að sjá alfarið um samskipti við barnaverndarþjónustu og hafi varnaraðili sent sóknaraðilum öll skjöl til samþykktar áður en hann hafi undirritað þau fyrir hönd hans og konu hans. Þá hafi varnaraðili unnið að kröfu sóknaraðilans um að fá barnavernd til þess að framkvæma geðmöt og athuganir sem sett hafði verið skilyrði um að foreldrarnir yrðu að uppfylla til að geta fengið umgengni við barnið og mögulega forsjá síðar. Til þess að af því gæti orðið hafi sóknaraðilinn þurft að samþykkja áætlun barnaverndar sem hann hafi ekki viljað. Hann hafi borið fyrir sig ýmsum afsökunum og m.a. sagst vera upptekin vegna starfa sinna fyrir alþjóðleg hjálparsamtök.

Sóknaraðilinn hafi sótt það fast að skjóta úrskurði um forsjársviptingu til héraðsdóms, þvert á ráðleggingar varnaraðila. Varnaraðili hafi farið fram á fyrirframgreiðslu að fjárhæð 400.000 kr. vegna þeirrar vinnu sem hafi borist þann 27. maí 2024. Frá þeim degi hafi varnaraðili lagt nótt við dag við gerð stefnunnar þar til málið var þingfest þann 4. júní s.á. Sóknaraðilar hafi afturkallað umboð varnaraðila fyrirvaralaust með tölvupósti 12. júní 2024 og gefið þá skýringu að þeim hafi fundist varnaraðili lýsa persónulegum skoðunum sínum á heimalandi sóknaraðilans [B] í stefnu.

Varnaraðili segir sóknaraðilann [A] sagt að kostnaður vegna málsins væri ekki vandamál. Hann hafi áframsent reikning varnaraðila á barnaverndarþjónustu þrátt fyrir að fyrir hafi legið að honum bæri sjálfum að greiða fyrir þá þjónustu varnaraðila sem hann óskaði eftir. Varnaraðili hafi ítrekað ábendingu um að kanna með málskostnaðartryggingu en sóknaraðilinn ekki sinnt því. Varnaraðili segir rangt að sóknaraðilinn hafi ekki verið upplýstur um kostnað sem kynni að hljótast af málinu. Varnaraðili hafi talið í upphafi að kostnaðurinn gæti numið 500-900 þúsund krónum en hann hafi orðið mun meiri. Gögn málsins hafi talið hundruð blaðsíðna og samskipti við sóknaraðila hafi verið mjög mikil. Á tímabilinu hafi sóknaraðilinn [A] sent varnaraðila 121 tölvupóst úr sínu netfangi og séu þá ótaldir tölvupóstar úr netfangi sóknaraðilans [B]. Þeim póstum hafi ávallt verið svarað.

Á sama tíma og varnaraðili hafi unnið að stefnu að beiðni sóknaraðila hafi hann einnig unnið við að koma á umgengnissamningi við barnavernd og reyna að knýja fram geðmat og rannsóknir sem nefndin hafði gert kröfu um að færu fram. Barnavernd hafi gert kröfu um að sóknaraðilar mættu á fund nefndarinnar en sóknaraðilinn [A] ávallt neitað.

Daginn eftir þingfestingu málsins hafi varnaraðili sent sóknaraðilanum [A] stefnuna í tölvupósti. Þá hafi hann upplýst hann um framhaldið og að mæta þyrfti þann 18. júní til að taka við greinargerð gagnaðila. Varnaraðili hafi haldið sóknaraðilum upplýstum og gætt hagsmuna þeirra til hins ítrasta til 13. júní 2024. Þann dag hafi varnaraðili beðið þau um að tilnefna nýjan lögmann svo hægt væri að koma málsgögnum í hans hendur, upplýst þau um kostnað af málinu og hvatt þau til að koma og ræða við sig og semja um kostnað ef svo bæri undir. Sóknaraðilar hafi engu sinnt um að tilnefna annan lögmann þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um mikilvægi þess að mætt yrði fyrir þeirra hönd við þinghald þann 18. júní. Því hafi varnaraðili óskað eftir leyfi dómsins til að taka við greinargerð f.h. sóknaraðila og koma í þeirra hendur en dómurinn hafnað þeirri beiðni og málinu verið vísað frá dómi vegna útivistar. Daginn eftir hafi sóknaraðilinn [A] mætt í héraðsdóm og fengið þau gögn afhent sem hann vísar til í kvörtun.

Varnaraðili hafnar því að umfjöllun um heimaland sóknaraðilans [B] í stefnu hafi nokkuð með hans persónulegu skoðanir að gera. Upplýsingarnar hafi verið fengnar af vefsíðu Stjórnarráðsins og verið settar fram sem svar við málflutningi gagnaðila um ástæður þess að sóknaraðilar hafi yfirgefið landið.

Jafnframt segir varnaraðili rangt að hann hafi krafið sóknaraðila um nokkuð annað en greiðslu vegna vinnu sem sé skráð í tímaskýrslu. Hann hafi ekki krafið þau um greiðslu útlagðs kostnaðar og hvatt sóknaraðila til að koma og hitta sig og finna heppilega lausn hvað varðar málskostnað. Sóknaraðilum hafi verið kynnt tímagjald í upphafi og tjáð margsinnis að öll vinna vegna samskipta væri skráð í tímaskýrslu og að þeim bæri að greiða fyrir hana. Eftir að varnaraðila hafi orðið ljóst að sóknaraðilinn [A] hefði blekkt hann varðandi fjárhagsstöðu þeirra hjóna hafi varnaraðili boðist til að sækja um gjafsókn fyrir þau. Til þess að geta gert það hafi hann þurft umboð og tiltekin gögn frá þeim sem þau hafi ekki viljað afhenda. Varnaraðili bendir á að sá málskostnaður sem greiddur hafi verið af barnavernd hafi verið dreginn frá við reikningsgerð.

Varnaraðili vísar til gagna málsins sem sýni að hann hafi margsinnis bent sóknaraðilum á að þau yrðu að tilnefna lögmann til þess að mæta í fyrirtöku 18. júní 2024, annars gæti málinu verði vísað frá. Sóknaraðilinn [A] hafi ekki trúað því að málið hafi verið þingfest og verið með ýmsar ranghugmyndir um málið og það því farið eins og það fór. Jafnframt hafnar varnaraðili því að hafa beitt sóknaraðila hótunum eða þvingunum. Hann hafi stundum þurft að þrýsta á svör frá þeim. Hann hafi sent þeim póst þegar hann hafi setið við vinnu, hvort sem það var að degi eða nóttu, en aldrei ætlast til þess að fá svör við póstum sem sendir hafi verið að kvöldi eða um nóttu fyrr en daginn eftir og aldrei reynt að hringja í þau um nótt. Varnaraðili hafi hins vegar sjálfur svarað símtölum, tölvupóstum og skilaboðum sóknaraðila á öllum tímum sólarhrings. Þá hafnar varnaraðili því að hafa lagt til að sóknaraðilar lýstu sig gjaldþrota og segir ásökun um slíkt algeran tilbúning.

Varnaraðili segir sóknaraðila aldrei hafa verið þvinguð til að undirrita eða samþykkja eitt eða neitt þó barnaverndar­þjónusta hafi lagt hart að sóknaraðilanum [A] að samþykkja umgengnis­samning og gert honum að hlíta ákveðnum reglum varðandi umgengni vegna fyrri háttsemi hans. Varnaraðili hafi gengið mjög langt við að gæta hagsmuna hjónanna og hafnar því alfarið að hafa gerst brotlegur við siðareglur lögmanna í störfum sínum fyrir þau. Hann hafi ekki falið öðrum lögmanni neitt annað en það sem venjulegt sé, þ.e. að þingfesta mál og taka við greinargerð fyrir dómi. Varnaraðili hafnar því jafnframt að hafa hvatt sóknaraðila til að fara í mál eða gera nokkuð sem engum ávinningi myndi skila. Strax og honum hafi orðið ljóst að hann gæti ekki aðstoðað þau hjón frekar í samskiptum við barnavernd hafi hann ráðlagt þeim að finna sér annan lögmann. Varnaraðili hafi hins vegar talið sig geta sinnt dómsmálinu áfram og gert það þar til honum var sagt upp störfum 13. júní 2024.

III.

Sóknaraðilar árétta það sem fram kom í kvörtun um aðdraganda þess að þau leituðu til varnaraðila. Þau segja varnaraðila hafa tjáð þeim í upphafi að kostnaður vegna málsins myndi nema 900.000 kr. og farið fram á fyrirframgreiðslu þeirrar fjárhæðar, sem þau viti að sé ólöglegt. Þau hafi fallist á að greiða annars vegar 153.000 kr. vegna vinnu varnaraðila dagana 18.-20. maí 2024 og hins vegar 400.000 kr. fyrirframgreiðslu vegna vinnu við stefnu. Sóknaraðilar fjalla um misræmi á þeim fjárhæðum sem þau hafi fengið upplýsingar um frá sveitarfélaginu um greiðslur til varnaraðila og upplýsinga frá honum sjálfum. Þau gera athugasemd við að hafa ekki verið upplýst fyrirfram eða beðin um samþykki fyrir slíkum greiðslum. Séu upplýsingar varnaraðila hvað það varðar séu réttar og hann fengið 386.600 kr. greiddar frá sveitarfélaginu hafi hann þegar fengið 939.600 kr. greiddar vegna málsins sem sé umfram þá fjárhæð sem samið hafi verið um í upphafi. Varnaraðili fari fram á greiðslu samtals 2.258.000 kr. vegna málsins sem sé langt um fram það sem í upphafi verið samið um.

Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa átt í samskiptum og gert samkomulög fyrir sína hönd við barnaverndarþjónustu, þvert á þeirra vilja og þrýst á þau að koma á fund barnaverndar, þrátt fyrir að þau hafi útskýrt fyrir honum að það myndu þau ekki gera. Vinna sem varnaraðili hafi skráð í tímaskýrslu hafi verið óumbeðin og að hans frumkvæði. Sóknaraðilar hafna því að þeim verði gert að greiða fyrir þá þjónustu og telja varnaraðila hafa unnið gegn hagsmunum þeirra að þessu leyti.

Sóknaraðilar telja fjölda vinnustunda varnaraðila úr hófi þar sem þau hafi útbúið stefnuna og sent honum öll gögn í tíma og segja hann aðeins hafa þurft að undirrita stefnuna og flytja hana. Varnaraðili hafi ekki sent þeim stefnuna til yfirlestrar eins og þau hafi óskað eftir heldur hafi hann flutt skjalið án þeirra samþykkis. Varnaraðilar gera einnig athugasemd við að samkvæmt þingbók í málinu hafi annar lögmaður en varnaraðili mætt fyrir þeirra hönd við þingfestingu málsins. Einnig komi þar fram að annar lögmaður hafi mætt fyrir hönd gagnaðila en sá sem skráður var fyrir málinu. Sóknaraðilar hafi ekki verið upplýst að aðrir lögmenn væru að flytja málið fyrir þeirra hönd eða gagnaðila. Sóknaraðilar gera jafnframt athugasemd við varnaraðili hafi ekki upplýst þau um greinargerð gagnaðila.

Sóknaraðilar mótmæla ýmsu sem fram kemur í greinargerð varnaraðila og gera athugasemd við að varnaraðili hafi lagt fram trúnaðargögn þeirra í máli þessu fyrir nefndinni. Þá hafi hann endurtekið ærumeiðandi og ósannar fullyrðingar og rangar upplýsingar um þau sem hann hafi sjálfur samþykkt að aðstoða þau við að leiðrétta á sínum tíma.

IV.

Varnaraðili hafnar ásökunum sóknaraðila og segir ekkert sem fram hafi komið í greinargerð sinni ekki þegar liggja fyrir í gögnum málsins. Jafnframt áréttar varnaraðili að öll vinna sín fyrir sóknaraðila sé nákvæmlega skráð í tímaskýrslu og vísar til umfjöllunar í greinargerð þess efnis. Varnaraðili hafnar því að samið hafi verið um að kostnaður vegna allrar hans vinnu yrði að hámarki 900.000 kr. og segir rangt að hann hafi krafist fyrirframgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Vinna sem óskað hafi verið eftir og greidd af barnavernd hafi verið ítarlega útskýrð fyrir sóknaraðilanum [A] en ekki hafi legið ljóst fyrir frá upphafi hvort og þá hvaða kostnað nefndin myndi greiða.

Varnaraðili áréttar að hvert skref sem þurft hafi að taka í málinu hafi verið kynnt sóknaraðilum í þaula. Hann hafi rætt ítarlega við sóknaraðilann [A] um innihald stefnunnar og hvernig hún yrði unnin og henni skilað inn. Sóknaraðilinn hafi getað kynnt sér hana hvenær sem hann vildi en tíminn hafi verið naumur og oft erfitt að ná sambandi við sóknaraðilann. Varnaraðili hafi lagt sig allan fram við ritun stefnunnar og lagt öll önnur mál til hliðar til þess að koma henni til þingfestingar í tæka tíð. Stefnan hafi verið unnin algerlega í samræmi við vilja sóknaraðilans [A] og talað alfarið og algerlega máli sóknaraðila.

Varnaraðili tekur fram að engin innheimta sé í gangi á hendur sóknaraðilum heldur hafi verið ákveðið að bíða niðurstöðu nefndarinnar hvar það varðar. Varnaraðili kveðst hafa unnið af heiðarleika og fullri einurð fyrir sóknaraðila og ætíð með þeirra hagsmuni að leiðarljósi. Eftir brottrekstur sinn hafi hann reynt allt sem unnt hafi verið til að afstýra réttarspjöllum fyrir þau sem ekki hafi tekist.

Niðurstaða

I.

Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðar­nefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í máli skv. 1. mgr. getur úrskurðarnefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 6. gr. siðareglna lögmanna skal upplýsingum, sem lögmaður fær í starfi, haldið frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskylda banni ekki. Þá reglu skal lögmaður brýna fyrir starfsfólki sínu. Ekki má lögmaður nota sér upplýsingar, sem honum hefur verið trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila.

Í 8. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður skuli gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanað­komandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft. Jafnframt skal lögmaður ætíð gefa skjól­stæðingi hlutlægt álit á málum hans. Þá skal lögmaður ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.

Samkvæmt 9. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni skylt að gera skjólstæðingi sínum kunnugt hvaðeina, er kann að gera hann háðan gagnaðila eða gera tortryggilega afstöðu hans til gagnaðila, svo sem frændsemi, samstarf, fjárhagslega hagsmuni eða önnur slík tengsl.

Í 10. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmanni sé rétt að áskilja sér hæfilega þóknun fyrir störf sín. Við mat á því hvað telst hæfileg þóknun er m.a. heimilt að líta til umfangs og eðlis máls, undirliggjandi hagsmuna, þýðingar fyrir skjólstæðing, árangurs, þess tíma sem krafist er að varið sé í mál af hálfu lögmannsins, sérhæfingar hans og þeirrar ábyrgðar sem starfanum fylgir.

Lögmaður skal upplýsa skjólstæðing sinn um á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð. Hann skal leitast við að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir hver kostnaður af máli gæti orðið í heild sinni og vekja athygli hans ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi eru.

Lögmanni ber að leita samþykkis skjólstæðings, ef fela þarf mál hans öðrum lögmanni.

Þá ber lögmanni að vekja athygli skjólstæðings á möguleika á gjafsóknarheimild eða annarri réttarstoð þar sem það á við.

Samkvæmt 42. gr. a. siðareglna lögmanna er lögmanni óheimilt að nota sér viðkvæmar aðstæður einstaklings til að afla sér verkefna. Lögmanni er jafnframt óheimilt í sama tilgangi, beint eða fyrir milligöngu annars manns, að beita einstakling þrýstingi eða hótunum.

II.

Í málinu liggja fyrir tveir reikningar og þrjár tímaskýrslur varnaraðila vegna vinnu fyrir sóknaraðila og skiptist vinnan á þrjú mál.

Í fyrsta lagi er um að ræða tímaskýrslu vegna 4,5 klst. vinnu dagana 18. til 20. maí 2024 vegna heimsókna á LSH á tímagjaldinu 24.900 kr. auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar 14.100 kr., samtals kr. 153.042 kr. Reikningur, dags. 21. maí 2024, var gefinn út vegna þessarar vinnu og greiddur af sóknaraðilum. Af hálfu varnaraðila kom fram að fjöldi vinnustunda í málinu hafi í raun verið 13 talsins en þar sem hann hafi fundið til með sóknaraðilum hafi hann aðeins gert þeim reikning vegna hluta þeirra.

Í öðru lagi er tímaskýrsla vegna 15 klst. vinnu frá 29. maí til 13. júní 2024 í barnaverndarmáli á tímagjaldinu 24.900 kr. auk virðisaukaskatts, samtals 463.150 kr. Fyrir liggur reikningur, dags. 24. júní 2024, að fjárhæð 386.600 kr. vegna þessara vinnu sem gefinn var út og greiddur af sveitarfélagi sóknaraðila. Ógreiddar, óreikningsfærðar eftirstöðvar nema 76.260 kr.

Í þriðja lagi liggur fyrir tímaskýrsla vegna 52,1 klst. vinnu við stefnugerð frá 23. maí til 4. júní 2024 á tímagjaldinu 24.900 kr. auk virðisaukaskatts. Útlagður kostnaður nemur 34.100 kr. og kostnaður samtals 1.642.740 kr. Frá þeirri fjárhæð dregst innborgun sóknaraðila að fjárhæð 400.000 kr. frá 27. maí 2024 og standa því 1.242.740 kr. eftir ógreiddar. Varnaraðili hefur ekki gert sóknaraðilum reikning vegna þessa máls.

Við mat á því hvort endurgjald lögmanns sé hæfilegt felst annars vegar mat því á hvort tímagjald sé hæfilegt og hins vegar hvort fjöldi vinnustunda sé í samræmi við þá vinnu sem lögmaður hefur innt af hendi.

Nefndin telur tímagjald varnaraðila, 24.900 kr. auk virðisaukaskatts, hóflegt. Fyrir liggur að varnaraðili gerði sóknaraðilum aðeins reikning vegna lítils hluta þeirrar vinnu sem hann vann dagana 18.-20. maí 2024 og sóknaraðilar hafa þegar greitt reikning vegna þess máls. Telur nefndin áskilið endurgjald vegna vinnu varnaraðila að fjárhæð 153.000 kr. vegna þess máls fela í sér hæfilegt endurgjald.

Í því máli sem laut að samskiptum við barnavernd vann varnaraðili 15 klst. samkvæmt tímaskýrslu. Hlutaðeigandi sveitarfélag samþykkti að beiðni sóknaraðila að veita þeim fjárstyrk vegna 12 klst. vinnu varnaraðila í málinu í samræmi við reglur sveitarfélagsins þar að lútandi. Að mati nefndarinnar er skráður fjöldi vinnustunda vegna málsins ekki úr hófi þegar litið er til gagna málsins og þeirrar vinnu sem varnaraðili innti af hendi fyrir sóknaraðila vegna þess. Af því leiðir sú niðurstaða að áskilið endurgjald varnaraðila að fjárhæð 463.140 kr. er hæfilegt endurgjald vegna vinnu hans í málinu. Af því hafa verið greiddar 386.600 kr. og ber sóknaraðilum að greiða mismuninn, 76.260 kr.

Vinna vegna dómsmáls nemur samkvæmt tímaskýrslu 52,1 klst. Um er að ræða gagnaöflun og stefnugerð í máli til ógildingar úrskurði umdæmisráðs barnaverndar um vistun barns sóknaraðila utan heimilis. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er foreldrum heimilt að bera úrskurð umdæmisráðs barnaverndar undir héraðsdómara. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar fer um málsmeðferð fyrir dómi skv. XI. kafla laganna. Samkvæmt 60. gr. laganna skulu foreldrar hafa gjafsókn fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti.

Að mati nefndarinnar setti varnaraðili mál sóknaraðila í rangan farveg í upphafi með því að stefna málinu með þeim hætti sem hann gerði. Rétt hefði verið að beina einföldu erindi til héraðsdóms, sbr. ákvæði XI. kafla barnaverndarlaga. Hefði varnaraðili sett mál sóknaraðila í réttan farveg hefðu sóknaraðilar jafnframt notið gjafsóknar. Þrátt fyrir að um lögbundna gjafsókn sé að ræða í málum af þessu tagi þarf lögmaður að sækja um hana. Að mati nefndarinnar hafði varnaraðili öll gögn sem til þurfti til þess að sækja um lögbundna gjafsókn fyrir sóknaraðila en kaus allt að einu að gera það ekki. Verður varnaraðili að bera hallann af því að hafa haldið svo á málinu. Með vísan til alls framangreinds telur nefndin varnaraðila ekki eiga rétt til endurgjalds úr hendi sóknaraðila vegna vinnu í tengslum við dómsmál til ógildingar úrskurði umdæmisráðs barnaverndar um vistun barns sóknaraðila utan heimilis.

III.

Þau samskipti aðila sem liggja fyrir í málinu eru einungis á milli sóknaraðilans [A] og varnaraðila. Samskiptin bera með sér að hafa gjarnan verið óskýr og flókin og ljóst er að misskilnings gætti um ýmislegt í samskiptunum. Samskiptin bera með sér að sóknaraðilar hafi alfarið neitað að eiga samskipti við starfsfólk barnaverndarþjónustu þrátt fyrir að varnaraðili hafi ítrekað mikilvægi þess að þau tækju þátt í samningaviðræðum um umgengni við son sinn. Ljóst er að mjög mikilvægir hagsmunir sóknaraðila voru undir í málinu enda lá fyrir úrskurður um að sonur þeirra skyldi vistaður utan heimilis í fjóra mánuði. Gögn málsins sýna að varnaraðili lagði hart að sóknaraðilum að taka þátt í samskiptum við barnavernd án þess að það skilaði tilætluðum árangri. Var staða varnaraðila að þessu leyti flókin þar sem sóknaraðilar virtust oft ekki átta sig á því hvernig hagsmunum þeirra væri best borgið og þráuðust við að fylgja ráðleggingum varnaraðila í þeim efnum. Þau samskipti sem liggja fyrir í málinu fela að mati nefndarinnar ekki í sér að varnaraðili hafi beitt sóknaraðila óeðlilegum þrýstingi, hótunum eða þvingunum í störfum sínum. Þá bera gögn málsins ekki með sér að varnaraðili hafi í störfum sínum fyrir sóknaraðila, sem lutu að samskiptum við barnaverndarþjónustu, aðhafst nokkuð án sam­ráðs við sóknaraðila. Að sama skapi verður ekki séð að varnaraðili hafi beitt þrýstingi eða hótunum við innheimtu þóknunar vegna vinnu sinnar.

Varnaraðili hefur sýnt fram á að umfjöllun um heimaland sóknaraðilans [B] í stefnu sem hann útbjó hafi verið fengin af vef Stjórnarráðsins. Jafnframt hefur hann útskýrt hvaða erindi sú umfjöllun átti í stefnuna og að tilgangur hennar hafi verið að svara málflutningi gagnaðila varðandi ástæður þess að sóknaraðilar yfirgáfu landið. Nefndin telur ekki að varnaraðili hafi sýnt af sér fordóma eða haft uppi hatursorðræðu gagnvart heimalandi sóknaraðilans [B] í störfum sínum fyrir sóknaraðila.

Samkvæmt c-lið, 5. mgr. 17. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni heimilt að miðla upplýsingum, sem ella væru háðar þagnarskyldu, í ágreiningsmáli milli lögmanns og skjólstæðings fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, enda séu upplýsing­arnar nauðsynlegar málarekstrinum. Að mati nefndarinnar voru þær upplýsingar sem varnaraðili miðlaði til nefndarinnar nauðsynlegar til þess að nefndin gæti tekið afstöðu til sakarefna málsins.

Hvað varðar dómsmál sem þingfest var 4. júní 2024 er ljóst að misskilnings gætti af hálfu sóknaraðila um að munnlegur málflutningur ætti að fara fram við þingfestingu málsins. Gögn málsins sýna að málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrrnefndan dag og gagnaðili fékk frest til 18. júní s.á. til þess að skila greinargerð. Venju samkvæmt fólu lögmenn beggja aðila mætingalögmönnum að mæta við þingfestingu málsins og framhaldsþinghald þar sem til stóð að stefndi legði fram greinargerð. Um þetta skapaðist einnig misskilningur þar sem sóknaraðilar töldu að varnaraðili hefði falið öðrum lögmanni málið án þeirra vitundar. Fyrir liggur að þar sem ekki var mætt til dómþings þann 18. júní 2024 af hálfu sóknaraðila var málinu vísað frá.

Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi upplýst sóknaraðila um að málið yrði næst tekið fyrir þann 18. júní 2024 og þá myndi gagnaðili leggja fram greinargerð. Varnaraðili fór þess á leit við sóknaraðila í tölvupósti 13. júní s.á. að tilnefna þann lögmann sem tæki við málinu svo varnaraðili gæti sett sig í samband við viðkomandi. Síðar sama dag kom fram að ef sóknaraðilar vildu að annar lögmaður tæki við rekstri málsins þyrfti varnaraðili að fá upplýsingar um hver það væri. Það væri mikilvægt svo sóknaraðilar yrðu ekki fyrir óþarfa tjóni. Gögn málsins bera ekki með sér að varnaraðili hafi upplýst sóknaraðila sérstaklega um að málinu yrði vísað frá, og hvað í því fælist, ef ekki yrði mætt af þeirra hálfu til þinghaldsins. Í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi voru og fyrri samskipta við sóknar­aðila, sem bera með sér að misskilnings hafi gætt um ýmis atriði tengd málsmeðferðinni, bar varnaraðila að mati nefndarinnar sérstaklega rík skylda til þess að gera sóknaraðilum skýrlega grein fyrir afleiðingum þess að ekki yrði mætt í þinghald 18. júní 2024. Sú háttsemi varnaraðila að veita sóknaraðilum ekki skýrar leiðbeiningar og upplýsingar um að máli þeirra yrði vísað frá dómi ef mæting félli niður af þeirra hálfu í þinghaldi 18. júní 2024 er aðfinnsluverð.

Nefndin telur rétt að hvor aðili beri inn kostnað vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, [C] lögmanns, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, [A] og [B], vegna heimsókna á Landspítala dagana 18.-20. maí 2024, að fjárhæð 153.000 kr., felur  í sér hæfilegt endurgjald.

Áskilið endurgjald varnaraðila, [C] lögmanns, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, [A] og [B], í barnaverndarmáli, að fjárhæð 463.140 kr., felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili, [C] lögmaður, á ekki rétt á endurgjaldi úr hendi sóknaraðila, [A] og [B], vegna vinnu við dómsmál til ógildingar úrskurði umdæmis­ráðs barnaverndar um vistun barns sóknaraðila utan heimilis.

Sú háttsemi varnaraðila, [C] lögmanns, að veita sóknaraðilum, [A] og [B], ekki skýrar leiðbeiningar og upplýsingar um að máli þeirra yrði vísað frá dómi ef mæting félli niður af þeirra hálfu í þinghaldi 18. júní 2024 er aðfinnsluverð.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

Rétt endurrit staðfestir

 

Eva Hrönn Jónsdóttir