Mál 43/2024

Mál 43/2024

Ár 2024, fimmtudaginn 19. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið málið nr. 43/2024:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. ágúst 2024 kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 21. ágúst 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. gr. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefnd­­inni ásamt fylgiskjölum þann 11. september 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefnd­­inni ásamt gögnum þann 2. október 2024 og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 23. október 2024 ásamt fylgiskjölum. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili lýsir málsatvikum með þeim hætti að hún hafi leitað til varnaraðila haustið 2022 og falið henni að vera réttargæslumaður sinn í sakamáli. Með dómi sem kveðinn var upp 21. september 2023 hafi þóknun varnaraðila verið ákvörðuð 600.000 kr. og bætur til sóknaraðila 250.000 kr. Ákærði hafi áfrýjað dóminum til Landsréttar.

Sóknaraðili segir varnaraðila hafa gert sér grein fyrir því í upphafi að ef málið tapaðist gæti kostnaður fallið á hana. Sóknaraðili hafi við það tækifæri greint varnaraðila frá því að hún gæti ekki greitt slíkan kostnað og því hafi verið mikið undir að málið ynnist, svo kostnaður félli ekki á hana.  Í október 2023 hafi varnaraðili byrjað að krefja sóknaraðila um þóknun samkvæmt tímaskýrslu, sem hafi verið töluvert hærri en sú þóknun sem ákvörðuð hafi verið með dómi. Sóknaraðili telur þetta ekki í samræmi við samkomulag þeirra. Sóknaraðili hafi leitað svara hjá varnaraðila vegna þessa og hún sagst myndi fara fram á hærri þóknun við áfrýjun málsins, sem myndi þá leiða til endurgreiðslu til sóknaraðila.

Sóknaraðili segist hafa leitað leiða til þess að greiða þóknun varnaraðila og m.a. leitað til tryggingafélags síns sem hafi hafnað greiðsluþáttöku og óskað eftir fyrirframgreiðslu sumarfrís en einnig verið synjað. Hafi sóknaraðili ekki séð fram á að geta greitt reikning varnaraðila en náð að greiða varnaraðila þrjár greiðslur, samtals að fjárhæð 102.000 kr. Sóknaraðili segir kröfur varnaraðila hafi valdið sér miklum óþægindum. Loks hafi varnaraðili tjáð sóknaraðila að hún gæti ekki aðstoðað hana frekar fyrr en hún greiddi kröfuna og neitað að afhenda henni gögn fyrr en kostnaður væri greiddur eða samið um hann.

Þann 30. júlí sl. hafi varnaraðili sent kröfu upp á tvær milljónir króna inn á heimabanka sóknaraðila, með eindaga 9. ágúst sl. Sóknaraðili segir það hljóta að liggja í augum uppi að brotaþoli hafi ekki uppi einfalda bótakröfu í sakamáli til þess að sitja uppi með tveggja milljóna króna málskostnað ef málið vinnst. Dómari hafi ákvarðað þóknun varnaraðila með hliðsjón af tímaskýrslu hennar. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa gengið gegn upphaflegu samkomulagi þeirra með innheimtunni og telur sér ekki skylt að greiða varnaraðila þóknun umfram dæmdan málskostnað, þar sem ekki liggi fyrir skriflegur samningur þar um. Hún vísar til 10. gr. siðareglna lögmanna.

II.

Varnaraðili lýsir málsatvikum svo að sóknaraðili hafi leitað til hennar í apríl 2022 um að taka að sér réttargæslu fyrir sig í sakamáli og halda uppi bótakröfu. Í kjölfarið hafi varnaraðili fengið upplýsingar um að málið sem um ræddi hefði verið þingfest þremur mánuðum áður en bótakrafa ekki verið lögð fram í málinu, þrátt fyrir að sóknaraðila hafi verið leiðbeint um rétt sinn til þess að hafa uppi slíka kröfu.

Varnaraðili hafi upplýst sóknaraðila um að hún ætti ekki rétt á réttargæslumanni í málinu en hún gæti ráðið sér lögmann á eigin kostnað til þess að hafa uppi kröfuna. Ef ákærði yrði dæmdur til greiðslu málskostnaðar kæmi sá hluti upp í kostnað vegna vinnu varnaraðila en að öðru leyti þyrfti sóknaraðili að bera eigin málskostnað sjálf. Þar sem bótakrafa hafi ekki verið lögð fram í málinu hafi varnaraðili átt í samskiptum við héraðssaksóknara sem hafi boðist til að afturkalla ákæru og gefa út nýja svo bótakrafan kæmist að.

Varnaraðili vísar til fyrirliggjandi samskipta aðila þess efnis að hún hafi vakið máls á því hvort það borgaði sig fyrir sóknaraðila að halda kröfunni uppi þar sem hún ætti ekki rétt á réttargæslumanni og þyrfti sjálf að standa straum af kostnaði vegna þess. Varnaraðili hafi talið mikilvægt, í ljósi lítils fjárhagslegs ávinnings og óhjákvæmilegrar fjárhagslegrar áhættu, að sóknaraðili gerði sér grein fyrir því út í hvað hún væri að fara. Sóknaraðili hafi sagt það prinsipp mál að halda uppi bótakröfu og verið ákveðin í að vilja koma kröfunni að í málinu. Varnaraðili hafi sýnt aðstæðum sóknaraðila skilning og viljað koma til móts við hana og fallist á tillögu sóknaraðila um mánaðarlegar greiðslur þar til kostnaður væri að fullu greiddur.

Varnaraðili segir ljóst hafa verið frá upphafi að sóknaraðili þyrfti að greiða fyrir hennar vinnu og að gerð yrði krafa um að ákærði yrði dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Jafnframt hafi verið ljóst að yrði dæmdur málskostnaður lægri en raunverulegur kostnaður af þjónustu varnaraðila, myndi sóknar­aðili þurfa að greiða mismuninn og að ef málið tapaðist myndi kostnaður lenda að fullu á sóknaraðila.

Varnaraðili vísar til samskipta við sóknaraðila eftir að dómur féll í málinu því til stuðnings að samkomulag hafi verið um að sóknaraðili greiddi mismuninn og hafi hún greitt þrjár greiðslur, samtals að fjárhæð 100.000 kr., þá fyrstu í nóvember 2023 og þá síðustu í mars 2024. Á engum tímapunkti hafi sóknaraðili mótmælt greiðsluskyldu sinni eða fjárhæð eða tímafjölda sem hafði farið í málið. Það hafi ekki gerst fyrr en varnaraðili hóf að innheimta kostnaðinn að fullu eftir að sóknaraðili stóð ekki við samkomulag um greiðslur. Þessu til stuðnings vísar varnaraðili til þess að aðilar hafi oft rætt möguleikann á því að sækja bætur úr málskostnaðartryggingu sóknaraðila vegna mismunar á kostnaði við vinnu varnaraðila og dæmdum málskostnaði. Slíkar samræður hefðu ekki þurft að eiga sér stað ef sóknaraðili hefði staðið í þeirri meiningu að varnaraðila bæri að taka það tjón á sig. Það hafi verið eins skýrt og hægt var að sóknaraðili myndi bera tjón sem hún yrði fyrir vegna þessa.

Í lok maí 2024 hafi Landsréttur gefið sóknaraðila frest til að skila inn greinargerð í málinu. Af því tilefni hafi varnaraðili ítrekað að sóknaraðili yrði að gera upp kostnað vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi ef hún vildi að varnaraðili héldi áfram með málið í Landsrétti. Í framhaldinu hafi varnaraðili unnið greinargerð í samvinnu við landsréttarlögmann og skilað henni inn án þess að hafa fengið greitt frá sóknaraðila, þar sem hún hafi ekki viljað valda henni réttarspjöllum. Þá sem endranær hafi verið alveg ljóst að vinna varnaraðila væri á kostnað sóknaraðila sjálfrar. Fyrst eftir að greinargerðinni hafði verið skilað til Landsréttar hafi sóknaraðili hins vegar haldið því fram að hún hafi talið að sér bæri ekki að greiða kostnað vegna vinnu sóknaraðila.

Varnaraðili lýsti samskiptum aðila frá maí 2024 og þar til sóknaraðili beindi kvörtun til nefndarinnar. Sóknaraðili hafi svarað illa skilaboðum og engar greiðslur innt af hendi. Einnig hafi þeim lögmanni sem gætti hagsmuna hennar í Landsrétti gengið illa að ná í hana og hann á endanum sagt sig frá málinu. Það næsta sem varnaraðili hafi frétt af málinu hafi verið vegna kvörtunar í máli þessu.

Varnaraðili vísar til gagna málsins sem sýni að sóknaraðila hafi aldrei skort skilning um að henni bæri að greiða fyrir vinnu varnaraðila og aldrei mótmælt tímaskýrslu hennar.

Varnaraðili vísar til tímaskýrslu í málinu sem telji 70 vinnustundir og segir stærstan hluta þeirra hafa verið vegna óhjákvæmilegrar viðveru fyrir dómi, undirbúnings munnlegs málflutnings, samskipta við dómara og nauðsynleg samskipti við sóknaraðila og upplýsingagjöf. Skráðir tímar séu aðeins brot af þeim tímum sem varnaraðili hafi í raun unnið í málinu. Þrátt fyrir að tímaskýrsla hafi legið fyrir í dómi hafi dæmdur málskostnaður aðeins numið 600.000 kr. með virðisaukaskatti. Til þess að auka ekki frekar á tjón sóknaraðila hafi varnaraðili ákveðið að halda sig við tímaskýrsluna, í stað þess að rukka fyrir alla vinnu sína. Jafnframt hafi hún ákveðið að halda sig við tímagjald sem miðað sé við varðandi þóknun réttargæslumanna, en ekki almennt tímagjald lögmannsstofu sinnar.

III.

Sóknaraðili vísar til greinargerðar sinnar og rekur samskipti við varnaraðila á meðan á rekstri málsins stóð. Hún segir rangt að varnaraðili hafi tilkynnt henni að hún ætti ekki rétt á réttargæslu­manni. Umræða um greiðsluskyldu hennar hafi allan tímann byggst á því að henni bæri að greiða ef málið tapaðist, ekki ef það ynnist og ekki mismun dæmds málskostnaðar og málskostnaðar samkvæmt tímaskýrslu. Samtal um mánaðarlegar greiðslur í upphafi hafi aðeins átt við ef ákærða yrði ekki gert að greiða lögmannskostnað hennar. Sóknaraðili vísar til þess að dómari hafi talið hæfileg laun varnaraðila 600.000 kr. með virðisaukaskatti og telur sér óskylt að greiða kostnað umfram þá fjárhæð.

Sóknaraðili segir varnaraðila aldrei hafa lagt fram áætlun um áætlaðan tímafjölda eða kostnað af málinu, né upplýst um áfallin kostnað eftir því sem hann hafi fallið til. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa falið eiginmanni sínum hagsmunagæslu fyrir hana í Landsrétti án umboðs. Sóknaraðili telur að varnaraðila hafi borið að stilla vinnu í málinu í hóf og upplýsa hana um áfallinn kostnað reglulega. Sá kostnaður hefði samt sem áður ekki átt að falla á sóknaraðila, enda ekki um það samið í upphafi.

IV.

Varnaraðili greinir frá því að þann 17. október sl. hafi fallið dómur í Landsrétti, þar sem barnsfaðir sóknaraðila hafi verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og bótakröfu sóknaraðila vísað frá dómi. Þar sem sóknaraðili hafi haldið því fram frá upphafi að henni bæri að greiða fyrir vinnu varnaraðila ef málið tapaðist, sé ótvíræð greiðsluskylda nú fyrir hendi. Sóknaraðili hafi ítrekað staðfest að hennar skilningur frá upphafi hafi verið sá að ef málið tapaðist bæri henni að greiða fyrir vinnu varnaraðila, sbr. fyrirliggjandi gögn. Hanni hafi verið gerð grein fyrir því frá upphafi að málskostnaður myndi í öllum tilvikum lenda á henni, en krafa yrði gerð um að ákærða yrði gert að greiða henni málskostnað.

Varnaraðili vísaði til gagna málsins um samskipti aðila um rétt sóknaraðila til þess að fá skipaðan réttargæslumann og greiðslu kostnaðar vegna málsins. Varnaraðili segir málið hafa verið umfangs­meira en almennt gerist og því tekið meiri tíma fyrir hana að setja sig inn í málið. Við ritun bótakröfu hafi sóknaraðili sent sér hundruð blaðsíðna af gögnum sem hún hafi falið varnaraðila að fara yfir, auk þess sem aðstæður sóknaraðila sjálfrar hafi kallað á aukna vinnu. Allan tímann hafi varnaraðila haldið sóknaraðila upplýstri um það sem hafi átt sér stað og hún tekið virkan þátt í málinu, óskað upplýsinga og verið með spurningar um ýmislegt sem ekki hafi alltaf tengst málinu beint. Ljóst hafi verið frá upphafi að málið hafi ekki snúist um miskabæturnar sem slíkar heldur verið meira réttlætismál fyrir sóknaraðila. Varnaraðili kveðst hafa reynt að takmarka tjón sóknaraðila eins og henni hafi verið unnt og vísar til þess sem fram hefur komið hvað það varðar.

Niðurstaða

I.

Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðar­nefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga um lögmenn er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans eftir því sem unnt er gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindi ekki umbjóðanda hans.

Samkvæmt 10. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilega þóknun fyrir störf sín. Við mat á því hvað telst hæfileg þóknun er m.a. heimilt að líta til umfangs og eðlis máls, undirliggjandi hagsmuna, þýðingar fyrir skjólstæðing, árangurs, þess tíma sem krafist er að varið sé í mál af hálfu lögmannsins, sérhæfingar hans og þeirrar ábyrgðar sem starfanum fylgir. Lögmaður skal upplýsa skjólstæðing sinn um á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð. Þá skal lögmaður leitast við að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir hver kostnaður af máli gæti orðið í heild sinni og vekja athygli hans ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi eru.

II.

Sóknaraðili neitar að hafa samþykkt að greiða varnaraðila umfram dæmdan lögmannskostnað. Af samskiptum aðila má þó ráða að sóknaraðili hafi samþykkt að greiða þóknun varnaraðila samkvæmt tímaskýrslu. Þá hafi sóknaraðila verið ljóst að kostnaður vegna vinnu varnaraðila félli á hana ef málið tapaðist. Sú varð raunin með dómi Landsréttar 17. október sl. í máli […].

Í kvörtun felst krafa sóknaraðila um að nefndin úrskurði um hvert sé hæfilegt endurgjald varnaraðila vegna starfa hennar fyrir sóknaraðila. Við mat á því hvort endurgjald lögmanns sé hæfilegt felst annars vegar mat því á hvort tímagjald sé hæfilegt og hins vegar hvort fjöldi vinnustunda sé í samræmi við þá vinnu sem lögmaður hefur innt af hendi.

Að mati nefndarinnar er áskilið tímagjald varnaraðila, 24.300 kr. auk virðisaukaskatts ekki úr hófi. Tímaskýrsla sem liggur fyrir í málinu telur 72 vinnustundir. Í vinnunni fólst gerð bótakröfu, gagnaöflun, samskipti við sóknaraðila, dómara, verjanda og fulltrúa ákæruvaldsins, mæting í fjórar fyrirtökur auk munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu ákærða, skýrslutöku sóknaraðila fyrir dómi og aðal­með­ferð málsins. Með grófum hætti sundurliðast vinna varnaraðila þannig að þriðjungur vinnu­stunda er vegna samskipta við sóknaraðila og gerðar bótakröfu, þriðjungur vegna samskipta við dómara og lögmenn utan réttar og mætinga fyrir dómi og þriðjungur vegna gagnaöflunar og yfirferðar gagna og undir­búnings munn­legs málflutnings.

Sóknaraðili átti ekki rétt á að sér yrði skipaður réttargæslumaður í málinu en var heimilt, á grundvelli 43. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að ráða á sinn kostnað lögmann til að gæta hagsmuna sinna. Lögmaður sem brotaþoli ræður á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis hefur sömu réttindi og skyldur og réttargæslumaður eftir því sem við á.

Sóknaraðili naut aðstoðar annars lögmanns á rannsóknarstigi en leitaði til varnaraðila eftir að ákæra hafði verið gefin og fól henni að leggja fram og halda uppi bótakröfu í málinu. Gögn málsins gefa til kynna að sóknaraðili hafi litið á það sem réttlætismál og málið haft meiri þýðingu fyrir hana en einungis fjárhagslega. Eðli málsins samkvæmt takmarkaðist hlutverk varnaraðila í málsmeðferðinni þó við að halda uppi bótakröfu fyrir sóknaraðila og voru þeir hagsmunir sem varnaraðili gætti því fyrst og fremst fjárhagslegir. Varnaraðili upplýsti sóknaraðila um að hún ætti ekki rétt á að sér yrði skipaður réttargæslumaður og tók sóknaraðili þá ákvörðun um að ráða varnaraðila til verksins á eigin kostnað. Með hliðsjón af gögnum málsins telur nefndin varnaraðila hafa gert sóknaraðila nægilega grein fyrir því að henni bæri að greiða kostnað vegna vinnu varnaraðila ef málið tapaðist. Hins vegar bera gögn málsins ekki með sér að varnaraðili hafi gert sóknaraðila grein fyrir áætluðum heildar­kostnaði af málinu eða upplýst hana um áfallinn kostnað eftir því sem hann féll til.  

Nefndin telur fjölda skráðra vinnustunda hafa farið fram úr því sem hæfilegt geti talist, sbr. fyrrnefnda 24. gr. lögmannalaga og 10. gr. siðareglna lögmanna. Í ljósi þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem í húfi voru og þeirra miskabóta sem sóknaraðili gat vænst ef málið ynnist, bar varnaraðila skylda til þess að halda kostnaði vegna vinnu sinnar í hófi. Gögn málsins benda til þess að sóknaraðili hafi farið fram á mikil samskipti við varnaraðila vegna málsins sem að hluta til hafi gert vinnslu málsins tímafrekari en efni stóðu til. Engu að síður var það á ábyrgð varnaraðila að halda fjölda vinnustunda innan skynsamlegra marka. Í því hefði t.a.m. getað falist að fela fulltrúa ákæruvaldsins að mæta f.h. sóknaraðila fyrir dómi og að leggja ekki meiri vinnu í samskipti utan réttar, lestur málsgagna og undirbúning munnlegs málflutnings en málið bæri. Þannig telur nefndin að óþarft hafi verið með öllu að varnaraðili tæki þátt í fjölmörgum fyrirtökum í málinu, legði yfirgripsmikla vinnu í undirbúning málflutnings vegna frávísunarkröfu og skýrslutöku í gegnum fjarfundabúnað, enda voru þeir þættir málsins á könnu saksóknara, eyddi heilum vinnudegi í undirbúning aðalmeðferðar og sæti fimm klukkustunda aðalmeðferð þar sem hlutverk hennar afmarkaðist við málflutnings um bótakröfu sóknaraðila. Má ætla að héraðsdómur hafi litið til þess við ákvörðun málskostnaðar að varnaraðili hefði getað rekið málið með öðrum og kostnaðarminni hætti. Að mati nefndarinnar hefði varnaraðili þurft að kynna sóknaraðila það sérstaklega ef hún ætlaði sér að gera eitthvað meira en það sem málið krefðist miðað við þá fjárhagslegu hagsmuni sóknaraðila sem í húfi voru, sem ljóst mátti vera frá upphafi að væru óverulegir auk þess sem um óvissa kröfu var að ræða og því óvíst að gagnaðili yrði dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Í ljósi aðstæðna var jafnframt sérstök ástæða fyrir varnaraðila að upplýsa sóknaraðila um áfallinn kostnað eftir því sem málinu vatt fram.

Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin að endurgjald varnaraðila skuli sæta lækkun. Fyrir liggur að héraðsdómur hafði tímaskýrslu varnaraðila til hliðsjónar við ákvörðun málskostnaðar og telur nefndin rétt að miða hæfilegt endurgjald varnaraðila við þá fjárhæð sem þar var ákveðin, 600.000 kr. að meðtöldum virðisauka­skatti.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, vegna starfa í þágu sóknaraðila, [A], sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir