Mál 46/2024

Mál 46/2024

Ár 2024, fimmtudaginn 19. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið málið nr. 46/2024:

A

gegn

B lögmanni

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 2. september 2024 kvörtun [C], f.h. sóknaraðila [A], gegn [B] lögmanni.

Varnaraðila var veitt færi á að skila greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 17. október 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst samdægurs. Viðbótar­greinargerð sóknaraðila ásamt fylgiskjölum barst þann 18. nóvember sl. Varnaraðili taldi ekki ástæðu til frekari andsvara af sinni hálfu. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar og var málið tekið til úrskurðar.  

Málsatvik og málsástæður

I.

Varnaraðili var lögmaður eins gagnaðila sóknaraðila í máli nr. […] fyrir Landsrétti en aðalmeðferð í málinu fór fram þann […]. Kvörtun lýtur að því að við aðalmeðferð málsins hafi varnaraðili, í seinni ræðu sinni, haft uppi ranga fullyrðingu um tiltekin atvik sem deilt hafi verið um í málinu. Sóknaraðili segir gögn málsins, sem hann leggur að hluta til fram með kvörtun til nefndarinnar, staðfesta að fullyrðing varnaraðila hafi verið bersýnilega röng og til þess fallin að afvegaleiða og blekkja Landsrétt. Sóknaraðili telur háttsemi varnaraðila fela í sér brot á 1., 2., 19., 20. og 22. gr. siðareglna lögmanna.

II.

Varnaraðili segir seinni ræðu sína fyrir Landsrétti hafa verið stutt andsvör við andsvörum lögmanns sóknaraðila við hans fyrri ræðu. Varnaraðili segist ekki muna vel eftir seinni ræðu sinni og því geti hann ekki samþykkt frásögn sóknaraðila af ummælum sínum. Varnaraðili segir ekkert að finna í forsendum dóms Landsréttar frá […] sem snerti kvörtunaratriðið. Sóknaraðili hafi óskað eftir áfrýjunar­leyfi til Hæstaréttar en verið hafnað.

Varnaraðili segir það ekki hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna að endurskoða úrlausnir dómstóla. Þá telur hann það falla utan hlutverks úrskurðarnefndar lögmanna að vera vettvangur fyrir eftirmál uppkveðinna dóma. Hann telur að vísa beri málinu frá ex officio. Þar að auki telur hann kvörtunina efnislega fráleita og ekki hlutverk úrskurðarnefndar að vera vettvangur fyrir umræður um það sem fram fari fyrir dómi.

III.

Sóknaraðili rekur forsögu dómsmálsins og leggur fram gögn sem varða atvik sem þar var deilt um. Sóknaraðili kveðst ganga út frá því að varnaraðili heimili sér að framsenda nefndinni upptöku af ræðu hans sem hann hafi undir höndum. Sóknaraðili hafi tekið ræðuna upp en síðar fengið upplýsingar um að slík upptaka væri óheimil. Sóknaraðili mótmælir því að úrskurðarnefnd lögmanna sé ekki vettvangur fyrir kvartanir vegna háttsemi lögmanna í dómsal.

Niðurstaða

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur beint kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í slíku máli getur úrskurðarnefndin fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu.

Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á fyrrnefndu ákvæði. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut með þeirri háttsemi að hafa uppi ranga fullyrðingu í ræðu við aðalmeðferð í Landsrétti og að í háttseminni hafi falist brot gegn ákvæðum siðareglna lögmanna. Fellur kvörtunin því innan valdsviðs nefndarinnar og er frávísunarkröfu varnaraðila hafnað.

Kvörtun lýtur sem fyrr segir að þeirri háttsemi varnaraðila að hafa farið með ranga fullyrðingu í andsvörum sínum við aðalmeðferð í Landsrétti í máli nr. […]. Varnaraðili gat ekki samþykkt frásögn sóknaraðila af hinum umkvörtuðu ummælum. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á að varnaraðili hafi haft uppi þau ummæli sem sóknaraðili heldur fram. Jafnvel þótt svo hefði verið, telur nefndin ekki að sýnt hafi verið fram á að í því hefði falist að varnaraðili hefði farið með ranga fullyrðingu gegn betri vitund. Af því leiðir sú niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, [B], um frávísun málsins frá nefndinni, er hafnað.

Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir