Mál 47/2024
Mál 47/2024
Ár 2024, fimmtudaginn 19. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 5. september 2024 kvörtun [C], f.h. sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 16. september 2024 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 7. október 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni þann 7. nóvember 2024 og viðbótargreinargerð varnaraðila ásamt gögnum þann 6. desember sl. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Formaður stjórnar sóknaraðila, í umboði stjórnar, beinir kvörtun í máli þessu til úrskurðarnefndar lögmanna. Sóknaraðili fer fram á að nefndin úrskurði um hvert sé hæfilegt endurgjald varnaraðila vegna vinnu hans fyrir sóknaraðila frá því í desember árið 2021 til maímánaðar 2023. Húsfélagið hafi falið varnaraðila að annast fyrirsvar og hagsmunagæslu fyrir félagið, m.a. fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að tímaskráning varnaraðila sé úr hófi. Varnaraðili hafi mikla reynslu af málum af því tagi sem hann sinnti fyrir sóknaraðila sem sé ástæða til þess að leitað hafi verið til hans. Ný stjórn hafi tekið við í félaginu í lok ársins 2023 og talið málinu lokið enda hafi enginn reikningur borist frá varnaraðila frá því í apríl 2023. Því hafi lokareikningur varnaraðila, dags. 31. maí 2024, komið nýrri stjórn félagsins mjög á óvart.
Í málinu liggja fyrir eftirtaldir reikningar og tímaskýrslur að baki þeim. Áskilið tímagjald varnaraðila samkvæmt reikningum er 24.500 kr. auk virðisaukaskatts.
- Reikningur, dags. 7. apríl 2022, vegna 34,3 klst. vinnu á tímabilinu 8. desember 2021 til 4. apríl 2022, samtals 839.125 kr. auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar að fjárhæð 3.300 kr.
- Reikningur, dags. 5. maí 2022, að fjárhæð kr. 98.000 kr. auk virðisaukaskatts vegna 4 klst. vinnu í apríl 2022.
- Reikningur, dags. 2. júní 2022, að fjárhæð kr. 79.625 kr. auk virðisaukaskatts vegna 3,25 klst. vinnu í maí 2022.
- Reikningur, dags. 4. júlí 2022, að fjárhæð 447.125 kr. auk virðisaukaskatts vegna 18,25 klst. vinnu í júní 2022.
- Reikningur, dags. 9. ágúst 2022, að fjárhæð 1.102.500 kr. auk virðisaukaskatts vegna 45 klst. vinnu í júlí 2022.
- Reikningur, dags. 6. september 2022, að fjárhæð 202.125 kr. auk virðisaukaskatts vegna 8,25 klst. vinnu í ágúst 2022.
- Reikningur, dags. 3. október 2022, að fjárhæð 489.071 kr. auk virðisaukaskatts vegna 19,25 klst. vinnu í september 2022 auk útlagðs kostnaðar 17.446 kr.
- Reikningur, dags. 1. desember 2022, að fjárhæð 24.500 kr. auk virðisaukaskatts vegna 1 klst. vinnu í nóvember 2022.
- Reikningur, dags. 11. apríl 2023, að fjárhæð 1.071.875 kr. auk virðisaukaskatts vegna 43,75 klst. vinnu í desember 2022 og janúar 2023.
- Reikningur, dags. 16. maí 2024, að fjárhæð 875.875 kr. auk virðisaukaskatts vegna 35,75 klst. vinnu í mars til maí 2023.
II.
Varnaraðili rakti tilurð þess að stjórn sóknaraðila leitaði til hans og helstu efnisatriði málsins. Vegna eðlis málsins hafi þurft að ráðast í umtalsverða gagnaöflun um ýmis atriði. Samhliða gagnaöflun og greiningu sakarefnis hafi varnaraðili fundað reglulega með stjórnarmönnum sóknaraðila og einstaka íbúum og borið undir þá bæði tillögur og sjónarmið um hvernig hagsmunum þeirra væri best gætt í þeirri stöðu sem uppi hafi verið. Sóknaraðili hafi jafnan haft allar upplýsingar um þau verk sem unnin hafi verið og varnaraðili viðhaft mikið samráð og leitað samþykkis sóknaraðila vegna vinnunnar. Varnaraðili vísar til fyrirliggjandi gagna málsins og tímaskýrslna sem sýni þau verk sem unnin hafi verið. Um hafi verið að ræða margháttuð samskipti við sóknaraðila, stofnanir og einstaklinga, auk reksturs þriggja stjórnsýslumála fyrir úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál.
Varnaraðili segir að þegar liðið hafi á árið 2022 hafi gjaldkeri stjórnar sóknaraðila óskað eftir því að fá að greiða reikninga með mánaðarlegum greiðslum. Það hafi verið góðfúslega samþykkt og aldrei verið farið fram á vexti vegna þessa fyrirkomulags, þrátt fyrir að umsamdar greiðslur hafi ekki borist eins og samið hafi verið um. Stundum hafi nokkrir mánuðir liðið á milli greiðslna og þurft að reka á eftir þeim. Í apríl 2023 hafi næst síðasti reikningur verið gefinn út og miðað við 300.000 kr. greiðslu á mánuði, eins og samið hafi verið um. Síðasta greiðsla vegna þess reiknings hafi hins vegar ekki borist fyrr en 16. febrúar 2024. Þar sem sóknaraðili hafi þegar skuldað umtalsverðar fjárhæðir þegar vinnu lauk í maí 2023 hafi varnaraðili ákveðið, til hagsbóta fyrir sóknaraðila, að fresta útgáfu reiknings þar til eldri skuld væri að fullu greidd. Reikningur vegna vinnu á vordögum 2023 hafi þess vegna ekki verið gefinn út fyrr en í maí árið 2024.
Varnaraðili vísar til samskipta við þáverandi gjaldkera sóknaraðila frá 10. nóvember 2023 þar sem fram komi að óútgefinn sé reikningur að fjárhæð 1.086.085 kr. vegna vinnu frá mars til maí 2023. Því hafi síðasti reikningur varnaraðila ekki komið á óvart, eins og haldið sé fram í kvörtun. Jafnframt vísar varnaraðili til tölvupósts til fyrrverandi formanns stjórnar sóknaraðila frá 1. desember 2023 þar sem ítarlega hafi verið gerð grein fyrir þessari óreikningsfærðu skuld. Umræddur fyrrverandi formaður hafi haft samband við varnaraðila í júní 2024 og sagst hissa á reikningi útgefnum í maí s.á. og farið fram á að hann yrði felldur niður. Starfsmaður varnaraðila hafi af því tilefni sent formanninum fyrrverandi tölvupóst þar sem útskýrt hafi verið hvers vegna ekki væru forsendur til að fella niður reikninginn. Reikningurinn hafi verið greiddur þann 25. júní 2024 án athugasemda.
Varnaraðili vísar til 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og telur að miða eigi við útgáfudag hvers reiknings fyrir sig við mat á því hvenær unnt var að beina erindi til nefndarinnar. Aðeins síðasti reikningurinn falli innan þess frests sem þar sé veittur. Því beri að vísa kvörtun er varðar aðra reikninga frá nefndinni. Varnaraðili telur umkrafið endurgjald í öllum atriðum mjög hóflegt fyrir þá miklu vinnu sem unnin hafi verið. Reikningur, dags. 16. maí 2024, varði að mestu vinnu við stjórnsýslumál UUA nr. 42/2023. Varnaraðili hafnar alfarið sjónarmiðum sóknaraðila.
III.
Sóknaraðili ítrekar það sem fram kom í kvörtun um að leitað hafi verið til varnaraðila vegna sérþekkingar hans og því hafi fjöldi vinnustunda komið á óvart. Umkrafin þóknun varnaraðila sé hærri en sóknaraðila hafi órað fyrir og hann telji hana úr hófi.
IV.
Varnaraðili bendir á að núverandi stjórn sóknaraðila sé ekki annar aðili en sá sem fráfarandi stjórn hafi komið fram fyrir. Varnaraðili hafi frá upphafi unnið náið með fyrri stjórn og einstökum stjórnarmönnum og íbúum, upplýst þá um framvindu mála og stöðuna. Aldrei á þeim tíma sem varnaraðili hafi unnið fyrir sóknaraðila, frá desember 2021 til maí 2023, hafi verið gerð athugasemd við vinnuna eða tilkostnað sem henni fylgdi. Varnaraðili leggur fram og vísar til samskipta sem áttu sér stað eftir 15. maí 2023, sem ekki hafi verið rukkað fyrir og samskipta varnaraðila við núverandi fyrirsvarsmann stjórnar sóknaraðila í maí 2023, þar sem hann lýsi ánægju með vinnu varnaraðila í máli UUA nr. 42/2023. Varnaraðili ítrekar sjónarmið sem komu fram í greinargerð hans til nefndarinnar.
Niðurstaða
I.
Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Við mat á því hvenær umbjóðandi lögmanns átti þess kost að beina ágreiningsmáli um endurgjald lögmanns til nefndarinnar kemur m.a. til skoðunar hvort vinna lögmannsins fyrir umbjóðandann hafi tekið til eins eða fleiri aðskilinna mála. Í máli þessu liggur fyrir að næst síðasti reikningur varnaraðila tók til vinnu í desember 2022 og janúar 2023. Síðasta skráning í vinnuskýrslu sem sá reikningur tók til var ritun andmæla til úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum í máli 102/2022, þann 6. janúar 2023, og markaði hún lok vinnu varnaraðila í því máli. Var sóknaraðila kunnugt um kostnað af vinnu varnaraðila vegna þess máls í apríl 2023. Næsta skráning í vinnuskýrslu varnaraðila, sem jafnframt er sú fyrsta sem reikningur, dags. 16. maí 2023, grundvallast á er 31. mars 2023. Hún og önnur vinna sem á eftir kom var vegna máls UUA nr. 42/2023. Að þessu virtu telur nefndin að frestur til þess að koma á framfæri kvörtun vegna reikninga sem gefnir voru út á tímabilinu 7. apríl 2022 til 11. apríl 2023, hafi verið liðinn þegar kvörtun í máli þessu barst nefndinni þann 5. september 2024 og er kvörtun hvað þá varðar vísað frá nefndinni.
II.
Í kvörtun kemur fram að stjórn sóknaraðila hefði verið „sáttari að öðru leyti“ ef ekki hefði verið fyrir reikning varnaraðila frá 16. maí 2024. Gögn málsins bera ekki með sér að ágreiningur hafi verið uppi um umkrafða þóknun varnaraðila samkvæmt fyrri reikningum. Hvað varðar reikning, dags. 16. maí 2024, er í engu vikið að því í kvörtun að hvaða leyti stjórn sóknaraðila telji tímaskráningu varnaraðila úr hófi. Einungis kemur fram að nýrri stjórn sóknaraðila hafi komið síðasti reikningur varnaraðila á óvart og hann hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Jafnframt telji núverandi stjórn að með tilkomu síðasta reikningsins hafi heildarkostnaður vegna vinnu varnaraðila verið orðinn of hár, fremur en að gerðar séu athugasemdir við þá vinnuskýrslu sem reikningurinn grundvallast á.
Fyrir liggur að varnaraðili hafði gert bæði fyrrverandi gjaldkera og formanni sóknaraðila grein fyrir skuldinni í tölvupóstum í nóvember og desember 2023 og engar athugasemdir verið gerðar við hana. Í júní 2024 fór fyrrverandi formaður stjórnar sóknaraðila fram á að reikningur, dags. 16. maí 2024, yrði felldur niður þar sem heildarkostnaður vegna vinnu varnaraðila væri orðinn of hár. Var honum var tjáð að ekki væru forsendur til niðurfellingar reikningsins og reikningurinn greiddur í kjölfarið.
Að mati nefndarinnar er tímagjald varnaraðila að fjárhæð 24.500 kr. hóflegt. Samkvæmt greinargóðri tímaskýrslu að baki reikningi, dags. 16. maí 2024, vann varnaraðili 33,75 klst. í þágu sóknaraðila á tímabilinu og löglærður starfsmaður hans 2 klst. Vinnan fól í sér gagnaöflun, ritun kæru til úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum, samskipti við nefndina og sóknaraðila, móttöku greinargerðar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og ritun andmæla f.h. sóknaraðila. Afrit kæru, dags. 3. apríl 2023, og andmæla, dags. 15. maí 2023, liggja fyrir í málinu auk afrita af samskiptum varnaraðila við fulltrúa sóknaraðila um málið á þeim tíma. Með hliðsjón af gögnum málsins telur nefndin fjölda vinnustunda samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu vegna fyrrgreindrar vinnu ekki úr hófi. Af því leiðir sú niðurstaða nefndarinnar að áskilið endurgjald varnaraðila samkvæmt reikningi, dags. 16. maí 2024, að fjárhæð 1.086.085 kr. með virðisaukaskatti, feli í sér hæfilegt endurgjald.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kvörtun vegna reikninga varnaraðila, [B] lögmanns, útgefinna á árunum 2022 og 2023 er vísað frá nefndinni.
Áskilið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, samkvæmt reikningi, dags. 16. maí 2024, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, að fjárhæð 1.086.085 kr., felur í sér hæfilegt endurgjald.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir