Mál 48/2024
Mál 48/2024
Ár 2025, fimmtudaginn 6. mars 2025, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst, þann 7. september 2024, kvörtun [C] f.h. sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 16. september 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 26. og 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 21. október 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 1. nóvember 2024. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns og tók varamaður sæti hans við meðferð málsins.
Málsatvik og málsástæður
I.
Faðir sóknaraðila beinir kvörtun í máli þessu til nefndarinnar á grundvelli fyrirliggjandi umboðs sóknaraðila. Kvörtunin varðar vinnubrögð varnaraðila við hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila í fjárslitamáli á milli hans og fyrrum sambýliskonu hans en þau voru í óvígðri sambúð frá árinu 2014 til ársins 2020. Við sambúðarslit í ágúst 2020 náðist ekki samkomulag um fjárskipti og lagði lögmaður sambýliskonunnar fyrrverandi fram beiðni um opinber skipti í september 2023.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að sóknaraðili hafi ekki veitt fullnægjandi skýringar á tímaskráningu sinni og neitað að afhenda gögn málsins. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa krafist greiðslu fyrir ónothæfa vinnu og að hagsmunagæsla hennar hafi verið léleg, sem hafi valdið sóknaraðila fjárhagslegum skaða. Varnaraðili hafi ekki veitt fullnægjandi skýringar á tímaskráningu sinni og krafist greiðslu fyrir vinnu sem sóknaraðili telur ónothæfa. Hún hafi ekki getað gert grein fyrir vinnu sinni nema með almennum skýringum.
Jafnframt hafi varnaraðili neitað að afhenda gögn sem hún hafi undir höndum og hafi haldið þeim í gíslingu þar til reikningur hennar hefur verið greiddur. Gögnin sem um ræðir varði mál sem fyrrum sambýliskona sóknaraðila hafi höfðað gegn honum auk annarra gagna sem málið varða, tölvupóstsamskipti varnaraðila og skiptastjóra bús aðila annars vegar og lögmanns fyrrum sambýliskonu sóknaraðila hins vegar. Einnig hafi verið óskað eftir fundargerðum skiptafunda í málinu.
Sóknaraðili segir varnaraðila hafa samið kauptilboð sem reynst hafi ónothæft vegna rangra upplýsinga og þurft hafi að vinna upp á nýtt. Hún hafi ruglað saman hugtökunum kauptilboð og kaupsamningur, farið rangt með þær fjárhæðir sem samkomulag hafi verið um og gert beygingarvillur í nafni sóknaraðila. Sóknaraðili telur vinnubrögð varnaraðila hafa verið ófagleg og að hún hafi ekki gætt hagsmuna sóknaraðila með eðlilegum hætti, sérstaklega með því að krefjast þess ekki f.h. sóknaraðila að fyrrum sambýliskona hans bæri fjárhagslega ábyrgð á lánum og öðrum kostnaði sem sóknaraðili greiddi einn. Sóknaraðila hafi verið gert að greiða 50% söluþóknunar fyrir eign sem hann var ekki að selja. Sóknaraðili kveðst telja innheimtu söluþóknunar hafa verið ólögmæta en varnaraðili hafi ekki andmælt henni. Hann fer fram á að nefndin taki afstöðu til þess hvort varnaraðili hafi brotið gegn faglegum skyldum sínum sem lögmaður.
Sóknaraðili gerir þá kröfu að varnaraðili afhendi öll gögn sem hún hefur undir höndum án tafar og greiði skaðabætur fyrir að halda þeim í gíslingu. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili afturkalli síðari reikning sinn og endurgreiði 75% af fyrri reikningi sínum. Hann krefst auk þess skaðabóta vegna ólögmætrar innheimtu söluþóknunar og skaða sem hann segir varnaraðila hafi valdið sér vegna þess. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði veitt áminning fyrir að geta ekki gert grein fyrir vinnu sinni og fyrir lélega hagsmunagæslu. Sóknaraðili óskar eftir úrskurði um hvort rétt sé að fyrrum sambýliskona sóknaraðila hafi hagnast á peningum sem hún lagði ekki fram og hvort varnaraðili hafi gætt hagsmuna sóknaraðila með réttmætum hætti.
II.
Varnaraðili mótmælir málavöxtum eins og þeim er lýst af hálfu sóknaraðila. Hún kveðst hafa unnið af heilindum fyrir sóknaraðila og náð fram hagstæðum niðurstöðum, m.a. viðurkenningu á stærri eignarhluta sóknaraðila í fasteign hans og fyrrum sambýliskonu, að sambýliskonan bæri ábyrgð á helmingi áhvílandi lána og lægra kaupverði á hlut hennar í fasteigninni. Varnaraðili hafnar kröfum um skaðabætur og telur vinnu sína hafa verið til hagsbóta fyrir sóknaraðila.
Varnaraðili segir sóknaraðila hafa greitt afborganir og annan kostnað vegna fasteignar sinnar og fyrrum sambýliskonu eftir að hún flutti úr fasteigninni. Fjárhæðirnar hefði faðir sóknaraðila reiknað upp miðað við vísitölu vegna verðlagshækkana. Varnaraðili bendir á að hún hafi ráðlagt gegn því að reikna þær fjárhæðir upp miðað við vísitölu neysluverðs og að ekki væri raunhæft að krefjast endurgreiðslu vaxtabóta frá fyrrum sambýliskonu sóknaraðila.
Hafi sóknaraðili á endanum fallist á að litið yrði svo á að fyrrum sambýliskona hans skuldaði sér 3.657.474 kr. Frá þeirri fjárhæð skyldi dragast húsaleiga í 38 mánuði, samtals að fjárhæð 3.040.000 kr. Samkvæmt því væri sóknaraðili tilbúinn að ljúka uppgjöri við sambýliskonu sína þannig að hún greiddi honum 617.474 kr. Það hafi hún ekki fallist á.
Á skiptafundi 5. desember 2023 og þar hafi skiptastjóri lagt fram sáttatillögu þess efnis að ekkert uppgjör færi fram en að eftirstöðvar veðskulda skyldu reiknast frá eignarhluta hvors um sig í fasteigninni. Sú tillaga hafi verið samþykkt. Faðir sóknaraðila og eiginkona hans hafi gert tilboð í eignarhluta sambýliskonunnar fyrrverandi, miðað við að heildarverðmæti eignarinnar væri 58 milljónir króna, í stað ásetts verðs sem hafi verið 64,9 milljónir. Tilboðið hafi verið samþykkt af skiptastjóra. Þar sem hægt hafi gengið að fá fram staðfestingu um að faðir sóknaraðila og eiginkona hans gætu keypt eignarhluta sambýliskonunnar í fasteigninni hafi varnaraðili gert drög að kauptilboði og sent þeim. Um leið hafi hún sent sóknaraðila reikning vegna þeirrar vinnu sem hefði verið innt af hendi og hann verið greiddur athugasemdalaust. Nokkrir tímar hafi bæst við eftir það og þá hafi faðir sóknaraðila brugðist illa við og óskað eftir að fá senda tímaskýrslu sem varnaraðili hafi sent um hæl. Faðir sóknaraðila hafi þá krafist þess að fá öll málsgögn send og sagst ekki vilja að varnaraðili ynni meira í málinu. Varnaraðili hafi fallist á að lækka reikninginn um helming en neitað að afhenda gögn fyrr en reikningurinn væri greiddur. Eftir það hafi hún sagt sig frá málinu og ekki heyrt frekar í sóknaraðila eða föður hans.
Varnaraðili segir drög að kauptilboði hafa verið send föður sóknaraðila til þess að hann og eiginkona hans gætu leitað staðfestingar hjá bankastofnun á því að þau fengju nægilega hátt greiðslumat til þess að kaupa eignina. Varnaraðili segir föður sóknaraðila aldrei hafa rætt umrætt kauptilboð við sig.
III.
Af hálfu sóknaraðila er áréttað að hann telji varnaraðila ekki hafa gætt hagsmuna umbjóðanda síns með fullnægjandi hætti. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa sýnt óvönduð vinnubrögð með því að halda skjölum í gíslingu, afhenda ekki nauðsynleg gögn og innheimta ekki greiðslur frá fyrrum sambýliskonu sóknaraðila fyrir sameiginlegum kostnaði. Hann gagnrýnir einnig að varnaraðili hafi ekki lagfært ónothæft kauptilboð í tíma, sem leitt hafi til tafa á sölu fasteignar. Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi ekki gætt hagsmuna sóknaraðila með því að tryggja að fyrrum sambýliskona sóknaraðila greiddi sinn hluta af sameiginlegum skuldum, svo sem vegna viðgerða og kreditkortaskulda.
Sóknaraðili vísar til 2. gr. og 8. gr. siðareglna lögmanna. Hann dregur í efa lögmæti gjörninga sem leiddu til þess að sóknaraðili var krafinn um söluþóknun fyrir eign sem hann seldi ekki og óskar eftir úrskurði um hvort í þeim gjörningi hafi verið farið að lögum. Þá telur sóknaraðili að varnaraðila hafi verið óheimilt að neita að afhenda gögn sem óskað var eftir.
Sóknaraðili fer fram á að varnaraðila verði veitt áminning og gert að afturkalla síðari reikning sem hún gerði sóknaraðila vegna vinnu sinnar í þágu sóknaraðila. Sóknaraðili krefst þess jafnframt að varnaraðili endurgreiði 50% af þegar greiddri upphæð fyrir vinnu sína að máli sóknaraðila, ásamt framreikningi miðað við vísitölu frá greiðsludegi til endurgreiðsludags og greiðslu vaxta.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili afhendi öll skjöl sem varða málið, þar á meðal skjöl sem hún fékk í hendur á fundi með sóknaraðila, tölvupósta sem farið hafa á milli hennar og skiptastjóra, og öll önnur skjöl er málið varðar, þar með taldar fundargerðir skiptafunda.
Einnig gerir sóknaraðili þá kröfu að úrskurðað verði hvort það sé rétt hjá varnaraðila að fyrrum sambýliskona sóknaraðila hafi átt rétt á að hagnast á peningum sem hún lagði ekki fram við kaup á íbúð.
Faðir sóknaraðila gerir auk þess kröfu um miskabætur vegna vinnutaps sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna málsins.
Niðurstaða
I.
Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
II.
Á grundvelli valdsviðs nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. og 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, koma kröfur um að varnaraðili afhendi gögn, að nefndin úrskurði um hvort einstakar ályktanir varnaraðila í málinu hafi verið réttar, auk krafna um skaðabætur og miskabætur til handa sóknaraðila og/eða föður hans ekki til umfjöllunar og úrlausnar í málinu er þeim vísað frá nefndinni.
Af sömu ástæðu kemur ekki til þess að nefndin svari þeim spurningum sem sóknaraðili bar upp í viðbótargreinargerð sinni í málinu.
III.
Á meðal gagna málsins er tímaskýrsla varnaraðila vegna 14,5 klst. vinnu fyrir sóknaraðila á tímabilinu frá 7. nóvember 2023 til 23. febrúar 2024. Tímagjald varnaraðila er 30.000 kr. á klukkustund. Varnaraðili gaf út tvo reikninga vegna vinnu sinnar fyrir sóknaraðila. Fyrri reikningurinn var gefinn út þann 9. febrúar 2024 vegna 11,25 vinnustunda og var að fjárhæð 337.500 kr. auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar, 2.019 kr. Síðari reikningurinn var gefinn út þann 29. febrúar 2024 vegna 3,25 vinnustunda og var að fjárhæð 97.500 kr. auk virðisaukaskatts. Varnaraðili tilkynnti í tölvupósti 10. apríl 2024 að hún hefði lækkað reikninginn um helming, í kjölfar samtals við föður sóknaraðila.
Að mati nefndarinnar er umkrafið tímagjald, 30.000 kr. auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Jafnframt telur nefndin að fjöldi skráðra vinnustunda sé ekki úr hófi þegar litið er til þeirrar vinnu sem varnaraðili hefur gert grein fyrir í tímaskýrslu og vænta má í máli af því tagi sem um ræðir. Af því leiðir sú niðurstaða nefndarinnar að umkrafið endurgjald varnaraðila, að fjárhæð 386.250 kr., auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar, feli í sér hæfilegt endurgjald vegna vinnu hennar í þágu sóknaraðila.
III.
Með vísan til 16. gr. siðareglna lögmanna var varnaraðila heimilt að afhenda ekki gögn sem hún hafði undir höndum, þar til sóknaraðili hafði gert henni full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samkvæmt útgefnum reikningum. Gögn málsins bera ekki með sér að hald gagnanna hafi valdið sóknaraðila réttaspjöllum, sbr. 2. mgr. 16. gr.
Varnaraðili gaf út sundurliðaða reikninga vegna vinnu sinnar og afhenti tímaskýrslu þegar eftir henni var óskað, í samræmi við ákvæði 15. gr. siðareglna lögmanna.
Gögn málsins sýna að fjárhæðir í drögum að kauptilboði sem upphaflega var sent föður sóknaraðila þann 12. febrúar 2024 voru leiðréttar í drögum sem send voru þann 23. sama mánaðar. Gögn málsins bera jafnframt með sér að um var að ræða drög eða tillögu varnaraðila að því hvernig kauptilboð gæti litið út. Önnur atriði sem sóknaraðili hefur bent á því til stuðnings að drögin hafi verið ónothæf eru minniháttar og auðvelt að bæta úr við gerð endanlegs kauptilboðs.
Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á að varnaraðili hafi ekki gætt hagsmuna sóknaraðila af einurð eða hafi í störfum sínum farið að öðru leyti á svig við ákvæði siðareglna lögmanna eða laga. Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfum sóknaraðila um að varnaraðili afhendi gögn, að nefndin úrskurði um réttmæti einstakra ályktana varnaraðila og um að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila og/eða föður hans skaða- og miskabætur, er vísað frá nefndinni.
Umkrafið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, að fjárhæð 386.250 kr. auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar, felur í sér hæfilegt endurgjald.
Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Grímur Sigurðsson
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir