Mál 49/2024
Mál 49/2024
Ár 2025, fimmtudaginn 6. mars 2025, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A og B
gegn
C lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst, þann 13. september 2024, kvörtun sóknaraðila, [A] og [B], gegn varnaraðila, [C] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 4. október 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 4. október 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 28. október 2024 og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 12. október 2024. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns og tók varamaður sæti hans við meðferð málsins.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðilar leituðu til varnaraðila um að gæta hagsmuna sinna vegna kröfu erfingja í dánarbúi um að þau endurgreiddu tiltekna fjármuni, 5.500.000 kr. sem hinn látni hafði afhent þeim, til búsins. Ágreiningur var um hvort um lán hefði verið að ræða eða gjafagerning.
Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa tjáð þeim í upphafi að málið væri einfalt. Hann hafi lítið fjallað um kostnað sem af málinu gæti hlotist og ekki upplýst þau um áhættu af því að taka til varna í málinu. Þau hafi ekki fengið upplýsingar um vaxtakröfu gagnaðila eða að þeim gæti verið gert að greiða þeim málskostnað ef málið tapaðist. Sóknaraðilar hafi staðið í þeirri trú að fjárhagsleg áhætta þeirra vegna málsins sneri aðeins að þeirra eigin málskostnaði. Töldu þau að sá kostnaður yrði hófstilltur þar sem varnaraðili hafi sagt málið einfalt. Segjast sóknaraðila hafa gert ráð fyrir að kostnaður myndi kannski nema einni milljón króna en þau hafi enga áætlun fengið um heildarkostnað frá varnaraðila.
Sóknaraðilar segjast lítið hafa heyrt frá varnaraðila undir rekstri málsins. Hann hafi svarað tölvupóstum illa og ráðfært sig lítið við þau. Hann hafi hitt þau á fundi kvöldið fyrir aðalmeðferð málsins og þeim litist vel á málatilbúnaðinn eins og hann hafi verið kynntur á þeim fundi. Við aðalmeðferðina hafi varnaraðili hins vegar virkað illa undirbúinn, spurt fárra spurninga, flutt máttlausa ræðu sem hafi virst skorta fræðilegan rökstuðning. Þetta telja sóknaraðilar furðulegt í ljósi þess fjölda vinnustunda sem samkvæmt tímaskýrslu hafi farið í skoðun fræðirita.
Sóknaraðilar töpuðu málinu í héraðsdómi og var gert að endurgreiða áðurnefnda fjárhæð auk vaxta að fjárhæð u.þ.b. 2.000.000 kr. og lögmannskostnaðar gagnaðila, einnig að fjárhæð 2.000.000 kr. Eftir að niðurstaða dómsins lá fyrir segjast sóknaraðilar hafa spurt varnaraðila út í þennan mikla kostnað, enda hafi þau aldrei áttað sig á því að slíkur kostnaður gæti komið til. Þau hafi ekki skilið nákvæmlega hvað niðurstaða dómsins fól í sér.
Í kjölfar dómsins hafi varnaraðili sent sóknaraðilum tímaskýrslu sína og kynnt þeim að tímagjald hans hefði hækkað úr 26.900 kr. í 32.900 kr. auk virðisaukaskatts. Þetta hafi valdið sóknaraðilum miklum kvíða og átt erfitt með að trúa því að þau ættu að skila fjármununum sem þau segja hafa verið gjöf til sín, og að auki greiða hærri fjárhæð í vexti og málskostnað, bæði sinn eigin og gagnaðila.
Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa upplýst þau um áfrýjunarfrest og þau loks ákveðið, daginn sem fresturinn leið, að áfrýja málinu. Þau hafi hins vegar hætt við að vilja áfrýja málinu af ótta við að frekari kostnaður félli á þau. Í kjölfarið hafi varnaraðili gefið út einn heildarreikning, dags. 24. maí 2024, að fjárhæð 3.477.932 kr. vegna 129,75 klst. vinnu og útlagðs kostnaðar að fjárhæð 141.595 kr. Sóknaraðilar gera ekki athugasemd við útlagðan kostnað en telja kostnað vegna vinnu varnaraðila allt of háan. Hann sé í ósamræmi við þá vinnu sem varnaraðili hafi lagt í málið og þá vinnu sem sóknaraðilar hafi mátt vænta að hann legði í málið. Einnig telja þau óásættanlegt að tímagjald hafi verið hækkað án þess að þeim hafi verið tilkynnt um það.
Sóknaraðilar benda á að varnaraðili hafi ekki gefið út reikninga undir rekstri málsins og því hafi þau ekki haft neina hugmynd um uppsafnaðan tímafjölda eða verðhækkanir fyrr en einn heildar reikningur barst þeim, tveimur árum eftir að vinnan hófst. Sóknaraðilum hafi ekki órað fyrir að kostnaðurinn yrði svo mikill og telja vinnuframlag varnaraðila ekki endurspegla svo mikla vinnu. Sóknaraðilar telja flestar eða allar skráningar í tímaskýrslu og háar og benda á einstakar tímaskráningar sem dæmi um það. Þau nefna sem dæmi að vegna fyrirtaka séu skráðar 1-4 klst. með viðbótarverkum.
Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa átt fá og stutt samskipti við þau allan tímann sem hann gætti hagsmuna þeirra og símtöl hafi sjaldan, ef nokkurn tímann, farið yfir 10 mínútur. Vegna ritunar greinargerða séu skráðar 30,25 klst. og mikill hluti þess vegna skoðunar á gögnum og fræðaskrifum. Sóknaraðilar hafi ekki fengið greinargerðina senda svo þau viti ekki hversu umfangsmikil hún er. Auk þess skrái varnaraðili vinnu vegna skoðun fræða fyrir alla málflutninga og undirbúningstími fyrir tvo málflutninga í málinu séu samkvæmt tímaskýrslu 50,75 klst. Loks séu skráðar 11,5 klst. vegna ritunar áfrýjunarstefnu og samskipti en engin tímaskýrsla liggi fyrir vegna þeirrar vinnu. Þar sem sóknaraðilar hafi tekið ákvörðun um áfrýjun á síðasta degi áfrýjunarfrests geti svo mikill tími ekki hafi farið í hana.
Samkvæmt reikningi var sóknaraðilum veittur 35,74% afsláttur af vinnu varnaraðila við málið í héraðsdómi. Þrátt fyrir það telja sóknaraðilar að reikninginn verulega úr hófi hvað þá vinnu varðar og enn meira þegar kemur að vinnu vegna áfrýjunar. Sóknaraðilar sætti sig ekki við að greiða 20% hærra tímagjald en um hafði verið samið í upphafi og telja að varnaraðila hafi borið að kynna þeim hækkunina þegar hún átti sér stað.
Sóknaraðilar gera þá kröfu að úrskurðarnefnd leggi mat á hæfilegt endurgjald fyrir störf varnaraðila, bæði hvað varðar tímagjald og tímafjölda.
II.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni vegna óskýrleika en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Varnaraðili bendir á tengsl málsins við mál nr. 38/2024.
Varnaraðili rakti málsatvik. Mál sóknaraðila hafi farið tvisvar fyrir dómstóla, fyrst hafi sóknaraðilum verið stefnt í nafni dánarbúsins, á meðan það var undir einkaskiptum. Það mál hafi snerist að stórum hluta um formskilyrði, fyrirsvar og lög um dánarbússkipti, umboðsmennsku o.fl. og hafi á endanum verið vísað frá og lögmanni erfingja gert að greiða málskostnað. Seinna málið hafi verið höfðað undir opinberum skiptum dánarbúsins og farið svo að sóknaraðilum hafi verið gert að endurgreiða búinu umræddar 5,5 milljónir kr. að viðbættum vöxtum og málskostnaði. Varnaraðili kveðst hafa ráðlagt sóknaraðilum eindregið að áfrýja málinu.
Í kjölfar þess að málið tapaðist í héraðsdómi segir varnaraðili samskipti við sóknaraðila hafa breyst mikið. Þau hafi m.a. sett úr á málflutningsræðu hans við aðalmeðferð málsins sem hann telji sérstakt í ljósi þess að þau hafi ekki setið málflutninginn. Lýsingar sóknaraðila á máttlausri ræðu og litlum fræðilegum rökstuðningi sé einnig sérstakt þar sem öll samskipti varnaraðila við sóknaraðila hafi farið fram á ensku og skýrslutökur við aðalmeðferð farið fram með aðstoð dómtúlks.
Varnaraðili hafnar því að breyta reikningnum, hann byggi á ítarlegri tímaskýrslu og þegar hafi verið veittur veglegur afsláttur í málinu. Við ákvörðun um að veita afslátt hafi verið litið til heildarhagsmuna málsins, niðurstöðu þess og hækkunar tímagjalds á þeim tíma sem vinnan stóð yfir.
Varnaraðili gerði nánari grein fyrir einstökum skráningum í tímaskýrslu sem sóknaraðilar vísuðu til í kvörtun. Hann hafnar því að hafa unnið of mikið í málinu og segir tímaskýrslu endurspegla þá vinnu sem var unnin. Varnaraðili kveðst hafa tjáð sóknaraðilum að hann teldi niðurstöðu héraðsdóms ranga og farið yfir forsendur dómsins og möguleika um áfrýjun ítarlega við sóknaraðilann [A] sem hafi skilið vel það sem um hafi verið rætt. Í tölvupóstsamskiptum í kjölfarið hafi sóknaraðilinn ekki þóst skilja það sem rætt hafi verið um í síma, einkum varðandi niðurstöðu dómsins um vexti. Eftir ítrekaðar tilraunir varnaraðila til að fá fram afstöðu sóknaraðila til áfrýjunar og augljósa viðhorfsbreytingu þeirra til hans eftir niðurstöðu héraðsdóms hafi runnið á hann tvær grímur. Þó svo að allt hafi bent til þess að sóknaraðilar ætluðu sér ekki að áfrýja málinu hafi varnaraðili, til að gæta ítrustu hagsmuna þeirra, útbúið áfrýjunarstefnu þar sem hann hafi ekki viljað lenda í þeirri stöðu að hafa ekki tíma til að gera slíkt ef beiðni um áfrýjun kæmi seint fram. Það hafi reynst ágætt þar sem sóknaraðilar hafi óskað eftir áfrýjun á síðasta degi og varnaraðili getað sent áfrýjunarstefnu samdægurs til Landsréttar. Síðar hafi sóknaraðilar hætt við áfrýjun og ekki viljað hitta varnaraðila á fundi eins og hann hafi óskað eftir.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðilar hafi fengið álit annars lögmanns strax í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms.
Varnaraðili hafnar því að hafa fullvissað sóknaraðila um að málið væri einfaldlega unnið. Þau hafi verið eins vel upplýst um hægt var um gang málsins og gerð grein fyrir því að þeim gæti verið gert að greiða gagnaðila málskostnað ef málið tapaðist. Varnaraðili kveðst hafa unnið af heilindum fyrir sóknaraðila í tvö og hálft ár og lagt út kostnað vegna málsins án þess að hafa fengið hann endurgreiddan.
III.
Sóknaraðilar árétta að ekki sé ágreiningur um að varnaraðili eigi rétt á endurgjaldi fyrir sín störf, en telja umkrafið endurgjald verulega úr hófi. Sóknaraðilar telja skýringar varnaraðila á einstökum skráningum í tímaskýrslu ekki duga til að réttlæta fjölda vinnustunda sem skráðar hafi verið í þeim tilfellum. Jafnframt benda þau á fleiri skráningar í tímaskýrslu þar sem skráður fjöldi vinnustunda sé úr hófi að þeirra mati. Þá telja þau tímaskýrslu lögmannsins alla vera af svipuðum meiði, þar sem skráður tímafjöldi virðist hár hverju sinni miðað við umfang einstakra verkþátta.
Sóknaraðilar telja að málið hafi verið fremur einfalt. Í ljósi fjölda vinnustunda sem varnaraðili hafi skráð vegna fræðilegs undirbúnings óska þau eftir því að hann leggi fram afrit af greinargerð sinni í máli þeirra, sem og áfrýjunarstefnu svo nefndin geti lagt mat á hana. Sóknaraðilar hafi hvorugt skjalið séð.
Jafnframt telja sóknaraðilar varnaraðila ekki hafa svarað því hvernig réttlæta megi 22,5% hækkun tímagjalds á tímabilinu, án þess að sóknaraðilum hafi verið tilkynnt um það.
Hvað aðalmeðferð málsins varðar benda sóknaraðilar á að þau hafi gefið skýrslu fyrir dómi. Þau segja varnaraðila hafa spurt sig fárra spurninga og ekki fylgt því sem lagt hafi verið upp með daginn áður og verið stöðvaður af dómara fyrir að spyrja spurninga sem ekki hefðu þýðingu við ágreiningsefni málsins. Frammistaða hans við skýrslutökur hafi valdið þeim vonbrigðum og þau yfirgefið dómssalinn í kjölfarið. Þau hafi síðar fengið álit á málflutningi varnaraðila frá fólki sem hafi verið viðstatt.
Sóknaraðilar ítreka að þau hafi aldrei fengið upplýsingar um að annar kostnaður gæti fallið á þau fyrr en eftir að aðalmeðferð fór fram í málinu. Þá hafi þau á engu stigi málsins fengið nokkrar upplýsingar um áfallinn kostnað af vinnu lögmannsins.
Sóknaraðilar taka undir að viðhorf þeirra til varnaraðila hafi breyst í kjölfar dóms héraðsdóms enda hafi þau verið fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna. Þá hafi þau fyrst fengið upplýsingar um hvað þau þyrftu að greiða gagnaðila vegna málsins og um kostnað vegna vinnu varnaraðila, sem hafi verið fimmfaldur á við það sem þau hafi átt von á. Samskipti við varnaraðila hafi haft mikil áhrif á ákvörðun þeirra um að falla frá áfrýjun málsins.
Sóknaraðilar hafna því að hafa reynt að komast undan greiðsluskyldu gagnvart varnaraðila. Þau hafi þegar gert upp við gagnaðila og lögmann þeirra að fullu og greitt vegna þess um tíu milljónir króna. Eftir standi reikningur varnaraðila sem þau óski endurskoðunar nefndarinnar á.
IV.
Varnaraðili vísar til greinargerðar sinnar og áréttar að sóknaraðilar hafi verið upplýst um alla þætti málsins og vitað nákvæmlega um hvað málið snerist og hvaða afleiðingar það hefði ef málið tapaðist. Varnaraðili hafi útskýrt fyrir þeim að þeim gæti verið gert að greiða vexti á kröfu gagnaðila. Hann hafi allan tímann sem hann hafi haft málið á sinni könnu, reynt eftir fremsta megni að setja eins lítinn tíma í málið og mögulegt hafi verið miðað við umfang þess. Ákvörðun um að bíða með reikningsgerð þar til að málinu loknu hafi verið tekin með hagsmuni sóknaraðila í huga. Þeim hafi verið kynnt tímagjald í upphafi og sagt að það kynni að hækka á þeim tíma sem málið yrði til meðferðar. Þá ítrekar varnaraðili að verulegur afsláttur hafi verið veittur af reikningi hans og þau sjónarmið sem þar hafi legið að baki.
Niðurstaða
I.
Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Að mati nefndarinnar eru engar forsendur til að vísa máli þessu fá nefndinni og er kröfu varnaraðila þar að lútandi hafnað.
II.
Ágreiningur í máli þessu lítur að hæfilegu endurgjaldi varnaraðila fyrir störf hans í þágu sóknaraðila. Í málinu liggur fyrir tímaskýrsla varnaraðila sem nær frá 17. desember 2021 til 15. mars 2024. Skráðar vinnustundir samkvæmt tímaskýrslu eru 118,25 talsins. Reikningur varnaraðila, dags. 24. maí 2024, er að fjárhæð 3.477.932 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Hann sundurliðast þannig:
Vinna lögmanns, 118,25 klst., á tímagjaldinu 32.900 kr. með 35,74% afslætti, 2.500.000 kr. auk vsk.
Vinna lögmanns vegna áfrýjunar, 11,5 klst., á tímagjaldinu 32.900 kr., 378.350 kr. auk vsk.
Útlagður kostnaður vegna túlks, mætinga og áfrýjunarstefnu, samtals 141.595 kr. auk vsk.
Frádráttur vegna málskostnaðar sem greiddur var af gagnaðila, 201.613 kr. auk vsk.
Samtals nemur umkrafið endurgjald varnaraðila því 2.676.737 kr. auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar.
Niðurstaða í máli sóknaraðila er í samræmi við dómafordæmi í sambærilegum málum. Því mátti varnaraðila vera ljóst frá upphafi að áhættusamt væri að taka til varna í málinu. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður leitast við að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir hver kostnaður af máli gæti orðið í heild sinni og vekja athygli hans ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni sem í húfi eru. Í ljósi þeirrar áhættu sem var til staðar í máli sóknaraðila hvíldi á varnaraðila rík skylda til að upplýsa sóknaraðila í upphafi um hver kostnaður af málinu gæti orðið og halda þeim upplýstum um áfallinn kostnað eftir því sem málinu vatt fram. Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi upplýst sóknaraðila um kostnað vegna vinnu hans í máli þeirra með tölvupósti 19. mars 2024, eftir að sóknaraðilar höfðu óskað eftir því með tölvupósti þann 15. mars s.á. að fá sendan sundurliðaðan reikning vegna vinnunnar. Jafnframt hafi þeim þá verið tilkynnt um hækkun sem hafði orðið á tímagjaldi lögmannsins á meðan á vinnunni stóð.
Í ljósi þeirrar áhættu sem fólst í því að taka til varna í málinu, hvíldi jafnframt rík skylda á varnaraðila til þess að tryggja að málið væri unnið með hæfilegum tilkostnaði.
Í málinu liggja fyrir samskipti varnaraðila við dómara málsins og lögmann gagnaðila dagana 3. til 16. október 2023. Að mati nefndarinnar kemur skráning í tímaskýrslu varnaraðila dagana 4. og 16. október s.á. illa heim og saman við það sem þar kemur fram. Nefndin telur rétt að leggja það til grundvallar sem fram kom í samskiptum varnaraðila við dómara og lögmann gagnaðila á fyrrgreindu tímabili.
Í ljósi alls framangreinds telur nefndin umkrafið endurgjald varnaraðila hafa farið fram úr því sem hæfilegt geti talist, sbr. 24. gr. lögmannalaga og 10. gr. siðareglna lögmanna. Er því ekki hægt að styðjast alfarið við fyrirliggjandi tímaskýrslu enda varð umfang málsins meira en til mátti ætlast og skráning vinnustunda á sér ekki að öllu leyti stoð í gögnum málsins. Jafnframt bera gögn málsins ekki með sér að varnaraðili hafi gætt þeirrar skyldu sinnar að gera sóknaraðilum grein fyrir hver kostnaður af málinu gæti orðið í upphafi og halda þeim upplýstum um áfallinn kostnað eftir því sem málinu vatt fram. Af því leiðir sú niðurstaða nefndarinnar að umkrafið endurgjald varnaraðila sæti lækkun. Að mati nefndarinnar telst hæfileg fjárhæð endurgjalds varnaraðila vera 2.000.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Hefur þá ekki verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar að fjárhæð 175.578 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá nefndinni er hafnað.
Umkrafið endurgjald varnaraðila, [C] lögmanns, vegna vinnu fyrir sóknaraðila, [A] og [B], sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 2.000.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Grímur Sigurðsson
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir