Mál 50/2024
Mál 50/2024
Ár 2025, fimmtudaginn 6. mars 2025, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst, þann 24. september 2024, kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 18. október 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 26. og 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 5. desember 2024. Sóknaraðila var gefinn kostur á að leggja fram viðbótargreinargerð en ekki kom til þess að hún væri lögð fram. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðili, sem fékk alþjóðlega vernd á Íslandi árið 2021 réð varnaraðila, til að aðstoða sig við að fá dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar fyrir konu sína og dóttur. Sóknaraðili segir að í átta mánuði hafi varnaraðili átt að vinna að þessu máli, en hann hafi ekki sent inn umsóknir fyrir fjölskyldu sóknaraðila til Útlendingastofnunar. Sóknaraðili kveðst ítrekað hafa reynt að hafa samband við varnaraðila en fengið svör um að hann væri upptekinn eða ekki til staðar. Að lokum, eftir átta mánuði, hafi varnaraðili sagst ekki hafa tíma til að sinna umsóknunum og vísað sóknaraðila á vin sinn. Sóknaraðili kveðst hafa greitt varnaraðila 150.000 kr. fyrir vinnu sem hann telur að hafi ekki verið innt af hendi.
Sóknaraðili krefst þess að nefndin taki málið til umfjöllunar og beiti þeim viðurlögum sem henni eru tiltæk. Hann óskar einnig eftir að varnaraðila verði gert að endurgreiða honum 150.000 kr., ásamt vöxtum frá greiðsludegi og dráttarvöxtum frá kröfudegi.
II.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að hann hafi afhent öðrum lögmanni mál sóknaraðila um mánaðamótin janúar/febrúar 2024 vegna annarra verkefna. Hann leggur fram tölvupóstsamskipti við Útlendingastofnun og sóknaraðila vegna málsins ásamt öðrum gögnum málsins. Í málinu liggja einnig fyrir tvö umboð sóknaraðila til varnaraðila, annars vegar dagsett 2. júní 2023 og hins vegar dags. 12. desember 2023. Jafnframt liggur fyrir tölvupóstur […] lögmanns frá 5. desember 2024. Þar kemur fram að […] hafi haft samband við sóknaraðila með tölvupósti í febrúar vegna málsins. Sóknaraðili hafi svo hringt í hann í mars eða apríl og þeir ákveðið að hittast á fundi nokkrum dögum síðar. Sóknaraðili hafi ekki mætt til fundarins en […] sent honum tvo tölvupósta í kjölfarið sem sóknaraðili hafi ekki sinnt. Í júní 2024 hafi sóknaraðili komið á skrifstofu […] og sótt gögn málsins.
Niðurstaða
I.
Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
II.
Mál þetta varðar ágreining um áskilið endurgjald varnaraðila en sóknaraðili greiddi honum 150.000 kr. vegna dvalarleyfismáls. Samkvæmt millifærslukvittunum sem liggja fyrir í málinu greiddi sóknaraðili fyrst 100.000 kr. til varnaraðila þann 2. júní 2023 og svo 50.000 kr. til viðbótar þann 19. júlí 2023. Sóknaraðili telur varnaraðila ekki hafa innt þá vinnu af hendi sem um hafi verið samið.
Í málinu liggja fyrir afrit af tölvupóstsamskiptum varnaraðila við Útlendingastofnun vegna málsins, þau fyrstu frá 8. júní 2023 og þau síðustu 24. janúar 2024. Einnig liggja fyrir tölvupóstsamskipti varnaraðila við sóknaraðila þar sem fram kemur að þann 19. febrúar 2024 hafi varnaraðili falið öðrum lögmanni að ljúka málinu þar sem hann gæti ekki sinnt því vegna annarra verkefna. Jafnframt hefur varnaraðili lagt fram tímaskýrslu sem tekur til tímabilsins frá 2. júní 2023 til 12. desember 2023. Tímaskýrslan telur samtals 4,75 vinnustundir á tímabilinu. Fram kemur að tímagjald varnaraðila sé 36.000 kr. auk virðisaukaskatts en veittur hafi verið afsláttur og rukkað tímagjald verið 27.000 kr. auk virðisaukaskatts. Samtals nemi kostnaður vegna vinnu varnaraðila því 159.030 kr. með virðisaukaskatti.
Skráningar í tímaskýrslu varnaraðila eiga sér stoð í gögnum málsins. Að mati nefndarinnar er áskilið tímagjald varnaraðila, 27.000 kr. auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Að sama skapi telur nefndin fjölda vinnustunda sem varnaraðili gerir grein fyrir í tímaskýrslu ekki úr hófi miðað við gögn málsins og það sem við má búast í slíku máli. Af því leiðir að umkrafið endurgjald varnaraðila, að fjárhæð 150.000 kr. með virðisaukaskatti, felur í sér hæfilegt endurgjald.
II.
Gögn málsins styðja ekki frásögn sóknaraðila af málsatvikum. Hvorki hvað varðar það að varnaraðili hafi ekki innt þá vinnu af hendi sem samið hafi verið um, né að sóknaraðili hafi ítrekað reynt að ná sambandi við varnaraðila en ekki verið svarað. Gögn málsins bera með sér að þegar varnaraðila hafi orðið ljóst að hann gæti ekki sinnt máli sóknaraðila vegna anna hafi hann sagt sig frá málinu og komið því í hendur annars lögmanns og upplýst sóknaraðila um það. Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Umkrafið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, að fjárhæð 150.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, felur í sér hæfilegt endurgjald.
Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir