Mál 51/2024
Mál 51/2024
Ár 2025, fimmtudaginn 6. mars 2025, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst, þann 1. október 2024, kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 18. október 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 26. og 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 8. nóvember 2024. Sóknaraðila var gefinn kostur á að skila viðbótargreinargerð með bréfi, dags. 12. nóvember 2024, sem var ítrekað með tölvupósti án þess að viðbótargreinargerð bærist. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðili lýsir málavöxtum þannig að varnaraðili hafi gætt hagsmuna fyrir hann í innheimtumáli sem hann hafi höfðað. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Suðurlands […] hafi stefndi verið dæmdur til að greiða sóknaraðila 397.280 kr. ásamt dráttarvöxtum og 700.000 kr. í málskostnað.
Sóknaraðili segir varnaraðila hafa tekið höfuðstól kröfunnar ásamt vöxtum, samtals 548.943 kr., og dæmdan málskostnað, 700.000 kr. auk virðisaukaskatts, alls 1.416.943 kr., upp í málskostnað. Varnaraðili hafi ekki skilað kvittun en gefið út reikning að fjárhæð 1.789.320 kr. og afskrifað eftirstöðvar málskostnaðar. Sóknaraðili telur þetta óeðlileg málalok og beinir kvörtun til nefndarinnar vegna þessa.
II.
Varnaraðili gerði nánari grein fyrir málsatvikum og rekstri málsins fyrir héraðsdómi. Kveðst hann hafa útskýrt vel fyrir sóknaraðila að staðan væri erfið þegar höfuðstóll kröfu væri ekki hár og leggja þyrfti í vinnu vegna dómkvadds mats og fara í fulla aðalmeðferð með skýrslutökum. Oft væri það þannig að málskostnaður væri dæmdur lægri en samkvæmt tímaskýrslu lögmanns. Eigi að vinna málið skipti í raun ekki máli hvort höfuðstóll kröfunnar sé 350.000 kr. eða 3.500.000 kr., vinna lögmannsins sé sambærileg. Sóknaraðili hafi verið mjög skýr um að málið væri „prinsippmál“ og að hann vildi ekki að stefndi kæmist upp með að koma fram við sig með þeim hætti sem hann hefði gert.
Varnaraðili segir reikning hafa verið gefinn út þann 8. júlí 2024 eftir að stefndi hefði greitt í samræmi við dómsniðurstöðu. Reikningur ásamt tímaskýrslu hafi þá verið sendur til sóknaraðila og afsláttur veittur af málskostnaði þannig að sóknaraðila hafi ekki verið gert að greiða umfram það sem fékkst greitt frá stefnda. Varnaraðili kveðst hafa upplýst sóknaraðila um stöðuna símleiðis og að kostnaður vegna vinnu sinnar væri umtalsvert hærri en dæmdur málskostnaður. Vegna þessa yrði veittur afsláttur af vinnu sinni sem næmi því sem á milli bar. Sóknaraðili hafi virst sáttur við þá niðurstöðu.
Þann 16. september 2024 hafi sóknaraðili sent póst og haldið því fram að honum hafi ekki borist reikningur. Varnaraðili hafi látið starfsmann í bókhaldi vita og óskað eftir að gögnin yrðu send sóknaraðila. Það næsta sem varnaraðili hafi heyrt af málinu hafi verið þegar honum barst bréf frá nefndinni vegna kvörtunar sóknaraðila. Hann hafi af því tilefni sent sóknaraðila póst þann 21. október sl. þar sem reikningurinn og tímaskýrsla hafi fylgt með. Sóknaraðili hafi ekki svarað þeim pósti eða símtölum varnaraðila í kjölfarið.
Varnaraðili leggur fram tímaskýrslu vegna málsins. Um sé að ræða 44,4 vinnustundir á þeim 18 mánuðum sem rekstur málsins hafi staðið yfir. Tímagjald við útgáfu reiknings hafi verið 34.100 kr. en við útgáfu reiknings hafi verið miðað við eldra tímagjald, 32.500 kr. Varnaraðili telur tímaskráningu í málinu hóflega, sérstaklega þegar litið sé til þess að dómkvaddur hafi verið matsmaður, matsfundur haldinn og skýrsla tekin af matsmanni fyrir dómi í tvígang. Fyrirtökur í málinu hafi verið 14 talsins, þar af aðalmeðferð þar sem aðilaskýrslur hafi verið gefnar og málið flutt.
Varnaraðili bendir á að reikningur og tímaskýrsla hafi verið send sóknaraðila með hefðbundnum hætti við útgáfu reikningsins og endursent þann 21. október 2024, eftir að ljóst varð að fyrri sending hefði misfarist.
Varnaraðili telur áskilda þóknun vegna vinnu í þágu sóknaraðila, að fjárhæð 1.416.943 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, hæfilega í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og krefst þess að áskilin þóknun verði metin hæfilegt endurgjald, auk þess að úrskurðað verði að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila í störfum sínum fyrir hann.
Niðurstaða
I.
Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
II.
Í kvörtun kemur fram að hún varði ágreining um endurgjald varnaraðila án þess að þar sé tiltekið að hvaða leyti sóknaraðili telur þóknun varnaraðila of háa. Ekki er tiltekið í kvörtun að hún lúti að háttsemi varnaraðila en efni hennar gefur það þó til kynna, þar sem sóknaraðili víkur að því að varnaraðili hafi ekki gefið út reikning vegna vinnu sinnar.
Að mati nefndarinnar er tímagjald varnaraðila, að fjárhæð 32.500 kr. auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Í málinu liggur fyrir greinargóð tímaskýrsla varnaraðila sem telur samtals 44,4 vinnustundir. Að mati nefndarinnar er sá fjöldi ekki úr hófi þegar litið er til þeirrar vinnu sem varnaraðili innti af hendi í málinu og fjölda fyrirtaka í málinu fyrir dómi. Sóknaraðili hefur ekki mótmælt því sem fram kom hjá varnaraðila um að málið væri prinsippmál og ekki víst að það borgaði sig að fara í málið. Fyrir liggur að varnaraðili veitti sóknaraðila afslátt af málskostnaði að fjárhæð 300.304 kr. auk virðisaukaskatts. Með hliðsjón af gögnum málsins telur nefndin að umkrafið endurgjald varnaraðila, að fjárhæð 1.416.943 kr. með virðisaukaskatti, sé ekki úr hófi miðað við þá vinnu sem varnaraðili innti af hendi fyrir sóknaraðila og það sem við má búast í málum af þessu tagi.
Kvörtun laut sem áður segir einnig að því að varnaraðili hefði ekki gefið út reikning vegna vinnu sinnar, sem sóknaraðili gæti notað í bókhaldi sínu. Meðal gagna málsins er reikningur, dags. 8. júlí 2024. Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi upplýst sóknaraðila um uppgjör málskostnaðar í tölvupósti þann 9. júní 2024. Þann 16. september 2024 hafi sóknaraðili haft samband með tölvupósti og óskað eftir að fá sendan reikning vegna málskostnaðar. Í tölvupósti 21. október 2024, í kjölfar þess að sóknaraðili beindi kvörtun til nefndarinnar, svaraði varnaraðili tölvupósti sóknaraðila frá 16. september og sagðist hafa talið að reikningurinn hefði verið sendur til hans en það virðist ekki hafa gengið eftir. Með póstinum fylgdi reikningur og tímaskýrsla varnaraðila vegna málsins.
Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili uppfyllt skyldu skv. 15. gr. siðareglna lögmanna um útgáfu reiknings. Af því leiðir sú niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Umkrafið endurgjald varnaraðila, [B] lögmanns, að fjárhæð 1.416.943 kr., felur í sér hæfilegt endurgjald.
Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir