Mál 56/2024

Mál 56/2024

Ár 2025, fimmtudaginn 6. mars 2025, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið málið:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst, þann 13. nóvember 2024, kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 29. nóvember 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefnd­­inni ásamt fylgiskjölum þann 19. desember 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefnd­­inni ásamt gögnum þann 10. janúar 2025 og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 19. febrúar 2025. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Kvörtun lýtur að tvenns konar háttsemi varnaraðila. Annars vegar telur sóknaraðili að hann hafi gerst brotlegur við ákvæði laga nr. 95/2008 um innheimtu, sérstaklega III. kafla laganna. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi ekki fylgt góðum innheimtuháttum með því að senda ekki innheimtuviðvörun eða setja kröfuna í heimabanka, þrátt fyrir að samkomulags­viðræður hafi verið í gangi. Einnig hafi fjárnámsbeiðni verið send án viðvörunar. Því hafi varnaraðili ekki gætt góðra innheimtuhátta og engin sönnun sé fyrir því að greiðsluáskoranir hafi borist sóknaraðila. Sóknaraðili telur innheimtuaðgerðir varnaraðila hafa valdið óþarfa tjóni og óþægindum.

Hins vegar varðar kvörtun hagsmunaárekstur sem sóknaraðili telur að hafi verið fyrir hendi í héraðsdómsmáli nr. E-[...] þar sem varnaraðili gætti hagsmuna meirihluta stjórnar einkahlutafélags auk þess sem hann hafi tekið að sér að gæta hagsmuna í máli sem snerti hagsmuna sóknaraðilans sem hluthafa í sama félagi. Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili gæti ekki hagsmuna félagsins heldur aðeins meirihluta stjórnar og telur það valda hagsmunaárekstrum þar sem hagsmunir sóknaraðila samrýmist ekki hagsmunum meirihluta stjórnar. Sóknaraðili vísar til 22. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og 11. gr. siðareglna lögmanna.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði áminntur fyrir brot á innheimtulögum og siðareglum og að honum verði gert að greiða sóknaraðila umsýslubætur.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili segi sig frá máli E-[...] vegna hagsmunaárekstra.

II.

Varnaraðili lýsir málsatvikum með þeim hætti að sóknaraðili hafi höfðað mál í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. febrúar 2024 (mál E-[...]) gegn fjórum einstaklingum. Í málinu hafi hann krafist hann miska- og skaðabóta að fjárhæð 6.624.622 krónur vegna meintra brota á friðhelgi og æru hans. Varnaraðili hafi tekið að sér að gæta hagsmuna þriggja stefndu. Sóknaraðili hafi síðar fellt málið niður gagnvart einum stefndu en fjárkröfum hans á hendur tveimur stefndu verið vísað frá dómi. Sóknaraðili hafi kært frávísun málanna til Landsréttar, þar sem frávísunin hafi verið staðfest. Sóknaraðila hafi verið dæmdur til að greiða málskostnað, bæði fyrir héraðsdómi og Landsrétti, 150.000 kr. til tveggja stefndu hvorra um sig samkvæmt úrskurði héraðsdóms og 250.000 kr. til tveggja stefndu hvorra um sig samkvæmt úrskurði landsréttar.

Þar sem sóknaraðili hafi vanrækt að greiða kröfurnar hafi umbjóðendur varnaraðila verið nauðbeygðir til að grípa til innheimtuaðgerða. Innheimtan hafi farið fram í samræmi við lög og góða lögmannshætti. Sóknaraðila hafi verið boðið að greiða aðeins höfuðstól kröfunnar án kostnaðar en hann aðeins nýtt sér það að hluta og greitt upp kröfur sem byggðu á úrskurðum héraðsdóms en ekki þær sem byggðu á úrskurði Landsréttar.

Auk þess hafi sóknaraðili höfðað annað mál í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem hann krafðist þess að [...] ehf. greiddi honum verklaun samkvæmt útgefnum reikningum. Varnaraðili hafi tekið að sér að gæta hagsmuna [...] ehf. í því máli. Málinu hafi lokið með réttarsátt þar sem sóknaraðili hafi fallið frá langmestum hluta krafna sinna, en um 16% af dómkröfunni hafi verið greidd með skuldajöfnuði við kröfur félagsins á hendur málshefjanda.

Varnaraðili mótmælir því að hagsmunaárekstur hafi verið fyrir hendi og telur sóknaraðila rugla sama persónulegum hagsmunum sínum og hagsmunum félagsins [...] ehf. Varnaraðili hafi gætt hagsmuna ólíkra aðila í ólíkum málum, sem ekki stangist á. Engin atvik hafi verið fyrir hendi sem hafi staðið í vegi fyrir því að varnaraðili gætti hagsmuna [...] ehf. í málinu af einurð.

Varnaraðili krefst þess að kvörtun málshefjanda verði hafnað og að staðfest verði að hann hafi ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Hann gerir einnig kröfu um að sóknaraðili greiði honum hæfilega ómaksþóknun eða kostnað samkvæmt mati nefndarinnar.

III.

Sóknaraðili heldur því fram að allar dómkröfur hafi verið greiddar áður en farið hafi verið fram á fjárnám. Hann bendir á að engin gögn séu til staðar sem sanni að innheimta greiðsluáskoranir hafi borist honum á lögformlegan hátt. Hann bendir á að umræddur málskostnaður tengist aðeins máli E-[...], sem sé enn ólokið, og að fjárnámsbeiðnin hafi valdið óþarfa tjóni og óþægindum, þar sem sáttaumleitanir hafi verið í gangi á þeim tíma. Sóknaraðili gagnrýnir einnig að innheimtuþóknun lögmannsins sé í ósamræmi við reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar.

Sóknaraðili áréttar að varnaraðili hafi tekið að sér að verja hagsmuni tveggja skjólstæðinga með mögulegum hagsmunaárekstrum, þar sem hann er lögmaður bæði fyrir kæranda í máli E-[...] og fyrir einkahlutafélagið sem er andstæðingur kæranda í öðru máli.

Sóknaraðili segir varnaraðila ekki hafa lagt fram gögn sem skýra áætlaðan kostnað og að verkbeiðnir séu óljósar, sem sé í andstöðu við 24. gr. laga um lögmenn.

Sóknaraðili leggur áherslu á að hann hafi verndarhagsmuni að gæta og að varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að innheimta hans hafi verið lögum samkvæmt. Hann krefst þess að kröfur hans um umsýslubætur og aðrar kröfur verði teknar til greina.

IV.

Varnaraðili mótmælir yfirlýsingum sóknaraðila um að fjárnámsgerðir hafi verið ólögmætar. Fjárnámsgerðirnar, sem fram fóru 22. október 2024, hafi verið vegna málskostnaðar sem varnaraðila hafi verið gert að greiða með úrskurði Landsréttar […]. Um sé að ræða málskostnað sem stafi annars vegar af frávísun krafna sóknaraðila fyrir héraðsdómi og hins vegar kærumálskostnaði vegna kæru sóknaraðila til Landsréttar. Þær kröfur séu endanlegar og komi ekki til endurskoðunar. Varnaraðili segir rangt að kröfurnar hafi verið að fullu greiddar þegar fjárnámið var gert. Varnaraðili hafi greitt 250 þúsund krónur sama dag og 250 þúsund krónur daginn eftir. Jafnframt bendir varnaraðili á að innheimtubréf hafi verið send á skráð lögheimili sóknaraðila og greiðsluáskorun með stefnuvotti, sem fullnægi kröfum sem gerðar séu í 7. gr. laga nr.

Varnaraðili neitar því að samkomulag hafi verið um að stöðva innheimtu þar til málalok lægju fyrir í héraðsdómi. Hann bendir á að sóknaraðila hafi verið gert viðvart um fyrirhugaða innheimtu áður en hún hófst, eins og sjá má í samskiptum frá 1. júlí 2024.

Varnaraðili fullyrðir að engir hagsmunaárekstrar hafi verið til staðar í störfum hans fyrir félagið [...] ehf., þar sem störf hans hafi aðeins beinst að málsvörn í dómsmáli sóknaraðila gegn félaginu. Hann útskýrir að störf hans fyrir aðra hluthafa hafi ekki verið andstæð hagsmunum félagsins.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði að hann hafi ekki brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Hann gerir einnig kröfu um hæfilega ómaksþóknun eða kostnað samkvæmt mati nefndarinnar, á grundvelli 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna.

Varnaraðili leggur áherslu á að allar aðgerðir hans hafi verið í samræmi við lög og góða lögmannshætti, og að málshefjandi beri ábyrgð á þeim vanskilum sem leiddu til innheimtuaðgerða. Hann útskýrir einnig að ekkert samkomulag hafi verið um að fresta innheimtu og að allar kröfur hafi verið fullgildar og lögmætar.

 

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.

II.

Krafa um að varnaraðila verði gert að segja sig frá máli nr. E-[...] fellur utan valdsviðs nefndarinnar og er vísað frá.

III.

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989, sbr. 2. mgr. sömu greinar, eru úrskurðir dómstóla, að viðbættum vöxtum og innheimtukostnaði gild aðfararheimild. Í því felst að ekki er krafist frekari innheimtuaðgerða áður en aðfarar er krafist. Í málinu liggur fyrir að varnaraðili lét sóknaraðila vita af innheimtunni og sendi honum bæði innheimtubréf og greiðsluáskoranir í aðdraganda aðfarargerðarinnar.  Að mati nefndarinnar var innheimta varnaraðila á úrskurðuðum málskostnaði lögmæt.

IV.

Í máli E-[...] gætti varnaraðili hagsmuna þriggja stefndu í máli sem sóknaraðili hafði höfðað gegn þeim til heimtu miska- og skaðabóta. Í máli E-[...] gætti varnaraðili hagsmuna [...] ehf., í máli sem sóknaraðili höfðaði gegn félaginu til greiðslu verklauna. Sóknaraðili er hluthafi og stjórnarmaður í félaginu. Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi ekki mátt taka að sér málin tvö vegna hagsmunaáreksturs sem hafi verið uppi, þar sem málsaðilar hafi að mestu verið þeir sömu og málin skarast efnislega að þó nokkru leyti.

Varnaraðili segir sóknaraðila virðast rugla saman sínum persónulegu hagsmunum annars vegar og hagsmunum [...] ehf. hins vegar. Sóknaraðili hafi stefnt einkahlutafélaginu fyrir dóm og engin þau atvik verið fyrir hendi sem hafi staðið í vegi fyrir því að varnaraðili gætti hagsmuna félagsins af einurð og hagsmunir umbjóðenda sinna í málunum ekki rekist á að nokkru leyti.

Sóknaraðili höfðaði málin tvö sem um ræðir, annars vegar gegn einkahlutafélagi sem hann sjálfur er hluthafi og stjórnarmaður í og hins vegar gegn fjórum einstaklingum, tveir hverra eru hluthafar í umræddu einkahlutafélagi. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á að hagsmunaárekstur hafi verið til staðar á milli hagsmuna umbjóðenda varnaraðila eins og sóknaraðili heldur fram. Af því leiðir sú niðurstaða að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins telur nefndin rétt að málskostnaður falli niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu um að varnaraðili, [B] lögmaður, segi sig frá máli nr. E-[...], er vísað frá nefndinni.

Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðreglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

Rétt endurrit staðfestir

 

Eva Hrönn Jónsdóttir