Mál 61/2024
Mál 61/2024
Ár 2025, fimmtudaginn 6. mars 2025, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið málið:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst, þann 6. desember 2024, kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 9. desember 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni ásamt fylgiskjölum þann 13. desember 2024. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 22. janúar 2025 og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 3. febrúar 2025. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðili leggur fram kvörtun í máli þessu vegna staðhæfinga sem varnaraðili setti fram í andmælum sínum í máli nefndarinnar nr. 33/2024. Þar vísaði varnaraðili til þess að sóknaraðili væri sambýlismaður […], sóknaraðila í máli 33/2024. Sóknaraðili kveðst aðeins hafa komið að málinu sem umboðsmaður [...]. Hann mótmælir staðhæfingu varnaraðila um að þeir [...] séu sambýlismenn. Sóknaraðili hafi verið í hjónabandi í 26 ár og segir staðhæfinguna hafa áhrif á hann, eiginkonu hans og dóttur.
Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brotið gegn siðareglum lögmanna, nánar tiltekið 1., 2. og 8. gr. þeirra, með því að setja fram ósanna og gildishlaðna staðhæfingu um kynhneigð hans og sambúð með [...]. Hann telur að þessi staðhæfing sé ekki mistök heldur meðvituð ákvörðun lögmannsins. Sóknaraðili bendir á að hann hafi ekki verið aðili að máli 33/2024 en með staðhæfingu sinni hafi varnaraðili dregið hann inn í málið.
Sóknaraðili krefst þess að Úrskurðarnefnd lögmanna taki kvörtun hans til greina og beiti viðeigandi úrræðum gagnvart varnaraðila vegna háttsemi hans. Þá krefst hann einnig málskostnaðar.
II.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt ja.is séu sóknaraðili og [...] báðir skráðir til heimilis að […], sem sé einbýlishús, og enginn annar sé skráður þar til heimilis. Varnaraðili hafnar því að þessi ummæli hafi átt að gefa í skyn að mennirnir séu samkynhneigðir og bendir á að orðið sambýlismaður geti einfaldlega þýtt að búa saman, án skírskotunar til tilfinninga- eða holdlegs sambands.
Varnaraðili hafnar því að ummælin hafi verið niðrandi eða haft í sér meinsemd gagnvart sóknaraðila. Hann bendir á að hann sjálfur sé samkynhneigður og að það væri móðgun við hann og hinsegin samfélagið að halda því fram að hann hefði notað orðið samkynhneigður á niðrandi hátt. Varnaraðili krefst þess að úrskurðarnefnd lögmanna útskýri hvernig það að vera kallaður samkynhneigður geti skaðað einhvern eða gert á hlut einhvers, sbr. áskilnað 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Hann telur að kvartanirnar séu stormur í vatnsglasi og rangtúlkun á hans orðum.
Varnaraðili ítrekar að hann hafi ekki verið að sinna hagsmunagæslu fyrir umbjóðanda þegar hann setti ummælin fram, heldur hafi hann verið að verja sjálfan sig gagnvart nefndinni. Hann leggur áherslu á að ummælin vísi eingöngu til þess að mennirnir tveir búi saman í sama húsi og sakar sóknaraðila um að gera úlfalda úr mýflugu með málatilbúnaði sínum.
III.
Sóknaraðili telur að orðalag varnaraðila sé villandi og gildishlaðið og að það hafi verið notað í þeim tilgangi að gefa í skyn náin tengsl milli hans og [...]. Hann bendir á að varnaraðili hafi ekki haft réttmætar heimildir fyrir staðhæfingum sínum og að ja.is sé ekki áreiðanleg heimild um búsetu. Sóknaraðili bendir á að hann búi með eiginkonu sinni og dóttur á umræddu heimili. Hann telur að varnaraðili hafi vitað betur þar sem hann hafi verið upplýstur um að [...] væri búsettur á Spáni. Sóknaraðili telur að varnaraðili hefði átt að biðjast afsökunar á orðalaginu í stað þess að verja það. Hann bendir einnig á að varnaraðili hafi notað bréfsefni lögmannsstofunnar sinnar og undirritað sig sem hæstaréttarlögmann, sem sýni að hann hafi verið að starfa sem lögmaður þegar hann ritaði ummælin.
Sóknaraðili vísar til þess að lögmenn eigi að starfa í samræmi við siðareglur lögmanna, sem krefjast þess að þeir sýni tillitssemi og virðingu í ræðu og riti. Hann telur að varnaraðili hafi brotið gegn þessum reglum með því að nota gildishlaðið orðalag og gefa í skyn óviðeigandi tengsl milli hans og [...].
Sóknaraðili krefst þess að Úrskurðarnefnd lögmanna taki kvörtun hans til greina og að varnaraðila verði gert að biðjast afsökunar á orðalagi sínu. Hann leggur áherslu á að orð beri ábyrgð og að lögmenn eigi að gæta sín í orðavali, sérstaklega þegar um er að ræða persónulegar upplýsingar sem geta haft áhrif á mannorð og persónuleg réttindi einstaklinga.
IV.
Varnaraðili vísaði til greinargerðar sinnar og bætir við að hann beri enga gremju gagnvart lögmannastéttinni eða úrskurðarnefndinni, þar sem faglegt eftirlit sé eðlilegur hluti af starfi lögmanna. Hann mótmælir því að fyrirsögn viðtals við hann, sem tekið var fyrir mörgum árum, og sóknaraðili vísar til, sé tengd þessu máli. Varnaraðili ítrekar fyrri kröfur sínar og leggur málið í hendur nefndarinnar.
Niðurstaða
I.
Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri.
Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.
Önnur grein siðareglna lögmanna kveður á um að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.
Samkvæmt 8. gr. siðareglna lögmanna segir að í samræmi við meginreglu 1. gr. reglnanna skuli lögmaður gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.
II.
Í máli þessu er deilt um notkun á orðinu „sambýlismaður“ í greinargerð varnaraðila í máli nefndarinnar nr. 33/2024 og hvort það hafi verið notað á niðrandi hátt gagnvart sóknaraðila. Sóknaraðili heldur því fram að ummælin hafi verið gildishlaðin og hafi valdið honum og fjölskyldu hans óþægindum. Varnaraðili hefur útskýrt að notkun orðsins hafi eingöngu átt að vísa til þess að sóknaraðili og [...] byggju á sama heimilisfangi og að ekki hafi verið ætlunin að gefa nokkuð annað í skyn.
Samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabók merkir orðið sambýlismaður „maður sem er í sambúð (án þess að vera í hjónabandi)“. Í íslenskum lögum er orðið notað um mann sem er í óvígðri sambúð með öðrum einstaklingi. Þrátt fyrir að orðið kunni í hversdagslegu tali einnig að vera notað um mann sem býr á sama stað og annar einstaklingur, telur nefndin að varnaraðili hefði mátt gæta meiri varfærni í orðavali sínu til þess að forðast að röng ályktun yrði dregin af orðum hans. Þrátt fyrir það telur nefndin ekki að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn siðareglum lögmanna eða lögum.
Málskostnaður fellur niður.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, [B] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, [A], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir