Mál 17 2016

Ár 2016, fimmtudaginn 22. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið málið nr. 17/2016:

A

gegn

B hdl. og C hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 5. ágúst 2016 erindi kæranda, A vegna  B hdl. og C hdl., þar sem kvartað var yfir brotum kærða gegn siðareglum lögmanna sem fælust í röngum sakargiftum, ósannindum og óheiðarleika, en kærðu hefðu freistað þess að leggja orðspor kæranda í rúst með lygum, rógburði og upplognum sökum, en kærðu komu fram fyrir hönd gagnaðila kæranda í ágreiningsmálum risu á milli eigenda í fjöleignarhúsi svo sem síðar verður rakið.

Óskað var eftir greinargerð frá kærðu um erindið þann 22. ágúst 2016. Kærðu skiluðu greinargerð vegna málsins þann 14. september 2016.

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærðu þann 15. september 2016. Athugasemdir bárust frá kæranda 7. október og voru kynntar kærðu  með bréfi 19. október. Athugasemdir kærðu vegna bréfsins bárust 21. nóvember og voru kynntar kærendum 1. desember um leið og lýst var þeirri afstöðu nefndarinnar að gagnaöflun virtist lokið.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Það mun upphaf máls þessa að kærandi leigði pláss í hesthúsi vorið 2015. Lögmaður nokkur, sem síðar varð lögmaður kæranda, eignaðist skömmu síðar minnihluta í hesthúsi þessu í óskiptri sameign með öðrum eigendum, en þar var um að ræða mæðgur og félag í þeirra eigu. Hafði hann m.a. unnið lögmannsstörf fyrir einhverja þessa sameigendur sína. Nálægt árslokum 2015 fór lögmaður þessi til útlanda og dvaldist ytra í nokkrar vikur. Vegna tengsla á milli kæranda og lögmannsins og með hans heimild, nýtti kærandi hesthúsið að einhverju leyti. Eftir að lögmaðurinn kom aftur til landsins nálægt áramótum 2016 kastaðist í kekki á milli hans og meirihlutaeigendanna. Virðist það upphaflega hafa verið vegna samstarfsörðugleika í umræddu hesthúsi, en m.a. taldi lögmaðurinn að sameigendur hans hefðu leigt út hans hlut í húsinu á meðan hann var erlendis og rekið tamningastöð í öllu húsinu. Spruttu af þessu deilur og liggur m.a. fyrir tölvupóstur lögmannsins frá 28. febrúar 2016 til meðeiganda þar sem hann freistar þess að greina deiluefnin, setur fram sín sjónarmið og óskar eftir viðbrögðum.

Meirihlutaeigendurnir, sérstaklega X, leituðu til kærðu og óskuðu liðsinnis þeirra í þessum deilum. Nánar tiltekið var óskað eftir liðsinni þeirra vegna ágreinings við lögmanninn um uppgjör fyrir unnin lögmannsstörf, en sá ágreiningur fellur með öllu utan við sakarefni máls þessa. Einnig óskaði hún liðsinnis kærðu vegna samskipta við minnihlutaeigandann (lögmanninn) í umræddu hesthúsi.

Það athugast að hvorugur málsaðila hefur lagt fram heildstæða málsatvikalýsingu vegna þeirra samskipta sem urðu í kjölfarið, en þau atriði sem mestu skipta liggja þó nokkuð skýrlega fyrir.

Snemma í mars barst kærða C tölvupóstur frá lögmanni kæranda þar sem hann lýsti sinni hlið á þeim ágreiningi sem upp var komin, sérstaklega meintum yfirgangi meirihlutaeigendanna og tilhæfulausum árásum á kæranda.

Þann 8. apríl 2016 var haldinn fundur í húsfélagi hesthússins á skrifstofu kærðu í Reykjavík. Í fundargerð kemur fram að kærði B hdl. stýrði fundi, en að kærði C var þar mættur f.h. félagsins Z ehf., sem er félag í eigum X. Virðist hafa verið mætt fyrir aðra eigendur en kærða. Þá kemur fram í fundargerðinni að lögmaðurinn hafi verið boðaður til fundarins, en ekki mætt. Liggur fyrir að hann hafði áður mótmælt fundarboðinu og talið það ýmsum annmörkum háð.

Í fundargerðinni er bókað ýmislegt um deilur í umræddu hesthúsi, en þar er um að ræða einhliða frásögn, enda enginn mættur á fundinn f.h. lögmannsins. Er m.a. bókað að „Fundarmenn eru sammála um að mikið ónæði sé af Y og fólki á hans vegum, þá sérstaklega af A, langt umfram það sem telja megi eðlilegt. Sem sé orðið svo mikið að það trufli nýtingu eignarinnar. Í því felist læti og hávaði, slæm umgengni, ógnandi hegðun bæði í garð annarra eigenda, sem og hrossa, tillitsleysi við eigendur og hesta, þannig að dýrunum stafi hætta af.  Auk hótana um líkamlegt ofbeldi í garð annarra eigenda. Hafi verið lagðar fram lögregluskýrslur þessu til staðfestingar. Til viðbótar hafi téðir aðilar ekki sinnt sameiginlegri ábyrgð hvað varðar umhirðu dýranna svo sem heygjöfum og rekstur sameignar. Auk þess hafi þau stofnað til kostnaðar sem aðrir eigendur hafi þurft að bera skil á. Þá sé umgengni þeirra almennt þannig að það raski ró í húsinu, bæði manna og dýra."

Á fundinum var bókuð ákvörðun um að tiltekin mannvirki skyldu tekin niður úr sameign hússins, en óumdeilt mun að kærandi hafði sett þau upp og loks bókað að fundurinn tæki ákvörðun á grundvelli 55. gr. laga nr. 26/1994 um að banna minnihlutaeigandanum (lögmanninum) og kæranda dvöl í húsinu og að honum væri gert skylt að selja eignarhlut sinn. Loks var bókað að lögmannsstofu kæranda væri falið að innheimta kröfur „fundarmanna" á hendur lögmanninum og kæranda vegna kaupa á heyi o.fl.

Í framhaldi af fundi þessum sendi svo kærði C f.h. húsfélagsins lögmanninum bréf þar sem áréttað var enn frekar það sem samþykkt hafði verið á fundinum og skorað á hann að „téð A hafi ekki lengur aðgang að og dvelji ekki í húsnæðinu".

Frekari samskipti urðu, þar sem lögmaðurinn þrýsti mjög á um að fá í hendur gögn að baki þeim staðhæfingum sem settar hefðu verið fram á fundinum, bæði fyrir eigin hönd og f.h. kæranda. Þá ritaði kærandi sjálf tölvuskeyti til kærðu þann 17. apríl 2016 þar sem hún greindi frá því að hún hefði heyrt á tal umbjóðenda kærðu þar sem þær hefðu rætt að kærðu virtust ekki ætla að standa við það sem þeir hefðu lofað um að henda kæranda og lögmanninum út úr hesthúsinu. Jafnframt fól kærandi lögmanninum að koma fram fyrir sína hönd í þessum deilum.

Ljóst er að samskipti sameigenda í umræddu hesthúsi hafa farið algjörlega úr böndum. Sá lögmaður sem fyrr er nefndur, kærði sameiganda sinn í hesthúsinu til lögreglu þann 29. mars 2016 fyrir meintar hótanir í garð kæranda í máli þessu, auk þess sem hún var sökuð um að hafa stolið af eignum sameiganda í hesthúsinu. Í framhaldi af því hefur komið til átaka í húsinu. Þann 16. ágúst 2016 sendi lögmaðurinn lögreglu frekari gögn  og kærði þá jafnframt báða kærðu í máli þessu vegna meintrar aðkomu þeirra „að ofbeldi, ógnunum og hótunum um að beita ofbeldi." Taldi lögmaðurinn að kærðu hefðu staðið að baki atburðarrás þar sem þessi fyrrum umbjóðandi hans hefðu ráðist að kæranda í þessu máli og tekið svo viðbrögð hennar upp á myndband. Mál lögreglu vegna þessarar kæru var fellt niður gagnvart kærðu í máli þessu með bréfi lögreglu til þeirra þann  10. nóvember 2016. Kærandi í þessu máli hefur einnig kært gagnaðila fyrir ofbeldi í sinn garð.

Þá stefndu kærðu f.h. umbjóðenda sinna, umræddum lögmanni í einkamáli og gerðu þær kröfur að honum yrði gert skylt að flytja ásamt öllu því sem honum tilheyrði út úr hesthúsinu í samræmi við ákvörðun fundarins 8. apríl. Er stefnan dagsett 27. júní en miðast við þingfestingu 1. september 2016.

Á meðan á þessu gekk, voru kærðu og lögmaður kæranda í töluverðum samskiptum, en ekki virðist þörf á að rekja þau hér, utan hvað í þeim kom skýrlega fram af hálfu kærðu að þeir teldu sig aðeins hafa sinnt lögmannsstörfum í þágu umbjóðenda sinna og frábáðu sér að vera samkenndir þeim.

II.

Kærandi krefst þess að kærðu verði beitti viðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Kærandi telur að í þeim ummælum sem sett voru fram á húsfundinum 8. apríl 2016 felist ávirðingar í sinn garð um dýraníð eða lélegt skepnuhald, sem séu til þess fallin að leggja lífsstarf hennar í rúst og svarta mannorð hennar. Byggir kærandi á því að „lögmennirnir sendu illsakirnar sjálfir og bera bótaábyrgð á gerðum sínum, sbr. m.a. ákvæði 25. gr. l. nr. 77/1998 um lögmenn". Kærandi kveðst hafa sinnt hesta- og hundarækt frá unglingsaldri og snúist allt líf hennar um dýrahald. Sé hún þekkt fyrir að hugsa mjög vel um dýr. Séu ávirðingar um dýraníð eða lélegt skepnuhald til þess fallin að leggja lífsstarf hennar í rúst og sverta mannorð hennar.

Kærandi telur að þótt fundurinn 8. apríl hafi verið kallaður húsfundur hafi í raun verið um að ræða fund sem hinir kærðu lögmenn héldu einir með umbjóðendum sínum. Þar hafi kærði C  komið fram sem aðili og tjáð sig sjálfur um atvik sem hann hafi skáldað sjálfur með kærða B.

Kærandi ber fyrir sig samtöl við syni aðilans X um að það séu kærðu sem standi á bak við þá áætlun að „búa til leiðindi" í téðu hesthúsi, í því skyni að nýta svo samstarfsörðugleika til að knýja á um sölu eignarhlutans.

Kærandi telur að kærðu hafi samsamað hana við lögmann sinn, sem kom fram fyrir hennar  hönd í deilum þessum, auk þess að hafa þar gætt eigin hagsmuna.

Þá telur kærandi að kærðu hafi ekki farið rétt að þegar þeir ræddu ekkert við lögmanninn áður en þeir gerðu þá atlögu sem fólst í umræddum fundi og niðurstöðum hans. Kærandi telur að meirihlutaeigendur í umræddu hesthúsi hafi verið sekir um fáheyrðan yfirgang í samskiptum áður en þeir leituðu til kærðu. Þetta hafi kærðu verið ljóst, enda liggi fyrir að þeir hafi fengið í hendur öll tölvupóstsamskipti aðila áður en þeir komu að málinu, þar á meðal ábendingar um að heppilegt væri að meirihlutaeigendurnir öfluðu sér aðstoðar lögmanns. Kærðu hafi þrátt fyrir þetta ekki tilkynnt um aðkomu sína að málinu fyrr en þeir boðuðu til fundar á skrifstofu sinni, en kærandi var ekki boðuð á þann fund. Telur kærandi einsýnt að kærðu hefðu átt að ráðleggja umbjóðendum sínum að láta af yfirgangi. Þess í stað hafi þeir staðið þannig að fundarboðun að líklegt væri að ekki yrðu aðrir staddir á þessum fundi, samþykkt þar ærumeiðandi aðdróttanir og neitað svo að ræða málin frekar. Þeir hafi sérstaklega tekið fram í fundarboði að ekki hefðu aðrir rétt til setu á fundinum en félagsmenn í húsfélaginu, makar þeirra eða sambúðaraðili skv. 2. mgr. 58. gr. laga nr. 26/1994, en þrátt fyrir það rætt um persónu kæranda.

Kærandi kveður lögmann sinn hafa náð fundi kærða C einu sinni, þ.e. þann 13. apríl 2016 og þá freistað þess að fá hann til að ræða við umbjóðanda sinn. Jafnframt hafi kærða C þarna verið gerð grein fyrir því að kærða væri alsaklaus af þeim áburði sem samþykktur var á húsfundinum.  C hafi þarna handsalað ákveðin loforð sem reynst hafi marklaus með öllu.

Kærandi telur allt ofanritað sýna að kærðu beri enga virðingu fyrir sannleikanum og sé mikilvægt að þeir sæti viðurlögum vegna framgöngu sinnar.

III.

Kærðu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni, en til vara að öllum kröfum kæranda verði hrundið. Þá krefjast kærðu þess að kærandi verði úrskurðuð til að greiða þeim málskostnað fyrir nefndinni.

Kærðu telja kvörtun kæranda og málsástæður hennar að flestu leyti ákaflega óljósa og sé erfitt að átta sig á því af kvörtuninni hvernig einstakar málsástæður styðji þá fullyrðingu að þeir hafi brotið af sér í störfum sínum. Þeim séu bornar á brýn rangar sakargiftir, en það sé refsiréttarlegt hugtak sem ekki standi upp á úrskurðarnefndina að fjalla um.

Kærðu rekja hvernig þau ummæli horfa við þeim sem eru meginefni kvörtunar kæranda.  Umrædd fundargerð hafi verið tekin saman að beiðni þeirra eigenda að fjöleignarhúsinu sem mættu á húsfundinn. Ummælin séu ekki höfð eftir kærðu sjálfum. Kærði B hafi aðeins verið starfsmaður fundarins, en kærði C hafi verið beðinn að mæta á fundinn fyrir einkahlutafélagsins Z, sem eigi hlut í húsinu og og beita þar atkvæðisrétti í samræmi við óskir umbjóðandans. Komi þetta skýrt fram í fundargerðinni. Kærðu telja að í málatilbúnaði kæranda séu orð og athafnir kærðu sjálfra annars vegar og umbjóðenda þeirra hins vegar lögð að jöfnu. Engin efni séu til að samkenna kærðu og umbjóðendur þeirra með þessum hætti. Virðist kærðu að málatilbúnaður kæranda hvíli á þeirri forsendu að þeir hefðu átt að þekkja hið sanna um öll málsatvik af frásögnum kæranda og lögmanns hennar og hafi þeir því gegn betri vitund tekið að sér að reka deilumál þetta fyrir umbjóðendur sína. Þetta telja kærðu fráleitt. Þá telja þeir ofsagt að umbjóðendur þeirra hafi sakað kæranda um dýraníð á fundinum, eða að í bókuninni felist sú ásökun, en þetta hugtak hafi sérstaka og afmarkaða merkingu.

Mætingu á húsfundinn og umfjöllun um hana í fundarboði hafi verið í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús. Kærðu hafna einhliða frásögnum kæranda um það sem farið á hafi á milli þeirra og lögmanns kæranda, en telja það auk þess að mestu þýðingarlaust fyrir sakarefni máls þessa.

Kærðu benda á að nú sé rekið ágreiningsmál á milli sameiganda að umræddu hesthúsi. Í því muni reyna á ofangreinda fundargerð og ályktanir fundarins.  Jafnframt sé rekið sakamál þar sem umbjóðandi þeirra hafi kært kæranda í máli þessu fyrir líkamsárás. Hafna kærðu því með öllu að hafa með nokkru móti komið að árásum á kæranda.

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 1. gr.  siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 2. mgr. 8. gr. reglnanna kemur fram að lögmanni ber að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.

Í IV. kafla siðareglnanna er fjallað um samskipti lögmanna innbyrðis. Þar er áréttað í 25. gr. að lögmenn skulu hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.

Þá kemur sú regla fram í V. kafla reglnanna um skyldur lögmanns við gagnaðila, nánar tiltekið í 36. gr., að lögmaður skuli jafnan fyrir lögsókn kynna gagnaðila framkomnar kröfur skjólstæðings síns og gefa kost á að ljúka máli með samkomulagi. Þetta gildir þó ekki, ef lögsókn má ekki bíða vegna yfirvofandi réttarspjalla eða annars tjóns á hagsmunum skjólstæðings, eða ef atvikum að öðru leyti hagar svo til að rétt sé og nauðsynlegt að hefja lögsókn án tafar.

Að mati nefndarinnar er það aðalatriði í máli þessu að ekkert er fram komið sem réttlætir þá ályktun kæranda að kærðu hafi gegn betri vitund skipulagt aðfarir að henni, ellegar borið á hana ærumeiðandi ummæli gegn betri vitund. Ekkert er fram komið um annað en að þeir hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir gagnaðila kærða í deilumáli og hagað framgöngu sinni í því í samræmi við óskir umbjóðenda sinna. Ef umbjóðendurnir töldu framgöngu kæranda og lögmanns hennar í hesthúsinu óásættanlega, var það í þeirra valdi að fylgja þeirri sannfæringu sinni eftir með því að óska eftir því við kærðu að þeir tækju að sér að boða til húsfundar, stýra fundi, mæta fyrir hönd einstakra eigenda og halda þessari afstöðu þar fram með bókunum. Sú afstaða kæranda að hún geti litið á kærendur og umbjóðendur þeirra sem eitt og hið sama kemur ítrekað fram í málatilbúnaði hennar fyrir nefndinni. Er þetta í brýnni andstöðu við fyrrnefnt ákvæði 8. gr. siðareglna lögmanna og meginsjónarmið um sjálfstæði lögmanna og verður að hafna þeim málsástæðum sem á þessu eru reistar. Þá telur nefndin að fullyrðingar kæranda um að nafngreindir einstaklingar hafi fullyrt eitthvað um að kærðu hafi staðið að baki árásum á hana séu óstaðfestar og að útilokað sé að byggja niðurstöðu málsins á slíkum fullyrðingum gegn andmælum kærðu.

Nefndin telur að það hefði verið í betra samræmi við ofangreind ákvæði 25. og 36. gr. siðareglna ef kærðu hefðu freistað þess að sætta málið með samtölum við lögmann kærðu þegar þeir komu að málinu, í stað þess að stofnað væri til jafn harkalegs ágreiningsmáls og gert var. Kærandi var borin þungum sökum. Þess var síðan freistað að nýta meirihlutaafl atkvæða í húsfélagi til að knýja einn eiganda hesthússins til að selja eign sína, m.a. með vísan til þessara ásakana. Þegar litið er til afdráttarlauss framburðar kærðu um að þeir hafi unnið störf sín samkvæmt fyrirmælum umbjóðenda sinna verða þó ekki gerðar aðfinnslur vegna þessa. Virðist raunar með öllu óvíst, eins og málið hefur þróast, að kærðu hefðu getað stýrt því í sátt.

Í ljósi alls ofangreinds verður að hafna því að beita kærðu viðurlögum í máli þessu.

Rétt þykir að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af málinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærðu, B  hdl. og C hdl., hafa í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Kristinn Bjarnason hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson