Mál 22 2017

Ár 2017, 6. desember 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2017:

A og B ehf.,

gegn

C hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. maí 2017 erindi kærenda, A og B ehf., en í því er kvartað yfir því að kærði, C hæstaréttarlögmaður, með starfsstöð að Y, 105 Reykjavík, hafi í störfum sínum brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 12. júní 2017 og barst hún þann 4. júlí 2017. Var kærendum send greinargerð hans til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 17. júlí 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar samdægurs til kærða. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þá eru málsatvik um margt óljós.

Af gögnum málsins verður þó ráðið að kærandi A hafi verið eigandi og fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins D en bú félagsins mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms uppkveðnum x. maí 2009. Mun E hrl. hafa verið skipaður skiptastjóri búsins en hann starfar hjá X- lögmönnum líkt og kærði í máli þessu. Var hið gjaldþrota félag afskráð hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra þann x. desember 2010 í kjölfar skiptaloka.

Fasteignir að Á á Akureyri munu hafa verið meðal eigna þrotabúsins, en af gögnum málsins verður ráðið að þær hafi verið veðsettar G-banka hf. Þá liggja fyrir tölvubréfasamskipti og yfirlýsing sem benda til þess að fyrirsvarsmaður nánar tilgreinds félags með aðsetur á Akureyri hafi gert G-banka hf., sem veðhafa, tilboð að fjárhæð kr. 90.000.000 í fasteignir að Á á Akureyri þann x. september 2009 en að það tilboð hafi ekki verið samþykkt eða náð fram að ganga með öðrum hætti.

Með bréfi G-banka hf. til kæranda A, dags. 18. september 2009, var vísað til hugmynda um yfirtöku bankans á fasteigninni að Á og lóðinni að Á þar sem því var lýst að um væri að ræða fjölbýlishús á byggingarstigi og byggingarlóð. Var tiltekið í bréfinu að ef til þess kæmi að bankinn yfirtæki umrædda fasteign og lóð myndi verðmæti eignanna ganga til lækkunar á skuldum D ehf. við bankann enda væru þær veðsettar bankanum til tryggingar á skuldum félagsins. Endanlegt uppgjör væri þó óvissu háð þar til endanlegar sölur eigna hefðu átt sér stað.

Í samkomulagi um framsal kaupsamninga, dags. 18. nóvember 2009, var vísað til kaupsamninga frá 30. maí 2008 þar sem D ehf. hafði selt nánar tilgreindar fasteignir að Á til H ehf. Var tiltekið að þar sem ekki hefði reynst unnt að efna kaupsamninga vegna gjaldþrots D ehf. væri samkomulag um að réttindi og skyldur þess aðila samkvæmt samningunum yrðu framseld til J ehf. sem myndi klára eignirnar í samræmi við skilalýsingu þeirra og afhenda kaupanda gegn réttum efndum samkvæmt kaupsamningum. Var því lýst að G-banki hf. myndi leysa viðkomandi eign úr veðböndum að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Var samkomulagið undirritað af hálfu skiptastjóra fyrir hönd þrotabús D ehf.

Frá sama degi liggur fyrir kaupsamningur og afsal á milli J ehf., sem kaupanda, og þrotabús D ehf., sem seljanda, um nánar tilgreindar íbúðir í fjölbýlishúsinu að Á og byggingarlóð að Á.

Með afsali, dags. 16. október 2010, afsalaði þrotabú D ehf. til H ehf. nánar tilgreindum íbúðum í fjölbýlishúsinu að Á. Undirritaði skiptastjóri þrotabúsins afsalið fyrir hönd búsins en við undirskrift hans var jafnframt að finna stimpilmerki X- lögmanna.

Þann 11. nóvember 2010 mun skiptastjóri þrotabúsins hafa beint tölvubréfi til starfsmanna G-banka hf. vegna fyrirhugaðra skiptaloka og gerð frumvarps til úthlutunar við gjaldþrotaskiptin. Var þar óskað eftir öllum kaupsamningum og upplýsingum um hvað hefði greiðst upp í kröfur bankans. Var því erindi svarað með tölvubréfi þann 17. nóvember 2010 þar sem upplýst var um að samkvæmt uppgjörssamkomulagi hefðu komið kr. 66.600.000 til lækkunar skulda og að veðum á Á hefði verið aflétt.

Samkvæmt ódagsettu frumvarpi til úthlutunar í þrotabúi D ehf., sem er meðal gagna málsins fyrir nefndinni, var tiltekið að söluverð fasteigna að Á hefði verið að fjárhæð kr. 66.600.000. Þá var tiltekið að til ráðstöfunar uppí kröfur væru kr. 65.879.890 og að þeim fjármunum hefði verið ráðstafað til greiðslu veðkrafna til G-banka hf. Samkvæmt því fengist ekkert greitt upp í launakröfur, almennar eða eftirstæðar kröfur við gjaldþrotaskiptin.

Í gögnum málsins er jafnframt að finna úrskurðarorð héraðsdóms í máli sem rekið var á milli G-banka hf. og kæranda B ehf. vegna nánar tilgreindrar aðfarargerðar sem fram hafði farið hinn x. ágúst 2012. Samkvæmt úrskurðarorði var aðfarargerðin felld úr gildi og bankanum gert að greiða kærandanum kr. 525.000 í málskostnað. Mun kærði hafa farið með málið á síðari stigum fyrir hönd bankans. Um þetta efni liggja jafnframt fyrir nefndinni tölvubréf kæranda Lárusar til kærða frá 22. október 2015 og 6. nóvember 2015 þar sem óskað var eftir að úrskurðaður málskostnaður yrði lagður inn á nánar tilgreindan reikning kæranda B ehf. Þá liggur fyrir úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna frá 7. apríl 2017 í máli nr. 21/2016 þar sem kom til úrlausnar ágreiningur á milli kæranda B ehf. og þess lögmanns sem rekið hafði ofangreint dómsmál fyrir hönd félagsins og hafði móttekið greiðslu málskostnaðar samkvæmt úrskurðarorði.

Þann x. nóvember 2015 var þingfest mál G-banka hf. gegn kærendum í Héraðsdómi L og mun það hafa fengið málsnúmerið E-xxxx/xxxx. Mun kærði hafa farið með það mál fyrir hönd stefnanda þar sem þess var meðal annars krafist að heimilað yrði að gert yrði fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi ætti í nánar tilgreindum fasteignum kærenda. Í greinargerð G-banka hf. í gagnsök í málinu, sem mun hafa verið lögð fram á dómþingi þann x. apríl 2016, var því lýst að skiptastjóri þrotabús D ehf. hefði selt hinar veðsettu eignir á kr. 66.600.000 og bankinn aflétt veðböndum. Á sama tíma mun kærði hafa lagt fram í dómi skjal fyrir hönd bankans, sem bar yfirskriftina „Viðauki I. Áætlaður hagnaður/tap Hamla 1, dótturfélags G-banka hf., af viðskiptunum“, þar sem því var lýst að viðkomandi félag hefði fengið nánar tilgreindar íbúðir á Akureyri í skiptum fyrir eignirnar að Á og lóðina að Á. Hafi kaupverð eignanna verið kr. 66.600.000 samkvæmt skiptingu sem lýst var í skjalinu. Samkvæmt því hefði tap Hamla 1 vegna húseignanna verið að fjárhæð kr. 4.268.841 en að þá væri ótalinn kostnaður vegna fjárbindingar á meðan fasteignarnar hefðu verið í eigu bankans.

Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms L frá x. apríl 2017 mun ofangreindu dómsmáli hafa lokið með niðurfellingu þess. Er því lýst í endurritinu að kærði hafi sótt þing fyrir stefnanda og óskað eftir að málið yrði fellt niður. Á þeim grundvelli var málið fellt niður í þinghaldinu og bókað í þingbók að málsaðilar væru sammála um að ekki yrði gerð frekari málskostnaðarkrafa og að málskostnaður sem ákvarðaður hafi verið með úrskurði um frávísun gagnkröfu kæmi ekki til álita.

Í gögnum málsins er jafnframt að finna tölvubréfasamskipti á milli kæranda A og E hrl. frá mars-, júlí- og októbermánuði 2016 vegna málefna þrotabús D ehf. og ráðstöfunar á eignum búsins. Þá liggja jafnframt fyrir nefndinni tölvubréfasamskipti kærandans við útibússtjóra G-banka hf. á Akureyri, þ. á m. vegna sömu málefna og áður er lýst.

II.

Skilja verður kröfu kærenda þannig að kærða skuli gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun kærenda er vísað til þess að upp hafi komist um meint brot og vanhæfi kærða þegar E hrl. hjá X- lögmönnum hafi upplýst um málið síðastliðinn vetur og lagt fram upplýsingar og gögn til kærenda úr þrotabúi D ehf. á fundi aðila.

Í fyrsta lagi lýtur kvörtun kærenda að því að kærði hafi vísvitandi leynt upplýsingum um vanhæfi sitt vegna aðkomu X- lögmanna að þrotabúi D ehf., sem hafi verið félag í eigu kæranda A. Er vísað til þess að þrátt fyrir vanhæfi hafi kærði lagt fram falsaða stefnu og gögn í nánar tilgreindu dómsmáli sem hann hafi rekið fyrir G-banka hf. á hendur kærendum. Hafi komið fram í samskiptum kærenda við G-banka hf. að þessi vitneskja og aðkoma X- lögmanna hafi verið óheppileg fyrir bankann. Samkvæmt því hafi kærði verið vanhæfur til að reka málið sem hafi leitt til vanlíðunar kærenda, tjóns auk þess sem þeir hafi verið hafðir fyrir rangri sök. Feli slíkt í sér alvarlegt brot á lögum og siðareglum lögmanna. Hafi kærði kosið í málatilbúnaðinum að vísa til þess að skiptastjóri hefði selt eignir þegar hann hafi getað tiltekið að kærði sjálfur og/eða X- lögmenn hefðu selt eignir þrotabús D ehf. á nánar tilgreinda fjárhæð. Með því hafi kærði beitt blekkingum. Byggja kærendur á að vanhæfi kærða hafi verið augljóst auk þess sem það hafi verið glæpur að leggja út frá fölsun og villu í dómsmálinu.

Í öðru lagi byggja kærendur á að E hrl. hjá PACTA lögmönnum hafi staðfest rétta atburðarás í málinu. Þannig hafi kærði vísvitandi gert falsaða stefnu á hendur kærendum fyrir hönd G-banka hf. í nóvembermánuði 2015 og lagt til falsað skjal fyrir Héraðsdómi L þann x. apríl 2016. Þá hafi verið byggt á fjárhæð í stefnu sem hafi komið á fölskum forsendum inn í úthlutunargerð skiptastjóra við gjaldþrotaskipti þrotabús D ehf. Vísa kærendur til þess að kærði hafi vitað um falsaðar fjárhæðir og að starfsmaður X- lögmanna hafi verið skiptastjóri tilgreinds þrotabús. Um það efni hafi kærendur ekki getað vitað eða áttað sig á fyrr en um síðar þegar E hrl. hafi upplýst um brot kærða gagnvart kærendum. Byggja kærendur á að E hrl. hafi staðfest að stefna og framlögð gögn hafi verið fölsuð og að kærendur hafi verið bornir röngum sökum fyrir dómi. Hafi kærði brotið gegn lögum með því að leggja fram vísvitandi falsað skjal fyrir dómi og með því að útbúa sögufalsaða stefnu á hendur kærendum. Vísa kærendur til þess að í kjölfar þess að dómari hafi verið upplýstur um þessi atriði hafi kærði fellt málið niður fyrir hönd G-banka hf., sem stefnanda í málinu.

Í þriðja lagi vísa kærendur til þess að kærði hafi komið málskostnaði samkvæmt úrskurðarorði Héraðsdóms M frá októbermánuði 2015, sem G-banka hf. hafi verið gert að greiða kæranda B ehf., til N hdl. hjá X- lögmönnum, þrátt fyrir skriflega beiðni um að farið yrði að úrskurðarorði og að málskostnaður yrði greiddur til viðkomandi kæranda. Vísa kærendur um þetta efni einnig til úrskurðar úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 21/2016 þar sem þetta hafi verið talið ámælisvert og þar með rangt. Hafi fjármunum þannig vísvitandi verið komið undan í sama máli til að veikja varnir kærenda í málakrekstri gegn G-banka hf. og X- lögmönnum.

Í fjórða lagi byggja kærendur á að kærði hafi haft siðferðilega rangt við með háttsemi sinni og að kærendur hafi ekki getað tekið til eðlilegra varna vegna aflsmuna kærða og X- lögmanna sem hafi beitt siðleysi, blekkingum, undirbrögðum og þögn.

Með vísan til framangreinds er gerð krafa um að kærði verði beittur „mestu/hörðustu viðurlögðum“ fyrir háttsemi sína samkvæmt lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna. Þá vísa kærendur til almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem og til meginreglna um góða viðskiptahætti. Gera kærendur kröfu um að lögmannsréttindi kærða verði afturkölluð eða felld niður og að tiltekið verði í úrskurði að kærði sé vanhæfur til að annast lögfræðistörf fyrir G-banka hf. og gagnvart kærendum.

Í ítarlegum viðbótarathugasemdum kærenda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða var málatilbúnaði kærða mótmælt í heild sinni af hálfu kærenda.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða þannig að þess sé krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað.

Í fyrsta lagi vísar kærði til þess að hann hafi farið með innheimtu skulda þrotabús D ehf. við G-banka hf. frá 1. júlí 2015, en fram að þeim tíma hafi bankinn sjálfur annast innheimtu krafnanna. Séu kröfurnar með veði í eignum kærenda og snúi innheimtan að því að ná fullnustu á veðunum. Kærði hafnar því að hann sé vanhæfur til innheimtu skuldanna. Er vísað til þess að E hrl. hafi í eigin nafni verið skipaður skiptastjóri í þrotabúi D ehf. í maí 2009 og að skiptum á búinu hafi lokið í desembermánuðir 2010. Hafi kærði engin afskipti haft af þeim búskiptum, en jafnvel þó svo hafi verið byggir kærði á að það hafi ekki valdið vanhæfi við að ná fram fullnustu á veðum sem tryggt hafi skuldir hins gjaldþrota félags, eftir að skiptum á búi þess lauk.

Í öðru lagi hafnar kærði því sem röngu að nokkrum blekkingum eða fölsunum hafi verið beitt við innheimtu skuldanna. Vísar aðilinn til þess að tölulegur ágreiningur þar um eigi undir dómstóla.

Í þriðja lagi kveðst kærði hvorki hafa annast né stýrt greiðslu málskostnaðar fyrir G-banka hf. líkt og haldið sé fram í málatilbúnaði kærenda. Auk þess vísar kærði til þess að þegar greiðslan var innt af hendi hafi N hdl. hvorki verið starfsmaður P ehf. né hafi viðræður um slíkt verið hafnar.

Í fjórða lagi hafnar kærði því að aflsmunar eða siðlausum aðferðum hafi verið beitt sem og að nokkuð hafi verið gert til að koma í veg fyrir að kærendur nytu lögmannsaðstoðar og sanngjarnar málsmeðferðar. Hið rétta sé að ítrekað hafi verið reynt að ná sátt við kærendur og lögmann þeirra. Hafi drög að samkomulagi við lögmann kærenda legið fyrir áður en viðkomandi lögmaður hafi sagt sig frá málinu.

Með vísan til alls framangreinds krefst kærði þess að kröfum kærenda verði hafnað.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

 

II.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Er tiltekið í 18. gr. laga nr. 77/1998 að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi meginreglu 1. gr., sem áður er lýst.

Þá er tiltekið í 2. mgr. 11. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku. Gildi hið sama um lögmenn sem hafa samstarf um rekstur lögmannsstofu eða reka lögmannsstofu í félagi.

Eins og áður greinir lýtur kvörtun kærenda í fyrsta lagi að því að kærði hafi vísvitandi leynt upplýsingum um vanhæfi sitt vegna aðkomu X- lögmanna að þrotabúi D ehf., sem hafi verið félag í eigu kæranda A. Er vísað til þess að þrátt fyrir hið meinta vanhæfi hafi kærði lagt fram falsaða stefnu og gögn í dómsmáli sem hann hafi rekið fyrir G-banka hf. á hendur kærendum. Hafi kærði með því brotið gegn lögum og siðareglum lögmanna.

Um þetta efni er þess að gæta að af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærði hafi fyrst komið að innheimtu skulda þrotabús D ehf. gagnvart G-banka hf. á miðju ári 2015 en bankinn mun hafa talið að kröfurnar væru tryggðar með veði í eignum kærenda. Samkvæmt því mun kærði ekki hafa haft nokkra aðkomu að gjaldþrotaskiptum þrotabúsins, þ.e. frá uppkvaðningu úrskurðar um töku búsins til gjaldþrotaskipta þann x. maí 2009 og þangað til búið var afskráð í fyrirtækjaskrá þann x. desember 2010 í kjölfar skiptaloka. Enda þótt E hrl. hjá X- lögmönnum hafi í eigin nafni verið skipaður skiptastjóri þrotabúsins getur það eitt ekki valdið vanhæfi kærða við síðari innheimtutilraunir fyrir hönd síns skjólstæðings gagnvart kærendum þessa máls að áliti nefndarinnar. Samkvæmt því verður með engu móti ráðið að kærði hafi gert á hlut kærenda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 að þessu leyti.

Kvörtun kærenda lýtur í öðru lagi að því að kærði hafi vísvitandi gert falsaða stefnu á hendur kærendum fyrir hönd G-banka hf. í nóvembermánuði 2015 auk þess sem falsað skjal hafi verið lagt fram í Héraðsdómi L þann x. apríl 2016. Þá hafi verið byggt á fjárhæð í stefnu sem hafi komið á fölskum forsendum inn í úthlutunargerð skiptastjóra þrotabús D ehf. Hafi þetta verið staðfest í framlögðum tölvubréfasamskiptum við skiptastjóra þrotabúsins auk þess sem héraðsdómsmálið hafi verið fellt niður vegna þessara annmarka.

Að áliti nefndarinnar verður um þetta efni að líta til þess að kærði annaðist málarekstur gegn kærendum fyrir hönd skjólstæðings aðilans. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um réttmæti staðhæfinga kærenda um meinta blekkingu eða skjalafölsun kærða. Þótt ágreiningur kunni að hafa verið á milli kærenda og skjólstæðings kærða um réttmæti krafna og sakarefni þeirra dómsmála sem rekin voru, þ. á m. um málsatvik og staðreyndir að baki kröfunum og málefni þrotabús D ehf. í tengslum við þær, hafa kærendur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að kærði hafi gert á hlut kærenda, þ.e. með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Gildir slíkt hið sama um kvörtunarefni kærenda sem lúta að því að kærði hafi haft siðferðilega rangt við með háttsemi sinni og að kærendur hafi ekki getað tekið til eðlilegra varna vegna aflsmuna kærða og lögmannsstofu kærða. Samkvæmt því verður ekki séð að kærði hafi beitt siðleysi, blekkingum eða annarri ótilhlýðilegri háttsemi í störfum sínum gagnvart kærendum líkt og á er byggt í málatilbúnaði kærenda.

Að síðustu lýtur kvörtun kærenda að því að kærði hafi komið málskostnaði samkvæmt úrskurðarorði Héraðsdóms M frá októbermánuði 2015, sem G-banka hf. hafi verið gert að greiða kæranda B ehf., til N hdl. hjá X- lögmönnum, þrátt fyrir skriflega beiðni um að málskostnaður yrði greiddur til viðkomandi kæranda. Í málatilbúnaði kærða um þetta efni er hins vegar vísað til þess að kærði hafi hvorki annast né stýrt greiðslu málskostnaðar fyrir skjólstæðing sinn að þessu leyti. Þá hafi viðkomandi lögmaður hvorki verið starfsmaður X- lögmanna þegar greiðslan hafi verið innt af hendi né hafi viðræður um slíkt verið hafnar.

Málatilbúnaður kærenda um meint brot kærða að þessu leyti fær ekki nokkra stoð í gögnum málsins. Þannig verður í engu ráðið af gögnum málsins að kærða hafi verið falið af skjólstæðingi sínum að annast eða hafa milligöngu um greiðslu þess málskostnaðar sem kvörtunarefnið varðar. Með vísan til þess og gegn andmælum kærða um þetta efni, sem áður er lýst, er að áliti nefndarinnar hvorki unnt að leggja til grundvallar að kærði hafi með vísvitandi hætti komið fjármunum undan til að veikja varnir kærenda í væntanlegum málarekstri líkt og byggt er á í kvörtun kærenda né að kærði hafi að öðru leyti gert á hlut kærenda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Með vísan til alls framangreinds er að áliti nefndarinnar ekki efni til að telja að kærði hafi brotið gegn lögum eða siðreglum lögmanna með þeirri háttsemi sem umþrætt er í máli þessu og kvörtun kærenda lýtur að.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, C hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, A og B ehf., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson