Námskeið

Grunnnámskeið í notkun gervigreindar - 18. september 2025

Vegna eftirspurnar höfum við bætt við einu námskeiði enn! 

Á þessu grunnnámskeiði verður farið yfir hvernig lögfræðingar geta nýtt sér gervigreindina í störfum sínum. Hver eru tækifærin og hverjar eru takmarkanirnar? Hvað er ChatGPT og hver er munurinn á ChatGPT og öðrum lausnum?  

Nánari upplýsingar og skráning

Riftun verksamninga - 23. september 2025

Fjallað verður um riftun verksamninga í mannvirkjaframkvæmdum og lögð áhersla á að varpa ljósi á þau sérsjónarmið sem koma til álita við beitingu úrræðisins í verktakarétti. Umfjöllunin mun einkum hverfast um ákvæði íslenska staðalsins ÍST-30 en til samanburðar verður einnig horft til settra laga og ákvæða annarra staðla, m.a. á Norðurlöndum.  

Þá verður m.a. fjallað um þá meginreglu að veruleg vanefnd sé skilyrði riftunar og rakin þau viðmið sem koma helst til álita við mat á því hvort skilyrðinu sé fullnægt. Jafnframt verður gerð grein fyrir tilteknum tilvikum sem eiga það sammerkt að heimila riftun án þess að skilyrðinu um verulega vanefnd sé fullnægt á tímamarki riftunar.  

Rætt verður um heimild annars vegar verkkaupa og hins vegar verktaka til þess að rifta verksamningi með hliðsjón af helstu vanefndum sem réttlætt geta beitingu úrræðisins. Enn fremur verður fjallað um framkvæmd og réttaráhrif riftunar, sjónarmið sem koma til álita við uppgjör í kjölfar riftunar og stuttlega um samspil riftunar við önnur vanefndaúrræði. Loks verður vikið að því hvort og þá hvaða breytingar þarf að gera á ÍST-30 að þessu leyti. 

 

Nánari upplýsingar og skráning

Fjölmiðlanámskeið fyrir lögfræðinga - 30. september 2025

Hagnýtt námskeið um fjölmiðlaumhverfið og hvernig sé best að nálgast hvern miðil fyrir sig. Ítarlega er farið yfir ólík markmið hvers miðils og stemningu ólíkra þátta eða miðla. Einnig skoðum við viðbúnar lengdir viðtala, ólíka markhópa, hlustunartölur og muninn á framkomu í sjónvarpi, útvarpi eða símtali. Þátttakendur fá ráðgjöf um fjölmiðlaframkomu, helstu atriði til að hafa í huga í samskiptum við fjölmiðlafólk og góða framkomutækni í ljósvakamiðlum. Farið verður yfir sterka uppbyggingu viðtala, meitlun skilaboða og hvernig best sé að undirbúa sig fyrir beina útsendingu á ljósvakamiðlum. Þá verða veitt góð ráð til að forðast helstu mistök í viðtölum og samskiptum við fjölmiðlafólk og blaðamenn; afhendingu gagna, samtöl off-record og hvaða vinnubrögð tíðkast í samskiptum blaðamanna og lögmanna í stórum saka- eða einkamálum. 

Nánari upplýsingar og skráning

Ábyrgðartryggingar – 2. október 2025

Á námskeiðinu verður fjallað ítarlega um ábyrgðartryggingar, sem er sú tegund vátrygginga, sem hvað mesta þýðingu hefur í starfi flestra lögmanna. Fyrst verður fjallað með almennum hætti um ábyrgðartryggingar, uppruna þeirra, eðli og tilgang. Rakið verður efni laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga að því leyti sem það snertir ábyrgðartryggingar og sérstaklega fjallað um reglu 44. gr. laganna um beina kröfu tjónþola gegn vátryggingarfélagi og hvað í henni felst.  

Fjallað verður um gildissvið ábyrgðartrygginga eins og því er lýst í skilmálum vátryggingafélaga, einkum hvaða tjón séu undanþegin ábyrgð. Þá verður fjallað um einstakar tegundir ábyrgðartrygginga, sem eru fjölmargar, og byrjað á lögmæltum ökutækjatryggingum, þ.e. ábyrgðartryggingu samkvæmt lögum um ökutækjatryggingar, en svo að starfsábyrgðartryggingum. Fjallað verður um eðli starfsábyrgðartrygginga, einkum gildissvið þeirra og hvers konar tjóni er vátryggt gegn, þ.e. annað hvort almennu fjártjóni eða annars konar tjóni. Þá verður sérstaklega gerð grein fyrir ýmsum starfsábyrgðartryggingum sem sérstaka þýðingu hafa t.d. starfsábyrgðartryggingar lögmanna, byggingarstjóra og fleira.   

Loks verður fjallað um tengsl ábyrgðartrygginga og skaðabótaréttar, eins og þessi tengsl birtast í II. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993. Þessi tengsl valda því að við ákveðin skilyrði getur skaðabótaábyrgð fallið niður.  

Sérstakt námskeið um stjórnendaábyrgðartryggingar verður haldið 16. október n.k. og fá þau sem skrá sig á bæði námskeið afslátt. 

Nánari upplýsingar og skráning

Straumar og stefnur í verktakarétti - 14. október 2025

Fjallað verður um þróun á nokkrum sviðum verktakaréttar s.s. um beitingu tafabóta, notkun nýrra samningsforma, og úrlausn ágreiningsmála. Þá verður farið yfir valin efni sem snerta viðbótarkröfur verktaka, meðal annars um kröfur vegna kostnaðar við framlengdan verktíma, truflanir á verki o.fl. 

Nánari upplýsingar og skráning

Kaup og sala fyrirtækja – 21. október 2025

Farið verður yfir aðdraganda og undirbúning við kaup og sölu fyrirtækja sem og helstu skjöl sem útbúin eru og nýtt í tengslum við slík kaup, en áhersla verður lögð á sölu fyrirtækja sem ekki hafa skráð hlutabréf sín á markað.

Nánari upplýsingar og skráning

Helstu atriði í verðmati fyrirtækja - 22. október 2025

Tilgangur námskeiðsins er að aðilar skilji helstu aðferðir til að leggja mat á virði fyrirtækja. Þar sem námskeiðið er stutt verður áhersla lögð á skilning á sjóðsstreymisverðmati umfram kennslu á framkvæmd verðmats.   

Kynntar verða helstu aðferðir við verðmat á fyrirtækjum s.s. margfaldara og núvirðingu sjóðstreymis. Rætt verður um tilgang verðmata og helstu óvissuþætti þeirra. Eftir fyrirlesturinn ættu þátttakendur að hafa heyrt flest verðmatshugtök sem upp koma í viðræðum um kaup og sölu á fyrirtækjum og hafa grunn til að byggja á ef þeir vilja kynna sér viðfangsefnið frekar. Gert er ráð fyrir að þátttakendur hafi grunnþekkingu á helstu liðum rekstrar- og efnahagsreikninga en ekki er ætlast til að þeir hafi tekið kúrs í bókhaldi eða fjármálum.  

Nánari upplýsingar og skráning

Veikindaréttur - 28. október 2025

Fjallað verður um veikindarétt starfsmanna og hlutverk trúnaðarlækna. Hvenær á starfsmaður rétt á launum og hvenær ekki? Gilda sömu samningar um alla starfsmenn? Farið verður yfir lagarammann sem og fordæmisgefandi dóma.

 

Nánari upplýsingar og skráning

Höfundaréttur í hnotskurn - 4. nóvember 2025

Námskeiðið er annað í röðinni í námskeiðslínu um höfundarétt. Að þessu sinni verður fjallað um sæmdarrétt og takmarkanir á höfundarétti vegna tjáningarfrelsis og upplýsingafrelsis.  

Nánari upplýsingar og skráning

Úrskurðarnefnd vátryggingamála: Hvernig má gera betur? - 6. nóvember 2025

Úrskurðarnefnd vátryggingamála afgreiðir milli 400 og 500 mál árlega. Málin koma ýmist beint frá almenningi eða í gegnum lögmenn. Á námskeiðinu verður farið yfir undirbúning mála, gagnaöflun og framsetningu þeirra. Þá verður fjallað um algeng álitaefni og boðið upp á samtal við þátttakendur um hlutverk og tilgang nefndarinnar.   

Nánari upplýsingar og skráning
 

Vefkökur

Við notum vefkökur til að bæta vefinn.