Námskeið

Grunnnámskeið í notkun gervigreindar – 2. apríl 2025 (fjarfundur)

Við höfum bætt við fimmta námskeiðinu um notkun gervigreindar 2. apríl 2025 en uppselt er á námskeiðið sem haldið verður þriðjudaginn 1. apríl!  

Á þessu grunnnámskeiði verður farið yfir hvernig lögfræðingar geta nýtt sér gervigreindina í störfum sínum. Hver eru tækifærin og hverjar eru takmarkanirnar? Hvað er ChatGPT og hver er munurinn á ChatGPT og öðrum lausnum? 

Nánari upplýsingar og skráning

Riftun verksamninga - frestað til hausts

Fjallað verður um riftun verksamninga í mannvirkjaframkvæmdum og lögð áhersla á að varpa ljósi á þau sérsjónarmið sem koma til álita við beitingu úrræðisins í verktakarétti. Umfjöllunin mun einkum hverfast um ákvæði íslenska staðalsins ÍST-30 en til samanburðar verður einnig horft til settra laga og ákvæða annarra staðla, m.a. á Norðurlöndum.  

Þá verður m.a. fjallað um þá meginreglu að veruleg vanefnd sé skilyrði riftunar og rakin þau viðmið sem koma helst til álita við mat á því hvort skilyrðinu sé fullnægt. Jafnframt verður gerð grein fyrir tilteknum tilvikum sem eiga það sammerkt að heimila riftun án þess að skilyrðinu um verulega vanefnd sé fullnægt á tímamarki riftunar.  

Rætt verður um heimild annars vegar verkkaupa og hins vegar verktaka til þess að rifta verksamningi með hliðsjón af helstu vanefndum sem réttlætt geta beitingu úrræðisins. Enn fremur verður fjallað um framkvæmd og réttaráhrif riftunar, sjónarmið sem koma til álita við uppgjör í kjölfar riftunar og stuttlega um samspil riftunar við önnur vanefndaúrræði. Loks verður vikið að því hvort og þá hvaða breytingar þarf að gera á ÍST-30 að þessu leyti. 

 

Nánari upplýsingar og skráning

Vindorka og aðrir nýir auðlindakostir – 8. apríl 2025

Þróun í auðlindanýtingu hefur verið ævintýri líkust á síðustu áratugum. Augljóst dæmi þessa er nýting vindorku, sem sýnist nú vera komin mjög á dagskrá hér á landi, en á sér talsvert lengri sögu í mörgum grannríkjum. Helstu álitaefnin lúta að því hvað sé vindorka, hverjir megi hagnýta hana og hvort og þá hvernig ríkisvaldið geti stýrt nýtingunni og innheimt gjald fyrir hana. Hver er gildandi réttur á þessu sviði og hvaða sjónarmið hafa komið til skoðunar hjá þeim fjölmörgu nefndum sem fjallað hafa um álitaefni tengd vindorkunýtingu undanfarinn áratug? Þá verður vikið að því hvernig réttarstaðan er í nokkrum samanburðarríkjum. Síðast en ekki síst verður horft til þeirra grenndarréttarlegu álitaefna sem vindorkunýting skapar óhjákvæmilega. 

Loks verður fjallað um nýja auðlindakosti sem ekki hafa fengið jafn mikið rými í almennri umræðu en geta orðið að raunveruleika fyrr en varir, t.d. nýting á sólarorku og sjávarföllum. Hvernig erum við lagalega undirbúin undir slíka viðbót og að hvaða marki nýtist sú löggjöf sem við höfum þegar sett um hefðbundnari auðlindanýtingu? 

 

Nánari upplýsingar og skráning

Sjálfbærniregluverk ESB á fleygiferð - 29. apríl 2025

Talsverð þróun hefur verið hvað varðar regluverk ESB/EES á sviði sjálfbærni á síðustu misserum. Meðal annars leggja reglurnar umfangsmiklar kröfur um upplýsingagjöf á fyrirtæki og fjármálageirann, auk annarra skyldna.  

Farið verður yfir helstu þætti regluverksins, þ.m.t. um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Þegar hafa reglugerð (ESB) 2019/2088, um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (SFDR), og reglugerð (ESB) 2020/852 um flokkunarkerfi Evrópusambandsins (EU Taxonomy) verið innleiddar í lög hér á landi.  Fleiri ESB/EES gerðir hafa verið samþykktar og munu verða innleiddar í lög. Þá er innan ESB unnið að breytingum og einföldun á reglunum í ljósi reynslunnar (fyrirhuguð ESG Omnibus Regulation) sem mun hafa áhrif hér á landi. Þá verður farið yfir helstu þætti í megin gerðunum, með áherslu á þær skyldur sem eru og munu verða lagðar á hérlendis sem og annars staðar innan EES.  

Nánari upplýsingar og skráning

Námskeið fyrir matsmenn - póstlisti

Lögmannafélag Íslands og dómstólasýslan standa fyrir námskeiði fyrir dómkvadda matsmenn. Skráning á póstlista.

Nánari upplýsingar og skráning
 

Vefkökur

Við notum vefkökur til að bæta vefinn.