Mál 19 2019

Mál 19/2019

Ár 2019, miðvikudaginn 18. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2019:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 2. september 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 3. september 2019. Greinargerð kærða barst nefndinni þann 20. september 2019 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann sama dag. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 8. október 2019 og voru þær sendar til kærða með bréfi þann 11. sama mánaðar. Loks bárust viðbótarathugasemdir frá kærða þann 28. október 2019 og voru þær sendar til kæranda með bréfi næsta dag þar sem tekið var fram að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi leitað til C lögmanns hjá D ehf. þann 19. júní 2019 með beiðni um hagsmunagæslu vegna nánar tilgreinds máls sem mun hafa lotið að ætluðu ofbeldi og stórfelldum ærumeiðingum þriggja aðila gagnvart kæranda. Í svari lögmannsins til kæranda þann sama dag kom fram að hann hefði ekki tök á að sinna málinu en mælti með kærða þess í stað. Í framhaldi af því beindi kærði tölvubréfi til kæranda og kvaðst glaður skoða málið. Fyrst þyrfu aðilar að funda og kærandi að láta kærða í té viðeigandi gögn. Í kjölfar þess myndi kærði yfirfara skjölin og aðilar ákveða með framhald málsins.

Af málsgögnum verður ráðið að aðilar hafi átt með sér fund þann 24. júní 2019. Á fundinum mun kærandi hafa veitt D ehf., C lögmanni og kærða umboð til að annast hagsmunagæslu í málinu, sem er meðal málsgagna, en hagsmunagæslan var þar afmörkuð með eftirfarandi hætti:

Ofangreind hagsmunagæsla snýr að fyrirhuguðum málsóknum eða öðrum sambærilegum aðgerðum fyrir mína hönd vegna mála tengdum eignarhaldi mínu á fasteign minni að E gagnvart núverandi og fyrrverandi meðeigendum mínum sem og hugsanlega öðrum aðilum sem þeir telja mig eiga réttindi gagnvar[t].

Á fundinum mun kærandi jafnframt hafa afhent kærða minnislykil með málsgögnum vegna ýmissa mála sem vörðuðu kæranda með einum eða öðrum hætti. Hefur kærði lagt fyrir nefndina afrit skjámynda af innihaldi tilgreinds minnislykils en hann hefur vísað til þess í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að á lyklinum hafi verið að finna alls 19 möppur með 714 mismunandi skjölum.

Ágreiningslaust er í málinu að kærði upplýsti kæranda um á fundinum að ekki yrði hafin vinna við málið og skoðun málsgagna fyrr en innborgun inn á lögmannsþóknun, að fjárhæð 300.000 krónur, hefði verið innt af hendi af hálfu kæranda inn á vörslufjárreikning D ehf. Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi innt þá greiðslu af hendi þennan sama dag, 24. júní 2019.

Af málsgögunm verður ráðið að þann 3. júlí 2019 hafi kærði verið búinn að yfirfara þau gögn að hluta sem kærandi hafði látið honum í té á fyrsti fundi málsaðila. Í tölvubréfi kærða til kæranda þann dag sagði meðal annars eftirfarandi:

Nú er ég búinn að eyða nokkrum tíma í það að fara í gegnum gögnin sem ég fékk hjá þér um daginn. Ég er ekki búinn að fara ítarlega í gegnum hvert einstaka skjal sem er á minnislyklinum en valdi úr þó nokkur skjöl sem mér fannst líklegust miðað við heiti þeirra til að geyma upplýsingar eða gögn sem hægt væri að nota til stuðnings máli þínu.

Ég er því miður þeirrar skoðunar að í þessum gögnum sé ekki að finna ærumeiðandi ummæli sem myndu gera okkur kleift að gera löglegar kröfur á hendur þeim aðilum sem um ræðir og að þau ummæli sem ég fann og væri mögulega hægt að halda fram að væru meiðandi í þinn garð eru síðan 2015 og 2016 og er því sök í þeim málum fyrnd, fyrnist á 2 árum, og ekkert hægt að gera vegna þeirra núna.“

Í svari kæranda til kærða þennan sama dag kom fram að um niðurdragandi upplýsingar væri að ræða. Kærandi hefði vitað að sum mál væru ónýt sem sakamál en ekki að ófært væri að fara í einkamál vegna ærumeiðinga. Þá mæltu aðilar sér mót á fundi næsta dag en fyrir þann fund sendi kærandi upplýsingapunkta til kærða.

Ágreiningslaust er að fundur var haldinn milli málsaðila þann 4. júlí 2019, sem C lögmaður sat jafnframt að hluta, þar sem umræður munu hafa farið fram um réttarstöðu kæranda í þeim málum sem kærði hafði skoðað og kynnt sér. Þá hefur kærði borið því við að kærandi hafi á fundinum lýst yfir vilja til að höfða mál vegna ágreinings um nánar tilgreindan skúr sem mun vera á lóð á fasteign kæranda en gögn þar að lútandi mátti finna á fyrrgreindum minnislykli sem afhentur hafði verið kærða þann 24. fyrri mánaðar.

Fyrir liggur að kærandi sendi tölvubréf til kærða þann 5. júlí 2019. Með tölvubréfinu fylgdu sjö skjöl, þar á meðal eignaskiptayfirlýsing fasteignar kæranda að E í Reykjavík. Þá var í tölvubréfinu að finna nánari skýringar kæranda á ætluðum brotum gagnaðila hans.

Kærandi sendi á ný langt og ítarlegt tölvubréf til kærða þann 28. júlí 2019. Var í tölvubréfinu meðal annars að finna lýsingar kæranda á ætluðum brotum og ærumeiðingum gagnaðila hans gagnvart sér. Þá óskaði kærandi eftir í niðurlagi bréfsins að kærði myndi rita gagnaðilum hans kröfubréf, líkt og talað hefði verið um á fyrsta fundi málsaðila, og að því búnu yrði farið í málsókn. Þá fylgdi kærandi erindinu eftir með öðru tölvubréfi til kærða þann 31. sama mánaðar þar sem frekari upplýsingar voru veittar um sama efni.

Málsgögn bera með sér að kærandi hafi mætt á fund hjá kærða og C lögmanni þann 2. ágúst 2019. Á fundinum munu lögmennirnir hafa gert kæranda grein fyrir réttarstöðu hans og því mati þeirra að ólíklegt væri að kærandi gæti náð fram þeirri niðurstöðu sem hann vildi með málshöfðun. Samkvæmt því hafi kæranda verið ráðlagt að láta kyrrt liggja þar sem nánast ómögulegt yrði að ná fram þeim málalokum sem hann hefði vonast eftir.

Fyrir liggur í málsgögnum tölvubréf sem kærandi sendi til kærða þann 12. ágúst 2019. Í tölvubréfinu var annars vegar vísað til þjófnaðar á dekkjum í eigu kæranda. Hins vegar kvaðst kærandi vilja fara í „skúrsmálið“ en lýsti því að hann þorði því ekki með kærða og C lögmanni meðan þeir teldu líkurnar á sigri í málinu vera aðeins 50%. Kvaðst kærandi telja vera „yfir 90% líkur og hátt í 100% líkur fyrir niðurstöðu um ólöglegt byggingarleyfi byggingarfulltrúa og ólögmæti skúrsins ef rétt verður farið í málið.“ Þá lýsti kærandi því að hann væri ósammála að 50% líkur væru á að vinna „skúrsmálið“, eins og C lögmaður hafi talið vera.

Í tölvubréfi kæranda til kærða, dags. 26. ágúst 2019, kom fram að komnir væru yfir tveir mánuðir síðan kærði sagðist myndu skrifa gagnaðilum kæranda kröfubréf. Ekkert hefði staðist af því sem kærði hefði sagt heldur hefði hann þvert á móti ekki talið grundvöll fyrir málunum. Hafi kærði vitað þegar í upphafi hvernig málin lægju en þrátt fyrir það krafist fyrirframgreiðslu að fjárhæð 300.000 krónur frá kæranda. Gerði kærandi kröfu í tölvubréfinu um endurgreiðslu fyrrgreindrar fjárhæðar en að öðrum kosti yrði farið með málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá afturkallaði kærandi lögmannsumboð kærða og D ehf. í tölvubréfinu.

Í svari kærða til kæranda, dags. 28. ágúst 2019, var tiltekið að búið væri að leggja nokkra vinnu í mál kæranda við að fara í gegnum öll málsgögn. Greina hafi þurft innihald gagnanna sem og  að finna út hvort og þá hvernig hægt væri að nota þau til að sækja þau réttindi sem kærandi hafi talið sig eiga eða til að færa sönnur á hin ætluðu brot. Auk þess hefðu verið haldnir fundir og tími farið í samskipti við kæranda. Þá lýsti kærði því að hann myndi ræða málið við C lögmann og að samband yrði haft við kæranda til að finna farsæla lausn á málinu.

Kærði bauð kæranda á fund til að ræða um lausn og uppgjör á málinu með tölvubréfi þann 29. ágúst 2019. Í svari kæranda þann sama dag kom fram að ekki væri vilji til að funda á ný heldur einungis til að fá endurgreiðslu þeirra fjármuna sem inntir hefðu verið af hendi.

Í tölvubréfi kærða til kæranda, dags. 30. ágúst 2019, var ferli málsins lýst, þar á meðal um hvaða vinna hefði verið látin í té af hálfu D ehf. og hvað fram hefði farið á fundi málsaðila þann 2. sama mánaðar. Var því lýst að ekki væri unnt að fallast á kröfu kæranda um endurgreiðslu fjármuna. Þegar hefðu verið lagðar 10 vinnustundir í málið af hálfu lögmanna. Þó svo að kærandi hefði ekki verið sáttur við mat lögmannanna á réttarstöðu og möguleikum til að ná fram ákveðnum niðurstöðum þá yrði samt sem áður að taka greiðslu fyrir þá vinnu sem unnin hefði verið samkvæmt ósk kæranda. Var því lýst að áfallinn kostnaður væri að fjárhæð 344.720 krónur með virðisaukaskatti. Kærði væri hins vegar reiðubúinn að veita afslátt þannig að heildarfjárhæð reiknings frá lögmannsstofunni yrði að fjárhæð 261.194 krónur.

Kærandi hafnaði fyrrgreindu sáttaboði kærða í tölvubréfi þennan sama dag, 30. ágúst 2019.

Samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslum vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda varði kærði alls 8,5 klukkustundum í málið á tímabilinu frá 24. júní til og með 2. ágúst 2019. Í skýringum greinir að um hafi verið að ræða vinnu við yfirferð gagna, mat á réttarstöðu á grundvelli þeirrar skoðunar auk funda og annarra samskipta við kæranda vegna málsins. Samkvæmt tímaskýrslunni var tímagjald kærða vegna verksins að fjárhæð 26.900 krónur auk virðisaukaskatts. Í tímaskýrslunum er jafnframt að finna skráningu vegna vinnu C lögmanns í þágu kæranda, þ.e. nánar tiltekið til alls 1,5 klukkustundar á tímagjaldinu 32.900 krónur auk virðisaukaskatts, vegna funda dagana 4. júlí og 2. ágúst 2019.

Samkvæmt gögnum málsins og málatilbúnaði aðila voru tveir reikningar gefnir út vegna lögmannsstarfa kærða og C lögmanns í þágu kæranda. Var þannig annars vegar gefinn út reikningur af hálfu D ehf. á hendur kæranda þann 26. júlí 2019 að fjárhæð 166.780 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til vinnu kærða í þágu kæranda í alls 5 klukkustundir. Hins vegar gaf lögmannsstofan út reikning á kæranda þann 27. ágúst 2019 að fjárhæð 177.940 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til vinnu kærða í þágu kæranda í alls 3,5 klukkustundir og vinnu C í þágu kæranda í alls 1,5 klukkustund.

Svo sem fyrr greinir lagði kærandi fram kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 2. september 2019.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé annars vegar krafist að útgefnir reikningar lögmannsstofu kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda verði felldir niður þannig að greiðsla sem innt hafi verið af hendi af hálfu kæranda, að heildarfjárhæð 300.000 krónur, verði endurgreidd, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar sé þess krafist af hálfu kæranda að kærði verði látinn sæta viðeigandi agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Þá krefst kærandi málskostnaðar úr hendi kærða vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Vísað er til þess í kvörtun að kærandi hafi verið svikinn og blekktur af kærða á tímabilinu frá júní – ágúst 2019. Upphaf málsins megi rekja til tölvubréfs sem kærandi hafi sent til C lögmanns, dags. 19. júní 2019, þar sem óskað hafi verið eftir lögmannsaðstoð vegna persónulegs máls kæranda sem lotið hafi að langvarandi broti þriggja aðila gagnvart kæranda. Hafi kærði svarað því erindi fyrir hönd D ehf. þennan sama dag þar sem fram hafi komið að C lögmaður gæti ekki tekið að sér málið en að kærði gæti skoðað það með kæranda.

Kærandi vísar til þess að hann hafi í framhaldinu hitt kærða á skrifstofu lögmannsstofunnar. Hafi kærði þar verið allur að vilja gerður að fara í málin og verið sannfærandi, en ekkert staðist. Þannig hafi kærði lýst því að hann myndi kafa í málin svo hann gæti unnið þau vel. Þá hafi komið fram hjá kærða að ef málsatvik væru svo sem kærandi héldi fram myndi hann skrifa gagnaðilum kæranda kröfubréf og fara í málsókn ef ekki yrði við þeim brugðist. Áður þyrfti kærði hins vegar að fá innborgun inn á vörslufjárreikning að fjárhæð 300.000 krónur.

Kærandi kveðst hafa útvegað kærða gögn, myndir og upptökur vegna þeirra mála sem um ræddi á svokölluðum minnislykli. Í framhaldi af því hafi kærði ekkert gert gagnlegt í málunum. Þvert á móti hafi komið fram í tölvubréfi kærða, dags. 3. júlí 2019, að ekki væru um ærumeiðandi ummæli að ræða, líkt og kærandi hefði haldið fram, að ekki væri unnt að gera löglegar kröfur á hendur viðkomandi gagnaðilum auk þess sem kröfur væru fyrndar. Í samræmi við efni tölvubréfsins hafi kærandi hitt kærða á fundi næsta dag þar sem kærandi hafi staðið í þeirri trú að kærði vildi gera eitthvað í öðrum málum sem kærandi hafi leitað til hans með. Kærði hafi hins vegar ekkert vitað um þau mál heldur hafi hann vísað þeim frá eins og lögregla hafi gert. Er því lýst að kærandi skilji ekki hvers vegna kærði hafi viljað annan fund vegna málsins.

Kærandi lýsir því að kærði hafi tiltekið á fundinum að hann myndi hvorki rita kröfubréf vegna umræddra mála né fara í málsókn. Betra væri fyrir kæranda að gefa eftir vegna málanna. Byggir kærandi á að kærði hafi einungis óskað eftir fundinum þannig að unnt yrði að innheimta þóknun. Þá hafi kærði ekki verið að vinna fyrir kæranda heldur sjálfan sig.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi komið með ýmsar skýringar fyrir því að fara ekki í málin. Hafi kærði þannig ýmist vísað til þess að málin væru gömul eða fyrnd og að af þeim sökum væri ekki unnt að standa við þau lagalega. Þá hefði lögregla vísað málunum frá. Bendir kærandi á að kærði hafi vitað það frá öndverðu en samt tekið sér 300.000 krónur frá kæranda fyrir að kafa ofan í þau sömu mál. Að sama skapi hafi kærði vitað eftir fyrsta fund aðila hvað málin væru gömul. Þrátt fyrir það hafi kærði tekið að sér skoðunina og óskað eftir fyrirframgreiðslu frá kæranda.

Vísað er til þess að eftir annan fund aðila hafi kærandi verið með mikinn vafa og visst vantraust á kærða. Í framhaldinu hafi kærandi sent nokkur tölvubréf til kærða þar sem farið hafi verið fram á að kærði myndi rita kröfubréf og að farið yrði í málin.

Kærandi lýsir því að kærði hafi hringt í sig í kjölfarið og óskað eftir fundi sem C lögmaður myndi sitja. Hafi kærði tjáð kæranda í símtalinu að lögmennirnir vildu ræða framhaldið við kæranda. Er vísað til þess að kærandi hafi mætt á fundinn þar sem hann hafi ekki verið búinn að átta sig á því að verið væri að búa til óþarfa vinnu og ráð sem yrði reikningsfærð. Á þeim fundi hafi lögmennirnir tiltekið það eitt að litlar sem engar líkur væru á að árangur hlytist af málarekstri vegna hinna svonefndu lögreglumála. Þá hafi C lögmaður upplýst óbeðinn á fundinum um að 50% líkur væru á að vinna svonefnt skúrsmál, sem kærandi hafi ekki beðið um. Hafi fundurinn verið tilgangslaus með öllu. Þá hafi kærði verið búinn að hitta kæranda á þremur fundum á greindum tíma án þess að kærandi hefði nokkurt gagn af.

Kærandi byggir á að kærði hafi búið til óþarfa verkefna á kostnað kæranda. Fyrir þessa gagnlausu vinnu hafi kærði svo ætlað sér að taka þóknun fyrir, á grundvelli blekkinga og svika.

Kærandi vísar til tölvubréfs sem hann hafi sent til kærða, dags. 26. október 2019, þar sem gerðar hafi verið nánar tilgreindar kröfur auk þess sem lögmannsumboð hafi verið afturkallað. Nánar tiltekið hafi atvikum verið lýst vegna ætlaðrar lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda og þess krafist að innborgun, að fjárhæð 300.000 krónur, yrði endurgreidd. Að öðrum kosti yrði farið með málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Vísað er til þess að kærði hafi svarað fyrrgreindu erindi kæranda og óskað eftir öðrum fundi sem kærandi hafi hafnað. Í framhaldinu hafi kærði sent kæranda tölvubréf þar sem hann hafi varið sig með rangfærslum.

Varðandi ætlaðar rangfærslur kærða vísar kærandi til þess að hann hafi afhent minnislykil við upphaf samskipta aðila með málsgögnum. Hafi kærandi sett þar inn nokkrar möppur aukalega um svonefndan óleyfisskúr og framkvæmdir en upplýst strax um að það mál yrði einungis skoðað síðar. Þannig hafi kærða ekki verið falið að skoða það mál. Þá hafi engin beðið kærða um að yfirfara 700 skjöl, líkt og kærði haldi ranglega fram að gert hafi verið.

III.

Kærði krefst þess fyrir nefndinni að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda vegna reksturs málsins, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærði kveðst mótmæla staðhæfingum og málatilbúnaði kæranda til nefndarinnar. Er vísað til þess að kærandi hafi með erindi sínu vegið að starfsheiðri kærða sem og í fyrirliggjandi tölvubréfum. Hafi kærandi þar viðhaft ummæli sem séu bæði meiðandi og með öllu óverðskulduð.

Kærði vísar til þess að hann sé með sjálfstæðan rekstur lögmannsstofu að Sundagörðum 2 í Reykjavík. Auk þess hafi kærði tekið að sér að sinna ákveðnum verkefnum í samstarfi og tengslum við C lögmann sem reki lögmannsstofuna E ehf. Er á það bent að kærandi hafi haft samband við C lögmann þann 19. júní 2019 en þar sem hann hafi ekki haft tök á að sinna málinu hafi verið bent á kærða. Hafi kærandi rætt við kærða og niðurstaðan orðið sú að boða til fundar á starfsstöð D ehf. þar sem kærði hafi jafnframt óskað eftir að fá gögn málsins. Í svari kæranda, dags. 20. sama mánaðar, hafi komið fram að málin væru nokkur og gögnin mikil en að þau yrðu meðferðis á fundinum á minnislykli.

Er vísað til þess að fyrsti fundur málsaðila hafi verið haldinn 24. júní 2019. Á fundinum hafi málefni kæranda verið rædd og aðilinn viljað að hagsmunagæsla myndi snúa að meiðyrðum sem hann hafði orðið að þola af hálfu þriggja meðeigenda sinna að fasteign að E. Auk þess hefði átt að skoða möguleikann á að leggja fram kærur til lögreglu og gera kröfur á hendur sömu aðilum vegna ýmissa atvika sem komið hefðu upp á umliðnum árum. Kveðst kærði hafa kynnt kæranda að hann myndi í framhaldinu fara yfir gögnin í þeim tilgangi að meta stöðu hins síðargreinda í umræddum málum. Þá hafi kærði kynnt kæranda í lok fundarins, sem staðið hafi yfir í klukkustund, að ef lögmannsstofa kærða ætti að taka að sér hagsmunagæslu í málinu þyrfti að greiða 300.000 krónur inn á vörslufjárreikning stofunnar til tryggingar á skilvíum greiðslum fyrir unnin störf. Er því lýst að kærandi hafi lagt tilgreinda fjárhæð inn sama dag og sent staðfestingu þess efnis í tölvubréfi til kærða auk þess sem gengið hafi verið frá lögmannsumboði á fundinum.

Því er lýst að kærandi hafi afhent kærða minnislykil sem hafi innihaldið gögn vegna málsins sem kærandi hafi talið að fært gætu sönnur á að brotið hafi verið gegn honum á margvíslegan hátt. Hafi verið um að ræða 19 möppur á lyklinum með alls 714 mismunandi skjölum. Vísar kærði til þess að hann hafi tjáð kæranda að gögnin yrðu yfirfarin og í framhaldinu yrðu næstu skref metin. Aldrei hafi kæranda hins vegar verið lofað neinu öðru en að farið yrði yfir viðkomandi gögn og að kæranda yrði í kjölfar þess veitt faglegt mat á réttarstöðunni.

Kærði vísar til þess að hann hafi eytt tveimur og hálfri klukkustund í að fara yfir hluta gagnanna þann 3. júlí 2019. Eftir þá yfirferð hafi hann sent tölvubréf til kæranda þar sem kynnt hafi verið það mat kærða að ekki væri lagagrundvöllur fyrir meiðyrðamáli. Þó svo að einhver ummælanna hafi verið meiðandi og ósæmileg að mati kæranda þá væri það ekki svo samkvæmt lögum auk þess sem ætluð sök væri fynd. Er því lýst að kærandi hafi viljað ræða málið frekar og komið í því skyni til fundar með kærða og C lögmanni næsta dag.

Vísað er til þess að fyrir fundinn, þann 4. júlí 2019, hafi kærandi sent kærða skjal með frekari skýringum kæranda á samskiptum við meðeigendur, ætluðum ærumeiðingum, árásum og vangaveltum um þau úrræði sem kærandi hafi viljað að gagnaðilum hans yrði gert að hlíta og hvaða kröfur yrðu hafðar uppi. Lýsir kærði því að á fundinum, sem staðið hafi yfir í tvær klukkustundir, hafi staða málsins verið rædd fram og aftur við kæranda og honum gerð grein fyrir því að enginn lagagrundvöllur væri fyrir kröfum þeim sem hann vildi gera. Samkvæmt því hafi kæranda verið ráðlagt að láta kyrrt liggja og reyna frekar að koma á sátt eða þá að reyna að hunsa þá aðila sem hann hefði átt sökótt við. Þá hafi kærandi á fundinum rætt um vilja sinn til að fara í mál vegna skúrs sem staðið hafi á lóðinni að E þar sem ekki væri leyfi fyrir honum auk þess sem lagningu rafmagns í skúrinn hefði verið ábótavant. Hafi kærandi fylgt því eftir með tölvubréfi til kærða næsta dag þar sem finna hafi mátt skjöl er lutu að tilgreindri fasteign, þar á meðal eignaskiptasamning.

Kærði lýsir því að hann hafi móttekið tölvubréf frá kæranda þann 28. júlí 2019. Um hafi verið að ræða mjög langt og ítarlegt tölvubréf þar sem kærandi hafi til dæmis ítrekað vilja sinn til að fara í meiðyrðamál auk þess að tilgreina ætlaða líkamsárás sem finna mætti í gögnum sem hefðu þegar verið afhent kærða. Í tölvubréfinu hafi jafnframt ítrekað verið minnst á „óleyfisskúrinn“ sem stæði á lóðinni. Er vísað til þess að vegna lesturs á tölvubréfinu sem og vinnu við að yfirfara hljóð- og myndskrár hafi kærði skráð alls eina klukkustund á verkið. Sem fyrr hafi það verið mat kærða að ekki væri að finna stoð fyrir málatilbúnaði kæranda í málsgögnum.

Vísað er til þess að kærandi hafi enn á ný sent tölvubréf til kærða þann 31. júlí 2019 þar sem komið hafi fram vilji kæranda til þess að lagðar yrðu fram kærur hjá lögreglu vegna ætlaðs þjófnaðar og skemmdarverka. Kveðst kærði hafa rætt við kæranda í framhaldi þess í síma þar sem upplýst hafi verið að ómögulegt væri að leggja fram kærur þar sem engar sannanir lægju fyrir sem og vegna þeirrar staðreyndar að kærandi hefði þá þegar kært málin til lögreglu sem fellt hefði málin niður. Þá hafi ríkissaksóknari staðfest þær ákvarðanir í einstaka tilvikum eftir kæru kæranda til embættisins.

Kærði vísar til þess að þann 1. ágúst 2019 hafi verið skráð ein klukkustund í vinnu vegna verksins en það hafi verið vegna fyrirhugaðs fundar með kæranda og vilja hans til að fara áfram með málefni tengd „óleyfisskúrnum“. Hafi kærði við þá skoðun farið yfir nokkuð magn skjala, þar á meðal og sérstaklega ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. ágúst 2017 og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. xx/xxxx frá x. nóvember 2018. Hafi það verið mat kærða og C lögmanns á grundvelli gagnanna að ekki væri ráðlegt að höfða dómsmál þar sem takmarkaðar líkur væru á niðurstöðu í samræmi við óskir kæranda og vegna hagsmunamats með tilliti til mögulegs kostnaðar af rekstri slíks máls. Í framhaldi af því hafi kærandi verið beðinn um að koma á fund á lögmannsstofunni þar sem gera hafi átt honum grein fyrir stöðu mála.

Vísað er til þess að málsaðilar hafi átt með sér fund þann 2. ágúst 2019 sem C lögmaður hafi jafnframt setið. Hafi fundurinn staðið í eina og hálfa klukkustund þar sem lögmennirnir hafi lýst þeirri skoðun sinni að ekki væri að finna nein gögn sem gæfu ótvírætt til kynna að niðurstaða dómsmáls hvað skúrinn varðaði yrði kæranda í hag. Þá hafi kærandi verið upplýstur um kosti og galla þess að höfða dómsmál en lögmennirnir hafi ráðlagt kæranda eindregið frá því að ráðast yrði í slík málaferli. Ef kærandi væri því ósammála myndi C lögmaður stefna málinu en þá þyrfti að tryggja að kostnaður vegna málaferlanna fengist greiddur.

Kærði vísar til tölvubréfs kæranda frá 12. ágúst 2019 þar sem rætt hafi verið um þjófnað og fleiri brot auk þess sem kærandi hafi lýst vilja sínum til að fara í „skúrsmálið“. Hafi kærandi jafnframt lýst því í tölvubréfinu að hann væri ósammála mati lögmanna um líkur í slíku dómsmáli. Kveður kærði ljóst af efni tölvubréfsins að kærandi hafi fundað um þau málefni og rætt um vilja sinna til að reka slíkt mál fyrir dómi.

Því er lýst að kærandi hafi sakað kærða um óheiðarleika í tölvubréfi, dags. 26. ágúst 2019, auk þess sem lögmannsumboð hafi verið afturkallað. Þá hafi kærandi gert kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem hann hafði innt af hendi inn á vörslufjárreikning D ehf.

Kærði kveðst hafa svarað fyrrgreindu erindi þann 28. sama mánaðar. Hafi þar komið fram að búið væri að leggja nokkra vinnu í mál kæranda, bæði við yfirferð gagna sem og með fundahöldum og öðrum samskiptum við kæranda. Þá vísar kærði til þess að hann hafi reynt að fá kæranda á fund sem hann hafi neitað. Að endingu hafi kæranda verið boðin sátt í tölvubréfi hinn 30. ágúst 2019. Því erindi hafi kærandi svarað með ítrekun krafna um fulla endurgreiðslu auk ásakana um að blekkingum hefði verið beitt.

Kærði byggir á að D ehf. hafi sinnt málinu af fagmennsku frá upphafi og í samræmi við lög og siðareglur lögmanna. Þannig hafi kæranda verið veitt efnislegt mat á réttarstöðunni á grundvelli skoðunar á þeim gögnum sem hann hafi afhent lögmönnum. Þá hafi kæranda verið gerð grein fyrir þeim áætlaða kostnaði sem gæti hlotist af hagsmunagæslunni enda þess óskað í upphafi að 300.000 krónur yrðu lagðar inn á vörslufjárreikning lögmannsstofunnar.

Er á það bent að eftir að lögmenn stofunnar hafi veitt kæranda faglegt mat sitt á stöðu fjölda ágreiningsmála eftir yfirferð gagna, hafi kærandi afturkallað umboð til lögmanna þar sem hann hafi ekki verið sáttur við mat lögmannanna. Auk þess krefjist kærandi þess að lögmennirnir taki enga þóknun fyrir störf sín og endurgreiði sér alla þá fjármuni sem greiddir hafi verið. Byggir kærði á að ekki sé unt að fallast á slíkt enda hafi mikil vinna farið í yfirferð gagna og greiningu á réttarstöðu kæranda ásamt samskiptum við aðilann. Þá hafi tímaskráningu vegna þeirrar vinnu sem unnin hafi verið í þágu kæranda verið stillt mjög í hóf. Jafnframt því sé hvergi í kvörtun kæranda að finna sönnun fyrir því að kærði hafi gert á hlut hans í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Vísað er til þess að lögmannsstofa kærða hafi gefið út reikning vegna vinnu við mál kæranda þann 26. júlí 2019 sem hafi tekið til fimm vinnustunda kærða. Annar reikningur hafi verið gefin út vegna vinnu í þágu kæranda þann 27. ágúst 2019 og þá vegna 3,5 vinnustunda kærða og 1,5 vinnustunda C lögmanns. Samtals séu reikningarnir að fjárhæð 344.720 krónur. Samkvæmt því standi kærandi í skuld við lögmannsstofuna að fjárhæð 44.720 krónur þegar tekið hafi verið tillit til þeirrar innborgunar sem kærandi hafi innt af hendi við upphaf lögskipta aðila.

Að endingu vísar kærði til þess að hann hafi lagt það til málsins sem hann hafi talið sannast eftir lögum og eigin samvisku. Samkvæmt því hafi kærandi á öllum stigum hagsmunagæslunnar verið veittar upplýsingar og ráðgjöf samkvæmt hlutlægu mati lögmanna. Bendir kærði jafnframt í því samhengi á að kærandi hafi aldrei verið rukkaður fyrir störf tveggja lögmanna á sama tíma. Hafi tímaskráningum í málinu verið háttað þannig að ef tveir lögmenn unnu að málinu á sama tíma, til dæmis á fundum með kæranda, þá hafi kærandi aðeins verið rukkaður fyrir störf annars þeirra, svo sem fyrirliggjandi tímaskýrslur beri með sér.

Niðurstaða

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi gerst brotlegur við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærða.

 I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Fyrir liggur, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan, að kærandi leitaði til kærða þann 19. júní 2019 með beiðni um hagsmunagæslu vegna máls sem laut að ætluðu ofbeldi og stórfelldum ærumeiðingum þriggja aðila gagnvart kæranda. Þá er ágreiningslaust að kærði tók að sér að skoða málið í þágu kæranda með tilliti til hugsanlegra kröfuréttinda hins síðargreinda í kjölfar fundar málsaðila þann 24. sama mánaðar en á þeim fundi var jafnframt gengið frá umboði vegna lögmannsþjónustunnar auk þess sem kærandi lét kærða í té umtalsvert magn gagna vegna athugunarinnar. Sama dag greiddi kærandi 300.000 krónur inn á vörslufjárreikning lögmannsstofu kærða sem skyldi skoðast sem trygging fyrir greiðslu lögmannsþóknunar.

Af málsgögnum verður skýrlega ráðið að kærði hafi upplýst kæranda um niðurstöður athugunar hans á grundvelli og framhaldi málsins í tölvubréfi þann 3. júlí 2019. Kom þar meðal annars fram að  á grundvelli málsgagna væri það mat kærða að ekki væri að finna ærumeiðandi ummæli í garð kæranda í fyrirliggjandi gögnum og að því væri ekki stoð fyrir kröfugerð af þeim sökum jafnframt því sem allar mögulegar kröfur væru fyrndar.

Að mati nefndarinnar verður jafnframt ráðið með óyggjandi hætti af málsgögnum að kærandi hafi falið kærða að kanna grundvöll fyrir málarekstri á hendur þriðju aðilum vegna ætlaðs ólögmætis skúrs sem mun vera á lóð fasteignarinnar að E. Fyrir liggur að gögn þar að lútandi mátti finna á minnislykli sem kærandi hafði látið kærða í té við upphaf lögskipta aðila. Þá er ágreiningslaust að kærði og samstarfsmaður hans, C lögmaður, gerðu kærandi grein fyrir réttarstöðu hans um það efni á fundi þann 2. ágúst 2019, þar á meðal um að ólíklegt væri að kærandi gæti náð fram þeirri niðurstöðu sem hann vildi í gegnum málarekstur fyrir dómi.

Eins og málið liggur fyrir nefndinni eru ekki skilyrði til annars en að telja að kærði hafi tekið þau málefni sem kærandi leitaði til hans með til athugunar og skoðunar með það fyrir augum að veita kæranda ráðgjöf um réttarstöðu hans vegna málanna, þar á meðal um hugsanleg kröfuréttindi sem kærandi kynni að eiga á hendur þriðju aðilum. Ekkert annað er fram komið í málinu en að sú ráðgjöf sem kærði veitti kæranda í kjölfar athugunarinnar, sem byggði á greiningu og skoðun kærða á viðamiklum gögnum, hafi verið í fullu samræmi við þann áskilnað sem gerður er í 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Þá verður ekki annað ráðið af málsgögnum og málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni en að vinna kærða að þessu leyti hafi verið í samræmi við góða lögmannshætti, svo sem áskilið er í fyrrgreindum heimildum, og að kæranda hafi samkvæmt því verið veitt ráðgjöf eftir því sem kærði vissi sannast eftir lögum og eigin samvisku.

Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið er það álit nefndarinnar að kærandi hafi í engu sýnt fram á í málinu að kærði hafi beitt blekkingum og/eða svikum við rækslu þeirra lögmannsstarfa sem hér um ræðir. Þá verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að öðru leyti að kærði hafi í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Fyrir liggur í málinu að kærði tók að sér lögmannsstörf í þágu kæranda vegna þeirra mála sem leitað var til hans með líkt og áður greinir. Verður að mati nefndarinnar að telja ágreiningslaust að samningssamband hafi komist á milli málsaðila um þau störf kærða í þágu kæranda en slíkt hið sama verður ráðið af fyrirliggjandi umboði, dags. 24. júní 2019, sem og greiðslu kæranda inn á vörslufjárreikning lögmannsstofu kærða þann sama dag að fjárhæð 300.000 krónur.

Á grundvelli þeirra lögmannsstarfa gaf lögmannsstofa kærða út tvo reikninga á hendur kæranda. Var þannig annars vegar gefinn út reikningur af hálfu D ehf. á hendur kæranda þann 26. júlí 2019 að fjárhæð 166.780 krónur með virðisaukaskatti, þar sem tiltekið var að hann tæki til vinnu kærða í þágu kæranda í alls 5 klukkustundir. Hins vegar gaf lögmannsstofan út reikning á kæranda þann 27. ágúst 2019 að fjárhæð 177.940 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til vinnu kærða í þágu kæranda í alls 3,5 klukkustundir og vinnu C lögmanns í þágu kæranda í alls 1,5 klukkustund. Samkvæmt því er heildarfjárhæð reikninga vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda að fjárhæð 344.720 krónur með virðisaukaskatti.

Tilgreindir reikningar eru að öllu leyti í samræmi við fyrirliggjandi tímaskýrslur í málinu. Í þeim greinir að kærði hafi varið alls 8,5 klukkustundum í málið á tímabilinu frá 24. júní til og með 2. ágúst 2019 og að tímagjald vegna verksins hafi verið að fjárhæð 26.900 krónur auk virðisaukaskatts. Í skýringum greinir, líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan, að um hafi verið að ræða vinnu við yfirferð gagna, mat á réttarstöðu á grundvelli þeirrar skoðunar auk funda og annarra samskipta við kæranda vegna málsins. Þá er jafnframt í tímaskýrslunum að finna skráningu vegna vinnu C lögmanns í þágu kæranda, þ.e. nánar tiltekið alls 1,5 klukkustund á tímagjaldinu 32.900 krónur auk virðisaukaskatts, vegna funda dagana 4. júlí og 2. ágúst 2019.

Að mati nefndarinnar var áskilið tímagjald kærða ekki úr hófi. Þá verður ekki séð að tímafjöldi samkvæmt tímaskýrslu hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þá athugun, skoðun og mat á réttarstöðu sem leggja verður til grundvallar að kærða hafi verið falið að sinna. Verður í því samhengi að líta til þess að við rækslu starfans var kærða nauðsynlegt að kynna sér viðamikil gögn sem kærandi hafði látið honum í té. Auk þess liggur fyrir að málsaðilar áttu í reglulegum samskiptum og fundum frá júní- til ágústmánaðar 2019 vegna málsins, þar á meðal um framvindu málsins, gögn og mat á réttarstöðu kæranda. Hefur kærandi í engu sýnt fram á að kærði hafi innt af hendi óumbeðna eða ónauðsynlega vinnu í málinu.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið sem og að teknu tilliti til málsgagna og atvika allra, er það mat nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilda þóknun vegna þeirra lögmannsstarfa í þágu kæranda sem hér um ræðir. Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf D ehf. í þágu kæranda sé 344.720 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem lögmannsstofa kærða áskildi sér vegna starfa í þágu kæranda var hæfileg. Samkvæmt því er hvorki efni til að fallast á kröfu kæranda um að reikningar kærða verði felldir niður né að áskilið endurgjald hans sæti lækkun.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Áskilin þóknun kærða, B, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Kristinn Bjarnason lögmaður

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson