Mál 22 2019

Mál 22/2019

Ár 2020, föstudaginn 14. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2019:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. september 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 1. október 2019. Greinargerð kærða barst nefndinni þann 23. október 2019 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann 28. sama mánaðar. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 6. nóvember 2019 og voru þær sendar til kærða með bréfi næsta dag. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum verður ráðið að kærði hafi verið skipaður verjandi kæranda fyrir dómi vegna sakamáls sem höfðað var á hendur honum vegna ætlaðra brota gegn 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi Hæstaréttar 14. desember 2017 í máli nr. 415/2017 var kærandi sakfelldur fyrir brot samkvæmt tilgreindu refsiákvæði og honum gert að greiða fésekt í ríkissjóð auk sakarkostnaðar að fjárhæð 881.021 króna.

Fyrir liggur að kærði beindi fyrir hönd kæranda beiðni til sýslumannsins á Norðurlandi vestra

um niðurfellingu þess sakarkostnaðar sem kveðið hafði verið á um í dómsorði hæstaréttarmálsins nr. 415/2017, en beiðnin mun hafa verið sett fram á grundvelli heimildar í 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með ákvörðun sýslumannsembættisins, dags. 26. apríl 2018, var fyrrgreindri beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðar synjað að svo stöddu. Var í ákvörðun embættisins vísað til þess að ákvæði 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 fæli í sér undantekningu frá meginreglunni um greiðslu sakarkostnaðar og þyrfti því að túlka ákvæðið þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Jafnframt var vísað til þess að við mat á slíkri beiðni væri meðal annars litið til tekju- og eignastöðu viðkomandi umsækjanda auk þess sem litið væri til þess hve lengi innheimta hefði verið reynd og hver árangur hefði orðið. Við það mat væru viðmiðunarreglur dómsmálaráðuneytisins um niðurfellingu á sakarkostnaði hafðar til hliðsjónar. Þá var vísað til þess að þrátt fyrir að tekjur kæranda á árunum 2016 – 2018 hefðu verið í formi bóta frá Tryggingastofun ríkisins og lífeyrissjóðum væru þær yfir þeim viðmiðunarmörkum sem kveðið væri á um í áðurgreindum viðmiðunarreglum. Með tilliti til þess var ekki talið að kærandi uppfyllti skilyrði fyrir niðurfellingu sakarkostnaðar.

Gögn málsins bera með sér að sýslumannsembættið hafi beint ákvörðun sinni frá 26. apríl 2018 til kæranda sjálfs.

Ljóst er að í framhaldi ákvörðunar sýslumanns aflaði kærði fyrir hönd kæranda vottorðs/greinargerðar um heilsufar hins síðargreinda. Er á meðal málsgagagna fyrir nefndinni greinargerð C skurðlæknis um heilsufar kæranda, dags. 4. júní 2018.

Þann 11. júní 2018 lagði kærði fram kæru til dómsmálaráðuneytisins fyrir hönd kæranda vegna fyrrgreindrar ákvörðunar sýslumanns frá 26. apríl 2018, en hún er meðal málsgagna fyrir nefndinni. Var í kærunni gerð krafa um að ákvörðun sýslumannsembættisins yrði felld úr gildi og að viðkomandi sakarkostnaður yrði felldur niður með vísan til heimildar í 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 en til vara að sakarkostnaðurinn yrði felldur niður að langstærstum hluta. Um rökstuðning var vísað til þess í kærunni að kærandi væri eignalaus öryrki og hefði engar aðrar tekjur sér til framfærslu en ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá var jafnframt vísað til þeirra heilsufarsupplýsinga um kæranda sem fram höfðu komið í greinargerð fyrrgreinds æðaskurðlæknis, dags. 4. júní 2018, sem og til 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 varðandi hina matskenndu ákvörðun.

Með úrskurði dómsmálaráðuneytisins, dags. 26. september 2018, var hin kærða ákvörðun sýslumanns frá 26. apríl 2018 staðfest. Var þannig lagt til grundvallar að þótt kærandi byggi við laka heilsu væri það mat ráðuneytisins að ekki hefði verið í ljós leitt að kærandi hefði ekki tekjur til að standa straum af greiðslu sakarkostnaðar. Samkvæmt því væru ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 til að falla frá kröfu á hendur kæranda um greiðslu sakarkostnaðar.

Samkvæmt málsgögnum var einn reikningur gefinn út vegna fyrrgreindra lögmannsstarfa kærða í þágu kæranda. Var þannig gefinn út reikningur af lögmannsstofu kærða á hendur kæranda þann 2. október 2018 að fjárhæð 204.600 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til vinnu kærða í þágu kæranda í alls 8,25 klukkustundir vegna lögfræðiþjónustu í tengslum við beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðar og kæru til dómsmálaráðuneytis. Þá var tiltekið að umkrafið tímagjald væri að fjárhæð 20.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Af málatilbúnaði aðila fyrir nefndinni verður ráðið að kærandi hafi innt af hendi greiðslur í nokkur skipti inn á reikninginn eftir útgáfu hans og fram til júnímánaðar 2019, þ.e. greiðslur að heildarfjárhæð 190.000 krónur.

Þann 9. september 2019 sendi kærandi bréf til kærða vegna þess málareksturs sem áður greinir. Var þar vísað til þeirra krafna sem kærði hefði haft uppi fyrir hönd kæranda gagnvart sýslumanni og í kæruferli fyrir dómsmálaráðuneytinu um niðurfellingu sakarkostnaðar og að þær hefðu verið tilgangslausar þar sem fyrir hafi legið frá upphafi á grundvelli skattframtals að tekjur kæranda væru yfir viðmiðunarmörkum. Þrátt fyrir það hafi kærði tekið að sér vinnuna, vitandi það að hún yrði tilgangslaus. Af þeim sökum fór kærandi fram á það í bréfinu að greiðslur sem inntar hefðu verið af hendi frá október 2018 til júní 2019, að heildarfjárhæð 190.000 krónur, yrðu endurgreiddar en að öðrum kosti yrði lögð fram kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna.

Í svari kærða við fyrrgreindu erindi þennan sama dag var því lýst að hann hefði afskrifað eftirstöðvar reikningsins sem væri þá veittur afsláttur kærða. Til endurgreiðslu kæmi hins vegar ekki enda væri um þóknun að ræða fyrir umbeðið verkefni.

Svo sem fyrr greinir lagði kærandi fram kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 27. september 2019.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé annars vegar krafist að útgefinn reikningur lögmannsstofu kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda, dags. 2. október 2018 að fjárhæð 204.600 krónur, verði felldur niður þannig að greiðslur sem inntar hafi verið af hendi af hálfu kæranda, að heildarfjárhæð 190.000 krónur, verði endurgreiddar, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar sé þess krafist af hálfu kæranda að kærði verði látinn sæta viðeigandi agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Vísað er til þess í kvörtun að kærði hafi sótt um undantekningu frá meginreglunni um greiðslu sakarkostnaðar fyrir hönd kæranda með því að skrifa beiðni til sýslumannsins á Norðurlandi vestra og kæra synjun þess embættis til dómsmálaráðuneytisins án þess að hafa tekið tillit til þess að árstekjur kæranda væru miklu hærri en viðmiðunarmörkin og án þess að hafa tilkynnt fyrirfram um hvað þjónustan myndi kosta, sbr. 10. gr. siðareglna lögmanna.

Nánar tiltekið vísar kærandi til þess að honum hafi verið gert að greiða samtals 881.821 krónu í sakarkostnað með dómi Hæstaréttar x. desember 2017 í máli nr. xxx/2017. Í framhaldi þess hafi kærði, sem haldið hafi uppi vörnum í málinu fyrir hönd kæranda, boðist til að sækja um niðurfellingu sakarkostnaðar hjá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra, sem feli í sér undantekningu frá meginreglunni um greiðslu sakarkostnaðar. Þá hafi kærði jafnframt kært synjun sýslumannsembættisins til dómsmálaráðuneytisins.

Kærandi bendir á að kærði hafi sótt skattframtal hans þar sem fram hafi komið að árstekjur kæranda á árinu 2017 hefðu verið 4.168.977 krónur. Samkvæmt því hafi strax legið fyrir að árstekjurnar væru miklu hærri en viðmiðunarmörkin, þ.e. 2.400.000 krónur. Þrátt fyrir það hafi kærði tekið verkefnið að sér og skrifað umsókn um niðurfellingu sakarkostnaðar og kært síðar synjun á þeirri beiðni til æðra stjórnvalds.

Byggir kærandi á að augljóst sé að umbeðið verkefni hafi verið tilgangslaust. Auk þess hafi kærði ekki tilkynnt fyrirfram um hvað þjónustan myndi kosta. Þá hafi einnig verið tilgangslaust að leggja fram læknisvottorð um heilsufar kæranda.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi gefið út reikning vegna fyrrgreindrar lögfræðiþjónustu þann 2. október 2018 að fjárhæð 204.600 krónur. Er á því byggt að í ljósi atvika hafi verið um tilgangslausa vinnu að ræða og að því eigi reikningurinn ekki rétt á sér. Hafi kærandi þannig fengið synjun á báðum stigum líkt og kærða hafi mátt vera ljóst í upphafi.

Vísað er til þess að kærði hafi fellt niður hinn útgefna reikning þann 9. september 2019 og veitt afslátt af honum að fjárhæð 14.600 krónur, án þess að hafa útskýrt fyrir hvað afslátturinn væri. Áður hafi kærandi hins vegar greitt inn á reikninginn 190.000 krónur. Bendir kærandi á að afsláttur sé yfirleitt veittur fyrir lélega þjónustu. Málið lúti hins vegar ekki af því að fá afslátt heldur að endurgreiðslu þeirra fjármuna sem greiddir hafi verið til lögmannsstofu kærða.

Í viðbótarathugsemdum kæranda til nefndarinnar er vísað til þess að það hafi verið kærði sjálfur sem hafi boðið fram þjónustu sína í apríl 2018 um að sækja um niðurfellingu sakarkostnaðarins. Það hafi kærði gert án þess að gera kæranda grein fyrir áætluðum verkkostnaði. Samkvæmt hinum útgefna reikningi, dags. 2. október 2018, hafi upphæðin verið komin í 204.600 krónur fyrir að skrifa tvær umsóknir sem hafi verið samtals tvær blaðsíður. Byggir kærandi á að með þessu hafi kærði brotið gegn 10. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið sé á um að lögmanni beri að gera skjólstæðingi sínum grein fyrir áætluðum verkkostnaði, sérstaklega þegar um háa upphæð sé að ræða, líkt og hér eigi við.

Kærandi ítrekar að kærði hafi fengið skattframtal á grundvelli umboðs þar sem strax hafi mátt sjá að árstekjur kæranda væru miklu hærri en viðmiðunarmörk samkvæmt verklagsreglum dómsmálaráðuneytisins. Auk þess hafi kærði ekki upplýst kæranda um það efni áður en farið hafi verið í vinnuna og hvort það borgaði sig að fara fram með málið. Hafi sýslumannsembættið synjað umsókninni enda tekjur langt umfram viðmiðunarmörk þrátt fyrir að þær væru í formi bóta frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum.

Bent er á að þann 1. júní 2018 hafi farið fram skuldajöfnuður á grundvelli 4. gr. reglna um greiðsluforgang og skuldajöfnuð skatta og gjalda. Vísar kærandi ti þess að upphæðin sem hann hafi fengið endurgreidda frá skattinum hafi verið að fjárhæð 491.649 krónur en að sú fjárhæð hafi verið skuldajafnað við kröfu ríkissjóðs á hendur kæranda vegna dæmds sakarkostnaðar. Samkvæmt því hafi eftirstöðvar sakarkostnaðar verið að fjárhæð 390.172 krónur.

Kærandi vísar til þess að eftir þetta, nánar tiltekið þann 11. júní 2018, hafi kærði sent kæru til dómsmálaráðuneytisins, sem talið hafi eina blaðsíðu, án samráðs við kæranda. Hafi ráðuneytið hafnað beiðni kæranda á grundvelli sömu raka og sýslumannsembættið hafði áður gert með úrskurði þann 26. september 2018.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi atvikum ítrekaði kærandi loks þær kröfur sem áður greinir í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar.

III.

Kærði krefst þess fyrir nefndinni að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Um málavexti vísar kærði til þess að kærandi hafi leitað til hans og falið honum vörn í sakamáli sem höfðað hafi verið gegn kæranda vegna ætlaðrar hatursorðræðu, sbr. 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hafi kærandi verið sýknaður í héraðsdómi en sakfelldur í Hæstarétt í máli nr. xxx/2017 þar sem hann hafi verið dæmdur til greiðslu fésektar auk þess sem sakarkostnaður hafi verið felldur á hann.

Vísað er til þess að eftir dóm Hæstaréttar hafi kærandi falið kærða að sækja um niðurfellingu sakarkostnaðar með vísan til 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sem er svohljóðandi:

Nú liggur nægilega ljóst fyrir að sakfelldur maður hefur hvorki eignir né tekjur til að standa straum af sakarkostnaði sem honum hefur verið gert að greiða og ber þá að falla frá kröfu á hendur honum um greiðslu kostnaðarins.

Kærði vísar til þess að hann hafi beint slíku erindi til sýslumannsins á Norðurlandi vestra fyrir hönd kæranda en að þeirri beiðni hafi verið hafnað. Þá hafi sú ákvörðun verið kærð til dómsmálaráðuneytisins, af kærða að beiðni kæranda, sem staðfest hafi ákvörðun sýslumannsembættisins. Fyrir þá vinnu hafi kærði gefið út reikning á hendur kæranda fyrir 8,25 vinnustundir að fjárhæð 204.600 krónur með virðisaukaskatti.

Kærði bendir á að samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn eigi lögmaður rétt á hæfilegri þóknun fyrir störf sín. Ráða megi af kvörtun kæranda að ekki sé deilt um hvort umrædd þóknun sé hæfileg eður ei heldur sé einungis gerð krafa um að reikningurinn verði felldur niður. Byggir kærði á að engar forsendur séu fyrir þeirri kröfugerð.

Kærði byggir á að vinnan að baki reikningnum hafi verið framkvæmd að beiðni kæranda og að kærði hafi engin loforð gefið um að umsókn um niðurfellingu sakarkostnaðar yrði tekin til greina. Fullt erindi hafi verið fyrir kærða að sækja um niðurfellingu að beiðni kæranda, meðal annars í ljósi þess að kærandi sé öryrki og eignalítill einstaklingur. Þá sé orðalag 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 mjög matskennt og því ljóst að brugðið gat til beggja vona. Niðurstaða málsins hafi orðið sú að tekjur kæranda væru yfir viðmiðunarreglum dómsmálaráðuneytisins og því hafi umsókn kæranda ekki verið tekin til greina. Bendir kærði á að þær viðmiðunarreglur hafi hins vegar ekki lagagildi og séu eingöngu til viðmiðunar. Samkvæmt því verði það ekki metið kærða til sakar að hafa lagt inn umsókn að beiðni kæranda þrátt fyrir að tekjur hans hefðu verið yfir því sem viðmiðunarreglurnar kváðu á um.

Kærði vísar til þess að hann hafi útbúið kæru til dómsmálaráðuneytisins og lagt inn fyrir hönd kæranda. Hafi það verið ósk kæranda þrátt fyrir að honum hefði verið kunnugt um að tekjur hans væru hærri en viðmiðunarreglur ráðuneytisins kváðu á um. Verði ekki framhjá því litið að kæranda hafi verið birt ákvörðun sýslumannsembættisins þar sem efni viðmiðunarreglnanna var rakið. Samkvæmt því hafi kæranda hlotið að vera ljóst að tekjur hans væru hærri en það sem viðmiðunarreglurnar kváðu á um. Þrátt fyrir það hafi kærandi falið kærða að kæra ákvörðunina.

Kærði bendir á að undir rekstri kærumálsins hafi hann aflað læknisvottorðs fyrir hönd kæranda. Hafi kæran meðal annars verið byggð á að kærandi væri „eignalaus öryrki og [hefði] engar aðrar tekjur sér til framfærslu en ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun Ríkisins.“ Í úrskurði ráðuneytisins hafi verið fallist á „að ekki sé nægilegt að líta eingöngu til tekju- og eignastöðu“ heldur geti „heilsufar og félagslegar aðstæður viðkomandi komið til skoðunar til þess að unnt sé að sannreyna hvort viðkomandi geti í raun staðið straum af greiðslu sakarkostnaðar.“ Samkvæmt því hafi málið ekki verið eins klippt og skorið og kærandi haldi fram í kæru sinni heldur hafi full ástæða verið fyrir kærða að verða við beiðni kæranda um að kæra úrskurðinn. Raunar megi halda því fram að það hefði verið andstætt siðareglum lögmanna ef kærði hefði neitað að verða við þeirri ósk kæranda.

Að endingu vísar kærði til þess að hann sé ósammála niðurstöðu ráðuneytisins og að hann telji hana orka verulega tvímælis. Þá hafi kærði ráðlagt kæranda að bera málið undir Umboðsmann Alþingis, sem kærandi hafi ekki viljað.

Samkvæmt öllu framangreindu krefst kærandi þess að kröfum kæranda verið hafnað. Um verk hafi verið að ræða sem unnið hafi verið að beiðni kæranda. Þá séu engar forsendur til að ætla að um þarflausan málarekstur hafi verið að ræða þótt niðurstaðan hafi ekki verið í samræmi við vonir.

Niðurstaða

I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Fyrir liggur í málinu að kærði tók að sér í þágu kæranda að leggja fram beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðar samkvæmt heimild í 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að verjendastörfum hans í þágu kæranda lauk með dómi Hæstaréttar x. desember 2017 í máli nr. xxx/2017. Að mati nefndarinnar verður ótvírætt ráðið af málatilbúnaði aðila og málsgögnum að kærandi hafi falið kærða það verk og að samkvæmt því hafi stofnast til réttarsambands á milli aðila. Liggur þannig fyrir að kærandi var meðvitaður og upplýstur um synjun sýslumannsins á Norðurlandi vestra á beiðni hans um þetta efni, sbr. ákvörðun dags. 26. apríl 2018.

Jafnframt verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærandi hafi falið kærða að kæra fyrrgreinda ákvörðun til dómsmálaráðuneytisins, sem kærði og gerði þann 11. júní 2018. Um það efni verður þá annars vegar að líta til þess að til að undirbyggja kæruna aflaði kærði fyrir hönd kæranda greinargerðar frá lækni hins síðargreinda um heilsufar hans en ljóst má vera að ekki hefði getað komið til öflunar slíks skjals nema með samþykki eða á grundvelli annarrar heimildar frá kæranda. Hins vegar er þess að gæta um þetta efni að kærandi lýsti því sérstaklega í bréfi til kærða, dags. 9. september 2019, að kærði hefði tekið umrædda vinnu að sér. Auk þessa viðhafði kærandi engar athugasemdir við þau lögmannsstörf sem kærði sannanlega vann í þágu kæranda fyrr en þann 9. september 2019 en þá var tæplega ár liðið frá því að úrskurður ráðuneytisins lá fyrir í málinu, þ.e. þann 26. september 2018. Þvert á móti innti kærandi greiðslur af hendi inn á lögmannsþóknun kæranda á greindu tímabili, að heildarfjárhæð 190.000 krónur, á grundvelli reiknings sem gefinn hafði verið út af lögmannsstofu kærða þann 2. október 2018.

Kærandi hefur borið því við fyrir nefndinni að vinna kærða hafi verið tilgangslaus þar sem ljóst hafi verið frá upphafi að ekki væri stoð fyrir beiðni um niðurfellingu sakarkostnaðar með hliðsjón af viðmiðunarreglum dómsmálaráðuneytisins og að teknu tilliti til tekna kæranda á árunum 2016 – 2018 samkvæmt skattframtölum. Þá hafi kærði ekki gert kæranda grein fyrir áætluðum verkkostnaði við upphaf starfans líkt og áskilið sé í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna.

Þótt ekkert liggi fyrir um að kærði hafi gert kæranda grein fyrir áætluðum verkkostnaði við upphaf lögskipta aðila að þessu leyti þá verður ekki fram hjá því litið að kæranda mátti vera ljóst að kærði ætti rétt á hæfilegu endurgjaldi fyrir þau störf sem innt yrðu af hendi samkvæmt beiðni kæranda. Þá verður ekki séð af málsgögnum að kærandi hafi leitað sérstaklega eftir því að fá slíka áætlun verkkostnaðar frá kærða, þ.e. hvorki áður en vinna hófst né á meðan réttarsamband aðila varði. Verður hér jafnframt að líta til þess að sú skylda sem hér um ræðir hvílir á lögmönnum „eftir því sem við verður komið“, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998, og „eftir föngum“ líkt og sérstaklega er tiltekið í 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna sem áður greinir.

Líkt og fyrr er rakið var beiðni kærða fyrir hönd kæranda um niðurfellingu sakarkostnaðar reist á 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008, en ákvæðið er svohljóðandi:

Nú liggur nægilega ljóst fyrir að sakfelldur maður hefur hvorki eignir né tekjur til að standa straum af sakarkostnaði sem honum hefur verið gert að greiða og ber þá að falla frá kröfu á hendur honum um greiðslu kostnaðarins.

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan var málatilbúnaður kærða fyrir hönd kæranda byggður á því að falla bæri frá kröfu um greiðslu sakarkostnaðarins á þeim grundvelli að kæranda væri eignlaus öryrki og hefði engar aðrar tekjur sér til framfærslu en ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá væri heilsufar kæranda með þeim hætti að falla bæri frá kröfunni.

Í forsendum úrskurðar dómsmálaráðuneytisins frá 26. september 2018 var vikið að fyrrgreindri heimild í 2. mgr. 239. gr. laga nr. 88/2008 og því lýst að við framkvæmd ákvæðisins yrði að leggja á það einstaklingsbundið mat hvort ljóst þætti að sá sem sækti um niðurfellingu sakarkostnaðar gæti ekki vegna eigna og- tekjastöðu sinnar staðið straum af greiðslu sakarkostnaðar. Samkvæmt því mælti ákvæðið fyrir um skyldubundið mat stjórnvalda. Þá sagði eftirfarandi í forsendum úrskurðarins:

Þegar slíkt mat er framkvæmt telur ráðuneytið að ekki sé nægilegt að líta eingöngu til tekju- og eignastöðu heldur verði að skoða hana með hliðsjón af öllum aðstæðum viðkomandi þannig geta heilsufar og félagslegar aðstæður viðkomandi komið til skoðunar til þess að unnt sé að sannreyna hvort viðkomandi geti í raun staðið straum af greiðslu sakarkostnaðar.

Í samræmi við framangreint og að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem kærði aflaði fyrir hönd kæranda um heilsufar hins síðargreinda undir rekstri málsins, verður ekki talið að mati nefndarinnar að leitt hafi verið í ljós að sú lögfræðiþjónusta sem kærði veitti kæranda í tengslum við kröfugerð um niðurfellingu sakarkostnaðar hafi verið tilgangslaus með hliðsjón af tekjum kæranda og þeim viðmiðunum sem kveðið er á um í reglum dómsmálaráðuneytisins um niðurfellingu sakarkostnaðar, líkt og kærandi heldur fram, og/eða að kærða hafi mátt vera slíkt ljóst strax í öndverðu. Verður þá jafnframt til þess litið að kærandi var upplýstur um efni tilgreindra viðmiðunarreglna eftir birtingu ákvörðunar sýslumannsins á Norðurlandi vestra frá 26. apríl 2018 en fól kærða engu síður að annast kæru þeirrar ákvörðunar til ráðuneytisins, svo sem fyrr greinir.

Á grundvelli þeirra lögmannsstarfa sem mál þetta varðar gaf lögmannsstofa kærða út einn reikning á hendur kæranda. Nánar tiltekið var þar um að ræða reikning sem útgefinn var þann 2. október 2018 að fjárhæð 204.600 krónur með virðisaukaskatti. Tók reikningurinn til vinnu kærða í þágu kæranda í alls 8,25 klukkustundir á tímagjaldinu 20.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá liggur fyrir að kærandi greiddi 190.000 krónur inn á reikninginn með innborgunum á tímabilinu frá október 2018 til júnímánaðar 2019, en eftirstöðvar hans voru afskrifaðar og felldar niður af hálfu kærða þann 9. september 2019.

Að mati nefndarinnar var áskilið tímagjald kærða ekki úr hófi. Þá verður ekki séð að tímafjöldi sem reikningurinn tók til hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þá athugun, gagnaöflun og skjalagerð sem leggja verður til grundvallar að kærða hafi verið falið að sinna í þágu kæranda vegna kröfugerðar fyrir sýslumannsembætti annars vegar og ráðuneyti hins vegar um niðurfellingu sakarkostnaðar.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið sem og að teknu tilliti til málsgagna og atvika allra, er það mat nefndarinnar að hvorki séu efni til að fallast á kröfugerð kæranda um niðurfellingu þess reiknings sem hér um ræðir né kröfu um endurgreiðslu fjármuna að fjárhæð 190.000 krónur. Þá eru ekki skilyrði að mati nefndarinnar til þess að lækka áskilda þóknun kærða vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem lögmannsstofa kærða áskildi sér vegna starfa í þágu kæranda og þegar hefur verið innheimt var hæfileg.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Áskilin þóknun kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

___________________________________

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður

 

 

___________________________________

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

 

 

___________________________________

Valborg Þ. Snævarr lögmaður