Mál 24 2019

Mál 24/2019

Ár 2020, föstudaginn 14. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2019:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 11. október 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi viðhaft illskeytta framkomu gagnvart kæranda, sem skjólstæðingi, í vitna viðurvist þann 1. október 2019 við afhendingu málsgagna á skrifstofu kærða og með því brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, gagnvart kæranda.

Kvörtun kæranda var jafnframt reist á því að kærði hefði sýnt af sér vítavert gáleysi í starfi í tengslum við rekstur bótamáls fyrir hönd kæranda sem lokið var í septembermánuði 2018, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Þá lýsti kærandi jafnframt ágreiningi varðandi það endurgjald sem kærði hafði áskilið sér úr hendi kæranda vegna fyrrgreinds bótamáls, sbr. reikning þar að lútandi dags. 25. september 2018 að fjárhæð 74.400 krónur og 26. gr. laga nr. 77/1998.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. október 2019, var kæranda tilkynnt um frávísun máls að hluta, þ.e. vegna hinna síðastgreindu kvörtunarefna. Var í tilkynningu nefndarinnar tekið fram að krafa kæranda á hendur kærða vegna tilgreindra kvörtunarefna hefði borist eftir að frestur til að koma kvörtun á framfæri við nefndina var liðinn, sbr. 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 sem og 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þegar af þeirri ástæðu var tilgreindum kröfum kæranda vísað frá nefndinni á grundvelli 1. mgr. 8. gr. málsmeðferðarreglnanna.

Kærða, B lögmanni, var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna þess hluta kvörtunar kæranda sem ekki sætti frávísun með bréfi dags. 29. október 2019 og barst hún þann 7. nóvember 2019. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 22. nóvember 2019 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 26. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur að kærði tók að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna líkamstjóns af völdum slyss sem hinn síðargreindi lenti í þann 12. ágúst 2017. Um það efni er á meðal málsgagna umboð, dags. 17. október 2017, sem kærandi veitti kærða vegna málsins. Í umboðinu var því lýst að það tæki til þess að fá öll málsgögn frá viðkomandi tryggingafélagi sem og til að fá sjúkrasögu og önnur læknisfræðileg gögn frá heilbrigðisstarfsmönnum. Jafnframt var tiltekið að umboðið næði til þess að biðja um vottorð frá sérfræðilæknum, læknisfræðileg möt og önnur möt á bótaþáttum og til að afla matsgerðar sem nauðsynlegar væru. Þá var tiltekið að umboðið næði til að gera kröfur til bóta hjá viðkomandi tryggingafélagi, semja um bætur og móttaka þær og bera ákvarðanir félagsins undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum ef þörf krefði.

Kærði hefur lagt fyrir nefndina öll gögn að baki því máli sem hann sinnti og annaðist hagsmunagæslu í fyrir hönd kæranda. Er þar um að ræða samskipti kærða við tryggingafélag kæranda, heilbrigðisstarfsmenn auk læknisfræðilegra gagna, þar á meðal matsgerðir vegna slysa sem kærandi hefur lent í á umliðnum árum. Eins og sakarefni málsins hefur verið afmarkað fyrir nefndinni þykir ekki þörf á að gera grein fyrir þeim gögnum sem hér um ræðir nema að takmörkuðu leyti.

Meðal málsgagna er matsgerð C læknis, dags. 6. september 2018, sem var falið að meta afleiðingar þess frímtaslyss sem kærandi hafði orðið fyrir þann 12. ágúst 2017. Í ályktun matsgerðarinnar var vísað til þess að kærandi hefði verið metin til „13 stiga miska fyrir brjóst- og lendhrygg eftir fyrri slys.“ Í mati lækninsins vegna afleiðingar slyssins var kærandi hins vegar tekinn til 15 stiga miska vegna tognunar í brjóst- og lendhrygg. Var það niðurstaða matsgerðarinnar, með hliðsjón af fyrri mötum, að varanleg læknisfræðileg örorka/miski kæranda vegna slyssins væri 2%/stig. Þá var tiltekið að tímabundin læknisfræðileg örorka væri 100% frá slysdegi til 30. september 2017.

Gögn málsins bera með sér að kærði hafi sent tilgreinda matsgerð og önnur læknisfræðileg gögn málsins til kæranda með bréfi, dags. 10. september 2018. Með bréfinu óskaði kærði jafnframt eftir að kærandi myndi hafa samband eða gefa upp tölvupóstfang.

Með bréfi kærða fyrir hönd kæranda til D hf., dags. 14. september 2018, var krafist greiðslu vegna læknisfræðilegrar örorku kæranda og bóta fyrir tímabundið atvinnutjón vegna þess tjóns sem kærandi hafði orðið fyrir í frímtímaslysinu þann 12. ágúst 2017. Var krafan að heildarfjárhæð 542.800 krónur og sundurliðaðist hún með eftirfarandi hætti:

            „1. Varanleg læknisfræðileg örorka 8.500.000 2%              kr. 170.000

  1. Tímabundið tjón per viku 21.000 kr. 63.000
  2. Lögmannskostnaður kr. 120.000
  3. Vsk. á lögmannskostnað kr. 28.800
  4. Útlagður kostnaður v sérfræðimats kr. 161.000“

Í kröfubréfinu var jafnframt gerður fyrirvari við útlagðan kostnað og óskað eftir yfirliti yfir greiðslur vegna vottorða.

Þann 17. september 2018 gaf tryggingafélagið út kvittun til fullnaðaruppgjörs vegna greiðslu bóta samkvæmt læknisfræðilegu mati á varanlegum afleiðingum sem kærandi hafði orðið fyrir í frímtímaslysinu þann 12. ágúst 2017. Var tiltekið í skjalinu að bætur væru að fjárhæð 167.901 króna, að sú fjárhæð væri fullnaðar- og lokagreiðsla úr tilgreindu skírteini og að með greiðslunni væri lokið öllum kröfum á hendur félaginu vegna slyssins. Fyrir liggur að kærði áritaði skjalið um samþykki með fyrirvara um matskostnað og tvö vottorð bækunarlækna.

Þann 21. september 2018 sendi tryggingafélagið tjónskvittun vegna málsins til kærða. Var þar tiltekið að félagið bætti tjón kæranda samkvæmt undirliggjandi skírteini og skilmálum, samtals að fjárhæð 237.325 krónur. Var tiltekið að með greiðslunni væri lokið öllum kröfu á hendur félaginu vegna slyssins en af hálfu kærða væri málið gert upp með fyrirvara um matskostnað og tvö vottorð bæklunarlæknis.

Meðal málsgagna er skilagrein frá lögmannsstofu kærða til kæranda, dags. 24. september 2018. Kemur þar fram að lögmannsstofan hafi móttekið bótagreiðslu frá tryggingafélaginu að fjárhæð 237.325 krónur og að til frádráttar greiðslu til kæranda sé annars vegar útlagður kostnaður vegna læknisvottorða að fjárhæð 69.424 krónur og hins vegar lögmannskostnaður að fjárhæð 74.400 krónur með virðisaukaskatti. Samkvæmt því sé greiðsla til kæranda að fjárhæð 93.501 króna. Mun lögmannsstofa kærða hafa innt af hendi þá greiðslu til kæranda í framhaldinu.

Þá liggur fyrir í málsgögnum reikningur sem lögmannsstofa kærða gaf út á hendur kæranda þann 25. september 2008 að fjárhæð 74.400 krónur með virðisaukaskatti vegna veittrar lögfræðiþjónustu í málinu.

Kærandi lýsir því að hann hafi verið ósáttur með lúkningu málsins og að kærði hafi ekki haft samband við sig og fengið samþykki áður en gengið hafi verið frá málinu gagnvart tryggingafélaginu í septembermánuði 2018. Þá hafi kærandi orðið þess áskynja á árinu 2019 að mistök hefðu átt sér stað við afgreiðslu málsins. Af þeim sökum hafi kærandi sett sig á nýjan leik í samband við kærða á haustmánuðum 2019 með beiðni um að hann myndi hlutast til um endurupptöku málsins. Hefur kærandi um það efni meðal annars lagt fyrir nefndina yfirlit yfir símtöl sín við lögmannsstofu kærða á tímabilinu frá 1. ágúst til 30. september 2019.

Meðal málsgagna er bréf sem kærði beindi fyrir hönd kæranda til heimilislæknis hins síðargreinda þann 25. september 2019. Var í bréfinu óskað eftir sjúkraskrá kæranda frá 1. september 2019.

Kærandi hefur í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni lýst því að kærði hafi lítið sem ekkert aðhafst varðandi endurupptöku málsins og að af þeim sökum hafi hann óskað eftir öllum málsgögnum frá kærða í lok septembermánaðar 2019. Hefur kærandi meðal annars um það efni vísað til þess að aðilar hafi átt með sér símtal þann 30. september 2019 þar sem sú beiðni hafi komið fram og að kærði hafi boðið kæranda að sækja málsgögnin á skrifstofu sína næsta dag.

Fyrir liggur að kærandi sótti málsgögnin á skrifstofu kærða þann 1. október 2019. Ágreiningur er hins vegar á milli aðila hvernig staðið var að þeirri gagnaafhendingu en kærandi reisir málatilbúnað sinn fyrir nefndinni á því að kærði hafi þar verið illskeyttur í framkomu, sýnt af sér dónaskap og rekið kæranda á dyr þegar hann hafi ætlað að yfirfara gögnin í anddyri lögmannsstofunnar. Kærði hefur hins vegar vísað til þess í málatilbúnaði sínum að kærandi hafi verið með háreysti og ávirðingar í hans garð á skrifstofunni og að af þeim sökum hafi hann óskað eftir að kærandi yfirgæfi skrifstofuna en að öðrum kosti yrði lögregla kölluð til.

Ágreiningslaust er að E mætti með kæranda á skrifstofu kærða þann 1. október 2019. Meðal málsgagna er yfirlýsing hans, dags. 20. nóvember 2019, þar sem því er meðal annars lýst að kærði hafi þar verið illa stefndur, sýnt af sér dónaskap og öskrað á kæranda að yfirgefa skrifstofuna. Þá hafi kærandi haldið ró sinni allan tímann og verið kurteis.

Kærandi lýsti upplifun sinni af þjónustu kærða og fyrrgreindum atburði á ........ þennan sama dag, 1. október 2019, en fjölmiðillinn F mun hafa birt samdægurs frétt um þá umfjöllun á vefmiðli sínum. Að ósk kærða var sú frétt hins vegar fjarlægð af vefmiðlinum.

Þá er meðal málsgagna tölvubréf sem kærandi sendi til kærða að kvöldi dags þann 1. október 2019. Lýsti kærandi þar meðal annars ætluðum mistökum kærða við hagsmunagæslu í málinu og tjóni sem af því hafi hlotist. Þá tiltók kærandi að engin ætti slíka framkomu sem kærði hefði sýnt af sér fyrr þennan sama dag skilið.

Ekki verður séð að aðilar hafi átt í frekari samskiptum vegna málsins en líkt og áður greinir beindi kærandi máli þessu til nefndarinnar með kvörtun sem móttekin var þann 11. október 2019.

II.

Kærandi krefst þess fyrir nefndinni að kærða verði veitt áminning fyrir háttsemi sína.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hún lúti að því að kærði hafi viðhaft illskeytta framkomu gagnvart sér, sem skjólstæðingi, í vitna viðurvist við afhendingu málsgagna á skrifstofu kærða þann 1. október 2019.

Varðandi forsögu málsins er því lýst að kærði hafi tekið að sér mál fyrir hönd kæranda sem lent hafi í alvarlegu slysi. Upphaflega hafi kærandi leitað til kærða útaf öðru máli en þá hafi slysamálið borið á góma, en það hafi þá þegar verið komið í ferli hjá viðkomandi tryggingafélagi og gengið vel. Kærði hafi hins vegar fullyrt við kæranda að skynsamlegra væri að vera með lögmann í málinu en að öðrum kosti yrðu bætur lægri. Á þeim forsendum hafi kærði fengið kæranda til að skipta um skoðun. Í framhaldi af því hafi kærandi veitt kærða skriflegt umboð en tekið þó samhliða fram að kærði ætti ekki að samþykkja neitt án þess að ræða fyrst við kæranda. Hafi kærði samþykkt það.

Kærandi lýsir því að honum hafi strax þótt kærði vinna undarlega enda hafi allt verið í óreiðu á skrifstofu kærða auk þess sem hann hafi virst óskipulagður. Þá hafi kærði svarað skilaboðum frá kæranda ýmist ekki eða í hálfkæringi þar sem hann hafi ekki mátt vera að því að tala við kæranda.

Vísað er til þess að kærði hafi sent kæranda í mat til læknis. Hafi niðurstaða þess mats verið mjög undarleg enda hafi viðkomandi matsmaður blandað saman tveimur aðskildum málum eða slysum. Þannig hafi kærandi verið metinn með 15% skaða en matsmaður dregið frá tjón vegna fyrra slys og því hafi örorka einungis verið metin 2%.

Kærandi bendir á að ritari kærða hafi hringt í sig í lok septembermánaðar 2018 og óskað eftir reikningsupplýsingum. Er vísað til þess að upplýst hafi verið í samtalinu að umbeðnar upplýsingar væru vegna lokauppgjörs slysamálsins og að heildarupphæð til greiðslu til kæranda væru um 93.000 krónur þegar búið væri að draga innheimtukostnað frá. Samkvæmt því hafi kærði samið um lokauppgjör frá tryggingafélaginu, að fjárhæð 167.000 krónur, án vitneskju eða aðkomu kæranda að því samkomulagi. Kveðst kærandi hafa verið mjög ósáttur við þessi málalok og lýst því þá þegar að ekki væri unnt að samþykkja svo lága upphæð. Í framhaldi af því hafi kærandi rætt við son kærða, sem hafi verið mjög ókurteis, en hann hafi tiltekið að kærandi hefði verið heppinn að fá eitthvað úr málinu enda hefði innheimtuþóknun lögmannsstofunnar verið mjög lág. Þá lýsir kærandi því að hann hafi í framhaldinu, nánar tiltekið þann 25. ágúst 2018, sent tölvubréf til kærða og lýst yfir óánægju sinni með vinnslu málsins. Jafnframt því hafi kærandi fengið staðfest frá tryggingafélaginu að málinu hefði verið lokað án fyrirvara.

Kærandi vísar til þess að hann hafi komið auga á stór mistök við yfirferð málsgagna og að hann hafi orðið fyrir töluverðu fjártjóni af þeim sökum. Hafi kærði viðurkennt þau mistök í júlí 2019 og lofað að endurupptaka málið. Ekkert hafi hins vegar gerst í rúma tvo mánuði hjá kærða þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir kæranda.

Að endingu kveðst kærandi hafa farið að sækja málsgögn til kærða en með honum hafi verið annar aðili. Hafi þeir fengið illskeytt viðmót á skrifstofu kærða. Hafi kærði þannig afhent kæranda gögn málsins með skít og skömm auk þess sem hann hafi meinað kæranda og félaga hans að fara yfir gögnin á skrifstofunni. Þá hafi kærði hótað að kalla til lögreglu ef kærandi myndi ekki yfirgefa skrifstofuna. Lýsir kærandi því að kærði hafi sýnt af sér illskeytta og ógnandi framkomu auk þess sem hann hafi verið hræddur um að kærði myndi ráðast á sig. Kveðst kærandi hafa verið í losti vegna hinnar ófaglegu framkomu og vinnubragða kærða gagnvart sér, sem skjólstæðingi.

Samkvæmt því krefst kærandi þess að kærða verði í það minnsta veitt áminning fyrir þá háttsemi sem hér um ræðir. Lýsir kærandi því viðhorfi að kærði eigi ekki að hafa lögmannsréttindi. Hafi hann einungis valdið kæranda tjóni í málinu auk þess að sverta lögmannastéttina. Bendir kærandi jafnframt á að fjölmiðillinn F hafi fjallað um málið á vefmiðli sínum en að sú frétt hafi verið tekin út síðar sama dag samkvæmt kröfu kærða sem hótað hafi kæranda og miðlinum málsókn.

Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar voru fyrri kvörtunarefni ítrekuð auk þess sem vísað var til þess að kærði hefði viðhaft ósannindi í málatilbúnaði sínum í málinu. Er því lýst að kærði sé ekki aðeins illskeyttur heldur einnig mjög óheiðarlegur sem vegi að heiðri og ímynd lögmannastéttarinnar. Auk þess hafi kærði brotið gegn siðareglum lögmanna með málatilbúnaði sínum sem byggi á óheiðarleika og ósannindum gegn kæranda, sem skjólstæðingi. Þá sé það enn alvarlegra að kærði hafi í hyggju að misnota sér starfsmenn sína til að bera ljúgvitni í málinu. Viðhafi kærði þannig hreinan rógburð um atburði þá sem málið lúti að.

Kærandi lýsir því að staðreyndin sé sú að hann hafi farið þann 1. október 2019 að sækja málsgögn til kærða en deginum áður hefðu aðilar rætt saman í síma vegna vanrækslu kærða í málinu. Hafi kærði áður lofað að hann myndi fara fram á endurupptöku málsins í þágu kæranda, vegna mistaka við lúkningu málsins sem hann hafi viðurkennt, en að efndir hafi ekki orðið á því af hálfu kærða þrátt fyrir ítrekuð loforð. Vísar kærandi til þess að hann hafi ítrekað haft samband við kærða vegna þessa á tímabilinu frá 6. ágúst til 30. september 2019.

Kærandi mótmælir því að málsgögnin hafi verið tilbúin til afhendingar á skrifstofu kærða í marga daga áður en þau voru sótt þann 1. október 2019 sem og að kærandi hafi mætt fyrirvaralaust á skrifstofuna þann dag. Vísar kærandi til þess að kærði hafi boðið honum daginn áður að sækja gögnin þennan dag á nákvæmlega tilgreindum tíma sem kærandi hafi staðið við. Þá lýsir kærandi því að hann hafi aldrei beðið um neitt viðtal við kærða líkt og kærði haldi ranglega fram.

Vísað er til þess að þar sem kærði hafi sýnt af sér ótrúlegan dónaskap símleiðis um talsvert skeið, auk þess að aðhafast ekkert í málinu, hafi kærandi ákveðið að taka með sér vitni til að sækja gögnin. Kærandi hafi þó ekki búist við þeim illskeyttu viðbrögðum sem kærði hafi þá sýnt af sér. Þannig hafi greinilega legið mjög illa á kærða sem hafi afhent málsgögnin með illskeytt augnaráð. Hafi bæði kæranda og þeim aðila sem með honum hafi verið á skrifstofu kærða brugðið verulega vegna framkomu kærða.

Kærandi bendir á að hann hafi verið kurteis á skrifstofu lögmannsins og aldrei verið með háreysti eins og kærði haldi ranglega fram. Í framhaldi af afhendingu málsgagna, þegar kærandi ætlaði að yfirfara gögnin í anddyri á skrifstofu lögmannsins, hafi kærði brugðist afar illa við og öskrað á kæranda að hunskast út þar sem hægt væri að lesa gögnin á öðrum stað auk þess sem hann hefði ekki tíma til að ræða málið frekar. Í framhaldinu hefði kærði hótað að hringja á lögregluna og endurtekið að kærandi ætti að hypja sig út.

Kærandi vísar til þess að hann hafi vitað að hann væri ekki brotlegur fyrir það eitt að vilja fá sér sæti og yfirfara gögnin og að af þeim sökum hafi hann hvatt kærði að hringja á lögreglu. Hafi kærði þá hins vegar verið orðinn þess legur að vera líklegur til að gera atlögu að kæranda, jafnvel með ofbeldi, og að af þeim sökum hafi kærandi ákveðið að forða sér af skrifstofunni. Í framhaldinu hafi kærandi opinberað málið ...... þar sem honum hafi verið verulega misboðið og aldrei kynnst öðrum eins dónaskap og vinnubrögðum frá lögmanni.

Þá lýsir kærandi því að hann hafi undir höndum upptöku af atvikinu sem færi sönnur á þann málatilbúnað sem hann haldi fram fyrir nefndinni. Komi þar skýrt fram að eini maðurinn sem hafi verið með háreysti og dónaskap hafi verið kærði sjálfur.

Um ætluð brot kærða gegn lögum og siðareglum lögmanna vísar kærandi til 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, 142. gr., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. gr. siðareglna lögmanna.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni með þeim hætti að hann krefjist þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi ekki verið ánægður með niðurstöðu matsgerðar og uppgjör er hann hafði fyrst samband við kærða eftir að uppgjör hafði átt sér stað. Kveðst kærði hafa útskýrt fyrir kæranda að fyrri áföll hefðu haft áhrif á niðurstöðuna og sérstaklega fyrri matsgerðir. Um hafi verið að ræða afmörkuð einkenni sem kærandi hefði áður fengið áverka á, eins og matsgerðir hefðu borið með sér.

Kærði lýsir því að kærandi hafi haft aftur samband í byrjun september 2019 og þá upplýst að hann hefði verið í rannsóknum sem heimilislæknir hefði fyrirskipað. Hafi þá komið fram einhver ný einkenni sem kærandi hafi talið að mætti rekja til slyssins en hefði ekki verið gert í mati og við uppgjör bóta. Í framhaldi af því hafi heimilislækni kæranda verið sent erindi þann 25. september 2019. Þá hafi kærði upplýst kæranda um að ef gerð hefðu verið mistök við fyrra mat þá yrðu þau mistök leiðrétt af viðkomandi tryggingafélagi.

Kærði vísar til þess að daginn eftir hafi kærandi haft samband á ný og viljað fá málsgögn afhent. Hafi kærði þá tilkynnt kæranda að hann gæti sent gögnin til hans en það hafi kærandi ekki viljað. Af þeim sökum hafi kærði tekið fram að gögnin yrðu tilbúin til afhendingar hjá ritara og að kærandi gæti sótt þau þangað, sem hann hafi og samþykkt.

Vísað er til þess að málsgögnin hafi legið hjá ritara kærða í nokkra daga án þess að þau væru sótt af kæranda. Í loks september hafi kærandi loks komið á skrifstofuna, án þess að hafa pantað tíma, en með honum hafi verið eldri maður. Hafi kærandi þá krafist þess að kærði færi yfir málið með þeim, en kærði hefði ekki haft tök á því og því sagt kæranda að fara sjálf yfir málsgögn og hafa svo samband á ný. Í kjölfar þess hafi kærandi haft uppi mikið háreysti og ávirðingar í garð kærða. Hafi kærði þá tjáð kæranda að fullyrðingar hans væru rangar auk þess að óska eftir að hann myndi yfirgefa skrifstofuna. Kærandi hafi ekki sinnt því heldur haldið áfram ræðu sinni sem samferðamaðurinn hafi tekið undir. Af þeim sökum hafi kærði tjáð kæranda að ef hann myndi ekki yfirgefa skrifstofuna yrði lögreglu kölluð til í því skyni að fjarlægja hann, slík hefðu lætin verið. Hafi kærandi þá yfirgefið skrifstofuna.

Kærði byggir á að framkoma hans hafi ekki verið illskeytt, heldur fullkomlega eðlileg miðað við aðstæður. Kærandi hafi ekki verið búinn að fá tíma hjá kærða til að fara yfir málið heldur aðeins óskað eftir málsgögnum sem hann hafi fengið. Samkvæmt því hafi kærandi komið á skrifstofu kærða í öðrum tilgangi en eingöngu að ná í gögnin. Telur kærði að kærandi hafi þegar ætlað að vera með ákveðið uppistand. Kærði hafi einfaldlega beðið kæranda um að yfirgefa skrifstofuna og ef hann hefði eitthvað við málið að athuga yrði því svarað skriflega enda hafi þá þegar verið búið að útskýra niðurstöðu málsins.

Kærði ítrekar að hann hafi ekki verið illskeyttur. Hins vegar hafi staðið þannig á að kærði hefði átt von á viðskiptavinum til að fara yfir mál. Hafi kærði orðið að koma í veg fyrir slíkt uppistand, sem á skrifstofunni hafi verið vegna þeirra óláta sem kærandi hafi viðhaft. Hafi ritari kærða og lögmannsfulltrúi hans orðið vitni að þessari uppákomu.

Samkvæmt því hafi kærði ekki haft tíma fyrir kæranda til að fara aftur yfir málið og hann ekki pantað slíkan tíma. Hafi kærði útskýrt það fyrir kæranda, án árangurs.

Kveðst kærandi hafa verið verulega brugðið yfir þeim látum sem kærandi hafi verið með. Hafi háttsemi kæranda engan veginn verið eðlileg almennt séð og fyrir kærða að þola. Samkvæmt því hafi kærði einfaldlega beðið kæranda um að yfirgefa skrifstofuna. Er kærandi hafi ekki gefið sig hafi kærði tjáð kæranda að hringt yrði á lögregluna svo unnt yrði að fjarlægja hann. Telur kærði að lögmenn eigi ekki að þurfa að þola slíka framkomu frá viðskiptavinum sínum. Hljóti lögmenn að hafa einhvern rétt í þessu efni.

Kærði bendir á að stuttu síðar hafi fjölmiðillinn F birt frétt á vefmiðli sínum um málið og hvaða órétti kærandi hefði orðið fyrir hjá lögmannsstofu kærða. Hafi kærði gert kröfu um að fréttin yrði fjarlægð þar sem ekki hefði verið farið rétt með. Hafi blaðamaður þá óskað eftir málsgögnum en kærði synjað þeirri beiðni á grundvelli persónuverndarsjónarmiða. Hafi fjölmiðilinn fjarlægt fréttina skömmu síðar.

Kærði hafnar ásökunum kæranda og því að hafa brotið með einhverjum hætti gegn honum.

Niðurstaða

I.

Áður er lýst meðferð málsins fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, þar á meðal um að nefndin vísaði tveimur af þremur kvörtunarefnum kæranda frá nefndinni í öndverðu á grundvelli þeirra tímafresta sem kveðið er á um í 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Samkvæmt því lýtur sakarefni málsins fyrir nefndinni að því hvort kærði hafi gert á hlut kæranda með hinni ætluðu háttsemi við afhendingu málsgagna þann 1. október 2019 og brotið með því gegn ákvæðum laga eða siðareglna lögmanna.

Í samræmi við tilgreint sakarefni kemur ekki til skoðunar í máli þessu hvort kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn 18. gr. laga nr. 77/1998. Þá fellur það utan valdsviðs nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998, að fjalla um ætluð brot kærða gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kemur málatilbúnaður kæranda þar að lútandi því ekki til efnislegrar skoðunar og úrlausnar í málinu.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

III.

Líkt og fyrr greinir lýtur ágreiningur málsins að því hvort kærði hafi gert á hlut kæranda með ætlaðri háttsemi sinni við afhendingu málsgagna til kæranda þann 1. október 2019, en fyrir liggur að kærði hafði sinnt bóta- og slysamáli í þágu kæranda frá 17. október 2017.

Um þetta efni hefur kærandi á því byggt fyrir nefndinni að kærði hafi viðhaft ófaglega, dónalega og illskeytta framkomu gagnvart sér, sem skjólstæðingi, í vitna viðurvist þann 1. október 2019. Þá hafi kærði meinað sér að skoða hin afhentu gögn í anddyri skrifstofunnar auk þess sem hann hafi öskrað á kæranda að yfirgefa skrifstofuna en að öðrum kosti yrði lögreglu kölluð til. Hafi kærði viðhaft þessa háttsemi að tilefnislausu. Þá reisir kærandi málatilbúnað sinn fyrir nefndinni á því að háttsemi kærða að þessu leyti hafi farið í bága við 2. gr. siðareglna lögmanna þar sem kveðið er á um að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sem öðrum athöfnum.

Kærði hefur á hinn bóginn vísað til þess að kærandi hafi á greindum tíma óskað eftir að fá að fara yfir málið en að hann hefði ekki haft tök á því vegna annars fundar. Í kjölfar þess hafi kærandi haft uppi mikið háreysti og ávirðingar í garð kærða. Í framhaldi af því að hafa mótmælt þeim ávirðingum kveðst kærði hafa óskað eftir að kærandi myndi yfirgefa skrifstofuna en að þeirri beiðni hafi ekki verið sinnt af hálfu kæranda. Af þeim sökum og vegna láta kæranda hafi kærði upplýst að hringt yrði á lögreglu en þá hafi kærandi yfirgefið skrifstofuna. Byggir kærði á að framkoma hans hafi ekki verið illskeytt, heldur fullkomlega eðlileg miðað við aðstæður.

Líkt og hér hefur verið rakið er ágreiningur á milli aðila um það hvernig atvikum var háttað þegar kærandi fékk afhent gögn, vegna undirliggjandi máls sem kærði hafði annast hagsmunagæslu í, á skrifstofu kærða þann 1. október 2019. Stendur þar orð gegn orði og verður því ekki fullyrt, með hliðsjón af málatilbúnaði aðila einum og sér, að kærði hafi gert á hlut kæranda með þeim hætti sem hinn síðargreindi reisir kvörtun sína á.

Kærandi hefur á hinn bóginn lagt fyrir nefndina yfirlýsingu E, dags. 20. nóvember 2019, um atvik að þessu leyti en hann mun hafa mætt með kæranda á skrifstofu kærða og verið viðstaddur afhendingu gagnanna. Í tilgreindri yfirlýsingu greinir meðal annars að kærði hafi verið illa stefndur á tilgreindum tíma og sýnt af sér dónaskap. Þá hafi hann öskrað á kæranda að yfirgefa skrifstofuna þegar hinn fyrrgreindi hafði hug á að skoða málsgögnin. Kærandi hafi á hinn bóginn haldið ró sinni allan tímann og verið kurteis.

Þrátt fyrir efni tilgreindrar yfirlýsingar verður að mati nefndarinnar ekki talið, með hliðsjón af málatilbúnaði aðila og þeim gögnum sem aðilar hafa kosið að leggja fyrir nefndina, að nægjanlega hafi verið leitt í ljós hver málsatvik voru í reynd vegna þess sakarefnis sem hér um ræðir en samkvæmt gagnályktun frá 2. mgr. 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna verða vitni ekki kvödd fyrir nefndina til skýrslugjafar um málsatvik. Af þeim sökum er ekki unnt að fallast á kröfur kæranda í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

___________________________________

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður

 

 

___________________________________

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

 

 

___________________________________

Valborg Þ. Snævarr lögmaður