Mál 26 2019

Mál 26/2019

Ár 2020, þriðjudaginn 5. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2019:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 5. nóvember 2019 erindi kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi í störfum sínum sem fyrirvarsmaður C ehf., brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998 um lögmenn, innheimtulaga nr. 95/2008 og siðareglna lögmanna gagnvart kæranda.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 6. nóvember 2019 og barst hún þann 12. desember sama ár. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 12. desember 2019. Hinn 7. janúar 2020 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 9. sama mánaðar. Frekari andsvör bárust loks frá kærða þann 2. mars 2020. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum og málatilbúnaði aðila mun kærandi hafa tekið fjölda svokallaðra smálána á árunum 2016 - 2018 hjá smálánafyrirtækjunum D ehf. og E en hið síðargreinda félag mun vera með aðsetur í Danmörku. Þá er ágreiningslaust að C ehf., sem kærði er í fyrirsvari fyrir, annast innheimtu fyrir fyrrgreind félög vegna veittra smálána á Íslandi.

Kærandi hefur lagt fyrir nefndina fjölda bréfa sem C ehf. sendi honum á tímabilinu frá 6. desember 2018 til 29. ágúst 2019 í tengslum við innheimtu krafna vegna hinna veittu smálána. Var þar ýmist vísað til þess að um væri að ræða innheimtuviðvaranir samkvæmt 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008, innheimtubréf eða ítrekanir, lokaaðvaranir fyrir löginnheimtu eða „löginnheimtubréf“, en í hinum síðastgreindu bréfum var tiltekið að undirliggjandi krafa væri komin í löginnheimtuferli og að aðför eða atbeina dómstóla yrði beitt við innheimtuna ef ekki yrði brugðist við. Bréfin bera jafnframt með sér að umkrafinn innheimtukostnaður hafi farið stighækkandi eftir fjölda útsendra bréfa vegna hverrar kröfu. Þá var í öllum tilvikum tiltekið að „kröfuhafi“ væri C ehf.

Meðal málsgagna fyrir nefndinni eru tölvubréfasamskipti sem fram fóru á milli kæranda og starfsmanna C ehf. í maímánuði 2019 undir yfirskriftinni „Vegna greiðslusamkomulags“. Í tölvubréfi kæranda til innheimtuaðilans, dags. 2. maí 2019, lýsti aðilinn því að hann gæti ekki greitt af samkomulaginu og óskaði eftir mánaðarfresti. Í svari C ehf. kom fram að ekki væri unnt að fresta samkomulaginu þar sem frestur hefði verið veittur um mánaðamótin á undan. Var hins vegar tiltekið að unnt væri að skipta eftirstöðvunum niður á allt að sex mánuði þannig að létt yrði á greiðslubyrði en samkvæmt því yrðu um 59.000 krónur til greiðslu á mánuði. Í áframhaldandi samskiptum aðila dagana 3. – 6. maí 2019 var komist að samkomulagi um að kærandi myndi greiða 20.000 krónur á mánuði inn á gjaldfallnar kröfur í maí, júní og júlí 2019 en í kjölfar þess 50.000 krónur á mánuði þar til skuldin yrði uppgerð.

Fram hefur komið að í júlí 2019 hafi kærandi óskað eftir sundurliðuðu yfirliti frá C ehf. yfir kröfur sem þar hefðu verið til innheimtu á hendur kæranda og að innheimtu krafna yrði hætt á meðan beðið væri eftir yfirlitinu. C ehf. staðfesti bréflega móttöku á beiðni kæranda um afrit af upplýsingum um lántöku hjá E, dagsetningu þeirra, lánstíma, fjárhæðir, vexti, annan kostnað og uppgreiðslu lána. Þá áskildi innheimtuaðilinn sér í erindinu allt að þriggja mánaða frest til að svara beiðni kæranda auk þess sem óskað var eftir að kærandi myndi sanna á sér deili með framvísun vegabréfs eða ökuskírteinis áður en beiðnin yrði endanlega afgreidd.

Kærandi vísar til þess að C ehf. hafi hins vegar hafnað hinni síðargreindu beiðni, þ.e. um frestun frekari innheimtuaðgerða, með tölvubréfi hinn 19. júlí 2019 en þar sagði meðal annars:

Svona í fljótu bragði þá get ég ekki séð að vextirnir á lánunum þínum séu ólöglegir. Það er verið að vinna úr upplýsingabeiðnum en kröfurnar munu þó halda áfram í innheimtu þrátt fyrir það.

Fram hefur komið fyrir nefndinni að C ehf. hafi tilkynnt E um á sumarmánuðum 2019 að félagið myndi eingöngu innheimta kröfur sem bæru kostnað í samræmi við íslensk lög um árlega hlutfallstölu kostnaðar.

Fyrir liggur að F hf. tilkynnti kæranda um fyrirhugaða skráningu á vanskilaskrá með bréflegu erindi þann 12. ágúst 2019. Var þar tiltekið að um væri að ræða kröfu samkvæmt „skuldaskjali“, að kröfuhafi væri E og að nánari upplýsingar yrðu veittar af C ehf.

Kærandi andmælti hinni fyrirhuguðu skráningu á vanskilaskrá. C ehf. svaraði þeim mótbárum með tölvubréfi þann 22. ágúst 2019 en af efni þess verður ráðið að með því hafi fylgt yfirlit yfir útistandandi kröfur og greiðslur sem skráning á vanskilaskrá tók til. Þá var óskað eftir kvittunum frá kæranda ef greitt hefði verið frekar inn á kröfurnar en yfirlitið bæri með sér.

Í tölvubréfi kæranda til C ehf. þann 22. ágúst 2019 kom fram að kærandi hefði greitt heilmikið í ólöglega vexti vegna hinna umþrættu smálána og að innheimtu hefði ekki verið hætt þrátt fyrir beiðni um yfirlit yfir kröfur sem kærandi hefði sett fram í júlí sama ár og ekki enn fengið afhent. Lýsti kærandi því ennfremur að ekki væri unnt að sjá sundurliðun í því takmarkaða yfirliti sem C ehf. hefði sent auk þess sem búið væri að fela hinn ætlaða „leiðrétta kostnað“ í „ofurinnheimtukostnaði“. Fylgdi jafnframt með erindi kæranda kvittanir úr heimabanka vegna greiðslna á árinu 2019.

Í svari C ehf. þennan sama dag var gerð grein fyrir þeim innborgunum sem kærandi hafði vísað til í fyrra erindi. Þá var eftirfarandi meðal annars tiltekið í svarbréfinu:

Af því er virðist þá telur þú þig hafa greitt of mikið af lántökukostnaði fyrri lánum sem nú eru greidd og fjárhæðum hefur verið skilað til kröfuhafa. Það gefur að skilja að C getur ekki tekið hluta af þegar uppgreiddum kröfum og ráðstafað upp í ógreiddar kröfur, um er að ræða mismunandi lánasamninga sem er ekki hægt að skilja öðruvísi en að báðir aðilar hafi staðið við sinn hlut, þ.e. lánveitandi og lántaki. – Ekkert af þessum kvittunum sem hafa verið sendar breyta stöðunni sem er í dag. Búið er að lækka allar kröfur sem eru í innheimtu, þetta var gert að kröfu C. – Ef þú telur þig vera búin að greiða meira inn á þessar kröfur sem eftir standa þá vinsamlegast sendu okkur kvittanir úr heimabanka. – Við erum tilbúin að bjóða þér að semja um kröfurnar að nýju og koma til móts við þig með 50% afslætti af innheimtugjöldum. – Sé gengið að þessu þá mun C óska eftir afskráningu á umræddri vanskilaskráningu.

C ehf. sendi kæranda þann 16. október 2019 yfirlit yfir kröfur sem verið höfðu til innheimtu hjá félaginu á hendur kæranda. Í samantekt kom fram að ógreiddar væru 467.296 krónur sem sundurliðuðust í höfuðstól að fjárhæð 212.003 krónur, dráttarvexti að fjárhæð 22.106 krónur og vanskilakostnað að fjárhæð 233.187 krónur. Var jafnframt að finna yfirlit yfir 79 kröfur vegna smálána sem veitt höfðu verið kæranda af D og E með gjalddaga á tímabilinu frá 25. maí 2016 til 1. janúar 2019. Þá var gerð grein fyrir þeim greiðslum sem kærandi hafði innt af hendi vegna umræddra krafna á tímabilinu frá 31. maí 2016 til 4. júní 2019.

Kærandi kveðst hafa verið ósáttur við þá takmörkuðu sundurliðun sem finna hafi mátt á fyrrgreindu yfirliti frá C ehf. og því hafi verið óskað eftir sambærilegu yfirliti beint frá viðkomandi kröfuhafa, E. Er á meðal málsgagna slíkt yfirlit yfir kröfur sem kærandi kveðst hafa fengið frá kröfuhafanum. Kemur þar fram að kærandi hafi greitt til kröfuhafans vegna veittra smálána alls 3.621.493 krónur, þ.e. 2.750.000 krónur í höfuðstól vegna veittra smálána og 871.493 krónur í annan kostnað.

Í byrjun október 2019 sendi C ehf. til kæranda yfirlit yfir ógreiddar kröfur sundurliðað í lánsupphæð, lántökudag og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Var jafnframt tiltekið að sá kostnaður sem kærandi hefði þegar greitt af lánum hefði verið skilað til kröfuhafa. C ehf. hefði lækkað allan þann ógreidda kostnað við lántöku samkvæmt íslenskum lögum um hámark hinnar árlegu hlutfallstölu kostnaðar. Þá væri allur kostnaður sem innheimtuaðilinn legði á kröfur samkvæmt lögum.

Fyrir liggur að kærandi krafðist þess beint gagnvart undirliggjandi lánveitanda að kröfur þær sem væru til innheimtu yrðu felldar niður auk þess sem til endurgreiðslu kæmi vegna fyrri greiddra krafna á grundvelli ofgreiðslu kæranda á viðkomandi skuldbindingum. Í svari E til kæranda var eftirfarandi tiltekið:

Engin viðurkenning átti sér stað fyrr í sumar, E varð við beiðni frá innheimtuaðila um að lækka kröfur sem þeir hafa til innheimtu fyrir félagið. – D fylgir dönskum lögum þar sem félagið er skráð og staðsett. Þar til ákvörðun G hefur verið staðfest þá getum við ekki annað en farið eftir gerðum samningum við viðskiptavini og er því ekki hægt að verða við ósk þinni um niðurfellingu eða endurgreiðslu.

Í tölvubréfi C ehf. til G frá 24. október 2019, sem er meðal málsgagna, var tiltekið að allur sá kostnaður sem hafi verið ógreiddur og umfram lögbundið hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar á Íslandi hafi verið lækkaður sumarið 2019 að kröfu C ehf. Hafi slíkt einnig átt við um eldri kröfur.

Með tölvubréfi G fyrir hönd kæranda til C ehf., dags. 24. október 2019, var þess krafist að innheimtu á útistandandi kröfum yrði tafarlaust hætt á grundvelli skuldajöfnunar og að kæranda yrði endurgreiddur oftekinn kostnaður, sbr. eftirfarandi:

A tók lán hjá E og aðilum þeim tengdum að fjárhæð alls 3.010.000 kr. á árunum 2016 fram til fyrripart árs 2019. A hefur greitt til baka í vaxtakostnað 871.493 kr. Þessi hái kostnaður er tilkominn vegna þess að ÁHK á þessum lánum hefur verið langt umfram lögbundið hámark á öllu þessu tímabili.

Ef miðað væri við seðlabankavexti hefði A átt að greiða innan við 10.000 kr. í lántökukostnað af lánsfjárhæðinni. Ef miðað væri við hæstu löglegu vexti (50% ÁHK auk seðlabankavaxta) hefði A átt að greiða 95.000 kr. í lántökukostnað. Hún hefur hins vegar greitt rúmlega 870.000 kr. eins og áður segir.

Þar sem ótvírætt er að lánveitingar hafa verið langt umfram lögbundna ÁHK liggur fyrir að A hefur ofgreitt til E og C sem nemur að lágmarki 775.000 kr.

Nú eru útistandandi kröfur á A vegna fimm lána að fjárhæð alls 260.000 kr. sem C ehf. innheimtir af fullri hörku, meðal annars með hótunum um vanskilaskráningu. Þar sem A hefur ofgreitt kostnað vegna smálána hjá fyrirtækjum undir hatti E langt umfram það sem henni ber er hér með gerð sú krafa að innheimtu verði tafarlaust hætt á grundvelli skuldajöfnunar og A verði endurgreiddur oftekinn kostnaður.

Ekki verður séð af málsgögnum að frekari samskipti hafi átt sér stað á milli aðila vegna hinna umþrættu krafna á hendur kæranda sem verið hafa til innheimtu hjá C ehf. Kærandi hefur hins vegar lagt fyrir nefndina með viðbótarathugasemdum sínum útreikning á innheimtukostnaði sem byggt er á að sýni fram á greiðslu slíks kostnaðar til innheimtuaðilans vegna ólögmætra lána að fjárhæð 247.137 krónur.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Jafnframt því krefst kærandi þess að C ehf. verði gert að hætti allri innheimtu gagnvart sér vegna krafna E og tengdra félaga. Þá krefst kærandi endurgreiðslu vegna ofgreiddrar árlegrar hlutfallstölu kostnaðar á kröfum sem C ehf. hefur haft til innheimtu þar sem kærða hafi verið ljóst að um innheimtu á umdeildum kröfum væri að ræða og að árleg hlutfallstala kostnaðar á kröfunum væri langt umfram lögbundið hámark.

Í málatilbúnaði kæranda er því lýst að kærði sé fyrirsvarsmaður C ehf. samkvæmt opinberri skráningu. Er vísað til þess að tilgreint félag annist innheimtu fyrir D og E sem séu rekstraraðilar smálánafyrirtækjanna H, J, K, L og M. Varðandi aðild er til þess vísað að C ehf. sæti eftirliti N á grundvelli 2. mgr. 15. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Þá sé gert ráð fyrir að úrskurðarnefnd lögmanna taki við málum sem varði kvartanir vegna starfa lögmanna á grundvelli innheimtulaga, sbr. athugasemdir við 4. gr. frumvarps til laga nr. 55/2018 um breytingu á innheimtulögum nr. 95/2008.

Kærandi byggir á að háttsemi C ehf. og kærða, þegar kemur að innheimtu smálána, stríði gegn lögum og siðareglum lögmanna, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Varðandi forsögu málsins vísar kærandi til þess að hinn 1. nóvember 2013 hafi tekið gildi lög nr. 33/2013 um neytendalán. Með 26. gr. laganna hafi verið sett þak á árlega hlutfallstölu kostnaðar. Hafi gildistaka laganna orðið þess valdandi að svokölluð smálánafyrirtæki gátu ekki lengur innheimt vexti sem leiddu til þess að árleg hlutfallstala kostnaðar nam hundruðum ef ekki þúsundum prósenta, og að því hafi verið leitað annarra leiða við tekjuöflun. Í upphafi hafi verið innheimt svonefnt flýtigjald vegna lánshæfismats í tengslum við lántöku, sem G hafi talið í andstöðu við lög í ákvörðunum sínum nr. 28 og 29/2014 enda árleg hlutfallstala kostnaðar yfir lögbundnum mörkum. Þá hafi þær ákvarðanir verið staðfestar með dómum Héraðsdóms í málum nr. E-xxxx/2015 og E-xxxx/2015 þann 9. júní 2016.

Bent er á að í kjölfar þessa hafi smálánafyrirtæki farið að skilyrða lántöku með þeim hætti að lántökum var gert að kaupa rafbækur samhliða lántöku. Hafi G þó verið á því að sömu sjónarmið ættu að gilda um kostnað vegna rafbóka og kostnað vegna fyrrgreinds flýtigjalds. Þá liggi fyrir ýmsar ákvarðanir og úrlausnir dómstóla um sama efni, sem kærandi vísar nánar til í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni.

Kærandi byggir á að kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 í störfum sínum. Um það efni vísar kærandi til þess að eingöngu hluti smálánaskulda byggi á lögmætum grunni enda sé árleg hlutfallstala kostnaðar slíkra lána langt yfir lögmæltu hámarki, þrátt fyrir að fyrirtæki í eigu D hafi reynt að dulbúa hana sem flýtigjald eða bókarkaup. Sé innheimta smálánaskulda neytenda við E alfarið í höndum C ehf. Eigi kærða, sem lögmanni og fyrirsvarsmanni innheimtuaðilans, að vera fullkunnugt um að kröfur sem verið hafi þar til innheimtu beri ólögmæta vexti og byggi á hæpnum lagalegum grunni. Hafi kærði raunar viðurkennt það í fréttaviðtali þann x. júlí 2019. Bendir kærandi um það efni jafnframt á viðurkenningu C ehf. gagnvart G þar sem fram kom að kostnaður umfram lögbundið hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar hefði verið lækkaður að kröfu félagsins sumarið 2019. Er til þess vísað að ekki sé hægt að leggja annan skilning í það efni en að félagið hafi viðurkennt að uppgreiddar kröfur hefðu borið ólögmæta vexti og/eða kostnað auk þess sem um einsdæmi sé að ræða að innheimtuaðili skipti sér af því hvaða lánakjör séu á kröfum sem viðkomandi innheimti fyrir lánveitanda.

Kærandi vísar til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 95/2008 þar sem kveðið er á um að innheimta skuli vera í samræmi við góða innheimtuhætti. Telur kærandi það frumforsendu þess að um góða innheimtuhætti sé að ræða að lögmenn og aðrir innheimtuaðilar gangi ekki fram við innheimtu krafna sem séu að verulegu leyti ólögmætar. Sé því ljóst að með því einu að innheimta áðurnefndan kostnað vegna töku smálána hafi C ehf. og kærði brotið gegn umræddu ákvæði.

Um háttsemi kærða og C ehf. við innheimtu vísar kærandi í fyrsta lagi til þess að það hafi gengið verulega illa að fá skýr gögn um þær kröfur sem verið hafi til innheimtu hjá félaginu vegna fyrirtækja undir hatti D og E. Virðist gögnin þannig sýna höfuðstól láns sem höfuðstól auk vaxtakostnaðar en ekki lánsupphæð sérstaklega og kostnað vegna lánanna sér. Byggir kærandi á að lántakar eigi rétt á að fá sundurliðun á þeim kröfum sem innheimtar séu hjá þeim og sé slíkt sérstaklega mikilvægt þegar um ræði kröfur á borð við smálánaskuldir sem bera ólögmæta vexti og hækka svo verulega frá upphaflegri lántöku. Þá hafi innheimtukostnaður lagst á kröfurnar og hótanir verið hafðar uppi um vanskil á sama tíma og C ehf. hafi þráast við að útvega sundurliðun á kröfum, þar á meðal með því að gefa sér allt að 90 daga til að verða við beiðni og krefjast persónuskilríkja.

Kærandi byggir á að sú sundurliðun sem loks hafi fengist frá C ehf. hafi verið með öllu ófullnægjandi og í engu samræmi við áskilnað c. liðar 2. mgr. 7. gr. innheimtulaga. Þannig hafi C ehf. bæði dregið úr hófi að afhenda umbeðin gögn og svo loks afhent þau á illskiljanlegu formi. Þá hafi ekki verið orðið við beiðni kæranda um að innheimtu yrði hætt á meðan beðið væri eftir umbeðnu kröfuyfirliti.

Í öðru lagi byggir kærandi á að hann hafi ofgreitt til kröfuhafa vegna hinna umþrættu smálána. Um það efni vísar kærandi til þess að loks hafi tekist að fá yfirlit frá E yfir öll lán sem kærandi hefði tekið frá upphafi, sundurliðað í lánsupphæð og kostnað. Samkvæmt útreikningum hafi kærandi tekið smálán að fjárhæð 3.010.000 krónur á árunum 2016 – 2019. Hafi öll lánin borið ólögmæta árlega hlutfallstölu kostnaðar. Ef frá séu talin lán sem séu útistandandi, að fjárhæð 260.000 krónur, hafi kærandi greitt í vexti/kostnað 870.000 krónur af lánsupphæð að fjárhæð 2.750.000 krónur sem sé langt umfram lögbundið hámark. Þá sé innheimtukostnaður ekki inn í þeim fjárhæðum.

Kærandi kveðst því hafa gert kröfu til bæði C ehf. og E um endurgreiðslu ofgreiddrar fjárhæðar og að frekari innheimtu vegna fimm smálána, að samtals fjárhæð 260.000 krónur, yrði hætt. Byggir kærandi á að það sé óforsvaranlegt að innheimtufyrirtæki skuli um árabil innheimta ólögmætar kröfur en þegar farið sé fram á að innheimtu sé hætt, þar sem ofgreiðsla hafi átt sér stað, sé vísað til þess að fyrri kröfur komi málinu ekkert við og kostnaði hafi verið skilað til kröfuhafi. Vísar kærandi til þess að allar þær kröfur sem C ehf. sé nú með til innheimtu á hendur sér heyri undir E og tengda aðila. Samkvæmt því sé kröfuhafi sá sami í öllum tilvikum.

Í þriðja lagi er vísað til þess að C ehf. hafi hótað vanskilaskráningu þrátt fyrir að kærandi hafi greitt ólögmæta vexti og ofgreitt af lánum sem nemi hundruðum þúsunda. Þannig sé þrýstingi beitt til að fá kæranda til að greiða kröfur þrátt fyrir ofgreiðslu og andmæli kæranda auk ítrekaðra krafna um sundurliðun. C ehf. hafi aðeins boðið kæranda að „ganga til samninga“ og að þá yrði vanskilaskráning afturkölluð. Vísar kærandi til þess að hann hafi ekki talið neinar forsendur til að ganga til samninga um endurgreiðslu kröfu nema fyrir lægi sundurliðun á samsetningu kröfunnar og upplýsingar um það hversu mikið hefði verið ofgreitt. Þá er þá það bent að í starfsleyfi F, sem gefið sé út af R, komi fram hvaða tegundir upplýsinga sé heimilt að skrá en þar segi m.a.: „Áskrifandi sem óskar skráningar skal ábyrgjast að honum sé ekki kunnugt um að skuldari hafi nokkrar réttmætar mótbárur gegn greiðslu skuldarinnar.“ Byggir kærandi á að áskrifandi, í þessu tilfelli C ehf., megi vera fullljóst að kröfur vegna umræddra smálána byggi á afar hæpnum lagalegum grunni.

Varðandi ætluð brot kærða vísar kærandi sem fyrr til 1. mgr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Vísar kærandi jafnframt til 2. mgr. 6. gr. laganna þar sem kveðið er á um að það teljist m.a. brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi eða valda óþarfa tjóni eða óþægindum. Þá sé kveðið á um í lögskýringargögnum varðandi fyrrgreint ákvæði að innheimtuaðili skuli ekki gefa skuldara rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem séu mikilvægar fyrir afstöðu hans til kröfunnar. Með vísan til þess byggir kærandi á að kærði og C ehf. hafi brotið gegn 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 með því að hafa ekki veitt nægilegar upplýsingar um sundurliðun krafna og um þær stjórnvaldsákvarðanir og dómsmál sem rekin hafi verið um lögmæti kostnaðar við töku smálána.

Auk framangreinds byggir kærandi á að innheimtuhættir C ehf. og kærða, sem fyrirsvarsmanns félagsins, hafi ekki samrýmst 1. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vísar aðilinn til þess að það falli í hlut kærða, sem núverandi fyrirsvarsmanns C ehf., að svara fyrir og eftir atvikum taka ábyrgð á starfsemi félagsins. Liggi jafnframt fyrir að félagið hafi allt árið 2019 innheimt kröfur sem brotið hafi í bága við íslensk lög.

Kærandi byggir á að C ehf., sem innheimt hafi kröfur E og D, hafi vitað sem víst að um væri að ræða lán sem bæru ólöglega vexti. Með lögum nr. 33/2013 hafi verið sett sérstakt ákvæði í 26. gr. um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar en því hafi verið ætlað að sporna við starfsemi smálánafyrirtækja. Í framhaldinu hafi fallið fjöldi ákvarðana, úrskurða og dómar sem staðfest hafi ólögmæti viðkomandi smálána. Þrátt fyrir það hafi C ehf. haldið innheimtu krafnanna áfram.

Ítrekað er að viðkomandi lánastarfsemi falli undir íslenska lögsögu samkvæmt ákvörðun G í máli nr. 31/2019. Beri kröfuhafa og innheimtuaðila að fara að þeirri ákvörðun enda hafi henni ekki verið hnekkt. Samkvæmt því hafi C ehf. mátt vita allt frá því að ákvarðanir G lágu fyrir að lánin væru ólögmæt. Þrátt fyrir það hafi C ehf. haldið áfram að innheimta lánin líkt og ákvarðanir eftirlitsaðila fælu eingöngu í sér óbindandi álit.

Kærandi vísar til þess að rök kærða um að engum þrýstingi hafi verið beitt þegar vanskilaskráningu hafi verið hótað séu vægast sagt furðuleg. Það eitt að hóta vanskilaskráningu sé þrýstingur á lántakanda. Þá sé ekki hægt að bera saman vanskilaskráningu á löglegum kröfum, svo sem af hálfu hins opinbera, á vanskilaskrá F og svo skráningu vegna ólögmætra smálána. Það að F hafi starfsleyfi og beri að starfa samkvæmt lögum segi því ekkert til um það hvort skráning ólögmætra smálánaskulda sé lögleg. Bendir kærandi á að skráning á vanskilaskrá sé íþyngjandi aðgerð og því sé eðlilegt að um slíkt gildi strangar reglur. Hótun um vanskilaskráningu vegna ólögmætra lána samræmist því ekki góðum innheimtuháttum. Auk þess hafi kærandi þegar greitt rúmlega 870.000 krónur í kostnað vegna smálána þegar hótun um vanskilaskráningu hafi komið fram þegar slík greiðsla hefði með réttu átt að vera um 103.000 krónur, þ.e. ef kostnaður á viðkomandi lánum hefði verið í samræmi við lög.

Í tilgreindum viðbótarathugasemdum setti kærandi jafnframt fram þá kröfu að kærða og/eða C ehf. yrði gert að endurgreiða vanskilakostnað vegna ólögmætra lána að fjárhæð 247.137 krónur. Um þá kröfu var á það bent að eftir að kostnaður á útistandandi lánum hafi verið lækkaður og kröfur þar með leiðréttar með þeim hætti að árleg hlutfallstala kostnaðar færi ekki lengur langt umfram lögbundið hámark, hafi innheimtukostnaður haldist óbreyttur og innheimtu haldið áfram af fullum þunga. Þá hafi ekkert verið aðhafst vegna eldri lána eða kostnaðar af þeim. Er á því byggt að leiðrétting C ehf. á lántökukostnaði útistandandi krafna geti ekki gert það að verkum að áður uppsafnaður innheimtukostnaður, sem byggt hafi á ólögmætum grunni, verði lögmætur.

Kærandi bendir á að hann hafi verið kominn með fimm kröfur í vanskil þegar vöxtum á útistandandi kröfum var breytt á vormánuðum 2019. Hafi kærandi sent erindi til E og gert kröfu um skuldajöfnun vegna ofgreiðslu. Þrátt fyrir það hafi C ehf. áfram gert tilraunir til að innheimta kröfurnar.

Kærandi ítrekar jafnframt efni 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og að gæta verði góðra innheimtuhátta við sérhverja ráðstöfun eða athöfn sem sé þáttur í innheimtu. Er vísað til þess að það fyrsta sem lögmaður og innheimtuaðili þurfi að skoða við mat á góðum innheimtuháttum hljóti að vera mat á því hvort að viðkomandi krafa sem taka á til innheimtu sé lögmæt. Fyrir liggi að tilgreindar innheimtukröfur standist ekki fyrstu skoðun um lögmæti þegar ákvæði laga, dómafordæmi og ákvarðanir/úrskurðir stjórnvalda séu skoðaðir.

Vekur kærandi einnig athygli á að innheimtuaðili geti ekki skýlt sér á bak við að verið sé að fara að fyrirmælum kröfuhafa um innheimtu, sbr. eftirfarandi í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 95/2008: „Á innheimtuaðilanum hvílir samt sem áður sú sjálfstæða skylda að hlýðnast ekki fyrirmælum kröfuhafa ef þau fela í sér eitthvað sem stríðir gegn góðum innheimtuháttum samkvæmt lögunum eða reglugerð á grundvelli þeirra.“ Þá er á það bent að lögmaður skuli vera óháður í störfum sínum og ráði því sjálfur hvort hann taki að sér verk eða ekki, sbr. 3. gr. siðareglna lögmanna.

Kærandi byggir á að innheimta á því sem innheimtuaðili veit eða má vita að séu ólögmætar kröfur geti ekki falið í sér góða innheimtuhætti. Kærandi bendir jafnframt á að C ehf. sé tilgreindur kröfuhafi á öllum innheimtubréfum sem kærandi hafi fengið afrit af. Þá hafnar kærandi málatilbúnaði kærða um ætlað tómlæti í málinu.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni með þeim hætti að hann krefjist þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði vísar til þess að C ehf. hafi verið stofnuð í febrúar 2015 af tveimur tilgreindum lögmönnum. Frá mars 2016 hafi S lögmaður sinnt rekstri félagsins og fram í febrúarmánuði 2019 þegar kærði hafi tekið við því hlutverki. Kveðst kærði hafa bent N og nefndinni á þetta atriði og telur því furðu sæta að þurfa að svara fyrir þann hluta erindis sem lúti að störfum C ehf. fyrir fyrrgreint tímamark. Samkvæmt því leggi kærði fram svör eftir bestu vitund með vísan til ábyrgðar fyrri fyrirsvarsmanna og skyldu þeirra til að svara slíkum erindum.

Varðandi kröfugerð kæranda byggir kærði á að hún geti vart talist tæk til úrskurðar þar sem hún feli í sér að kærði láti af allri innheimtu á hendur kæranda. Er á því byggt að einungis þar til bær stjórnvöld hafi vald til þess en ekki sjálfstæðar úrskurðarnefndir félagasamtaka.

Kærandi bendir á að kröfum um endurgreiðslu beri að beina að kröfuhafanum sjálfum enda liggi fyrir gildir lánasamningar á milli kröfuhafa og kæranda. Samkvæmt því sé samningssambandið á milli tilgreindra aðila. Samningssamband C ehf. og kröfuhafa byggi á innheimtusamningi í samræmi við innheimtulög nr. 95/2008. Í innheimtunni sjálfri, og því sem lúti að kærða, hafi allra ákvæða laga nr. 95/2008, laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna verið gætt. Þannig sé kostnaður innheimtunnar í samræmi við lög nr. 95/2008 og reglugerð sem af þeim leiði. Þá hafi skráning á vanskilaskrá F byggt á reglum þar að lútandi, þ.e. samningi við F, sem aftur hvílir á starfsleyfi sem það fyrirtæki byggi starfsemi sína á. Sé skráning á vanskilaskrá algeng leið og þekkt í starfsaðferðum lögmanna og innheimtufyrirtækja auk þess sem hún sé ekki til handa innheimtuaðila heldur kröfuhafa. Samkvæmt því annist innheimtuaðilar skráningar þar í nafni kröfuhafa. Hafi sami háttur verið hafður á í þessu tilviki og öllum öðrum tilvikum jafnframt því sem engum þrýstingi hafi verið beitt gagnvart kæranda.

Um það efni að kærða hafi verið ljóst að samningsbundinn kostnaður samkvæmt lánasamningi kæranda og kröfuhafa væri umfram lögbundið hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar vísar kærði til þess að E sé skráð félag í ..... og lúti ..... lögsögu. Ekkert styðji fullyrðingar kæranda annað en ákvörðun G, en vísað er til þess að tilgreint félag hafi stefnt G fyrir dóm í ..... til að fá úr því skorið hvort það lúti ..... lögsögu eða íslenskri.

Kærandi bendir á að allt þar til í júlímánuði 2019 hafi kærandi verið í miklum og góðum samskiptum við C ehf. um ýmis atriði er lúti að innheimtu lánanna. Þannig hafi C ehf. hlutast til um að dreifa greiðslum og létta mánaðarlegar greiðslur kæranda til kröfuhafa. Er á það bent að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi tekið fjöldann allan af lánum, eða hartnær 90 lán á rúmlega þriggja ára tímabili. Hafi kæranda því mátt vera það ljóst, á hvaða tímapunkti sem var, að lánasamningarnir innihéldu upplýsingar og skilmála sem kærandi samþykkti athugasemdalaust í öll skipti, síðast á árinu 2019. Feli það í sér verulegt tómlæti af hálfu kæranda að beina nú fyrst kvörtun að kærða eftir alla þessa lántöku og eftir að kröfur voru endurreiknaðar að kröfu kærða fyrir hönd C ehf.

Varðandi yfirferð málsins samkvæmt tímalínu og athugasemdir um eðli lánanna bendir kærði á að kærandi haldi því ranglega fram að E og D séu einn og sami aðili. Rétt sé að halda því til haga að um tvö aðskilin félög sé að ræða, bæði hvað varðar rekstur og eigendur. Þá bendir kærði á varðandi ákvörðun G þann x. ágúst 201x í máli nr. xx/201x að E hafi kært þá ákvörðun, sem lúti að ætlaðri íslenskri lögsögu félagsins, til T og sé þeim þætti því enn ólokið auk þess sem kærandi dragi of víðtækar ályktanir af þeirri ákvörðun. Bendir kærði þó á að hann innheimti ekki kröfur sem fari umfram árlega hlutafallstölu kostnaðar samkvæmt íslenskum lögum.

Um þetta efni ítrekar kærði jafnframt að E hafi stefnt G fyrir dóm í .... til að fá úr því skorið hvort .... eða íslensk lög gildi um lánasamninga félagsins. Er vísað til þess að þar til niðurstaða .... dómstóla um það liggi fyrir hafi kærði ekki aðrar heimildir en að annast innheimtuna á öðrum grunni en kröfuhafinn byggi rétt sinn á, samkvæmt innheimtusamningi milli kröfuhafa og C ehf. Þá hafnar kærði því að kröfur E byggi á hæpnum lagalegum grunni, líkt og kærandi haldi fram. Kveðst kærði vera í góðri trú um innheimtu krafna og bendir á að ekkert liggi fyrir um ólögmæti krafna frá E eða innheimtu þeirra af hálfu C ehf.

Kærði kveður það rangt að hann hafi viðurkennt í fjölmiðlum að innheimtar hafi verið ólögmætar kröfur. Vísar kærði til þess að í umræddu fjölmiðlaviðtali, sem kærandi vísi til, hafi verið haft eftir honum að hann hefði tilkynnt kröfuhafanum E að C ehf. innheimti frá því í maí 2019 eingöngu kröfur sem bæru kostnað í samræmi við íslensk lög um árlega hlutafallstölu kostnaðar. Breyti það engu um lögmæti þeirra krafna sem áður hefðu verið innheimtar né heldur lögmæti krafna E yfir höfuð.

Kærði byggir á að allar innheimtukröfur hjá C ehf. beri kostnað sem sé innan hámarks árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, sbr. 26. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán. Jafnframt því styðjist innheimtukostnaðurinn við innheimtulög nr. 95/2008 og reglugerð þar af leiðandi. Þá sé ekkert sem bendi til þess að íslensk lög gildi um viðkomandi samninga, að undanskilinni ákvörðun G nr. xx/201x, en enginn dómstóll hafi kveðið upp dóm um slíkt.

Um sundurliðun á kröfum vísar kærði til þess að C ehf. hafi ávallt sinnt skyldum sínum varðandi afhendingu innheimtubréfa og kröfuyfirlita. Um það tilvik sem kærandi vísi til liggi fyrir að V hafi staðið opinberlega að hvatningu til neytenda um að lántakendur ..... ættu að krefjast réttar síns um afrit af innheimtubréfum og kröfuyfirlita. Hafi yfir 1000 slíkar beiðnir borist til C ehf. á nokkrum dögum. Þar sem beiðnirnar hafi falið í sér kröfu um afhendingu gagna vegna allra krafna hvers og eins aðila, en ekki eingöngu þær sem verið hafi til innheimtu á viðkomandi tíma, hafi þurft að samkeyra mörg tölvukerfi sem hafi tekið nokkrar vikur. Af þeim sökum hafi verið ljóst að ekki væri hægt að útvega umbeðnar upplýsingar á stuttum tíma. Hafi því verið sendur svarpóstur til hvers aðila um að félagið nýtti sér heimild í „ESB reglugerð nr. 2016/679“, sem birt hafi verið með lögum nr. 90/2018 um persónuvernd. Í 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um réttindi skráðra einstaklinga til upplýsinga um málefni er að þeim lúta. Þá sé kveðið á um skyldur ábyrgðaraðila til að láta slíkar upplýsingar í té. Sé þar lögð áhersla á að einstaklingurinn sanni á sér deili og hafi af þeim sökum verið óskað eftir afriti af skilríkjum frá viðkomandi einstaklingi, þ.e. í þágu persónuverndar.

Kærði vísar til þess að í 3. tl. 12. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um rétt ábyrgðaraðila til 30 daga og allt að 90 daga frests til að afhenda upplýsingarnar. Stuðst hafi verið við þá heimild í því tilviki sem um ræði, þar sem ógrynni af beiðnum hafi borist félaginu í kjölfar hvatningar V. Í engu tilfelli sé unnt að líta svo á að C ehf. hafi ekki sinnt skyldum sínum að þessu leyti, og hvað þá hafnað rétti skuldara til að fá afhentar upplýsingar um kröfur. Þá hafi ekki verið afhentar rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem verið hafi mikilvægar fyrir afstöðu skuldara til kröfunnar. Sé það ekki hlutverk innheimtuaðila að veita skuldara upplýsingar um stjórnvaldsákvarðanir eða dómsmál sem rekin séu um lögmæti kostnaðar lána eða krafna. Þótt hlutverk innheimtuaðila sé víðtækt fáist ekki séð hvernig það næði yfir slíkt á grundvelli laga. Þá megi almennt fullyrða að innheimtuaðilar sinni ekki slíku hlutverki.

Kærði kveður þær fullyrðingar kæranda rangar að C ehf. hafi innheimt kröfur sem alkunna væri um að væru ólögmætar. Beri sú greining kæranda þess mikinn vott að verið væri að horfa í bakssýnisspegil sögunnar. Þá hafi enginn dómur fallið um að kröfur E séu ólögmætar.

Í málatilbúnaði kærða er því alfarið hafnað að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 enda hafi C ehf. innheimt kröfur í góðri trú. Engar formlegar fyrirspurnir hafi borist til C ehf. frá kæranda auk þess sem félagið hafi tekið vel í erindi kæranda, þar á meðal um greiðsludreifingu í maímánuði 2019.

Kærði vísar til þess að C ehf. hafi tekið þá afstöðu að innheimta ekki lán fyrir kröfuhafa á grundvelli réttarfarslaga til að koma í veg fyrir óþarfa kostnað skuldara. Hafi félagið heldur reynt að fara samningaleið við skuldara í samráði við kröfuhafa með hagsmuni beggja aðila að leiðarljósi.

Samkvæmt öllu framangreindu kveðst kærði hafna því að hafa aðhafst nokkuð er brotið hafi í bága við rétt kæranda við innheimtu fjárkrafna. Kröfum um ofgreiðslur þurfi að beina að lánveitanda en ekki innheimtuaðila. Þá hafi kærði í störfum sínum starfað í anda siðareglna lögmanna sem og laga nr. 77/1998 um lögmenn og innheimtulaga nr. 95/2008.

Í viðbótarathugasemdum kærða til nefndarinnar kveður aðilinn að innheimtukostnaður hafi verið innan marka innheimtulaga nr. 95/2008 og reglugerðar sem af lögunum leiðir, líkt og sjá megi af framlögðum gögnum kæranda. Þá fáist ekki ekki séð að innheimtan eða kostnaður af henni hefði verið með öðrum hætti, þótt lánin hefðu borið kostnað innan árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.

Kærði ítrekar jafnframt sjónarmið viðkomandi kröfuhafa um að lánin falli undir .... lög, en að þau beri kostnað í samræmi við árlega hlutfallstölu kostnaðar við innheimtu að kröfu kærða. Í engu megi túlka það sem sönnun sakar kærða, enda sé það ekki á færi nefndarinnar að fjalla um þann hluta málsins heldur dómstóla. Þá sé E skráð sem fjármálastofnun í ..... og lúti því eftirliti þar í landi, en niðurstöðu dómstóla í .... sé beðið um það hvort lán aðilans lúti íslenskri eða ... lögsögu.

Kærði hafnar því að C ehf. hafi hunsað niðurstöðu stjórnvalda enda hafi félagið ekki sætt skoðun þeirra. Er vísað til þess að C ehf. beri hins vegar ekki ábyrgð á eftirliti sem lánveitandi sæti. Þá hafi C ehf. ekki sagt að skoðun eftirlitsaðila standist ekki. Kröfuhafi hafi hins vegar skotið málinu til dómstóla í .... þar sem hann telur niðurstöðuna ekki standast.

Að endingu ítrekar kærði að skráning á vanskilaskrá sé ekki þrýstingur í skilningi íslensks réttar. Þá sé það ekki á færi nefndarinnar að taka til skoðunar kröfu kæranda um endurgreiðslu innheimtukostnaðar nema fyrst sé komist að því að kostnaðurinn sé of hár eða gangi bersýnilega í berhög við lög. Auk þess beri að beina kröfu um endurgreiðslu að kröfuhafanum sem einnig beri ábyrgð á afleiddu tjóni.

Niðurstaða

                                                                          I.

Að mati nefndarinnar þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins en samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa frá máli ef það lýtur að réttarágreiningi sem ekki fellur undir valdsvið hennar.

Kærandi hefur meðal annars krafist þess fyrir nefndinni að C ehf. verði gert að hætta allri innheimtu gagnvart sér vegna útistandandi krafna E og tengdra aðila. Jafnframt því hefur kærandi krafist endurgreiðslu vegna ofgreiddrar hlutfallstölu kostnaðar á kröfum sem C ehf. hefur haft til innheimtu. Þá var þess krafist í viðbótarathugasemdum kæranda fyrir nefndinni að kærða og/eða C ehf. yrði gert að endurgreiða kæranda vanskilakostnað vegna ólögmætra lána að fjárhæð 247.137 krónur. 

Um tilgreindar kröfur kæranda er til þess að líta að úrskurðarnefnd lögmanna starfar samkvæmt lögum nr. 77/1998 um lögmenn en valdsvið nefndarinnar er afmarkað í V. kafla laganna. Nánar tiltekið er valdsvið nefndarinnar annars vegar bundið við ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Hins vegar getur sá sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna lagt kvörtun á hendur lögmanninum fyrir nefndina, sbr. 27. gr. laganna. Um hlutverk nefndarinnar er jafnframt fjalla í 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna en þar segir:

„Hlutverk úrskurðarnefndar lögmanna er:

  1. að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum;
  2. að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ;
  3. að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Í samræmi við þær heimildir sem hér hafa verið raktar fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla um og taka til skoðunar kröfur kæranda sem lúta að því að  því að C ehf. verði gert að hætti allri innheimtu útistandandi krafna og að innheimtuaðilanum verði gert að endurgreiða kæranda ætlaða ofgreidda hlutfallstölu kostnaðar af innheimtukröfum. Á slíkt hið sama við um hina síðbúnu kröfu kæranda um að C ehf. verði gert að endurgreiða honum ætlaðan ofgreiddan innheimtukostnað, að fjárhæð 247.137 krónur, vegna þeirra ætluðu brota sem lýst er í kvörtun, enda verður ekki talið að slíkt samningssamband sé á milli kærða og/eða C ehf. annars vegar og kæranda hins vegar sem 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er afmörkuð við. Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar verður að vísa tilgreindum kröfum kæranda á hendur kærða frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Samkvæmt því kemur til efnisúrlausnar í málinu sú krafa kæranda að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

II.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

III.

Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur kærandi um ætluð brot kærða meðal annars vísað til 1., 3. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Í 3. gr. siðareglnanna er kveðið á um að lögmaður skuli vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar. Er jafnframt tiltekið að lögmaður skuli ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi eða á annað það, sem lögmaður vinnur í þágu skjólstæðings síns. Einnig er því lýst að lögmaður ráði því sjálfur hvort hann taki að sér verk eða ekki, nema lög bjóði annað. Þá er kveðið á um í 34. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Þá hefur kærandi jafnframt um ætluð brot kærða vísað til 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Í 1. mgr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 er tiltekið að innheimta skuli vera í samræmi við góða innheimtuhætti. Þá segir í 2. mgr. að það teljist meðal annars brjóta í bága við góða innheimtuhætti að beita óhæfilegum þrýstingi eða valda óþarfa tjóni eða óþægindum.

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008, eins og hún hljóðar eftir gildistöku breytingarlaga nr. 55/2018 þann 22. júní 2018, fer Lögmannafélag Íslands með eftirlit samkvæmt lögunum og lögum nr. 77/1998 gagnvart lögmönnum, lögmannsstofum og lögaðilum í eigu lögmanna eða lögmannsstofa. Í frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 55/2018 var eftirfarandi tiltekið við 4. gr. frumvarpsins vegna breytinga á 2. mgr. 15. gr. laganna:

Lögð er til breyting á 2. mgr. 15. gr. laganna en í greininni kemur nú fram að gagnvart lögmönnum fari úrskurðarnefnd lögmanna með eftirlit samkvæmt innheimtulögum og lögum um lögmenn. Lagt er til að vísað verði til Lögmannafélagsins en ekki úrskurðarnefndarinnar enda fer Lögmannafélagið með almennt eftirlit með innheimtustarfsemi lögmanna en úrskurðarnefnd lögmanna, sem starfar á grundvelli V. kafla laga um lögmenn, nr. 77/1998, tekur til meðferðar ágreiningsmál sem vísað er til hennar. Þannig mun nefndin áfram geta tekið við málum sem varða kvartanir vegna starfa lögmanna á grundvelli innheimtulaga og hefur úrræði til að áminna lögmann, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn, og leggja til við sýslumann að hann verði sviptur lögmannsréttindum, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Um úrræði og eftirlit Lögmannafélagsins er almennt fjallað í 13. gr. laga um lögmenn. 

Í samræmi við efni 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008 og áðurgreindra lögskýringargagna verður að telja að kvörtun kæranda í máli þessu vegna ætlaðra brota C ehf. og kærða gegn lögunum sé réttilega beint að nefndinni enda ágreiningslaust að kærði sé í fyrirsvari fyrir félagið sem stjórnarmaður þess, en samkvæmt opinberri skráningu hefur sú skipan stjórnar verið óbreytt frá 2. október 2016. Eigi viðkomandi innheimtustörf því undir nefndina samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2008 og geti samkvæmt því komið til álita að nefndin beiti þeim heimildum sem henni eru faldar í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 vegna kvörtunarinnar, en kærði ber sem lögmaður ábyrgð á viðkomandi innheimtustörfum. Samkvæmt því er haldlaus með öllu sá málatilbúnaður kærða fyrir nefndinni að hann hafi enga aðkomu haft að málefnum C ehf. fyrr en í febrúarmánuði 2019.

IV.

Kvörtun kæranda í málinu er í fyrsta lagi á því reist að kærði hafi gert á hans hlut, sem fyrirsvarsmaður C ehf., með því að hafa haft til innheimtu ólögmætar kröfur á grundvelli lánveitinga vegna svonefndra smálána. Hafi kærði með þeirri háttsemi brotið gegn 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og 1. og 3. gr. siðareglna lögmanna. Byggir kærandi á að það fyrsta sem innheimtuaðili þurfi að skoða við mat á góðum innheimtuháttum, í skilningi 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008, hljóti ávallt að vera mat á því hvort undirliggjandi krafa sem taka á til innheimtu sé lögmæt. Hafi þær kröfur ekki staðist fyrstu skoðun um lögmæti þegar ákvæði laga, dómafordæmi og ákvarðanir/úrskurðir stjórnvalda séu skoðaðar. Þá geti innheimta á því sem innheimtuaðili veit eða má vita að séu ólögmætar kröfur ekki falið í sér góða innheimtuhætti.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan má rekja hinar umþrættu lánveitingar, sem síðari innheimtukröfur C ehf. gagnvart kæranda voru grundvallaðar á, aftur til áranna 2016 - 2018. Fyrir liggur að G tók ákvörðun í nóvember 2016 í máli nr. x/201x þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að D bæri að fara með kaupverð rafbóka eins og kostnað þegar reiknaður væri út heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar. Í ákvörðuninni var jafnframt talið að D hefði ekki fullnægt upplýsingaskyldu sinni og var af þeim sökum lögð stjórnvaldssekt að fjárhæð 2.400.000 krónur á félagið fyrir brot á lögum nr. 33/2013 um neytendalán. T staðfesti þá ákvörðun með úrskurði í marsmánuði 2017 í máli nr. x/2016. Þá liggur fyrir að  bæði héraðsdómur og nú síðast Landsréttur, í dómi uppkveðnum þann x. nóvember 201x í máli nr. xxx/201x, hafa sýknað G af kröfu D um ógildingu úrskurðar T og með því meðal annars staðfest niðurstöðu stjórnvaldsins varðandi útreikning heildarlántökukostnaðar og árlega hlutfallstölu kostnaðar.

Kærandi hefur jafnframt í málatilbúnaði sínum vísað til ákvörðunar G frá x. ágúst 201x í máli nr. xx/201x þar sem meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að E hefði brotið gegn 26. gr. laga nr. 33/2013 með innheimtu kostnaðar af neytendalánum sem numið hafi hærri árlegri hlutfallstölu kostnaðar en 50% að viðbættum stýrivöxtum.

Fyrir liggur að hvorugur málsaðila fyrir nefndinni hefur átt aðild að þeim dóms- og stjórnsýslumálum sem áður greinir og lotið hafa að gildi og lögmæti hinna svonefndu smálána. Þá fellur það utan valdsviðs nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, að leggja efnislegt mat á lögmæti slíkra lánveitinga eða ákveðinna þátta hvað þær varðar.

Hvað það kvörtunarefni sem hér um ræðir varðar verður þó að telja að mati nefndarinnar að það eitt að innheimtuaðili taki til innheimtumeðferðar kröfu, sem fyrir liggur að efnislegur ágreiningur er um að hluta, geti ekki falið í sér brot gegn innheimtulögum nr. 95/2008 eða öðrum heimildum nema annað og meira komi til. Verður í því tilviki sem hér um ræðir þá að líta til þess að endanlega var ekki leyst úr ágreiningi sem laut að úrskurði G í máli nr. x/201x fyrr en með dómi Landsréttar x. nóvember 201x í máli nr. xxx/201x, en ekki verður ráðið af málsgögnum hvort undirliggjandi lánveitingar til kæranda á árunum 2016 – 2018 hafi verið sambærilegar þeim lánveitingum sem tilgreint dómsmál tók til. Aftur er til þess að líta að hvorki kærði, C ehf. né kærandi áttu aðild að tilgreindu dómsmáli. Þá liggur fyrir að þá þegar, eða á vor- eða sumarmánuðum 2019, hafði farið fram endurútreikningur vegna smálánakrafna í innheimtu hjá C ehf., að kröfu félagsins gagnvart viðkomandi lánveitanda, E. Verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að sá endurútreikningur hafi tekið til útistandandi innheimtukrafna á hendur kæranda. Hefur þannig verið upplýst að ekki séu nú í innheimtu hjá kærða og C ehf. lán sem séu yfir því marki árlegrar hlutfallstölu kostnaðar sem lög nr. 33/2013 mæla fyrir um, þ.e. 53,75%.

Ekki verður heldur framhjá því litið að mati nefndarinnar að þær lánveitingar sem hinar umþrættu innheimtukröfur tóku til fóru að miklu leyti fram eftir að ákvörðun G lá fyrir í máli nr. x/201x. Þrátt fyrir tilgreinda ákvörðun verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum að kærandi hafi haldið áfram töku smálána og að hann hafi ekki haft uppi athugasemdar varðandi gildi og lögmæti viðkomandi krafna eða innheimtu þeirra fyrr en með tölvubréfi sem hann beindi til C ehf. þann 22. ágúst 2019 en áður, eða í júlí sama ár, hafði kærandi óskað eftir yfirliti innheimtukrafna frá innheimtuaðilanum og óskað eftir að frekari innheimtu yrði hætt á meðan beðið væri eftir afhendingu þess.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki slegið föstu að áliti nefndarinnar að það eitt að C ehf. hafi haft til innheimtumeðferðar kröfur á hendur kæranda á árunum 2016 – 2019, sem hafi verið umfram hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt lögum nr. 33/2013, hafi falið í sér brot gegn innheimtulögum nr. 95/2008 eða siðareglum lögmanna.

Í öðru lagi er kvörtun kæranda á því reist að ekki hafi verið gerð grein fyrir kostnaði undirliggjandi smálánakrafna með fullnægjandi hætti við innheimtu þeirra af hálfu C ehf., sbr. c. lið 2. mgr. 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Hafi upphaflegur höfuðstóll og lántökukostnaður þannig verið skráður saman sem ein fjárhæð sem brjóti gegn tilgreindu ákvæði þar sem mælt sé fyrir um að fjárhæð kröfu skuli sundurliðuð í höfuðstól og aðrar viðbótarkröfur. Þá hafi sú sundurliðun sem loks hafi fengist frá C ehf. verið ófullnægjandi og í engu samræmi við fyrirmæli innheimtulaga nr. 95/2008. Kærði hefur hins vegar hafnað því að C ehf. hafi ekki sinnt skyldum sínum að þessu leyti, og hvað þá hafnað rétti kæranda til að fá afhentar upplýsingar um kröfur. Þá hafi ekki verið afhentar rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða réttarreglur sem verið hafi mikilvægar fyrir afstöðu skuldara til kröfunnar.

Í 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 er fjallað um innheimtuviðvörun. Í 2. mgr. 7. gr. er tekið fram hvað skuli standa í innheimtuviðvörun en þar greinir eftirfarandi í c. lið: „fjárhæð kröfu og skal sundurliða hver sé höfuðstóll og hverjar séu viðbótarkröfur, svo sem dráttarvextir og innheimtuþóknun;“ Þá kemur fram í 3. málsl. 11. gr. laganna að ef brotið sé gegn 7. gr. þeirra, þannig að innheimtuviðvörun þjóni ekki tilgangi sínum, verði skuldari aðeins krafinn um kostnað vegna viðvörunarinnar.

Af málsgögnum verður ráðið að við hina umþrættu innheimtu hafi upphaflega verið gerð grein fyrir höfuðstól undirliggjandi krafna með því að taka saman í eina fjárhæð annars vegar höfuðstólsfjárhæð viðkomandi lánveitingar og hins vegar þá vexti sem lánið bar fram að gjalddaga. Virðist ágreiningslaust að sá innheimtuháttur hafi verið viðhafður af hálfu C ehf. allt frá sendingu slíkrar innheimtuviðvörunar sem 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 tekur til. Aðrar viðbótarkröfur, þ.e. dráttarvextir og innheimtuþóknun, hafa á hinn bóginn verið sérstaklega sundurliðaðar í þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina.

Að mati nefndarinnar verður að fallast á með kæranda að máli geti skipt fyrir skuldara, þar á meðal vegna ákvæða um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar í 26. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán, að skýrar upplýsingar liggi fyrir um sundurliðun fjárkröfu í innheimtu í höfuðstól annars vegar og aðrar viðbótarkröfur hins vegar. Á hinn bóginn verður með hliðsjón af málsgögnum og atvikum að leggja til grundvallar að við greiðslufall samkvæmt undirliggjandi lánasamningum á gjalddögum þeirra hafi fallið í gjalddaga bæði upphafleg höfuðstólsfjárhæð lánveitingarinnar sem og áfallnir vextir samkvæmt viðkomandi lánasamningum. Þá verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að C ehf. hafi bætt úr hinum ætlaða annmarka að þessu leyti vegna þeirra krafna sem enn voru í innheimtu hjá aðilanum á hendur kæranda á árinu 2019, en í yfirliti yfir útistandandi kröfur sem innheimtuaðilinn sendi til kæranda í tengslum við fyrirhugaða skráningu á vanskilaskrá í ágústmánuði 2019 var gerð grein fyrir sundurliðun krafnanna í upphaflega lánsfjárhæð, lántökukostnað, dráttarvexti og innheimtukostnað. Með hliðsjón af því verður ekki talið að innheimtuhættir C ehf. og kærða hafi að því leyti sem hér um ræðir brotið í bága við 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 eða aðrar heimildir.

Í þriðja og síðasta lagi byggir kvörtun kæranda á að skráning á vanskilaskrá vegna krafna í innheimtu hjá kærða og C ehf. hafi brotið í bága við góða innheimtuhætti samkvæmt 1. og 2. mgr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 enda hafi falist í slíkri skráningu óhæfilegur þrýstingur á skuldara til að gera upp kröfur, í þessu tilfelli sem ágreiningur sé um. Þannig hafi þrýstingi verið beitt til að fá kæranda til að greiða kröfur þrátt fyrir ofgreiðslu og andmæli kæranda auk ítrekaðra krafna um sundurliðun. C ehf. hafi aðeins boðið kæranda að „ganga til samninga“ og að þá yrði vanskilaskráning afturkölluð. Vísar kærandi til þess að hann hafi ekki talið neinar forsendur til að ganga til samninga um endurgreiðslu kröfu nema fyrir lægi sundurliðun á samsetningu kröfunnar og upplýsingar um það hversu mikið hefði verið ofgreitt. Kærði hefur á hinn bóginn hafnað því að nokkrum þrýstingi hafi verið beitt gegn kæranda. Skráning á vanskilaskrá sé algeng leið og þekkt í starfsaðferðum lögmanna og innheimtufyrirtækja auk þess sem slík skráning sé ekki til handa innheimtuaðila heldur kröfuhafa.

Hvað tilgreint kvörtunarefni varðar þá liggur fyrir, svo sem fyrr greinir, að kærandi óskaði eftir í júlímánuði 2019 að fá sundurliðað yfirlit frá C ehf. vegna krafna sem þar hefðu verið til innheimtu. Við sama tilefni óskaði kærandi eftir við innheimtuaðilann að innheimtu krafna yrði hætt þar til hið umbeðna yfirlit hefði verið afhent en kærandi mun jafnframt í tengslum við beiðnina hafa borið því við að hinar undirliggjandi kröfur hefðu borið ólöglega vexti, sbr. áskilnað 26. gr. laga nr. 33/2013 um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Ágreiningslaust er að innheimtuaðilinn móttók umrædda beiðni og áskildi sér allt að 90 daga frest til að svarar beiðninni og afhenda hið umbeðna yfirlit. Þá kom fram í tölvubréfi innheimtuaðilans til kæranda, dags. 19. júlí 2019, að í fljótu bragði yrði ekki séð að vextir á lánunum væru ólöglegir, að verið væri að vinna úr upplýsingabeiðnum en að kröfurnar myndu halda áfram í innheimtu þrátt fyrir það.

Fyrir liggur að C ehf. sendi kæranda ekki hið umbeðna kröfuyfirlit fyrr en þann 16. október 2019 en í kjölfar þess lýsti kærandi yfir greiðslu útistandandi innheimtukrafna með skuldajöfnuð vegna ætlaðrar ofgreiðslu, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Í millitíðinni, eða í byrjun ágústmánaðar 2019, óskaði C ehf. fyrir hönd E eftir að nafn kæranda yrði fært á vanskilaskrá F vegna útistandandi innheimtukrafna. Var kæranda tilkynnt um hina fyrirhuguðu skráningu með bréflegu erindi F þann 12. ágúst 2019. Kærandi andmælti þeirri skráningu, þar á meðal gagnvart kæranda, í tölvubréfasamskiptum hinn 22. ágúst 2019. C ehf. bauð kæranda hins vegar það eitt í áframhaldandi samskiptum að gera greiðslusamkomulag vegna innheimtukrafnanna og tiltók að ef slíkt yrði gert yrði óskað eftir afskráningu á nefndri vanskilaskráningu.

Að mati nefndarinnar verður að fallast á með kæranda að í skráningu á vanskilaskrá vegna innheimtukrafna geti falist þrýstingur af hálfu innheimtuaðila gagnvart skuldara sem varðað geti við góða innheimtuhætti samkvæmt 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008. Í því tilviki sem hér um ræðir verður að líta til þess að kærandi hafði skömmu áður en beiðni kom fram af hálfu C ehf. um vanskilaskráningu óskað eftir sundurliðuðu kröfuyfirliti frá innheimtuaðilanum, sem hann átti heimtingu á svo sem ágreiningslaust er í málinu, að innheimtu útistandandi krafna yrði hætt á meðan það yfirlit yrði útvegað og færði fyrir því viðhlítandi mótbárur, þar á meðal um ólögmæti vaxta af undirliggjandi lánveitingum að teknu tilliti til lögbundins hámarks árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Í stað þess að verða þá þegar við beiðni kæranda og afhenda hið umbeðna yfirlit áskildi innheimtuaðilinn, sem kærði er í fyrirsvari fyrir, 90 daga afhendingarfrest. Í framhaldi af því, og án þess að hafa útvegað hið umbeðna yfirlit, fór innheimtuaðilinn hins vegar fram á vanskilaskráningu kæranda og synjaði um afturköllun þeirrar beiðni nema gert yrði greiðslusamkomulag um þær innheimtukröfur sem aðilanum mátti vera ljóst að ágreiningur kynni að vera um.

Að mati nefndarinnar fóru þeir innheimtuhættir C ehf. gagnvart kæranda sem hér um ræðir gegn góðum innheimtuháttum og voru verulega aðfinnsluverðir. Verður þá annars vegar til þess að líta að innheimtuaðilinn fór fram á skráningu kæranda á vanskilaskrá án þess að hafa áður afhent gögn að baki innheimtukröfum, samkvæmt framkominni beiðni, sem gátu varðað kæranda miklu varðandi frekari mótbárur við innheimtunni og þar með við fyrirhugaðri skráningu hans á vanskilaskrá, svo sem síðari atvik leiddu jafnframt í ljós. Verður jafnframt ekki framhjá því litið að viðkomandi beiðni um vanskilaskráningu var ekki sett fram í nokkru samhengi við innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga vegna hinna ætluðu vanskilakrafna kæranda, sbr. 1. mgr. 24. gr. a. laga nr. 77/1998, svo sem kærði hefur jafnframt staðfest fyrir nefndinni.

Hins vegar verður að horfa til þess að innheimtuaðilinn synjaði kæranda um afskráningu hans á vanskilaskrá nema gert yrði greiðslusamkomulag um viðkomandi innheimtukröfur sem fyrir lá að ágreiningur kynni að vera um. Verður að áliti nefndarinnar að telja að í þeim innheimtuháttum kærða og C ehf. hafi falist óhæfilegur þrýstingur, í skilningi 2. mgr. 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008, enda verði ekki séð að nokkur nauðsyn hafi verið fyrir beiðni um vanskilaskráningu kæranda í ágústmánuði 2019 þegar innheimtuaðilinn hafði enn ekki sinnt skyldu sinni til afhendingar sundurliðaðs kröfuyfirlits til kæranda. Þá voru umræddir innheimtuhættir jafnframt til þess fallnir að valda kæranda tjóni og óþægindum. Voru innheimtuhættirnir því í andstöðu við 6. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 og teljast aðfinnsluverðir.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfum kæranda, A, um að kærða, B lögmanni, og C ehf. verði gert að hætta allri innheimtu gagnvart sér vegna útistandandi krafna, að kærða verði gert að endurgreiða ofgreidda hlutfallstölu kostnaðar á innheimtukröfum og að kærða og/eða C ehf. verði gert að endurgreiða kæranda innheimtukostnað að fjárhæð 247.137 krónur, er vísað frá nefndinni.

Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að setja fram beiðni um skráningu kæranda, A, á vanskilaskrá í ágústmánuði 2019 vegna innheimtukrafna á grundvelli smálána, þegar fyrir lá beiðni kæranda gagnvart C ehf. um sundurliðað kröfuyfirlit, að innheimtu yrði hætt uns það yrði afhent og færðar voru fyrir því viðhlítandi mótbárur sem og með því að hafa synjað um afskráningu kæranda á vanskilaskrá nema að gert yrði greiðslusamkomulag um hinar undirliggjandi kröfur, sem ljóst mátti vera að kynnu að vera umþrættar, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson