Mál 27 2019

Mál 27/2019

Ár 2020, þriðjudaginn 28. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2019:

A ehf.,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 23. nóvember 2019 erindi C fyrir hönd kæranda, A ehf., þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi gert á hlut kæranda með innheimtuháttum sem brotið hafi í bága við lög og siðareglur lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi, dags. 12. desember 2019. Greinargerð kærða barst til nefndarinnar þann 3. janúar 2020 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi dags. 6. sama mánaðar. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum mun kærandi hafa keypt lögboðnar brunatryggingar vegna 12 tilgreindra fasteigna hjá D hf. í desembermánuði 2018 en lögmannsstofa kærða mun annast löginnheimtu fyrir tilgreint tryggingafélag.

Kærandi mun ekki hafa greitt hin lögboðnu iðgjöld á gjalddaga þeirra þann 1. desember 2018. Fyrir liggur að lögmannsstofa kærða sendi 12 innheimtubréf til kæranda þann 20. maí 2019 vegna hinna vangoldnu iðgjalda, en hvert innheimtubréf var sérstaklega afmarkað við iðgjöld vegna lögboðinnar brunatryggingar ákveðinnar fasteignar. Auk kröfugerðar um höfuðstól og vexti var í öllum tilvikum krafist innheimtuþóknunar auk útlagðs kostnaðar og virðisaukaskatts. Var þess krafist að kröfurnar yrðu greiddar innan 10 daga frá dagsetningu bréfanna. Þá var tiltekið að kröfurnar væru tryggðar með lögveði í viðkomandi fasteignum samkvæmt 7. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar og að heimilt væri að selja hinar vátryggðu fasteignir á uppboði án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.

Kærði hefur lýst því fyrir nefndinni að áður en til fyrrgreindra innheimtubréfa hafi komið hafi kæranda annars vegar verið sendir gíróseðlar frá kröfuhafa en í kjölfar greiðslufalls kæranda hafi kröfurnar farið í milliinnheimtuferli hjá öðrum aðila. Þegar sú milliinnheimta hafi reynst árangurslaus hafi lögmannsstofa kærða tekið við löginnheimtu krafnanna.

Lögmannsstofa kærða fylgdi fyrrgreindum innheimtubréfum eftir með 12 greiðsluáskorunum, undirrituðum af kærða, sem sendar voru til kæranda þann 31. maí 2019. Var í öllum tilvikum vísað til þess að þær tækju til vangoldinna iðgjalda lögboðinnar brunatryggingar vegna tilgreindrar fasteignar auk þess sem ítrekað var að iðgjöldin hvíldu sem lögveð á viðkomandi fasteignum. Samkvæmt því var skorað á kæranda að greiða skuldirnar eða semja um greiðslu þeirra innan 15 daga frá móttöku greiðsluáskorana. Að öðrum kosti yrði krafist nauðungarsölu á fasteignunum til lúkningar skuldunum án frekari tilkynninga.

Fyrir liggur að samkomulag komst á um uppgjör krafnanna í kjölfar þess en meðal málsgagna er að finna 12 kvittanir frá lögmannsstofu kærða til kæranda um fullnaðargreiðslu krafnanna, dags. 12. júní 2019.

Ágreiningur í málinu lýtur að tilgreindri innheimtu lögmannsstofu kærða á hendur kæranda og þeim innheimtuþóknunum sem lögmannsstofan áskildi sér úr hendi kæranda.

Kærði hefur fyrir nefndinni bent á að hin áskilda og greidda innheimtuþóknun hafi verið í samræmi við gjaldskrá lögmannsstofu hans og leiðbeinandi reglur innanríkisráðuneytisins, dags. 26. apríl 2013, fyrir lögmenn um endurgjald sem þeim er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu.

Líkt og áður greinir beindi kærandi kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 23. nóvember 2019.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda með þeim hætti að þess sé krafist að nefndin taki til skoðunar hvort innheimtuhættir kærða gagnvart kæranda hafi verið í samræmi við lög og siðareglur lögmanna.

Í kvörtun kæranda er því lýst að henni sé beint að innheimtubréfum og greiðsluáskorunum sem kærði hafi beint til kæranda. Vísar kærandi til þess að nefndin kunni að spyrja réttu spurninganna og að fá réttar upplýsingar til að sjá hversu ósanngjörnum, óvægnum og óhóflegum innheimtuaðgerðum kærði hafi beitt. Kveðst kærandi aldrei hafa fengið slíka aðför fyrr í innheimtubréfum.

Kærandi byggir á að innheimtuaðgerðir kærða hafi verið ónauðsynlegar og alltof harkalegar. Þá hafi kærði misbeitt lögum í því skyni að græða á erfiðleikum annarra. Þannig hafi kærði krafist óhóflegra og svívirðilegra innheimtuþóknana úr hendi kæranda.

Vísað er til þess að við greiðslu krafnanna hafi kærandi fengið niðurfelldar kröfur að um það bil fjárhæð 100.000 krónur til 150.000 krónur. Hafi þar verið um að ræða afslátt af annað hvort dráttarvöxtum eða innheimtuþóknun. Sé þar um að ræða smávægilega fjárhæð í því samhengi sem um ræði enda hafi höfuðstóll krafnanna verið um það bil 300.000 krónur. Að teknu tilliti til þess kveður kærandi að nóg hefði verið að greiða heildarupphæð að fjárhæð 400.000 krónur með dráttarvöxtum og innheimtuþóknun eða eitthvað nálægt því. Annað sé græðgi og misbeiting.

Byggir kærandi á að kærði eigi ekki aðeins að skammast sín heldur eigi hann að skila inn réttindum sínum.

III.

Kærði krefst þess í málinu að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærði vísar til þess að lögmannsstofa hans hafi verið með til innheimtu fyrir hönd D hf. iðgjöld lögboðinna brunatrygginga á níu eignarhlutum að F 6 og 6b í auk V 18, L 6 og V 3, samtals 12 fasteignir.

Kærði vísar til þess að mestu máli skipti að iðgjaldi vegna lögboðinnar brunatryggingar fylgi lögveðsréttur í hinni vátryggðu eign og síðan bein uppboðsheimild á viðkomandi eign að undangengninni birtingu greiðsluáskorunar. Sú staðreynd skýri af hverju kröfurnar hafi verið svo margar þótt að um hafi verið að ræða sama kröfuhafa og sama skuldara. Þannig hafi fjöldi málanna ráðist af fjölda undirliggjandi eigna. Samkvæmt því hafi lögmannsstofa kærða ekkert getað gert til að fækka málunum enda hafi iðgjaldinu fylgt lögveðs- og uppboðsréttur á viðkomandi eign, ekki öðrum eignum. Þá hafi vinnuframlagið við hverja eign verið verulegt og í raun ekkert sparast á því að skuldarinn væri sá sami í öllum tilvikum. Hafi þurft að hefja könnun á því hver væri raunverulegur eigandi hverrar eignar fyrir sig, hvort uppboð væri í gangi á viðkomandi eign o.s.frv.

Vísað er til þess að innheimtuþóknanir lögmannsstofu kærða í umræddum málum hafi ráðist af gjaldskrá hennar á þeim tíma sem verkin voru unnin, sbr. gjaldskrá frá 1. janúar 2019. Bendir kærði á að gjaldskrá lögmannsstofunnar um þóknanir vegna innheimtustarfa sé í samræmi við „Leiðbeinandi reglur fyrir lögmenn um endurgjald sem þeim er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu“ sem útbúnar hafi verið í innanríkisráðuneytinu þann 26. apríl 2013. Fjárhæðir í reglunum hafi svo verið uppfærðar til samræmis við hækkun launavísitölu hinn 1. janúar og 1. júlí ár hvert, en reglurnar hafi engin ákvæði að geyma um breytingar á fjárhæðum. Er vísað til þess að við þetta hafi verið miðað af hálfu lögmannsstofunnar þrátt fyrir að reglurnar væru í engu bindandi fyrir lögmenn og að þær hafi falið í sér verulega lækkun þóknana frá því sem áður hefði verið.

Bent er á að í viðkomandi málum hafi þóknunarliðir skipst í innheimtuþóknun sem slíka og síðan þóknun fyrir ritun greiðsluáskorana. Við þær fjárhæðir hafi bæst virðisaukaskattur. Í hverju máli fyrir sig hafi síðan verið um útlagðan kostnað að ræða vegna veðbandayfirlita, uppflettinga í gagnabönkum, birtinga greiðsluáskorana o.fl.

Vísað er til þess að þóknunarliðir í öllum þeim 12 málum sem um hafi verið að ræða hafi verið samtals að fjárhæð 363.655 krónur með virðisaukaskatt. Að auki hafi vextir af kostnaði verið að 2.086 krónur og útlagður kostnaður 71.000 krónur. Hafi kærandi þannig fengið 21,45% afslátt af lögmannsþóknun með virðisaukaskatti án þess að eiga til þess nokkurn rétt. Hafi kærandi þannig greitt til lögmannsstofu kærða 285.667 krónur með virðisaukaskatti eða að meðaltali 23.806 krónur á mál með virðisaukaskatti. Að auki hafi kærandi fengið afslátt af dráttarvöxtum kröfuhafa að undirlagi kærða.

Kærði vísar til þess að umræddar kröfur hafi fyrst verið sendar skuldara með gíróseðlum frá kröfuhafa. Síðan hafi kröfurnar farið í milliinnheitu hjá E innheimtuþjónustu, þar með talið innheimtuviðvörun, en í framhaldi af því hafi þær komið til lögfræðilegrar innheimtu hjá lögmannsstofu kærða. Samkvæmt því sé ljóst að skuldara hafi gefist kostur á að greiða kröfurnar áður en mikill kostnaður féll á þær. Þá sendi lögmannsstofa kærða kröfubréf til kæranda áður en til greiðsluáskorana kom.

Kærði heldur því fram að mjög verulega hafi verið komið til móts við kæranda vegna fjölda málanna, án þess að í fjöldanum hafi falist neinn sparnaður fyrir lögmannsstofuna eða minnkun vinnuframlags. Samkvæmt því sé kærða hulin ráðgáta af hverju umrædd kvörtun komi fram. Mótmælir kærði þeim sjónarmiðum sem fram koma í kvörtun sem röngum auk þess sem þau séu meiðandi í garð kærða.

Í samræmi við framangreint krefst kærði þess að kvörtun verði hafnað efnislega. Einnig bendir kærði á að greiðslur á umræddum kröfum hafi farið fram án nokkurs fyrirvara. Er á því byggt að það eitt og sér eigi að duga nefndinni til að hafna kvörtun kæranda.

Varðandi þágildandi gjaldskrá lögmannsstofu kærða og tilvitnaðar reglur innanríkisráðuneytisins vísar kærði til þess að grunnvísitala reglnanna sé 454,4 stig og að vísitalan 1. janúar 2019 hafi verið 670,6 stig. Séu allar tölur hækkaðar upp í næsta 100 eða 1000, eftir því sem við eigi.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Ágreiningslaust er í málinu að kærandi greiddi ekki lögboðin iðgjöld brunatrygginga til D hf. vegna 12 fasteigna á gjalddaga þeirra þann 1. desember 2018. Jafnframt liggur fyrir í málinu að kærandi sinnti ekki kröfum sem að honum var beint vegna hinna ógreiddu iðgjalda við frum- og milliinnheimtu krafnanna. Í kjölfar þess tók lögmannsstofa kærða við löginnheimtu krafnanna og annaðist í því efni annars vegar sendingu 12 innheimtubréfa til kæranda þann 20. maí 2019 og og hins vegar sendingu 12 greiðsluáskorana þann 31. sama mánaðar, sem undanfara nauðungarsölubeiðna.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan var hvert innheimtubréf og hver greiðsluáskorun sérstaklega afmörkuð við iðgjöld vegna lögboðinnar brunatryggingar ákveðinnar fasteignar. Auk kröfugerðar um höfuðstól og vexti var í öllum tilvikum krafist innheimtuþóknunar auk útlagðs kostnaðar og virðisaukaskatts en jafnframt var aukalegur kostnaður í greiðsluáskorunum, að fjárhæð 12.900 krónur, vegna ritunar þeirra auk birtinga. Þá var kærandi í upphafi löginnheimtunnar upplýstur um að kröfurnar væru tryggðar með lögveði í viðkomandi fasteignum samkvæmt 7. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar og að heimilt væri að selja hinar vátryggðu fasteignir á uppboði án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.

Málatilbúnaður kæranda fyrir nefndinni er reistur á því að umræddar innheimtuaðgerðir kærða  og gjaldtaka vegna þeirra hafi verið andstæðar lögum, siðareglum lögmanna og góðum innheimtuháttum.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. a. laga nr. 77/1998 annast lögmenn löginnheimtu. Er tiltekið í ákvæðinu að með löginnheimtu sé átt við innheimtumeðferð á grundvelli réttarfarslaga og að upphaf hennar markist við aðgerðir sem byggðar séu á lögum um aðför nr. 98/1989, lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1991, lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 20/1991, eða tilkynningum sem samrýmast góðum lögmannsháttum. Þá er kveðið á um í 3. mgr. 24. gr. laganna að ráðherra skuli að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands gefa út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald sem þeim sé hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu. Voru slíkar leiðbeinandi reglur settar í innanríkisráðuneytinu þann 26. apríl 2013, en þær eru meðal málsgagna fyrir nefndinni.

Svo sem fyrr greinir laut innheimta lögmannsstofu kærða gagnvart kæranda að gjaldföllnum iðgjöldum vegna 12 fasteigna. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar er húseigendum skylt að brunatryggja allar húseignir, þ.e. hvers konar byggingar sem ætlaðar eru til íbúðar, atvinnustarfsemi, geymslu eða annarra afnota. Í 1. mgr. 7. gr. laganna er tiltekið að öll iðgjöld og matskostnaður af húseignum í skyldutryggingu hvíli sem lögveð á eignunum sjálfum og að þau gangi í tvö ár fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á þeim hvíla nema sköttum til ríkissjóðs. Þá er tiltekið í 2. mgr. 7. gr. laganna að séu brunatryggingariðgjöld og önnur gjöld og skattar sem ákvörðuð eru sem hlutfall af brunabótamati og innheimtast eiga samhliða innheimtu iðgjalda eigi greidd innan sex mánaða frá gjalddaga sé heimilt að krefjast nauðungarsölu á hinni vátryggðu eign án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.

Í 4. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu er kveðið á um að krefjast megi nauðungarsölu á eign til fullnustu gjaldfallinni peningakröfu samkvæmt ákvæðum laga sem veita lögveðrétt í eigninni og heimila nauðungarsölu hennar án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Til slíkrar peningakröfu teljast eftir því sem átt getur við verðbætur, vextir, dráttarvextir og önnur samnings- eða lögbundin vanskilaálög, málskostnaður eða innheimtukostnaður, og kostnaður af kröfu, undanfarandi fullnustuaðgerðum, nauðungarsölunni sjálfri og aðgerðum í tengslum við hana, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991.

Samkvæmt framangreindum heimildum, og að teknu tilliti til þess að áður en til innheimtuaðgerða kærða kom hafði frum- og milliinnheimta krafnanna gagnvart kæranda reynst árangurslaus, verður að leggja til grundvallar að hinar umþrættu innheimtuaðgerðir kærða og lögmannsstofu hans í málinu hafi verið grundvallaðar á réttarfarslögum, sbr. lög nr. 48/1994 og 90/1991, og hafi því verið um löginnheimtu að ræða sem fór samkvæmt 24. gr. a. laga nr. 77/1998 um lögmenn en ekki innheimtulögum nr. 95/2008, sbr. einnig 3. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998.

Fyrir liggur að hin ógreiddu iðgjöld sem voru til innheimtu lutu í öllum tilvikum að brunatryggingum vegna tilgreindra húseigna. Ágreiningslaust er að kærandi bar að lögum ábyrgð á greiðslu viðkomandi iðgjalda samkvæmt skyldutryggingu þeirri sem mælt er fyrir um í lögum nr. 48/1994 og að þær voru gjaldfallnar, sem peningakröfur, við upphaf löginnheimtuaðgerða kærða þann 20. maí 2019. Þar sem brunatryggingariðgjöld tóku til ákveðinnar fasteignar og hvíldu sem lögveð á þeim, verður að fallast á með kærða að honum hafi bæði verið rétt og skylt að stofna til sérstaks löginnheimtumáls í hverju tilviki og með því beina 12 innheimtubréfum og greiðsluáskorunum til kæranda dagana 20. og 31. maí 2019.

Samkvæmt fyrrgreindum heimildum laga nr. 77/1998 og nr. 90/1991 var kærða rétt við innheimtu krafnanna að áskilja umbjóðanda sínum hæfilegt endurgjald úr hendi kæranda, sem skuldara, vegna kostnaðar af löginnheimtu þeirra. Þar sem um sjálfstæðar gjaldfallnar peningakröfur voru að ræða sem tóku til ólíkra veðandlaga, svo sem fyrr greinir, verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærða hafi verið heimilt að áskilja umbjóðanda sínum hæfilegt endurgjald úr hendi kæranda vegna kostnaðar af löginnheimtunni krafnanna í hverju tilviki fyrir sig líkt og gert var.

Fyrir liggur að kærandi greiddi upp hinar gjaldföllnu skuldbindingar með greiðslu til lögmannsstofu kærða þann 12. júní 2019 en samdægurs voru gefnar út kvittanir fyrir fullnaðargreiðslu krafnanna. Svo sem rakið er í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni, sem samræmist málsgögnum, voru þóknunarliðir í öllum þeim 12 löginnheimtumálum sem um ræddi að fjárhæð 363.655 krónur með virðisaukaskatti auk þess sem vextir af kostnaði voru að fjárhæð 2.086 krónur og útlagður kostnaður að fjárhæð 71.000 krónur. Hefur kærði bent á að við uppgreiðslu krafnanna hafi verið veittur 21.45% afsláttur af lögmannsþóknun umfram skyldu enda hafi greiddur kostnaður numið 285.667 krónum með virðisaukaskatti eða að meðtali 23.806 krónur á mál. Að auki hafi kærandi fengið afslátt af dráttarvöxtum kröfuhafa að undirlagi kærða.

Að mati nefndarinnar er ekki annað fram komið í málinu, þar á meðal að teknu tilliti til höfuðstólsfjárhæða hinna gjaldföllnu brunatryggingaiðgjalda, útlagðs kostnaðar vegna innheimtuaðgerða og þess afsláttar sem sannanlega var veittur af kostnaðarliðum, en að það endurgjald sem kærði áskildi umbjóðanda sínum úr hendi kæranda vegna löginnheimtu krafnanna hafi í hverju tilviki verið í samræmi við lög nr. 77/1998, leiðbeinandi reglur innanríkisráðuneytisins frá 26. apríl 2013 og góða innheimtuhætti að öðru leyti. Verður því ekki talið að kærði hafi beitt ósanngörnum, óvægnum eða óhóflegum innheimtuaðgerðum gagnvart kæranda við löginnheimtu krafnanna, svo sem kærandi hefur reist málatilbúnað sinn fyrir nefndinni á.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda með háttsemi sem hafi verið í andstöðu við lög nr. 77/1998, siðareglur lögmanna eða góða innheimtuhætti.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A ehf., með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.  

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason lögmaður, formaður

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson