Mál 6 2019
Mál 6/2019
Ár 2019, miðvikudaginn 4. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.
Fyrir var tekið mál nr. 6/2019:
A,
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 4. mars 2019 erindi kæranda, A þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn í störfum sínum gagnvart kæranda.
Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 4. mars 2019 og barst hún þann 3. apríl sama ár. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 4. apríl 2019. Hinn 23. apríl 2019 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 29. sama mánaðar. Frekari athugasemdir og gögn bárust til nefndarinnar frá kæranda þann 2. maí 2019 og voru þau send til kærða þann 8. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Samkvæmt málsgögnum og málatilbúnaði aðila mun kærandi hafa átt í ágreiningi við barnsmóður sína vegna forsjár-, meðlags- og umgengnismáls um nokkurt skeið. Mun á fyrri stigum hafa verið leyst úr þeim ágreiningi með sátt aðila fyrir dómi. Í kjölfar sáttarinnar mun kærandi hafa leitað atbeina viðkomandi sýslumannsembættis vegna ætlaðra svika og tálmana gagnaðila síns samkvæmt sátt þeirri sem áður hafði verið gerð. Á móti gerði barnsmóðir kæranda kröfu fyrir sýslumanni um takmarkaða umgengni kæranda jafnframt því sem krafa mun hafa verið gerð um meðlag aftur í tímann.
Undir meðferð fyrrgreinds máls hjá sýslumanni mun gagnaðili kæranda hafa leitað til kærða með beiðni um lögmannsaðstoð vegna málsins. Ekki er ágreiningur um að kærði hafi tekið að sér málið í þágu gagnaðila kæranda í aprílmánuði 2018. Frá 5. þess mánaðar liggur fyrir í málsgögnum tölvubréf sem kærði beindi á einkapóstfang kæranda þar sem meðal annars var upplýst um hagsmunagæslu kærða í málinu og stöðu mála var lýst út frá afstöðu umbjóðanda kærða til umgengnisréttar. Þá var tiltekið í tölvubréfinu að ef eitthvað væri óljóst eða óskýrt skyldu samskipti fara fram við kærða.
Fyrir liggur að kærandi svaraði erindi kærða næsta dag þar sem hann gerði grein fyrir sjónarmiðum varðandi tiltekna þætti umgengninnar. Í svarði kærða þann sama dag, 6. apríl 2018, sem sent mun hafa verið á vinnupóstfang kæranda, voru veitt andsvör við þeim sjónarmiðum um umgengni sem kærandi hafði hreyft. Kærandi svaraði erindinu þennan sama þar sem tiltekið var að vinnupóstfang hans væri ekki til notkunar í málinu og að erindum vegna málsins skyldi beint á nánar tilgreint einkapóstfang kæranda þar sem þeim yrði svarað.
Aðilar áttu í frekari tölvubréfasamskiptum þennan sama dag og var þeim jafnan beint á vinnupóstfang kæranda af hálfu kærða. Í tölvubréfi kærða kl. 15:40 þann dag var meðal annars eftirfarandi tiltekið:
„Sæll, ég legg til að við vöndum okkur við þetta og bætum almennri tillitssemi við. Það er full alvara í þessu máli og vona ég að okkur takist að koma þessu í réttan farveg, sbr. það sem farið hefur okkur á milli. Ég er svo boðinn og búinn til skrafs og ráðagerða vegna málsins og get hvenær sem er komið við hjá þér t.d. niður á x-götu. – Finnist þér það óheppilegur staður geri ég ráð fyrir að þú hafir á því skilning að sama gildir um vinnustað C...“
Kærandi ítrekaði í tölvubréfi til kærða þennan dag að vinnupóstfang hans væri ekki til notkunar í málinu og að ef uppteknum hætti yrði haldið áfram yrði leitað til úrskurðarnefndar lögmanna vegna áreitis af hálfu kærða. Þá tiltók kærandi meðal annars að hvorki kærði né umbjóðandi hans væru velkomin á vinnustað hans. Fyrir liggur í málinu að tengdafaðir kærða er samstarfsmaður kæranda og þeir því með starfsstöð á sama stað. Kærði svaraði kæranda enn á ný þennan sama dag í vinnupóstfang kæranda en auk reifunar sjónarmiða á fyrirliggjandi máli og framhaldi þess var eftirfarandi þar tiltekið:
„...ég hef að sjálfsögðu engar athugasemdir við að þú leitir til siðanefndar LMFÍ eða hvert sem er annað ef þér finnst þú fórnarlamb áreitis af minni hálfu. Síðasti póstur frá þér kom úr vinnupóstfangi þínu og ég svaraði með því að smella á „reply“ hnappinn. Sé litið til bæði eldri og allra nýjustu samskipta þinna, m.a. símleiðis við vinnustað C er notkun á persónulegu tölvupóstfangi þínu hjá D með kurteisilegum ábendingum um gert samkomulag væntanlega fremur saklaus. Af persónulegum ástæðum gæti ég af og til átt hér eftir sem hingað til önnur erindi á vinnustað þinn en þau sem þér tengjast en þér er að sjálfsögðu velkomið að óska eftir einhverskonar nálgunarbanni á mig á þeim vettvangi.“
Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að eftir þetta tímamark hafi tölvubréfasamskipti aðila farið fram í gegnum einkapóstfang kæranda, í samræmi við beiðni hans þar að lútandi.
Kærandi beindi á ný ítarlegu tölvubréfi til kærða þann 9. apríl 2018 þar sem ýmsum sjónarmiðum var hreyft. Var þar meðal annars tiltekið það mat kæranda að siðlaust væri af kærða að sinna málinu í ljósi þess að kærði hefði vitneskju um hver kærandi væri, hvar hann starfaði og fyrir hvern. Þá væri jafnframt siðlaust af hálfu kærða að setja fram í texta að hann ætlaði að koma á starfsstöð kæranda og enn siðlausara að kærði hefði mætt í veislu sem haldin hefði verið fyrir starfsfólk á vinnustað kæranda. Þá kvað kærandi það leiðinlegt að kærði hefði kosið að senda tvö tölvubréf á vinnupóstfang kæranda eftir að beiðni um að af því yrði látið hefði verið komið á framfæri.
Í svari kærða þann sama dag, 9. apríl 2018, var eftirfarandi meðal annars tiltekið:
„..til þess að spara þér fyrirhöfnina vil ég í fyrsta lagi upplýsa þig um að langir tölvupóstar um atriði sem engu skipta fyrir umgengni fara fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Ég hef þá einföldu vinnureglu að lesa og hugsa um allt sem skiptir máli í þeim verkefnum sem ég tek að mér en að öðru leyti set ég mig á faglegum grunni aldrei inn í persónuleg málefni skjólstæðinga minna né heldur hugsanleg önnur mál sem þeim tengjast. – Samskipti okkar munu því af minni hálfu eingöngu snúast um þann umgengnisrétt sem þér verður, eða verður ekki, ákvarðaður þegar þar að kemur. Fram að úrskurðinum og eftir hann sömuleiðis mun ég einbeita mér að tvennu með hag skjólstæðings míns og barnsins að leiðarljósi: Annars vegar að skjólstæðingur minn hlíti bæði núverandi sátt og svo úrskurði þegar hann kemur og hins vegar að þú gerir hið sama. Verði á því misbrestur af þinni hálfu mun ég gera mitt til þess að réttur þinn til umgengni verði tekinn af þér. – Um önnur atriði en ofangreind þurfum við ekki að eiga samskipti.“
Fyrir liggur samkvæmt málsgögnum að málsaðilar áttu í frekari tölvubréfasamskiptum varðandi tilhögun umgengninnar dagana 10. og 11. apríl 2018 en ekki þykir ástæða til að reifa það efni nánar. Þá liggur fyrir að kærandi beindi tölvubréfum til kærða og umbjóðanda kærða þann 16. sama mánaðar þar sem ýmis atriði tengd barninu voru reifuð en þeim erindum mun ekki hafa verið svarað.
Málsaðilar áttu í áframhaldandi tölvubréfasamskiptum á tímabilinu frá 15. maí 2018 til 25. sama mánaðar. Var tilefni þeirra samskipta ætluð brot umbjóðanda kærða á dómsátt um tilhögun umgengnisréttarins. Ekki þykir efni til að reifa þau samskipti aðila í ljósi sakarefnis málsins að öðru leyti en því að uppi var ágreiningur um túlkun umgengnisréttarins. Þá var eftirfarandi meðal annars tiltekið í tölvubréfi kæranda til kærða, dags. 25. maí 2018:
„Ég vil taka það fram að þú ert ekki velkominn á vinnustað minn eða heimili og hefur ekkert erindi á þessa staði og ég óska hér með eftir staðfestingu frá þér að þú munir undir engum kringumstæðum mæta á þessa staði. Af gefnu tilefni við ég einnig bæta því við að þér er heldur ekki leyfilegt að taka af mér myndir hvort sem er á veitingastöðum eða almannafæri án míns leyfis.“
Málsaðilar áttu í enn frekari tölvubréfasamskiptum vegna málsins og aðkomu kærða að því á tímabilinu 4. – 12. júní 2018. Sakaði kærandi þar enn umbjóðanda kærða um að standa ekki við gerða sátt jafnframt því sem hann sakaði kærða um hótanir í sinn garð. Í samskiptunum hafnaði kærði öllum sjónarmiðum kæranda um þetta efni.
Í málsgögnum er jafnframt að finna tölvubréf sem kærandi sendi til kærða þann 23. júlí 2018. Var þar tiltekið að úrskurður í málinu hefði borist frá sýslumanni, að hann væri mjög skýr þar sem staðfest hefði verið allt það sem kærandi hafi barist fyrir. Kvað kærandi það von sína að umbjóðandi kærða færi eftir úrskurðinum í einu og öllu. Þá kvaðst kærandi hafa sent tölvubréf til umbjóðanda kærða varðandi fyrirhugaða umgengi en að engin svör hefðu borist.
Þá liggja fyrir í málsgögnum tölvubréf sem kærandi sendi til kærða og/eða umbjóðanda hans dagana 7. janúar, 11., 17. og 21. febrúar 2019. Í öllum tilvikum var um að ræða tölvubréf sem lutu að umgengnismálum og að ætluðum brotum umbjóðanda kærða á úrskurði sýslumanns um það efni. Í svari kærða við tölvubréfi kæranda hinn síðastgreinda dag, dags. 21. febrúar 2019, lýsti kærði því að kærandi þyrfti að fara „eftir reglunum“ til þess að fá svar eins og farið hefði verið yfir. Þá hvatti kærði að leitað yrði til úrskurðarnefndar lögmanna ef kærandi teldi á sér brotið. Svör kæranda frá 22. sama mánaðar eru einnig meðal málsgagna en ekki þykir ástæða til að greina nánar frá efni þeirra.
Að endingu er meðal málsgagna tölvubréf sem kærandi sendi til kærða eftir að kvörtun í máli þessu hafði verið móttekin af hálfu nefndarinnar, þ.e. nánar tiltekið tölvubréf dags. 7. og 27. mars 2019 og 23., 26. og 30. apríl sama ár.
II.
Skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að þess sé krafist að kærða skuli gert að sæta agaviðurlögum fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Jafnframt því krefst kærandi þess að kærði segi sig frá öllum málum er tengist kæranda auk þess að láta tafarlaust af þeirri háttsemi sem kvörtunin lúti að. Þá krefst kærandi þess að kærða verði gert að viðurkenna að hann hafi haft rangt við og biðjist afsökunar á hótunum og lygum.
Í málatilbúnaði kæranda er því lýst að kvörtuninni sé beint að kærða þar sem hann hafi villt á sér heimildir, haft í hótunum við kæranda auk þess að virða tölvubréf vegna umbjóðanda hans að vettugi. Vísar kærandi þannig til þess í fyrsta lagi að kærði, sem lögmaður gagnaðila kæranda, hafi haft í hótunum við sig persónulega. Í öðru lagi bendir kærandi á að kærði hafi villt á sér heimildir jafnframt því sem hann hafi tekið myndir af kæranda án heimildar. Í þriðja lagi vísar kærandi til þess að kærði svari ekki tölvubréfum og símtölum er varði umbjóðanda hans og velferð sonar kæranda. Þá hafi kærði í fjórða lagi sýnt af sér hroka og vanvirðingu í samskiptum aðila.
Um allt framangreint er vísað til þess í kvörtun kæranda að kærði hafi tekið að sér að sinna máli barnsmóður kæranda gegn kæranda fyrir sýslumanni vegna ágreinings um umgengni og meðlag. Kveðst kærandi hafa óskað eftir aðstoð sýslumanns vegna endurtekinni svika og tálmana af hendi móður en á móti hafi hún krafist takmarkaðrar umgengi. Hafi málið þá verið í þriðja skipti til meðferðar hjá sýslumanni vegna ítrekaðra brota af hálfu móður sem staðið hafi yfir allt frá fyrsta degi eftir að dómsátt hafi verið gerð.
Kærandi bendir á að úrskurður sýslumanns hafi verið mjög skýr um að móðir skyldi fara að sátt sem gerð hafi verið auk þess sem fleiri ákvæðum hafi verið bætt við þar sem sýnt hafi verið fram á að verið væri að baka barninu skaða með framkomu á heimili í tengslum við umgengni.
Kærandi vísar til þess að hann hafi ekki vitað hver kærði var en því hafi verið öfugt farið með kærða þegar hann hafi tekið að sér málið. Þannig hafi kærði vitað að kærandi starfaði á vinnustað tengdaföður kærða, en að hann hafi engu að síður tekið að sér málið í þágu barnsmóður kæranda.
Á það er bent að kærði hafi komið óboðinn í boð starfsmanna á vinnustað kæranda, þar sem hann hafi jafnframt ekki verið velkominn, en að kærandi hafi ekki vitað um það enda ekki þekkt á kærða deili. Þar hafi kærði ítrekað gefið sig á tal við kæranda án þess að gefa upp að hann væri lögmaður barnsmóður kæranda og þar með gagnaðila hins síðargreinda. Hafi kærði þar viðhaft mjög undarlegar spurningar í garð kæranda. Undir lok kvölds hafi kærði loks kynnt sig gagnvart kæranda og hver umbjóðandi hans væri. Kveðst kærandi hafa gert kærða ljóst um hversu ófagmannlega framkomu væri að ræða jafnframt því sem hann hafi lýst því að hann vildi ekki ræða frekar við kærða. Hafi kærða virst skemmt yfir þessu og gert í því að brosa til kæranda og vera almennt hrokafullur og með stuðandi framkomu.
Kærandi vísar til þess að fyrsta tölvubréf sem honum hafi borist frá kærða hafi verið sent á einkapóstfang hans, sem hafi verið eðlilegt. Síðar hafi kærði farið að senda tölvubréf á vinnupóstfang kæranda jafnframt því sem hann hafi hótað að koma á starfsstöð kæranda til að ræða málin. Hafi kærði ítrekað í kjölfarið sent tölvubréf á vinnupóstfang kæranda þrátt fyrir beiðni um að samskiptum yrði beint á viðkomandi einkapóstfang.
Kærandi bendir jafnframt á að kærði hafi byrjað að taka myndir af sér þar sem hann hafi verið að snæða hádegismat með samstarfsfélaga einn daginn. Telur kærandi ljóst að slík háttsemi kærða geti ekki samrýmst siðareglum lögmanna.
Vísað er til þess að afrit af öllum tölvubréfum og samskiptum á milli kæranda og kærða séu meðal málsgagna. Af þeim megi ljóst vera hvaða starfsháttum kærði haldi uppi. Þar á meðal svari kærði ekki óskum er varði barn kæranda og umbjóðanda kærða. Þá hafi kærði verið almennt með öllu skeytingarlaus um svik af hálfu umbjóðanda síns og hvernig bregðast skyldi við þeim. Hafi kærði þannig gert illa verra í málinu þrátt fyrir að halda hinu gagnstæða fram.
Því til viðbótar bendir kærandi á að hvorki kærði né umbjóðandi hans hafi svarað ítrekuðum óskum hans um breytta umgengni. Þá hafi kærandi óskað eftir að sonur hans fengi að dvelja hjá sér í vetrarfríi þar sem móðir drengsins hafi alltaf sett hann í pössun sem hann hafi ekki viljað. Þar sem kærði hafi ekki haft samband við umbjóðanda sinn eða kynnt honum óskir kæranda, hafi engin svör borist. Í næstu umgengni á eftir hafi verið ljóst að drengurinn hafi verið í pössun þvert gegn vilja þar sem hann hafi viljað dvelja hjá kæranda á nefndum tíma. Samkvæmt því hafi kærði á beinan hátt haft slæm áhrif á líðan barnsins og það ekki í fyrsta skipti.
Kærandi byggir á að kærði hafi brotið siðareglur lögmanna eins og þær leggi sig. Sé það úrskurðarnefndar að ákveða viðurlög í málinu en sé um venjubundna starfshætti kærða að ræða vísar kærandi til þess að hann sé ekki hæfur til að gegna því starfi. Í öllu falli óskar kærandi eftir að kærða verði gert að segja sig frá málinu þannig að kærandi þurfi ekki að lifa í ótta við að verða myndaður á almenningsstöðum eða honum hótað. Sé um háttsemi að ræða sem sé ekki í lagi jafnframt því sem hún hafi komið illa við kæranda og son hans og umbjóðanda kærða.
Í viðbótarathugasemdum kæranda vísar aðilinn til þess að kærði fari mikinn í athugasemdum sínum til nefndarinnar án þess þó að færa fram nokkrar sannanir jafnframt því að bera upp lygar á kæranda. Kveður kærandi öll samskipti í málinu hafa versnað til muna eftir aðkomu kærða að því. Hafi kærði þannig haft í hótunum, logið og komið fram á mjög óviðeigandi og siðlausan hátt.
Varðandi tölvubréf á milli málsaðila vísar kærandi til þess að kærði hafi átt upptök af þeim samskiptum, sbr. tölvubréf frá 5. apríl 2018 sem sent hafi verið á einkapóstfang kæranda. Þá hafi kærði jafnframt átt upptök af því að senda tölvubréf á vinnupóstfang kæranda, sem aðeins sé að finna á vefsíðu vinnustaðar hans.
Kærandi vísar til þess að kærði hafi tekið mynd af sér á veitingastað þann 12. apríl 2018. Kveðst kærandi vænta þess að kærði geti sýnt það og sannað að hann hafi ekki verið á veitingastaðnum þann dag ef um slíkt hafi verið að ræða.
Kærandi kveður kærða fara rangt með forsögu málsins, þ.e. um ætlaða skerta forsjárhæfni kæranda. Það sé rétt að umbjóðandi kærða fari ein með forræði barnsins eftir að sátt hafi náðst um málið fyrir dómi. Til hafi verið kallaður matsmaður sem hafi tiltekið í matsgerð að það væri „ólíklegt skv. niðurstöðum prófsins að hann [kærandi] sýndi öðru fólki reiði eða árásarhneigð.“ Þá hafi einnig komið fram í viðtali við matsmann óskir kæranda varðandi umgengni við barnið og hversu mikilvægt það væri að geta treyst á að hlutirnir gengju eftir að því er umgengni og samskipti varðar.
Kærandi lýsir því að það sé rétt að hann hafi fengið dóm vegna líkamsárásar. Hann geti hins vegar ekki tjáð sig frekar um það mál þar sem því sé ekki lokið. Jafnframt því hafi verið lagðar fram fjöldi kæra sem ekki hafi átt við nein rök að styðjast. Þá hafi kærði tilkynnt sjálfur um að búið væri að leita til barnaverndarnefndar vegna kæranda. Hafi kærandi ekki fengið skýringar á því eða yfir hverju kærði hefði ákveðið að kvarta auk þess sem hann hafi ekki heyrt frekar af því ætlaða máli, hvorki frá kærða né viðkomandi barnaverndarnefnd.
Því er hafnað að kærandi hafi sýnt umbjóðanda kærða ofbeldistilburði eða áreitni. Er á það bent að í öllum tilvikum sem kærandi hafi bent kærða á svik umbjóðanda hans varðandi sátt um umgengni hafi kærði svarað því til að hann skildi ekki um hvað væri rætt. Þá hafi kærði kosið að svara ekki ítrekuðum erindum kæranda um brot umbjóðanda hans á sáttinni.
Varðandi vinnustaðaboð það sem kærði hafi mætt í þá bendir kærandi á að kærði hafi sent fyrsta tölvubréf vegna málsins þann 5. apríl 2018 en að boðið hafi verið haldið degi síðar. Vitni séu að samskiptum málsaðila í boðinu. Þá hafi kærandi staðið í þeirri trú að einungis starfsmönnum á viðkomandi vinnustað væri boðið en ekki niðjum og tengdaniðjum starfsmanna, líkt og kærði haldi fram.
Kærandi ítrekar að í tölvubréfi kærða, þar sem rætt hafi verið um að hittast á starfsstöð kæranda til að ræða málið, hafi falist hótun en ekki vinsamleg uppástunga. Sjáist það skýrt á orðalagi tölvubréfsins. Þá sé framkoma og lygar kærða í áðurgreindu boði, auk þess sem hann hafi allt í einu tekið uppá því að senda tölvubréf á vinnupóstfang kæranda í stað einkapóstfangs, ekkert annað en hótun sem hafi stigmagnast.
Um samskipti aðila vísar kærandi annars til þess að kærði hafi ekkert gert til að láta umbjóðanda sinn fylgja sátt þeirri sem gerð hafi verið fyrir dómi né úrskurði sýslumanns, þrátt fyrir fyrirheit um hið gagnstæða. Þá ítrekar kærandi að kærði hafi ekki svarað ítrekuðum erindum hans um málið sem send hafi verið í tölvubréfum þar á meðal eftir að kvörtun í máli þessu var beint til nefndarinnar, sbr. meðal annars tölvubréf 7., 27. og 28. mars 2019 og 23., 26., 29. og 30. apríl sama ár.
Að endingu vísar kærandi til þess að kærði hafi nú fyrir hönd síns umbjóðanda kært úrskurð sýslumanns um höfnun á afturvirku meðlagi til viðkomandi ráðuneytis. Í stað þess að fara að fyrirliggjandi sátt og úrskurðum sé haldið áfram með málin af gegndarlausri áreitni sem sé engum í hag.
III.
Kærði krefst þess aðallega að kvörtun kæranda verði vísað frá nefndinni. Til vara krefst aðilinn þess að hafnað verði sjónarmiðum kæranda um að kærði hafi gert á hlut hans með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá er þess krafist að kæranda verði gert að greiða kærða málskostnað fyrir nefndinni með álagi samkvæmt 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 með vísan til hliðsjónar í ákvæði 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kærði kveðst mótmæla málsatvikalýsingu kæranda í öllum atriðum og þá sérstaklega ruglingslegum og samhengislitlum ávirðingum um persónu og starfsheiður kærða. Vísar kærði á bug öllum ávirðingum kæranda sem röngum og ósönnuðum. Þá bendir kærði á að hann sé lögmaður og umboðsmaður barnsmóður kæranda sem leiði til þess að kærandi sé ekki skjólstæðingur kærða. Að því virtu verði einvörðungu litið til mögulegrar heimfærslu kvartana til V. kafla siðareglna lögmanna þar sem kveðið sé á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Þá verði ekki skilið af lestri kvörtunar að brigslað sé um lögbrot heldur sé vísað til „allra greina“ siðareglna lögmanna.
Um forsögu málsins vísar kærði til þess að barnsmóðir kæranda hafi leitað til sín vegna langvarandi átaka og forræðisdeilu við kæranda. Kveður kærði ekki ástæðu til að rekja efnisatriði þeirra deilna en þó sé rétt að halda því til haga að umbjóðandi kærða fari ein með forsjá barns þeirra, meðal annars þar sem kærði hafi verið talinn með skerta forsjárhæfni vegna ofbeldishegðunar af dómkvöddum matsmanni. Hafi kærandi fengið dóm þar sem hann hafi verið sakfelldur fyrir líkamsárás gegn föður barnsmóður sinnar auk þess sem kærur vegna ofbeldis hafi verið lagðar fram hjá lögreglu og hjá barnavernd.
Kærði vísar til þess að þegar hann hafi fyrst komið að málum kæranda í aprílmánuði 2018 hafi verið til meðferðar hjá sýslumanni krafa móður um takmarkaða umgengni ásamt kröfu hennar um meðlag aftur í tímann. Hafi kæranda verið sent tölvubréf þann 5. apríl 2018 þar sem boðið hafi verið upp á að laga samskipti og koma umgengni í fastari og betri skorður með það að leiðarljósi að bæta líðan barnsins sem og að freista þess að koma á friði á milli foreldra. Kveðst kærði hafa tekið á samskiptum við kæranda af festu en með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Þá hafi kærði reynt að fá kæranda til þess að virða settar reglur og láta af ofbeldistilburðum og áreitni í garð barnsmóður.
Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni sem vanreifuðu og vegna óskýrleika. Er á því byggt að málatilbúnaður kæranda sé með öllu óskiljanlegur þannig að ómögulegt sé að henda reiður á umkvörtunarefnið.
Varðandi aðalkröfu sína bendir kærði á að kvörtun kæranda hefjist á upptalningu á því sem kærði eigi að hafa gert á hlut hans. Sé öllum þeim ásökunum vísað á bug. Þannig hafi kærði ekki haft nokkra hugmynd um vinnustað kæranda við upphaf vinnunnar. Fráleitt sé að telja þá staðreynd að kærandi sé starfandi á sama vinnustað og tengdafaðir kærða útiloki kærða frá því að sinna málinu. Jafnframt því sé dylgjum um að kærði hafi villt á sér heimildir í boði sem tengdafaðir kærða hafi haldið á heimili sínu fyrir vinnufélaga, börn, tengdabörn og barnabörn vísað á bug og sömuleiðis öllum lýsingum kæranda á málsatvikum í þessu boði.
Kærði vísar einnig á bug kvörtun kæranda yfir notkun kærða á vinnutengdu tölvupóstfangi kæranda. Vísar kærði til þess að hið rétta sé að kærandi hafi sent tölvubréf úr nefndu póstfangi og að kærði hafi svarað kæranda með því að ýta á „reply“. Í kjölfarið hafi einhver samskipti átt sér stað í stuttan tíma á því póstfangi, sem auglýst sé á veraldarvefnum.
Í málatilbúnaði sínum vísar kærði til þess að vinsamleg uppástunga hans, sem stundum eigi erindi á vinnustað tengdaföður síns, um að nýta mætti slíka ferð til þess að ræða við kæranda sé túlkuð sem hótun af hálfu kæranda. Allan rökstuðning vanti fyrir þeirri túlkun. Þá kveðst kærði vísa því á bug sem hreinum ósannindum að kærði hafi tekið ljósmyndir af kæranda á almannafæri. Kannast kærði þannig ekki við að hafa verið á sama veitingastað og kærandi og því síður að hafa tekið af honum myndir.
Varðandi þá kvörtun að kærði hafi ekki svarað einstökum tölvubréfum kæranda vísar hinn fyrrgreindi til þess að sú runa af tölvubréfum sem lögð hafi verið fram skýri væntanlega sjálf hvers vegna þeim hafi ekki öllum verið svarað samstundis með þeim ærna kostnaði sem því hefði fylgt fyrir umbjóðanda kærða. Auk þess vekur kærði athygli á tölvubréfi hans til kæranda frá 9. apríl 2018 þar sem kærandi hafi fengið skýringar á því hvernig kærði hagaði samskiptum við hann.
Verði málinu ekki vísað frá nefndinni krefst kærði þess að öllum sjónarmiðum kæranda verði hafnað. Byggir kærði á að vinna hans, sem falist hafi í því að gæta hagsmuna umbjóðanda síns, þ.e. barnsmóður kæranda, hafi öll verið til fyrirmyndar og staðist lagakröfur sem og ákvæði siðareglna. Hafi kærði tekið að sér mál sem hann hafði bæði reynslu og þekkingu til þess að geta sinnt auk þess sem hann hafi lagt til málsins allt sem eðlilegt getur talist og gætt hagsmuna umbjóðanda síns í hvívetna. Samkvæmt því sé þess krafist að ásökunum kæranda verði hafnað.
Varðandi kröfu um málskostnað úr hendi kæranda vísar kærði til þess að hvort sem málinu verði vísað frá nefndinni eða sjónarmiðum kæranda hafnað beri að bæta kærða þá vinnu sem óhjákvæmilega hafi farið í vörn gegn ávirðingum sem bæði séu rangar og órökstuddar.
Niðurstaða
I.
Rétt þykir að fjalla fyrst sérstaklega um frávísunarkröfu kærða en samkvæmt 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd löganna getur nefndin vísað máli frá ef í því eru sönnunaratriði, sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins, eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst. Um þá kröfu er í greinargerð kærða vísað til þess að málatilbúnaður kæranda sé óskýr og að vanreifun málsins af hálfu kæranda varði frávísun þess frá nefndinni.
Um frávísunarkröfu kærða er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur meðal annars að ætluðum brotum aðilans, sem sérstaklega eru tiltekin, gegn ákvæðum siðareglna lögmanna. Heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Fellur umkvörtunarefni kæranda á hendur kærða, sem lögmanni, að því leyti undir valdsvið nefndarinnar. Þá hefur málatilbúnaður kæranda að mati nefndarinnar ekki leitt til þess að kærði hafi átt í erfiðleikum með að taka til efnisvarna í málinu með þeim hætti að leitt geti til frávísunar þess frá nefndinni enda lúta varnir hans í málinu öll í reynd að efnisatriðum þess. Eins og atvikum er háttað verður því að telja málið nægilega reifað og upplýst. Samkvæmt því er kröfu kærða um að málinu verði í heild sinni vísað frá nefndinni hafnað.
Á grundvelli valdsviðs nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, sbr. einnig 3. gr. og 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, eru hins vegar ekki efni til að taka til skoðunar kröfur kæranda um kærða verði gert að segja sig frá öllum málum er tengjast kæranda, að kærða verði gert að láta tafarlaust af þeirri háttsemi sem kvörtunin lúti að og að kærða verði gert að viðurkenna að hann hafi haft rangt við og biðjist afsökunar á ætluðum hótunum og lygum. Þegar af þeirri ástæðu er tilgreindum kröfu kæranda vísað frá nefndinni.
Í samræmi við framangreint verður krafa kæranda, um að kærði verði látinn sæta agaviðurlögum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, tekin til efnisúrlausnar.
II.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Í 2. gr. siðareglnanna er kveðið á um að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.
Í 34. gr. siðareglnanna, sem er að finna í V. kafla þeirra þar sem kveðið er á um skyldur lögmanns við gagnaðila, er tiltekið að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg sé hagsmunum skjólstæðinganna.
Loks er kveðið á um í 41. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.
III.
Svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan hefur kærði gætt hagsmuna gagnaðila kæranda í meðlags- og umgengnismáli fyrir sýslumanni. Lýtur kvörtun kæranda í málinu að því að kærði hafi með ýmsum hætti gert á hlut kæranda undir rekstri þess máls, þ.e. með háttsemi sem stríði gegn ákvæðum siðareglna lögmanna.
Í fyrsta lagi lúta kvörtunarefni kæranda í máli þessu að ýmissi ætlaðri háttsemi kærða sem varða öll með einum eða öðrum hætti vinnustað kæranda en fyrir liggur í málinu að tengdafaðir kærða er samstarfsmaður kæranda og þeir því með starfsstöð á sama stað. Þannig hefur kærandi borið því við að kærði hafi haft í hótunum við sig um að mæta á vinnustað kæranda vegna málsins, að kærði hafi mætt óboðinn í starfsmannaboð á vinnustað kæranda og villt þar á sér heimildir gagnvart kæranda og að kærði hafi ítrekað sent tölvubréf á vinnupóstfang kæranda þrátt fyrir beiðni hins síðargreinda um að samskiptum yrði beint á nánar tiltekið einkapóstfang hans. Kærði hefur hins vegar í málatilbúnaði sínum vísað öllum tilgreindum kvörtunarefnum á bug.
Um hið fyrstgreinda kvörtunarefni hefur kærandi einkum vísað til tölvubréfs kærða frá 6. apríl 2018, en gerð er grein fyrir efni þess í málsatvikalýsingu að framan. Kærði hefur um þetta efni vísað til þess í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að um vinsamlega uppástunga hans hafi verið að ræða, þar sem hann eigi stundum erindi á vinnustað tengdaföður síns, um að nýta mætti slíka ferð til þess að ræða við kæranda.
Þótt fallast megi á með kæranda að umræður um viðkvæm málefni af því toga sem mál þetta tekur til, og kærði gætti hagsmuna í fyrir hönd gagnaðila kæranda, eigi alla jafna ekkert erindi inn á vinnustað málsaðila að slíku máli verður ekki talið að það tölvubréf kærða til kæranda, sem hér um ræðir, hafi falið í sér slíka hótun sem kvörtun kæranda að þessu leyti er reist á. Verður í því samhengi að líta til framsetningar á efni tölvubréfsins í heild sinni. Samkvæmt því verður ekki talið að mati nefndarinnar, eins og atvikum er háttað, að kærði hafi viðhaft hótanir gagnvart kæranda um að mæta á vinnustað hins síðargreinda, „til skrafs og ráðagerða um málið“, þannig að í bága fari við 34. gr. siðareglna lögmanna eða aðrar greinar þeirra.
Hvað annað kvörtunarefnið varðar, þ.e. að kærði hafi villt á sér heimildir gagnvart kæranda í starfsmannaboði sem haldið hafi verið á vegum vinnustaðar hans, þá liggur fyrir sem fyrr greinir að umrætt boð var haldið á heimili tengdaföður kærða en kærði hefur borið því við fyrir nefndinni að það hafi verið haldið fyrir vinnufélaga, börn, tengdabörn og barnabörn viðkomandi jafnframt því sem hann hefur vísað á bug öllum lýsingum kæranda á málsatvikum að þessu leyti.
Hverju sem þessu ágreiningsefni líður þá liggur fyrir að kærði var viðstaddur umrætt boð. Samkvæmt því verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærði hafi verið þar samkvæmt boði tengdaföður síns. Engra skriflegra gagna nýtur við í málinu um hina ætluðu háttsemi kærða gegn kæranda í viðkomandi boði sem kvörtun í málinu tekur til. Samkvæmt því og gegn andmælum kærða um málatilbúnað kæranda um þetta efni, verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á í málinu að kærði hafi villt á sér heimildir gagnvart kæranda í boðinu eða að hann hafi með ætlaðri háttsemi sinni þar gert á hlut kæranda sem stríði gegn siðareglum lögmanna.
Um hið síðastgreinda kvörtunarefni að þessu leyti, þ.e. að kærði hafi ítrekað sent tölvubréf á vinnupóstfang kæranda vegna málsins þrátt fyrir beiðni hins síðargreinda um að samskiptum yrði beint á nánar tiltekið einkapóstfang hans, er þess að gæta að upphaf aðkomu kærða að málinu má rekja til tölvubréfs sem hann sendi til kæranda þann 5. apríl 2018 þar sem meðal annars var upplýst um hagsmunagæslu hans í málinu í þágu gagnaðila kæranda jafnframt því sem stöðu mála var lýst út frá afstöðu umbjóðanda kærða til umgengnisréttar. Degi síðar beindi kærði tölvubréfi vegna málsins á vinnupóstfang kæranda sem óskaði eftir í svörum sínum til kærða að vegna slíkra samskipta yrði notast við tilgreint einkapóstfang hans. Frá sama degi liggja fyrir tvö önnur tölvubréf sem kærði sendi á vinnupóstfang kæranda en hinn fyrrgreindi hefur borið því við fyrir nefndinni að um hafi verið að ræða svör við tölvubréfum kæranda sem send hafi verið af því sama póstfangi og að hann hafi því aðeins ýtt á „reply“.
Fallast má á með kæranda að það samrýmist þeirri virðingu og tillitssemi sem kveðið er á um að lögmaður eigi að sýna gagnaðilum umbjóðanda síns í skilningi 34. gr. siðareglna lögmanna að lögmaður hagi almennt sendingu tölvubréfa á það tölvupóstfang sem gagnaðilinn óski eftir. Jafnframt því sé það eðlileg krafa að slíkum samskiptum sé almennt ekki beint á óviðkomandi vinnupóstföng.
Á hinn bóginn er til þess að líta, líkt og áður greinir, að hinum umþrættu tölvubréfasamskiptum sem hér um ræðir var beint á vinnupóstfang kæranda af hálfu kærða við upphaf aðkomu hins síðargreinda að málinu í þágu síns umbjóðanda. Þá benda gögn málsins til þess að hin síðari tvö tölvubréf sem hér um ræðir hafi verið liður í andsvörum kærða við tölvubréfum sem kærandi hafi beint af viðkomandi póstfangi til kærða. Samkvæmt því, sem og með hliðsjón af því að málsaðilar hafa frá þeim tíma átt í ítrekuðum tölvubréfasamskiptum vegna málsins um margra mánaða skeið sem í öllum tilvikum hafa farið fram í gegnum einkapóstfang kæranda í samræmi við ósk hans þar að lútandi, verður ekki talið að kærði hafi að þessu leyti gert á hlut kæranda með háttsemi sem stríði gegn ákvæðum siðareglna lögmanna.
Í öðru lagi lýtur kvörtun kæranda í málinu að því að kærði hafi gert á hans hlut með því að hafa tekið af honum ljósmyndir á veitingastað í óþökk kæranda. Kærði hefur í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni vísað því á bug að hann hafi viðhaft slíka háttsemi gagnvart kæranda.
Engra gagna nýtur við um þetta efni fyrir nefndinni önnur en tölvubréfasamskipti málsaðila. Gegn andmælum kærða um þetta efni verður því ekki talið að sýnt hafi verið fram á í máli þessu að kærði hafi viðhaft þá háttsemi sem hér um ræðir gegn kæranda og með því brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna.
Að endingu lýtur kvörtun kæranda að því að kærði hafi ekki svarað ítrekuðum tölvubréfum og símtölum frá kæranda vegna málsins jafnframt því sem kærði hafi viðhaft hroka og vanvirðingu gagnvart kæranda í öllum samskiptum.
Um þetta efni er til þess að líta að í málinu liggja fyrir fjölmörg tölvubréf sem gengið hafa á milli málsaðila vegna málsins frá 5. apríl 2018 og til þess tíma er kvörtun í málinu var beint til nefndarinnar þann 4. mars 2019. Af þeim tölvubréfasamskiptum verður ráðið að kærði hafi í flestum tilvikum svarað erindum kæranda í málinu án ástæðulauss dráttar, svo sem áskilið er í 41. gr. siðareglna lögmanna.
Úrskurður sýslumanns um meðlags- og umgengnisrétt í því máli sem kærandi átti í við umbjóðanda kærða mun hafa legið fyrir í júlímánuði 2018 en gögn málsins benda til þess að samhliða því hafi dregið mjög úr samskiptum málsaðila jafnframt því sem erindi kæranda í framhaldinu munu ýmist hafa verið send beint til umbjóðanda kærða, kærða sjálfs eða þeirra beggja. Verður jafnframt ráðið af málsgögnum að þeim erindum hafi ýmist verið seint eða illa svarað en þau lutu í flestum tilvikum að ætluðum brotum umbjóðanda kærða á fyrirliggjandi úrskurði sýslumanns. Hefur kærði borið því við fyrir nefndinni að hin fjölmörgu erindi kæranda skýri sjálf hvers vegna þeim hafi ekki öllum verið svarað samstundis með þeim ærna kostnaði sem því hefði fylgt fyrir umbjóðanda kærða.
Líkt og áður greinir bera málsgögn þess merki að kærði hafi almennt fram að úrskurði sýslumanns í júlímánuði 2018 leitast við að svara erindum kæranda án ástæðulauss dráttar. Eftir það tímamark lutu erindi kæranda að ætluðum brotum umbjóðanda kærða á umgengnisrétti þeim sem kveðið hafði verið á um í viðkomandi úrskurði, þ.e. eftir að máli því sem kærði annaðist hagsmunagæslu í fyrir hönd gagnaðila kæranda var lokið. Að mati nefndarinnar verður um þetta efni ekki fram hjá því litið að með skýrum hætti er kveðið á um í VIII. kafla barnalaga nr. 76/2003 hvernig umgengni skuli komið á sé ekki farið eftir úrskurði sýslumanns um það efni, sbr. einkum 48. – 50. gr. laganna. Samkvæmt því og eins og atvikum öllum er háttað að öðru leyti, þar á meðal efni fyrirliggjandi tölvubréfasamskipta frá 23. júlí 2018 til 22. febrúar 2019, verður ekki talið að kærði haft gagnvart kæranda gerst brotlegur við 41. gr. siðareglna lögmanna. Þá er það mat nefndarinnar að hvorki hafi verið sýnt fram á með fyrirliggjandi tölvubréfasamskiptum né öðrum hætti að kærði hafi viðhaft hroka og vanvirðingu gagnvart kæranda þannig að í bága hafi farið við 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Í samræmi við allt framangreint verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda í máli þessu með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðreglum lögmanna.
Kröfum kæranda um að kærða verði gert að segja sig frá öllum málum er tengjast kæranda, að kærða verði gert að láta tafarlaust af þeirri háttsemi sem kvörtunin lúti að og að kærða verði gert að viðurkenna að hann hafi haft rangt við og biðjist afsökunar á ætluðum hótunum og lygum, er vísað frá nefndinni.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr lögmaður, formaður
Einar Gautur Steingrímsson lögmaður
Kristinn Bjarnason lögmaður lögmaður
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Sölvi Davíðsson