Mál 16 2021

Mál 16/2021

Ár 2022, 11. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2021:

 

A  

gegn

B lögmanni

 

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. ágúst 2021 erindi kæranda, A, þar sem lýst er ágreiningi við kærðu, B lögmann, annars vegar um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum kærðu í störfum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 1. september 2021 og barst hún þann 7. október s.á. Var kæranda send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi þann 11. október s.á. Viðbótarathugasemdir kæranda í málinu bárust nefndinni þann 10. nóvember 2021 og voru þær kynntar kærðu með bréfi 15. s.m. Lokaathugasemdir kærðu bárust 15. desember og voru þær kynntar kæranda með bréfi þann sama dag, þar sem tilkynnt var um að gagnaöflun væri lokið. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar eða athugasemda af hálfu málsaðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns til meðferðar málsins vegna tengsla hans við kærðu. Nefndarmaðurinn vék því sæti og varamaður kom í hans stað.

 

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málatilbúnaði verður ráðið að C hafi sett sig í samband við kærðu með tölvubréfi þann 10. október 2019 og óskað eftir lögmannsþjónustu hennar vegna skilnaðar við eiginmann sinn, A.

 

Kvörtun í máli þessu er reist á því að kærða hafi gegn betri vitund gefið kæranda misvísandi upplýsingar um að hún gætti bæði hagsmuna hans og C í skilnaðarmálinu og að hún hafi greitt sér þóknun í heimilidarleysi af söluandvirði fasteignar í eigu kæranda.

 

Ágreiningslaust er að kærða hitti C á fundi 15. október 2019 þar sem verkumboð hafi verið undirritað milli hennar og C. Í verksamningnum hafi verkefnið verið skilgreint svo:

„Verkefni lögmanns snýr að hagsmunagæslu vegna skilnaðar við maka minn, sbr. útlistnum á verkefni í tölvupósti.“

 

Þann 20. nóvember 2019 hafi umbjóðandi kærðu sett sig í samband við hana með tölvubréfi og óskað eftir fundi, sem eiginmaður hans, A myndi jafnframt mæta á. Kærða hafi svarað tölvubréfinu þann sama dag og tekið vel í þá bón, en hafi jafnframt óskað eftir því að funda fyrst með umbjóðanda sínum og svo með honum og kæranda. Í kjölfar þessara samskipta hafi kærða sett sig í samband við D lögmann, en hún hafði fengið þær upplýsingar frá umbjóðanda sínum að D hefði tekið að sér hagsmunagæslu fyrir kæranda. Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna samskipti milli D og kærðu þess efnis að D hafi upplýst í símtali í nóvember 2019 að hann væri ekki lögmaður kæranda, heldur hafi hann eingöngu leiðbeint honum og mælt með því að hann leitaði til frönskumælandi lögmanns.

 

Gögn málsins bera með sér að kærða hafi fundað með umbjóðanda sínum og kæranda 26. nóvember 2019 en aðilum ber ekki saman um hvort kærða hafi boðað kæranda sérstaklega á fundinn. Fyrir liggur að kærða tók að sér að gera fjárskiptasamning fyrir umbjóðanda sinn og kæranda. Fjárskiptasamningurinn er á meðal málsgagna og er hann bæði á íslensku og ensku. Samkvæmt samningnum voru eignir til skipta, G að verðmæti kr. 26.000.000, H að verðmæti kr. 26.000.000, S að verðmæti kr. 2.500.000, K að verðmæti kr. 5.000.000, félagið E ehf., að verðmæti kr. 3.000.000, bifreið að verðmæti kr. 1.500.000. Í samningnum kom fram að hvorki lægi fyrir verðmat löggilts fasteignasala á fasteignum og lóðum, né verðmat á félaginu og að aðilar hefðu komist að samkomulagi um að tilgreindar fjárhæðir yrðu notaðar sem virði eignanna við skiptin. Í samningnum var jafnframt upplýst um að kr. 25.000.000 lán hvíldi sameiginlega á G og H. Skuldari á því láni var E ehf., en félagið hafði notað fjármunina til að festa kaup á tveimur sumarhúsum til notkunar í rekstri félagsins.

 

Samkvæmt fjárskiptasamningnum skiptust eignirnar þannig: Í hlut kæranda kom G, bifreiðin, félagið E ehf. og K, samtals að verðmæti kr. 35.500.000. Í hlut umbjóðanda kærðu kom H, S og greiðsla frá kæranda að fjárhæð kr. 2.750.000, samtals að verðmæti kr. 33.250.000. Greiðsluna til umbjóðanda kærðu að fjárhæð kr. 2.750.000 bar að greiða í formi tveggja veðskuldabréfa, eitt að fjárhæð kr. 1.500.000 tryggt með 1. veðréttti í lóðinni K og 2. veðrétti í G og annað skuldabréf að fjárhæð kr. 1.250.000, tryggt með 2. veðrétti í K. Lánin báru ekki vexti og voru með gjalddaga einu ári eftir útgáfu. Umbjóðandi kærðu samþykkti einnig tvö lán til félagsins E ehf., eitt að fjárhæð 22.000 evrur og annað að fjárhæð kr. 1.000.000, lánin voru til óverðtryggð, til 60 mánaða og báru 3,5% vexti.

 

Þá var í 4. gr. fjárskiptasamningsins eftirfarandi tekið fram, bæði á íslensku og ensku;

„Okkur er ljóst að í samningi þessum er vikið frá ákvæðum hjúskaparlaga um helmingaskipti eigna.“

 

Í 7. gr. samningsins varðandi greiðslur til kærðu vegna lögmannsþóknunar sagði:

„Hvað varðar kostnað við vinnu lögmannsins, B eru aðilar sammála um að skipta til helminga greiðslu lögmanns við vinnuna og við undirbúning og gerð fjárskiptasamnings þessa, þar með talið tölvupóstar, símtöl og samskipti.“

 

„Lögfræðivinna vegna gerð skuldabréfa skv. öðrum ákvæðum í 4. gr. verður greidd af E ehf. eða A. Vinna sem unnin var fyrir 26. nóvember er greidd af C.“  

 

Fyrir nefndinni liggja tölvubréf dags. 11.-14. desember 2019 þar sem kærandi og kærða ræða sín á milli um að ganga þurfi frá skilnaðinum sem fyrst, ásamt því að umbjóðandi kærðu þurfi að veita honum umsamin lán. Í einu tölvubréfanna frá kærðu til kæranda 11. desember var meðal annars eftirfarandi tiltekið:

„.... The company and yourself will pay for the work conducted regarding the loan of 22.000 euros and 500.000 ikr, and then for the loan of 2,75 millions as we had already discussed on our meeting.“

 

Kærandi sendir tölvubréf til kærðu 13. desember og segist nauðsynlega þurfa að ræða við hana, kærða svarar og segist muni hringja um kvöldið. Kærandi sendir aftur tölvubréf daginn eftir:

„I‘m good with paying for the loan paperwork, but I have a budget to run and since C is not assuming half of the expenses of the company he still owns, I‘m on a verty tight one. Regarding your work as a lawyer, it is clear that you are representing C‘s interests only. You never consulted me once about our situation, just informed me of C‘s demands, clearly he‘s getting answers very fast and I dont‘t although I‘m asked to pay half of the legal bill. Are you his or our lawyer? I‘m confused.“

 

Ágreiningslaust er að kærða hitti umbjóðanda sinn og kæranda á fundi 16. desember 2019. Á fundinum var fjárskiptasamningurinn undirritaður ásamt veðskuldabréfunum fjórum. Á fundinn var einnig mætt móðir kæranda, til þess að taka sæti sem varamaður í stjórn E ehf. Þá liggur fyrir að 50% eignarhlut C í félaginu var afsalað til kæranda, sem tók jafnframt einn sæti sem aðalmaður í stjórn.

 

Samkvæmt gögnum málsins gaf kærða út reikning eftir fund aðila 16. desember 2019 og var reikningurinn gerður á hendur E ehf. að heildarfjárhæð 324.725 kr. að meðtöldum vsk. Nánari sundurliðun var með þeim hætti að kr. 100.000 voru vegna skilnaðarsamningsins og kr. 161.875 vegna vinnu við gerð skuldabréfanna og vegna breytinga á E ehf.   

 

Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi síðan leitað til F lögmanns og barst kærðu tölvubréf frá henni dags. 12. febrúar 2020 þar sem hún taldi verðmæti E ehf. hafa átt að vera núll en ekki þrjár milljónir eins og fjárskiptasamningurinn kvað á um. Kærða hafi svarað tölvubréfinu daginn eftir þar sem um þetta var tiltekið:

„1. Félagið. Á móti skuld eru eignir. Það eru tvö sérsmíðuð sumarhús....

  1. Til að meta virði félagsins verður að meta þessar tvær fasteignir á markaðsvirði, en ekki kaupverði og draga frá skuldir.
  2. Umbjóðandi minn hefur upplýst í viðveru A og án athugasemda frá honum að talsvert mikið af tekjum séu óuppgefnar.

....Eins og þeir ræddu um og komust að samkomulagi um þá var það niðurstaða þeirra sameiginlega að meta verðmæti félagsins 3 milljónir....“

 

Kærðu hafi svo aftur borist tölvubréf frá F lögmanni dags. 24. febrúar s.m. um að hún starfaði ekki lengur fyrir kæranda og að samkvæmt samtali við kæranda hefðu hann og C komist að samkomulagi um skiptin.

 

Samkvæmt gögnum málsins var leyfi til skilnaðar að borði og sæng veitt kæranda og umbjóðanda kærðu ásamt því að fjárskiptasamningurinn var staðfestur hjá sýslumanni x. mars 20xx með undirritun frá kæranda.

 

Kærandi leitar aftur til lögmanns, og fyrir nefndinni liggur bréf frá G lögmanni dags. x. júní 2020 til kærðu, þar sem gerðar eru athugasemdir við störf hennar í málinu ásamt verðmati eigna í fjárskiptasamningi. Þá er í bréfinu gerð krafa um að þrjú veðskuldabréf, að fjárhæð kr. 1.500.000, kr. 1.250.000 og kr. 1.000.000 verði felld niður ásamt því að reikningur kærðu vegna lögmannsstarfa hennar verði felldur niður. Þá er gerð krafa um að veðskuldabréf að fjárhæð 22.000 evrur verði fært af G yfir á lóðina K. Kærða svarar umræddu bréfi x. júní s.á. þar sem hún hafnar öllum kröfum sem þar koma fram og krefst þess jafnframt að þeir fjármunir sem koma til við sölu á G verði notaðir til uppgreiðslu á áhvílandi veðskuldum. Í svarbréfinu segir einnig að umbjóðandi kærðu muni heimila veðflutning þeirra veðskuldabréfa sem ekki næst að greiða upp yfir á fasteignir í eigu kæranda.  

 

Fyrir liggur með hliðsjón af tölvubréfum dags. 4. - 5. ágúst 2020 milli kærðu og G lögmanns kæranda, að kærða og lögmenn kæranda hittust á fundi til þess að ræða málin og virðast þau hafa komist að einhverskonar samkomulagi og óskar lögmaður kæranda eftir því að það sé sett upp skriflega. Kærða hafnar því og segir m.a. í tölvubréfi frá henni:

„.....Þarf í raun eitthvað samkomulag, er ekki einfaldlega málið að fasteignasalan útbúi veðflutningspappíra fyrir 22.000 evru lánið og 1,0 mill krónu lánið og þeir útbúi síðan skilyrt veðleyfi fyrir lánin sem á að greiða upp?

 

Þann 26. ágúst s.á. berst tölvurbéf frá lögmanni kæranda þar sem segir m.a.:

„B hver er staðan á lánum sem verða gerð upp (2-3 veðrétti)? Engar athugasemdir af okkar hálfu að sú fjárhæð verði lögð inn á vörslureikning þinn og bréfin árituð um fullnaðargreiðslu. Eftirstöðvar að frádregnum sölukostnaði greiðist síðan til A.“

 

Kærða sendir tölvubréf daginn eftir þar sem segir m.a.:

„C gerir kröfu um að fá kr. 3.137.588 sem verður tekið af kaupsamningsgreiðslunni...“.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningi var G seldur þann x. september 20xx fyrir kr. 28.500.000, og áhvílandi veðskuld á 1. veðrétti að fjárhæð kr. 21.482.242 greidd ásamt því að áhvílandi veðskuldir frá C sem hvíldu á 2,3,4, og 5 veðrétti var aflýst af eigninni. Á sama tíma var útbúið skilyrt veðleyfi dags. 2. september, og samkvæmt því voru skuldir á 2. og 3. veðrétti að fjárhæð kr. 2.700.000 gerðar upp.

 

Þann 9. september voru kr. 437.588 lagðar inn á fjárvörslureikning kærðu og þann 9. október kr. 2.700.000 kr., samanlagt að fjárhæð kr. 3.137.588. Kærða vísar til þess að mismunurinn kr. 437.588, sé lögmannskostnaður vegna vinnu fyrir E ehf. og kæranda, að fjárhæð kr. 324.725, vextir og kostnaður vegna innheimtu þóknunar kr. 16.366, útlagður kostnaður greiddur til umbjóðanda kærðu kr. 50.000 og útlagður kostnaður greiddur til kærðu kr. 46.500. Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna kvittanir fyrir þinglýsingargjöldum, stimpilgjöldum og öðrum kostnaði sem bæði kærða og umbjóðandi hennar hafa greitt.

 

II.

Að mati úrskurðarnefndar lögmanna verður að skilja upphaflegan málatilbúnað kæranda í kvörtun til nefndarinnar með þeim hætti að hann lúti annars vegar að ágreiningi um umkrafið endurgjald kærðu í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 en hins vegar að broti á lögum eða siðareglum á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Kærandi lýsir því að hann og C hafi krafist skilnaðar að borði og sæng árið 2019. Þeir hafi síðan leitað til kærðu vegna hjónaskilnaðar þeirra og fjárskipta og verið boðaðir á fund á skrifstofu hennar í nóvember 2019. Eftir fund aðila á skrifstofu kærðu hafi hún tekið að sér verkefnið og skildi kærandi samskiptin á þá leið að hún myndi leita sátta með þeim báðum og fara með hagsmuni þeirra beggja, en svo reyndist ekki vera.

 

Kærandi vísar til þess að samkvæmt fjárskiptasamningi, dags. 16 desember 2019 sem kærða hafði samið fyrir hönd beggja aðila og liggur fyrir nefndinni, hafi hjúskapareignir þeirra verið fasteignin G, lóðin S, lóðin K, hlutafé í E ehf., innbú, ein bifreið, bankainnistæður og lífeyrisréttindi. Ekki hafi legið fyrir formlegt verðmat fasteignasala á fasteignum og lóðum, né á félaginu en aðilar voru sammála um ákveðnar fjárhæðir sem áttu að endurspegla virði eignanna. Sameiginleg skuld aðila hjá J vegna fasteignanna hafi verið kr. 25. milljónir og hvíldi á sameiginlegu félagi þeirra, E ehf. Þá  hafi komið fram í ofangreindum fjárskiptasamningi að vikið hafi verið frá ákvæðum laga um helmingaskipti eigna.

 

Kærandi vísar til þess að hann hafi verið tvístígandi yfir téðum fjárskiptasamningi en hafi látið til leiðast eftir samtal við kærðu, enda hafi honum verið talin trú um að varnaraðili gætti bæði hagsmuna hans og C í málinu. Samningsábyrgð kæranda á greiðslu lögmannskostnaðar kærðu og samskipti málsaðila í tölvubréfum 11.-14. desember 2019 hafi enn frekar stutt þá afstöðu kæranda, að kærða gætti jafnframt hagsmuna hans. Það hafi svo verið eftir undirritun fjárskiptasamningsins að kærða upplýsti kæranda um að hún væri ekki lögmaður hans. Á sama tíma hafi hún sent kæranda reikningi fyrir vinnu sinni og var sú þóknun ákveðin á grundvelli tímagjalds.

 

Kærandi bendir á að hann sé af erlendu bergi brotinn og ekki lögfróður, en það hafi leitt til þess að hann reiddi sig alfarið á þekkingu og ráðgjöf kærðu. Hann hafi haft réttmætar væntingar til þess að kærða myndi búa svo um hnútana að hagsmunir hans væru tryggðir, en svo hafi ekki verið, eins og fjárskiptasamningurinn beri skýr merki. Kærandi bendir jafnframt á að kærðu hafi verið í lófa lagið og raunar skylt undir fjárskiptum aðila að benda honum á að leita sér lögmannsaðstoðar, enda hafi skýlaus þörf verið á því, sbr. 37. gr. siðareglna lögmanna. Kærða hafi hins vegar ekki gert það.

 

Kærandi vísar til þess að með kaupsamningi, dags. x. september 20xx hafi fasteignin G verið seld fyrir kr. 28.500.000 og áhvílandi veðskuld, þá kr. 21.482.242, verið greidd upp. H, sem kom í hluti C hafi með þessu verið leyst úr veðböndum og skuldaábyrgð í fjárskiptasamningi og á sama tíma hafi skuldir á 2. og 3. veðrétti að fjárhæð kr. 2.750.000 verið gerðar upp að kröfu kærðu. Fyrirsvarsmaður kæranda hafði áður en kom að uppgreiðslu lánanna óskað eftir uppgreiðsluverðmæti og fékk þær upplýsingar degi síðar frá kærðu að gerð væri krafa um að kr. 3.137.588 yrðu greiddar af söluandvirði fasteignarinnar. Greiðslurnar hafi verið inntar af hendi með tveimur greiðslum, þ.e. 9. september og 9. október 20xx. Kærandi bendir á að uppgreiðsluverðmæti lánanna hafi verið kr. 2.700.000, en ekki kr. 3.137.588 og hafi mismuninum verið ráðstafað inn á reikning kærðu, sem hafi eflaust farið upp í kröfu samkvæmt reikningi hennar sem hafi þá verið ógreiddur. Hins vegar hafi ekki verið um að ræða veðtryggða skuld sem hafi átt að greiða með sölunni og krefst kærandi því í ljósi þess endurgreiðslu á kr. 437.588. Kærandi krefst jafnframt málskostnaðar að mati nefndarinnar.

 

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sem móttekið var 27. ágúst 2021.

 

 

III.

Kærða krefst þess að málinu verði vísað frá en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað og jafnframt að honum verði gert að greiða málskostnað að mati nefndarinnar.

 

Kærða kveðst hafa fundað með umbjóðanda sínum, C, eiginmanni kæranda, 15. október 2019. Á fundinum hafi verið undirritað verkumboð og umboð til upplýsingaöflunar. Þá hafi C einnig upplýst að kærandi hefði þá þegar ráðfært sig við lögmann, D. Það sem helst hafi borið á milli kæranda og umbjóðanda kærðu var virði félagsins E ehf., en félagið hafði fest kaup á tveimur frístundahúsum sem áttu að rísa á lóðinni K og hafði J veitt lán fyrir kaupunum með tryggingarbréfum sem tryggð voru með veði í fasteignunum G og H. Einnig hafi verið ágreiningur um verðmæti eigna.

 

Kærða vísar til þess að 20. nóvember 2019 hafi umbjóðandi hennar sent kærðu tölvubréf og óskað eftir fundi. Hann hafi óskað eftir því að kærandi yrði einnig viðstaddur á þeim fundi og að farið yrði yfir skilnaðarferlið og farið yrði yfir stöðuna í tengslum við félagið ef þeir yrðu áfram viðskiptafélagar. Kærða hafi svarað bréfinu og upplýst um að fyrst myndi hún funda með honum og síðan að kæranda viðstöddum. Í kjölfarið hafi kærða haft samband við D, lögmann kæranda og upplýst hann um að komin væri fram krafa að umbjóðandi hans mætti á fund. D hafi þá upplýst að hann starfaði ekki lengur fyrir kæranda, heldur hefði aðeins leiðbeint honum.

 

Þann 26. nóvember 2019 hafi kærða boðað til fundar. Kærða bendir á að hún hafi ekki boðað kæranda á fund til sín heldur hafi hann mætt með C, umbjóðanda hennar, eins og óskað hafði verið eftir en deginum áður hafði kærða fundað með umbjóðanda sínum. Á fundinum hafi verið unnið út frá uppköstum þegar höfðu orðið til, rætt hafi verið um skilnaðarferlið, verð á eignum, aðkomu fasteignasala og virði félagsins E ehf. Kærandi hafi spurt kærðu hvort hún gæti tekið að sér að útbúa fjárskiptasamninginn og hún svarað því játandi svo lengi sem aðilar væru sammála um efni hans. Kærða hafi hvatt kæranda til þess að láta lesa drögin yfir þegar þau lægju fyrir og lagt til að aðilar fengju sér matsmann væru þeir ósammála um virði eigna. Hafi kærandi þá tjáð kærðu að hann treysti henni og spurt um kostnað. Hafi kærða upplýst aðila um að kostnaðinum yrði skipt á milli þeirra þannig að hvor um sig greiddi kr. 200.000 auk virðisaukaskatts. Kærða upplýsti jafnframt að umbjóðandi sinn hafi verið að lána kæranda í formi skuldabréfa og kærandi hafi í ljósi þess samþykkt að greiða fyrir vinnu við gerð skuldabréfanna ásamt kostnaði sem fylgdi breytingum sem gera þurfti á stjórn E ehf., en  samþykkt var að félagið greiddi fyrir þann hluta. Á fundinum hafi aðilar komist að niðurstöðu um að kærandi fengi í sinn hlut íbúð á G að verðmæti 26-27 m.kr., K að verðmæti 5. m.kr., bifreið að verðmæti 1,5 m.kr. og E ehf. að verðmæti 3. mkr. Þá hafi C fengið í sinn hlut, húsið að verðmæti 28 m.kr. og viðbótarlóð þar að verðmæti 2,75 m.kr., bifreið í Frakklandi að verðmæti kr. 400.000, ásamt því að kærandi hafi átt að greiða honum 2,75 m.kr. með skuldabréfum án vaxta.

 

Kærða vísar til þess að í byrjun desember 2019 hafi kærandi gert bæði henni og umbjóðanda hennar ljóst að hann vildi fá viðbótarlóðina til sín ásamt því að hann kom fram með tillögur að breytingum á fjárskiptasamningnum. Í tölvubréfi frá kæranda dags. 14. desember s.á. hafi einnig komið skýrt fram að kærandi liti svo á að kærða væri einungis að vinna fyrir C en ekki hann.

 

Kærða vísar til þess að 15. desember 2019 hafi hún sent kæranda öll skjöl til yfirlestrar sem átti að undirrita daginn eftir. Kærandi hafi svo mætt 16. desember s.m. ásamt móður sinni á fund kærðu og skrifað undir fjárskiptasamninginn, fjögur veðskuldabréf, fundargerð hluthafafundar í E ehf., kaupsamning og afsal á hlutum í félaginu og tilkynningar til RSK um breytingar á stjórn félagsins. Kærða hafi samdægurs gefið út reikning nr. 2261 í samræmi við samkomulag aðila um skiptingu á kostnaði, sem einnig var staðfest í fjárskiptasamningnum. Kærandi hafði einnig fyrir útgáfu reikningsins fengið tímaskýrslu og áætlaðan kostnað sendan til sín. Kærandi hafi í kjölfarið haft samband símleiðis við kærðu og haft uppi athugasemdir sínar varðandi það að kostnaðurinn hafi átt að vera kr. 200.000 auk vsk. í heildina en ekki á mann. Kærða hafi haft fullan skilning á því að kæranda gæti hafa misheyrst og þar sem ekki lá fyrir verkumboð milli kæranda og kærðu, ákvað kærða  að lækka reikninginn.

 

Kærða vísar til þess að hún hafi mætt x. febrúar 20xx fyrir hönd umbjóðanda síns og undirritað leyfi til skilnaðar að borði og sæng hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi hafi svo mætt x. mars s.á og undirritað fyrir sitt leiti og staðfest fjárskiptasamninginn. Gengið hafi verið frá skiptayfirlýsingu og fjórum veðskuldabréfum þinglýst á G. Í byrjun júní s.á hafi kærða fengið símtal frá fasteignsala sem óskaði eftir því að umbjóðandi kærðu samþykkti veðflutning á lánunum á G yfir á lóðina K, vegna sölu á G. Umbjóðandi kærðu hafi fyrst gert þær kröfur að allar veðskuldir yrðu greiddar upp við söluna en samþykkti síðan að tvö lán, kr. 1.250.000 og kr. 1.500.000 sem kærandi skuldaði persónulega yrðu greidd upp við söluna. Hin lánin, 22.000 evrur og kr. 1.000.000 hafi umbjóðandi kærðu samþykkt að færa yfir á K.

 

Kærandi hafi í framhaldinu leitað til G lögmanns og kveðst kærða hafa fengið bréf frá G, dagssett x. júní 20xx, þar sem hafi verið gerðar athugasemdir við verðmat eigna í fjárskiptasamningi og störf hennar í málinu.

 

Kærða vísar til þess að umbjóðandi hennar hafi viljað sína kæranda tillitsemi í því erfiða ástandi sem Covid hafði skapað í rekstri félagsins E ehf. og fá greidd upp þau lán sem ekki báru vexti og voru til endurgreiðslu með einum gjalddaga þremur árum eftir útgáfu, en heimila veðflutning á hinum, ásamt því að kærandi myndi greiða eftirstöðvar af skuld sinni við kærðu. Kærða hafi hitt lögmann kæranda á fundi í lok júlí 20xx til þess að finna lausn og hafi aðilar verið sammála um að þóknun kærðu yrði greidd samhliða veðflutningi og aflýsingu. Kveðst kærða í því skyni hafa útbúið skilyrt veðleyfi og veðflutningsskjöl og sent til x fasteignasölu sem sá um söluna á G. Kærða hafði áður óskað eftir því að fasteignasalan myndi ganga frá pappírunum vegna þessara fjögurra lána en ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni. Í lok ágúst hafi svo komið í ljós að kærandi þurfti frekara fjármagn úr kaupsamningsgreiðslunni og ekki var hægt að ráðstafa henni beint til uppgreiðslu á lánum umbjóðanda kærðu. Kærandi hafi þá leitað til L banka sem samþykkti að ráðstafa kr. 2.700.000 úr andvirði nýs láns inn á fjárvörslureikning kærðu ásamt því að kr. 437.588 af kaupsamningsgreiðslunni var ráðstafað inn á reikning kærðu.

 

Kærða bendir á að í samræmi við tölvubréf milli hennar og fyrirsvarsmanna kæranda hafi alltaf verið skýrt að gerð væri krafa um greiðslu á kr. 3.137.588 og að nafnverð veðskuldabréfanna væri kr. 2.750.000.

 

Niðurstaða

 

I.

Kærða hefur krafist þess í málinu að því verði í heild sinni vísað frá nefndinni. Hefur kærða um þá kröfu vísað til þess að erindi kæranda sé of seint fram komið. Samkvæmt þeirri kröfugerð þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins.

 

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sína eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er jafnframt tiltekið að nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

 

Fyrir liggur að kærða tók að sér að útbúa fjárskiptasamning, skuldabréf o.fl. fyrir kæranda og umbjóðanda sinn. Samkvæmt málatilbúnaði kærðu náðu aðilar samkomulagi um uppgjör í lok júlí 20xx og átti það að fara fram samhliða sölu á fasteign kæranda að G, en hún var seld x. september s.á. Kvörtun í máli þessu var móttekin 27. ágúst 2021 og verður því ekki talið að skilyrði séu til þess að vísa málinu frá nefndinni hvað þennan þátt varðar á grundvelli þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

 

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanni geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Þá er tiltekið að nefndin vísi kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna líkt og áður greinir.

 

 

Fyrir liggur að kvörtun kæranda lýtur að eftirfarandi ætlaðri háttsemi kærðu sem byggt er á að hafi verið í andstöðu við lög og siðareglur lögmanna:

 

  1. Að kærða hafi gegn betri vitund gefið kæranda misvísandi upplýsingar um að hún gætti jafnframt hagsmuna hans í skilnaðarmáli hans og umbjóðanda kærðu.
  2. Að henni hafi láðst að benda kæranda á að leita sér lögmannsaðstoðar áður en samningur um fjárskipti var undirritaður.

 

Varðandi kvörtunarefni í lið 1, þá lýsti kærandi því sérstaklega yfir í tölvupósti til kærðu þann 13. desember 2019 að það væri ljóst að hún gætti ekki hagsmuna hans. Þá liggur fyrir að kærandi leitaði til F lögmanns og barst kærðu tölvubréf frá henni dags. 12. febrúar 2020 þar sem hún gerði athugasemdir við verðmat E ehf. í fjárskiptasamningnum. Kærandi leitaði því næst til G lögmanns og barst kærðu bréf frá honum 20. júní 2020 þar sem gerðar voru athugasemdir við fjárskiptasamninginn og störf hennar í þágu kæranda. Varðandi lið. 2, þá skrifaði kærandi undir téðan fjárskiptasamning hjá sýslumanni x. mars 20xx.

 

Í samræmi við framangreint er að áliti nefndarinnar ekki unnt að miða við annað en að kærandi hafi átt þess kost að koma fyrrgreindum kvörtunarefni á framfæri við nefndina frá því að hann leitaði til F lögmanns og aftur þegar kærandi leitaði til G lögmanns. Verður því að líta svo á að  lögbundinn tímafrestur til að leggja málið fyrir nefndina vegna ofangreindra kvörtunarefna hafi verið liðinn þegar kvörtun kæranda í máli þessu var móttekin þann 27. ágúst 2021. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, eru tilgreind kvörtunarefni of seint fram komin og verða því ekki tekin til efnisúrlausnar í málinu svo sem í úrskurðarorði greinir.

 

II.

Líkt og áður greinir er hægt að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Af erindi kæranda til nefndarinnar verður ráðið að það lúti meðal annars að ætluðu endurgjaldi kærðu eða fjárhæð þess. Líkt og áður greinir hefur kærandi meðal annars krafist þess fyrir nefndinni að kærða endurgreiði sér kr. 437.588 sem  ráðstafað var inn á vörslureikning kærðu vegna ógreidds reiknings, vaxta og innheimtukostnaðar og útlagðs kostnaðar, þegar fasteign í eigu kæranda var seld.

 

Málatilbúnaður kæranda að þessu leyti er einkum reistur á því að fasteign í hans í eigu hafi verið seld og á sama tíma hafi skuldir á 2. og 3. veðrétti, að fjárhæð kr. 2.750.000 verið gerðar upp gagnvart umbjóðanda kærðu. Lögmaður kæranda hafði áður en kom að uppgreiðslu óskað eftir uppgreiðsluverðmæti lánanna og hafi fengið þær upplýsingar að gerð væri krafa um að kr. 3.137.588 yrðu greiddar af söluandvirði fasteignarinnar. Umbeðin fjárhæð hafi verið greidd inn á vörslureikning kærðu með tveimur greiðslum. Kærandi vísar til þess að uppgreiðsluverðmæti lánanna hafi verið kr. 2.700.000 en ekki kr. 3.137.588 og hafi mismuninum verið ráðstafað inn á reikning kærðu sem hafi farið upp í kröfu samkvæmt reikningi hennar. Hins vegar hafi ekki verið um að ræða veðtryggða skuld sem hafi átt að greiða með sölunni.

 

Ágreiningslaust er að kærandi og umbjóðandi kærðu gerðu með sér fjárskiptasamning sem var undirritaður af kæranda hjá sýslumanni x. mars 20xx. Í málsatvikalýsingu hér að framan er gerð grein fyrir 7. gr. samningsins þar sem fjallar um þóknun kærðu. Í ákvæðinu segir „Hvað varðar kostnað við vinnu lögmannsins, B eru aðilar sammála um að skipta til helminga greiðslu lögmanns við vinnuna og við undirbúning og gerð fjárskiptasamnings þessa, þar með talið tölvupóstar, símtöl og samskipti.“ Í sama ákvæði var fjallað um greiðslur vegna vinnu við gerð skuldabréfa sem voru vegna lána frá umbjóðanda kærðu til kæranda og félags kæranda, E ehf. „Lögfræðivinna vegna gerð skuldabréfa skv. öðrum ákvæðum í 4. gr. verður greidd af E ehf. eða A...“ Fjárskiptasamningurinn var einnig á ensku.

 

Að mati nefndarinnar verður að leggja til grundvallar fyrrgreindan fjárskiptasamning sem kærandi staðfesti með undirritun sinni hjá sýslumanni x. mars 20xx og að kærandi hafi með honum skuldbundið sig til þess að greiða lögmannsþóknun til kærðu. Þá liggja fyrir nefndinni tölvubréf milli kæranda og kærðu þar sem fjallað er um lögmannsþóknun kærðu og skiptingu á greiðslum frá nóvember 2019 en kærandi mótmælir ekki greiðslu lögmannsþóknunar fyrr en með bréfi G lögmanns dags. 18. júní 2020. Kærða svarar umræddu bréfi 21. júní s.m. þar sem hún hafnar þeirri kröfu. Með hliðsjón af tölvubréfum dags. 4. - 5. ágúst 2020 milli kærðu og fyrirsvarsmanna kæranda, liggur fyrir að hún og lögmenn kæranda hittust á fundi til þess að ræða málin og virðast þau hafa komist að einhverskonar samkomulagi um uppgjör. Kæranda og fyrirsvarsmönnum hans var fullkunnugt um hvaða tvö skuldabréf átti að gera upp við söluna á G og að uppgreiðsluverðmæti þeirra væri kr. 2.700.000. Kærða gerir kröfu um að fá greiddar inn á vörslureikning sinn kr. 3.137.588 og er það gert án allra athugasemda í tveimur greiðslum, þann 9. september 2020 og 9. október s.á. Lögmaður kæranda óskar svo ekki eftir nánari útlistun á greiðslunni fyrr en með tölvupósti 16. desember s.á.

 

Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið verður að hafna kröfu kæranda um að kærðu verði gert að endurgreiða honum kr. 437.588, sem var ráðstafað inn á vörslureikning kærðu vegna ógreidds reiknings vegna lögmannsþóknunar, vaxta og innheimtukostnaðar og útlagðs kostnaðar, þegar fasteign í eigu kæranda, G var seld. Í málinu er ekki ágreiningur um hvort áskilið endurgjald kærðu hafi verið hæfilegt í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kvörtun kæranda, A, er lýtur að því að kærða, B lögmaður, hafi gegn betri vitund gefið kæranda misvísandi upplýsingar um að hún gætti jafnframt hagsmuna hans í skilnaðarmáli hans og umbjóðanda kærðu, er vísað frá nefndinni.

 

Kvörtun kæranda, A, er lýtur að því að kærðu B lögmanni, hafi láðst að benda kæranda á að leita sér lögmannsaðstoðar áður en samningur um fjárskipti var undirritaður, er vísað frá nefndinni.

 

Kröfu kæranda, A, um að B lögmanni beri að endurgreiða lögmannsþóknun sína, sbr. 1. mgr. 26. mgr. laga nr. 77/1998, er hafnað.

 

Málskostnaður fellur niður.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr

Einar Gautur Steingrímsson

Helgi Birgisson